Edwards viðurkennir framhjáhald - ferillinn í rúst

John og Elizabeth Edwards Ekki er ofsögum sagt að stjórnmálaferill John Edwards, fyrrum öldungadeildarþingmanns og forsetaframbjóðanda, sé í rúst eftir að hann viðurkenndi að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni, Elizabeth, sem haldin er ólæknandi krabbameini. Edwards hefur svo margoft neitað framhjáhaldinu, síðast fyrir hálfum mánuði, að viðurkenning þess nú verður erfitt högg fyrir hann að vinna úr.

Ekki aðeins er ímynd hans nú í molum heldur trúverðugleikinn. John Edwards hafði byggt sér upp ímynd stjórnmálamannsins sem var trúr konu sinni, hinn trausti heimilisfaðir og sem hélt vörð um fjölskyldugildin. Hann var framamaðurinn sem auglýsti fjölskylduna sína sem hornstein persónu sinnar. Á þessu byggði hann bæði forsetaframboð sín, 2004 og 2008, auk þess framboðið í öldungadeildina og síðast en ekki síst þegar hann var varaforsetaefni John Kerry fyrir fjórum árum.

Allt frá því Edwards hætti við forsetaframboð sitt fyrr á árinu, þar sem hann var klemmdur á milli sögulegu valkostanna; fyrstu konunnar og fyrsta blökkumannsins sem gat unnið Hvíta húsið, og síðar lýsti yfir stuðning við Barack Obama á þeim tímapunkti sem hentaði honum best hefur verið velt því fyrir sér hver pólitísk framtíð hans væri. Voru margir sem töluðu um að hann gæti orðið varaforsetaefni Obama og verið hinn trausti hvíti frambjóðandi við hlið blökkumannsins í forsetaframboði.

Sá möguleiki er fokinn út í veður og vind eftir þessa uppljóstrun. Barack Obama er nógu veikur fyrir í þessari kosningabaráttu, þar sem hann er jafn John McCain skömmu fyrir flokksþingið, til að hann velji mann með sér sem hefur lagt ímynd sína í rúst á nokkrum mánuðum með því að ljúga og neita fyrir framhjáhald. Edwards er ekki bógur í varaforsetaframboð á þessum tímapunkti. Hann hefur enga undirstöðu til að fara þar fram sem traustur valkostur og hann myndi ekki gera neitt annað en draga með sér spurningarnar um hversu óheiðarlegur hann var við bandarísku þjóðina og fjölskylduna.

Kannski verður Edwards dómsmálaráðherra í stjórn Obama, ef hann nær kjöri. Er þó ekki viss um það. Efast um að Edwards hafi stöðu í eitt né neitt núna. Hann hefur spilað undirstöðum stjórnmálaferils síns undan sér og þarf að finna sér nýtt upphaf. Með framkomu sinni hefur John Edwards lagt feril sinn í rúst og þarf að byggja sér ímynd og karakter að nýju áður en lengra er haldið.

Auk þess sýnist mér fleiri pólitísk hneyksli í uppsiglingu. Starfsmenn forsetaframboðs Edwards hafa viðurkennt að hafa borgað hjákonunni peninga og fullyrt er að Edwards sé faðir barnsins hennar. Hvaðan komu peningarnir? Þetta er örugglega ekki búið.

Hefði Edwards strax viðurkennt framhjáhaldið fyrir ári, er það komst fyrst í umræðuna, í stað þess að neita æ ofan í æ hefði hann átt auðveldar með að endurreisa sig. Nú virðist skaðinn skeður.

mbl.is Edwards viðurkennir framhjáhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Edwards er búin að spila rassinn úr buxunum og það er alveg klárt að við eigum eftir að heyra meir um þetta. Elízabeth eiginkona hans á mikla samúð Bandarísku þjóðarinnar eftir að hún greindist með brjóst krabbamein. Hún hefur staðið við hlið mansins síns í veikindum sínum, lagt mikið á sig og farið víða um í kosningarbaráttu hans.

Ótrúlega ómerkilegur maður hvernig hann hefur hagað sér.

Ástkona Edwards, Rielle Hunter segir Edwards hafa feðrað 5 mánaða gamalt barn sitt.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 9.8.2008 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband