Zardari kjörinn forseti - enn í skugga Benazir?

Asif Ali Zardari enn í skugga Benazir Bhutto?Kjör Asif Ali Zardari á forsetastól í Pakistan markar þáttaskil í stjórnmálasögu Pakistans. Hver hefði trúað því að innan við ári eftir morðið á Benazir Bhutto að hinn umdeildi eiginmaður hennar myndi ná alla leið og verða ekki aðeins valdamesti maður Pakistans heldur þjóðarleiðtoginn í stað Pervez Musharraf? Fáir hefðu trúað því þegar Benazir sneri aftur til Pakistans í október 2007 að það yrði Zardari sem myndi endurheimta völdin til PPP og njóta þeirra.

Heimkoma Benazir Bhutto markaði vissulega upphafið á þessum þáttaskilum en væntanlega var morðið á henni sögulegi punkturinn í því öllu; hún var í miðri kosningabaráttu þegar öllu lauk hjá henni. Dauði hennar reyndist þó aðeins tímabundið áfall fyrir pakistanska Þjóðarflokkinn. Öll barátta flokksins hafði snúist um Benazir, ekki aðeins að tryggja henni völdin í landinu heldur og mun frekar að sýna að hún væri bæði andlit flokksins og talsmaður hans. Að henni látinni var allt breytt og það varð hlutskipti hins umdeilda Zardari að taka að sér forystuna.

Kaldhæðnislegast af öllu í þessari baráttu Bhutto-fjölskyldunnar fyrir völdum að nýju í Pakistan, sem hefur lokið með því að fullum völdum og áhrifum hefur verið náð, er auðvitað að Benazir Bhutto lifði ekki að sjá þetta gullna augnablik pakistanska Þjóðarflokksins. Staða flokksins var ekki einu sinni svona sterk þegar hún varð forsætisráðherra tvisvar á innan við áratug. Ekki aðeins ræður flokkurinn yfir þinginu heldur hefur forsetaembættið. Zardari var eftir kosningasigurinn í febrúar hinn táknræni forsætisráðherra þó hann gegndi ekki embættinu þar sem hann var ekki í kjöri í kosningunum.

Hann réði för og hefur tekið allar stórar ákvarðanir að undanförnu. Þegar PPP hafði tekist að losa sig við Musharraf var leiðin greið og nú hefur Zardari náð á leiðarenda. Hann var alltaf í skugga Benazir Bhutto í stjórnmálabaráttu hennar, hún var bæði talsmaður og pólitískur skipuleggjandi Bhutto-fjölskyldunnar. Við dauða hennar kom hann úr skugganum og sótti sér leiðtogahlutverkið. Enn er hann þó mjög umdeildur og nýtur fjarri því þjóðarhylli.

Zardari var reyndar enn það umdeildur við dauða Benazir að hann var ekki valinn leiðtogi PPP heldur sonur þeirra, hinn tæplega tvítugi Bilawal Bhutto. Valið á Bilawal var umdeilt vegna þess hversu óreyndur hann óneitanlega er. Hann hefur hinsvegar passað flokkinn á meðan sonurinn lýkur námi í Oxford, rétt eins og mamma hans áður. Með því leiðtogahlutverki í fjarveru Bilawal hefur Asif Ali Zardari tekist að komast alla leið.

Í forsætisráðherratíð Benazir Bhutto nefndu gárungar Zardari tíu prósent manninn og það viðurnefni festist við hann. Var þar vitnað til frægs tíu prósent ákvæðis í ríkissamningum. Var Benazir Bhutto alla tíð í skugga hneykslismála eiginmannsins en hann hefur verið sakaður um að hafa stungið undan ríkisfé á reikninga í Sviss. Slapp hann undan því að svara til saka í samningum Benazir við Musharraf.

Mikið verkefni blasir við Asif Ali Zardari. Hann er enn mjög umdeildur og pakistanska þjóðin mun vera klofin í tvær fylkingar, afgerandi með honum og á móti. Hann hefur komist alla leið í pakistönskum stjórnmálum á sterkri stöðu Benazir Bhutto. Án hennar þarf Zardari að fóta sig og reyna að komast úr skugga umdeildu málanna sem hafa markað frægð hans fram að þessu.

Enn er spurt um hvaða hlutverk Bilawal Bhutto muni leika þegar Oxford-árunum lýkur. Munu feðgarnir ráða pakistönskum stjórnmálum næstu ár eða áratugi? Er gullaldartíð Bhutto-fjölskyldunnar fyrst hafin þegar Benazir Bhutto hvílir í gröf sinni eða er þetta upphafið á endalokunum?

Stóra spurningin á þessum degi er óneitanlega hvort feðgarnir muni gera út af við sterka stöðu Bhutto-fjölskyldunnar áratugum saman eða tryggja valdasetu fjölskyldunnar áratugum saman með sigrum sínum að undanförnu.


mbl.is Zardari kjörinn forseti Pakistans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband