Á að nafngreina grunaða kynferðisbrotamenn?

Ég tók eftir því í vikunni að nokkrir bloggarar ákváðu upp á sitt eigið fordæmi að nafngreina háskólakennarann sem grunaður er um að hafa misnotað börn sín. Ekki hafði nafn hans verið birt fyrr, svo ég viti til, og fjöldi fjölmiðla hafði tekið þá ákvörðun að birta ekki nafnið að svo stöddu, meira að segja DV, eftir því sem ég best veit allavega. Stóra spurning þessa máls er auðvitað hvort það sé eðlilegt að grunaðir kynferðisbrotamenn séu nafngreindir áður en dómur fellur yfir þeim og hvort það skipti máli hver bakgrunnur málsins er áður.

Sjálfur hef ég aðeins tvisvar skrifað um slík mál og nafngreint grunaða menn í slíkum málum. Nöfn þeirra beggja höfðu þá verið birt í fjölmiðlum og sú umfjöllun var ekki tíðindi á minni bloggsíðu. Var þar um að ræða sóknarprest og lögmann og málin voru alþekkt og í fjölmiðlaumræðu áður en ég skrifaði. En við lifum á öðrum tímum en áður og bloggið er mun öflugri fjölmiðill hvað varðar að setja fram ýmislegt, bæði kjaftasögur og staðreyndir sem aðrir hafa ekki fjallað um. Virðist kynferðisbrotamál vera eitt af því sem bloggarar fjalla um og nafnbirting á þeim vettvangi greinilega það sem koma skal ef marka má þessi skrif.

Hitt er svo annað mál að Moggabloggið var fljótt að taka á þessum málum og tóku greinilega bloggarana fyrir sem nafngreindu manninn. Þeir eru eftir því sem mér skilst best tveir eða þrír hið minnsta sem birtu nafnið, þó einn hafi verið meira umtalaður vegna þess en aðrir. Greinilegt er að Mogginn vildi ekki taka ábyrgð á skrifunum og tók málið fyrir, þó bloggararnir skrifuðu allir undir nafni. Töldu þeir ábyrgðina á nafnbirtingunni ekki bara bloggarans heldur þeirra sem umsjónaraðila kerfisins og hýsingaraðila skrifanna.

Þetta mál er merkilegt að mörgu leyti. Til þessa hefur reyndar verið lítið um svona nafnbirtingar fyrr en dómur fellur. DV á dögum Mikaels Torfasonar, Jónasar Kristjánssonar og Illuga Jökulssonar tóku þó afstöðu og nafngreindu menn svo mjög umdeilt þótti. Samfélagið logaði vegna þessara mála. Í fleiri málum hafa nöfn birst og verið talað um hitt og þetta málið sem helst hafa þótt sláandi, vegna umfangs þess og alvarleika brotanna. Flest dagblöðin tala þó bara um hvað viðkomandi aðili gerir og þrengir hópinn vissulega með því.

Afstaða Moggabloggsins í þessu máli hlýtur að teljast stefnumarkandi. Þarna er ritskoðun eiganda bloggkerfisins staðreynd og greinilegt að virk umsjón er á kerfinu. Þar sé ekki hægt að segja og skrifa hvað sem er án ábyrgðar, bæði bloggarans og þeirra. Þetta hlýtur að opna á alvöru umræðu um hvert stefnir í þessum málum. Mér finnst afstaða Moggamanna góð og tel hana ábyrga og rétta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Já það er ekki spurning við endurtekið eða alvarlegt brot. DV reið á vaðið með myndbirtingu af Steingrími Njálssyni við lítinn fögnuð yfirvalda. Ég er ekki í nokkrum vafa að það hefur forðað mörgum drengnum að lenda í klóm hans.

Þessi ritskoðun Moggabloggs er furðuleg í ljósi þess hve afdráttarlaust þeir fyrra sig ábyrgð á skrifum á blogginu. Þetta er eins og framleiðandi pappírsins sem Mogginn er prentaður á leggi Mogganum línurnar hvað prentað sé á pappírinn.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.7.2008 kl. 04:08

2 Smámynd: Heidi Strand

Bloggið má ekki verða ritstjórnalaus gul pressa.
Það er heldur ekki í lagi að nafngreina menn sem ekki einu sinni eru ákærðir þrátt fyrir  að nöfn þeirra hafa birst í blöðunum. Aðgát skal höfð.

Heidi Strand, 11.7.2008 kl. 09:04

3 Smámynd: Heidi Strand

Moggabloggið hefur sjálfskipaðir siðgæðisverðir,rannsóknarblaðamenn, rannsóknarlögreglumenn og dómarar.

Heidi Strand, 11.7.2008 kl. 11:11

4 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég er ekki með nafn og myndbirtingum vegna;

1. Myndir og nöfn eru villandi, fólk verður svo ægilega reitt(eðlilega) að rangir aðilar geta lent í mörgu slæmu.

2. Fjölskylda og vinir eru þeir sem taka mesta þungan af fjölmiðlaárásum og það fólk er að ganga í gegn um nóg.

3. Til að hlífa þolendum, en þeir vilja yfirleitt ekki snúa málum sínum upp í einhvern sircus.

4. Til að koma í veg fyrir að almenningur taki lögin upp í sínar hendur, sem er aldrei gott. 

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 11.7.2008 kl. 14:28

5 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Kannski er ekki nógu vel verndaður réttur manna til að njóta nafnleyndar þar til dómur er fallinn. Ég hef enga samúð með kynferðisbrotamönnum en þeim mun meiri með börnunum þeirra sem upplifa allan hryllinginn í annað sinn þegar allir skólafélagarnir fá að vita að það hafi verið pabbi sem átti í hlut og hver veit ekki hver er pabbi manns? Og þá vita líka allir hver er fórnarlambið.

Það verður aldrei nóg ítrekað að þessi nafnleynd er til að verja þolendurna, ekki gerendurna. Einhver hér að ofan vísaði í nafnbirtingu Steingríms Njálssonar, það er ekki alveg sambærilegt því að það eru áratugir síðan Steingrímur fékk fyrsta dóminn og því er hans mál ekkert leyndarmál. Auk þess lagðist hann ekki á afkvæmi sín (á hann einhver?), heldur sér ótengda drengi og þar af leiðandi var nafnleynd þeirra ekki brotin þó að hann væri nefndur.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 11.7.2008 kl. 14:33

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin. Gott að heyra skoðanir ykkar á þessu. Mér finnst eðlilegt að birta nöfn þegar um er að ræða dæmda kynferðisbrotamenn sem hafa æ ofan í æ misnotað börn, eins og t.d. Steingrímur Njálsson. Áður en dæmt hefur verið finnst mér nafnbirtingar óeðlilegar og í raun er það mannorðsaftaka á meðan dómur liggur ekki fyrir.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.7.2008 kl. 14:55

7 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

En Stefan um daginn var einn nafnbirtur níðingur barinn fyrir utan heimili sitt.  Þar beið hópur manna eftir honum.  Er það sem við viljum?  Að fólk taki lögin í sínar eigin hendur, því þessar upplýsingar gera fólk mjög reitt og ekki allir sem ráða við viðbrögð sín.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 11.7.2008 kl. 15:03

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Við getum því miður aldrei komið algjörlega í veg fyrir að nafn slíkra afbrotamanna verði opinber, hið minnsta í almennri umræðu þar sem slík mál eru rædd. Auðvitað leysir ofbeldi gegn þessum einstaklingum engan vanda. Það er ekkert síður alvarlegt en ofbeldi þeirra. Maður leysir ekki ofbeldisvanda með enn meiri ofbeldi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.7.2008 kl. 15:05

9 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Mér finnst óþolandi þegar blöðin hlakka sér yfir að geta birt svona og sem mest og í sem mestu smáatriðum án þess að hugsa hvaða afleiðingar það hefur.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 11.7.2008 kl. 15:13

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

Saklaus uns sekt er sönnuð.

minnumst Lúkasarmálsins. Þar var saklaus dæmdur sekur af moggabloggurum og öðrum. 

Fannar frá Rifi, 11.7.2008 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband