Umhverfispostulinn Al Gore kominn til Íslands

Ólafur Ragnar og Al Gore Jæja, þá er Al Gore kominn til Íslands. Það er enginn vafi á því að Nóbelsnefndin veitti Al Gore pólitíska uppreisn æru með því að velja hann friðarverðlaunahafa Nóbels. Persónulega skildi ég ekki valið á Gore, hefði talið mun eðlilegra að heiðra friðarmál með áberandi hætti, t.d. hefði Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, átt að fá verðlaunin vegna verka sinna í Kósóvó.

Það hefði fáum órað fyrir því þegar að Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu fyrir tæpum átta árum, beygður og sár, eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins að hann myndi hljóta friðarverðlaun Nóbels og yrði ein af stjörnunum við afhendingu óskarsverðlaunanna í Los Angeles. Allt þetta hefur honum tekist á innan við einu ári. Gore hafði vissulega stuðning fræga fólksins og peningafólksins í borg englanna á sínum tíma og safnaði miklum fjárhæðum í kosningabaráttuna árið 2000 og vann Kaliforníu þá með nokkrum yfirburðum, en hann var þó aldrei með stjörnuljóma á við leikarana.

Það leikur enginn vafi á því að Al Gore varð fyrir þungu áfalli í forsetakosningunum 2000. Hann vann.... en tapaði samt. Hann er enn að vinna við að byggja sig upp eftir þann þunga skell en virðist hafa tekist það með undraskjótum hætti. Hann er orðinn gúrú í umhverfismálum og hefur markað sér sess sem mikilvægur postuli í umræðunni um loftslagsmálin. Á sama tíma og sól Bush forseta hnígur hratt til viðar hefur Gore tekist að halda sviðsljósinu og ljómanum af fyrri frægð og áhrifum. Hann hefur byggt upp áhrif sín á öðrum vettvangi - vettvangi sem honum hefur tekist nokkurn veginn að gera að sínum, algjörlega í gegn.

Al Gore náði aldrei að heilla mig í forsetakosningunum 2000. Mér fannst hann grobbinn og fjarlægur. Það er alveg ljóst að með þessari ímynd sem hann hefur nú hefði hann unnið forsetakosningarnar vestan hafs þá. Talað er um pólitíska endurkomu hans - verði jafnvel málamiðlun fyrir demókrata á klofnu flokksþingi í Denver. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni. Það er ekki fjarlægur möguleiki. Persónulega myndi ég telja hann sterkasta valkost demókrata nú.

Ég tel að Gore sé lífsreyndari og sterkari nú en áður. Hann virðist hafa farið í algjöra endurnýjun, það er öllum mönnum hollt. Mér finnst Gore allavega sterkari karakter nú en fyrir átta árum. Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála.

Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og varð forseti átta árum eftir tapið sögufræga. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála, sem féllu öll í skugga Watergate.

Al Gore hefur endurnýjað sig. Mér finnst hann sterkari nú en fyrir átta árum. Hann hefur helgað sig málstað, málstað sem ég tel að sé þverpólitískur. Fyrir vikið er hann sterkari leiðtogaímynd. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Enda velt því fyrir sér hvort hann geti orðið málamiðlun fyrir demókrata í harðvítugum slag sem klofið hefur flokkinn, enda hann ekki tekið afstöðu til Hillary eða Obama. Enn er of snemmt þó um það að spá.

mbl.is Al Gore á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já mikið rétt félagi það er þetta með forsetana, forsetaefnin  og umhverfismál. Það kemur brátt í ljós hvort frekari endurnýting mun eiga sér stað á hinu pólitíska sviði. 

Ég ætla að hlusta á hann á morgun og verður fróðlegt að heyra fyrir mig meistaranemann í umhverfis- og auðlindamálum hvort hann hefur eitthvað ferskt að segja um loftslagsmálin.

Herdís Sigurjónsdóttir, 7.4.2008 kl. 20:17

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Herdís mín. Fínt að heyra þetta. Fróðlegt að heyra hvernig fyrirlesturinn hans leggst í þig.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.4.2008 kl. 12:00

3 identicon

Var samferða bandarískri konu í flugi í um daginn sem er demókrati.  Hún sagðist hafa lesið mikið um og eftir Gore og það væri mjög ólíklegt að hann fari aftur á vígvöll stjórnmálanna með sama hætti og áður.  Hann væri enn brenndur eftir tapið fyrir Bush...og hann tæki aldrei séns á öðru áfalli...með óskar í farteskinu! 

Guðmundur (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband