Hrollvekjandi spá hjá Wade - vonin og óttinn

Spá prófessorsins Roberts Wade er auðvitað hrollvekjandi, nístir inn að beini fyrir alla Íslendinga, svo skömmu eftir bankahrunið. Auðvitað er eðlilegt að búast við hinu versta en um leið vona það besta. Ég held að ástandið í haust geti ekki endurtekið sig. Nú eru allir á verði og fylgjast vel með hvað er að gerast. Þegar bankarnir hrundu eins og spilaborg í haust voru allir í blekkingarleik og héldu í veika von um að allt myndi reddast.

Dregin hafði verið upp ósönn mynd af stöðunni og reynt að blekkja þjóðina æ ofan í æ. Fallið var ekki aðeins sálfræðilegt áfall stoltrar þjóðar heldur líka táknrænt hrun í alla staði. Ekki bætti úr skák að fjölmiðlarnir höfðu ekki dregið upp myndina af stöðunni heldur kóað ástandið og ekki staðið sig í hlutverki sínu. Því var hrunið þjóðarsjokk. Enginn fyrirboði var um ástandið og þegar einhverjir erlendis vöruðu við voru þeir púaðir niður.

Wade þarf ekki að búast við að fólk sofi ráðleggingar hans og annarra um ástandið á veraldarvísu og hérna heima á Íslandi af sér. Nú er fólk á verði og veit betur hvaða hættur eru á leiðinni og hvað geti gerst. Nú reynir auðvitað á allt kerfið og hvort hægt verði að komast í gegnum þetta ár. 2009 er ár óvissunnar. Við vitum hvernig staðan er við ársbyrjun en ekki þorir nokkur maður að segja til um hvernig landið liggur í desemberlok.

Nema þá að vona það besta en óttast það versta. Það er meira en við gerðum í haust.

mbl.is Fullur salur í Háskólabíó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingdemókratar gefast upp - Burris fær þingsætið

Þingdemókratar í öldungadeildinni hafa greinilega áttað sig á því sem hefur verið augljóst síðustu vikuna, og ég hef áður bent á hér, að þeir gátu ekki komið í veg fyrir að blökkumaðurinn Roland Burris taki við þingsæti Baracks Obama fyrir Illinois. Tilraunir þeirra til að koma í veg fyrir að Burris myndi sverja embættiseiðinn fyrir tæpri viku voru algjörlega misheppnaðar og eitt allsherjar klúður fyrir Demókrataflokkinn. Ekki er hægt með nokkru móti að benda á ástæður fyrir því hvers vegna Burris eigi ekki að fá sætið og engar tengingar eru á milli hans og Blagojevich ríkisstjóra.

Held að Dianne Feinstein, hin eldklára þingkona demókrata í öldungadeildinni, hafi endanlega gengið frá andstöðunni fyrir félögum sínum þegar hún benti á að ef Burris fengi ekki sætið væru demókratar í raun að leggjast gegn vali ríkisstjóra á þingmanni fram að næstu kosningum. Vald ríkisstjórans við þingmannsvalið er óumdeilt og er engin stoð fyrir því að stöðva slíkt. Þó að Blagojevich sé spilltur og sé búinn að bregðast flokksfélögum sínum er ekkert sem tengir Burris við hneyksli hans. Burris er þvert á móti lagasérfræðingur og virðist óumdeildur sem persóna.

Andstaðan við Blago er skiljanleg. Hinsvegar er undarlegt að dæma Burris eftir hatrinu á Blago. Segjast verður alveg eins og er að Blago leysti flækjuna í Illinois snilldarvel með því að velja Burris. Honum tókst að snúa sínu eigin máli í annan hring, víðsfjarri sjálfum sér, og um leið að velja þingmann sem væri óumdeildur og ekki spilltur. Flækjan færðist hinsvegar til Washington og fyrst núna virðast þingdemókratar hafa áttað sig á því að þeir hafa gengið gjörsamlega í gildruna og fært Blago sóknarfæri til að verjast.

Þetta mál var reyndar sérstaklega vandræðalegt í ljósi þess að Burris er eini blökkumaðurinn sem á rétt á þingsæti í öldungadeildinni og er fjórði maðurinn sem öðlast setu þar á síðustu hundrað árum. Andstaðan við hann reyndist eitt allsherjar klúður - þingdemókratar misreiknuðu sig herfilega. Nú munu þeir hleypa Burris inn.

Svo verður að ráðast síðar hvort hann fer fram sjálfur á næsta ári eða opnar slaginn upp á gátt. Væntanlega munu bæði Jesse Jackson yngri og Lisa Madigan reyna að fá þingsætið þá.

mbl.is Burris fær þingsætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru skoðanir sumra rétthærri en annarra?

Á ég að trúa því að grímuklæddu mótmælendur séu að ganga hús úr húsi til að ráðast persónulega að þeim sem hafa aðrir skoðanir en þeir sjálfir? Eru skoðanir þeirra rétthærri en skoðanir þessara tveggja manna? Er þetta virkilega það sem þetta lið hefur fram að færa, að hefta skoðanir og ráðast persónulega að þessum mönnum sem þeim líkar ekki við og beinir því spjótum sínum að þeim?

Er þetta sama fólkið og vill telja öðrum trú um að það vilji heiðarleg skoðanaskipti. Ef það hefur eitt fram að færa að ráðast að þessum mönnum fyrir að hafa skoðanir og tjá sig er illa komið fyrir þessum hóp.

mbl.is Afhenda uppsagnabréfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bollywood nær í gullhnött - tvenna hjá Kate

Kate Winslet
Mikið var um óvænt úrslit við afhendingu Gullhnattarins í nótt. Kate Winslet kom öllum á óvart, mest þó sjálfri sér, með því að endurtaka afrek Helen Mirren fyrir tveim árum og hljóta tvenn verðlaun fyrir leik, bæði fyrir aðalhlutverk í Revolutionary Road og aukahlutverk í The Reader. Löngu var kominn tími til að Kate myndi vinna verðlaunin, en hún hafði aldrei unnið gullhnött og ekki enn fengið óskarinn þrátt fyrir fimm tilnefningar í báðum verðlaunum. Nokkuð öruggt er að hún fær óskarinn í næsta mánuði og það tímabært.

Velgengni Slumdog Millionaire var verðskulduð. Myndin hefur hlotið mjög góða dóma og ég hlakka mjög til að sjá hana. Hef séð nokkrar klippur úr henni og tel langlíklegast að hún verði sigursæl á óskarnum. Auðvitað eru stórtíðindi að leikarar úr Bollywood séu aðalstjörnurnar í einni heitustu mynd ársins 2008 og er til marks um breytta tíma. Í fyrra heiðraði bandaríska kvikmyndaakademían evrópska leikara í öllum leikflokkunum og má alveg búast við að sigurstund Bollywood verði ekki síður merkileg.

En talandi um óvænt úrslit. Átti ekki von á að Mickey Rourke fengi gullhnöttinn fyrir The Wrestler. Straumurinn var klárlega með Sean Penn sem á stórleik í Milk, magnþrungri sögu um Harvey Milk, hinn umdeilda samkynhneigða stjórnmálamann í San Francisco, sem myrtur var ásamt Moscone borgarstjóra af Dan White í skotárás í ráðhúsinu árið 1978. Klárlega ein af bestu myndum ársins. En Penn vann ekki, gæti verið að það minnki möguleika hans að hafa unnið fyrir ekki svo löngu fyrir Mystic River.

Heath Ledger hlaut verðskuldað gullhnöttinn fyrir stórleik sinn í The Dark Knight. Held að það þurfi ekki mikla spámenn til að sjá að hann fær óskarinn fyrir hlutverkið ennfremur. Þetta er ein besta leikframmistaða síðustu ára og fær verðskuldað hrós og verður margverðlaunuð á þessu verðlaunatímabili. Svo kom ekki á óvart að sjónvarpsmyndin um John Adams sópaði að sér verðlaunum. Hlakka til að sjá hana í íslensku sjónvarpi vonandi sem fyrst á nýju ári.

mbl.is Slumdog vann á Golden Globe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Ingibjörg Sólrún menntamálaráðherra?

isg ghh
Stóra pólitíska frétt helgarinnar finnst mér sú kjaftasaga sem Stöð 2 kom með í kvöld að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir muni jafnvel fara úr lykilráðuneyti og taka við veigaminni verkefnum hér heima, jafnvel verða menntamálaráðherra. Auðvitað er þetta skiljanlegt sé mið tekið af veikindum hennar, en ég á samt erfitt með að sjá það fyrir mér að hún geti sætt sig við að taka ráðuneyti sem er veigaminna en utanríkismál eða ríkisfjármálin. En kannski vill hún fókusera sig á aðra málaflokka

Kannski er þetta allt ein vitleysa og spuni í einhverja átt, en samt merkileg kjaftasaga engu að síður. Mér finnst liggja í loftinu að í raun verði mynduð ný ríkisstjórn á nýjum grunni eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins. Það er að segja ef hún lifir þann fund af og niðurstöður hans. Á síðustu dögum hef ég orðið æ vissari um að flokkarnir hafa límst aftur saman og eru samhentari en lengi áður. Eitthvað stórt hefur gerst frá áramótum, á örfáum dögum, sem ég skil ekki enn.

Ingibjörg Sólrún er farin að bakka upp umdeilda ráðherra og reynir allt til að halda samstarfinu saman. Auk þess er greinilegt að róast hefur yfir. Leiðtogar flokkanna virðast einhuga um að bjarga samstarfinu og halda saman í gegnum árið - koma í veg fyrir kosningar. Stjórnin er samhent eftir atburði vikunnar á einhverjum forsendum og greinilega er verið að huga til framtíðar með ráðherrahrókeringum og uppstokkun á mörgum sviðum.

Svo verður að ráðast hvort sú uppstokkun verði gæfuspor eða byrjun á endalokunum.

mbl.is Ekki ágreiningur í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glysið og stjörnuljóminn umlykur Gullhnöttinn

gg1
Samkvæmt hefð ætla ég að horfa á afhendingu Gullhnattarins, Golden Globe-verðlaunin, á eftir. Þar verður verðlaunað bæði fyrir kvikmyndir og leikið efni í sjónvarpi og Steven Spielberg fær heiðursverðlaunin, kennd við Cesil B. DeMille. Hann átti að fá þau fyrir ári en þau var verðlaunaafhending felld niður með glys og stjörnuljóma vegna verkfalls handritshöfunda. Þá var bara haldinn blaðamannafundur í tæpan hálftíma og tilkynnt um sigurvegara.

Erfitt að spá um sigurvegara að þessu sinni. Margar myndir eiga alvöru séns. Ætla bara að segja hverjir ég vona að vinni. Vona að Heath Ledger fái Gullhnöttinn fyrir hina stórfenglegu leikframmistöðu sína í The Dark Knight. Þetta er einn mesti leiksigur síðustu áratuga og ber að verðlauna hann fyrir það leikafrek, nú tæpu ári eftir lát hans. Þetta er svo traust frammistaða að hana verður að heiðra með leikverðlaunum á næstu vikum, auðvitað með óskar.

Vil líka að Sean Penn vinni fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Milk og Meryl Streep fyrir Doubt. Annars eru allar leikkonurnar í dramaflokknum með glæsilega leikframmistöðu og eiga allar skilið að vinna. Tími Kate Winslet er auðvitað fyrir löngu kominn. Nú hlýtur hún að vinna óskarinn og ég er viss um að hún fær annað hvort verðlaunin í aðal- eða aukaleikaraflokknum.

Vil helst að Slumdog Millionaire vinni kvikmyndaverðlaunin, enda eðalmynd, eða The Reader. Verður vonandi fín og góð nótt.

mbl.is Golden globe-verðlaunin veitt í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýraþráin og áhætturnar

Rob Gauntlett á Mt. Everest
Ég hef lengi dáðst að þeim sem eru haldnir slíkri ævintýraþrá að leggja út í algjöra óvissu, aðeins til að ná settu marki og upplifa eitthvað nýtt. Veit ekki hvort þetta sé hugrekki eða fífldirfska - sennilega væn blanda að báðu. Hef aldrei skilið fyllilega í því hvað það er sem keyrir fólk í að reyna að leggja svona afrek á sig.

Sennilega er lykilatriðið að hafa kraft og kjark til að leggja í svona, hvort sem það er sund um heimsins höf, klifur á heimsins tinda, gönguferð á pólana eða hvaða annað afrek það er. Er samt viss að það þurfi mikla ævintýraþrá og virkilega löngun í að ná settu marki til að ýta fólki út í óvissuna, leggja líf sitt í hættu.

Allt fyrir það eitt að eiga smástund á toppi fjallstinds eða á pólnum. Áhættan hlýtur að vera í huga þeirra sem taka slaginn og halda af stað. Kannski kemst það upp í vana að láta líf sitt í hendur náttúrunnar. Náttúran getur verið yndisleg en hún getur líka tekið sinn toll. Ekki ná allir leiðarenda og settu marki.

Dáðist af afreki Gauntlett, þegar hann náði tindi Mount Everest, innan við tvítugt. Hann hafði þetta í blóðinu og var ævintýramaður. Nú hefur sú ævintýraþrá orðið honum að bana. Þeir sem halda í svona ferðir hljóta að vera undir það búnir að ferðin geti í hvert skipti orðið það síðasta. Hvert skref sé áhætta.

Hlýtur að vera sérstök tilfinning að vita það undir niðri. Náttúran hlýtur að hafa sterkt aðdráttarafl.

mbl.is Ævintýramaður ársins 2008 látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeilt einkalíf - Harry prins skandalíserar

Harry og herfélaginn
Um fáa hefur gustað meira innan bresku konungsfjölskyldunnar á síðustu árum en Harry, yngri son Karls og Díönu. Myndir af honum í annarlegum stellingum hafa birst í blöðum og hann þykir vera frekar laus í rásinni. Nú bætist við allsvæsið myndband þar sem hann gerir grín að ömmu sinni, kallar pakistanskan herfélaga sinn niðrandi heiti, Paki, er sakaður um kynþáttafordóma, kallar drottandi fyrirskipunum til herfélaganna og kyssir félaga sinn á kinnina og sleikir hann.

Óhætt er að segja að Harry hafi verið líflegasti fulltrúi konungsfjölskyldunnar á þessum fyrsta áratug 21. aldarinnar og hafi sýnt og sannað að konunglegt líf þarf ekki að vera hundleiðinlegt. Hann hefur líka náð að stuða allhressilega og kippir hressilega í kynið með það. Pabbi hans var ekki beint dýrlingur á sínum yngri árum. Eftir markvissa tilraun til að mýkja ímynd eftir umdeildu atvikin er allt farið á sama veg og hann úthrópaður nú um helgina fyrir heimskupör sín.

Eflaust er það eðlilegt að strákur á hans aldri lifi lífinu. Það hlýtur að vera leiðinlegt til lengdar að vera bundinn af hefðum og siðavenjum eldgamallar hirðar sífellt. Það þarf sterk bein til að þola góðu dagana eins og þá vondu. Ungir og hraustir menn hljóta að þurfa að stilla sig mjög til að geta höndlað þetta hlutskipti. Harry var ekki nema tólf ára þegar að móðir hans dó í París í skelfilegu bílslysi. Þau endalok höfðu mikil áhrif á hann, eins og hann hefur lýst sjálfur.

Hann hefur fetað í fótspor móður sinnar með mannúðarstarfi, rétt eins og bróðir hans, en þess á milli lifað hátt svo eftir hefur verið tekið. Hann hefur lifað í skugga fjölmiðla síðustu árin, rétt eins og móðir hans áður. Hún dó allt að því í myndavélablossa paparazzi-ljósmyndara eins og frægt er orðið og lifði fjölmiðlalífi. Báðir hafa bræðurnir verið hundeltir af fjölmiðlum og ágengni þeirra aukist ár frá ári eftir endalokin í París.

Þó að flestum þyki Harry Bretaprins að einhverju leyti merkilegur einstaklingur er fjölmiðlaáráttan í kringum þetta fólk farið yfir öll mörk. Það virðist ekki geta átt neitt einkalíf og varla má það hreyfa sig án þess að það sé dekkað í fjölmiðlum. Þetta hlýtur að vera þrúgandi og leiðigjarnt líf. Enda held ég að Harry sé ekkert villtari en margir aðrir jafnaldrar hans, þó breska pressan lýsi honum sem villtum ungum manni.


mbl.is Prins Harry biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lottóhamingjan í skugga kreppunnar

Vonandi hefur lottóvinningur kvöldsins farið á góða staði. Annars er staðan í þjóðfélaginu þannig að flestir væru í þörf fyrir tæpar 20 milljónir. Annars er það alltaf smekksatriði hverjir þurfa á slíkum fjárfúlgum að halda og hvar það verður virkilega að traustri fótfestu í lífið.

Hlýtur að hafa gríðarleg áhrif á lífsstandardinn að taka svona stóran pott og vonandi mun verða vel haldið utan um það. Vona að viðkomandi fylgi ekki algjörlega eftir lífsstandard Lýðs Oddssonar, lottóvinningshafa í túlkun Jóns Gnarr, í lottóauglýsingunum.

En annars; hvað varð um auglýsingarnar með Lýði. Þóttu þær ekki lengur vænlegar til að kynna lottóið í kreppunni? Verða kannski gerðar aðrar auglýsingar með honum til að sýna að hann hafi ekki farið vel út úr kreppunni?

mbl.is Þrír með allar tölur réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkleiki mótmæla og baráttuaðferðirnar

Ég er ekki hissa á því að mótmælin á Austurvelli séu fjölmennari en að undanförnu. Eftir fréttaflutning síðustu dagana af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og vinnulagið í Landsbankanum í gærkvöldi er eðlilegt að fólk sé reitt og tjái sig. Greinilegt var á netskrifum í dag að sumir mótmælendur á Austurvelli voru mjög ósáttir við að mótmælin höfðu misst damp og voru að verða sífellt fámennari og ómarkvissari. Á einni bloggsíðu sá ég hreinlega ákall um að fólk myndi mæta og styðja mótmælin.

Því er eðlilegt að eitthvað hafi fjölgað en kannski er þetta ekki mikill fjöldi sé miðað við stöðuna í samfélaginu. 10.000 væri virkileg breiðfylking í þessari stöðu. Sumir segja að það séu aðallega vinstri grænir sem fronta mótmælin, sérstaklega þeirra grímulausu. Við sáum að Steingrímur J. varð mjög vandræðalegur í Kryddsíldinni þegar Ingibjörg Sólrún beinlínis sakaði hann um að fronta þennan hóp og bakka hann upp, enda var einn þingmaður VG í áhlaupinu á lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Mér finnst greinilegt að flestir séu ósáttir núna við niðurskurðinn sem er að dynja á, einkum í velferðarkerfinu. Sú gremja er mjög skiljanleg. Sjálfur hef ég gagnrýnt harðneskjuna í þeim niðurskurði og enn er níðst á landsbyggðinni í þeim efnum. Slíkt ber að fordæma - því styð ég heilshugar málflutning þeirra sem tala gegn niðurskurðinum. Þar er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Mér finnst eðlilegt að fólk mótmæli. Munur er á þó á málefnalegum mótmælum, þar sem fólk kemur fram undir nafni og er ákveðið í sínum málflutningi, frekar en þeirra sem vilja ekki koma fram undir nafni og gengur þar með lengra en það myndi ella gera.

mbl.is Fjórtándi fundurinn á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason hættir sem ráðherra

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason hefur nú staðfest að hann er á útleið af ráðherrastóli og þetta sé síðasta kjörtímabil hans í stjórnmálum. Ég tel að eftirsjá verði af Birni. Hann hefur vissulega verið mjög umdeildur, enda alltaf tjáð skoðanir sínar óhikað og ekki verið í neinum vinsældaleik með stöðu sína, heldur látið verkin tala og farið sínar leiðir en ekki annarra. Slíkt ber að virða á þeim tímum þegar hugsjónalaust fólk verður sífellt meira áberandi í pólitík.

Björn hefur líka verið þekktur fyrir vinnusemi sína og heiðarleika. Vefsíða hans er eitt traustasta merki þeirrar vinnusemi, en hann ólíkt mjög mörgum stjórnmálamönnum hefur haldið úti vef af elju og ástríðu allt frá fyrsta degi á meðan að flestir aðrir hafa koðnað niður að loknum kosningum og hætt að skrifa. Ég held að sagan muni dæma vefsíðu Björns bestu íslensku stjórnmálavefsíðuna, enda dekkar hún langan og merkan feril og tíma í íslenskri sögu.

Björn hefur verið í stjórnmálum af lífi og sál eins og verk hans og netskrif sýna vel. Það hefur mátt treysta því að hann hafi skoðanir og láti í sér heyra um hitamál samfélagsins, á meðan að margir aðrir ráðherrar eru mun minna áberandi.

mbl.is Fullyrt að Björn hætti eftir landsfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar Tryggva afhjúpaðar - burt með Elínu

Ljóst er nú að Tryggvi Jónsson laug að landsmönnum um verk sín í Landsbankanum og tók fullan þátt í söluferli fyrirtækja til Baugs og tengdra aðila. Tryggvi reyndi að bera á móti þátttöku sinni og sagðist ekki hafa komið nálægt neinum á vegum Baugs síðan árið 2002. Kastljós flétti ofan af þeirri lygi og nú hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins sýnt með afgerandi hætti hvaða verkum Tryggvi sinnti og að hann var virkur aðili þessara mála innan Landsbankans. Þetta vissu reyndar flestir, enda tengingin augljós.

Kominn er tími til að henda út stjórnendum í Landsbankanum og taka þar duglega til. Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri, verður að taka pokann sinn sem allra fyrst og þeir sem enn eru eftir af yfirmönnum hinna liðnu tíma. Krafan er einföld: það verður að taka til svo bankarnir fái einhvern snefil af trausti landsmanna aftur. Þetta rugl gengur ekki lengur. Þeir sem voru í forystu Landsbankans með Tryggva á vaktinni verða að fara.

Væntanlega erum við bara rétt að sjá toppinn á spillingarfeninu. Nú verður allt að fara upp á borðið - gera verður upp hina sótsvörtu fortíð í bankakerfinu.

mbl.is Tryggvi hafði bein afskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bitlaus mótmæli marineruð í rauðri málningu

Mótmælin við utanríkisráðuneytið virðast hvorki hafa verið fjölmenn eða markviss. Kannski finnst einhverjum það samt táknrænt eða merkilegt að sletta rauðum lit á vinnustað formanns Samfylkingarinnar eða merkilegt. Má vera. Þetta eru greinilega grímumótmæli, í takt við þau sem eru að komast í tísku núna að því er virðist vera. Eigi þetta að teljast mótmæli gegn ástandinu við Palestínu geta þau varla talist sterk miðað við hversu heitar skoðanir eru á stöðunni þar.

Mjög mikið er talað um grímumótmælin og þá sem velja að tjá sig án þess að standa við skoðanir sínar. Sama hversu mikið þeir reyna að bera á móti því verður alltaf litið öðruvísi á tjáninguna þegar hún er nafnlaus en þegar fólk stendur með skoðunum sínum. Greinilegt er líka að þær stinga í stúf við það sem Hörður predikar. Þessi mótmæli án Harðar sýna vel að mótmælendur eru ekki sammála um aðferðir.

Hvað varðar þessi mótmæli skil ég þau ekki enda hafa ráðamenn hér fordæmt bæði Ísraelsríki og Hamas. Húsráðandi í utanríkisráðuneytinu hefur sérstaklega verið framarlega í flokki þar.


mbl.is Málningu slett á ráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Situr fólk virkilega heima með gjafabréfin?

Ég hélt að það þyrfti nú ekki að vara fólk við því að vera ekki með ónýtt gjafabréf heima og bíða með að innleysa það. Á þessum tímum þegar fyrirtæki eru að fara á hausinn, einkum verslanir sem sligast í vondri stöðu, blasir við að gjafabréfin verða að verðlausum pappír. Þeir sem eiga þannig heima hljóta að reyna að bjarga því sem bjargað verður núna og ná að fá eitthvað fyrir þann pappír.

Hef heyrt af nokkrum dæmum þar sem fólk átti inneignarnótu og gjafabréf og fékk ekkert fyrir það. Auðvitað er vont að sá verðmæti pappír verði á einni nóttu verðlaus en þeir sem eiga þannig eiga sem fyrst að reyna að ná einhverju út úr því, áður en staðan versnar, sem getur auðvitað gerst.

mbl.is Hætta á að gjafabréf brenni inni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Absúrdismi og mannamunur á borgarafundi

Ég er alveg hættur að skilja borgarafundina sem haldnir eru vegna kreppunnar. Þeir fóru vel af stað, en eru komnir út í móa. Absúrdismi og mannamunur standa upp úr eftir þann í kvöld. Þar var einn ræðumanna með grímu fyrir andlitinu og vildi ekki láta nafns síns getið, lét eins og hann væri staddur undir nafnleynd á spjallvef. Auk þess er greinilegt að ekki er sama hverjir tala á fundinum og reynt að hefta málfrelsi sumra því það sem þeir segja hentar mögulega ekki þeim sem halda fundinn.

Þetta bæði hlýtur að leiða til þess að fundurinn missir marks, enda munaði litlu að hann endaði í rugli. Mér finnst stórundarlegt að þeir sem ávarpa svona fund og eru væntanlega að tala fyrir einhverjum boðskap geti ekki komið fram undir nafni og tjáð skoðanir sínar óhikað með heiðarlegum hætti, en ekki með blammeringum og óábyrgu tali þar sem engin persóna er á bakvið. Reyndar finnst mér merkilegt hvað gríman er að verða mikil táknmynd hjá hópnum sem mótmælir án Harðar.

Enda er greinilegt að það eru að myndast tvær hreyfingar mótmælenda, annar sem hugsar með höfðinu og vill vera ábyrgur í orði og verki og svo þeir sem vilja ekki bera ábyrgð á mótmælunum og ganga skrefinu lengra - telja ekkert heilagt og kallar sig þegar glæpamenn. Þetta er merkilegur fylkingamunur. Hitt er svo undarlegt að þeir sem koma á fundinn til að tjá sig fái ekki að gera það, þegar allir vita hver viðkomandi aðili er. Þetta heitir mannamunur á góðri íslensku sagt.

Stóra málið í þessu öllu er að mótmælendur ganga ekki í takt. Þeir eru í nokkrum fylkingum og ganga misjafnlega langt, enda sumir í mótmælum af ábyrgð en aðrir af ábyrgðarleysi. Aðrir fá svo greinilega ekki að vera með, ekki nógu verðmætir. Þetta er að verða að absúrdisma í bestu mynd orðsins.

mbl.is Lá við að fundurinn leystist upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring stjórnmálanna

Varla er mikið að gerast í pólitíkinni í Frakklandi, á þessum örlagatímum, þegar aðalfréttin er hver sé barnsfaðir dómsmálaráðherra Frakklands. Kannski skiptir þetta máli fyrir einhverja, en hver er fréttin í þessu þegar alheimskerfið í efnahagsmálum brennur og miklar væringar í alþjóðastjórnmálum. Ég er ekki viss um að ég nennti að fylgjast með slíku dúllutali, séð og heyrt pólitík, ef hún gerðist hér. Hvar er forgangsröðin í umræðunni?

Hitt er svo annað mál að einhverjir eru uppteknir í því að velta fyrir sér hvort ráðherrann sé kannski að verða mágkona forsetans og vilji velta fyrir sér smáatriðunum í einkalífi hennar. Mér finnst samt svona pólitík innan í pólitíkinni ekki merkileg og eiginlega er þetta hluti af veruleikafirringu fortíðarinnar þegar fólk var að velta fyrir sér ómerkilegu hlutunum en gleymdi þeim merkilegu.

Við sjáum þetta vel hérna heima því við gleymdum okkur oft í smáatriðunum í einkalífi stjórnmálamanna og hvar þeir væru í glasi í kokteilboði og við hvern þeir skáluðu frekar en hugleiða aðalatriðin, undirstöður og lykilatriði samfélagsins. Þess vegna sváfum við á verðinum þegar allt fór á versta veg.

mbl.is Barnsfæðing vekur umtal í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vofir pólitísk feigð yfir heilbrigðisráðuneytinu?

Sú var tíðin að það jafngilti pólitískri feigð eða botnlausri ógæfu fyrir stjórnmálamann að taka við embætti heilbrigðisráðherra - vonlaust að höndla verkefnið, enda sparnaður sjaldan óvinsælli en í velferðarkerfinu. Þessu kynnist Guðlaugur Þór Þórðarson núna þegar hann þarf að skera niður tæpa sjö milljarða króna í krepputíð og þarf að taka á sig auknar óvinsældir. Sá sem er með svo stóran niðurskurðarhníf á lofti uppsker ekkert í staðinn nema botnlausar óvinsældir og allt að því hatur landsmanna sem sjá skrattann sjálfan í ráðherranum.

Forðum daga var þetta svipað. Hver man ekki eftir Sighvati Björgvinssyni sem var blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði í Viðeyjarstjórninni í upphafi tíunda áratugarins og barðist þar gegn nunnunum í Landakoti og fleirum þekktum postulum í velferðarkerfinu. Hann varð óvinsælasti maður landsins á einni nóttu í hlutverki sínu. Guðmundur Árni Stefánsson kom eins og kratariddarinn á hvíta hestinum inn í heilbrigðisráðuneytið úr bæjarstjórastólnum í Hafnarfirði og tók til við að sveifla niðurskurðarhnífnum. Hann endaði á kafi í drullupolli á mettíma.

Og hver man ekki eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, sem þrátt fyrir að takast að höndla erfiða tíma í ráðuneytinu, bugaðist í önnum sínum og hneig niður í beinni sjónvarpsútsendingu. Hún var örvinda og búin á því og hætti í pólitík skömmu síðar, fór heim til að baka og elda fyrir strákana sína eins og margfrægt var. Fékk nóg. Ekki megum við heldur gleyma að sumir hafa höndlað verkefnið, en flestir þeirra hafa verið í ráðuneytinu á góðum tímum og komist hjá því að skera niður.

Og nú er Gulli kominn í þetta hlutverk. Brátt verður hann blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurðinum og örugglega hataður og úthrópaður fyrir miskunnarleysi og skuggalega óvægni gegn þeim sem minna mega sín. Hver verða pólitísk örlög hans í þeim ólgusjó?

mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmenningarleg slagsmál í Hlíðunum

Enn einu sinni heyrum við í fréttum af fjölmenningarlegum slagsmálum á milli hópa útlendinga í Reykjavík. Vissulega er til of mikils ætlast að allir þeir innflytjendur sem hingað koma séu hvítþvegnir englar en það verður að taka á málum þeirra sem ráðast að öðru fólki og standa að klíkumyndun til að vega að öðrum innflytjendum eða fara fram með hreinu ofbeldi, hvort sem það er til að níðast á öðrum hópnum eða þær séu báðir jafnsekir um ofbeldið.

Mér finnst þetta mjög dapurleg þróun og á henni verður að taka með öllum tiltækum ráðum. Sjálfsagt er að bjóða innflytjendur velkomna til landsins og það ber að varast að dæma þá alla eftir svörtu sauðunum í hópi þeirra. En því er ekki að neita að þetta er ekki góð þróun - það er að verða einum of mikið af ofbeldisverkum sem tengja má við innflytjendur.

Leitt er ef borgarhverfin breytast í Harlem vegna innbyrðis átaka innflytjenda og færir okkur inn í annan menningarheim en við þekkjum og viljum örugglega ekki horfa þegjandi á í nærmynd.


mbl.is Hópslagsmál í Lönguhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni yfirgefur Framsóknarflokkinn

Úrsögn Bjarna Harðarsonar, fyrrverandi alþingismanns, úr Framsóknarflokknum koma ekki að óvörum eftir sviptingar síðustu mánuði innan flokksins en eru vissulega stórtíðindi. Bjarni var jú afgerandi fulltrúi gömlu fylkinganna í flokknum og talaði fyrir þeim gildum sem einkenndu Framsóknarflokkinn í gamla daga - var boðberi þess að halda í andstöðuna gegn ESB og vildi hafa Framsókn uppi í sveit. Þetta eru tímamót að því marki en kannski er þetta lokapunktur þess sem vitað var að myndi gerast.

Svo er það spurning hvort Bjarni yfirgefur flokkinn eða hann hefur yfirgefið hann. Væntanlega er það mitt á milli en greinilegt er á öllu að Framsókn tekur miklum breytingum í sviptingum næstu vikna, sem nær hámarki með kjöri nýs formanns Framsóknarflokksins í lok næstu viku.


mbl.is Bjarni sagði sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna hylja mótmælendur andlit sín?

Mér finnst allt í lagi að fólk tjái skoðanir sínar og mótmæli málefnalega og með boðskap og hafi einhvern tilgang að markmiði. En hvers vegna hylur það andlit sitt. Hvaða yfirlýsing er það að fela sig og vilja ekki tjá sig einbeitt og ákveðið undir nafni og númeri? Mér finnst þetta rýra annars ágæt mótmæli í dag, mótmæli sem loksins er beint að réttum aðilum.

mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband