11.1.2007 | 16:33
Hörð skot á milli Kristjáns Þórs og Jóhannesar

Fullyrti Jóhannes að samningurinn hefði verið gerður án vitundar Jakobs Björnssonar, fyrrum bæjarstjóra, sem var leiðtogi flokksins fram til kosninganna í fyrravor. Jóhannes, sem var bæjarfulltrúi flokksins á síðasta kjörtímabili í meirihluta flokkanna, fullyrðir að hann hafi ekki vitað um málið og sama segir Gerður Jónsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknar, sem var ennfremur í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili, en féll í kosningunum í fyrravor. Kristján Þór vísaði þessu á bug á fundinum og sagði að Jakob hefði vitað um málið. Fluttu þeir harðorðar ræður gegn hvorum öðrum á fundinum.
Rætt var um málið á fundi bæjarráðs í morgun, að fjarstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni, en hann situr nú ekki lengur fundi bæjarráðs, enda ekki lengur bæjarstjóri og ekki bæjarráðsmaður af hálfu Sjálfstæðisflokks. Þar var rammasamningurinn endanlega staðfestur í ljósi afgreiðslu á deiliskipulagsbreytingum á sundlaugarsvæðinu á þriðjudag. Jóhannes lagði þar fram harðorða bókun gegn samningnum. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, og bæjarfulltrúar flokksins í bæjarráði; Elín Margrét Hallgrímsdóttir, varaformaður bæjarráðs, og Hjalti Jón Sveinsson svöruðu með ályktun þar sem þau vísa á bug að rammasamningurinn sé ólöglegur.
Deilur um málið hafa verið nokkrar í bænum og sundfélagið Óðinn haldið úti harðri baráttu gegn því að byggt sé á reitnum og skiptar skoðanir meðal bæjarbúa. Sitt sýnist hverjum. Það verður fróðlegt að sjá hverjir eftirmálar verða, en sundfélagið hefur látið í veðri vaka að kæra það að byggt verði á þessum reit og að afgreiðslan hafi verið óeðlileg á sínum tíma. Átök verða því áfram um málið þó það hafi verið afgreitt af bæjarstjórn og bæjarráði í vikunni.
11.1.2007 | 15:02
Jökulkalt stríð á milli Samfylkingar og VG

Ingibjörg Sólrún kipptist við þessi tíðindi eins og sjá mátti í þættinum. Það er alveg greinilegt að hjá VG er ekkert lengur til sem heitir viðurkenning á yfirburðum Samfylkingarinnar á vinstrivængnum. Þar horfa menn til þess að VG hefur verið í sókn. Ef marka má kannanir nú myndi VG enda bæta við sig tíu prósentustigum en Samfylkingin droppa um svipað magn prósenta. Það eru stórtíðindi að Samfylkingin sé nú að mælast með aðeins 15 þingsæti og frekar veika stöðu. Samfylkingin er enda minni en VG í tveim kjördæmum nú, jafnstór þeim í einu kjördæmi, og minnst allra flokka í einu kjördæmi. Vond staða það fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.
Í byrjun vikunnar pantaði Ingibjörg Sólrún viðtöl á báðum sjónvarpsstöðvum og fór með bölbænir til handa krónunni og tók af skarið um að Samfylkingin vill taka upp evru. Væntanlega mun þá Samfylkingin gera Evrópumálin að kosningamáli, eða hvað? Hún þorði því ekki síðast með ISG sem forsætisráðherraefni og yfirformann yfir Össuri eins og flestir muna væntanlega vel. Það hlýtur að hafa orðið henni áfall ð strax eftir þessi komment kemur Steingrímur J. Sigfússon fram í hádegisfréttum Útvarps í dag með þá yfirlýsingu að allt tal um að taka upp evruna sem lausn á núverandi hagstjórnarvanda hér á landi sé út í loftið.

Pirringurinn milli aflanna sést langar leiðir. Ofan á allt sem sést hefur fyrr blasir við að VG sé að færa Ögmund yfir í kragann til að hjóla í Samfylkinguna vegna stækkunar álvers Alcan. Litlir kærleikar verða þar milli flokkanna. Það má sjá langar leiðir. Tilfærsla Ögmundar, sem verið hefur þingmaður Reykvíkinga í tólf ár í kragann segir allt sem segja þarf, enda hefur hann aldrei tekið þátt í neinu flokksstarfi á kragasvæðinu eða verið fulltrúi flokksins þar. Það bendir margt til þess að umræðan um stóriðju og átök Ögmundar og Gunnars Svavarssonar, leiðtoga Samfylkingarinnar í kraganum, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, verði áberandi þar nú á næstunni.
Það verður gaman að sjá hversu heitt kaffið verður í kaffibandalaginu er til kjördags kemur og stjórnarmyndunarviðræðna falli sitjandi ríkisstjórn. Það verður væntanlega freistandi fyrir vinstriöflin að gleyma hvoru öðru og horfa til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um vist í tveggja flokka sterkri ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2007 | 14:02
Back to the Future

Ég fann semsagt hjá mér þörf að kaupa safnið og rifja myndirnar upp. Það var alveg gríðarlega nostalgíuleg upplifun að mörgu leyti. Ég var t.d. að sjá aðra myndina í flokknum í fyrsta skiptið í heilan áratug. Skemmtilegast fannst mér að upplifa þriðju myndina aftur, en hún var enn betri en mig minnti. Sú fyrsta er þó þeirra allra best og eldist best. Í raun má segja að pakkinn allur hafi elst furðanlega vel og standist tímans tönn með sóma. Þó verð ég að viðurkenna að framtíðarsýn annarrar myndarinnar á árið 2015 lítur furðulega út með árið handan við hornið.
Ég hef alltaf verið hrifinn af ævintýramyndum með vott af raunveruleika. Þó fíla ég Star Wars-safnið mjög vel og hafði gaman af að upplifa það aftur á DVD fyrir nokkrum árum. Sama var með Indiana Jones. Allt eru þetta myndir sem eru klassíker, hver á sinn hátt vissulega. Back to the future er svona hluti af eighties-fílingnum finnst mér. Ég datt alveg um leið inn í gamla tíma er ég sá fyrstu myndina rétt fyrir áramótin og á nýársdag var gaman að gleyma skaupinu og njóta myndar tvö, sem er skemmtilega flippuð. Þriðja myndin er klassíker ástarsaga, hugljúf og yndisleg. Allt eðalmyndir.
Það var gaman að rifja þær upp. Maður er ekki kvikmyndafikill fyrir ekki neitt sko.
11.1.2007 | 00:21
Hvað gerist í málum Árna Johnsen?

Flokksfélög hafa ályktað gegn því að Árni verði ofarlega á lista og fjöldi flokksmanna hefur tjáð sig gegn framboði Árna á bloggsíðum og á öðrum vettvangi. Margir í Suðurkjördæmi hafa stutt Árna og þeir veittu honum annað tækifæri í þessu prófkjöri. Er á hólminn kemur ráðast örlög þessara mála á kjördæmisþingi, en þar kemur vilji flokksmanna í æðstu trúnaðarstöðum og ábyrgðarverkefnum fram með afgerandi hætti. Það verður þeirra að taka afstöðu til þess hvort Árni fari fram í þeirra nafni.
Eins og ég hef áður bent á er Árni Johnsen að fara fram í nafni Sjálfstæðisflokksins fari hann að nýju í sæti á framboðslista sem gefur öruggt þingsæti. Áhrif þessa munu sjást stað víðar en bara í Suðurkjördæmi. Þetta vita flokksmenn um allt land mjög vel og margir óttast áhrif þessa framboðs. Nýjastu skoðanakannanir Gallups hafa sýnt vel að þetta mál mun ekki verða gott ofan á allt annað fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að lokum eins og allir aðrir slíkir fyrir þessar þingkosningar. Verði Árni Johnsen staðfestur í annað sætið á kjördæmisþingi verður fróðlegt að sjá hvað gerist í miðstjórn flokksins í þessu máli. Niðurstöðu er að vænta með þennan lista eins og fyrr segir bráðlega. Vilji flokksmanna í Suðurkjördæmi skiptir vissulega máli í þessu efni, en þar ákveður innsti kjarni flokksins endanlega skipan síns lista.
Ég hef oft sagt mínar skoðanir á því hvað sé best fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu svokallaða Árnamáli þó búast megi við að það verði flokknum erfitt sama hvernig því lýkur er á hólminn kemur.
10.1.2007 | 18:23
Bleikar áherslur í bæjarmálunum á Akureyri

Fáum hefði væntanlega órað fyrir því er Sigrún Björk tók sæti í bæjarstjórn fyrir fimm árum að hún yrði eftirmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar á bæjarstjórastóli, er hann hættir eftir tæpan áratug, nokkuð litríkt tímabil vissulega. Það er gott mál að mínu mati að kona stýri nú bænum. Það er ánægjulegt að upplifa aðra tíma, sem því munu eflaust fylgja, í forystu bæjarins. Ég er þess fullviss að Sigrún Björk muni verða öflugur og góður bæjarstjóri sem þorir að gera hlutina með afgerandi hætti. Hún er týpan sem við þurfum á að halda.
Ég er mjög ánægður með þessar breytingar og tel þær styrkja Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri á komandi árum. Flokkurinn fær ferskari og aðra ásýnd með Sigrúnu Björk sem bæjarstjóra. Það er enda fyrir löngu kominn tími til að kona taki við embættinu. Níu forverar Sigrúnar Bjarkar eru mjög ólíkir karakterar og misterkir á bæjarstjórastóli. Lengst af var bæjarstjóraembættið hér embættismannastaða. Frá árinu 1994 hefur bæjarstjórinn verið um leið stjórnmálamaður með sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Fagna ég því, enda hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að einstaklingur með umboð bæjarbúa eigi að gegna embættinu. Jakob, Kristján Þór og Sigrún Björk hafa öll þann bakgrunn.
Allra augu hljóta nú að beinast að því hvernig að meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni ganga næstu þrjú árin, fram til næstu kosninga. Sumt hefur gengið vel hjá þessum meirihluta, annað verið gloppótt og vandræðalegt. Helgast það sumpart af því að Sigrún Björk bæjarstjóri og forveri hennar eru einu bæjarfulltrúar meirihlutans sem áttu sæti í bæjarstjórn fyrir síðustu kosningar. Staða mála mun velta nú á leiðtogum meirihlutans, Sigrúnu Björk bæjarstjóra og Hermanni Jóni formanni bæjarráðs, sem áætlað er að verði bæjarstjóri í júní 2009.
Þrír bæjarstjórar verða á Akureyri út kjörtímabilið starfi meirihlutinn þann tíma og ef marka má málefnasamning flokkanna. Það verða því aðrir tímar hér á næstunni en var á níu ára öflugum bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar. Nú þegar að hann yfirgefur forystuhlutverkið í Ráðhúsinu beinast því allra augu að þeim sem taka við og sérstaklega konu bleiku áherslnanna sem tekur nú við keflinu af Kristjáni Þór.
Ég vona að hún setji mark á embættið og verði sá sterki og öflugi leiðtogi sem markar grunn að góðum sigri Sjálfstæðisflokksins hér árið 2010. Með nýjum tímum koma alltaf ný og öflug tækifæri. Þau þarf að nýta. Söguleg innkoma fyrsta kvenkyns bæjarstjórans hlýtur því að verða Sjálfstæðisflokknum heilladrjúg.
(áður birt á akureyri.net 9. janúar 2007)
![]() |
Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyrar fyrst kvenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 17:58
Föðurtún
En er ég kom sem barn til byggða heim,
þá barst mér það til eyrna fyrr en varði,
að horfinn væri úr hópnum einn af þeim,
sem hjartað þráði mest í föðurgarði.
Og alltaf falla fleiri mér kærir í þann val,
og fram hjá streyma ár, og dagar hverfa,
og gömlum bæjum fækkar fram í dal,
en fremstu nafir holskeflunnar sverfa.
Ef finn ég anga föðurtúnin græn,
þá fagnar vori hjartans dýpsti strengur.
En það skal vera þökk mín öll og bæn,
og þó ég deyi, skal hann óma lengur.
Þá birtist mér í heiðri himinlind
öll horfin fegurð, er ég man og sakna.
Er geisladýrðin gyllir fjöll og tind,
skal gleði mín í fólksins hjörtum vakna.
Því get ég kvatt mín gömlu föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir lýkur,
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.
Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Föðurtún)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2007 | 16:16
Carlo hennar Sophiu Loren deyr
Carlo Ponti er látinn. Í hálfa öld var þessi heimsþekkti kvikmyndagerðarmaður mun frekar þekktur fyrir að vera Carlo hennar Sophiu Loren en annað. Sophia Loren er ein eftirminnilegasta leikkona kvikmyndasögunnar og án nokkurs vafa þekktasta kvikmyndaleikkona Evrópu síðustu áratugina. Líf hennar og Carlo Ponti hefur verið í miðpunkti slúðurblaða og umtals almennings allt frá fyrsta degi. Þau voru gift í fimm áratugi, giftust þegar að Sophia var 23 ára gömul og hann var 22 árum eldri en hún.
Svo sannarlega umdeild sambúð og hjónaband og það var í kastljósi fjölmiðla nær alla tíð vegna aldursmunar og að því er flestum fannst ólíks bakgrunns þeirra. Það hefur alla tíð vakið athygli að Sophia valdi frekar að giftast Ponti en taka saman við leikarann heimsþekkta Cary Grant, en öllum hefur verið ljóst að hún var stóra ást ævi hans. Ástaratlot þeirra og umdeilt samband var lengi eitt óljósasta ástarsamband kvikmyndasögunnar. Sjálf talaði hún opinskátt um þessa hluti í viðtali fyrir nokkrum árum og sagði þá að mjög litlu hefði munað að þau hefðu tekið saman.
Allir sem sjá kvikmyndina Houseboat nokkru sinni sjá þar chemistry-ið á milli Sophiu og Cary. Ekki aðeins er það ein besta mynd beggja heldur leikur enginn vafi á því að sambandið var meira en bara sýndarmennska tveggja leikara í kvikmynd. Persónulega hef ég alla tíð metið Sophiu Loren mjög mikils. Stórfengleg óskarsverðlaunaframmistaða hennar í kvikmyndinni La Ciociara (Two Women) færði henni endanlega frægð og stöðu í kvikmyndabransanum og telst hennar besta stund í kvikmyndum. Ein sterkasta túlkun leikkonu í kvikmyndasögunni og hún varð fyrsta (enn sú eina) leikkonan sem hlaut óskarinn fyrir að tjá sig á öðru máli en ensku.
Fyrir reyndar aðeins nokkrum dögum sá ég enn og aftur eina litríkustu mynd hennar. Ieri, Oggi, Domani (Yesterday, Today, and Tomorrow) er ein sterkasta ítalska mynd sem ég hef séð utan Cinema Paradiso, Fellini-myndanna og El Ciociara. Þar leikur Sophia þrjú hlutverk og á gríðarlega flottan samleik með Marcello Mastroianni, sem í áratugi var einn besti leikari Ítala og mikill persónulegur vinur Sophiu og þau léku oft saman á löngum ferli. Þrjár flottar sögur um þrjú pör sem þau túlka öll. Alltaf hægt að hlæja að henni og hún er eilífur gleðigjafi.
Sophia Loren hefur alla tíð verið áberandi í kvikmyndaheiminum og í dægurtali almennt, enda verið áberandi á mörgum vettvöngum, utan leiklistar var hún þekkt fyrir matseld og ilmvötnin sín svo fátt eitt sé nefnt. Litrík ævi er sennilega rétta orðið yfir ævi hennar og Carlo Ponti. Ponti var áberandi kvikmyndaframleiðandi á löngum starfsferli. Sennilega er La Strada (mynd Fellinis) eftirminnilegust þeirra mynda sem hann kom að, en sú mynd hlýtur að teljast ein besta mynd Ítala í áratugi.
![]() |
Carlo Ponti látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2007 | 15:10
Oddur Helgi styður Sigrúnu Björk

Það hefur verið gaman fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn að spá og spekúlera í pólitík og starfsháttum Odds Helga sem bæjarfulltrúa allt frá því að hann bauð fram Lista fólksins árið 1998 og klauf Framsóknarflokkinn, sem aldrei hefur borið sitt barr síðan og er nú t.d. hornreka flokkur í bæjarmálunum, sem er söguleg staða. Oddur Helgi hefur tryggt að hver bæjarstjórnarfundur er jafnan skemmtun og hefur þorað að vera öðruvísi en allir aðrir og segja hlutina með allt öðrum hætti. Þó að ég sé oft ósammála honum finnst mér gaman af Oddi Helga, heilt yfir.
Oddur Helgi varð fyrir áfalli í fyrra er Listi fólksins varð minnst flokka í bæjarstjórn Akureyrar. Með því missti Oddur Helgi vægi sitt sem bæjarráðsmaður og nefndavægi sitt umtalsvert. Hann er nú bara áheyrnarfulltrúi í bæjarráði og er mun minna áberandi í ljósi þess í nefndakerfi bæjarins. Hann er þó ekki minna áberandi á bæjarstjórnarfundum og passar ávallt upp á að halda meirihlutanum við efnið. Þó að hann sé stundum spes og þorir að vera á móti er hann þó trúr sínu og getur verið með góð komment og pælingar. Það er alltaf þörf á nýjum vinklum í umræðuna og það er alltaf þarft að minnihlutinn sé beittur og afgerandi. Þó Oddur Helgi sé minnstur afla í minnihlutanum finnst mér hann samt beittastur allra fulltrúa þeirra.
Í ljósi alls er því merkilegt að Oddur Helgi hafi greitt bæjarstjóranum á Akureyri atkvæði sitt og það sýnir bara heilindi hans að þora að vera sammála verkum og forystu meirihlutans. Það er merkileg staða og mjög góð, heilt yfir séð.
10.1.2007 | 11:45
Umræðan um Magna og Barnaland

Það er heilt yfir mjög spes menning á þessum vefum og lögmálið oft ansi villimannslegt þar. Það er svona spes stemmning. Þetta upplifði ég þegar að ég skrifaði á málefnin á sínum tíma og var þar sem virkastur. Þar sem að ég notaði mitt nafn var ég ekki í skjóli nafnleyndar og var því viðkvæmari staða en ella enda gátu þá nafnleysingjar ráðist að mér með hvassari hætti vegna þess að allir vissu hver ég var. Kippti mér svosem ekkert upp við það, enda fannst mér betra að skrifa undir nafni.
Það er alltaf tvennt ólíkt að skrifa undir nafni og svo sem nafnleysingi. Þegar að engin slóð er til baka, nema frá vefstjóra sem hefur gögn um slíkt undir höndum, er skotleyfið oft mun víðara en ella. Það er list að geta skrifað með þeim hætti og ganga ekki of langt. Sumum tekst það aðdáunarlega vel og ekki eru það allir sem skrifa með bitrum hætti. En þetta er víst bara svona. Menning spjallvefanna er og verður alltaf spes. Barnaland er ekkert eitt um þessa menningu, en sennilega gengur hún þó lengst þar. Mórallinn í skrifunum þar er ansi bitur og gengur frekar langt.
En svona er þetta bara. Það er mikilvægt að hafa skoðun á þeim málum sem mest skipta og spjallvefirnir eru engin undantekning á því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2007 | 00:22
Dr. Hannibal Lecter snýr aftur

Hannibal er einhver óhugnanlegasta en um leið áhugaverðasta persóna spennubókmenntanna, þrátt fyrir sturlunina er hann enda fágaður fagurkeri. Nú er væntanleg ný kvikmynd byggð á skáldsögu eftir Harris vestanhafs, Hannibal Rising, sem á að gerast frá því að Hannibal er sex ára og enda er hann er um tvítugt. Í raun lýsir bókin þeim sálrænu breytingum sem urðu á honum sem mörkuðu ævi hans og örlög.
Ég á fyrri myndirnar um Hannibal; The Silence of the Lambs, Hannibal og Red Dragon. Allar þrjár hafa verið kvikmyndaðar. Fá orð þarf að hafa um fyrstnefndu myndina. Hún sló eftirminnilega í gegn árið 1991 og hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leik Hopkins og Jodie Foster í hlutverki alríkiskonunnar Clarice Starling, leikstjórn og handrit. Hún er aðeins þriðja myndin í sögu Óskarsverðlaunanna sem hlaut öll fimm aðalverðlaunin. Stórfengleg kvikmynd sem fangar áhorfandann algjörlega. Samleikur Hopkins og Foster var dýnamískur og myndin er fyrir margt löngu orðin klassík í kvikmyndasögunni.
Sálrænn þriller af bestu gerð og hann yfirtekur huga og hjarta áhorfandans alveg gjörsamlega. Stærsta afrek Hopkins sem leikara á löngum leikferli er að hafa tekist að færa okkur svo yngri Hannibal í myndinni Red Dragon árið 2002 (á að gerast mun fyrr) en þann sem hann túlkaði í Lömbunum með svo eftirminnilegum hætti. Auk þessara tveggja mynda er kvikmyndin Hannibal, sem var gerð ári á undan Red Dragon. Þar er sagan sögð eftir Lömbin. Sterk mynd að mörgu leyti en stendur hinum að mörgu leyti að baki. Hún er samt gríðarlega fáguð og færir okkur aðra sýn á karakterinn.
Hannibal er margflókinn karakter í lýsingu Thomas Harris, allt að því skelfilega brenglaður einstaklingur sem hefur á sér blæ fágaðs veraldarmanns. Fyndin blanda. Hopkins gerði honum alveg frábær skil í þessum myndum. Þetta er hlutverk leikferils Hopkins. Það voru merkileg örlög þessa gamalgróna Shakespeare-leikara að enda í hlutverki víðsjárverðrar mannætu. Ótrúlega sterkur karakter-leikari. Hlakkar til að sjá myndina og sjá meira af ævi Hannibals. Einn veigamesti þátturinn sem hefur vantað í þessa margflóknu sögu er kaflinn um uppvaxtarár Hannibals. Allir sem lesið hafa bækurnar hafa séð hversu miklu meira brútal Hannibal er í bókunum en í myndunum.
Ég eins og svo margir aðrir sá fyrst karakterinn í kvikmyndinni árið 1991 en las svo bókina. Það er gengið mun lengra þar og þær eru óvægnar lýsingar á sálarástandi Hannibals og hversu vægðarlaus hann var. Þessi mynd mun sýna okkur betur úr hverju hann er gerður sálarlega, hverjar voru aðstæður hans í æsku og hvernig hann varð þessi sálarháski sem hann að lokum varð. Þetta er enda svona svipað og að reka það hvernig að Svarthöfði varð að skepnu.
En þetta minnir mig á það að ég verð að fara að horfa aftur á The Silence of the Lambs. Mér finnst sú mynd alltaf stingandi skemmtileg.
![]() |
Ný mynd um Hannibal Lecter væntanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 18:07
Sigrún Björk bæjarstjóri - tímamót í bæjarmálum

Sigrún Björk er tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og er fyrsta konan sem gegnir embættinu. Hún hefur átt sæti í bæjarstjórn Akureyrar frá kosningunum 2002 og varð forseti bæjarstjórnar í stað Þóru Ákadóttur í kjölfar kosninganna vorið 2006. Hún var formaður menningarmálanefndar og Akureyrarstofu 2002-2007 og var varaformaður bæjarráðs þar til í dag. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, verður nú varaformaður bæjarráðs og framkvæmdaráðs og formaður Akureyrarstofu, auk þess að vera formaðu skólanefndar.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er fædd 23. maí 1966. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers.
Leiðtogaskipti hjá okkur sjálfstæðismönnum í bæjarmálum eru mikil tímamót fyrir okkur sem höfum unnið í félagsstarfi flokksins, en við höfum leitt bæjarmálin í tæpan áratug. Kristján Þór Júlíusson var allan sinn bæjarstjórnarferil mjög áberandi í sínum verkum og verið afgerandi leiðtogi. Brotthvarf hans sem leiðtoga boðar nýja tíma í bæjarmálunum, en hann heldur áfram í bæjarmálum en á öðrum vettvangi þar. Hann mun nú taka við stjórn bæjarstjórnarfunda og verða forystumaður bæjarstjórnarinnar. Flestum sjálfstæðismönnum er þakklæti í huga í garð pólitískrar forystu Kristjáns Þórs á þessum tímamótum, en hann hefur fært okkur öfluga forystu og leitt okkur til góðra sigra.
Ég vil óska nýjum bæjarstjóra, góðri vinkonu og öflugum samherja í innra starfi flokksins hér um langt skeið, til hamingju með merkan áfanga. Við sjálfstæðismenn á Akureyri erum stoltir að því að fyrsta konan sem verður bæjarstjóri sé úr Sjálfstæðisflokknum. Í þessu felast tímamót í bæjarmálunum - auk þessa eru enn ein tímamótin sem verða með kjöri Kristjáns Þórs sem forseta bæjarstjórnar, en hann er fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem tekur við því embætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2007 kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 12:42
Rimma Magna við kjaftasögurnar

Skrautlegt spjallsvæðið á Barnalandi er eflaust eitthvað sem flestir hafa skoðun á, sérstaklega núna þessa dagana vegna þessa máls. Ég skrifaði smá um það hérna í gær. Fékk ég eftir það góð komment og svo tölvupósta þar sem margir er lesa þar og skrifa daglega sögðu sínar skoðanir, bæði blótuðu spjallsvæðinu og lofuðu það. Merkilegt mál. Sitt sýnist hverjum yfir þetta spjallsvæði.
Öld kjaftasagnanna hefur lengi verið við lýði hér á Íslandi. Það er ekkert nýtt. Annars er það kostulegt oft hvað saga getur breyst í meðförum fólks, margfaldast og orðið önnur meiri. Gróa lifir víst enn góðu lífi.
![]() |
Magni býr sig undir langt tónleikaferðalag um Bandaríkin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2007 | 11:08
Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra

Það er alveg ljóst að leiðtogaskiptin innan Sjálfstæðisflokksins marka nokkur þáttaskil í bæjarmálunum. Kristján Þór hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í áratug og verið bæjarstjóri frá 9. júní 1998. Sigrún Björk varð önnur í prófkjöri flokksins í febrúar á síðasta ári og hlaut ein, utan Kristjáns Þórs, bindandi kosningu þar. Hún hefur setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar og verið áberandi í öllu flokksstarfinu hér.
Það er að mínu mati mikið gleðiefni að Sjálfstæðisflokkurinn eigi fyrsta kvenkyns bæjarstjórann í sögu Akureyrar. Þetta er því merkilegur dagur í bæjarmálunum hér. Kristján Þór Júlíusson tekur við sem forseti bæjarstjórnar samhliða því að hann víkur sem bæjarstjóri. Uppstokkun verður á nefndum og ráðum. Hjalti Jón Sveinsson, bæjarfulltrúi, tekur sæti Sigrúnar Bjarkar í bæjarráði og Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og verður formaður stjórnar Akureyrarstofu, auk þess að gegna formennsku í skólanefnd.
Þetta er stór dagur í bæjarmálunum. Sigrún Björk Jakobsdóttir verður tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og fyrsta konan. Því fylgja mikil tímamót. Ég vil óska Sigrúnu Björk Jakobsdóttur innilega til hamingju með embættið. Við höfum átt langt samstarf í flokksstarfinu hér og unnið saman í mörgum verkefnum. Ég þekki hana því vel og veit því vel að hún á eftir að verða mjög áberandi og öflug í þessu krefjandi verkefni.
Sigrún Björk var í góðu viðtali hjá morgunhönunum Gesti Einari og Huldu Sif hér á Akureyri í morgun. Bendi lesendum á að hlusta á viðtalið.
![]() |
Nýr bæjarstjóri tekur við á Akureyri í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2007 | 08:56
Mun Al Gore snúa aftur?

Eins og flestir vita er forsetakjörið í Bandaríkjunum kosning á kjörmönnum fylkjanna. Þeir sem sigra í sem flestum fylkjum hljóta Hvíta húsið. 270 kjörmenn þarf til að hljóta hnossið. Í 36 daga börðust Gore og Bush hatrammlega eftir kjördag fyrir því að hljóta 25 kjörmenn Flórída-fylkis. Þar réðust örlögin. Gore var framan af örlagaríkri kosninganótt spáð sigri þar. Allar stóru fréttastöðvarnar hlupu á sig og urðu að bakka frá spádómnum. Bush hlaut fylkið er á hólminn kom en með nær engum teljanlegum mun. Flórída varð fylki örlaganna í kosningunum.
Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt og reyndi að hnekkja staðfestum úrslitum í fylkinu og krafðist algjörrar endurtalningar allra atkvæðaseðla. Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum, árin 1986-2005. Gore fór sár af velli átakanna. Naumari gat tapið ekki orðið.
Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála. Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal.
Nixon tókst að eiga sér endurkomu. Hann gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968. Framan af benti flest til þess að keppinautur hans í kosningunum yrði Robert F. Kennedy, bróðir Kennedys forseta, sem sigraði Nixon átta árum áður. Það hefði orðið söguleg rimma og athyglisverð. Af henni varð ekki. Kennedy var myrtur í Los Angeles eftir forkosningasigur í júní 1968 með sama sjónræna skelfilega hættinum í kastljósi fjölmiðlanna og bróðir hans fimm árum áður. Keppinautur Nixons varð Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar. Nixon vann kosningarnar naumlega. Forsetaferill hans varð stormasamur en honum tókst að ná endurkjöri árið 1972.
Richard Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins árið 1974, fyrstur forseta í sögu landsins. Það voru söguleg endalok en forsetaferill hans lamaðist vegna þessa umdeildasta pólitíska hneykslismáls sögunnar. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála. Þau féllu þó öll í skugga pólitískra endaloka hans, en valdaferlinum lauk með skömm.
Al Gore er sagður vera að hugsa stöðu sína. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 00:39
Áhrif myndsímans í kjölfar aftöku Saddams

Fyrra myndskeiðið hafði úrslitaáhrif á umræðu meðal almennings gegn aftökunni og dauðarefsingum almennt. Flestir fylltust óhug við að sjá það myndefni sem umheimurinn sá innan við sólarhring eftir aftökuna. Þar sáu allir jarðarbúar aftökuna með raunsæjum og afgerandi hætti, ljóslifandi með vondum myndgæðum en afgerandi áhrifum. Myndsíminn færði kaldhæðnislega síðustu skilaboð Saddams í lifanda lífi. Merkileg endalok það. Það voru eflaust ekki þau skilaboð sem að var stefnt að færa umheiminum.
Hefði umheimurinn aðeins séð klippuna sem stjórnvöld dreifði hefði umræðan orðið önnur en ella varð. Þessi afgerandi vitnisburður aftöku Saddams telst væntanlega þýðingarmesta myndsímaupptakan til þessa. Ofan á allt annað var ógeðfellt að sjá og heyra orðaskipti böðlanna og Saddams áður en sá síðarnefndi fór niður gálgann og snaran hertist um háls hans. Það er óviðunandi andrúmsloft sem þar blasti við og þessi aftaka fékk á sig blæ hefndar en ekki réttlætis í kjölfar dóms. Þessi myndsímaupptaka varð mun raunsærri útgáfa af sannleikanum eins og hann var á þessum vettvangi.
Upptaka aftökunnar í gegnum myndsímann höfðu þau áhrif að andi stundarinnar var fangaður á mynd. Vissulega var klippan gróf og ógeðsleg, en hún sýndi óásættanlegt andrúmsloft við aftöku. Hún breytti umræðunni í kjölfar dauða Saddams. Á því leikur enginn vafi. Það er reyndar umhugsunarefni að tvær myndklippur teknar á myndsíma frá þessu augnabliki dauða Saddams séu til og leiðir hugann að því hvernig staða mála var á þessum stað í Bagdad er einræðisherrann fyrrverandi dó með sama hætti og mörg fórnarlömb valdatíðar hans.
Enginn efast lengur um áhrifamátt myndsímans eftir þetta. Svo mikið er víst.
![]() |
Nýtt myndband af líki Saddams birt á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 19:46
Lítilfjörlegir spjallheimar barnalands

Það leikur lítill vafi á því að heiti vefsins er mikið rangnefni á þeim vettvangi. Að spjallvefur með svona yfirbragð og innihald gangi undir heitinu barnaland er þónokkuð umhugsunarefni. Það þarf ekki sérfræðing í netmálum til að finnast lítið til um umræðurnar þar koma og í raun merkilegt að spjallvefurinn gangi enn eftir allan þennan tíma og umræðuna um innihald hans undir þessu nafni. Spjallvettvangur Barnalands hefur lengi verið umdeildur og breyta þessi skrif um Magna og einkalíf hans engu þar um svosem, það hefur lítið batnað yfir þar í gegnum tímans rás.
Spjallvefir af þessu tagi eru annars oft athyglisverður vettvangur umræðu á netinu. Ég hef fylgst lengi með spjallvefunum og var til nokkurs tíma virkur notandi þeirra. Ég skrifaði bæði á innherjavefinn og málefnin.com um tíma, en lít orðið einu sinni til tvisvar á dag (hámark) á málefnin. Það er oft ágæt umræða svosem þar, sumir kunna þá list að geta skrifað yfirvegað og farið yfir málin undir nafnleynd. Mun fleirum er það ekki nógu tamt og úr vill æði oft verða níð og rógur um nafngreint fólk og almennt skítkast. Það er fylgifiskur umræðu af þessu tagi því miður, og hefur sá menningarheimur ekki batnað mikið að mínu mati. Það er eins og það er bara eflaust.
Mér finnst margt á barnalandi vera frekar lítilfjörlegt. Margt af því skýrir sig sjálft þegar að spjallsvæðið þar er skoðað. Þessi umræða um einkalíf Magna er ekki stóra málið svosem sem vakið hefur þar athygli, mörg önnur dæmi eru til staðar. Það væri eflaust verðugt verkefni fyrir einhvern sérfræðinginn að rannsaka þetta umræðusamfélag. Nafnleynd er vissulega fróðlegt fyrirbæri og hvernig fólk hegðar sér undir henni er oft á tíðum með ólíkindum. Það þekkja þeir best sem lesið hafa spjallvefi hvernig fólk getur gengið of langt í umræðu með þeim hætti. Það býr oft margt í myrkrinu.
Eflaust er hægt að segja miklu meira um spjallvefi. Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum um spjallvefi og stöðu þeirra, einkum innviði þeirra, og flestum ættu þær skoðanir að vera kunnar. Kannski maður skrifi meira um þetta síðar.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.1.2007 | 17:59
Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Staða Carl Bildt er ekki sterk þessa dagana. Hann virðist fastur í viðjar hneykslismáls og stefna hratt niður á við. Nýjustu fréttir um að hann hafi misst stjórn á skapi sínu í viðtali boðar ekki neitt gott, hvorki fyrir hann né sænsku ríkisstjórnina. Ég persónulega batt miklar vonir við endurkomu Bildt í sænsk stjórnmál. Hann stóð sig ágætlega sem forsætisráðherra á tíunda áratugnum og sem sáttasemjari síðar á Balkanskaganum. Hann var ídeal valkostur í embætti utanríkisráðherra. Það þurfti reyndan mann úr alþjóðastjórnmálum og mann með þekkingu í það embætti í stað Jans Eliassons.
Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunum og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim fara. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.
Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralega og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.
![]() |
Bildt ógnaði sænskum fréttamanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 16:15
Hitnar í kolunum á milli Bush og demókrata

Nú horfir til tíðinda. Innan við vika er liðin frá því að demókratar tóku yfir völdin í báðum þingdeildum. Hin eðalrauða vinstrikona Nancy Pelosi er orðin forseti fulltrúadeildarinnar í stað hins hægláta hægrimanns Dennis Hastert og mormóninn Harry Reid frá Nevada er orðinn meirihlutaleiðtogi af hálfu demókrata í öldungadeildinni. Seint verður sagt að þau teljist til aðdáenda húsbóndans í Hvíta húsinu og nánustu pólitísku samstarfsmanna hans. Stefnir í erfiða valdasambúð stóru flokkanna næstu árin og harkaleg átök um áherslur ólíkra afla.
Eftir þingkosningarnar í nóvember töluðu Bush forseti og Pelosi mjög fagurlega um gildi náins samstarfs og þess að vinna að hag Bandaríkjanna. Fór vel á með þeim á blaðamannafundi á forsetaskrifstofunni við það tilefni. Nú þegar á reynir og valdaskiptin eru orðinn veruleiki stefnir í að lítið verði um efndir samstarfshjalsins og harkan sex verði það sem við taki. Á fyrstu viku sinni við völd í þinginu hafa demókratar rissað upp plan framkvæmda og verkefna sem lögð er lykiláhersla á. Það verður seint sagt að Bush forseti og demókratarnir verði sammála um þau verkefni og virðist aðeins tímaspursmál hvenær að upp úr muni sjóða milli þessara afla sem verða að láta sér lynda hvort annað næstu tvö árin.
Stærsti ásteitingarsteinninn verður eflaust málefni Íraks. Demókratar, undir harðskeyttri forystu Pelosi, og forsetinn tala ekki einu sinni sama tungumál í þeim efnum. Himinn og haf eru á milli áherslna. Á miðvikudag stefnir forsetinn á að kynna nýtt verkplan aðgerða og vinnulags í Írak. Stefnt er að algjörri uppstokkun. Greinilegt er að Robert Gates, nýr varnarmálaráðherra, leggur áherslu á nýja tíma þar og breyta til stöðunni. Bendir nú allt til þess að aukning herafla sé þar efst a blaði. Ekki leið á löngu frá því að þau skilaboð láku út til fjölmiðla en að Pelosi hafði sagt með hörku á brá að forsetinn fengi ekki óútfyllta ávísun til hermála í Írak.
Pelosi gerði forsetanum og repúblikönum það ljóst í viðtali á CBS í gær að vildi Bush efla herstyrk í Írak og fá meira fé til þess yrði hann að færa fyrir því gild rök og koma fyrir þingið með þau skilaboð. Má búast við að fróðlegt verði að heyra stefnuræðu forsetans, sem hann flytur senn í sameinuðum þingdeildum. Sú ræða er meginstefnuplan forseta á hverjum tíma og fylgst jafnan vel með henni. Nú verður væntanlega fylgst enn betur með áherslum hans. Á ríkisstjóraferli sínum í Texas, 1995-2000, var Bush með ríkisþingið í Texas á valdi demókrata og þurfti þá að vinna með þeim og sætta ólíkar áherslur. Það þarf hann nú að gera í Washington.
En Bush er eflaust að vakna upp við vondan draum undir lok forsetaferilsins. Tvö ár eru þar til að hann lætur af embættinu en verður allan þann tíma að sigla á milli skers og báru. Það gæti orðið mesta þolraun hans í embættinu og sú sem mest verður með fylgst. Allavega er að hitna í kolunum í Washington og ljóst að það stefnir í átakatíma. Svo gæti farið að neitunarvaldið verði senn notað í miklu mæli úr Hvíta húsinu og að kalt stríð skelli á milli valdaaflanna sem með völdin fara í þessari heimsborg valdanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 13:45
Pólitískur lífróður Valgerðar Sverrisdóttur

Þar stefnir í miklar breytingar, enda eru tveir þingmenn; Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir að draga sig í hlé. Jón er orðinn aldursforseti þingflokks Framsóknarflokksins eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og hefur verið á þingi frá árinu 1984 en Dagný hefur aðeins setið eitt kjörtímabil á þingi og hljóta að teljast stórtíðindi að hún dragi sig í hlé eftir svo skamma þingsetu, en hún var presenteruð sem framtíðarefni flokksins hér í síðustu kosningum, eins og kunnugt er.
Valgerður Sverrisdóttir gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans og er örugg um sætið. Þrátt fyrir þá staðreynd vekur verulega athygli að Valgerður hefur opnað kosningaskrifstofu í göngugötunni og er þar með dagskrá alla daga og fjölda fyrirlestra um ýmis mál þessa vikuna og mikið líf og fjör. Skrifstofan er til húsa á sama stað og Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fráfarandi bæjarstjóri á Akureyri, var með prófkjörsskrifstofu í nóvember, í baráttu sinni við Arnbjörgu Sveinsdóttur og Þorvald Ingvarsson um það hver tæki við af Halldóri Blöndal. Ekki á Valgerður von á baráttu af því tagi.
Í síðustu kosningum vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í afhroð, sé Gallup að mæla það sem er að gerast. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum. Hún mun veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af þessu tagi. Því má líta svo á að opnun kosningaskrifstofu Valgerðar sé umfram allt leið hennar til að minna á sig á þessu svæði og reyna að peppa upp flokkinn í kjördæminu. Varla virðist veita af.
Flestir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja austfjarðaþingmanna Framsóknarflokksins og uppstokkun alveg augljóslega framundan á kjördæmisþinginu um helgina. En varla er verið að berjast upp á fleiri en tvö sæti nú, en væntanlega mun Birkir Jón, eini sitjandi þingmaður flokksins hér utan Valgerðar sem fer fram, hreppa það sæti.
En væntanlega telst þetta pólitískur lífróður. Valgerður hefur áður tekið slaginn og átt bæði góða og slæma daga pólitískt. Innan við ár er liðið síðan að Valgerður náði þeim sögulegum áfanga að verða utanríkisráðherra fyrst kvenna. Nú er spurning hvort að sú vegtylla verði henni sigursæl eða pólitísk bölvun sökum mikillar fjarveru erlendis.
Valgerður verður utanríkisráðherra - 10. júní 2006
8.1.2007 | 11:01
Bæjarstjóraskipti - kosningabarátta að hefjast

Í morgun áttust þeir nafnar Kristján Þór og Kristján L. Möller, alþingismaður, sem leiðir sem fyrr framboðslista Samfylkingarinnar hér í kjördæminu, við á Morgunvaktinni á Rás 1. Það var fróðlegt og gott spjall. Segja má að baráttan sé nú að hefjast. Meginumræðuefni þeirra við upphaf kosningabaráttunnar var nýjasta skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna hér í kjördæminu og um allt land. Það var greinilegt að Kristján Möller átti þar í nokkrum vandræðum með landsfylgi Samfylkingarinnar og vildi lítið ræða þau mál.
Það er skiljanlegt að forystumenn Samfylkingarinnar vilji lítið fara yfir landsfylgi Samfylkingarinnar. Flokkurinn er minni en VG í tveim kjördæmum, jafnstór honum í einu og minnstur allra flokkanna í einu kjördæmi. Samfylkingin mælist með 15 þingsæti nú, fimm færri en í kosningunum 2003. Það er því ekki beinlínis af mörgu að státa við þessa stöðu mála fyrir þann flokk nú. Hér í Norðausturkjördæmi mælist flokkurinn minni en í síðustu kosningum en fær þó þrjá í stað tveggja þingmanna, enda mælast þeir með jöfnunarsæti kjördæmisins nú. Þó er staða Samfylkingarinnar brothætt og merkilegt að heyra í Kristjáni Möller eins og staðan er nú.
Kristján Þór var léttur í þessu viðtali og horfir greinilega bjartsýn til kosninganna. Það er ekki undarlegt við þær aðstæður að Sjálfstæðisflokkurinn mælist flokka stærstur hér og bætir miklu fylgi við sig frá kosningunum 2003, sem voru ekki góðar fyrir flokkinn hér. Að sama skapi blasir afhroð við Framsóknarflokknum, sem mælist nú aðeins með einn mann inni, ráðherrann Valgerði.
Það virðist allt benda til þess að við sjálfstæðismenn séum að stefna í góðar kosningar hér; að Ólöf Nordal sé örugg inni á þingi og menn horfi til þess að ná Þorvaldi Ingvarssyni inn á þing í þessari stöðu. Það hlýtur að vera baráttumál okkar hér á þessum fyrstu vikum baráttunnar að vinna að því að fjórir sjálfstæðismenn fari hér inn á þing. Það er lykilmál nú, tel ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)