Mun þjóðkirkjan færa sig nær samkynhneigðum?

Herra Karl Sigurbjörnsson Ekki leikur vafi á því að deilurnar um staðfesta samvist samkynhneigðra hefur verið helsta deilumálið innan þjóðkirkjunnar á síðustu árum. Nú hefur Alþingi sett afgerandi lög í þeim efnum og þar með markað þjóðkirkjunni nýjar reglur á komandi árum. Við það verður að una og greinilegt er að Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, talar með þeim hætti að reyna að horfa fram á veginn en ekki aftur. Er hann greinilega að reyna að róa þá sem mest hafa verið á móti málinu.

Eðlilega hafa deilur verið um málið, enda heitar skoðanir með og á móti. Flestir muna jú eftir átökum um málið á fundi presta á Húsavík á sínum tíma, þar sem séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur hér í Akureyrarkirkju, og fleiri prestar lögðu fram umdeilda tillögu. Auk þess deildu prestar harkalega á prestaþingum þá og síðar. Nú hefur löggjafarþingið tekið af skarið, stjórnmálamenn hafa talað, og mikilvægt er að deilum um málið linni og ekki horft til fortíðarinnar.

Sá reyndar athyglisverða frétt um prestastefnuna í kvöld. Þar sást að Svarthöfði úr Stjörnustríði gekk á eftir prestum og biskupi til Dómkirkjunnar við setninguna í dag. Eflaust er þar einhver táknrænn gjörningur til að minna á deilumálið um staðfesta samvist og hversu margir innan kirkjunnar hafa verið á móti þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið.

Fréttamaðurinn sem tók saman fréttina var Guðfinnur Sigurvinsson. Hann skrifaði í mörg ár greinar á Deigluna. Ein þeirra eftirminnilegustu voru bein greinaskrif hans til biskups vegna málefna samkynhneigðra, en eins og flestir vita er Guffi samkynhneigður og augljóslega málið honum mikilvægt. Minni á þessa grein.

Stóra spurning næstu ára verður hvernig þjóðkirkjunni muni ganga að aðlaga sig breyttum tímum og ákvörðunum stjórnmálamanna um breytingar á lögum um staðfesta samvist sem opna dyrnar fyrir samkynhneigða að kirkjunni með áberandi hætti. Enn er þó spurt hvort kirkjan færi sig nær þeim breytingum með opnum huga.

mbl.is Eitt erfiðasta deilumál kirkju og samfélags til lykta leitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Slæm grein hjá þér, Stefán Friðrik, og ber vott um, að glöggskyggni þín til að greina ástand og atburði og rök mála hefur tekið sér frí að þessu sinni.

Þjóðkirkjan er í stofnunum sínum –– en ekki meðal virkra leikmanna (hverra álit hér um var sennilega sniðgengið og stungið undir stól) –– nú þegar gengin af trúnni og hollustunni við Pál og sjálfan Krist í þessu sérstaka málefni ... og kemst ekki lengra án allsherjarklofnings.

Jón Valur Jensson, 11.6.2008 kl. 02:19

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Af hverju er þetta slæm grein Jón Valur? Er þetta ekki orðinn veruleiki? Hafa ekki stjórnmálamenn tekið af skarið? Er ekki að segja neitt sem er út í hött eða óraunveruleiki. Þetta er staðan. Það verður að horfast í augu við hana. Sértu ósáttur við það áttu að beina þeirri reiði og beiskju að stjórnmálamönnunum sem færðu málið þessa leið en ekki mér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.6.2008 kl. 12:18

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góðan daginn, Stefán Friðrik. – Nú segirðu, að þetta sé "orðinn veruleiki" og: "Þetta er staðan." Og vissulega hefur verið gengið of langt nú þegar. En var ekki málið hjá þér í greininni hér ofar, að það eigi að ganga lengra – að Þjóðkirkjan eigi að "færa sig nær samkynhneigðum" og "opna dyrnar [greinilega í róttækari merkingu en nú þegar hefur verið gert] fyrir samkynhneigða að kirkjunni með áberandi hætti"?

Sé það rétt skilið hjá mér, ertu kannski að láta það sannast, sem ég og margir hafa löngu séð fyrir, að hinn eindregni þrýstihópur (bæði gagn- og samkynhneigðra) í þessu máli mun aldrei láta staðar numið, fyrr en Þjóðkirkjan liggur marflöt fyrir þeim og samþykkir að vígja bæði homma og lesbíur í hjónaband frammi fyrir altarinu og taka sér þau stóru orð í munn, að það sé gert með blessun Guðs. Öll tregða Þjóðkirkjunnar til að ganga alveg svona langt – allt undanhald hennar sem nær ekki nema næstum því að þessu marki – verður áfram brennimerkt af róttækasta þrýstingsliðinu sem "kærleiksleysi" kirkjunnar, "sótsvart afturhald" o.s.frv. Þvílíkt er þakklæti þessa liðs fyrir að Þjóðkirkjan hefur í þessu máli nú þegar gerzt eitt hið alróttækasta allra trúarfélaga í heiminum og í því ferli hafnað sinni lúthersku sem og biblíulegri, kristinni kenningu allra meginkirkna hingað til.

Sannarlega hef ég gagnrýnt nálgun stjórnmálamanna að þessum málum (sjá HÉR), en einnig prestastefnu og kirkjuþings í sumum samþykktum þeirra. Á þessari vefslóð sagði ég 30. fyrra mánaðar kl. 19:49:

  • "Hér hef ég á undan gagnrýnt Alþingi án vægðar, enda var fullt tilefni til. Miklu þyngri er þó í raun ábyrgð Þjóðkirkjunnar – prestastefnu, kirkjuþings og biskups Íslands. Vil ég að þessu sinni  sérstaklega fá að knýja á um eina spurningu í því efni: Hvað varð um það samráð við söfnuði landsins, leikmannafélög, bræðra- og systrafélög, kristniboðsfélög, KFUM og K og önnur sérfélög innan Þjóðkirkjunnar, sem yfirstjórn kirkjunnar hafði gefið vilyrði fyrir, að eiga skyldi sér stað, áður en kirkjuþing tæki endanlega afstöðu til málsins? Hvar eru álit allra þessara félaga geymd eða falin? Er það ekki eðlileg krafa, að Biskupsstofa birti þau óbirtu gögn? Eða stóð aldrei til að taka mark á afstöðu virkra leikmanna kirkjunnar?
  • Sjálfum er mér kunnugt, að á safnaðarfundi í Digraneskirkju var mjög eindregin andstaða langflestra gegn öllum hugmyndum um vígslur og blessanir sambanda samkynhneigðra."

Það er vert að ítreka þessi orð. Sjái einhver presta Þjóðkirkjunnar þessi skrif okkar, væri fróðlegt að sjá svör þeirra við spurningum mínum hér á undan.

Með áframhaldandi velvild og góðum óskum til þín, Stefán. 

Jón Valur Jensson, 11.6.2008 kl. 14:42

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég spyr bara eðlilega eftir þessa ræðu biskups hvort andstaðan í kirkjunni sé að baki og hver framtíðin sé í málinu. Finnst ekkert að því. Enda finnst mér í ræðu biskups hljóma sá tónn að nú ætli hann að sætta sig við orðinn hlut. Væri áhugavert að heyra skoðanir starfsbræðra hans og systra í kirkjunni á þessu. Svo fannst mér viðeigandi að benda á samskipti fréttamannsins við biskupinn og þau skrif sem hann beindi til biskups á sínum tíma.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.6.2008 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband