Barnaleg mótmæli vinstriungliða í Ráðhúsinu

bilde?Site=XZ&Date=20080124&Category=FRETTIR01&ArtNo=80124042&Ref=AR&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1Það var sorglegt að horfa á barnalega framkomu ungliðahreyfinga vinstriaflanna í fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur eftir hádegið. Mér finnst framkoma þeirra grafa undan trúverðugleika pólitísks starfs þeirra og gera lítið úr lýðræðinu. Það að lýðræðislega kjörnir fulltrúar geti ekki komist að til að tala á fundi sem þessum er algjörlega óásættanlegt og ekki viðunandi að mínu mati.

Þau eru með þessu að reyna að stöðva af meirihlutalýðræði í landinu og starfsemi þeirrar stofnunar sem stýrir stærsta sveitarfélagi landsins. Það er eðlilegt að krafa sé gerð um að fólk sem tekur þátt í pólitísku starfi hafi vitsmuni og þroska til að haga sér eins og fullorðið fólk en ekki einhverjir vanvitar sem gera lítið úr því valdi sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa. Það er ekki hægt að taka svona fólk alvarlega. Múgæsing af þessu tagi þjónar engum tilgangi og er til skammar. Hafi fólk ekki stillingu og leyfi ekki lýðræðislega kjörnu fólki að tala og vinna sitt verk á vinnustað sínum er mjög illa komið.

Það neitar enginn því að það er ítalskt ástand í borgarmálunum. Meirihlutar geta komið og farið eins og ég skrifaði hér áðan. Þetta er ekkert nýtt í sveitarstjórnarmálum á Íslandi. Reykjavík er ekki fyrsta sveitarfélagið þar sem meirihlutar falla á yfirstandandi kjörtímabili og nýjir myndist. Það leysir þó engan vanda að geta ekki sýnt stillingu og yfirvegun og ætla að hleypa fundi lýðræðislega kjörinna fulltrúa með afgerandi umboð upp í rugl og að fólk láti eins og boltabullur. Það er ekki leiðin að beita ofbeldi, það er til skammar fyrir viðkomandi að mínu mati.

Fyrir 100 dögum tók við nýr meirihluti í Reykjavík. Þá fóru valdaskipti fram með sama hætti og í dag. Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki fyrir neinu ofbeldi á lýðræðinu við þau valdaskipti og tók þeim valdamissi eins og siðsamlegt fólk, beitti ekki öskrum og boltabullulátum í sal borgarstjórnar, þó valdaskiptin hafi auðvitað verið þeim á móti skapi. Það eru tilfinningar í stjórnmálum og eðlilegt að sýna þær, en það verður líka að sýna stillingu. Það er viss list út af fyrir sig.

En þeir sem stóðu fyrir þessu rugli í dag eru að varpa dökkum bletti yfir pólitískt starf, sérstaklega ungliðastarfið. Þessi öskur inni á fundinum eru engum til sóma og ég segi fyrir mig sem ungliðastjórnmálamaður í mörg ár að mér finnst þetta til skammar og finnst það ekki málstað neins til sóma að ætla að beita ofbeldi til að koma í veg fyrir að lýðræðið hafi sinn gang.


mbl.is Mótmælendur yfirgefa Ráðhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur

En þér finnst þeir ekki gera lítið úr lýðræðinu sem fara gegn vilja þeirra 75% Reykvíkinga sem vilja ekki sjá þennan meirihluta? Eða gegn 95% sem styðja ekki nýjan borgarstjóra?

Er það lýðræði að kjörnin fulltrúar séu einvaldir í 4 ár og setji eigin hagsmuni framar hagsmunum borgarbúa? 

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 14:59

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

http://soley.blog.is/blog/soley/image/416552/

og er verið að reyna að bera á móti því að þetta var skipulagt lýðskrum og ólæti?

ég er ekki viss um að sumt af þessu liði hafi verið með réttu ráði. það er gott að vera tilfinninga heitur en hérna er um að ræða svo miklar tilfinningar að menn blindast fyrir öllu nema sjálfum sér.

Eintóm sjálfhverfa. 

Fannar frá Rifi, 24.1.2008 kl. 14:59

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ingólfur: Umboð kjörinna fulltrúa breytist ekki með skoðanakönnunum. Þau sitja í borgarstjórn þar til í júní 2010. Því verður ekki breytt. Það hefur verið myndaður meirihluti átta aðalmanna og eðlilega tekur hann til starfa. Það er ekkert annað hægt um það að segja. Þú talar eins og meirihlutaskipti hafi aldrei gerst áður milli kosninga. Meira ruglið. Umboð þessa fólks er ekki í vafa, það er barnaskapur að láta einmitt svona að af því að meirihlutinn er manni ekki að skapi að láta skynsemina lönd og leið. Það er ekkert sem bannar Ólafi F. að fella meirihlutann og taka upp annað samstarf. Ertu að draga umboð hans úr kosningum í efa. Hugsaðu áður en þú skrifar!

Fannar: Góðir punktar - sammála.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 15:08

4 identicon

ég tek ofan fyrir fólki - framtíðarinnar! Sem þorði að láta ljós sitt skína á pöllum ráðhússins í dag.

Guðrún - REYKVÍKINGUR á landsbyggðinni (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 15:14

5 Smámynd: Hlynur Sigurðsson

Sæll Ingólfur,

Var Ólafur Ragnar þá kjörinn með ólýðræðislegum hætti fyrst þegar hann var kjörinn í embætti forseta, eða um 35% atvkæða. Það eina sem Stefán heldur fram er að munurinn á þessum breytingum og þeim sem áttu sér stað fyrir 100 dögum er sáralítill. Fylgi sveiflast mikið milli kosninga en það er ekki þar með sagt að pólitískur meirihluti hvort heldur er ríkis eða sveitarfélags eigi að segja af sér ef GALLUP segir þá fá minna en 50% í skoðanakönnun. Mótmæli eru sjálfsögð en það er líka ábyrgðarhluti að mótmæla. Ég held að ungliðarnir hafi unnið málstað sínum meira ógagn en gagn í dag.

Hlynur Sigurðsson, 24.1.2008 kl. 15:14

6 Smámynd: Einar Jón

Ég er ekki fylgjandi þessum mótmælum ungliðanna, en núna ert þú barnalegur. Meirihlutaskipti hafa gerst áður milli kosninga, en hér eru nokkrir punktar til umhugsunar:

Umboð Ólafs F. kemur frá flokki sem hann er búinn að ganga úr, sem gerir stöðu hans vafasamari en í fyrri meirihlutaskiptum.

Aldrei áður hefur nýmynduð borgarstjórn notið jafn lítils fylgis. Hvað segir það okkur?

Aldrei áður hefur nýr borgarstjóri notið jafn lítils fylgis. Hvað segir það okkur?

Ég mótmæli því ekki að þetta sé löglegt, en það er oft stór munur á "ekki bannað" og "rétt/gáfulegt". Steingrímur velti líka upp góðum spurningum í síðustu færslu þinni sem eiga skilið aðeins betra svar en þessi "shit happens" svarleysa sem kom frá þér.

Einar Jón, 24.1.2008 kl. 15:35

7 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Þvíð miður missti ég af þessu öllu saman bæði í sjónvarpi og útvarpi , en mér finst ekkert óeðlilegt að mótmæla, við höfum lýðræðisréttinn til þess eða hvað?   Auðvitað hefur þetta verið ansi rótarsamt kjörtímabil verð ég að segja fyrir Reykjavíkurborg. Þú skrifar að Sjálfstæðismenn hefðu ekki látið svona þegar þeir viku úr borgarstjórn, en við vitum nú að þeir unnu ötullega á bak við tjöldin á meðan Dagur var borgarstjóri.  Er eitthvað betra að vera eilíft að laumupúkast eins og mér finst  , (tek það fram að það er mín skoðun,)  ansi margir Sjálfstæðismenn gera með ýmsum ráðum ???     Ég á samt sem áður alls ekki við alla Sjálfstæðismenn. í flestum  flokkum eru alltaf einhverjir með þvílíkt yfirmennskubrjálæði að manni flökrar, ljúga hreinlega upp í opið geðið á manni til að fá atkvæði til flokksins osfrv.  Mér finst spilling og siðblinda ríkja hér. Og þó að ég sé ekki Höfuðborgarbúi þá finst mér Dagur hafa staðið sig vel sem borgarstjóri og hans fólk....því maður fylgist nú alveg með :)

Erna Friðriksdóttir, 24.1.2008 kl. 15:36

8 Smámynd: Fannar frá Rifi

málið er að réttkjörinn fulltrúi F listans kom aftur í stjórnmál öllum að óvörum og þá sérstaklega Margréti. Nú voru góð ráð dýr. Hafist var handa við að titla Ólaf sem "Guðfaðir meirihlutans". svona svo það liti út eins og hann hafi eitthvað komið nálægt þessu. Margrét er og hefur verið að reyna að bola Ólafi úr stjórnmálum svo að hún gæti tekið sæti hans. Sætið sem hann fékk frá kjósendum í Reykjavík, ekki Margrét.

Ingólfur. oft þarf að horfa nokkur ár fram í tíman til þess að koma góðum málum á framfæri. Góðar ákvarðanir eru oft óvinsælar þegar þær eru teknar en síðan þegar á þær hafa reynt þá eru allir sammála um að þær hafi verið góðar.

Að hlaupa á eftir skoðanna könnunum er ekki pólitík. Það er popúlismi. Stjónmála menn sem aðhillast Popúlisma er laf hræddir við það að taka ábyrgð eða gera nokkurn skapaðan hlut. í stjórnmálum eiga menn að standa og falla með ákvörðunum. Ekki bara vísa þeim í einhverjar skoðana kannanir. 

Ólafur F stóð fyrir ákveðin mál. hann var kosinn til þess að frmafylgja þessum málum. sama hvað öðrum fynnst um þau mál þá eru kjósendur hans fylgjandi þeim. í gamla BDSM meirihlutanum fékk hann sínum málum ekki framgengt. á hann þá að svíkja kjósendur sína til þess að uppfylla Borgarstjóra fantasíur Dags B? 

Fannar frá Rifi, 24.1.2008 kl. 15:37

9 Smámynd: Ingólfur

Ég endurtek spurningu mína þar sem það koma ekkert svar við henni.

En þér finnst þeir ekki gera lítið úr lýðræðinu sem fara gegn vilja þeirra 75% Reykvíkinga sem vilja ekki sjá þennan meirihluta? Eða gegn [vilja þeirra ]95% [Reykvíkinga] sem styðja ekki nýjan borgarstjóra?

Auðvitað hafa fjölmargir meirihlutar verið myndaðir á miðju kjörtímabili.

Hins vegar hefur það aldrei fyrr gerst að kjörnir fulltrúar hafi myndað meirihluta sem var jafn mikið gegn vilja borgarbúa.

Og ég fullyrði það að hvergi í alvöru lýðræðisríki hefur verið skipaður borgarstjóri í höfuðborginni sem einungis hafði stuðnings 5% borgarbúa í það embætti.

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 15:37

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ingólfur Harri: Við eigum ekki að stjórnast eftir skoðanakönnunum. Kjörnir fulltrúar hafa umboð til fjögurra ára og eiga að fara eftir sannfæringu sinni og það hafa þeir gert í dag. Mér finnst þau gera rétt í að fara eftir því sem þau telja rétt.

Þetta er nú aðeins í annað skiptið sem meirihluti í Reykjavík tekur við án kosninga, svo að ég læt ummæli þín sem vind um eyrun þjóta. Þetta fólk hefur umboð og er í fullum rétti til að taka upp samstarf.

Guðrún: Það er allt í lagi að mótmæla, en það er engum til sóma að brjóta fundarsköp og geta ekki leyft fundinum að fara eðlilega fram.

Hlynur: Flottir punktar. Sammála hverju orði.

Einar Jón: Ég segi bara mínar skoðanir. Það er málfrelsi í landinu og eðlilegt að hafa skoðanir á eigin bloggsíðu. Ólafur F. hefur umboð úr kosningum og því verður ekki slitið á milli kosninga. Auðvitað er staðan erfið í borgarmálunum. En það hefur aldrei verið svona staða uppi áður og það þarf að mynda  nýjan meirihluta og taka til starfa.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 15:45

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fannar: Sammála þessu. Góðir punktar.

Erna: Ekkert að því að mótmæla, sé það málefnalega gert og ekki brotin fundarsköp, eins og því miður var gert í dag og leiddi til þess að fundarpallar voru rýmdir. Geri engar athugasemdir við að þau mótmæltu úti og sögðu sitt, en það var enginn veginn viðeigandi að fara að gera hróp að lýðræðislega kjörnum fulltrúa. Einu þátttakendur í fundi sveitarstjórnar eru þeir sem eiga þar sæti, hafa lýðræðislegt umboð. Það er ágætt að mæta á staðinn og fylgjast með en ætla að taka fundinn í gíslingu með því að kaffæra orðaskipti er fyrir neðan allt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 16:03

12 Smámynd: Ingólfur

Ég sá ekkert svar...

Já eða nei dugar. 

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 16:12

13 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég er sammála því að fólk á að fá að mótmæla en eins og þetta fór fram í dag er þeim mótmælendum ti skammar. Án þess að ég sé með það alveg á hreinu þá held ég að fólk sem fær að fara inn á áheyrendabekki hvort sem er á þingpalla eða í Ráðhúsinu undirgangist reglur sem segja að háreysti sé ekki liðin. Þetta fólk braut þá reglu alveg klárlega. En þessi skrípaleikur er auðvitað nokkuð kostulegur, þá meina ég í kringum þennan meirihlutasirkus allan. Einhvernveginn finnst mér að sjálfstæðismönnum hefði verið hollast að vinna í sínum innri málum og styrkja sig fyrir næstu kosningar heldur en að halla sér að svona frekar veikum stjórnmálamanni, þá er ég ekki að tala um heilsufarslega, enda kemur heilsufar manna engum nema viðkomandi við.  Mér er alveg sama hvað hver segir, þá er þessi borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna ekki mjög heilsteyptur og sterkur.

Gísli Sigurðsson, 24.1.2008 kl. 16:44

14 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Þetta þykir mér merkilegt að heyra! Grafa mótmæli undan lýðræðinu en ekki þessi skrípaleikur sem á sér stað við tjörnina þessa daga? Eru sjálfstæðismenn á móti líflegu og dugmiklu fólki sem að sættir sig ekki við þennan yfirgang? Sjálfsókn er í fýlu þessa daganna, vanalega hafið þið greyin getað vaðið yfir þjóðina á skítugum skónum í öllum málum en þegar hún lætur þetta ekki ganga yfir sig lengur þá er það ólýðræðislegt og barnalegt

Það var ástæða fyrir því af hverju sjálfstæðismenn mótmæltu ekki stjórnarskiptunum í borginni í haust, þeir vissu skömmina uppá sigí því klúðri! Síðan hvenær hafa sjálfstæðismenn svosem nennt að mótmæla, tjahh, nema fyrir utan skattstofuna í sinni árlegu vörn fyrir ríka fólkið
 

Ísleifur Egill Hjaltason, 24.1.2008 kl. 16:47

15 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ísleifur. Svandís kyssti með lotningu hönd Don Alfreðs og tók að ganga að eiga Björn Inga. Björn Ingi fór frá Sjálfstæðismönnum vegna þess að þeir vildu ekki stunda spillinguna með honum.

Þá spyr maður sig. Afhverju vildi Svandís vinna með Birni?  

Fannar frá Rifi, 24.1.2008 kl. 17:01

16 identicon

Rétt til upprifjunar og ég mun endurtaka hana með þínu leyfi síðar:

Ólafur F. í Silfrinu 2. des. 07
Hér er slóð á viðtal við Ólaf F. Magnússon í Silfri Egils 2. desember síðastliðinn:

http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/geyma/olafurf.2007-12-02.wmv

Kristján Þór Júlíusson um nýja meirihlutann í Reykjavík:
http://www.visir.is/article/20080124/FRETTIR01/80124016

Hér er því haldið fram að sjálfstæðismenn hafi lekið upplýsingum um heilbrigðisvottorð

Ólafs F,Magnússonar:
http://eyjan.is/hux/2008/01/22/bjortu-hli%c3%b0arnar/

kv. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:04

17 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ingólfur Harri: Skilurðu ekki íslensku? Ég sagði í skrifum mínum að stjórnmálamenn eigi ekki að stjórnast af skoðanakönnunum heldur sannfæringu sinni. Svarar það ekki spurningunni? Voðalegur þverhausaháttur er þetta í þér!

Gísli: Sammála - vel skrifað.

Kolbrún: Gott innlegg - fínt að fá þetta!

Ísleifur: Þetta var skelfileg vanvirða, einna helst við borgarstjórn Reykjavíkur og það starf sem á að vinna af heiðarleika í þessum sal. Aldrei hefðum við ungsjallar gert svona. Það er okkar styrkur, þvi að við vitum að stóru sigrana vinnum við ekki með því að öskra heldur að hafa rökin og taktíkina okkar megin. Þeir sem öskra hæst geta náð athygli en þeir sigra sjaldnast.

Sjálfur hef ég tekið þátt í mótmælum, gegn Jiang Zemin og Li Peng, og skil alveg að sumir vilji gera það í þessu máli. Það er eðlilegt að hafa skoðanir á því sem er að gerast. En stundum getum við náð árangri án þess að kaffæra kjörna embættismenn og störf þeirra. Held að þessi mótmæli hafi unnið ykkur skaða frekar en hitt og styrki frekar Ólaf í sessi en ella.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 17:05

18 Smámynd: Ingólfur

Kolbrún, þó þú hafir ekki verið spurð persónulega að þá er hægt að draga ályktanir um stuðning borgarbúa út frá könnunum. Kannanir hafa vissulega eitthver skekkjumörk en þessi könnun er það afgerandi að engin skekkjumörk geta bjargað stjórninni frá vantrausti borgarbúa.

Það er lýðræðislegur réttur kjósenda að láta fulltrúa sína vita hvað þeim finnst um ákvarðanir þeirra þó fólk geti haft mismunandi skoðanair á því á hvaða hátt sé best að gera það. Að láta borgarfulltrúana heyra í sér er ein leið til þess og þó að hún sé á margan hátt gagnrýni verð að þá verðskuldar nýji meirihlutinn ekki meiri virðingu en honum var sýndur í dag.

Önnur leið er að safna undirskriftum og afhenda en í dag neituðu Vilhjálmur og Ólafur F að taka við mótmælum sem um 6000 manns höfðu skrifað undir.

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 17:13

19 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta viðtal við Ólaf var tekið áður en reyndi á samstarfið af hans hálfu. Þetta er 2. desember, þrem dögum áður en hann varð forseti borgarstjórnar. Ólafur þarf ekki annað en að standa með sannfæringu sinni og hann hefur fullan rétt til að sprengja meirihluta með oddaatkvæði sínu eins og Björn Ingi Hrafnsson.

Kristján Þór Júlíusson stjórnar ekki skoðunum mínum þó að ég hafi kosið hann og þó að honum finnist eitthvað með meirihlutann er það ekki mín skoðun. Mér finnst eðlilegt eftir að vinstrimeirihlutinn sigldi í strand á sögulega skömmum tíma, hundrað dögum, að D- og F-listi sem felldu R-listaflokkanna fyrir tveim árum fái séns. Nú ef hann tórir ekki að þá fellur hann. Skil ekki þetta show. Hef verið mest hrifinn af því þó, okkar allra á milli að D og V vinni saman. Það er eitthvað við Svandísi sem ég heillast af. Er alls ekki alltaf sammála henni en hún hefur eldmóð og kraft sem ég hrífst af.

Læknisvottorðið já. Það var meirihlutinn sem vildi fá vottorðið. Það olli miklum deilum, inni í meirihlutanum. Ég hef heyrt margar sögur af samskiptum Ólafs og Margrétar eftir þann hráskinnaleik og sannfærst um að samstarfi þeirra hafi lokið í kjölfar þess máls í raun. Það var orðin vík milli þeirra fyrir jólin. Það virðist enginn trúnaður hafa verið þar eftir undir lokin, sem er vissulega leitt, enda unnu þau náið saman. Sjálfstæðismenn höfðu ekkert með þetta vottorð að segja enda með engin völd til að skipa borgarkerfinu að biðja um það.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 17:15

20 Smámynd: Ingólfur

Ég skil alveg íslensku en spurning sem ég spurði var Já/Nei spurning. Eða kannski frekar Jú/Nei.

En ég get reynt að einfalda hana.

Eiga kjörnir fulltrúar að taka tillit til skýrs vilja almennings?

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 17:19

21 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Stjórnmálamenn eiga að vinna eftir sannfæringu sinni, því að þeir telji sig vera að gera rétt. Þoli ekki pólitíska hræsnara, aka pópúlista, sem fylgja hverri skoðanakönnun eins og ræflar og enda eins og andskotans vindhanar. Algjörlega marklausir líka.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 17:23

22 Smámynd: Ingólfur

Semsagt svar þitt við spurningunni:

Eiga kjörnir fulltrúar að taka tillit til skýrs vilja almennings? Nei

Gott að vita það. 

Ingólfur, 24.1.2008 kl. 17:31

23 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Eiga stjórnmálamenn ekki að vinna eftir sannfæringu sinni? spyr ég bara á móti. Eiga kannanir Gallups að vera áttavitar stjórnmálamanna sem eiga skv. stjórnarskrá að vinna eftir sannfæringu sinni en ekki annarra?

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 17:33

24 Smámynd: Fannar frá Rifi

Skoðanakannanna pólitík leiðir af sér ekki neitt. Enginn ákvörðun er tekinn því enginn þorir að gera neitt.

Í stjórnmálum eiga menn að þora að taka á. Ef þeir gera það ekki og vilja bara taka á vinsælum málum og láta skoðana kannanir ráða og vilja helst bara vera sætir og myndarlegir í sjónvarpi, eiga ekkert í stjórnmál að gera.

Fannar frá Rifi, 24.1.2008 kl. 17:33

25 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Alveg sammála Fannar, eins og talað út úr mínu hjarta.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 17:37

26 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Auðvitað  í stjórnmálum verða menn að þora og taka, en í byrjun kjörtímabilisns , vildu sjálst menn ekki Ólaf , of ábyrgur,  tóku því fremur Björn Inga , framsókn, hvernig endaði það nú ?   Enn á vonarvöl þá er Ólafur tekinn til að mynda meirihluta.  Þeta segir mér einfaldan hlut...... Sjáfstæðismenn gera allt til að fá yfirráðin, bakka amk í bili með fluvöllinn osfrv.....     skil nú ekkert í Ólafi að sjá þetta ekki....

Erna Friðriksdóttir, 24.1.2008 kl. 17:44

27 identicon

Ég sá í viðtalinu við Dag B. Eggerts fyrrverandi borgarstjóra á RÚV þar sem  hann sagði að það höfðu verið um 10-15 sjálfstæðismenn sem mættu á pallana í ráðhúsinu.

Ég ætla bara að koma því á framfæri að við stuðningsmenn nýs meirihluta vorum töluvert fleirri sem mættum á pallana en fyrrverandi borgarstjóri heldur fram,  og voru bekkirnir beggja megin þéttsetnir af stuðningsmönnum nýs meirihluta sem sáu sóma sinn í að leyfa lýðræðislegum kjörnum borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar að tala  og aðeins að klappa þegar það átti við.

En því miður gátu nokkrir MR-ingarnir ekki hamið sig með virkilega óprúttnum  köllum og er það miður...

og það vita þeir sjálfir 

Gísli Freyr (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 18:10

28 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Hver segir að 75 % Reykvíkinga sé á móti nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ? Listar Ólafs F. Magnússonar og Sjálfstæðisflokksins hafa saman lagt meira en 50 % greiddra atkvæða í síðustu kosningum. Skoðanakönnun

Fréttablaðsins breytir engu um þá staðreynd. Vonandi fær nýi meirihlutinn frið til að vinna störf sín í friði.

Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 24.1.2008 kl. 18:25

29 Smámynd: Fannar frá Rifi

Erna, vinstri flokkarnir tóku við Birni Inga eftir allt það sem gekk á í REI málinu. Sannar það ekki að vinstri flokkarnir eru tilbúnir að gera allt til að ná völdum?

Ólafur F. hefur sín stefnumál og það er ekki fyrir mig eða þig að gera lítið úr þeim.

Fannar frá Rifi, 24.1.2008 kl. 19:11

30 Smámynd: Egill Óskarsson

Ingólfur: Eiga kjörnir fulltrúar að taka tillit til skýrs vilja almennings? Nei

Hvar kemur skýr vilji almennings frekar fram að þínu mati, í skoðanakönnunum þar sem hringt er í slembið úrtak eða hver sem er, hvar sem er í heiminum getur kosið á netinu eða í almennum opinberum kosningum? Eiga ríkis- og sveitastjórnir sem mælast með fylgi undir 50% í skoðanakönnunum skilyrðislaust að segja af sér?

Egill Óskarsson, 24.1.2008 kl. 19:59

31 identicon

huh... þetta þykir mér undarleg umræða - um það bil helmingurinn af svörunum sem þú hefur fengið stefán, eru forkastanlega vitlaus og bjánaleg.

En það breytir því þó ekki að ég í vitleysu minni ákveð að eyða tíma mínum í þetta kjaftæði.

Því spyr ég þig, og hina töffarana sem eru svona agalega "málefnalegir".

1. Finnst þér framkoma/hegðun borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna og Ólafs F. vera til fyrirmyndar.

    (Þ.e. finnst þér þetta fíaskó í heild sinni bara vera allt í læ...)

2. Telur þú að Ólafur F. og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna séu fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni borgarbúa þegar þeir rotta sig saman og fella meirihlutann enn einu sinni?

Huh...

Ég taldi mig hafa mun fleiri spurningar, en áttaði mig svo á því þegar ég byrjaði að skrifa þær, að ég var umsvifalaust farinn að svara þeim sjálfum.

En ég tel þetta mál vera agalega einfalt, og ég harma það hvað fólk stekkur upp til handa og fóta, vandar málfar og skrifar ofboðslega "málefnalega" pistla, sem yfirleitt þýða bara "mér er alveg sama hvað þú varst að skrifa og ætla ekki að svara þér"

    (sbr. allt sem Stefán Fr. sagði skrifum Ingólfs Harra)

Þetta er augljóslega bara þannig að þessi ákveðni borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna virðist svífast nákvæmlega einskis til að komast til valda...

Á sama tíma hnjóta þeir um þá al ódýrustu mellu sem hugsast getur, sem selur sál sína fyrir einhvern helvítis stól í tæpt ár...

 Flott pólítík það.

Og nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að þessi blessaði málefnasamningur segir að Ólafur F. hafi náð öllu sínu fram, og það er virkilega flott hjá honum, en það þarf enginn að segja mér það að þessi gæji sé að fara að vera eitthvað númer í þessu borgarstjórnarsamstarfi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun valta yfir greyið manninn innan skamms.

Framkoma borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í þessu máli er fullkomlega til skammar frá A-Ö

    (ath...staðreyndin er víst sú að Villi Þ. og Kjartan séu aðal tapparnir í þessu, en ég þekki það ekki til hlítar þannig að það er einfaldara að tala bara um borgarstjórnarflokkinn...)

Í þessu máli er enginn að hugsa um hagsmuni borgarbúa, heldur er eingöngu um að ræða viðbjóðslega eiginhagsmunasemi, hér sjáum við allt það rotna og ömurlega í íslenskri pólítík. Borgarbúar og þeirra hagur skiptir hér engu máli, heldur snýst þetta um að ná einhverjum helvítis stólum við langborð niðrí ráðhúsi...

og ég harma það...

Kv.

Hjörtur A. Guðmundsson

P.s. Ég kaus Sjálfstæðisflokk í seinustu kosningum, þannig að vinsamlegast ekki koma með eitthvað helvítis raus um að ég sé "bitur Samfylkingargæji" eða eitthvað þvíumlíkt.

Hjörtur A. Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 20:00

32 identicon

Þessir krakkar sem voru á pöllunum voru mest allt krakkar úr MH. Þegar ég var í MH skrópuðu alltaf stór hluti af nemendum til að fara mótmæla, við mótmæltum ÖLLU. Ég man t.d. þegar það var farið að mótmæla kárahnjúkum, eitt af fyrstu skiptunum, þá vissi stór hluti af krökkunum ekkert um kárahnjúka eða hvað ætti að gera þar eða til hvers og mig grunar að svipað sé uppi á teningnum núna. Þetta var oft ótrúlega skemmtilegt, þessi mótmæli, við höfðum hátt og létum illa og fengum smá útrás í leiðinni fyrir unglingareiðina.

Svo finnst mér kostuleg þessi auglýsing á síðunni hennar Sóleyjar og svo sjá hina frægu Önnu Pálu frænku hennar í kastljósi þar sem hún réttlæti þetta og öskraði sig hása á pöllum ráðhúsins. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 21:47

33 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hjörtur: Ætla ekkert að saka þig um eitt né neitt. Það er eðlilegt að það sé talað um stöðu mála, enda erum við stödd á sögulegu skeiði í borgarmálunum þar sem meirihlutar koma og fara, þetta gerist víða um landið en er nýtt fyrir borgarbúa. Það er eðlilegt að slík staða sé rædd en vonandi án öfga og öskurláta.

1. Þessir aðilar sem mynda nýjan meirihluta hafa fullt umboð til þess. Finnst í lagi að þeir taki upp samstarf, enda hafa þeir ákveðið það og þeir hafa umboð til setu í borgarstjórn. Það getur ekkert bannað þeim það.

2. Ólafur F. felldi meirihlutann. Hann var greinilega ekki sáttur við samstarfið við hina aðilana og taldi hag sínum betur borgið annarsstaðar. Hann hafði oddaatkvæðið. Þú getur alveg eins spurt á móti hvort að Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, hafi átt að rotta með þáverandi minnihluta til að mynda með þeim meirihluta framhjá samstarfsmönnum sínum? Þetta eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar með fullt umboð til verka. Þeir verða að mynda meirihluta, falli einn meirihluti ber að mynda annan. Ekki geta allir unnið saman í meirihluta, svo að einhverjir verða sárir.

Egill: Gott innlegg, fínir punktar.

Kristján: Þakka kommentið, gott innlegg og er því sammála.

Gísli Freyr: Þakka þér þetta innlegg, gott að fá það. Þessi skrílslæti fóru auðvitað yfir öll mörk og er ungliðum vinstriaflanna til algjörrar skammar.

Bjöggi: Takk fyrir þetta innlegg. Vil taka það fram að ég er ekki á móti mótmælum. Það er alltaf gott að fólk hafi skoðanir, en þetta fór algjörlega yfir öll mörk. Þegar að ekki er hægt að halda fund sveitarstjórnar vegna öskurs og láta er alltof langt gengið og mótmælin orðin skrípaleikur.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 21:50

34 identicon

Stebbi:

Varðandi spurningu nr 1.

Burtséð frá því hvort þessir aðilar hafi haft fullt umboð til þess sem þeir gerðu - finnst þér þeirra framkoma og hvernig að málum er staðið vera til fyrirmyndar?

og jafnframt - telur þú að þessir aðilar hafi verið að koma sjálfum sér til valda með hagsmuni borgarbúa í huga, eða samþykkiru, eins og mér finnst reyndar blasa við, að um eiginhagsmunasemi sé að ræða, þar sem þetta snýst frekar um stóla heldur en hagsmuni?

Kv.

Hjörtur A.

Hjörtur A. Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 22:01

35 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Auðvitað er enginn sáttur við stöðuna, það að enginn stöðugleiki sé. Best hefði auðvitað verið að fela Sjálfstæðisflokknum hreinan meirihluta og gefa þeim tækifæri eitt kjörtímabil og svo kjósa um forystu þeirra. Þá hefðu þeir fengið afgerandi dóm á sínum verkum. Það hefði verið heiðarlegast og best ef enginn meirihluti hefði fallið og það hefði verið stöðugleiki yfir. Það fór því miður ekki svo og þetta er auðvitað ekki gott ástand fyrir einn né neinn.

Það eru allir búnir að svíkja alla með einhverjum hætti eða grafa undan öðrum. Þetta er flókin staða. Finnst stöðugleiki alltaf bestur; meirihluti taki tímabil og fái svo yfir sig dóm síðar. Það er alltaf erfitt þegar að svona rúlletta fer af stað og getur orðið harðvítug og leiðinleg. Finnst þeir hafa gert rétt í að mynda annan meirihluta og tryggja að það sé stjórn í ótjórninni, en á móti kemur að þetta er allt brothætt og enginn stöðugleiki. Það er aldrei gott ástand.

Meirihlutinn bara féll. Það var greinilega erfitt í fyrri meirihluta. Hann kom aldrei á hundrað dögum með málefnasamning og það var togstreita um mál og ólga. Þannig að það sprakk. Þá varð að mynda nýjan meirihluta. Þetta var niðurstaðan af því. Það má þessi meirihluti þó eiga að hann hefur málefnasamning og grunn undir sér og því verður betra að dæma hann, hvort hann gerir eitthvað af viti og stendur við það sem hann lofar.

Í pólitík er fólk að berjast fyrir því að komast til valda. Allir stjórnmálamenn vilja hafa völd til að stjórna. Mér finnst þetta allt hafa veikt grunn stjórnmálanna og mér finnst satt best að segja enginn heiðarlegri en annar hvað það varðar. Það hafa flestir brugðist. Það er aldrei gott þegar að ólgan verður svona kuldaleg og persónuleg og menn stinga hvor annan eða grafa undan þeim.

Pólitík á að snúast um málefni ekki bitlingatog. Nú þarf að gefa þessum meirihluta tækifæri til að sanna sig. Standi þeir sig ekki fá þeir skell bara í næstu kosningum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.1.2008 kl. 23:24

36 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Vilhjálmsson hafa logið og svikið sig upp í valdastöður í borginni.

Eina sem málpípur nýja meirihlutans geta sagt er að hneykslast á nokkrum óhörðnuðum unglingum.

Smjörklípa?

Theódór Norðkvist, 25.1.2008 kl. 01:51

37 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Stefán, er það ekki hrottaleg vanvirða við borgarbúa að fara gegn öllu almenningsáliti og að velja borgarstjóra með 5,5% stuðning á bakvið sig? Við hverju bjuggust sjálfsóknarmenn eiginlega við, að allir myndu tauta í bringuna á sér eins og láta þetta ganga yfir sig? Heiðarleikinn er enginn í þessum nýja meirihluta og hann átti ekkert betra skilið en að verða áminntur hressilega á það. 

Fannar, það var Björn Ingi sem að sagði upp spillingunni í sjálfsókn en ekki öfugt, get your facts straight. Framsókn hefur varla tærnar þar sem að sjálfstæðismenn voru með hælana í spillingu í borginni. 

Ísleifur Egill Hjaltason, 25.1.2008 kl. 10:03

38 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Mér þykir það undarleg þversögn að gera lítið úr mótmælum, hvort sem þau eru hávær eða lágvær, skipulögð eða óskipulögð, á þann hátt að segja þau ólýðræðisleg.

Ég held að það sé annað hljóð í stokknum hjá Stefáni þegar Sjálfstæðismenn mótmæla. Það er ekkert meira ómálefnalegt og undirlægjulegt en þegar flokksátrúnaðurinn er slíkur að grundvallarhugsjónir manna sveiflast eftir því hver á í hlut.

Mér er orðið nokk sama hver stýrir þessari borg, en hef hins vegar hátt um það að nú sé kominn tími fyrir ALLA borgarfulltrúa að hætta þessum skrípaleik og hefja það starf sem þeir eru kosnir til. Að sinna hagsmunum Reykvíkinga. Þeir skulda okkur orðið fleiri vinnustundir en ég hef tölu á. 

Páll Geir Bjarnason, 25.1.2008 kl. 10:56

39 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ísleifur. Björn Ingi og Villi vildu selja REI. 6 menningarnir vildu það ekki. Vill sá sér um hönd og bakkaði, Björn Ingi yfirgaf samstarfið og honum var tekið fagnandi af Svandísi.

Það liggur fyrir að hann fór vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki fara með honum í þá vegferð að selja REI. hefðu þú heldur öðru fram þá ertu að blekkja sjálfan þig og það er í raun ekkert sem hægt er að gera við því eða segja við þig því þú tekur ekki rökum.

En hvernig var það Ísleifur að sjá Björn Inga sem fékk færri atvkæði í kosningum heldur en Ólafur ráða nánast öllu sem hann vildi í Borgarstjórn og með Dag og Svandísi bugtandi sig fyrir hans öllum óskum? 

Fannar frá Rifi, 25.1.2008 kl. 21:10

40 Smámynd: Jón Ragnarsson

Er þetta nokkuð barnalegra en þegar sus-arar eru að bögga fólk á skrifstofu skattstjóra?

Jón Ragnarsson, 25.1.2008 kl. 21:44

41 Smámynd: Páll Einarsson

Eitt vantar íslensku þjóðarsálina og það er að láta í sér heyra ef henni finnst sér vera nóg boðið. Því miður virðist fólk ávalt halda að mótmæli skili ekki árangri og "nenna" því ekki að vera með neitt múður.

Ungliðar "tjarnakvartetsins" kom sínum skilaboðum á framfæri og leist mér vel á. Skiptir ekki máli hvort mómtæli séu með látum enda er skiljanlega hiti í fólki. Mómtæli snúast um að láta í sér heyra og koma sínum skoðunum á framfæri.

lengi lifi lýðræðið.

Páll Einarsson, 25.1.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband