Hvernig gátu fjársvikin í TR staðið í fjögur ár?

TR Mér finnst dómurinn yfir Rannveigu Rafnsdóttur, þjónustufulltrúanum sem spann svikamylluna, í Tryggingastofnunarmálinu viðeigandi. Enda er það sláandi að það hafi getað gengið í fjögur ár að þjónustufulltrúi Tryggingastofnunar hafi svikið út 75 milljónir frá TR og lagt inn á reikninga tuttugu einstaklinga. Svikamyllan var ótrúlega vel spunnin hjá Rannveigu og greinilegt að innra eftirlit TR var algjörlega í molum.

Þetta gat gengið mjög lengi, ótrúlega lengi, án þess að nokkur velti fyrir sér hvernig hægt var að útbúa 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgunum. Ekki eru mörg ár síðan að starfsmaður Símans var dæmdur fyrir að svíkja miklar fjárhæðir út úr fyrirtækinu, ásamt vitorðsmönnum hans, meðan að það var í ríkiseigu og endaði með því að Síminn eignaðist Skjá einn, enda hafði verið dælt peningum úr Símanum í fyrirtækið.

Nú er greinilegt að innra kerfi TR var í molum og hægt að notfæra sér brotalamir í því. Það er því ekki nema von að velt sé fyrir sér hvort svona svikamylla hafi verið í öðrum ríkisfyrirtækjum. Eitt er að þetta geti gerst í skamman tíma og komist upp, en eftir fjögurra ára blekkingarleik er um víðtækan þjófnað að ræða.

Eflaust má alltaf eiga von á að glufur séu til staðar sem óprúttinn aðili getur misnotað, en það hlýtur að vera ansi sofandi stofnun sem getur orðið vettvangur svo langvinnrar og víðtækrar svikamyllu og raun ber vitni í þessu máli. Þar hafa menn vonandi lært af lexíunni, þó enginn taki á því ábyrgð.

Hvað varðar myndbirtingu af Rannveigu og upplýsingar um hana, sem ég sé að sumir velta fyrir sér, finnst mér eðlilegt að birta myndir af þeim sem brjóta af sér með þessu tagi. Nöfn í svona máli á að opinbera, ekkert síður en var í Símamálinu margfræga.

mbl.is 13 sakfelldir í Tryggingastofnunarmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband