Prodi áfram við völd í veikburða stjórn á Ítalíu

Giorgio Napolitano og Romano ProdiÞað kemur ekki að óvörum að vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, hafi beðið Romano Prodi um að vera áfram forsætisráðherra Ítalíu. Prodi þarf nú að fara fyrir þingið og óska eftir umboði í vantraustskosningu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, sem líklega þýðir að Prodi geti setið lengur við völd, er öllum ljóst að ríkisstjórn Ólífubandalagsins er mjög veik, en hún stendur og fellur með einu atkvæði. Það breytist ekki með þessu.

Stjórnin var sett í gíslingu af tveimur öldungadeildarþingmönnum kommúnista sem vildu ekki samþykkja utanríkisstefnu hennar óbreytta. Tapið var vandræðalegt og skaðandi fyrir Prodi. Þó að Napolitano sé vinstrimaður hefði hann aldrei getað réttlætt að Prodi fengi umboð til forsætisins áfram hefði hann ekki hlotið traustsyfirlýsingu allra flokkanna níu sem mynda stjórnina í gær. Eftir standa þó vandræðin sem felldu stjórnina. Einn þingmaður getur sett allt í gíslingu og því öllum ljóst að hún verður á bláþræði eftir sem áður.

Þegar að stjórnin tók við völdum í maí 2006 sagði Romano Prodi að það yrði ekki vandamál hversu naumur meirihluti hennar væri. Það leið ekki ár þar til að Prodi varð að segja af sér embætti vegna falls hennar í þinginu. Það er öllum betur ljóst nú hversu tæpt hún í raun stendur. Því neitar enginn nú. Fall í þingkosningu um utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar er í besta falli vandræðalegt en þó umfram allt lamandi vitnisburður stjórnvalda í krísu. Enn eru fjögur ár til þingkosninga og vandséð hvernig að hún geti setið með málamiðlunum níu flokka (Prodi leiðir engan flokkanna) allan þann tíma.

Giorgio Napolitano var því vandi á höndum þar sem hann hugleiddi stöðuna í forsetahöllinni. Þó að Napolitano hafi orðið forseti Ítalíu með stuðningi Ólífubandalagsins í þinginu fyrir tæpu ári gat hann ekki réttlætt stöðuna án þess að eitthvað fylgdi umboði Prodis. Hann biður hann því að fara fyrir þingið og leita umboðs. Með þessu fylgir greinilega að hann fái ekki önnur tækifæri. Þetta virðist vera annað tækifæri til stjórnarforystu með þeirri afgerandi vísbendingu um að stjórninni sé ekki sætt komi sama krísa upp.

Skoðanakannanir sýna nú að hægriblokk Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, stendur sterkar að vígi en Ólíubandalagið og myndi sigra í kosningum nú. Eftir átök um Íraksstríðið og fleiri umdeild mál í fyrra eftir fimm ára valdaferil Berlusconis kom á óvart að Prodi og bandalag hans skyldi vinna svo tæpt og eiga svo erfitt með að stjórna af krafti. Berlusconi féll af valdastóli með naumindum og fræg var þrjóska hans við að viðurkenna tapið sem slíkt. Staða Berlusconi virðist altént sterk nú. Það er því ekki skrýtið að hægriblokkin vilji kosningar nú.

Napolitano, sem verður 82 ára í sumar, á enn eftir sex ár á forsetastóli. Það er því ljóst að hann verður forseti að óbreyttu út kjörtímabilið. Hann mun því vaka yfir pólitískum örlögum Prodis og framtíð stjórnarinnar. Staðan virðist þó svo brothætt að ganga megi út frá því sem vísu að þingkosningar verði fyrir 2011. Á þessari stundu veðja held ég fáir í Ítalíu á að stjórnin haldi allan þann tíma.


mbl.is Forseti Ítalíu biður Prodi að halda áfram störfum sem forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notaleg leikhúsferð - farið að sjá Svartan kött

Svartur köttur Í kvöld fórum við út að borða og í leikhús. Yndislegur pakki. Farið var að sjá leikritið Svartur köttur eftir Martin McDonagh, loksins segi ég eiginlega, en ferð á verkið hefur staðið til nú í nokkrar vikur. Þetta var mögnuð kvöldstund svo sannarlega, það er alltaf gaman að fara í gamla góða leikhúsið hérna heima. Verkið er svo sannarlega svart eins og kötturinn sem er meginþemað frá upphafi til enda. Þetta er fyndið, djarft og blóðugt verk - allur skalinn eiginlega.

Leikritið fjallar um atburði sem gerast í kjölfar dauða svarta kattarins. Þrátt fyrir að verkið sé mjög skelfilegt og gengið sé nærri leikhúsgestinum er þetta gert með glæsibrag; ekki vantar drápin, byssuskotin, sundurskorna líkamsparta, blóðið og dökkan hryllinginn. Það er allavega enginn kærleikur og gleði á heimilinu sem er sjónarsvið áhorfandans frá upphafi til enda. Þar er grimmdin og mannvonskan ein ansi ráðandi.... bæði með gamansömum og nöturlegum hætti. Það er eitt það kostulegasta við verkið hvernig að húmor og ógeði er blandað saman í ramman kokteil.

Stjarna sýningarinnar er meistari Þráinn Karlsson. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hann hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa. Þráinn er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar.

Þráinn fer algjörlega á kostum í þessu leikriti. Þar leikur hann óheflaðan (svo vægt sé til orða tekið) mann, kominn af léttasta skeiði, sem annaðhvort virkar ráðalaus og utangátta eða er hreinlega í áfengismóki. Það eru fá lífsviðmið í hávegum höfð hjá honum. Þráinn er á nærklæðunum í verkinu allan tímann, er með tattú og krúnurakaður. Merkilegur karakter. Hann hefur á löngum leikferli túlkað allan skalann og sennilega er þetta óheflaðasta týpan sem Þráinn hefur túlkað á leiksviðinu í Samkomuhúsinu. Guðjón Davíð Karlsson og Ívar Örn Sverrisson eiga svo stjörnuleik þar sem túlkað er upp og niður karakterskalann.

Leikhópurinn stendur sig í heildina mjög vel - sennilega er þó svarti kötturinn eftirminnilegastur allra í sjálfu sér. Umgjörðin er öll hin besta; lýsingin er stórfín (eins og venjulega hjá LA), tæknibrellur virkilega flottar og vel gerðar og leikmyndin er mögnuð, þar er öllu vel komið fyrir og inni- og útiatriði fléttuð saman með vönduðum hætti í leikmyndinni. En þetta er semsagt sýning sem markast bæði af gleði og hryllingi - hárfín blanda. Hvet alla til að skella sér á sýninguna.

Leyndardómsfulla bréfið

Bréfið fræga Mál málanna í dag er hiklaust nafnlausa bréfið sem nú skekur Baugsmálið. Ekkert meira rætt í dag á bloggsíðunum og spjallvefirnir eru mjög áberandi á kafi í að ræða þetta bréf. Svosem varla við öðru að búast en að þetta bréf verði aðalpunktur málsins næstu daga. Meira að segja farið að velta því fyrir sér hver hafi skrifað það. Þetta mál verður sífellt kostulegra, bætist alltaf á það meiri mystík og spurningamerki. Ekki var þörf á meiri dulúð í þessu máli.

Það verður fróðlegt að sjá hvort bréfið komi verjanda eða ákæruvaldinu til góða. Heilt yfir varpar það rýrð á málið allt og gerir það enn vandræðalegra. Það er fyrir löngu orðið eins og farsi frá miðri síðustu öld, eða leikrit eftir Pinter; óskiljanleg langvella.

Það væri samt fróðlegt að vita hver skrifaði bréfið. Væntanlega þagna ekki efasemdir fyrr en það er ljóst. Væntanlega mun höfundurinn ekki áfjáður um að gefa sig upp, af mjög skiljanlegum ástæðum.

mbl.is Áttu stuttan fund um nafnlaust bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameiningartáknið sem villtist af leið

ÓRG - þrífararÉg verð að viðurkenna að það er orðið langt síðan að ég hætti að líta á Ólaf Ragnar Grímsson sem sameiningartákn á forsetastóli - er í rauninni einn af þeim sem ber enga virðingu í sjálfu sér fyrir þessum þjóðhöfðingja. Mér finnst embættið hafa þróast á aðrar og verri brautir á hans forsetaferli. Það kristallaðist mjög vel í viðtali Egils Helgasonar við forsetann um síðustu helgi. Ég botna engan veginn í þeim ummælum hans þar að í ljósi þess að hann sé þjóðkjörinn hafi enginn í raun yfir honum að segja.

Björg Thorarensen, lagaprófessor, hefur nú bent á það í fjölmiðlum að forsetaembættið heyri undir forsætisráðuneytið. Það er sú túlkun sem flestir hafa lagt í stöðu mála. Forsætisráðherra á að vera sá sem forsetinn ráðfærir sig við ef krísuástand ber að höndum og ef einhver mál þarfnast úrlausnar. Þarna á milli þarf að vera viðunandi samstarf að mínu mati. Á það hefur skort hin seinni ár. Forsetinn hefur mótað sér grunn manns sem þorir að vega að þingi og ríkisstjórn með áberandi hætti. Það er ekki gott verklag.

Ég veit ekki betur en að Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætisráðherra, hafi talað um forsetaembættið með þessum hætti sem Björg víkur að, einkum í bókum sínum um lögfræði. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, sagði í viðtalsþætti við hana sem sýndur var í júlílok 1996, nokkrum dögum áður en hún lét af embætti, að Ólafur hefði ráðlagt henni við upphaf forsetaferilsins að ef vanda bæri að skyldi leita til forsætisráðherra, enda þyrfti þar á milli að vera góð samvinna. Það gerði enda Vigdís í krísum á hennar forsetaferli; flugfreyjuverkfallinu 1985 og EES-málinu 1993.

Ég er einn þeirra sem ber mikla virðingu fyrir forsetatíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. Það verður seint sagt að þau hafi verið hægrifólk í stjórnmálum, en þau met ég mest af forsetunum fimm. Eflaust er það einkum vegna þess að þau fetuðu millistig í embættisverkum sínum og voru sameiningartákn þjóðarinnar á örlagastundum. Einn þáttur þess að mínu mati er sú staðreynd að bæði voru ekki þátttakendur í stjórnmálum fyrir forsetaferilinn. Ég hef alltaf verið á móti því að forsetinn eigi sér þann bakgrunn.

Ég er hættur fyrir nokkru að skilja á hvaða leið Ólafur Ragnar Grímsson er í þessu embætti. Ég ber enga virðingu fyrir honum og get engan veginn skilið hvert hann er að fara í orðalagi sínu um embættið. Valdsvið forsetans er skýrt og ætti að vera það í huga flestra. Það að líta á forsetann sem kóng í ríkinu er rangtúlkun á embættinu. Þetta er valdalaust táknrænt embætti, þetta á að vera sameiningartákn á örlagastundum. Það er leitt frá því að segja að þetta er ekki lengur svo.

Ég bar mikla virðingu fyrir Vigdísi Finnbogadóttur og hugsa með hlýju til hennar og þess tíma er hún var farsæll forseti á Bessastöðum. Hún var forseti allra, óháð flokkapólitík og fylkingadráttum hversdagsstjórnmála. Þannig forseta vil ég. Í þeirri átt vil ég sjá þetta embætti og finnst afar leitt að sjá hvernig að núverandi forseti slær um sig með rangtúlkunum um stöðu embættisins og reynir æ ofan í æ að gera forsetaembættið að pólitísku bitbeini.

Forsetakosningar fara fram á næsta ári. Þá vona ég að þjóðin velji til verka á Bessastöðum fulltrúa úr ópólitískri átt, forseta sem er ekki pólitískur brennuvargur liðinna tíma. Það þarf að endurreisa veg og virðingu forsetaembættisins með því að láta stjórnmál lönd og leið.


Nafnlaust bréf veldur ólgu í Baugsmálinu

Bréfið frægaVar að lesa áðan nafnlausa bréfið sem nú skekur Baugsmálið. Mjög athyglisverð lesning, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar er því haldið greinilega fram að dómarar í Hæstarétti Íslands hafi bæði sýknað menn og vísað frá ákæruliðum í Baugsmálinu til þess að hefna sín á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fv. forsætisráðherra, fyrir að hafa beitt sér fyrir því að þeir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hafi verið skipaðir hæstaréttardómarar.

Eins og flestir vita stóð töluverður styr um þær ákvarðanir árin 2003-2004 og eins og frægt var mælti meirihluti réttarins með hvorugu dómaraefninu á sínum tíma, en það kom í hlut dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að ákveða hverjir færu í réttinn. Eins og flestir hafa séð er þetta mál mjög flókið og ekki virðist það vera að verða eitthvað auðveldara viðfangs eða einfaldara úr fjarlægð. Það stefnir greinilega í sviptingar í dómsstigum fram á veginn, ef marka má það sem gerist núna.

Þetta bréf er mjög alvarlegs eðlis að mínu mati. Það hlýtur að teljast nokkuð alvarleg atlaga að réttarskipan hér á landi. Þetta er mjög ógeðfellt bréf og það hlýtur að fara fram athugun á því hver sé uppruni þess. Þetta er einfaldlega of alvarlegt mál til að það liggi í þagnarhjúpi.

Svona samsæriskenningar og allt að því dylgjur er vont veganesti í málið á þessu stigi - það er engin þörf á einu óskiljanlega púslinu enn í þessa torskildu heildarmynd.


Ferðaþjónustan ósátt við flokkun ferðamanna

SAFSamtök ferðaþjónustunnar sendi í morgun frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að aðstandendum Snow Gathering-klámþingsins, sem átti að halda hér í marsbyrjun, var vísað frá Hótel Sögu og hætt var við þinghaldið. SAF sendir Hótel Sögu þar greinilega tóninn og bendir á að ekki sé hægt að flokka ferðamenn sem koma hingað til landsins og það sé óæskilegt. Með þessu sé vont fordæmi gefið. Orðrétt segir:

"Þrátt fyrir óbeit sem fólk kann að hafa á klámiðnaði og annarri starfsemi sem fólk stundar löglega í heimalandi sínu en er bönnuð á Íslandi, er vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geti meinað því fólki að koma í skemmtiferð til Íslands. Það koma rúmlega 400 þúsund ferðamenn árlega til Íslands, þeir eru ekki yfirheyrðir um störf sín heima við enda ógerlegt. Samkvæmt dagskrá þessarar umræddu samkomu ætlaði fólkið að vera í skipulögðum skoðanaferðum allan tímann.

Ljóst er að ómögulegt er fyrir fyrirtækin að flokka gesti sína í æskilega og óæskilega gesti hafi engin lögbrot verið framin. Frávísun hópa, sem engin lög hafa brotið, er alvarlegt mál sem getur leitt til skaðabóta enda um mikil viðskipti að ræða fyrir mörg fyrirtæki hér á landi."

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli. Tekist hefur verið á um það á netinu af miklum krafti, man varla annað eins - þar sem tekist er á með og á móti. Sitt sýnist hverjum. Hef séð það vel hér á blogginu, en mörg góð komment hafa þar komið.


mbl.is Ómögulegt að flokka ferðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlega dómsmálið

Jón Gerald ásamt lögmanni sínum Það er að verða ansi torskilið og langdregið þetta Baugsmál. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er fyrir löngu búinn að missa sjónar á því hvað var upphaf þess og hvenær það náði hámarki. Þetta er allt orðið eins og ormurinn langi; óskiljanleg lönguvitleysa. Það hefur verið dramatík í málinu að undanförnu í héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta eru að verða eins og réttarhöld í bandarísku sjónvarpi með miklu drama.

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.

Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.

mbl.is Óskar eftir fundi vegna nafnlauss bréfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna Nicole jarðsett á Bahama-eyjum

Það var dramatík í réttarsal á Fort Lauderdale í kvöld þegar að dómarinn Larry Seidlin kvað upp þann úrskurð sinn að Anna Nicole Smith skyldi jörðuð á Bahama-eyjum við hlið sonar síns. Í dag er hálfur mánuður liðinn frá dauða hennar, tekist var á um milli sambýlismanns fyrirsætunnar og móður hennar hvort hún skyldi jörðuð á eyjunum eða í Texas, heimaríki móðurinnar.

Það var athyglisvert að sjá þegar að niðurstaðan lá fyrir. Sá þetta í beinni útsendingu á Sky. Dómarinn brotnaði saman við lestur dómsorðs og stemmningin var mjög undarleg í salnum, þar sem allir dómsaðilar komu saman. Niðurstaðan markar lok eins undarlegasta dómsmáls síðustu ára. Það að takast þurfi á hinsta legstað manneskju fyrir dómi er sorglegt og átakanlegt með að fylgjast í sannleika sagt.

Næst tekur væntanlega við að úrskurða um hver hafi verið faðir fimm mánaða gamallar dóttur Önnu Nicole Smith. Fyrst mun útför hennar fara fram væntanlega á Bahama-eyjum, líklega á allra næstu dögum. Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag hefur markað nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Þetta hefur verið táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.

Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla. Það sést vel umfram allt á þessu athyglisverða dómsmáli þar sem skorið var úr um hvor aðilinn fengi jarðneskar leifar hennar í sína vörslu. Napurt, ekki satt?

mbl.is Anna Nicole verður jarðsett á Bahamaeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klámþingsfulltrúum úthýst úr Bændahöllinni

Mynd af snowgathering.comMikið líf hefur verið í bloggheimum og samfélaginu öllu eftir að forysta Bændasamtakanna ákvað að meina hópi fólks í klámbransanum um gistingu á Hótel Sögu eftir hálfan mánuð, dagana 7.-11. mars. Hiti hafði verið í samfélaginu að undanförnu vegna málsins og hótelið bognaði með athyglisverðum hætti eftir að borgarstjórn samþykkti þverpólitíska ályktun gegn klámráðstefnunni undir verkstjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra.

Aðstandendur ráðstefnunnar bregðast harkalega við á vef sínum og tala þar um að hræsni sé hjá Íslendingum að leyfa hvalveiðar en leyfa ekki aðstandendum ráðstefnunnar að koma til landsins með eðlilegum hætti. Skotin ganga þar heldur betur og yfirlýsing ráðstefnuhaldaranna er ansi beitt orðuð. Greinilegt er að Hótel Saga vísar sérstaklega í ákvörðun sinni til þess sem borgaryfirvöld hafa sent frá sér um málið. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur tók á málinu í upphafi með afgerandi ummælum borgarstjóra sem gerðist öflugur andstæðingur ráðstefnunnar við hlið femínista strax í upphafi.

Ég tjáði þá afstöðu í upphafi málsins að ég vildi ekki banna komu þessa fólks til landsins. Hinsvegar hefur staðan orðið þannig að hótelið hefur bognað og vísar til þess að borgaryfirvöld vilji ekki þessa gesti hingað. Þetta er fordæmalaus ákvörðun, man ekki eftir öðru eins, semsagt að gestum á hóteli hafi verið vísað á dyr og þeim hafnað sem viðskiptavinum. Þetta er því mjög athyglisverð ákvörðun. Ýmist er fólk ánægt eða ósátt við ákvörðunina. Það hefur valdið hvössum skoðanaskiptum á netinu.

Athyglisvert hefur verið að margir þeirra sem mest börðust fyrir komu Falun Gong-liða hér til lands á þeim forsendum að þau hefðu rétt til að koma hingað hafa stutt það að þessu fólki sé meinaður aðgangur. Ég vildi ekki meina því að koma og hef ekki stutt neitt í þá átt, enda tel ég að fólk megi koma hingað nema að það hafi beinlínis illt í huga fyrirfram. Mér finnst þetta ekki gott mál, enda vil ég að fólk hafi frelsi til að koma hingað og upplifa landið á sinn hátt.

En það er spurning hvernig að fólk metur frelsi til að koma hingað og í rauninni þetta hótel, ef út í það er farið, eftir þessa atburði. Það vakna margar spurningar við þessi sögulok að mínu mati.


mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Martin Scorsese óskarinn um helgina?

Martin Scorsese Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles á sunnudaginn. Flestir spekingar spá því að leikstjórinn Martin Scorsese fái nú loksins óskarinn, enda löngu kominn tími til. Það hefur fyrir löngu vakið athygli að hann hefur aldrei hlotið viðurkenningu frá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Scorsese hefur verið sniðgenginn þar ár eftir ár. Hann var ekki einu sinni tilnefndur fyrir leikstjórnina á Taxi Driver árið 1976 en hlotið fimm tilnefningar áður; fyrir Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Goodfellas, The Gangs of New York og The Aviator.

Nú hefur hann fengið sjöttu tilnefninguna fyrir The Departed, sem er án nokkurs vafa ein besta kvikmynd ársins 2006. Algjört meistaraverk svo vægt sé til orða tekið. Mér finnst það fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig þeir hafa sniðgengið Scorsese og kvikmyndir hans. Ég hélt að hann myndi fá verðlaunin fyrir tveim árum, fyrir The Aviator, en þá fóru verðlaunin til Clint Eastwood. Taldi ég að hann fengi verðlaunin bæði fyrir myndina, svo og
glæsilegt framlag til sögu kvikmyndanna. Svo fór ekki.

Martin Scorsese hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það mun verða kvikmyndabransanum til vansa fái hann ekki Óskarinn að þessu sinni og það hlýtur að verða að nú sé komið að því. Það er því ekki undarlegt að vinir hans og velunnarar hafi unnið vel að sigri hans nú. Sumarið 2003 skrifaði ég
ítarlegan pistil um leikstjóraferil og ævi Scorsese og ég bendi á hann hér með.

Sýnum metnað í því að klára hringveginn

Malarvegur Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við það metnaðarleysi að ætla ekki að klára að malbika hringveginn fyrir árið 2018. Í nýrri samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir lokum þessa verkefnis. Það er afleitt. Halldór Blöndal hefur tjáð sig af krafti í þessum efnum. Hann var í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í vikunni og fór þar yfir sínar skoðanir.

Halldór hefur alla tíð verið baráttumaður fyrir landsbyggðina og því kemur afstaða hans ekki að óvörum. Hans pólitík hefur alla tíð verið í þá átt að samgöngumál landsbyggðarinnar séu til sóma og staðið sé vörð um hinar dreifðu byggðir. Í samgönguráðherratíð Halldórs var mótuð stefna um að malbika hringinn fyrst fyrir árið 2000 en síðan hefur því endalaust verið frestað. Það er mjög dapurlegt náist það ekki í gegn innan næstu ellefu ára.

Mér finnst þetta nokkuð metnaðarleysi og finnst þetta mjög dapurlegt. Það á að vera grunnmál okkar allra að bundið slitlag sé um hringveg landsins. Það er mál sem verður að tryggja að nái í gegn á tíma næstu samgönguáætlunar. Það er mjög einfalt mál að mínu mati.

Hætt við klámráðstefnu á Íslandi

Klámþing Þá er búið að blása af klámráðstefnuna sem halda átti hér eftir hálfan mánuð í kjölfar þess að ráðstefnugestum var úthýst af Hótel Sögu. Þetta eru merkileg tíðindi. Þau boða endalok þessa máls sem hefur verið mest í umræðunni hérna í samfélaginu síðustu dagana. Óhætt er að segja að samfélagið hafi logað vegna málsins og þverpólitísk samstaða myndaðist í raun gegn samkomunni.

Best birtist þverpólitísk andstaða við ráðstefnuna í borgarstjórn, en þar samþykkt ályktun þess efnis að ráðstefnan væri í óþökk borgaryfirvalda. Var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, forystumaður gegn ráðstefnunni í raun innan borgarkerfisins og var eindreginn talsmaður gegn því að svona væri liðið innan borgarinnar. Voru ummæli hans afgerandi og tók Vilhjálmur Þ. undir skoðanir femínista og ákall þeirra um aðgerðir sem sendar voru út til forystumanna borgar og ríkis og lögregluyfirvalda. Það er ljóst að þessi mótmæli femínista hafi leitt til þess að andstaða við ráðstefnuna jókst og hótelrekstraraðilar gátu ekki hýst hópinn.

Þessu máli er semsagt lokið - vafalaust eru flestir ánægðir að ekkert verði af ráðstefnunni.

mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvinir

Eitt af því skemmtilegasta við þetta vefumsjónarkerfi er bloggvinasystemið. Það er hægt að eignast góða bloggvini í gegnum skrifin, bæði þá sem vilja tengjast manni og maður sjálfur óskar eftir að hafa tengingu við. Þetta er gott að því leyti að koma á bloggböndum, þetta eru vefir sem fá tengil á síðu bloggvinarins og öfugt, tengsl myndast og hver og einn eignast leskjarna. Þetta auðveldar að sjá þegar að uppfærslur eru og líta á það sem er nýjast hverju sinni. Líkar mjög vel við þetta.

Ég hef eignast marga bloggvini hér - bæði þá sem ég hef kynnst í gegnum lífið og eins fólk sem ég hef aldrei hitt. Með þessu myndast góð bönd. Það er hið besta mál. Ég raða ekki bloggvinum upp eftir eigin mati. Þeir birtast hér í þeirri röð sem mbl gefur upp. Ég hef þar engu breytt - finnst það heldur ekki rétt að gera upp á milli þeirra sem ég vil hafa sem bloggvin og eins þeirra sem hafa óskað eftir tengingu við mig.

Sé farið að raða upp að þá koma upp hugleiðingar af hverju þessi eða hinn sé ofar í huga þess sem á vefinn. Ég tek ekki þátt í því og raða bloggvinum upp eftir því sem stafrófsröð eða röð bloggkerfisins er, enda er stundum svo að sá sem skrifar er birtur eftir nafni sínu í stafrófsröð en ekki bloggheitinu. En ég semsagt birti listann hér óbreyttan.  Þannig á það líka að vera. Ég met alla bloggvini mína enda jafnt.

En þetta er góður fítus og myndar skemmtileg tengsl.... sem gaman er af á netinu. Þetta er enda mjög skemmtileg vefumsjónarkerfi, enda fer það alltaf stækkandi.


Klofningur hjá öldruðum og öryrkjum

Gömul hjón Það er svolítið kostulegt að fylgjast með framboðspælingum aldraðra og öryrkja. Svo virðist vera að ekkert samkomulag sé milli þeirra hópa sem hófu framboðsviðræður og í raun stefni í þrjú framboð ef allir hafi áhuga á framboði, enda sé ekkert samkomulag um að þau vinni saman. Þetta er kostulegt alveg. Mörgum fannst undarlegt þegar að klofningur varð í viðræðum stærstu hópanna og talað um að líklega yrðu framboð aldraðra og öryrkja tvö.

Nú hafa öryrkjar slitið viðræðum við Baldur Ágústsson, sem var forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum 2004 og hlaut þar um 10% atkvæða. Ekki virðist ganga vel fyrir þessa hópa að vinna með Baldri og greinilegt að það hafa verið stálin stinn þegar að kom að samstarfi hjá honum og Arnþóri Helgasyni. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Munu aldraðir og öryrkjar fara fram í fjölda framboða eða hætta við allt saman? Flestum má þó ljóst vera að mjög vandræðalegt verður fyrir þessa hópa verði framboðin í frumeindum og ekki ljóst hvaða árangur verði af því.

Þessi farsi um framboð aldraðra og öryrkja er alveg kostulegur og með ólíkindum að sjá hversu illa þeim gengur að vinna saman sem ætla sér saman í framboð. Er þetta trúverðugt? Verður þetta kannski allt andvana fætt. Þetta lítur allavega varla heilsteypt út. Fyrst að þessir hópar ná ekki saman um framboðið eitt og sér er vandséð hvernig að framboð í nafni þeirra geti náð um stefnu og áherslur í kosningum.

mbl.is Viðræðum um framboð aldraðra og öryrkja slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn tónskálds berjast fyrir heiðri hans

Það leikur enginn vafi á því að Friðrik Jónsson hafi verið eitt virtasta tónskáld Þingeyinga. Hann samdi nokkur ódauðleg lög sem mikið eru spiluð enn í dag - lög sem lifað hafa með þjóðinni. Nú eru deilur uppi um hvort hann hafi samið frægasta lag sitt, Við gengum tvö. Börn Friðriks hafa nú svarað umfjöllun Morgunblaðsins í gær með yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag. Þetta er athyglisvert mál og virðist þar börn tónskáldsins fyrst og fremst koma til varnar heiðri hans sem tónskálds. Er greinilegt að þau taka umfjöllun mbl illa.

Friðrik er án vafa þekktastur fyrir að hafa samið þetta lag og auk þess hið ódauðlega lag Rósin, sem er orðið eitt helsta jarðarfararlag landsins og virt í tónlistarheimum í flutningi bæði Álftagerðisbræðra og ýmissa söngvara. Lagið Við gengum tvö varð frægt í flutningi Ingibjargar Smith á miðjum sjötta áratugnum og hefur í danslagaþáttum alla tíð síðan og er eitt laganna sem lifað hafa með þjóðinni og öðlast sess í óskalagaþætti t.d. Gerðar B. Bjarklind sem stendur vörð um gömul lög gullaldartímabils íslenskrar tónlistar.

Friðrik, sem lést árið 1997, var organisti í nokkrum kirkjum í Suður-Þingeyjarsýslu sem lærði undirstöðuatriðin hjá föður sínum, en hann var organisti og söngstjóri. Friðrik fór suður til Reykjavíkur á unglingsárum og hlaut frekari tilsögn í orgelleik í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hann fékkst síðan við söngkennslu og margvísleg tónlistarstörf eftir það og varð fljótlega vinsæll og eftirsóttur harmonikuleikari. Hann fór víða um héraðið og lék fyrir dansi og gladdi sveitungana síma með tónflutningi og lagasmíðum.

Lagið Við gengum tvö varð til um 1940 en textann orti hagyrðingurinn Valdimar Hólm Hallstað sem var afkastamikið söngtextaskáld, en orðrómur hefur alla tíð verið um að hann hafi samið textann við hið þekkta lag, Í fjarlægð, en í flestum söngbókum er textinn merktur nafnlausum manni, Cæsari, að nafni.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari "baráttu" um heiður Friðriks Jónssonar sem tónskálds. Það er allavega greinilegt að börn hans standa vörð um heiður hans í tónlistargeiranum. Það sést vel af þessari yfirlýsingu.


mbl.is Samdi Við gengum tvö skömmu fyrir 1940
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flestir búnir að gleyma Silvíu Nótt

Silvía Nótt Í fyrra var Silvía Nótt mál málanna... líka hjá börnunum. Flestar stelpur vildu vera hún á öskudeginum eftir að hún hafði sigrað svo glæsilega í söngvakeppninni skömmu áður. Mörgum fannst með ólíkindum að sjá hana vera ímynd smákrakka, enda Silvía Nótt varla sterk fyrirmynd smástelpna. En nú horfir öðruvísi við ári síðar... flestir eru búnir að gleyma Silvíu Nótt.

Um allt land fóru krakkar í búðir og fyrirtæki... voru að syngja fyrir nammi. Gamall og góður siður. Krakkarnir fóru sem fyrr í ýmis gervi. Allir skemmtu sér vonandi vel. Þegar að ég var krakki fannst mér þetta yndislegur dagur og ég tók þátt í slatta ára. Þegar að ég var tólf ára hafði ég misst áhugann og ég tók þá ekki þátt. Fannst þetta ekki minn stíll lengur. Það er eins og það er. En í minningunni sem krakki var þetta yndislegur dagur, mjög svo.

Nú er Silvía Nótt engin fyrirmynd krakkanna á öskudeginum eins og í fyrra. Er það gott eða slæmt? Ég hallast að hinu síðarnefnda og er eflaust ekki einn um þá skoðun.

mbl.is Silvía Nótt hvergi sjáanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Romano Prodi segir af sér

Romano ProdiRomano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í kvöld fyrir hönd stjórnar sinnar eftir að hafa tapað mikilvægri atkvæðagreiðslu um stefnumótun í utanríkismálum í efri deild ítalska þingsins. Prodi hefur verið forsætisráðherra í tæpt ár, frá 17. maí 2006, en Ólífubandalagið vann nauman sigur í þingkosningum á Ítalíu í apríl 2006. Hefur bandalagið aðeins haft eins sætis meirihluta í efri deildinni.

Vinstrimenn sögðu eftir kosningarnar að þeir gætu verið í sterkri stjórn allt kjörtímabilið þrátt fyrir þessa stöðu en Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, og samherjar hans sögðu stjórnina varla geta setið í meira en ár. Það hefur nú sannast með þessari þingkosningu. Ólífubandalagið er bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu og það hafa flestir séð allan þennan tíma að það yrði erfitt ef ekki ómögulegt að halda völdum og ná samkomulagi í öllum málum við svona aðstæður.

Það er enda svo að Romano Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherra í nafni flokkanna níu og andlit þeirra. Prodi var forsætisráðherra í nafni samskonar bandalags á árunum 1996-1998 en gafst þá upp og aðrir tóku við. Nú er meirihlutinn mun brothættari en þá og greinilegt að það gengur illa að halda honum saman.

Nú er vinstristjórnin búin að segja af sér. Vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano er forseti Ítalíu. Það verður hans að meta nú stöðuna, ræða við leiðtoga flokkanna og kanna hvað sé rétt að gera. Það er enn ekki ár liðið frá þingkosningum og fróðlegt að sjá hvort Napolitano felur þjóðinni að leysa úr erfiðri pólitískri stöðu með því að óska eftir áliti landsmanna.

Þetta er mjög erfið staða og vandséð hvernig að hún verður leyst öðruvísi með sómasamlegum hætti.


mbl.is Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Prodis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Þór í Reykjavík - minni hasar í Suðri

MÞH Það er nú ljóst að Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, fer fram í Reykjavík í komandi alþingiskosningum og mun því ekki ætla sér aftur í framboð í Suðurkjördæmi, sem hann er nú þingmaður fyrir. Verður fróðlegt að sjá hvort að hann fer fram í norður- eða suðurhlutanum. Fari hann fram í suðurhlutanum mun hann mæta Margréti Sverrisdóttur, varaborgarfulltrúa og fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, sem leiðir þar væntanlega lista nýs framboðs síns.

Tilfærsla Magnúsar Þórs þýðir um leið að hann mun ekki mæta Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í Suðurkjördæmi, en Árni er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Rimma Magnúsar Þórs og Árna í hinu fræga brottkastsmáli fyrir nokkrum árum þótti eftirminnileg, en harðar árásir gengu þeirra á milli og málið fór fyrir dóm og lauk að lokum með sigri fjármálaráðherrans skömmu fyrir þingkosningarnar 2003. Nú mun það væntanlega verða Grétars Mars Jónssonar, skipstjóra og fyrrum forseta FFSI, að leiða lista frjálslyndra á þeim slóðum, en hann er nú varaþingmaður Magnúsar Þórs.

Ekki er hægt að segja að ákvörðun Magnúsar Þórs um framboð í Reykjavík komi að óvörum. Þó höfðu einhverjir átt von á að hann færi fram í Kraganum, en það er nú greinilega ætlað Valdimari Leó Friðrikssyni, sem var þingmaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar þar til að sá fyrrnefndi var óháður í nóvember, að leiða listann þar. Hann fetar þar í fótspor Gunnars Örlygssonar, sem náði kjöri sem frjálslyndur í kjördæminu en gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í maí 2005. Eitthvað hefur minna farið fyrir andstöðu frjálslyndra við að Valdimar Leó skipti um þingflokka á kjörtímabilinu en þegar að Gunnar Örlygsson gerði slíkt hið sama.

Það verður fróðlegt að sjá kosningabaráttu Magnúsar Þórs í Reykjavík. Þar heldur hann í höfuðvígi Margrétar Sverrisdóttur, en meginþorri þeirra sem studdu F-listann í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra og skipa forystusveit lista frjálslyndra og óháða hafa nú yfirgefið Frjálslynda flokkinn og gerst óháðir og skipa framvarðarsveit nýs framboðs, eða flokks, Margrétar. Þar þarf Magnús Þór því að byggja sér nýtt bakland. Hann er þó kominn nær heimaslóðum sínum, en hann býr á Akranesi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Magnúsi Þór gengur að byggja sér pólitískt bakland í höfuðborginni. Þeir verða sennilega ágætir saman hann og Jón Magnússon þarna. Mun hann kannski leiða hinn listann?

mbl.is Magnús Þór væntanlega í framboð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiriháttar klúður á Moggablogginu

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég ætlaði að fara hingað inn á öðrum tímanum en komst ekki inn. Skýringin beið mín í tölvupóstinum - það væri búið að skipta um lykilorð því það fyrra hafði verið opinberað á bloggsíðunni vegna mistaka þjónustuaðila síðunnar. Ergó: leynilegasta tenging milli mín og síðunnar var opinberuð! Þetta er meiriháttar klúður - einfalt mál. Sannkallaður stórskandall þeirra sem halda úti Moggablogginu. Það er ekkert annað hægt að segja um málið.

Hef verið lítið við tölvu í dag og því lítið getað skrifað og kynnt mér málið. En ég las þessa frétt og blogg nokkurra annarra hér sem skrifa og eru auðvitað ekki sáttir. Það er ég líka. Finnst þetta mjög slæmt mál og skil ekki í þessu sleifarlagi satt best að segja. Það þýðir ekki að segja bara að svona komi ekki fyrir aftur. Þetta er mjög alvarlegt mál svo vægt sé að orði komist. Það að einhver sem lesi hér geti séð lykilorðið og breytt stillingum er alvarlegt mál.

Þetta er ekki til vegsauka fyrir Moggabloggið og á svona vandræðalegu klúðri þarf að taka!

mbl.is Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samband tveggja skaphunda í uppnámi

Brad Pitt og Angelina Jolie Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins.

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.

Nú virðist þetta allt vera að stranda á því hvort þau muni ganga í hjónaband. Jolie vill það ekki en Pitt krefst þess. Deilupunkturinn liggur þar á hvort þeirra hafi betur og virðist það vera að sliga þetta fræga samband. Hvorugt þeirra vill gefa eftir. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, en það má fullyrða að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) árið 1996 og skildi við hann árið 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.

Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.

Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Nú virðist vera að steyta allverulega á skeri hjá þeim. Það yrðu fáir hissa myndi þessu ástríðufulla og sviptingasama sambandi ljúka einmitt vegna þess að gætu ekki komið sér saman um að heita hvoru öðru ævilanga trú og ástúð.

mbl.is Samband Jolie og Pitt sagt í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband