Vandræðalegar ýkjur hjá hinni reynslumiklu Hillary

Hillary Rodham ClintonÞað er alveg ljóst að ýkjusaga Hillary Rodham Clinton um Bosníuförina árið 1996 hefur skaðað orðstír hennar í utanríkismálum og forsetaframboðið. Af öllu því neikvæða sem yfir hana hefur dunið er þetta hið versta mjög lengi. Í viðurkenningu hennar á að hafa ýkt upp alvarlegt mál, sem hún ætlaði að upphefja sig með, er um leið komið skarð í þá ímynd hennar að vera traustur og trúverðugur valkostur með mikla reynslu.

Hillary hefur fyrst og fremst státað sig af því að hafa reynsluna gegn hinum yngri Obama, sem hefur þar að auki verið í kjörnu embætti og á hinu pólitíska sviði mun skemur. Utanríkis- og varnarmál hafa þar verið lykilatriði og hefur Hillary óhikað sett samasem-merki milli sín og forsetaferils Bill Clinton, eiginmanns hennar, á árunum 1993-2001. Það hefur aldrei farið framhjá neinum að Hillary var einn af nánustu pólitísku ráðgjöfum hans og valdamikil. Hefur verið mjög deilt um að hún skreyti sig með afrekum Clintons forseta í utanríkismálum.

Það er öllum ljóst að ef Obama tekst að grafa undan trúverðugleika hennar í þessum málaflokki er hún mjög veik. Hún hefur ekki verið lengi í pólitískt kjörnu embætti, verið öldungadeildarþingmaður síðan í janúar 2001 en þar að auki konan við hlið stjórnmálamannsins. Hefur Hillary mikið talað um að hún sé tilbúin til að vera forseti Bandaríkjanna á fyrsta degi, hún þurfi ekki starfsþjálfun eða tilsögn í embættinu. Það er vissulega rétt, enda var hún á forsetavakt með eiginmanni sínum í átta ár. En það eru brestir komnir í þessa glansmynd með ýkjusögunni.

Hillary varð fyrir þungu áfalli á föstudaginn langa þegar að Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, lýsti yfir stuðningi við Obama. Ekki aðeins er Richardson gamall vinur Clinton-hjónanna og ráðherra í stjórn Clintons forseta og sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum á forsetaferli hans heldur í senn gamall vinur og baráttufélagi Hillary í stjórnmálum. Það er þó alveg ljóst að sú yfirlýsing hefði getað komið á mun verri tíma en nú. Hefði Richardson lýst yfir stuðningi við Obama fyrir forkosningar einkum í Texas og Ohio hefði það haft mun meiri áhrif en verður. En þetta er táknrænt högg sem hefur einhver áhrif, einkum fyrst í stað.

Hörð gagnrýni Richardsons á Hillary og stuðningsmenn hennar var einnig áhrifamikil. James Carville, hinn dyggi vinur og pólitíski klækjarefur Clinton-hjónanna, var fljótur til að nefna Richardson sem Júdas og þótti viðeigandi að hann hefði lýst yfir stuðningi við Obama á föstudaginn langa. Carville hefur alla tíð látið hlutina flakka og það er greinilegt að það eru drottinssvik að mati þeim sem næst standa Clinton-hjónunum að snúa við henni baki á þessum tímapunkti, þegar að örlögin í þessari baráttu ráðast.

Það er fjarri því að þessi slagur sé búinn. Það er um mánuður í forkosningar í Pennsylvaníu. Þá fyrst er hægt að meta af alvöru styrkleika Obama og Hillary eftir langa pásu, skandalana varðandi Jeremiah Wright og þessa ýkjusögu sem er sérlega skaðleg fyrir reynsluboltann Hillary. Bæði hafa gildan sess í þessum slag, sem er fjarrí því að baki og virðast allar líkur á því að hann standi fram í júní hið minnsta - margir óttast þó blóðugt flokksþing í Denver í ágústlok.

Demókratar gætu haft öll tromp á hendi í þessari stöðu. Í staðinn eru þeir sjálfir að glutra tækifærum sínum niður. Harkan í þessum forkosningaslag minnir í svipinn á aðdraganda flokksþings demókrata í Chicago í Illinois árið 1968. Það flokksþing var blóðugur bardagi tveggja fylkinga um útnefninguna. Demókratar höfðu þá öll tækifæri til að snúa vörn í sókn eftir að Johnson forseti hætti en klúðruðu því algjörlega og krýndu Nixon. Munu demókratar sjálfir krýna McCain?


mbl.is Clinton sökuð um ýkjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband