Aumingjaskapur stjórnvalda á örlagastundu

Fróðlegt var að sjá söguna á bakvið samskiptin við Bretland örlagadagana eftir hrunið í október 2008 í þætti Þóru Arnórsdóttur í kvöld. Sú spurning er áleitin hvers vegna íslensk stjórnvöld tóku ekki slaginn við Bretland í upphafi málsins, þegar einhver vörn var í boði. Auðvitað áttu stjórnmálamenn hér heima að fara með mál sitt fyrir NATÓ - ekki átti að sætta sig við að eitt NATÓ-ríki beitti hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð.

Í staðinn var hummað og hóstað máttleysislega. Ekkert var gert. Íslenskir ráðamenn horfðu þegjandi á Gordon Brown vega að Íslandi og veita því mikið og þungt högg með orðum sínum á SKY 9. október 2008. Kippt var í einhverja diplómatíska spotta með því að kalla sendiherrann til forsætis- og utanríkisráðherra en ekkert meira var gert. Íslenskir ráðamenn höfðu ekki það í sér að taka til sinna ráða, ekki einu sinni tala við bresku pressuna.

Sumum fannst ég djarfur þegar ég sagði í bloggfærslu 9. október 2008, eftir viðtalið við durtinn Brown á Sky þar sem hann jós skít og skömmum yfir Ísland, að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Æ betur sést að það hefðum við átt að gera. Íslensk stjórnvöld áttu að svara fullum hálsi og taka málið föstum tökum frá fyrsta degi í stað þess að lympast niður.

Við höfum með þögn og aðgerðarleysi okkar í alþjóðasamfélaginu, t.d. með því að mótmæla ekki harðlega á leiðtogafundi NATÓ fyrr á þessu ári, vanið Bretana á að sparka í okkur án þess að svara í sömu mynt. Ég held að síðar meir verði þetta hik og aðgerðarleysi metið sem mikil og taktísk mistök. Slíkt blasir reyndar við öllum sem sjá þessa sögu nú ári síðar.

Þegar ein þjóð í NATÓ-samstarfinu beitir annarri hryðjuverkalögum og reynir að sparka henni til helvítis með því að eyðileggja orðspor hennar með vísvitandi hætti á slíkt heima innan NATÓ til umræðu.

Eitt annað var merkilegt í þessum þætti: mótmælin fyrir ári þegar allt var að fuðra upp. Ekki verður séð að mikið hafi breyst á þessu ári sem liðið er. Kosningarnar í vor skiluðu engum marktækum breytingum.

Ráðaleysið er enn algjört og leyndin engu minni, jafnvel meiri ef eitthvað er. Við vitum enn mjög lítið hvað er að gerast, erum enn í algjöru myrkri í lykilmálum.

Eina sem hefur breyst er kannski það að vinstrimenn eru hættir að mótmæla og eru á bömmer yfir því að stjórnin sem þeir kusu til valda er alveg máttlaus.

mbl.is Telja hollensk stjórnvöld líka bera ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú liggur fyrir að Bretar og Hollendingum virðist ætla að takast með ofbeldi og aflsmunum að fá öllum sínum köfum gagnvart Íslandi fullnægt. "Samnings" óhræsið sem er búið að neyða upp á okkur hefur það í för með sér að ókleyfur óréttmætur og siðlaus skuldabaggi er neyddur upp á Íslenskan almenning. Þessi gjörningur setur líklega sjálfstæði Íslands og lífskjör hér í stórkostlega hættu og það til langrar framtíðar, ef ákvæði þessa samnings verða fullnustuð. Ekki nóg með það, Ísland er niðurlægt og svívirt ef málalyktir verða sem fram horfir.

Ekki verður unnt að búa við þetta. Samstaða verður að nást um það að berjast gegn þessum svikasamningi og berjast fyrir heiðri okkar og sóma. Krafan ætti að vera sanngjörn málsmeðferð, deiling á ábyrgð milli þjóða á þessu Icesave klúðri og tillit tekið til þess að Bretar eru aðeins 200 sinnum fleiri en við Íslendingar og Hollendingar 50 sinnum fleiri. Núverandi "samkomulag" felur einungis í sér að ábyrðin sé öll Íslands, andstæðingar okkar fá allt borgað til baka upp í topp með okurvöxtm.       

Mér finnst makalaust að engin almenn samstaða sé hér á landi um að berjast gegn þessu. Erum við ekki lítils virði sem þjóð ef við látum bara valtra yfir okkur ,eða þorum ekki að taka slaginn og verja okkur gegn árásum á okkar heimaland-sem er hér um að ræða að hálfu Bretlands og Hollands.

Ísland er núna á þeim krossgötum að í fyrsta sinn síðan Lýðveldi var hér stofnað þurfum við að verja sitt heimaland og sjálfstæði. Að gefast upp svona sem fram horfir hefur afar slæm áhrif á fólk og endurreisn hér verður erfið eða ómöguleg. Dugandi fólk mun ekki kæra sig um að vinna fyrir land þarsem þjóð og stjórnvöld hafa engan dug í sér til að verja hagsmuni landsins-og lífskjör eru ekki samkeppnisfær um við önnur lönd vegna þess að allar tekjurnar fara í að borga skuldir einkafyirtækis í útlöndum!

Nú er að duga eða drepast! Sjaldan á þetta máltæki jafnvel við. Semja þarf hernaðaráætlun um það að ná viðunnandi lausn í þessu máli. Byrjunin er sú að hafna alfarið þvi samnings óhræsi sem nú á að troða ofan í kokið á okkur.

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 00:18

2 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Stefán.  Er mjög sammála þessu og hábölvað að stjórnarmeirihluti sé fyrir áframhaldandi niðurlægingu.

Lýður Árnason, 21.10.2009 kl. 01:34

3 identicon

Sammála hverju orði hjá þér og ekki eitt orð meira um það. 

Þvílíkur aumingjaskapur hjá ráðamönnum sem voru við völd í hruninu.  Þeir hefðu átt að taka sér gömlu meistaran til fyrirmyndar sem stóðu upp í hárinu á Bretum í þorskastríðunum, þá. Ólaf Thors, Bjarna Ben, óla Jóh., Lúðvík Jósepsson og Einar Ágústsson, svo ekki sé talað um hvernig ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar stóð upp í hárinu á Tjöllunum og sleit stjórnmálasambandi við þá í síðsta þorskastríði.  Þetta voru alvöru menn en ekki gungur eins og núverandi ráðamenn sem óttast þessar svokölluðu "vinaþjóðar" okkar.

Hafðu það gott, Stebbi.

Kristinn Sigursteinsson (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband