McCain sigrar - Giuliani styður McCain á morgun

John McCain John McCain hefur sigrað forkosningar repúblikana í Flórída. Sigurinn er mjög mikilvægur fyrir McCain - það verður erfitt að stöðva hann úr þessu. Forysta McCain í útnefningaferlinu hefur verið endanlega staðfest með þessum sigri og ef marka má kannanir fær hann góðan byr á ofur-þriðjudegi eftir viku, svo mikinn að hann mun fara langleiðina með að tryggja sér útnefningu flokksins.

Rudy Giuliani fékk skellinn mikla sem spáð var. Hann hlaut aðeins 16% og átti aldrei möguleika síðustu dagana á því að snúa við glataðri stöðu. Þetta var tapað fyrir um tíu dögum. Hann átti ekki roð við þeim frambjóðendum sem komu í sólskinsfylkið á bylgju stuðnings. Það er nú orðið endanlega ljóst að hann mun ekki vinna útnefningu flokksins, baráttan er töpuð og það er öllum ljóst að hann mun draga sig út úr baráttunni, væntanlega strax á morgun. Sögusagnir eru um að hann muni lýsa yfir stuðningi við John McCain í Kaliforníu á morgun.

Mike Huckabee varð fjórði, sjónarmun á eftir Giuliani. Hann bar sig vel í kvöld og talar um suðræna sigra í næstu viku. Vel má vera, en hann þurfti að sigra í Suður-Karólínu til að hafa alvöru stöðu, þá varð hann að sigra í suðrinu. Það er orðið of seint fyrir hann að snúa úr þeirri stöðu sem hann er í. Þetta er slagur McCain og Romney. Romney mun þurfa að reiða út alla heimsins peninga þó til að snúa þessu við. Örlög hans ráðast á ofur-þriðjudegi, þar sem hann þarf að ná að stöðva McCain til að eiga einhverja von.

Ég er handviss um það að þegar að saga þessarar forkosningabaráttu í einum mest spennandi forsetakosningum í síðari tíma stjórnmálasögu í Bandaríkjunum verður skrifuð muni Flórída verða talið stóra augnablikið í forkosningaslag repúblikana. Þá hafi John McCain tryggt sér útnefningu repúblikana í eitt skiptið fyrir öll. Með sigri í New Hampshire og Suður-Karólínu hafi hann náð áfangasigrum á þeirri leið en sólskinsfylkið fært honum útnefninguna.

Það er merkilegt að McCain, sem verður 72 ára í ágúst, sé kominn langleiðina að útnefningunni. Hann stefnir í að verða elsti maðurinn sem á möguleika á Hvíta húsinu, þrem árum eldri en Ronald Reagan var árið 1980 er hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Það verður seint sagt að aldur skipti máli í þessum efnum. Kannski er það jákvætt og gott að þau skilaboð séu send út að stjórnmálamenn séu ekki búnir að vera um sjötugt.

-----

Hillary vann Flórída. Enginn slagur þar, en samt mikilvægur sigur fyrir hana, móralskur sigur á mikilvægu augnabliki í aðdraganda ofur-þriðjudags. Merkilegt að sjá sundurliðun úrslitanna; Obama hefur blökkumennina en nær ekki að taka hvíta og konur. Þarna er vandi Obama. Til að geta orðið sigursæll á ofur-þriðjudegi og náð útnefningunni þarf hann að fókusera á þessa hópa.

Það kannski fer svo að vinnufélagarnir í öldungadeildinni, góðvinirnir, Hillary og McCain verði þau sem berjist um Hvíta húsið í nóvember. Það verður heldur betur barátta um miðjuna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta sýnir að best er að fara í stjórnmál eftir sextugt! Hillary er fædd í okt 1947 og Audenauer og Ehart urðu kanslarar eftir sjötugt. Svo ekki sé talað um rússa og kínverja.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband