Hreinn Loftsson skrifar færslu um mútumálið

Hreinn Loftsson Um þessar mundir eru fjögur síðan liðin frá eftirminnilegu bolludagsviðtali Óðins Jónssonar við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og þáv. forsætisráðherra, þar sem hann sagði að forsvarsmenn Baugs hefðu gefið í skyn á frægum leynifundi Davíðs og Hreins Loftssonar í London í janúar 2002 að múta ætti Davíð til að hann yrði þægur í taumi. Davíð sagði að Hreinn hefði sagt þar að Jón Ásgeir væri tilbúinn til að greiða honum 300 milljónir fyrir að hætta að tala illa um Baug. Hreinn Loftsson sagði að þetta hefði allt verið sagt í hálfkæringi.

Lítið hefur verið rætt um þetta mál síðustu árin, nær ekkert eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum. Þetta var eitt mestu hitamála í aðdraganda alþingiskosninganna 2003, síðustu kosningabaráttu Davíðs á þriggja áratuga stjórnmálaferli, enda auðvitað athyglisvert þegar að forsætisráðherra heillar þjóðar fullyrðir að bornar hafi verið á hann mútur eða tilraun til þess gerð. Þetta endaði sem hitamál tengt kosningunum og barátta Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar varð gríðarlega hörð. Málið er eitt hið torskildasta í stjórnmálasögu seinni ára.

Hreinn Loftsson skrifaði athugasemd við grein Ragnars Sverrissonar, kaupmanns, á bæjarmálavefritinu Pollinum. Grein Ragnars hét Smjörklípudagurinn mikli og fjallar því um þetta mál. Það er svo sannarlega athyglisverð athugasemd. Birti ég hana orðrétt hér á eftir og lesendur geta dæmt hana sjálfir, en athyglisverð er hún:

"Eitt skulum við hafa alveg á hreinu. Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútur. Öðru nær. Aðspurður í MBL og KASTLJÓSI sagði hann að hann ætlaði mér ekki slíkt. Sagan ("smjörklípan") var einmitt svo slóttug vegna þess að hann sagði að ég hefði trúað sér fyrir því að Jón Ásgeir hefði á einhverjum tímapunkti áður nefnt þetta við mig en ég drepið hugmyndina vegna þess að Davíð Oddsson væri ekki slíkur maður (og ég tek fram að hann er ekki slíkur maður).

Jón Ásgeir hefði á hinn bóginn látið sér til hugar koma að Davíð Oddsson væri slíkur maður og að ég hafi sagt honum þetta, trúað honum fyrir þessu. Hann gat þess ekki í viðtalinu við RUV undir hvaða kringumstæðum þetta var sagt eða í hvaða samhengi, þ.e.a.s. að ég hefði sagt sér þessa sögu sem svar við söguburði hans um feðgana í Bónus. Menn skyldu ekki trúa öllu sem sagt væri um nafntogaða menn.

Um hann (Davíð Oddsson) væru sagðar sögur sem ég legði ekki trúnað á, t.d. hefði Jón Ásgeir sagt mér sögu sem gengi manna á meðal um meinta greiðslu að fjárhæð 300 m. kr. og slegið fram í framhaldinu hvort þetta væri kannski aðferðin! (Á ensku kallast þetta "sarcasm", "bitter irony" eða kaldhæðni á íslensku). Davíð greip þetta á lofti - áróðursmaðurinn sem hann er og sneri þessu strax upp í andhverfu sína - en ég sagði honum um leið að þetta hefði verið sagt í hálfkæringi af Jóni Ásgeiri. Engin alvarleg meining hefði legið þar að baki.

Þetta hefði verið nefnt í dæmaskyni um hve varlegt væri að leggja trúnað á söguburð. Hér var aðalatriðið auðvitað slúðrið en ekki kaldhæðni Jóns Ásgeirs. Ég minnti hann einmitt á að morgni "bolludagsins" - þegar hann hringdi í mig áður en hann fór í viðtalið á RUV - að ég hefði notað orðið "hálfkæringur" strax þarna um kvöldið. Þetta var ekki sagt sem fyndni af minni hálfu heldur til að vara Davíð Oddsson við að trúa kjaftasögum. Þetta er því ekta "smjörklípa" hjá honum. Hlutir teknir úr samhengi til að draga athyglina frá óþægilegri umræðu um önnur mál.

Í þessu tilviki - í framhaldi af lýsingu Fréttablaðsins frá því á laugardeginum fyrir "bolludaginn" - hvað vissi Davíð Oddsson um aðdraganda Baugsmálsins? Vissi hann eitthvað? Hitt er síðan annað mál að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum og annars staðar fóru að spinna, t.d. með því að spyrja: "já, en er það ekki einmitt svona sem menn ámálga slíka hluti" o.s.frv. Þá vil ég einnig mótmæla því að þetta hafi verið eitthvað fyllerí þarna úti í London eins og stundum er haldið fram manna á meðal og í fjölmiðlum.

Á hinum eiginlega fundi okkar tveggja í Lundúnum 26. janúar 2002 drakk annar kaffi en hinn te. Eftir heimkomuna og fram í febrúar 2002 áttum við Davíð Oddsson nokkur samskipti þegar ég gekk frá störfum mínum fyrir hann sem forsætisráðherra og ég varð þess ekki var þá að hann teldi að alvarlegir hlutir hefðu gerst í samskiptum okkar. Öðru nær. Hann þakkaði mér með hlýjum orðum fyrir náið og gott samstarf og góðan árangur við framkvæmd einkavæðingar á árunum 1992-2002."

Leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar

BónusUm fátt hefur meira verið rætt í dag en rúllandi kartöflur í Bónus, í bakgrunni Sölva Tryggvasonar, fréttamanns, í Íslandi í dag í umfjöllun um verð í lágvöruverslunum hér heima og í Danmörku. Ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir þessu er ég sá umfjöllunina fyrst en leit á þetta síðdegis þegar að ég heyrði umræðuna um þetta. Ég var svo upptekinn að spá í verðlagi milli þess sem gerist hér og í Danmörku að þetta fór framhjá mér.

Það hefði verið skelfilegt fyrir Bónus hefði verið músagangur þar. Hefði verið vont fyrir orðsporið og það. Þeir geta þó andað léttar enda er ljóst að þetta voru kartöflur en ekki kartöflumús þó. Hún fæst bara í duftpakkaformi þarna semsagt. Lifandi mýs eru því ekki til staðar. Í Íslandi í dag í kvöld var sýnt vel í nærmynd hvers eðlis málið er. Það þarf ekki að efast um eftir þær myndir hvernig allt er í pottinn búið semsagt.

Ég dáist að þeim sem sáu þetta í gærkvöldi meðan að háalvarleg verðmæling fór fram. Þetta fór allavega framhjá mér. Pælingarnar um þetta mál allt í dag hafa verið spekingslegar og lifandi. Skiptar skoðanir voru; sumir töldu þetta mýs og aðrir kartöflur. Það þarf semsagt ekki að rífast um þetta lengur. Kartöflur voru það, mjög vænar meira að segja; kartöflur sem myndu sóma sér sem bakaðar með grillsteikinni.

En já, leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar hefur verið sviptur hjúp óvissunnar og hægt að spá því í einhverju öðru. Við getum því öll sem eitt andað léttar.... með Baugi.


mbl.is Kartöflumús í Bónus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harðvítugar deilur um hinsta hvílustað Önnu Nicole

Anna Nicole Smith Tæpur hálfur mánuður er liðinn frá andláti Önnu Nicole Smith. Deilt er nú harkalega um það fyrir dómi hverjir fái yfirráð yfir líki hennar og staðsetningu greftrunar. Ég var að horfa á kvöldfréttirnar á Sky þar sem eru kostulegar svipmyndir úr réttarsal. Þar eru saman komnir allir málsaðilar; þau sem takast á um um að fá jarðneskar leifar stjörnunnar og þeir sem telja sig vera faðir fimm mánaða gamallar dóttur hennar.

Ekkert samkomulag er um nein atriði málsins og því verður það dómarans að taka ákvörðun um hvar Anna Nicole Smith verði í raun jarðsett og hvernig gengið verði frá málum dóttur hennar. Móðir Önnu Nicole, Vergie Arthur, og sambýlismaður og meintur barnsfaðir Önnu Nicole, Howard Stern, takast á í fyrrnefnda málinu en það verður væntanlega til lykta leitt á næstu dögum enda getur varla annað en talist mikilvægt að það verði ljóst fljótlega hvar stjarnan verði jarðsett. Móðirin vill jarðsetningu í Texas, en Stern vill að hún hvíli við hlið sonar síns á Bahama-eyjum.

Það er afskaplega ömurlegt að fylgjast með þessu máli. Það er eiginlega svo sorglegt að skynja það að þessi kona hefur verið umkringd fólki sem vilja aðeins hagnast á frægð hennar og ríkidæmi. Það er enda deilt um öll atriði. Það að takast þurfi á fyrir dómi um jarðsetningu er væntanlega hið sorglegasta. Það verður eins og fyrr segir dómara í ósköp venjulegum dómstól í Flórída, Larry Seidlin, að ákveða greftrunarstað - það verður því ósköp venjulegur embættismaður sem tekur þá ákvörðun vegna þess að samstaða er ekki til staðar. Málsaðilar talast ekki við nema í gegnum lögmenn og átökin hörð. Enda sást það vel á myndunum áðan.

Bein útsending er víst í bandarísku sjónvarpi frá þessum undarlegu réttarhöldum. Það er undarlegt að það sé talið áhugavert sjónvarpsefni að fylgjast með þessu. Kannski segir það talsvert um fréttamat og hversu mjög í kastljósinu þetta mál allt er. Þetta er allt mjög óraunverulegt. Í reyndina snýst þetta mál allt um peninga og hagsmuni tengda þeim. Það blasir við. Það er kuldalegt vissulega. Þetta gæti sennilega varla gerst nema í Bandaríkjunum. En það var sagt fyrir nokkrum áratugum að peningar og hagsmunaátök um þá gæti gert heilsteyptasta fólk að hreinræktuðum skrímslum.

Fjölmiðlar spila svo meginhlutverk í þessum darraðardans öllum. Það kemur svosem ekki neinum á óvart. Hrægammahugsun fjölmiðlanna er hinsvegar alltaf jafnnöturleg að sjá svona í nærmynd. Þetta mál er ekker einsdæmi en það virkar það sennilega vegna þess hversu opinbert það er. Það verður enda seint sagt að þetta mál sé heilsteypt. Það að þessari konu sé ekki leyft að hvíla í friði og ekki sé hægt að jarða hana án átaka segir allt sem segja þarf um þá sem næst henni stóðu.

Þetta væri sennilega ekki í fréttum ef þetta væri ekki fræg kona og ekki í Bandaríkjunum. Þeir vestanhafs eru snillingar að hype-a upp fréttir af stjörnum og þetta mál er risavaxið vegna þess að sú sem það snýst um er fræg. En það er sorglegt engu að síður.

mbl.is Harðar deilur um hvílustað Önnu Nicole Smith
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Gordon Brown taka við sökkvandi skipi?

Gordon Brown Það er ekki ofsögum sagt að ný könnun Guardian sé pólitískt áfall fyrir Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands og væntanlegan eftirmann Tony Blair á forsætisráðherrastóli. Könnunin sýnir 17% forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn undir forystu Browns í næstu þingkosningum, sem verða í síðasta lagi í maí 2010. Allir vita að Tony Blair er á útleið pólitískt og ekki stöndugur lengur á hinu pólitíska sviði. Veik staða Browns eru stór tíðindi og veikja hann samhliða forsætisráðherranum.

Gordon Brown hefur verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá árinu 1994. Hann hefur lengst allra verið fjármálaráðherra Bretlands og þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Þó Brown hafi verið umdeildur hefur hann notið trausts. Hann ákvað að sækjast ekki eftir leiðtogastöðu flokksins þegar að John Smith dó fyrir þrettán árum. Blair og Brown sömdu um að Blair fengi leiðtogastólinn, gegn því að hann myndi rýma til innan viss tíma.

Bið Browns eftir forsætisráðherrastólnum er orðin löng. Blair sveik loforðið fræga sem gert var vorið 1994, um að Blair færi frá á miðju öðru kjörtímabilinu. Þess í stað sóttist hann eftir að leiða flokkinn þriðju kosningarnar í röð. Með því komst Blair í sögubækur sem sigursælasti og þaulsetnasti leiðtogi kratanna í yfir 100 ára flokkssögu. Blair hefur fjarað hægt og rólega út síðan, hann varð gríðarlega óvinsæll í kjölfar Íraksstríðsins og hefur aldrei endurheimt fyrri vinsældir eftir það. Það er enda fátt nú sem minnir á geislandi leiðtogann sem leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs í maí 1997 og leiddi baráttu fólksins fyrir því að konungsfjölskyldan sýndi Díönu prinsessu hina hinstu opinberu virðingu haustið 1997.

Nú stefnir loksins í að Gordon Brown verði loksins við völd í Downingstræti 10 innan nokkurra mánaða. Að því hefur Brown stefnt leynt og ljóst í tæpa tvo áratugi. Hann var reyndar orðinn svo illur við tilhugsunina um að Blair ætlaði sér að sitja lengur en rétt framyfir tíu ára valdaafmælið í maí að hann varð að minna Blair á að honum væri heillavænlegast að fara meðan að stætt væri. Brown leiddi flauelsbyltingu gegn Blair í september - þá skalf allt og nötraði innan flokksins. Blair var gert ljóst að fastsetja tímasetningu brottfarar ella yrði honum steypt af stóli með þeirri hörku sem slíku hefði fylgt. Blair tók skilaboðunum beiskur á brá og gaf upp tímaplan.

Þessi skoðanakönnun hlýtur að vera reiðarslag fyrir leiðtoga sem hefur beðið í áraraðir eftir tækifæri síns stjórnmálaferils - tækifærinu til að leiða. Hann horfir fram á að Blair hefur skilið eftir sig svo sviðna pólitíska jörð eftir tíu ára valdaferil að varla stendur steinn yfir steini. Hann tekur í arf óvinsælar ákvarðanir, vonsvikna þjóð með langan valdaferil krata sem lofuðu öllu fögru en stóðu ekki undir því, skaðleg hneykslismál og klofinn flokk sem horfir í fylkingamyndum til framtíðar. Enn eru þeir til sem telja að Brown geti ekki unnið kosningar - hann sé ekki sterkur leiðtogi. Þetta er vond staða fyrir mann sem hefur lengi beðið eftir að fá tækifæri.

Gordon Brown verður vandi á höndum þegar að hann flytur í Downingstræti 10. Þessi könnun skannar þann vanda. Þessi könnun og aðrar vondar framtíðarmælingar, ef þær þá koma fram, gæti líka komið af stað leiðtogabaráttu um það hver taki við af Blair. Það yrðu nöpur örlög fengi kannski Brown ekki tækifærið. En hver er sterkari en hann? Þeir eru vandfundnir. Þrátt fyrir allt er líklegast að Skotinn Brown taki við, þó hann sé tveim árum eldri en Blair. En það eru erfið verkefni framundan og erfiðar ákvarðanir sem bíða nýs leiðtoga Verkamannaflokksins.

Bresk þjóð virðist búin að fá sig fullsadda af áratug Verkamannaflokksins og horfir í aðrar áttir og til ferskrar framtíðar sem David Cameron og Íhaldsflokkurinn stendur fyrir. Það stefnir í straumhvörf í breskum stjórnmálum og svo gæti farið að hinn lífsreyndi skoski stjórnmálamaður muni fjúka sömu leið og Blair innan tíðar. Það yrðu grimm pólitísk örlög fyrir mann sem beið of lengi, ekki satt?

mbl.is Fylgi breska Verkamannaflokksins minnkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. í annað sætið hjá frjálslyndum í NV

Kristinn H. Gunnarsson Ákveðið hefur verið innan Frjálslynda flokksins að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, skipi annað sætið á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi, sætið á eftir Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni frjálslyndra. Þessi áhersla sýnir í hnotskurn mjög vel að frjálslyndir ætla sér að verja sín tvö þingsæti í Norðvestri og sækja fram - ekki síður að sótt er að Einari Oddi Kristjánssyni, alþingismanni, sem skipar þriðja sæti sjálfstæðismanna, og Herdísi Sæmundardóttur, sem skipar annað sætið á framboðslista Framsóknarflokksins.

Ég verð að viðurkenna að ég taldi að tilfærsla Kristins H. til frjálslyndra hefði falið í sér allavega leiðtogastól í öðru Reykjavíkurkjördæmanna eða Norðvestri - hann færi ekki yfir fyrir minna en leiðtogastól. Það er ekki undarleg ályktun, enda lét hann steyta á skeri hjá Framsókn vegna leiðtogastóls í Norðvestri sem hann tapaði í prófkjöri með þeim hætti sem hann vildi að færi fram. En hann var vissulega í vonlausu sæti sem hið þriðja var augljóslega. Auk þess hafði hann brennt flestar ef ekki allar brýr að baki sér innan flokksins. En það verður ekki hjá því komist að telja að Sleggjan hafi verið ódýr fyrir frjálslynda.

En það er greinilegt að þeir frjálslyndir ætla sér að fara í strandhögg um kjördæmið með lista þar sem þeir Guðjón Arnar og Kristinn H. eru efstir. Þeir eru vestfirskir harðjaxlar, sem hafa verið lengi í pólitík og ætla að reyna að fiska saman eitthvað. Fróðlegt verður að sjá hverjum er ætlað þriðja sætið á listanum, væntanlega er það kona sem verður í því sæti. Það hlýtur að vera einhver með tengingar á Vesturlandið, enda er blær Vestfjarða á lista frjálslyndra orðinn ansi mikill með Ísfirðing og Bolvíking í efstu tveim sætunum.

Það verður fróðlegt að sjá hverjum séu ætlaðir leiðtogastólar í borginni. Ætli það séu kannski þeir Magnús Þór og Jón Magnússon, andlegur faðir hans í innflytjendamálum. Tja, það skyldi þó ekki verða. Verður svo ekki Grétar Mar settur í Suðrið og Valdimar Leó í Kragann? Það verður sennilega nokkuð hrútabragð af listum þessa flokks, enda er Sigurjón Þórðarson valinn til leiðtogastarfa hér í Norðausturkjördæmi. Hann færði sig nefnilega fyrir Sleggjuna sjálfa.

Er kannski sleggjan klaufhamar? Það er oft erfitt að fá svar þegar að stórt er spurt....

mbl.is Kristinn í 2. sæti hjá Frjálslyndum í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Halla Vilhjálms nýja konan í lífi Jude Law?

Jude Law Það leikur enginn vafi á því að Jude Law er einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar. Alla tíð frá því að hann lék í Gattaca fyrir áratug hafa honum nær allir vegir verið færir í kvikmyndabransanum og óskarsverðlaunatilnefning fyrir The Talented Mr. Ripley árið 2000 markaði honum endanlega sess sem þekkts leikara með fullt fang tækifæra í Hollywood. Hann byrjaði reyndar ferilinn í breskri sápuóperu, Families, snemma á tíunda áratugnum og fikraði sig smátt og smátt í kvikmyndaheiminn.

Einkalíf hans hefur verið stormasamt síðustu árin. Hann giftist leikkonunni Sadie Frost árið 1997. Þau eignuðust saman þrjú börn en fyrir átti Sadie einn son sem Jude gekk í föðurstað. Þau slitu samvistum fyrir fjórum árum eftir tíu ár saman. Síðan hefur Jude verið einn eftirsóttasti piparsveinn kvikmyndaheimsins. Sadie og Jude börðust um forræði barnanna í rúm tvö ár. Á þeim tíma hóf Jude ástarsamband við leikkonuna Siennu Miller, sem er eitt hið stormasamasta í stjörnuheimum síðustu árin. Þau hættu þrisvar saman og tóku hvort annað í sátt meira að segja eftir að Jude hélt framhjá henni með barnfóstrunni sinni.

Undir lok síðasta árs slitu Sienna Miller og Jude Law endanlega samvistum. Það var í bresku pressunni túlkað sem hart lokauppgjör milli þeirra eftir beisk sambandsslit. Það væri freistandi að vita hvar Halla Vilhjálmsdóttir, söngkona, kom til sögunnar hjá Jude Law. Ef marka má fréttir á hún nú hug og hjarta leikarans. Hann kom til Íslands í síðustu viku og virðist hafa bæði borðað með henni og skoðað næturlífið í fylgd hennar. The Sun hefur nú birt fréttir þess efnis að Halla og Jude hafi verið í símasambandi eftir að hann kom heim til Bretlands og greinilegt að sambandið er eitthvað meira en bara vinahjal.

Það var reyndar sagt í fréttum í gær að þetta hafi verið þriðja Íslandsför leikarans. Var liggur við talað um það sem hneyksli, enda hefði þá pressan misst af honum. Ég held að það sé gleðitíðindi að þekktir menn á borð við Jude Law geti komist óséðir til Íslands og sloppið við pressuna. Við eigum líka að gefa þekktu fólki af þessu tagi tækifæri til að lifa sama frjálsa lífinu og við viljum sjálf. Stærsti kosturinn er að hér getur fólk verið í friði og lifað frjálst sínu lífi. Það er stór kostur.

Það er skiljanlegt að The Sun velti þó fyrir sér þessum böndum milli Jude og Höllu Vilhjálms. Er hún nýja konan í lífi hans? Það er óhætt að segja að kynnishlutverkið í X-Factor verði ekki tækifæri ársins fyrir hana ef þær sögusagnir eru réttar. Íslendingar virðast fylgjast með þessu með sama hætti og þegar að Fjölnir Þorgeirsson nældi sér tímabundið í Mel B. Meira að segja er strax farið að tala um Jude Law sem tengdason Íslands rétt eins og Mel B. var kölluð tengdadóttir landsins.

Klisja.... eða hvað?

mbl.is The Sun fjallar um Jude og Höllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík hjá litríkri fjölskyldu

OsbournesEin kostulegasta sjónvarpsfjölskylda sögunnar er Osbourne-fjölskyldan. Meira að segja hin skrautlega Addams-fjölskylda, sem gerð var ódauðleg í sjónvarpsþáttum á sjöunda áratugnum og tveim kvikmyndum, bliknar í samanburðinum. Eitthvað undarlegasta fjölskyldulíf einnar fjölskyldu var afhjúpað með öllu sem því fylgdi í raunveruleikaþáttum um Osbourne-fjölskylduna. Það var ekki síðra drama en í helstu hasarþáttum.

Það er oft sagt að stjörnurnar verði veruleikafirrtar með frægðinni. Það verður reyndar seint sagt að Ozzy Osbourne sé normal karakter, hann hefur alltaf virkað sem utanveltu og ekki alveg í sambandi og hefur ekki batnað með árunum. Það merkilegasta við þættina um þau var einmitt hversu villt allt var. Þar gerðu allir hlutina eins og þeir vildu og þetta heimili var jafnhlýlegt og strætóstoppistöð. Þar var líka mikið drama. Þessir þættir gleymast allavega ekki þeim sem sáu. Það var viss lærdómur að sjá inn í kviku þessarar fjölskyldu.

Nú er sagt í fjölmiðlum vestanhafs að einn í fjölskyldunni sé HIV-smitaður. Það fylgir ekki sögunni hver það sé. Ef ég þekki bandaríska fjölmiðla rétt verður ekki hætt að segja frá því fyrr en það hefur verið upplýst. Bandarískir fjölmiðlar eru betri en nokkrir aðrir við að hype-a upp fréttir um stjörnur og halda þeim eins og lengi og hentar til að selja blöð eða auka áhorf. Gott dæmi um það er dramað um ævi og örlög ljóskunnar Önnu Nicole Smith. Hún virðist enn dýrmætari pressunni dauð en lifandi, eins fyndið og það hljómar.

Þetta er kostuleg veröld sem við lifum í - veröld sem stendur og fellur með bandarísku fréttamati þeirra sem þurfa að selja blöð og auka áhorf stöðvanna sinna. Og eftir þessu er dansað víðar.... merkilegt nokk.


mbl.is Einhver úr Osbourne-fjölskyldunni HIV-smitaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindar breytinga blása um bresk stjórnmál

Tony Blair Það stefnir í straumhvörf bráðlega í breskum stjórnmálum. Ný könnun The Guardian sýnir nú forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn hið mesta í tvo áratugi, frá valdaferli Margaret Thatcher. Íhaldsflokkurinn mælist með 13% forskot á Verkamannaflokkinn. Íhaldsflokkurinn er með 42%, Verkamannaflokkurinn er með 29% og frjálslyndir hafa 17%. Myndi Íhaldsflokkurinn fá góðan þingmeirihluta við úrslit af þessu tagi og yrði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, með sterkt umboð.

Þetta er mjög merkileg niðurstaða og sýnir vel þann vanda sem nú blasir við Verkamannaflokknum eftir áratug við völd undir forystu Tony Blair, forsætisráðherra, sem þegar hefur tilkynnt að hann láti af embætti fyrir sumarlok. Í maí hefur Verkamannaflokkurinn leitt ríkisstjórn samfellt í nákvæmlega tíu ár og má búast við þáttaskilum fyrir flokkinn að því loknu þegar að formleg leiðtogaskipti verða. Hinir gullnu sæludagar valdatíðar Tony Blair og Verkamannaflokksins eru löngu liðnir - það hefur syrt allverulega í álinn. Staða mála er mjög augljós þessa dagana. Það stefnir í þáttaskil í breskum stjórnmálum.

Þessi könnun er enn meira afdráttarlaus en margar aðrar því sérstaklega var spurt um flokkana í næstu kosningum og gefið sér við þær aðstæður að Gordon Brown væri í þeim kosningum orðinn forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins. Þessi könnun hlýtur að vera mikið áfall fyrir kratana og ráðandi stjórnvöld. Kannski eru óvinsældir Blairs nú, sem hann mun skilja við er valdaferlinum lýkur, nú að færast í arf til Brown. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir flokksmenn Verkamannaflokksins að sjá þessa mælingu þegar að spurt er greinilega um stöðuna sem verður við þær aðstæður að Tony Blair hefur yfirgefið Downingstræti 10 og Brown yrði tekinn við.

Kjósendur vilja augljóslega uppstokkun - nýja sýn og breytta tíma við stjórn landsins. Það sér fulltrúa þessara nýju tíma í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Cameron hefur eflt flokkinn gríðarlega á því rúma ári sem hann hefur leitt íhaldsmenn. Meginstefnubreytingar hafa orðið, skipt var um merki flokksins og ásýnd. Nýir tímar eru komnir þar. Horft er fram á veginn. Cameron hefur sterka stöðu í sínum flokki er afgerandi forystuefni til framtíðar. Margir í Blair-arminum hafa ekki haft trú á að Brown geti unnið þingkosningar. Svo virðist vera að landsmenn telji það líka. Cameron er enda vinsælli nú en bæði Blair og Brown.

Það hefðu eitt sinn þótt tíðindi að leiðtogi Íhaldsflokksins toppaði Blair og Brown, en ekki lengur að mörgu leyti. Brown er í huga margra maður sömu tíma og kynslóðar og Tony Blair. Það verður því fróðlegt að sjá hvað framtíð næstu mánaða ber í skauti sér, þegar að formlega líður að lokum langs valdaferils Tony Blair. Þá fyrst verður vissara hvernig vindar blása í þingkosningunum árið 2009. Nú þegar má altént finna vinda breytinga blása um bresk stjórnmál.

Þessi könnun og margar hinar fyrri staðfesta það mjög vel að vindar breytinga blása um bresk stjórnmál - það er sannarlega gleðiefni!

Mun Jón Sigurðsson ná árangri með Framsókn?

Jón SigurðssonHálft ár er í dag liðið frá því að Jón Sigurðsson var kjörinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins. Þá var staða flokksins vond og hún er litlu skárri nú. Þegar að 80 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ósýnilegur í mælingum á stjórnmálamönnum og mælist ekki inni í Reykjavík norður.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 80 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


Eiríkur áfram með í Eurovision-spjallþættinum

Eiríkur Hauksson Eiríkur Hauksson vann glæsilegan sigur í Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina, afgerandi sigur í atkvæðum talið ef marka má fréttir RÚV. Nú fáum við þau gleðitíðindi að Eiríkur muni áfram verða fulltrúi Íslands í samnorræna þættinum þar sem spekingar fara yfir öll lögin, fella sinn dóm og eiga létt og notalegt spjall. Þetta eru ómissandi þættir í undirbúningi keppninnar hér á Norðurlöndum ár hvert.

Margir óttuðust að sigur Eiríks Haukssonar í keppninni myndi þýða að hann yrði ekki með í þættinum þetta árið. Það þarf semsagt ekki að hafa áhyggjur af því. Það er nú bara undir Eiríki sjálfum komið hvort hann vilji taka þátt. Það er mikið gleðiefni og gott að þurfa ekki að ræða það frekar og velta fyrir sér öðrum nöfnum í þáttinn, enda er Eiríkur þar á heimavelli og okkar besti kandidat í þáttinn.

mbl.is Svíar vilja fá Eirík áfram í vinsæla sjónvarpsþætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlistarspilari

Hef skipt um umgang í tónlistarspilaranum og þar er komið alveg nýtt safn laga, utan tveggja frá upphafi sem standa eftir. Hef fengið góð viðbrögð á þennan fítus, enda er fínt að hafa notalega tónlist með hérna á þessum vef rétt eins og fleirum. Vona að lesendur hafi gaman af lögunum sem eru þar, en þau eru mjög ólík svo vægt sé til orða tekið. En þetta eru allt góð lög.

Sköllótt og tattúveruð Britney slær í gegn

Sköllótt Britney Það er vægt til orða tekið að fræg ímynd glamúrgellunnar Britney Spears sem saklausrar blondínu sé endanlega komin í súginn og fátt þar eftir sem minnir á forna frægð. Nú er stjarnan greinilega endanlega búin að flippa yfir um, eða það er ekki fjarstæðukennt að hugleiða þann möguleika örskotstund allavega. Hún hefur nú rakað af sér allt hárið og í ofanálag búin að tattúvera sig.

Það er svona frekar ólíklegt að stílistinn hennar hafi ráðlagt henni þessa villtu karakterbreytingu. Í kvöld sá ég kostulegt myndskeið af Britney á Sky þar sem hún kemur til tattústofunnar í San Fernando-dalnum og sýnir beran skallann. Kostulegar myndir sem dókúmentar hratt fall stjörnu. Hún er orðin jafnberskjölduð á hausnum og Egill Ólafsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ómar Ragnarsson. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg.

Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun. Hún virðist vera að taka sess Önnu Nicole Smith sem gleðidívu sem fer sínar leiðir og hikar ekki við að hneyksla. Ekki langt síðan að hún var mynduð nærbuxnalaus og nú lítur hún út eins og Ripley í Alien 3. Hrá týpa.

Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi. Hún er greinilega orðin eitthvað gúgu og gaga, sem varla kemur á óvart. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Vona að henni verði allavega forðað frá sömu örlögum og stjörnunnar Önnu Nicole sem nú liggur smurð í kæliklefa í líkhúsi í Flórída - bíður nú þess að dómari ákveði hvort hún verði grafin í Texas eða á Bahama-eyjum.

Skelfileg örlög það - og nöpur.... fyrir hvaða konu sem er; fræga eða óþekkta. Í rauninni er þetta kennslubókardæmi um hvernig frægðin getur leikið fólk. Hún getur verið dauðadómur í sjálfu sér sé hún ekki höndluð.

mbl.is Britney snoðklippt á húðflúrsstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðalda í London - Blair vill herða byssulögin

Tony BlairÞað hefur verið sorglegt síðustu dagana að heyra fréttir af morðöldunni í London. Fjórir hafa fallið í skotárásum í borginni, þar af þrír unglingar. Í vikunni sá ég ítarlega umfjöllun um þetta mál á Sky, umfjöllun sem fjallaði með vönduðum hætti um stöðu mála, en það hefur sett þungan svartan blæ yfir allt mannlíf í borginni. Virðist fátt vera til ráða, blasir við að um uppsafnaðan vanda í samfélaginu sé að ræða.

Í morgun horfði ég á viðtal við Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, á BBC þar sem hann svaraði fyrir stöðu mála, sem hlýtur að teljast enn eitt erfiða málið fyrir stjórn hans. Sagðist hann vilja að aldur þeirra sem hægt sé að dæma til harðra refsinga fyrir byssueign verði lækkaður úr 21 ári í 17. Er með ólíkindum að Verkmannaflokkurinn hafi ekki fyrr lagt áherslu á það að breyta lögum í þá átt, en í maí hefur flokkurinn verið við völd í áratug.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur bent á að þessir atburðir endurspegli alvarlega bresti í bresku samfélagi. Telur hann hættulega framkomu, einmanaleika og þunglyndi ungmenna m.a. stafa af ábyrgðarleysi fullorðinna og mjög skorti á ást og umhyggju í samfélaginu. Vísa forystumenn Íhaldsflokksins óspart á það að upplausn í fjölskyldum og agaleysi sé alvarlegt vandamál og hafa vísað á nýja skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar eru bresk börn á botninum hvað snertir hamingju og ánægju í lífinu.

Þetta mál virðist erfitt fyrir Verkamannaflokkinn og forsætisráðherrann sem skiljanlega vilja ekki staðfesta að alvarlegir brestir séu í bresku samfélagi. Eftir áratug við völd er varla við því að búast að bresk stjórnvöld taki undir það mat að breskt samfélag sé á botninum hvað þetta varðar. Það er ljóst að þarna er fyrst og fremst um að ræða samfélagsbresti. Er ekki hægt annað en taka t.d. undir ummæli Sir Menzies Campbell, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, um að hvetja verði til virðingar fyrir náunganum og reyna að halda mannleg gildi í heiðri.

En vonandi fer þessari öldu morða og sorgar að linna í London. Þetta er að minna óþyrmilega á morðárásirnar í Washington í september 2002, með öðrum formerkjum, en samt skuggalega líkt. Þetta eru allavega jafnsvartir dagar sem íbúar í London upplifa nú og þeir á Washington-svæðinu fyrir tæpum fimm árum.

Vinkona mín, Ólöf Nordal, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, fjallar um þetta mál í góðri bloggfærslu í dag. Bendi lesendum á að lesa skrif Ólafar.


mbl.is Blair vill herða viðurlög við byssueign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konudagur

Ég vil óska öllum konum landsins innilega til hamingju með daginn.

Móðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, er þekktur hagyrðingur og hann orti eitt sinn ljóðið Kvennaminni, sem er fallegt mjög, það eru 20 erindi - óður til kvenna. Birti hér nokkur erindi.


Konur okkur gleði gefa,
geta náð að hugga og sefa.
Dásamlegar utan efa
við að knúsa og kela,
kossum mætti stela.

Kostum ykkar karlar lýsa,
kannski á suma galla vísa,
fegurð ykkar frómir prísa,
færa lof í kvæði,
njóta ykkar í næði.

Ekki má ég einni gleyma,
yndi mínu og gleði heima.
Í hjarta mér sem gull vil geyma,
gjöfin lífsins besta.
Konan kostamesta.

Ykkur konum yl ég sendi,
á ástarþokkann glaður bendi.
Mínu kvæði í kross bendi,
kyssi ykkur í anda
enn til beggja handa.

Glæsilegur sigur Eiríks - frábær kvöldstund

Eiríkur Hauksson Ég var staddur í alveg mögnuðu Eurovision-partýi hjá vinafólki mínu í gærkvöldi. Vorum þar nokkur sem höfum alltaf verið miklir áhugamenn um Eurovision, fylgst með keppninni í áranna rás og metum tónlist mikils að sjálfsögu. Það var mikið spáð í spilin og allir auðvitað með sín uppáhaldslög. Þessi keppni sameinar allar kynslóðir við sjónvarpstækið og allir hafa skoðanir á henni, þó sumir vilji ekki kannast við það.

Um eitt voru þó allir sammála í gærkvöldi. Eiríkur Hauksson var langflottastur, með besta lagið og stóð öðrum fremri. Enda vann hann. Glæsilegur sigur það og mjög verðskuldaður. Eiríkur einfaldlega kann sitt fag. Hann hefur mikla sögu í keppninni, hefur verið þar sem keppandi tvisvar og fulltrúi Íslands í hinum frábæra spekingaþætti í aðdraganda keppninnar síðustu árin, og var sá keppenda sem var langöruggastur á sviðinu í gær, hann einfaldlega stóð fremri öðrum. Það skiptir máli að mínu mati. Þetta er bakgrunnur sem einn og sér fleytir langt.

Það voru held ég flestallir glaðir með úrslitin. Eiki er einfaldlega söngvari af þeim skala að við erum stolt af honum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hefði þess vegna viljað að fimm lög myndu vinna; auk Eika voru Jónsi, Frikki, Heiða og Andri öll í toppformi. Öll þessi níu lög voru ágæt hver á sinn máta, þó ég verði að viðurkenna það að mér fannst kántrýskotna lagið Áfram þeirra síst, en það er kannski bara vegna þess að ég er mjög lítið fyrir kántrýtónlist, allavega mjög í hófi vægast sagt. Lögin sem voru í gær fara allavega sterk til leiks í Eurovision-keppnissöguna sem er alltaf að verða blómlegri.

Það var svona nett nostalgía sem fór um mann við að rifja upp lögin hans Björgvins Halldórssonar í keppninni. Það er enn skandall að sum þeirra, t.d. Sóley, fóru ekki út í keppnina á sínum tíma. Björgvin fór svo seint og um síðir í keppnina, með gott lag en einum of seint samt. Það hefði verið gaman að sjá hann taka eitthvað gamalt Júrólag þarna í gærkvöldi. Hefði ekki verið eðall að fá hann með Ernu Gunnarsdóttur, gamla enskukennaranum mínum í VMA í denn, til að rifja upp eðalsveiflulagið Lífsdansinn, eftir Geirmund Valtýsson? Hví ekki, lagið er jú tvítugt á árinu.

En mesti skandallinn fannst mér að sjá þennan rúmenska úr keppninni í fyrra "mæma" lagið Tornero. Þetta er flott lag og góður söngvari.... en að mæma er fyrir neðan allar hellur. Ræður hann ekki lengur við lagið? Mikil vonbrigði að sjá þetta. Svo var Regína Ósk alveg yndisleg í Júrólaga-upprifjuninni. Það er einn mesti skandall íslenskrar Eurovision-sögu að hún skyldi ekki vinna í fyrra með lagið hans Trausta Bjarnasonar, Þér við hlið. Einstakt lag... mjög vandað, lag á öllum skalanum. Það átti að fara til Aþenu. Regína Ósk var alveg frábær í gærkvöldi.

Silvía Nótt var aldrei þessu vant hógvær og stillt og átti stutta innkomu með nýjasta lagið sitt, nýjan smell sem hún söng mjög vel. Hún stóð sig vel. Var þó að vona að hún myndi syngja sigurlagið sitt frá því í fyrra... en kannski vill hún horfa í aðrar áttir. Það er skiljanlegt vissulega. En í heildina; þetta var magnað kvöld. Virkilega gaman og við skemmtum okkur vel yfir pizzu, nammi, góðum veigum og líflegu spjalli. Eðalgott - svona eins og það á að vera.

Þetta er enda skemmtilegasta sjónvarpskvöld ársins, tja nema kannski þegar að aðalkeppnin er ytra. Ætla svo sannarlega að vona að Eiki Hauks skili okkur glæsilegum árangri í vor. Efast ekki um að við verðum allavega mjög stolt af honum. Og svo er kominn enskur texti á lagið. Getur ekki verið betra! Og svo gerum við öll sem eitt þá lykilkröfu nú að kappinn verði í leðri, sömu múnderingu í gær. Svona á hann að vera.... þetta er málið!

Ólafur Ragnar í Silfri Egils í dag

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður í Silfri Egils hjá Agli Helgasyni nú eftir hádegið. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi Íslands venur komur sínar í dægurmálaspjallþætti. Það þótti sögulegt þegar að Ólafur Ragnar fór í Kastljós í aðdraganda forsetakosninganna 2004, en það var í fyrsta skipti í sex áratuga sögu forsetaembættisins sem forsetinn sat fyrir gagnrýnum svörum fjölmiðlamanna. Þá var Ólafur Ragnar í raun að svara fyrir sig í Heimastjórnarmálum.

Það er kannski ekki sögulegt að Ólafur Ragnar Grímsson birtist í hversdagslegum rifrildisþáttum við fjölmiðlamenn í ljósi þess að hann var leiðtogi stjórnmálaflokks í átta ár og fjármálaráðherra í hringiðu umdeildra ákvarðana í þrjú ár. Þegar litið er á það að sami maður er forseti Íslands fær það þó á sig sögulegan blæ. Annars er óvarlegt að líta á forsetann Ólaf Ragnar sem einstakt fyrirbæri ef marka má yfirlýsingar forsetaembættisins um að sá maður sem er í Þróunarráði Indlands sé ekki sami maður og er forseti Íslands. Spaugstofan gerði gott grín að þessum orðhengilshætti á Sóleyjargötunni í fyndinni kómík nýlega.

Eins og fyrr segir er Ólafur Ragnar gamall pólitískur bardagamaður og er vanur að lifa opinberu lífi - hann hefur verið í kastljósi fjölmiðla í fjóra áratugi. Hann hefur notað fjölmiðla óspart í gegnum tíðina. Flestir muna eftir frægri framboðskynningu hans til embættis forseta Íslands í mars 1996 í stofunni heima á Seltjarnarnesi þar sem hann stóð við hlið Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í vandaðri fjölmiðlauppsetningu og ennfremur því er hann beitti 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins í beinni útsendingu fjölmiðla í júní 2004.

Það verður svo sannarlega athyglisvert að sjá um hvað Ólafur Ragnar og Egill Helgason ræða á eftir í Silfrinu.

Valgerður Sverrisdóttir lengst kvenna í ríkisstjórn

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur nú setið lengst allra kvenna hérlendis í ríkisstjórn. Skv. mælingum í Morgunblaðinu í dag hefur Valgerður nú verið 2.607 daga í ríkisstjórn, í dag, eða í 7 ár, einn mánuð og 19 daga. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra árin 1987-1994, átti fyrra metið. Valgerður var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en hefur verið utanríkisráðherra síðan 15. júní 2006. Hún var fyrsta konan á báðum ráðherrastólum.

Valgerður hefur setið á Alþingi frá kosningunum 1987 og hefur verið áhrifakona innan Framsóknarflokksins nær allan þann tíma. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er sú kona sem þriðja er í ráðherrasetu. Hún hefur verið ráðherra í rúm sex ár, eða 1999-2004 og aftur frá 2006 eða ívið lengur og Ingibjörg Pálmadóttir, sem var heilbrigðisráðherra í tæp sex ár, 1995-2001. Það styttist því óðum í að Siv komist á svipaðar slóðir og Jóhanna Sigurðardóttir í ráðherrasetu.

Aðeins ellefu konur hafa tekið sæti í ríkisstjórn Íslands. Fimm þessara kvenna eru sjálfstæðiskonur. Fjórar koma úr Framsóknarflokknum og tvær eru úr Alþýðuflokknum, sem var einn forvera Samfylkingarinnar. Fyrsta konan á ráðherrastóli var Auður Auðuns, sem ennfremur varð fyrsta konan á borgarstjórastóli og forseti borgarstjórnar. Auður varð dómsmálaráðherra árið 1970, eftir andlát dr. Bjarna Benediktssonar í uppstokkun ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins.

Kvenráðherrar í sögu Stjórnarráðs Íslands
Auður Auðuns (1970-1971)
Ragnhildur Helgadóttir (1983-1987)
Jóhanna Sigurðardóttir (1987-1994)
Rannveig Guðmundsdóttir (1994-1995)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004; frá 2006)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)

mbl.is Lengst kvenna í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur sigrar í Eurovision - íslenskt rokk til Helsinki

Eiríkur Hauksson Rokkarinn Eiríkur Hauksson sigraði í kvöld í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hann verður fulltrúi Íslands í Eurovision í forkeppninni sem haldin verður í Helsinki í Finnlandi 10. maí nk. Þetta verður í þriðja skiptið sem Eiríkur tekur þátt í aðalkeppni Eurovision, en Sigríður Beinteinsdóttir keppti ennfremur þrisvar í Eurovision á nokkurra ára tímabili.

Eiríkur söng Gleðibankann í Bergen í Noregi árið 1986 ásamt Helgu Möller og Pálma Gunnarssyni, undir merkjum Icy-tríósins, sem var fyrsta framlag Íslendinga til keppninnar. Síðan söng hann lagið Mrs. Thompson með hljómsveitinni Just 4 Fun sem var framlag Noregs árið 1991. Það lag hafnaði í 17. sæti en Gleðibankinn lenti í því 16. eins og frægt er orðið og var það hlutskipti okkar í keppninni fyrstu þrjú árin. Aðeins fjórum sinnum hefur Ísland náð að komast á topp tíu í keppninni. Frammistaða Selmu Björnsdóttur í Jerúsalem fyrir átta árum, annað sætið, er okkar besta.

Lagið Ég les í lófa þínum, eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, verður tuttugasta framlag Íslands í Eurovision. Sigur Eiríks nú er svo sannarlega verðskuldaður. Hann hefur ekki tekið þátt í undankeppninni hérna heima í tvo áratugi, en hann ásamt söngflokknum Módel lenti í öðru sæti í keppninni árið 1987 með lagið Lífið er lag. Eiríkur var einfaldlega langsterkasti flytjandinn og lagið hið besta. Ekta rokksveifla. Þetta er mjög góð niðurstaða og vonandi mun Eiríki ganga vel eftir þrjá mánuði.

En hver á nú að vera fulltrúi Íslands í norræna spekingahópnum sem fer yfir lögin nú þegar að Eiríkur er orðinn flytjandi sjálfur í keppninni? Þar verður eftirsjá af okkar manni. Við eigum að senda Selmu Björns til leiks í það dæmi núna að mínu mati.

mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða lag mun sigra í Eurovision?

Söngvakeppnin 2007Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Helsinki í Finnlandi þann 10. maí nk. verður valið í símakosningu í kvöld. Sigurlagið í ár er tuttugasta lagið sem Ísland sendir til leiks í Eurovision, en Ísland tók þar þátt í fyrsta skipti með Gleðibankanum árið 1986. Níu lög keppa til úrslita að þessu sinni og er keppnin mjög jöfn og erfitt að spá um sigurvegara.

Á morgun er ár liðið frá stórsigri Silvíu Nætur (a.k.a. Ágústu Evu Erlendsdóttur) í síðustu undankeppni Eurovision hér heima. Hún hlaut um 70.000 atkvæði í keppninni þá með lagið Til hamingju Ísland, eftir Þorvald Bjarna, rúmum 30.000 atkvæðum fleiri en Regína Ósk Óskarsdóttir hlaut fyrir lagið Þér við hlið. Silvía Nótt keppti svo í keppninni í Aþenu í Grikklandi í maí 2006 og lenti í þrettánda sæti í forkeppninni og komst því ekki áfram, en tíu efstu lögin fengu farmiða á sjálft úrslitakvöldið. Frægt varð að Silvía Nótt var púuð niður fyrir og eftir flutning lagsins, sem var sögulegt.

Árið hennar Silvíu Nætur hefur svo sannarlega verið skrautlegt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lag og flytjandi feta í fótspor hennar. Búast má við að ögn rólegra verði yfir þeim sem fer núna, enda öll atriðin nokkuð rólegri miðað orkubombuna og skvettuna sem send var út í fyrra. Í huga mér er þetta mjög jafnt. Enginn flytjenda er með afgerandi forskot og því spennandi kvöld framundan. Í kvöld á ég bæði ættingja og vini sem flytja lag. Ætla að vona að þau sem berjist um þetta séu Jónsi, Andri, Friðrik Ómar, Eiki Hauks, og Heiða. Lögin þeirra eru öll góð að mínu mati.

Hvaða lag haldið þið að muni vinna?


Sigurlín Margrét tekur sæti á Alþingi

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir Sigurlín Margrét Sigurðardóttir mun á mánudag taka sæti á Alþingi í fæðingarorlofi Gunnars Örlygssonar. Mun hún sitja á þingi til loka starfstímans á kjörtímabilinu í næsta mánuði og tekur því Gunnar þar ekki oftar sæti, í bili a.m.k. Þetta er í fyrsta skipti sem að Sigurlín Margrét fer á þing frá því að Gunnar sagði sig úr Frjálslynda flokknum í maí 2005. Gunnar hefur frá þeim tíma verið þingmaður í nafni Sjálfstæðisflokksins en Sigurlín Margrét verður á þingi utan flokka, enda hefur hún sjálf ennfremur sagt skilið við Frjálslynda flokkinn.

Í ljósi þess að þetta þingsæti tilheyrir ekki Sjálfstæðisflokknum sem slíkt, enda er þetta þingsæti í nafni F-listans í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003, er ekki undrunarefni að varaþingmaður Gunnars sé óháð í þingstörfum, enda er Sigurlín Margrét sjálf ekki flokksbundin og mun ekki verða hluti að stjórnarmeirihlutanum við þessar aðstæður sem óháð. Það er því ljóst að stjórnarmeirihlutinn minnkar enn um eitt sæti, en stutt er síðan að Kristinn H. Gunnarsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn. 33 alþingismenn styðja ríkisstjórnina við þessar aðstæður en 30 stjórnarandstöðuna Meirihluti ríkisstjórnarinnar er því orðinn tæpari en nokkru sinni í tólf ára sögu hennar.

Sú merka staða er reyndar komin upp að þrír efstu frambjóðendur á lista Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 hafa allir yfirgefið flokkinn á kjörtímabilinu. Sigurlín Margrét gagnrýndi Gunnar harkalega er hann skipti um flokk fyrir tæpum tveim árum. Mér finnst það ekki réttmæt gagnrýni á Sigurlínu Margréti að hún sé að ganga á bak orða sinna með því að taka sjálf sæti á þingi nú verandi sjálf farin úr Frjálslynda flokknum. Hún tekur sæti á Alþingi sem óháð og skipar sér ekki sem fulltrúi flokks. Hún er þar á eigin vegum. Hefði hún verið komin í annan flokk sem fyrir er á þingi eftir úrsögn sína frá frjálslyndum hefði sama gagnrýni gilt um hana, en ekki ella.

Gunnar skipar nú tíunda sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokkins í Suðurkjördæmi, en hann hlaut sætið í prófkjöri í nóvember. Það er því öllum ljóst að þingmannsferli hans er lokið. Gunnar hefur verið áberandi í stjórnmálum á kjörtímabilinu. Deilur voru meðal frjálslyndra vegna stöðu hans í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum en hann var þá með dóm á bakinu og afplánaði refsingu strax eftir þær kosningar - hann hóf þingmannsferil sinn verandi í fangelsi. Engin lognmolla hefur verið í kringum hann hvort sem hann hefur skipað raðir frjálslyndra eða sjálfstæðismanna. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann fari aftur á þing, með umboði sjálfstæðismanna, síðar.

Sigurlín Margrét er eini þingmaðurinn í tæplega 1100 ára sögu Alþingis Íslendinga sem er heyrnarlaus og tjáir sig því með táknmáli. Það er því ekki undrunarefni að barátta hennar fyrir þann hóp skipar stærstan sess í pólitík hennar - það er eðlilegt. Það er enda gleðiefni að sá hópur eigi fulltrúa á þingi. Í ljósi þess og að ég veit að Sigurlín Margrét sé heilsteypt kjarnakona sem hefur aldrei látið fötlun sína hefta sig óska ég henni góðs í þingstörfum næstu vikurnar, til loka starfstíma Alþingis á kjörtímabilinu.

mbl.is Óháður inn fyrir sjálfstæðismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband