Gagnrýnin á Spaugstofuna verður of persónuleg

Úr Spaugstofunni Finnst það nokkuð langt gengið í umræðunni um þátt Spaugstofunnar að ætla að blanda margfrægum þunglyndisveikindum Árna Tryggvasonar, leikara, og föður Arnar Árnasonar, í umræðuna eins og fram kemur í ósmekklegum tölvu- og SMS skeytum til spaugstofumanna, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í dag. Þó að það séu ekki allir á eitt sáttir um þáttinn er þetta nokkuð langt gengið til að koma höggi á þá grínfélaga.

Það kom flestum að óvörum þegar að Árni upplýsti um veikindi sín í ævisögu sinni fyrir tæpum tveim áratugum, fjöldi fólks hafði aldrei heyrt af þeim. Hann hafði einfaldlega fengið að vera í friði með þessi mál og átti fullan rétt á því, enda hans persónulega mál, sem hann upplýsti sjálfur um. Þó að deilt sé á Spaugstofuna nú vegna annars máls er nokkuð langt gengið að blanda Árna í það og ætla að höggva í Örn vegna þess máls. Það er alveg heiðarlegt að skiptar skoðanir séu um gamansemi Spaugstofunnar og hafa bloggheimar logað vegna málsins síðustu dagana.

Það hafa allir skoðun á þessu máli, þetta hefur verið mál málanna. Sennilega er þetta einn umdeildasti þáttur Spaugstofunnar í mörg herrans ár. Þar sem veikindi af þessu tagi hafa verið í minni ætt þekki ég málið vel. Þetta er vandmeðfarið mál og virðast stundum önnur lögmál gilda um geðræn veikindi en önnur veikindi. Fordómarnir um þessi veikindi hafa verið margfrægir og virðast enn loða við. Það er leitt ef þeir sem eru ósáttir við þáttinn geti ekki gagnrýnt Spaugstofuna málefnalega, enda eru stóryrðin alveg óþörf.

Finnst það jákvætt að í fréttinni opnar Örn á að þeir biðji Ólaf F. afsökunar, get allavega ekki skilið orð hans öðruvísi. Hef aldrei trúað því að þeir hafi ætlað gagngert að vega að Ólafi F. persónulega, en hinsvegar fór þetta yfir strikið í þættinum og það var heiðarlegt að taka umræðuna um það, enda var ekki fjallað um veikindi Ólafs F. með nærgætnum hætti.

Vonandi hafa allir lært eitthvað á þessari umræðu, bæði hvað varðar hvernig höndla skal geðsjúkdóma og ekki síður vona ég að þeir spaugstofufélagar hafi áttað sig á því að það er ekki sama hvernig tekið er á umdeildum málum, þó gamansemin eigi þar að vera aðalstefið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loopman

Voðalegt væl er þetta Stefán.

Staðreyndin er sú að maður sem spreðar 600 milljónum á fyrsta degi í embætti er ekki lagi. Gerði að engu allar aðgerðir borgarinnar, það er stofnana borgarinnar, og ríkisins á einu bretti. Og það sem verra var að þetta var geðþóttaákvörðun. Það kallast stundum pólitísk ákvörðun, þegar menn gera eitthvað án samráðs við sérfræðinga og gegn öllum rökum og skynsemi. Rétt eins og ráðning í embætti dómar hér um daginn.

Maður sem getur ekki feisað raunveruleikann eins og Ólafur, á ekki að vera í pólitík. Hann lokaði sig af í næstum heilan dag, frá aðstandendum, samstarfsmönnum og fjölmiðlum.

Loops

Loopman, 29.1.2008 kl. 16:48

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Auðvitað var þetta ,,óvart"  - Trúi ekki að einhver sparki í punginn* viljandi á mönnum. Ef að Ólafur upplifir þetta svona illa er sjálfsagt að biðja hann afsökunar. Það ber að virða tilfinningar fólks. Ef að fólk segist meiða sig þá meiðir það sig. Væl eða ekki væl.

*Afsakið orðbragðið.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.1.2008 kl. 17:20

3 identicon

Sæll Stefán.
Les mikið af skrifum þinum, enda jafnan kjarnyrt og vel íhuguð. Enn er ég þér sammála, það gerir engum gott í þessu efni að draga persónu Árna Tryggvasonar inn í þetta málefni.
Spaugstofumönnum ætti að vera orðið vel ljóst að þeir fóru algjörlega yfir strikið í þetta sinn. Þeim er ætluð sú ábyrgð að gera góðlátlegt grín að mönnum og málefnum þar sem menn mega sín.
ÓFM hefur, líkt og þúsundir landsmanna þurft að glíma við það sem við, sem búum þetta ofarlega á kringlunni er hættara við en öðrum.
En, hefur leitað sér hjálpar og hlotið bata og kemur þannig tvíefldur til leiks að nýju.
Þeir sem fylgst hafa með pólitík í gegnum tíðina vita að hér fer maður sem hefur fylgt sinni sannfæringu betur en margur/flestir aðrir. Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma staðfestir það.
Pólitík snýst um að hafa áhrif. Til að geta haft áhrif þarf maður að hafa völd.
Þetta er ekki flóknara. 

Takk fyrir góð skrif. 
Eyþór Eðvarðsson

eyþór eðvarðsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 18:30

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Auðvitað á Örn að hafa framgöngu um afsökunarbeiðni.

Svona kemur maður bara ekki fram við fólk.

Allt tal talsmanns Spaugstofunnar í Kastljósi um að spjótunum hafi verið beint að afjölmiðlum, er bara dónaskapur við dómgreind landsmanna.

Aftur á móti var Erlendur eiturgóður (eins og María Kristjáns orðar það) í hlutverki Ólafs F. en það er bara allt annað mál.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.1.2008 kl. 19:12

5 identicon

Mér fannst nú Karl Ágúst Úlfsson koma því vel á framfæri í gær í Kastljósinu að þeir voru að deila á það fjölmiðlafár sem skapaðist af heilsufari núverandi borgarstjóra. Það er það sem þeir gerðu grín að. Þeir hafa oft verið óvægnir í spaugi sínu og má nefna að Halldór Ásgrímsson fékk það óþvegið í hverjum þætti á meðan hann var í pólitík, eða næstum því.

Það sem verra er að núverandi borgarsjóri hefur kosið að koma fram eins og fórnalamb. Hann ætti nú bara að gefa öllu þessu liði sem er svo umhugað um heilsu hans langt nef, og þá vonandi getum við gert grín að gjörðum hans og ógjörðum

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 19:21

6 Smámynd: Tiger

Gagnrýni sem skellur á persónur fremur en á verk þeirra er eitthvað sem alla tíð mun viðgangast. Það eru og verða alltaf einhverjir sem munu fara útfyrir hinn siðferðislega ramma þess sem ætti að virða.

Hvort sem það er lögleysa eða siðleysa sem einhver einhversstaðar fremur - þá munu alltaf verða einhverjir nálægir sem telja sig stórgræða á því að hlaupa með það útfyrir rammann í tilraun sinni til að koma höggi á mótherja/óvin sinn.

Við erum alltof fljót til að dæma, taka menn af lífi án dóms og laga - sýnum ekki nægilega mikla aðgát í nærveru viðkvæmra sála.

Ég er sammála því að sumir kunna sér ekki hóf, vita ekki hvenær á að stoppa og greinilega hafa enga samvisku þegar reynt er að koma höggi á einhvern sem þeim er í nöp við eða sem þeir hafa eitthvað á móti.

P.s. ég hlakka til næsta spaugstofuþáttar - er að spá í því hvort þeir komi eitthvað inná þessa umræðu sem nú er á móti þeim - þessum líka húmorgóðu einstaklingum sem spaugstofuna prýða.

Tiger, 29.1.2008 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband