Obama á sigurbraut - erfið barátta fyrir Hillary

Obama og HillaryÞað verður æ ólíklegra með hverju augnablikinu sem líður að Hillary Rodham Clinton verði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 4. nóvember nk. Staða hennar hefur veikst mjög eftir ofur-þriðjudaginn og er svo komið að hún verður að stóla á góða sigra eftir hálfan mánuð í Ohio og Texas til að halda framboði sínu á floti. Tap þar yrðu augljóslega endalok fyrir þessa kjarnakonu, sem talin var ósigrandi nær allt síðasta ár.

Það er þó mjög varhugavert að afskrifa Clinton-hjónin strax, þó að mjög á móti blási. Hillary er í þeirri stöðu að hún má ekki við meiri mistökum og áföllum. Barátta hennar er mjög brothætt og í raun eðlilegt að velta því fyrir sér hvort hún geti stöðvað bylgjuna til Obama. Henni tókst það í New Hampshire og náði að halda í við hann á ofur-þriðjudegi með því að taka stóru fylkin. Síðan hefur allt gengið á afturfótunum og ósigurinn í Wisconsin var sérstaklega skaðlegur þar sem Obama náði að taka stóran hluta af kjarnafylgi Hillary.

Þó að Clinton-hjónin séu í baráttu við tímann til að bjarga forsetaframboði Hillary og eina tækifæri hennar til að hljóta forsetaembættið er eðlilegt að bíða forkosninganna eftir hálfan mánuð til að meta stöðuna endanlega. Sagan hefur einfaldlega sýnt mjög vel að þau geta snúið aftur með bravúr. Clinton-hjónin hafa verið kraftaverkafólk í stjórnmálum, pólitískir klækjarefir sem hafa getað snúið glataðri pólitískri stöðu í persónulegan sigur sem stirnir af. Þeir sem muna eftir forsetakosningunum 1992, Whitewater-hneykslinu og Lewinsky-málinu vita hver máttur þeirra er. Það er þeim fátt betra gefið en berjast af krafti fyrir sínu.

Staðan virðist hafa breyst mjög á undanförnum mánuðum. Fyrir nokkrum árum töldu allir Hillary nær örugga um útnefninguna og baráttan yrði nær engin. Það hefur verið ljóst allt frá því að Barack Obama gaf kost á sér að þetta yrði alvöru barátta. Hann hefur reynst erfiður keppinautur, ekki vegna þess að hann er svo mikill ofjarl hennar í málefnalegri baráttu eða hafi af merkum verkum að státa heldur mun frekar vegna þess að hann er ferskt andlit í fjöldanum; boðberi nýrra tíma sem talar af krafti og heitir nýjum tímum. Hillary Rodham Clinton virðist ekki vera að hagnast af langri reynslu sinni og ekki heldur góðum verkum.

Það virðist vera sem nýjabrumið sem fylgir Obama og máttur hans sem ræðumanns sé að færa honum útnefninguna. Umfram allt sýnist mér það vera vegna þess að fólk vill breytingar. Hinsvegar er öllum ljóst að Obama er nær algjörlega óskrifað blað, ekki einu sinni stuðningsmenn hans geta talið upp afrek stjórnmálaferils hans. En kannski er ekki spurt um áratugalanga ferilskrá að þessu sinni. Eftir átta ára forsetaferil George W. Bush virðist vera ákall eftir nýjum tímum. Það er líka í Repúblikanaflokknum sem hefur þegar valið keppinaut Bush um útnefninguna fyrir átta árum og hógværari málsvara hægristefnu.

Það sem Hillary getur gert núna er að berjast. Er ekki sammála því að ummæli hennar í kappræðunum hafi verið merki um að hún sé að gefast upp. Hún er að reyna að sýna mýkri hliðina á sér; sýna auðmýkt og alþýðleika. Hillary hefur alla tíð haft á sér yfirbragð vægðarlausrar baráttukonu án pólitískra tilfinninga. Hún er stödd á þeirri vegferð núna að verða að sýna auðmýkt og mildari karaktereinkenni til að eiga von á að snúa bylgjunni við sem fylgir Obama innan flokksins. Kannski tekst það - kannski er það þegar orðið of seint.

Það stefnir í spennandi forsetakosningar. Það blasir við öllum að repúblikanar muni höggva óhikað í Obama nái hann útnefningunni og beita öllum brögðum til að reyna að ná af honum geislabaugnum. Þetta verður harkaleg barátta um valdahnossið. Það er ákall um breytingar í loftinu í þessum kosningum. Í þeirri bylgju virðist boðberi nýrra tíma svífa hátt á meðan að reynslumiklu fólki sem hefur kraft til verka er hafnað.


mbl.is Vöngum velt yfir ummælum Clinton í kappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband