Verða svipaðar óeirðir á Íslandi og eru í Lettlandi?

Ég held að fyrsta hugsun allra sem heyra af mótmælunum í Riga í Lettlandi sé hvort þetta sé það sem koma skuli hér á Íslandi í kreppunni. Vel má búast við því ef mið er tekið af því að reynt sé að koma í veg fyrir að ráðherrar og aðrir kjörnir fulltrúar sinni störfum sínum á Alþingi, bæði af mótmælum í dag og undir lok síðasta árs þar sem ráðist var inn á Alþingi með öskur og læti. Munurinn er kannski sá að mótmælin hér hafa verið frekar fámenn, t.d. í morgun fyrir utan Alþingi.

Fjarri því er að mótmælin hér á Íslandi hafi verið fjöldamótmæli. Gott dæmi um það eru netskrif um síðustu helgi þar sem fólk var hreinlega grátbeðið um að vera með en ekki heima hjá sér að blóta í einrúmi. Ég held að fjöldinn í mótmælunum hér hafi aldrei farið yfir 10.000, ekki einu sinni þegar mest var í hitanum í nóvember og í kringum fjölmenna borgarafundinn í Háskólabíói. En kannski höfum við ekki enn náð botninum og því mótmælin ekki náð fjöldastyrk ennþá.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk eigi að tjá sig óhikað og mótmæla ef það vill. Málefnaleg mótmæli og traust rök skipta þó mestu máli. Slíkt hefur meiri áhrif en mörgum órar fyrir. Ákvörðun dagsins um að auglýsa bankastjórastöðurnar eru klárlega merki þess að mótmælin hafa virkað og kerfið sé að færast í átt að því að gera upp það sem liðið er.

Nú er mikilvægt að styðja rannsóknarnefnd og saksóknara í því verki að rannsaka allt sem skiptir máli. Svo verður að ráðast hvort ferlið fer rétta leið. Að því loknu munu kjósendur allavega fá tækifærið til að kjósa. Almenningur mun í lok þessa alls gera upp þetta mál sjálft með atkvæði sínu í kjörklefanum.

mbl.is Óeirðir vegna kreppu í Riga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gallinn er bara sá að við getum aldrei gert neitt upp í kjörklefanum.

Héðinn (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband