John McCain færist nær útnefningu repúblikana

John McCain John McCain fór langleiðina með að tryggja sér útnefningu repúblikana í forsetakosningunum í nóvember með sigrinum í sólskinsfylkinu Flórída í gær. Á áttræðisaldri hefur honum tekist að eiga stórmerkilega pólitíska endurkomu, sigrast á vondri stöðu lengi vel síðasta árs þegar að hann hafði lítið fylgi í könnunum, mistókst að safna digrum sjóðum peninga og missti reynt starfsfólk sem taldi hann ekki eiga möguleika.

Það mun styrkja hann mjög í sessi að fá stuðning Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóra í New York, síðar í dag. CNN fullyrti um leið og kjörstaðir lokuðu og ósigur Giuliani var staðfestur í Flórída að hann myndi draga framboð sitt til baka og styðja McCain - viðræður hefðu staðið milli framboðanna um að tilkynna þetta í Kaliforníu í dag. Þeir hafa verið að berjast um sama fylgið og því er mikilvægt fyrir McCain að fá svo góðan stuðning. Með þessu er nokkuð öruggt að hann mun vinna nokkuð afgerandi bæði í New York og New Jersey og fær stuðning á öðrum stöðum þar sem stefndi í jafnan slag við Mitt Romney.

Eina von Mitt Romney úr þessu er ef að Mike Huckabee myndi draga framboð sitt til baka eða að hann geti náð oddastöðu í lykilfylkjum á ofur-þriðjudegi. Huckabee er að takast á við Romney um sama fylgið í flokkslitrófínu og það dregur máttinn úr Romney að þetta verður á pappírnum ekki enn orðinn tveggja manna slagur í næstu viku. Það er þó borin von að svo fari. Romney þurfti að eiga sólskinssigur í Flórída til að ná að snúa lukkuhjólinu við. Úr þessu ræðst þetta á stærstu fylkjunum í næstu viku þar sem McCain mun að öllu óbreyttu raka að sér þingfulltrúum og tryggja stöðu sína enn í sessi.

Það má vel vera að Mitt Romney muni verða í slagnum fram eftir febrúarmánuði, en hann þarf meiriháttar bylgju stuðnings úr þessu til að stöðva John McCain og ná útnefningunni. Það má fullyrða nokkuð afgerandi að eftir ofur-þriðjudaginn muni McCain ná þeim sess í huga flestallra sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum. Virtir flokksmenn hafa verið að lýsa yfir stuðningi við McCain og öllum er ljóst að hann tryggði sér í raun sigurinn í Flórída með stuðningi Crist og Martinez, sem hafa sterka stöðu í fylkinu. Örlög Giuliani voru líka endanlega ráðin með því.

Það eru aðeins fjórir eftir með alvöru von á Hvíta húsinu; John McCain og Mitt Romney hjá repúblikunum, og Hillary Rodham Clinton og Barack Obama hjá demókrötum. Ofur-þriðjudagurinn er úr þessu sviðsljós þessara fjögurra. Óvissan hjá demókrötum verður meiri, en þar stefnir í allsherjar talningu upp á hvern þingfulltrúa, þó að ég telji að Hillary muni lenda í mestu prófrauninni en þá mun sjást hvort að stuðningur Ted Kennedy og Caroline Kennedy Schlossberg skipti yfir höfuð máli. Standi hún það af sér og nái góðum sigrum í lykilfylkjum fær hún útnefninguna.

Það stefnir í spennandi sprengidag og línur munu þá skýrast enn, þó ég telji að barátta repúblikana sé í raun búinn. John McCain hefur náð afgerandi forskoti í útnefningaferlinu og hann verður ekki stöðvaður úr þessu. Til þess hefur staða hans styrkst það mikið að Romney þarf að dæla út öllum heimsins peningum til að ná að stöðva bylgjuna. Eini sénsinn hans til þess er þó eftir viku.

mbl.is McCain sigraði í Flórída
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband