Sagan um kjarnakonuna Vigdísi

Vigdís Finnbogadóttir Frú Vigdís Finnbogadóttir er að mínu mati merkasti núlifandi Íslendingurinn. Það er ánægjuefni að ævisaga hennar er væntanleg. Vigdís hefur unnið merkilegt ævistarf - hefur markað sér sess í sögunni með verkum sínum og forystu, bæði á alþjóðavettvangi og sem þjóðhöfðingi Íslands. Alla tíð hef ég borið mikla virðingu fyrir Vigdísi og framlagi hennar til bæði jafnréttismála og ekki síður sextán ára dyggri þjónustu sinni við landsmenn alla á forsetaferli sínum.

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands í júní 1980 vakti mikla og verðskuldaða athygli um allan heim. Hún var fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi heimalands síns í almennum kosningum. Kjör hennar markaði mikil og jákvæð þáttaskil fyrir konur um heim allan. Forsetaferill hennar var mjög farsæll og einkenndist af sterkum og órjúfanlegum samskiptum hennar við almenning. Hún var sannkallað sameiningartákn allra landsmanna, manneskja sem landsmenn treystu og báru virðingu fyrir, hvar svo sem þeir voru í flokki eða hvaða stjórnmálaskoðanir þeir höfðu.

Hún var samnefnari alls þess sem máli skipti. Sést það best í því að hún var kjörin í embættið með rúmlega 30% greiddra atkvæða en náði að ávinna sér traust þeirra sem ekki kusu hana. Það er bæði helsti styrkleiki Vigdísar og besti vitnisburðurinn um verk hennar. Þegar litið er yfir ævi Vigdísar og verk hennar á forsetastóli vekur helst athygli hversu vel hún náði til almennings. Hún varð ein af fólkinu, látlaus en glæsilegur fulltrúi allra landsmanna.

Í forsetatíð sinni ferðaðist hún mikið um landið og náði virðingu jafnt íslensks alþýðufólks sem konungborinna í Evrópu. Hún hefur ótrúlegan sjarma og nær sambandi við hvern þann sem hún hittir með ótrúlegum hætti. Hvert sem hún fór, hvort sem það var fámenn byggð á Íslandi eða höfuðborg fjarlægs ríkis, vakti hún verðskulda athygli. Hún bar með sér bæði ferska vinda og heillandi andrúmsloft.

Einkum þess vegna náði hún svo vel til allra, hún var samnefnari svo margs sem íslensk þjóð telur skipta máli og í henni sá fólk traustan fulltrúa sem hægt var að ná samstöðu um. Þar skiptir að mínu mati sköpum að hún kunni þá list að skilja að forsetaembættið og dægurþras stjórnmálanna. Hún var yfir dægurþrasið hafin og náði að vera traustverðugur fulltrúi allra.

Það er það merkasta við Vigdísi að verkin hennar lifa svo góðu lífi. Forysta hennar í embættinu í mikilvægum málum á enn vel við og skipti sköpum. Það er einfalt. Látlaus og hrífandi samskipti hennar við almenning hitti alla í hjartastað sem hana hafa hitt. Sérstaklega er mér þar eftirminnilegt þegar hún fór vestur á firði snjóflóðaárið mikla 1995.

Þá fór hún í minningarathöfn sem haldin var til minningar um fórnarlömb snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík. Heillaði hún mig og alla sem á horfðu í sjónvarpi er hún huggaði og styrkti aðstandendur, bæði með hlýleika sínum og ekki síst nærveru á þessum sorgartímum. Þá sannaði hún hversu sterk hún var, sterkur þjóðarleiðtogi en samt ein af fólkinu.

Hlakka til að lesa ævisögu Vigdísar. Það er bók um sanna kjarnakonu sem markaði sér sess í sögunni og vann merkt ævistarf, einkum með því að vera hinn íslenski þjóðhöfðingi sem vann svo vel.

mbl.is Ævisaga Vigdísar haustið 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri gaman að bera saman hlutfall milli ferðalaga innanlands og utan hjá henni og núverandi forseta.

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband