Traustur sigur Tryggva Þórs - Arnbjörg fellur

Þá eru úrslitin ljós í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna hér í Norðausturkjördæmi. Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur, vinnur annað sætið af Arnbjörgu Sveinsdóttur og er hinn óumdeildi sigurvegari þessa prófkjörs - nýtt þingmannsefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þessi úrslit eru mikið áfall fyrir Arnbjörgu, sem hefur setið á þingi nær óslitið frá árinu 1995, fyrst fyrir Austurlandskjördæmi en hún hefur setið á þingi fyrir Norðausturkjördæmi frá afsögn Tómasar Inga Olrich í ársbyrjun 2004.

Stóra spurningin nú er hvort Abba muni taka þriðja sætið. Á kjördæmisþingi í nóvember 2002 tapaði Abba slagnum um annað sætið við Tómas Inga og varð þriðja. Hún féll af þingi í kosningunum um vorið en kom svo inn nokkrum mánuðum síðar. Hún byggði upp pólitíska stöðu sína hratt og vel, náði þingflokksformennskunni árið 2005 og hélt henni eftir síðustu kosningar - var mjög náin Geir H. Haarde í flokksvinnunni. Þessi niðurstaða er gríðarlegt áfall fyrir hana.

Björn Ingimarsson kemur sterkur til leiks í fjórða sætið. Hann stóð sig mjög vel í prófkjörsbaráttunni og ég ákvað að styðja hann eftir því sem nær leið prófkjöri, enda mjög traustur valkostur. Soffía Lárusdóttir á Egilsstöðum stefndi hátt en uppsker ekki eins vel og hinir Austfirðingarnir. Anna Guðný fær glæsilega kosningu í sjötta sætið og ég er mjög ánægður með hversu vel henni gekk. Hlakka til að sjá til verka hennar í pólitísku starfi í kjölfarið.

Leitt að Jenni náði ekki sínu markmiði. Hann var mjög traustur í prófkjörsbaráttunni en hefur greinilega lent inn á milli í Austfjarðabaráttunni um annað sætið. Leiðinleg útkoma hvað það varðar. En í heildina er þetta sterkur listi. Ég óska Tryggva Þór innilega til hamingju, hann fékk sínar hamingjuóskir frá mér á Hótel KEA áðan, en ég endurtek þær enn og aftur. Líst mjög vel á að fá hann inn á þing fyrir kjördæmið.

Kristján Þór fær traust umboð í leiðtogastólinn og gott umboð. Staða hans er mjög sterk í kjölfarið og hann fer reyndari inn í væntanleg kosningaátök en síðast, reynslunni ríkari eftir umbrotatíma í pólitíkinni að undanförnu. Kjörsóknin hefði mátt vera meiri, en hún er dræm víðast hvar um land - við getum vel við unað miðað við kjörsókn t.d. hjá stóru flokkunum í borginni.

mbl.is Kristján leiðir í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband