Óvænt úrslit hjá Framsókn - afhroð hjá Páli

Greinilegt er á úrslitum fyrri umferðar í formannskjöri Framsóknarflokksins að þingfulltrúar vilja nýtt upphaf hjá flokknum og hafa afgerandi hafnað valkosti hins gamalkunna Halldórsarms. Afhroð Páls Magnússonar verður ekki túlkað nema sem skipbrot þeirrar klíku sem hefur ráðið völdum í flokknum frá því að Steingrímur Hermannsson fór í Seðlabankann árið 1994 og lét Halldóri Ásgrímssyni eftir völdin í flokknum.

Greinilegt er að fjölmargir hafa vanmetið sérstaklega styrk Höskuldar Þórhallssonar, alþingismanns. Hann græðir á því að vera sitjandi þingmaður og vera mjög öflugur fulltrúi nýrra tíma. Sama gildir um Sigmund Davíð sem hefur komið sem ferskur vindblær í þessa kosningu, táknmynd nýjunga og breytinga, sem Framsókn þarf sannarlega á að halda. Páll, sem hefði átt möguleika áður fyrr, á ekki séns í þessu árferði.

Fróðlegt að sjá hvernig fer á eftir, en úrslitin verða ekki túlkuð, á hvorn veginn sem fer, en sem sigur þeirra sem hafa gagnrýnt Halldórsarminn og verklag hans. Varla þarf að efast um eftir þessa kosningu að Siv verði varaformaður, en greinilegt er að hennar fulltrúar hafa unnið vel á bakvið tjöldin til að stöðva Pál Magnússon frá því að vinna formennskuna.


mbl.is Höskuldur og Sigmundur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léleg tilraun til að réttlæta Kryddsíldarmótmælin

Ekki finnst mér tilraunir þeirra sem stöðvuðu formenn flokkanna í að tjá sig um þjóðmálin í Kryddsíld á gamlársdag hafa verið árangursríkar. Ekki hefur þeim tekist að tjá sig trúverðugt um tilganginn á bakvið það að stöðva þáttinn og heiðarlega umræðu um landsmálin. Einar Már, sá mikli penni og rithöfundur, gerir heiðarlega tilraun með sínu líkingamáli en eftir sem áður vantar eitthvað trúverðugt í lýsingarnar.

Því miður gengu þeir sem réðust að Hótel Borg og vildu komast inn alltof langt og fóru yfir strikið margfræga með því að skera á kapla og ráðast að fólki sem var aðeins að sinna sinni vinnu. Ég hugleiði reyndar enn hvort það sé tilgangur út af fyrir sig að ætla að stöðva fólk sem er að sinna sinni vinnu, sem það hefur verið kjörið til, og koma í veg fyrir að það geti talað um þjóðmálin og sinnt sínum störfum.

Sjálfur hef ég oft gagnrýnt Stöð 2 og eigendur hennar. Flestir ættu að vita það. Hinsvegar fannst mér það vanhugsað að leyfa ekki forystumönnum þjóðarinnar að tala í þessum þætti og ætla beinlínis að eyðileggja einn vinsælasta sjónvarpsþátt landsins. Allir hafa jú haft skoðanir og einhvern áhuga á Kryddsíldinni ef þeir á annað borð fylgjast með stjórnmálum. Enda þarna fólk með ólíkar skoðanir.

Uppgjör á gamlársdegi hefði átt að fara fram. Við getum svo haft hvaða skoðanir sem við viljum á því og fellt okkar dóma. Skoðanamyndun er ekki bönnuð í landinu og við höfum öll okkar rétt á að tjá okkur. Við sjáum það vel á blogginu, sem dæmi, að allir hafa sínar skoðanir og eru óhræddir við að tjá sig heiðarlega undir nafni. Nafnleysingjarnir verða alltaf sér á báti, hversu ólíkir sem þeir annars eru.

Ekkert réttlætir ofbeldi og skemmdarverk. Því dæmir þetta sig sjálft, hversu mjög sem Einar Már reynir að réttlæta það.

mbl.is Kryddlegin Baugshjörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreytuleg sparnaðarsöngvakeppni

Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með undankeppni Eurovision að þessu sinni. Sum lögin eru ekkert spes og umgjörðin er frekar þreytuleg. Kannski er líka ekki stemmning fyrir þessu. Fannst samt notalegt og sætt að sjá hina sjötugu Erlu Gígju Þorvaldsdóttur úr Skagafirðinum komast áfram með lagið sitt, Vornótt. Gamaldags og gott lag, ekta lagasmíð og traust. Mjög merkilegt að sjá tvö svo gjörólík lög komast áfram, en lagið með Ingó var alveg ágætt - allavega stemmning í því rétt eins og Bahama.

Greinilegt er að sparað er eins og mögulegt má vera í söngvakeppninni að þessu sinni. Glamúrkjólar Ragnhildar Steinunnar eru komnir í geymsluna og hún látlaust klædd með Evu Maríu, aldrei þessu vant. Svo er gamla sviðsmynd þáttarins hennar Ragnhildar Steinunnar búin að fá nýtt hlutverk í söngvakeppninni. Eitthvað hljóta menn að spara með því að hætta með sérhönnuð dress og að byggja sérstakt svið fyrir fjóra til fimm þætti í sjónvarpssal.

En reyndar má tónlistin eiga það að hún sameinar fólk og flestir horfa á þetta hvort sem þeim svo líkar eður ei. Allir tala um þetta, hvort sem þeir tala showið í kaf eða lofsyngja það. En ég velti fyrir mér hvernig lögin hljómuðu sem var hafnað, miðað við það sem komið er þetta árið af lögunum sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar.

Eitt að lokum, finnst ykkur ekki eins og mér að sumir brandarar þeirra Evu og Ragnhildar séu frekar ódýrir?

mbl.is Lögin sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkar raddir fólksins ná ekki saman að tjá sig

Innst inni er ég ánægður með að ekki tókst að eyðileggja fyrir þeim sem hafa komið saman og mótmælt á Austurvelli. Þeir sem ætluðu að vera á sama stað á sama tíma með mótmæli hljóta að geta fundið sér annan tíma og eigin tækifæri til að tjá sig, þó reyndar sé merkilegt að þessar raddir hafi ekki getað átt samleið á sama vettvangi. Ég velti fyrir hvað ráði því, annað en egó sumra manna, að allar raddir þeirra sem vilja tjá sig um stöðuna í samfélaginu geti ekki átt samleið.

Ég hef alltaf verið mjög hlynntur því að þeir sem hafa skoðun og vilja til að tala í þessu ástandi þjóðarinnar hafi sinn farveg til þess og geti mótmælt ef þeir vilja, en þó þannig að það sé gert málefnalega og fólk gefi upp nafn og númer, eins og sagt er. Þeir sem vilja og hafa virkilega eitthvað fram að færa hljóta að geta farið þá leið og talað af ábyrgð. Þó ég sé ekki sammála öllum röddunum finnst mér margt gott hafa komið úr þessu, t.d. borgarafundirnir í Háskólabíó.

Verst af öllu er að einhverjir séu gagngert í einhverjum undarlegum hernaði gegn þeim sem vilja tjá sig og hafa gert það með þessum heiðarlega hætti, eins og á Austurvelli. Þetta fólk á að geta fengið að vera í friði. En það er samt sem áður merkilegt að þessar raddir geti ekki náð samhljómi, einhvers konar átök séu þar á milli. En kannski er staðreyndin einmitt sú að þar ræður eitthvað annað en málstaðurinn.

mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli gegn mótmælum - afrek í samskiptaleysi

Ég held að það sé allt að því einsdæmi að boðað sé til mótmæla til að mótmæla öðrum slíkum. Slíkt mun þó vera að fara að gerast á Austurvelli. Ætli þetta sé ekki afrek í samskiptaleysi á milli fylkinganna. Greinilegt er að þeir sem hafa verið með mótmælin og borgarafundina hafa sniðgengið Ástþór með þeim hætti að hann er kominn í herferð gegn þeim.

Veit ekki hvort að þetta ætti að koma á óvart eftir fyrri núninga á milli fylkinganna, en mér finnst það samt merkilegt að svona sé komið að mótmælahópar séu komnir í innbyrðis slag um egóið.

Snýst þetta nokkuð um annað en egó einhverra á báða bóga?

mbl.is Nýta lýðræðislegan rétt sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhetjan Sullenberger - frændi Jóns Geralds?

Á einni nóttu varð flugstjórinn Chelsey B. Sullenberger þjóðhetja í Bandaríkjunum. Stofnaðir hafa verið aðdáendahópar um hann á facebook og talað mjög vel um afrek hans. Auðvitað er þetta mikið afrek. Sumir segja að þetta sé fádæma heppni og hafa dregið úr afrekinu. Mér er alveg sama hvað sumir segja. Mér finnst það mikið afrek að ná að lenda vélinni svo vel og tryggja að allir sem um borð voru lifðu slysið af. Þessi nauðlending er eitt afrekanna í flugsögu síðustu ára, alveg hiklaust.

Ættarnafnið er samt mjög kunnuglegt. Ætli að þetta sé frændi Jóns Geralds?

mbl.is Ólík viðbrögð í nauðlendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegt fikt

Þeir mega teljast heppnir strákarnir í Grindavík að ekki fór verr. Samt er það alltaf ömurlegt að heyra fréttir af því í flugeldasölutíðinni að ungmenni fikta með flugelda og setja sig í mikla hættu, gera sér oft ekki grein fyrir henni og velta ekki fyrir sér áhættuhliðum þess að fikta. Þrátt fyrir allt kynningarstarfið við að tala um þessa hættu gerast slysin og oft eru þau mjög alvarleg og geta sett mark á þann sem verður fyrir alla tíð.

Ég veit af nokkrum dæmum þess þar sem slíkt fikt hefur leitt til sjónmissis og álíka alvarlegra áverka. Alveg ömurlegt að sjá ungt fólk leika sér að slíku og taka áhættuna og þurfa að sjá eftir því alla tíð.

mbl.is Voru að útbúa heimatilbúna sprengju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn fikrar sig í Evrópuátt

Mér finnst það mjög merkileg tíðindi að Framsóknarflokkurinn hafi ákveðið hreint út að lýsa yfir stuðningi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Með því er áralöngum deilum um málið úr sögunni innan flokksins í þeirri mynd sem þær hafa verið, sem lengi vel einkenndust af persónulegum átökum Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar. Þetta markar nýtt upphaf innan flokksins og vekur spurningar um hvort flokkurinn nær einhverjum sóknarfærum á þessari stefnumótun.

Að mörgu leyti ræðst það af því hver á að stjórna stefnumótuninni í þeirri Evrópuátt sem Framsóknarflokkurinn hefur tekið. Formannskjörið á sunnudag ræður enn meiru um það vissulega en þessi kosning. Þar sem formannsefnin þrjú sem eiga raunhæfa möguleika á að taka við formennskunni eru með mismunandi sýn á Evrópu og hvaða fókus eigi að setja á málaflokkinn verður það í raun sú kosning sem ræður ferlinu sem tekur við.

Í raun er sú kosning mun frekar um framtíð flokksins en nokkurn tímann þessi stefnumótun. Hún er í raun svo opin að nýr formaður getur teygt hana og leitt í hana hvaða átt sem hann telur henta sér. Í raun verður sá talsmaður sá áttaviti sem stýrir för flokksins. Þar sem greinilega eru nýjir tímar í augsýn fyrir Framsókn ræður mestu hvaða fókus nýr formaður setur á málin og hvernig hann vill reyna að höfða til kjósenda í þeim rústum sem hann er í nú.

Er Björn Ingi að fara í stjórnmál eða viðskipti?

Ég er ekki hissa á því að Björn Ingi Hrafnsson sé hættur með Markaðinn. Mikið var deilt um verk hans í kjölfar bankahrunsins og þegar við bættist að þáttur hans var færður úr eigin plássi yfir í kvölddagskrána var eðlilega spurt um framtíð hans hjá blaðinu. Óvenju harkaleg skrif Páls Baldvins Baldvinssonar, ritstjórnarfulltrúa Fréttablaðsins, um þátt Björns Inga þóttu líka mjög merkileg, miðað við að Björn Ingi var yfirmaður viðskiptaumfjöllunar blaðsins.

Stóra spurningin er hvort Björn Ingi sé að fara aftur í pólitíkina eða einhver viðskipti. Orðalagið vekur sannarlega athygli, enda var lengi talað um að draumur Björns Inga væri að ná frama innan Framsóknarflokksins, en brotthvarf hans úr framlínusveit flokksins vakti mikla athygli fyrir nákvæmlega ári þegar búmmerang Björns Inga í borgarmálunum snerist honum í óhag.

mbl.is Björn Ingi hættur á Markaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur og Árni semja um launalækkun forseta

Nú hafa Ólafur Ragnar og Árni Mathiesen náð saman um að lækka laun forsetans. Ég er hissa á forsetanum að hafa ekki þegar óskað beint eftir því að fjármálaráðherra tæki þetta verkefni að sér, enda vitað mál frá upphafi að Kjararáð myndi aldrei lækka launin eða taka forystuna um það. Ljóst er að laun forsetans eru stjórnarskrárvarin og því augljóst að til þyrfti að koma ákvörðun ráðherra úr ríkisstjórninni, pólitísk ákvörðun semsagt, að lækka launin þar sem kjörtímabil forsetans er nýlega hafið.

Svo verður að ráðast hvort eitthvað mál verði gert úr því að ganga gegn stjórnarskránni. Efast þó stórlega um það. Forsetinn þarf að vera táknmynd sparnaðar eins og aðrir sem leiða för nú. Forsetinn ætti þó að hafa það hugfast að hann verður að spara á öðrum sviðum til að vera trúverðugur í þeim efnum, svo þetta sé ekki eitt leikrit. Eitt dæmið er að lækka ferðakostnaðinn og sennilega að lækka símreikninginn umtalsvert, svo fátt eitt sé nefnt.


mbl.is Laun forseta verða lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launalækkun forsetans ekki samþykkt

Þá er það ljóst sem allir vissu áður, og einkum forseti Íslands sjálfur mátti vita, að ekki er hægt að lækka laun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann er eini embættismaðurinn í stjórnkerfinu sem er beinlínis verndaður í stjórnarskránni fyrir launalækkun og tryggt að ekki megi hrófla við kjörum hans á kjörtímabilinu. Ég benti á það í grein þann 22. desember sl. að það væri sýndarmennska hjá forsetanum að fara fram á launalækkun sem hann vissi fyrirfram að væri stjórnarskrárbrot. Þessi úrskurður Kjararáðs var því mjög fyrirsjáanlegur.

Í níundu grein stjórnarskrár stendur: "Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."

Þetta er eins skýrt og það má vera. Samt sem áður fór Ólafur Ragnar sérstaklega fram á þessa lækkun vitandi mjög vel að það myndi aldrei gerast.

mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íkveikja á Klapparstíg - tilræði við fólk

Enn einu sinni hefur eldur nú verið kveiktur af mannavöldum í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Dapurlegra er en orð fá lýst að kveikt sé í heimili fólks - ótrúleg mannvonska sem í því felst. Heimili fólks er þeirra helgasti staður og er ekkert nema tilræði við þá sem þar búa að reyna að kveikja eld þar um hánótt. Tilgangurinn er enginn nema skaða fólk.

Hvað er að þeim sem kveikja í hjá fólki sem sefur um nótt og gerir tilraun til að brenna það inni.

mbl.is Grunur um íkveikju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverkið á Hudson-fljóti

Vél US Airways í Hudson-fljóti
Held að það geti ekki talist neitt nema hreint kraftaverk hversu vel tókst til eftir að vél US Airways hrapaði í Hudson-fljót í kvöld. Að allir 155 farþegarnir sleppi lifandi frá svo alvarlegu slysi er stórmerkilegt og sannarlega betri tíðindi en manni óraði fyrir þegar fyrirsögnin um flugvél í sjónum birtist á fréttamiðlunum, neti og sjónvarpsstöðvunum.

Þarna fór sannarlega betur en á horfðist og í raun stórmerkilegt afrek í alla staði.

mbl.is Talið að allir hafi komist lífs af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugslys og óttinn við að fljúga

Mér brá nokkuð þegar ég sá á erlendri fréttastöð áðan að vél US Airways hefði hrapað í Hudson ána. Datt eiginlega fyrst í hug þegar Boeing-vélin hrapaði í Potomac-ána í Washington, skammt frá Hvíta húsinu, fyrir tæpum þremur áratugum. Eftir því var gerð fræg mynd og ég hef lesið bækur um það. Veðuraðstæður voru þá aðrar og eiginlega var þar unnið mikið björgunarafrek og frægt var að einn flugfarþeganna fórnaði lífi sínu við að bjarga öðrum í vélinni.

Ég hef aldrei verið flughræddur eða óttast það að fljúga. Aldrei eitt augnablik. Eiginlega er vonlaust að ferðast eða fara nokkuð um nema vita að allt getur gerst, hvar sem maður er staddur. Ég þekki fólk sem er svo flughrætt að það þorir varla í innanlandsflug. Hef aldrei skilið þessa tilfinningu en kannski er það skiljanlegt þegar fréttir berast af slíku slysi.

Flugið er ekki versti ferðamátinn en auðvitað er það alltaf sérstakt að setjast upp í flugvél og halda út í óvissuna.

mbl.is Flugvél hrapaði í Hudsonfljót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur til Ingibjargar Sólrúnar

Ég vil færa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, einlægar og góðar baráttukveðjur. Hún er baráttukona og ég vona að henni gangi vel í baráttunni við veikindi sín og nái sér sem fyrst.

mbl.is Ingibjörg Sólrún lengur frá en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska eða glamúr hjá Hefner

Hugh Hefner og stelpurnar hans Held að fáir menn á níræðisaldri lifi skrautlegra lífi en glaumgosakóngurinn Hugh Hefner. Á gamals aldri er hann með samansafn ungra meyja á sérstöku setri, kenndu við Playboy-ritið margfræga, sér við hlið og hann vill alltaf yngri og glæsilegri gellur á forsíðu blaðsins síns og setrið. En nú er ekki nema von að spurt sé hvort þetta sé allt eitt sjónarspil.

Yngismeyjar hafa keppst um það að fara til hans á setrið og vera í blaðinu hans, misjafnlega frægar. Sama er hversu Hefner verður gamall og slitinn, alltaf nær hann athygli út á líferni sitt og hann er ekki beint feiminn við sviðsljósið. Kyndir frekar undir eldinn gegn sér og er slétt sama um þá sem helst gagnrýna hann og Playboy-lífið á setrinu margfræga.

Meðal annars hafa verið gerðir raunveruleikaþættir um lífið þar og hafa þeir ekki síður vakið athygli fyrir hversu lífsglatt gamalmenni Hefner er fyrir húsfreyjurnar sínar. Nú er spurningin hvort Hefner deyji sæll og glaður á þessu setri eða koðnar niður í ellinni? Allavega er nokkuð öruggt að öldruðum er búið þar áhyggjulaust ævikvöld.

mbl.is Líf Hefners sýndarmennska?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æpandi þögn eftir yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar

ISG
Æpandi er þögn, og ekki síður pínlega vandræðaleg, þeirra sem réðust að Guðlaugi Þór Þórðarsyni vegna ummæla Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur á borgarafundinum. Þegar í ljós kom að Ingibjörg Sólrún átti í hlut heyrðist ekki meira og ásakanirnar gufuðu upp. Þetta er dæmigert fyrir Samfylkingarmennina og aðra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins sem ætluðu að ná höggi á Guðlaug Þór vegna meints yfirgangs hans. Þarna átti virkilega að reyna að sparka duglega í hann.

Þegar ljóst er að hótunin kom frá formanni Samfylkingarinnar þorir enginn að standa við hin stóru orð. Ekki er sama hver á í hlut. Þetta er auðvitað hálfgerður aumingjaskapur og svolítið fyndið að sjá þá sem voru með stór orð þagna gjörsamlega og ekki einu sinni hafa manndóm í sér að biðja Guðlaug Þór afsökunar.

Ekki er sama hver í hlut á. Þessi afskipti Ingibjargar Sólrúnar virðast ekki eins alvarleg og hefði Guðlaugur Þór átt í hlut. Ekki hægt annað en hlæja að þeim sem þora ekki að taka umræðuna fyrst hótunin kom úr Samfylkingunni.

Er algengt að börn séu tattúveruð eða götuð?

Merkilegt að heyra af þessum tilfellum þar sem börn undir lögaldri eru húðflúruð án leyfis foreldra sinna. Þetta hlýtur að vekja spurningar um hvernig foreldrar bregðist við slíkum tilfellum og hvort þau geti gert eitthvað í stöðunni. Siðleysið er algjört hjá þeim sem taka slíkt verk að sér án þess að kanna aldur þeirra sem vilja tattúvera sig eða gera það vitandi vits að þau hafi ekki leyfi til að taka slíka ákvörðun í ljósi aldurs þeirra. Þeir sem húðflúra hakakross á börn eru ekki merkilegir einstaklingar.

Kannski er hópþrýstingur ein ástæða þess að fólk undir lögaldri telur sig vera að gera hið rétta að tattúvera sig. Slíkt er þó ekki hægt að hætta við síðar þegar það fer í taugarnar á þeim eða það verður ekki lengur í tísku. Ekki er hægt að bakka með slíka ákvörðun. Þeir leika sér að því að húðflúra börn verða að hafa einhverja ábyrgðartilfinningu og reyna að hugleiða siðferðislegu hliðar málsins.

Svo er auðvitað spurningin hversu mörg börn undir lögaldri hafa verið götuð. Slík tilfelli eru ekkert síður ámælisverð en húðflúrun. Ég hef heyrt af nokkrum dæmum þar sem börn hafa tekið ákvörðun um að gera eins og einhverjir vinir þeirra eða þeir sem þau líta upp til, annað hvort þekkja vel eða úr fjölmiðlum, og vilja reyna það sama. Slík aðdáun getur oft verið hrein bölvun.

mbl.is Húðflúraði hakakross á barn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða svipaðar óeirðir á Íslandi og eru í Lettlandi?

Ég held að fyrsta hugsun allra sem heyra af mótmælunum í Riga í Lettlandi sé hvort þetta sé það sem koma skuli hér á Íslandi í kreppunni. Vel má búast við því ef mið er tekið af því að reynt sé að koma í veg fyrir að ráðherrar og aðrir kjörnir fulltrúar sinni störfum sínum á Alþingi, bæði af mótmælum í dag og undir lok síðasta árs þar sem ráðist var inn á Alþingi með öskur og læti. Munurinn er kannski sá að mótmælin hér hafa verið frekar fámenn, t.d. í morgun fyrir utan Alþingi.

Fjarri því er að mótmælin hér á Íslandi hafi verið fjöldamótmæli. Gott dæmi um það eru netskrif um síðustu helgi þar sem fólk var hreinlega grátbeðið um að vera með en ekki heima hjá sér að blóta í einrúmi. Ég held að fjöldinn í mótmælunum hér hafi aldrei farið yfir 10.000, ekki einu sinni þegar mest var í hitanum í nóvember og í kringum fjölmenna borgarafundinn í Háskólabíói. En kannski höfum við ekki enn náð botninum og því mótmælin ekki náð fjöldastyrk ennþá.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk eigi að tjá sig óhikað og mótmæla ef það vill. Málefnaleg mótmæli og traust rök skipta þó mestu máli. Slíkt hefur meiri áhrif en mörgum órar fyrir. Ákvörðun dagsins um að auglýsa bankastjórastöðurnar eru klárlega merki þess að mótmælin hafa virkað og kerfið sé að færast í átt að því að gera upp það sem liðið er.

Nú er mikilvægt að styðja rannsóknarnefnd og saksóknara í því verki að rannsaka allt sem skiptir máli. Svo verður að ráðast hvort ferlið fer rétta leið. Að því loknu munu kjósendur allavega fá tækifærið til að kjósa. Almenningur mun í lok þessa alls gera upp þetta mál sjálft með atkvæði sínu í kjörklefanum.

mbl.is Óeirðir vegna kreppu í Riga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ægivald Ingibjargar Sólrúnar yfir Sigurbjörgu

ISG
Nú er ljóst, sem öllum mátti vera augljóst, að Ingibjörg Sólrún talaði við Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing en ekki Guðlaugur Þór. Ég er reyndar undrandi á þeim sem töldu að Guðlaugur Þór hefði slíkt vald yfir henni. Auðvitað er ægivaldið úr Samfylkingunni, enda hefur Sigurbjörg tekið að sér verkefni fyrir formann Samfylkingarinnar og fylgdi henni t.d. í utanríkisráðuneytið þegar hún tók við embættinu fyrir tæpum tveimur árum. Guðlaugur Þór er ekki það valdamikill að hann geti hótað Sigurbjörgu og talið sig geta komist upp með það.

Enda var þegar ljóst er Sigurbjörg vildi ekki taka málið lengra og ekki upplýsa nafn ráðherrans að hann væri úr flokki hennar, Samfylkingunni. Nú hefur Ingibjörg Sólrún sjálf staðfest þetta. Þeir sem hjóluðu í Guðlaug Þór í nafni þess að hún væri kannski að tala um hann ættu að sjá sóma sinn í að biðja hann afsökunar, enda tilefnið ekkert til að ráðast að honum vegna þess sem stjórnsýslufræðingur Samfylkingarinnar sagði. Ægivaldið sem beina átti að Sigurbjörgu kom auðvitað ekki úr Sjálfstæðisflokknum.

Mér finnst merkilegt að Sigurbjörg ákvað að koma fram með hálfkveðna vísu, segja sögu af ráðherra flokksins hennar sem hafði samband við hana og setti henni stólinn fyrir dyrnar og siðareglur á borð sitt en ekki upplýsa hver gerði það. Auðvitað er það barnaskapur að halda að hægt sé að koma með svo hálfkveðna vísu en ekki botna hana á sama vettvangi og skilaboðin eru sett fram. Henni hefði verið sómi af því að segja þetta allt í ræðunni í Háskólabíói.

Ægivald formanns Samfylkingarinnar yfir Sigurbjörgu er greinilega talsvert fyrst sagan var ekki botnuð á staðnum.

mbl.is Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband