Valdimar Leó yfirgefur Samfylkinguna

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, lýsti því formlega yfir í þættinum Silfri Egils á Stöð 2 nú á öðrum tímanum að hann myndi segja sig úr Samfylkingunni og verða óháður þingmaður, fyrst til að byrja með. Valdimar Leó fékk skell í prófkjöri flokksins í kjördæminu í byrjun mánaðarins og varð fjórtándi í nítján manna prófkjöri. Valdimar Leó varð alþingismaður fyrir rúmu ári er kratahöfðinginn Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra.

Valdimar Leó viðurkenndi í þættinum að hann hefði setið stofnfund bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Mosfellsbæ, en vildi ekki staðfesta að hann ætlaði í framboð fyrir flokkinn í væntanlegum þingkosningum að vori. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um það í vikunni að Valdimar Leó ætli í framboð fyrir Frjálslynda. En hann yfirgefur nú þingflokk Samfylkingarinnar og verður óháður alþingismaður. Við það minnkar þingflokkur Samfylkingarinnar og sitja þar 19 alþingismenn eftir úrsögn Valdimars Leós úr flokknum.

Það verður fróðlegt að sjá hvenær að Valdimar Leó gengur formlega í Frjálslynda flokkinn. Kjaftasagan segir að hann muni fara í þá átt, en hann verði nú óháður einhvern örlítinn tíma til aðlögunar fyrir sig og sína, eins og menn segja. En já, hverjum hefði órað fyrir því að þingsæti Guðmundar Árna Stefánssonar, kratahöfðingjans úr Hafnarfirðinum, yrði þingsæti óháðs stjórnmálamanns sem horfir til Frjálslynda flokksins. Já, hlutirnir eru oft ekki lengi að gerast í henni pólitíkinni.

mbl.is Þykknar upp og dregur úr frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri fallegasti bærinn á landinu

Akureyri Það var ánægjulegt að sjá í Fréttablaðinu í gær að Akureyri hefði verið valinn fallegasti bær landsins í skoðanakönnun blaðsins. Akureyri hlaut 22,4% atkvæða þeirra sem þátt tóku í könnuninni og hlaut því mjög góða kosningu í efsta sætið. Hafnarfjörður, vinabær Akureyrar, varð svo í öðru sætinu. 

Við Akureyringar erum nú svo hrifnir af bænum okkar að þetta kemur okkur nú ekki á óvart, en þetta er fínn heiður auðvitað. Mér finnst ánægjulegt að sjá hversu miklu munar á Akureyri og Hafnarfirði miðað við allt. Skemmtilegast fannst mér að lesa rýni álitsgjafa blaðsins um könnunina, en sumir áttu erfitt með að leyna vonbrigðum sínum með að Akureyri hefði orðið fyrir valinu.

Farið yfir ævi Vilmundar

Vilmundur Gylfason Síðustu dagana hef ég verið að lesa ævisögu Vilmundar Gylfasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, sem ber heitið Löglegt en siðlaust og var skráð af vini hans, Jóni Ormi Halldórssyni. Þetta er mjög merkileg saga svo sannarlega en Vilmundur var einn af litríkustu stjórnmálaleiðtogum sinnar kynslóðar. Bókin var skráð tveim árum eftir andlát Vilmundar, en hann lést sumarið 1983. Það verður seint sagt að stjórnmálamaðurinn Vilmundur og ég höfum aðhyllst sömu hugsjónir í stjórnmálum. Hann var mjög harður krati og barðist fyrir jafnaðarstefnu sinni, stundum með mjög áberandi hætti, en hann var alla tíð stjórnmálamaður skoðana og þótti mjög beittur í sinni pólitík.

Bókin er vissulega mikill minnisvarði um Vilmund. Hann kom sem stormsveipur í íslenska pólitík á áttunda áratugnum. Hann var hinsvegar alinn upp í stjórnmálum. Faðir hans, Gylfi Þ. Gíslason, var lengi formaður Alþýðuflokksins og gegndi embætti menntamálaráðherra samfellt í 15 ár, fyrir viðreisnartímann og á meðan hann stóð og þótti einn svipmesti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Afi hans, Vilmundur Jónsson, landlæknir, var maður skoðana og stjórnmálabaráttu og sjálfur sagði Vilmundur oft að hann væri eins og hann hvað baráttuandann snerti. Pólitík var því í lífi Vilmundar alla tíð og hann fór ósjálfrátt í þá baráttu sem faðir hans hafði helgað sig áður.

Samhliða lestri bókarinnar rifjaði ég upp þáttinn Einu sinni var, sem var sýndur á Stöð 2 í febrúar 2005, en þar fór Eva María Jónsdóttir yfir skammlífa sögu Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn var stofnaður af Vilmundi haustið 1982 og átti fjóra þingmenn á Alþingi kjörtímabilið 1983-1987. Tilkoma flokksins varð að veruleika eftir að Vilmundur sneri baki við Alþýðuflokknum, þar sem hann hafði verið eiginlega verið fæddur og uppalinn til stjórnmálaþátttöku í. Vilmundur var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í þingkosningunum 1978 (er A-flokkarnir unnu mjög sögulegan sigur) og sat sem dóms- kirkjumála- og menntamálaráðherra í skammlífri minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-1980.

Vilmundur hafði gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á flokksþingi hans 1980 og 1982, en í bæði skiptin beðið lægri hlut fyrir Magnúsi H. Magnússyni. Ennfremur höfðu verið innbyrðis deilur um störf Vilmundar sem ritstjóra Alþýðublaðsins sumarið 1981. Flokknum var spáð góðu gengi í skoðanakönnunum og stefndi framan af í góðan sigur hans. Það breyttist þegar líða tók á árið 1983 og að kvöldi kjördags kom í ljós að flokkurinn hafði ekki unnið þann sigur sem að var stefnt. Niðurstaðan varð fjórir þingmenn. Vilmundur tók úrslitunum sem miklum ósigri fyrir sig og pólitískar hugsjónir sínar og ekki síður baráttumál. Hann svipti sig lífi í júnímánuði 1983.

Í þættinum er eiginlega mun frekar sögð saga Stefáns Benediktssonar, arkitekts og fyrrum alþingismanns BJ. Hann fer þar yfir sögu flokksins, vandræði hans og erfiðleika við lok sögu hans. Stefán tók mikinn þátt í uppbyggingu flokksins með Vilmundi og eiginkonu hans, Valgerði Bjarnadóttur (dóttur Bjarna Benediktssonar), og fleiri stuðningsmönnum. Stefán skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík. Flokkurinn hlaut eins og fyrr segir fjóra þingmenn kjörna: tvo í Reykjavík og einn á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Við andlát Vilmundar tók Stefán sæti á þingi sem varamaður hans.

Var áhugavert að heyra lýsingar hans á stöðu mála og því sem tók við eftir andlát Vilmundar. Flokkurinn, sem byggður hafði verið utan um persónu Vilmundar og stefnumál hans, varð forystulaus og allt logaði í deilum þegar kom að því að hluti flokksins sameinaðist á ný Alþýðuflokknum. Eitt það merkilegasta sem kom fram í þættinum var að sjóðir flokksins væru frystir í Landsbankanum og enginn gæti gert tilkall til þeirra. Það er reyndar merkilegt að sjóðirnir, sem byggjast af skattfé sem flokkurinn fékk vegna stöðu sinnar á þingi, gangi ekki aftur til ríkisins. Það væri eðlilegast að peningarnir færu þangað.

Með þessum þætti og mun frekar lestri bókarinnar kynntist ég betur Vilmundi Gylfasyni sem stjórnmálamanni. Ég hafði reyndar lesið bókina áður, en það er verulega langt síðan. Segja má að saga BJ sé átakasaga umfram allt, saga flokks sem stóð og féll með stofnanda sínum og dó í raun með honum. Ég hvet eiginlega alla stjórnmálaáhugamenn til að lesa pólitíska ævisögu Vilmundar, Löglegt en siðlaust. Það er nokkuð merkileg lesning og lýsir honum sem stjórnmálamanni langbest. Það má fullyrða að íslenskir kratar hafi misst mikið þegar að Vilmundur hvarf af sjónarsviðinu.

Pólitískt áfall Kristins H. Gunnarssonar

Kristinn H. Gunnarsson Það var mikið pólitískt áfall fyrir Kristinn H. Gunnarsson að verða undir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann tapaði leiðtogaslagnum við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, með rúmlega 200 atkvæða mun og húrraðist niður í þriðja sætið, sem er sætið sem Herdís Sæmundardóttir skipaði í kosningunum 2003 og er því auðvitað varaþingsæti. Í staðinn er Herdís komin upp í annað sætið á eftir Magnúsi. Kristinn vænir þau um bandalagsmyndun gegn sér.

Hvernig sem það var annars er alveg ljóst að Kristinn tapaði leiðtogaslagnum og því fór sem fór. Það má því segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stendur hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum.

Hann stendur því eftir snupraður. Dómur grasrótar flokksins í Norðvesturkjördæmi er hinsvegar nokkuð afgerandi. Það er varla við því að búast að hann taki þriðja sætið við þessar aðstæður og væntanlega horfir hann til sérframboðs. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Varla vill þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir virka mjög einfaldir fyrir Kristinn H.

Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.

Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Hann hlýtur að gleðjast með tíðindi gærkvöldsins á Borðeyri þar sem að örlög Kristins H. innan Framsóknarflokksins réðust væntanlega. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú.

Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að öll vötn liggi fyrir Vestfirðinginn í aðrar áttir. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.

mbl.is Kristinn H. hefur ekki ákveðið hvort hann tekur þriðja sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listi Sjálfstæðisflokksins í Norðvestri samþykktur

Sjálfstæðisflokkurinn Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi var samþykktur á kjördæmisþingi flokksins í Borgarnesi í dag. Alþingismennirnir Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson eru í þrem efstu sætum listans og konur skipa næstu þrjú sætin á framboðslistanum.

Í kosningunum 2003 hlaut flokkurinn þrjá menn kjörna í Norðvesturkjördæmi og er stærstur flokka þar og því er Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Í komandi kosningum fækkar þingmönnum kjördæmisins um einn, úr tíu í níu og því skipa 18 einstaklingar framboðslista flokksins.

Listann skipa:

1. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Stykkishólmi
2. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Bolungarvík
3. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, Flateyri
4. Herdís Þórðardóttir, fiskverkandi, Akranesi
5. Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi, Húnaþingi vestra
6. Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, Ísafirði
7. Magnea Guðmundsdóttir, húsfreyja, Skagafirði
8. Bergþór Ólason, aðstoðamaður samgönguráðherra, Akranesi
9. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nemi, Akranesi
10. Örvar Már Marteinsson, skipstjóri, Snæfellsbæ
11. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti, Tálknafirði
12. Hjörtur Árnason, hótelstjóri, Borgarbyggð
13. Sigríður Svavarsdóttir, framhaldsskólakennari, Skagafirði.
14. Sunna Gestsdóttir, frjálsíþróttakona, Blönduósi
15. Guðmundur Skúli Halldórsson, formaður Egils FUS, Borgarbyggð
16. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri, Suðureyri
17. Jóhanna Pálmadóttir, bóndi, Akri
18. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Akranesi

mbl.is Sturla efstur á lista Sjálfstæðisflokks í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúðrið í Árna Johnsen

Árni Johnsen Árni Johnsen varð sjálfum sér til skammar í vikunni með ummælum sínum á þriðjudag um að afbrot hans á árinu 2001 hefði verið tæknileg mistök. Þar klúðraði Árni hinu gullna tækifæri til að sýna marktæka iðrun á afbrotum sínum og sýna að hann hefði bætt rétt í hugsun, sem og gjörðum. Greinilegt er að Árni sér ekki eftir því sem hann gerði. Það er engin iðrun að mínu mati að kalla fjárdrátt og tengd brot tæknileg mistök.

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í vikunni ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla á þriðjudag. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.

Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið.

Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans á þriðjudag, sem mér fannst skelfileg í einu orði sagt. Allt tal um að fyrirgefa þessum manni fannst mér algjörlega út úr hött eftir þetta viðtal. Þar sem engin er iðrunin verður engin fyrirgefningin. Það er alveg deginum ljósara í mínum huga.

mbl.is Borið hefur á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum vegna ummæla Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús sigrar - Kristinn H. fellur í þriðja sætið

Magnús StefánssonÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sigraði og Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, féll um sæti og lenti í þriðja sætinu. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður, varð í öðru sæti og fellir því Kristinn H. niður í sitt gamla sæti. Magnús verður því áfram leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæminu, en hann varð leiðtogi flokksins þar í aðdraganda þingkosninganna 2003 eftir leiðtogarimmu við Kristinn H.

Magnús hlaut 883 atkvæði í fyrsta sætið en Kristinn H. hlaut 672. Herdís hlaut 979 atkvæði í 1. - 2. sætið en Kristinn H. fékk 779 atkvæði í 1. - 2. sætið. Kristinn varð þriðji með 879 atkvæði í 1. - 3. sætið. Fjórði varð Valdimar Sigurjónsson með 1.024 í 1. - 4. sæti. Fimmta varð Inga Ósk Jónsdóttir með 1.172 atkvæði í 1. - 5. sæti. Í næstu sætum urðu G. Valdimar Valdimarsson, Albertína Elíasdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson. Þetta eru mjög merkileg úrslit og boða stórtíðindi, enda er Kristinn H. Gunnarsson fallinn úr öruggu sæti. Með þessu gleðjast væntanlega fulltrúar flokkseigendafélagsins sem hafa eldað grátt silfur við Kristinn H. síðustu árin.

Kristinn H.Magnús var kjörinn fyrst á þing árið 1995. Hann féll af þingi í kosningunum 1999 en tók þar sæti aftur við afsögn Ingibjargar Pálmadóttur árið 2001 og hefur átt þar sæti síðan. Kristinn H. hefur setið á þingi frá árinu 1991, eða í tæp sextán ár, fyrir Alþýðubandalagið 1991-1998 en frá þeim tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Hann ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999.

Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Deilur innan þingflokksins árið 2004 urðu til þess að hann missti allar nefndasetur sínar, en hann var ári síðar tekinn aftur í sátt. Þrátt fyrir sættir á yfirborðinu kraumuðu deilurnar áfram undir niðri og flestum varð ljóst óvildin milli forystu flokksins og Kristins, einkum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar.

Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987, enda álitu hann boðflennu í sósíalistaflokki.

Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. hafi orðið undir í þessu prófkjöri; tapað leiðtogaslagnum með rúmlega 200 atkvæða mun og hafi nú fengið varaþingmanninn Herdísi, stjórnarformann Byggðastofnunar á Króknum, yfir sig í annað sætið, sitt gamla sæti, og sitji nú eftir í varaþingsæti fyir flokkinn á næsta kjörtímabili. Það verður mjög fróðlegt að heyra með morgni viðbrögð Kristins H. við því að hafa misst öruggt sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru nokkur pólitísk tíðindi, heldur betur.


mbl.is Magnús í 1. sæti þegar helmingur atkvæða var talinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús og Herdís í forystu í talningu

Magnús Stefánsson Þegar talin hafa verið 750 atkvæði í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi er Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í fyrsta sæti og Herdís Á. Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, í öðru sætinu. Þriðji er Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður. Ótalin eru innan við 1000 atkvæði í kjörinu og getur enn dregið til tíðinda. Staðan hefur þó verið óbreytt frá fyrstu tölum kl. 22:00.

Talningin fer fram að Borðeyri í Hrútafirði. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Ef úrslitin verða með þessum hætti og staðan segir til um nú telst það væntanlega stórtíðindi og með því hefði Kristni H. Gunnarssyni verið úthýst úr öruggu þingsæti. Kristinn hefur verið áberandi innan flokksins um nokkuð skeið, allt frá því að hann gekk til liðs við flokkinn í Vestfjarðakjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna árið 1999.

Greinilegt er að Magnús og Herdís hafa myndað bandalag gegn Kristni H. Hvort það heldur til loka talningarinnar verður merkilegt að fylgjast með, en væntanlega munu úrslitin liggja fyrir kl. 2:00 í nótt.

mbl.is Magnús Stefánsson í fyrsta sæti Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi eftir að fyrstu tölur voru birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talning í póstkosningu Framsóknar í Norðvestri

Framsókn Talning hefst innan skamms á atkvæðaseðlum í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Rúmlega 1.600 manns skiluðu inn kjörseðlum eða um 65% þeirra sem höfðu atkvæðisrétt. Talið er að Borðeyri við Hrútafjörð og munu úrslit póstkosningarinnar liggja fyrir öðru hvoru megin við miðnættið. Póstkosningin hófst 3. nóvember sl. og lauk síðdegis í dag er skilafresti á atkvæðaseðlum lauk. Mikið mun hafa verið um nýskráningar að ræða og ríkir spenna um úrslitin.

Kosið er í fimm efstu sæti listans. Baráttan um efsta sætið er á milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, er sú eina sem sækist eingöngu eftir öðru sætinu. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Magnús leiddi listann í síðustu alþingiskosningum og vann átakakosningu milli þeirra um leiðtogastólinn á kjördæmisþingi í nóvember 2002. Síðan hefur allt að því ríkt kalt stríð þeirra á milli.

Það þótti mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi, eins og lagt var upp með. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar á kjördæmisþingi í september. Með þessu er auðvitað ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003, en þó er skilyrt að kona þurfi að vera í þrem efstu sætum.

Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð, eins og fyrr segir. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn. Fyrst og fremst hefur vakið mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er ekki alveg upp á sitt besta. Þar eru átök bakvið tjöldin.

Spenna verður því á Borðeyri í kvöld þar sem talningin fer fram og úrslitanna er beðið með miklum áhuga innan Framsóknarflokksins. Þar ráðast pólitísk örlög þingmannanna tveggja og innri átök í þeim þráðum sem þeim tengjast innan flokkins. Mikla athygli vekur svo sannarlega að talið sé á svo fjarlægum stað og á þessum tíma sérstaklega. Það er engu líkara en verið sé að reyna að fela sem mest innri átökin sem fylgja kjörinu. En já, þetta verður sannkallað spennukvöld innan Framsóknarflokksins.

mbl.is Fyrstu tölur hjá framsókn í NV-kjördæmi birtar um kl. 22
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlit fyrir hörkufrost á morgun

Frost Það hefur verið heldur betur napurt hér fyrir norðan í dag. Hörkugaddur, á mannamáli sagt. Ekki er útlit fyrir annað í veðurkortunum. Það er jafnvel spáð tuttugu gráðum á morgun í innsveitum hér fyrir norðan. Það horfir jafnvel svo illa að frostið haldist alveg fram að mánaðarmótum. Við erum því að upplifa hörkuvetur, ekta íslenskt vetrarveður.

Mér finnst snjórinn og vetrartíðin núna minna mig einna helst á byrjun vetrar árið 1995. Þá snjóaði og snjóaði snemma að vetrinum og þetta var einn snjóþyngsti vetur í seinni tíð hér fyrir norðan. Það hefur allavega ekki gerst síðan að þetta byrji af jafnmiklum þunga og jafnsnemma og raun ber vitni nú. Þá horfðum við á stanslausa kuldatíð vikum saman og mikinn þunga í snjó. Ætla að vona að svo slæmt verði þetta ekki núna.

Það er ekki laust við að jólatilfinningin vaxi þó í manni við allan þennan snjó og kulda. Það eru nú aðeins fimm vikur til jóla og það styttist óðum í jólamánuðinn, aðventan hefst af krafti eftir hálfan mánuð. Þó að úti snjói og kuldagarrinn minni á sig nú boðar hann þó besta tíma ársins, sjálf jólin. Það verður nú gaman þegar að jólaljósin fara að kvikna á næstu tíu til tólf dögum og jólaljósin lýsa upp skammdegið, sem nú er búið að taka allt yfir.

mbl.is Kuldabolinn ekki á förum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma Sykurmolanna

Sykurmolarnir Sykurmolarnir er ein vinsælasta hljómsveitin í íslenskri tónlistarsögu og henni hlotnaðist alheimsfrægð. Í kvöld koma Sykurmolarnir saman í Laugardalshöll í fyrsta skipti í tæpan einn og hálfan áratug. Tveir áratugir eru frá stofnun Sykurmolanna á þessu ári. Þetta er því dagur endurkomu fyrir þessa merku hljómsveit og má búast við líflegum tónleikum. Þúsund tónleikagestir koma gagngert á tónleikana erlendis frá.

Sykurmolarnir var stofnuð árið 1986 í framhaldi af stofnun Smekkleysu. Stofnendur Sykurmolanna voru Bragi Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar Melax, Friðrik Erlingsson og Sigtryggur Baldursson. Síðar bættust við þau Þór Eldon og Margrét Örnólfsdóttir. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var smáskífa með lögunum Ammæli og Köttur. Varð Ammæli gríðarlega vinsælt um allan heim og markaði það sem við tók. Varð Ammæli eitt vinsælasta lag níunda áratugarins og er hiklaust þekktasta lag hljómsveitarinnar.

Fyrsta stóra plata Sykurmolanna hét Life´s Too Good og kom út árið 1988 og naut mikilla vinsælda um allan heim. Erlendis urðu Sykurmolarnir auðvitað þekktir sem The Sugarcubes. Aðrar plötur Sykurmolanna voru Here Today, Tomorrow, Next Week! og kom út árið 1989 og svo hin stórfenglega Stick Around for Joy, á árinu 1991. Safnplötur Sykurmolanna voru Its It og The Great Crossover Potential. Hljómsveitin hætti störfum árið 1992. Lokatónleikar hljómsveitarinnar voru 17. nóvember 1992, á þessum degi því fyrir fjórtán árum.

Ég hef alltaf verið mikill unnandi tónlistar Sykurmolanna. Hún markaði skref í tónlistarsöguna og eftir standa eftirminnileg lög og lífleg augnablik. Það er ánægjulegt að hún komi aftur saman nú. Ekki eru gefnar neinar vonir með frekari hljómleika, svo að þetta gæti orðið einstök upplifun fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar.

mbl.is Þúsund tónleikagestir til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveður í nóvember - frambjóðendur í háska

Sjálfstæðisflokkurinn Það hefur verið rosalegt veður hér á svæðinu að undanförnu. Hér á Akureyri hefur verið vonskuveður alla vikuna og ekki ferðaveður. Við erum svo sannarlega minnt á náttúruöflin. Það eru nú aðeins átta dagar í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Utankjörfundarkosning hófst hér á Akureyri á mánudaginn og hef ég verið að fylgjast með henni. Veðrið hefur auðvitað haft áhrif á prófkjörsbaráttuna og orðið til þess að framboðsfundum hefur verið aflýst.

Spáin fyrir næstu viku lofar ekki góðu. Það mun vonandi ekki fara svo að veðrið hafi áhrif á kjördaginn 25. nóvember. Ef svo verður mun tefjast að fá úrslit og þetta taka lengri tíma en ella. Við erum í mjög stóru kjördæmi, sem nær yfir Siglufjörð í norðri til Djúpavogs í austri. Veður hefur því úrslitaáhrif um það hvernig að prófkjörið gengur fyrir sig. Við verðum með 20 kjörstaði þann 25. nóvember, svo að allt stendur og fellur með veðrinu. Eins og fyrr segir hafa frambjóðendurnir verið einstaklega óheppnir með veðrið og fundir fallið niður. Þetta hefur því gengið brösuglega og verið einstaklega erfitt að lenda í svona aðstæðum.

Einnig hafa frambjóðendur lent í háska. Ólöf Nordal lenti í bílslysi við Reyðarfjörð í gær og var stórheppin að sleppa lítið sem ekkert slösuð í mjög vondu slysi. Ég vil senda Ólöfu mínar bestu kveðjur og vona að hún nái sér sem allra fyrst. Kristján Þór og fleiri frambjóðendur eru veðurtepptir á Egilsstöðum, eins og fram kemur í dagbókarfærslu á vef hans. Fundarhöldum þar var auðvitað aflýst og greinilegt að ekki mun ganga að funda á öllum stöðum eins og lagt var upp með í upphafi. Veðrið gerir alveg út af við þá hlið mála.

En vonandi fer veðrið að skána og þetta geti gengið vel fyrir sig. Ef marka má þó veðurspár stefnir ekki í að svo muni fara.

Segolene Royal forsetaefni franskra sósíalista

Segolene Royal Segolene Royal hefur verið kjörin forsetaefni franskra sósíalista. Hún er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á því að verða forseti Frakklands. Skv. skoðanakönnunum nú er líklegast að helsti andstæðingur hennar í kosningunum verði innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy. Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, hefur enn ekki tekið formlega ákvörðun um hvort að hann gefi kost á sér til endurkjörs, en hann hefur verið forseti frá árinu 1995. Forsetakosingar fara fram 22. apríl og 6. maí nk. í tveim umferðum, ef þess þarf.

Segolene Royal hlaut yfir 60% atkvæða í forvali franskra sósíalista. Það hefur blasað við nú um mjög langt skeið að hún væri langlíklegasti frambjóðandi sósíalista. Sigur hennar á Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra, og Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, var því heldur betur afgerandi. Þeir voru fulltrúar hins gamla valdatíma franskra sósíalista á valdatíma Francois Mitterrand sem forseta 1981-1995 og Lionel Jospin sem forsætisráðherra 1997-2002. Sá tími er greinilega liðinn og niðurlægjandi ósigur þessara lykilmanna boðar nýja tíma meðal franskra sósíalista.

Segolene Royal er 53 ára og er í sambúð Francois Hollande, leiðtoga franska Sósíalistaflokksins. Orðrómur var lengi uppi um forsetaframboð hans, en hann ákvað að styðja frekar Segolene heldur en að gera út af við möguleika hennar. Royal vann í tæpan áratug sem ráðgjafi Francois Mitterrand, forseta Frakklands, í Elysée-höll á sviði félagsmála. Árið 1988 var hún kjörin á franska þingið. Hún var til skamms tíma umhverfisráðherra Frakklands og ennfremur aðstoðarráðherra á sviði menntamála og málefna fjölskyldu og barna. Hún var kjörin forseti héraðsstjórnarinnar í Poitou-Charentes í vesturhluta Frakklands í vinstribylgjunni í apríl 2004.

Bretar áttu Margaret Thatcher, þjóðverjar eiga Angelu Merkel og bæði Chile og Finnland hafa kjörið kvenforseta á síðustu tólf mánuðum. Það stefnir í sögulegar forsetakosningar í Frakklandi með vorinu. Í fyrsta skipti á kona raunhæfa möguleika á að verða húsbóndi í Elysée-höll. Það má búast við spennandi og líflegum átökum um forsetaembættið í þessum kosningum. Það bíða nú flestir eftir formlegri ákvörðun Jacques Chirac, forseta, um hvort hann fari fram eður ei.

mbl.is Segolene Royal valin forsetaefni franska Sósíalistaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milton Friedman látinn

Milton Friedman Meistari Milton Friedman er látinn, 94 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn af allra helstu talsmönnum einstaklingsfrelsis í heiminum og frjálshyggjugúrú sem athygli vakti og naut vinsælda um allan heim. Friedman fæddist þann 31. júlí 1912. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1976 og er almennt viðurkenndur sem leiðtogi Chicago skólans í hagfræði.

Friedman kom til Íslands í ágúst 1984 og flutti þar fyrirlestur undir heitinu "Í sjálfheldu sérhagsmunanna" (The Tyranny of the Status Quo), þar sem hann sagði, að einn meginvandinn af ríkisafskiptum væri, að gróðinn af þeim dreifðist á fáa, en tapið á marga, svo að hinir fáu, sem græddu á afskiptunum, berðust harðar en hinir mörgu, sem töpuðu, og sigruðu því ósjaldan.

Friedman hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands í valdatíð Ronald Reagan og Margaret Thatcher. Um hann hefur mikið verið ritað og áhrif hans ná víða yfir. Í ferð minni til Washington í október 2004 heimsótti ég Cato-stofnunina í borginni. Það var eftirminnileg ferð og gagnleg. Þar fengum við að gjöf merk rit og kynnisefni um þennan mikla hagfræðimeistara, sem markaði skref í heimssöguna með verkum sínum og hugmyndafræði.

Friedman vakti athygli fyrir eftirminnileg ummæli sín og snjallyrði. Hann sagði eitt sinn að hádegisverðurinn væri aldrei ókeypis, með eftirminnilegum hætti, og í Íslandsförinni fyrir rúmum tveim áratugum sagði hann að frelsið væri lausnarorðið fyrir Íslendinga, aðspurður af Boga Ágústssyni, fréttamanni, í ógleymanlegu viðtali. Að leiðarlokum minnumst við Milton Friedman með mikilli virðingu. Blessuð sé minning hans.

Ítarleg umfjöllun um Milton Friedman

mbl.is Milton Friedman látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur Valdimar Leó til liðs við Frjálslynda?

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, liggur nú undir feldi og íhugar pólitíska framtíð sína. Laust fyrir hádegið í dag skrifaði ég hér á vefinn um þær sögusagnir að hann gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn og segði skilið við Samfylkinguna. Nú hefur Steingrímur Sævarr Ólafsson skrifað um þessar hugleiðingar ennfremur á bloggvef sinn. Hann bætir um betur og bendir á að Valdimar Leó hafi verið viðstaddur stofnfund Frjálslyndra í Mosfellsbæ nýlega.

Valdimar Leó hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá haustinu 2005 er Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Í þættinum Morgunhaninn á Útvarpi Sögu í gærmorgun sagðist Valdimar Leó íhuga sína pólitísku stöðu og velta fyrir sér næstu skrefum sínum eftir prófkjör flokksins í Kraganum fyrr í þessum mánuði. Sagði hann þó aðspurður að ekki kæmi til greina að hætta þátttöku í stjórnmálum. Greinilegt er að hann hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana. Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ.

Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örn Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing í hans stað. Frá flokkaskiptunum hefur Gunnar Örn ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum í Kraganum inn í sinn stað.

En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði núverandi alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. En tilkynning um ákvörðun Valdimars Leós mun liggja fyrir á sunnudag eftir því sem hann sjálfur hefur sagt og kjaftasagan segir líka. Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn Frjálslynda flokksins verði aftur orðnir fjórir innan viku.

Dagur íslenskrar tungu

Jónas Hallgrímsson Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í ellefta skipti. Það var fyrir áratug, árið 1996, sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn af mestu meisturum íslenskrar bókmenntasögu.

Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land.

Í dag var deginum fagnað sérstaklega með hátíðarathöfn síðdegis í Hjallaskóla í Kópavogi. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Nirði P. Njarðvík, rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2006. Fær Njörður verðlaunin m.a. fyrir að hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum og kennslu, og þar með stuðlað að eflingu hennar, framgangi og miðlun til nýrrar kynslóðar. Njörður er vel að verðlaununum kominn. Fyrr í dag opnaði menntamálaráðherra formlega Íslenska réttritunarvefinn, sem kennir stafsetningu og vélritun með gagnvirkum æfingum. Vandaður og góður svo sannarlega.

Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.

Eitt fallegasta ljóð Jónasar Hallgrímssonar er Íslands minni:

Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

mbl.is Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegt kjör Pelosi - pólitískt áfall í leiðtogakjöri

Nancy Pelosi Nancy Pelosi var í dag formlega kjörin sem forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings af þingflokki demókrata í deildinni, en flokkurinn vann þar kosningasigur í fyrsta skipti í tólf ár í síðustu viku. Pelosi verður fyrsta konan sem stýrir fulltrúadeildinni og mun taka við embættinu af repúblikanum Dennis Hastert, sem verið hefur forseti fulltrúadeildarinnar allt frá árinu 1999. Hastert hefur verið hefur einn þaulsetnasti forseti deildarinnar.

Kjör Pelosi markar því nokkur þáttaskil. Hún hefur setið í þingdeildinni fyrir Kaliforníu allt frá árinu 1987 og verið leiðtogi demókrata þar frá 2003, er Dick Gephardt steig til hliðar. Pelosi, sem kjörin var einróma þingforseti, varð þó síðar í dag fyrir nokkru pólitísku áfalli er valkostur hennar til að taka við af henni sem þingleiðtogi, John Murtha, sem hefur verið mikill og áberandi andstæðingur Íraksstríðsins, varð undir í leiðtogakjöri innan þinghópsins.

Þess í stað var Steny Hoyer, fulltrúadeildarþingmaður frá Maryland, kjörinn leiðtogi demókrata í þingdeildinni. Verður hann þar með næst valdamesti fulltrúi demókrata í fulltrúadeildinni. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1981 og verið þar framarlega, t.d. var hann næstvaldamestur á eftir Pelosi innan þingsins. Það kom mörgum á óvart er Pelosi studdi Murtha opinberlega sem þingleiðtogaefni og lagði honum afgerandi lið. Stuðningur hennar hafði mjög lítið að segja, enda tapaði Murtha með 86 atkvæðum gegn 149 atkvæðum Hoyer.

Munurinn er því mjög svo afgerandi og er pólitískt áfall fyrir hinn nýkjörna þingforseta. Það varpar óneitanlega skugga á sögulegt kjör hennar að hafa tilnefnt sjálf Murtha innan þinghópsins og geta ekki tryggt honum kjör, heldur bíða verulegan ósigur. Það voru reyndar margir hissa á að Hoyer skyldi ekki verða þingleiðtogi án kosninga, enda hefur hann verið varaskeifa Pelosi og talsmaður demókrata innan þingsins með áberandi hætti. Svo fór ekki, en sigur hans er alveg afgerandi og umboð hans öruggt.

Það veikir stöðu Nancy Pelosi að hafa lagt sig eftir því að John Murtha yrði þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni en ná kjöri hans ekki í gegn. Hún tók vissa áhættu með afgerandi stuðningi við Murtha. Hún kom t.d. með Murtha til fundarins í þinghúsinu í Washington og fylkti liði með honum með afgerandi hætti. Þessi ósigur er því ekki aðeins áfall fyrir Murtha, heldur hinn nýja þingforseta.

Spennandi tvö ár eru annars framundan í bandaríska þinginu. Formleg valdaskipti verða á fyrstu dögum nýs árs. Munu stjórnmálaáhugamenn um allan heim fylgjast vel með valdasambúð demókrata og repúblikana, fram að næstu forsetakosningum.

mbl.is Fyrsta konan í embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Runólfur segir upp á Bifröst - Bryndís rektor

Runólfur Ágústsson Runólfur Ágústsson, rektor Háskólans á Bifröst, hefur beðist lausnar frá störfum frá 1. desember nk. Vindar hafa blásið um skólann síðustu daga vegna persónu Runólfs og fylkingar nemenda með og á móti rektor myndast með áberandi hætti í kastljósi fjölmiðla. Staðan var orðin óviðunandi og gat varla endað með öðruvísi hætti. En Runólfur hefur unnið þessum skóla mikið gagn og flestir virða þau verk, þó á móti hafi blásið og starfsferli hans sem rektors hafi lokið með frekar leiðinlegum hætti.

mynd Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor og fyrrum alþingismaður, hefur verið sett tímabundið sem rektor Háskólans á Bifröst frá 1. desember að telja. Mjög líklegt verður að teljast að Bryndís verði rektor og verði ráðin formlega til starfa síðar.

Bryndís var á síðasta ári ráðin til starfa að Bifröst sem forseti lagadeildarinnar þar. Þá lauk þingmannsferli hennar, en hún var alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar á árunum 1995-2005 og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004.


mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir tekur við sem rektor tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdimar Leó á leið úr Samfylkingunni?

Valdimar Leó FriðrikssonValdimar Leó Friðriksson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, íhugar nú pólitíska framtíð sína í kjölfar prófkjörs flokksins í kjördæminu þar sem hann varð undir. Miklar líkur virðast benda til að hann yfirgefi flokkinn og fari í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn. Færi svo að Valdimar Leó segði sig úr Samfylkingunni myndi þingmannatala flokksins verða 19, en Valdimar Leó er fjórði þingmaður flokksins í Kraganum.

Hann tók sæti á Alþingi við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, sendiherra, af þingi í september 2005. Það yrðu nokkur tíðindi ef að Valdimar Leó yfirgæfi Samfylkinguna og færi í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn eftir allt sem á undan er gengið. Það yrði áfall fyrir Samfylkinguna að missa þingsæti í aðdraganda kosninganna og rýrna með þessum hætti.

Það yrði reyndar athyglisvert ef að Valdimar Leó yrði frjálslyndur eftir alla þá gagnrýni sem að forystumenn Frjálslyndra beindu til Gunnars Örlygssonar fyrir einu og hálfu ári er hann sagði skilið við Frjálslynda og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Valdimar undir feldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar á Bifröst

Þórólfur Ágústsson Það er ekki hægt að segja annað en að háskólasamfélagið á Bifröst ólgi í illdeilum. Miðpunkturinn er Runólfur Ágústsson, rektor á Bifröst. Hann hefur nú verið kærður til siðanefndar skólans, m.a. fyrir ástarsamband sitt við einn nemanda Háskólans, ónæði af veisluhöldum á hans vegum og fleiri þætti. Ítarleg umfjöllun var um málið í báðum kvöldfréttatímum ljósvakamiðlanna og greinilegt að átök eru milli nemendanna og rektorsins.

Er ekki hægt að segja annað en að þetta mál allt sé hið dapurlegasta fyrir Háskólann á Bifröst, sem er einn öflugasti háskóli landsins. Runólfur boðaði í dag til fundar nemenda og starfsfólks til að kanna hvort hann nyti trausts til starfa sinna á Bifröst áfram. Meirihluti fundarmanna lýsti yfir stuðningi við rektorinn þar. Deilur eru nú um boðun fundarins og hvernig hann fór fram. Þar komu fram nemendur sem eru í fylkingum með og á móti Runólfi.

Þetta er vond staða fyrir þennan öfluga skóla og hlýtur að veikja hann. Þetta eru mjög viðkvæmar fréttir og þarna er greinileg ólga innan veggja. Andrúmsloft illinda boðar aldrei gott. Það verður varla á Bifröst frekar en öðrum stöðum. En fyrst og fremst vekja þessar hörðu deilur athygli, enda hefur Háskólinn á Bifröst haft á sér blæ krafts og sóknar í nýjar áttir. Þessi staða hlýtur að veikja allt grunnstarf þarna, sem er varla af hinu góða.

mbl.is Formaður nemendafélagsins á Bifröst lýsir óánægju með fund rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband