Mikil spenna í bandarísku þingkosningunum

Þinghúsið í WashingtonÆsispennandi þingkosningar eru í Bandaríkjunum í dag. Kosið er um alla fulltrúadeildina, hluta öldungadeildarsæta og ríkisstjóraembætti, auk fjölda annarra embætta. Kosningarnar gætu orðið sviptingasamar. Skv. nýjustu skoðanakönnunum hefur forskot demókrata á repúblikana í kosningum til fulltrúadeildarinnar, þar sem kosið er um öll 435 sætin, minnkað þónokkuð. Ekki er því vitað í hvað stefnir í kvöld og nótt þegar að tölur um allt land taka að streyma inn.

Kosningabaráttunni lauk seint í gærkvöldi með krafti. Tveir menn voru þar áberandi í að vinna flokki sínum stuðnings með kosningaferðalögum um þau ríki þar sem lykilbarátta kosninganna stefna í að verða er yfir lýkur. Hvorugur var þó í framboði í þessum kosningum. Þetta voru George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og forveri hans á forsetastóli, Bill Clinton. Skilaboð þeirra voru áberandi á lokaspretti baráttunnar og bandarískir fjölmiðlar gerðu kosningaferðalagi þeirra góð skil. Óvíst er þó hvort þeirra innlegg ráði nokkuð úrslitum. Efast má satt best að segja um það.

Þessar þingkosningar eru heilt yfir kosningar um George W. Bush og stöðu hans og ríkisstjórnarinnar, nú þegar að nákvæmlega tvö ár eru til forsetakosninga, þar sem eftirmaður hans á forsetastóli verður kjörinn. Kosið er um hvort forsetinn heldur áhrifum sínum og völdum með sama hætti og verið hefur, enda hafa repúblikanar ráðið yfir báðum deildum þingsins og Hvíta húsinu á sama tíma. Öllum er ljóst að mjög mun þrengjast um hann ef að Nancy Pelosi verður forseti fulltrúadeildarinnar af hálfu demókrata. Þar sem kosið er um alla fulltrúadeildina verða skilaboðin skýrari þar. Repúblikanar mega teljast ljónheppnir haldi þeir velli þar. Þar verður meginbarátta kvöldsins og þar munu örlög umfangs valda forsetans næstu tvö árin ráðast.

Sérfræðingar sem höfðu spáð afgerandi sigri demókrata voru þó orðnir tvístígandi í gær og ekki eins vissir um afhroð repúblikana. Bob Schieffer, hinn gamalreyndi sérfræðingur og fréttaþulur CBS, sem hafði fyrir um viku spáð afgerandi sigri demókrata í báðum deildum var orðinn efins í gær en spáði þó að demókratar tækju fulltrúadeildina en það yrði jafnt í öldungadeildinni. Þar sem 100 sæti eru í öldungadeildinni getur sú staða komið upp. Það gerðist síðast í kjölfar forsetakosninganna 2000. Þá er varaforsetinn með oddaatkvæðið. Á því réðu demókratar deildinni í 17 daga í janúar 2001, eða þar til að Dick Cheney varð varaforseti í stað Al Gore. Sú staða gæti hæglega komið upp, en sú staða er þó verulega erfið og þýðir í raun valdajafntefli, þó að varaforsetinn tryggi flokksvald sitt.

Bush forseti var á kosningaferðalagi m.a. í Flórída í gær. Það vakti athygli að Charlie Crist, ríkisstjóraframbjóðandi repúblikana í fylkinu, ákvað að sleppa kosningafundi forsetans og halda í staðinn sinn eigin fund á svipuðum tíma. Þetta þótti niðurlægjandi fyrir forsetann og vont. Það er vissulega svo að það hefur sett mark sitt á baráttuna að forsetinn er óvinsælli en hefur verið. Það er reyndar um fátt meira talað en þessa ákvörðun Crist, einkum og sér í lagi í ljósi þess að hann er að berjast um að verða eftirmaður Jeb, bróður forsetans, sem getur ekki boðið sig fram aftur nú í Flórída í ljósi þess að ríkisstjóri getur ekki setið lengur en tvö kjörtímabil. Það bendir nær allt til þess að Crist verði eftirmaður Jeb Bush, en munurinn hefur þó minnkað þar síðustu daga.

Bush forseti kaus síðdegis í dag í heimabæ sínum, Crawford í Texas, ásamt eiginkonu sinni, Lauru Welch Bush. Hún varð sextug á dögunum en lítið varð um hátíðarhöld í ljósi harðnandi þingkosningabaráttu og munu þau hjón væntanlega taka því rólega er úrslitin liggja fyrir. Er þau fóru að kjósa voru þau nýkomin úr kosningaferðalaginu, sem verður þeirra síðasta væntanlega. Þetta eru síðustu kosningarnar sem skipta George W. Bush verulegu máli. Eftir tvö ár halda þau í eftirlaunalífið í Crawford og fara úr sviðsljósinu. En baráttan nú skiptir máli fyrir pólitíska arfleifð forsetans. Þetta eru lykilkosningarnar sem ráða því hvernig Bush getur sagt skilið við stjórnmálastörf sín og forystuverk í Washington.

Það má búast við spennandi kvöldi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kosningarnar fara í þingdeildunum, en ekki síður hvernig spennandi ríkisstjórabaráttur fara um allt landið. Mikil spenna er yfir þingkosningunum í Connecticut, þar sem að Joe Lieberman berst fyrir endurkjöri, nú sem óháður. Allt bendir til að hann haldi velli og sama má segja um Hillary Rodham Clinton sem mun án vafa vinna stórsigur í New York. Þetta verður væntanlega líka sigurkvöld Arnold Schwarzenegger í Kaliforníu, en hann hefur barist fyrir endurkjöri og sigur hans nokkuð tryggur. Svo verður spennandi að sjá hvernig fer fyrir George Allen í sinni spennandi baráttu.

Ég mun fjalla um úrslitin eftir því sem þau berast og fylgjast með stöðunni og reyna að skrifa um eftir því sem mögulegt er. Framundan eru spennandi klukkutímar sem hafa áhrif á lokasprett valdaferils George W. Bush og ekki síður valdahlutföll í heimsborginni Washington.


mbl.is Kjörstaðir opnaðir í Bandaríkjunum; 200 milljónir á kjörskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Kristjánsson

Fínasti pistill, sætin í fulltrúadeildinni eru samt bara 435 en það skiptir ekki aðalmáli. Afhverju bauðstu ekki í kosningavöku í Kaupangi?

Sindri Kristjánsson, 7.11.2006 kl. 20:32

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir ábendinguna. Þetta var skrifað í flýti, en ég þurfti á fund rétt eftir sjö svo að þetta var eitthvað sem slæddist með og mér hefur yfirsést. Auðvitað eru sætin 435, en allavega ég er búinn að laga þessa villu. Þetta verða spennandi kosningar og gaman að sjá hvernig fer. Já, maður hefði kannski átt að hafa bara kosningavöku og gaman. Skilst að svoleiðis sé auðvitað í bandaríska sendiráðinu, leitt að geta ekki farið þangað bara. En við eigum vonandi eftir að hittast og rabba um pólitíkina við tækifæri.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.11.2006 kl. 23:23

3 Smámynd: Sindri Kristjánsson

Þú verður að hafa kosningavöku fyrir næstu kosningar fyrir svona Ameríkubuff eins og mig. Þú hefur jú lyklavöld.

Sindri Kristjánsson, 7.11.2006 kl. 23:53

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, við verðum að reyna að stefna að því Sindri minn. Líst vel á það. Það verður hörkuslagur árið 2008 sem verður heldur betur vakað yfir :)

Við erum greinilega sammála í því að vera Ameríkusinnaðir. Magnað að fara út. Fór til Washington í okt 2004 - var alveg brill ferð. Frábært að fara þangað. Hafði ekki farið þangað áður. Fyrir einstakling eins og mig var þetta frábært. Besta Ameríkuferðin hiklaust. Angar allt af pólitískri sögu þarna. Svo var toppur ferðarinnar að fara í þinghúsið í Washington. Brill. :)

Skrifaði þennan pistil um ferðina.

heyrumst - mbk

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.11.2006 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband