Jóhanna treystir ekki bankaráðinu og Ásmundi

Ég túlka ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um bankastjóraráðningu Ásmundar Stefánssonar í Landsbankanum sem vantraust á hann og bankaráðið sem hann stýrði á síðustu mánuðum. Því er svolítið sérstakt að hún hafi ekki beitt sér fyrir auglýsingum á bankastjórum áður en til þessa útspils með Ásmund kom. Er þetta ekki forsætisráðherra þjóðarinnar og er ekki Ásmundur í bankaráðinu á kvóta Samfylkingarinnar? Er samskiptaleysið algjört á milli aðila? Var allt talið um auglýsingar á bankastjórum einn leikaraskapur?

Jóhanna verður reyndar að gera sér grein fyrir því að hún ber fulla ábyrgð eftir setu í síðustu ríkisstjórn á bankahruninu og ekki heyrðist mikið um varnaðarorð frá henni, eins og Kjartan Gunnarsson, lögfræðingur, bendir á í góðri grein í Mogganum í dag. Eigi allir sem voru á vaktinni í haust að fara hlýtur forsætisráðherrann Jóhanna að víkja af vettvangi. Ekki er bæði hægt að gagnrýna þá sem voru á vaktinni og lofsyngja þá um leið. Sama gildir um alla.

Ég velti fyrir mér hvort Jóhanna sé eingöngu að reyna að slá vinsældakeilur með tali sínu eða hvort það sé ekta. Sé það í raun ekta ætti að vera búið að grípa fram fyrir hendurnar á þeim sem ráða för í Landsbankanum. Vantraustið virðist allavega algjört á milli Stjórnarráðs og Landsbanka.

mbl.is Óánægð með Landsbankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir heldur heim og fer í framboð

Ég held að það sé hið besta mál að Akureyringurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson ætli að fara út í pólitík og sækjast eftir metorðum. Pólitíkin hefur alltaf blundað í Simma, þó aldrei hafi hann verið flokkspólitískur og virkur á þeim vettvangi, enda verið hinumegin við borðið ef svo má segja sem fréttaskýrandi, þjóðmálaspekúlant og spyrill um pólitísk átakamál. Verður mjög áhugavert að sjá hann í þessu nýja hlutverki og hvernig honum muni ganga að lífga upp á staðnaðan framboðslista og þingmannahóp Samfylkingarinnar sem hefur verið eins síðan kjördæmið varð til árið 2003.

Lára Stefánsdóttir, vinkona mín, hefur nú ákveðið að hætta pólitískum afskiptum eftir að hafa tvisvar verið nálægt því að komast á þing en orðið undir fyrir mönnum í baráttusætum Framsóknar. Hún var hársbreidd frá kjördæmakjöri árið 2003 þegar Birkir Jón náði sætinu í lokatölum og var inni mestalla kosninganóttina 2007 sem jöfnunarmaður þar til Höskuldur Þórhallsson náði sætinu. Eftirsjá er af Láru í framboði en ég skil ákvörðun hennar sem svo að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með stuðning héðan frá Akureyri í síðasta prófkjöri þegar hún barðist við Einar Má um annað sætið.

Væntanlegt prófkjör Samfylkingarinnar virðist ætla að verða vettvangur stórra tíðinda, enda er Akureyrarsætið í forystu listans laust með ákvörðun Láru. Eðlilegt er að þeir sem héðan koma og hyggja á framboð ætli að breyta því í þingsæti, taka sætið af Austfirðingnum Einari Má enda verður varla hróflað við ráðherranum Kristjáni Möller. Ég hef heyrt talað um mörg ný nöfn. Væntanlega mun Helena Karlsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér á Akureyri og ritari flokksins, sækjast eftir þingsæti og ég hef heyrt talað um Benedikt Sigurðarson og Loga Má Einarsson.

Svo verður fróðlegt að sjá hverjum Austfirðingar tefla fram. Varla mun verða stemmning fyrir því um allt kjördæmið að stilla upp þeim fóstbræðrum Kristjáni og Einari aftur upp efst á lista án teljanlegra breytinga. Innkoma Sigmundar Ernis hristir duglega upp í framboðspælingunum. Simmi er þekkt andlit en svo verður að ráðast hvort hann heillar flokksmenn í prófkjörinu og verði það nýja andlit sem getur rifið flokkinn upp, en hann missti þónokkuð fylgi í síðustu kosningum.

mbl.is Sigmundur Ernir í pólitíkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlileg harka eða skynsamleg vörn lögreglunnar

Ég held að mikil oftúlkun sé að lögreglan hafi ætlað að beita óeðlilegri hörku gegn mótmælendum. Lögreglan sýndi mótmælendum mikið svigrúm allt þar til ráðist var gegn þinghúsinu og þegar reynt var að drepa lögreglumenn við Stjórnarráðið. Ekki er hægt að túlka grjótkastið gegn lögreglu síðla janúar annað en manndrápstilraun. Kannski hefur sú atburðarás aukið áhuga lögreglu að svara fyrir sig en greinilegt er að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur þá staðið í vegi fyrir því. Túlkun Haraldar Johannessen gefur reyndar til kynna að þessar sögusagnir séu þvættingur.

Að undanförnu hefur mér fundist virðing fyrir lögreglunni minnka til muna. Aðförin að henni í mótmælunum í janúar var lágkúruleg og engum til sóma, enda var augljóst að samhugur með lögreglunni jókst í kjölfarið. Þeir sem þar starfa eru aðeins að sinna sinni vinnu og hafa ekkert af sér gert til að verðskulda slíka lágkúru. Ég vona að flestir sjái að lögreglan vinnur fyrir okkur öll og á að njóta virðingar landsmanna.

mbl.is Vildi ekki beita meiri hörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur sigur hjá Vöku

Ég má til með að óska hinu góða fólki í forystu Vöku til hamingju með glæsilegan sigur í háskólakosningunum. Sigur Vöku er mjög merkilegur einkum á þessum tímum þegar vinstristjórn tekur við völdum í landinu og þegar allt talið um vinstrisveiflu í samfélaginu hefur glumið í eyrunum á okkur síðustu vikurnar. Þetta er táknrænn og glæsilegur sigur. Innilegar hamingjuóskir til Vökuliða allra!

mbl.is Vaka sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes í Bónus segist búinn að missa Baug

Merkilegt var að sjá viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Jóhannes Jónsson í Bónus á Stöð 2, en þar afskrifaði hann Baug og sagði hann úr höndum fjölskyldunnar. Vissulega eru þetta mikil tíðindi og greinilegt að Jóhannes var í miklu sjokki yfir örlögum útrásarinnar og fjölskylduveldisins mikla. Fátt stendur þar nú eftir og beðið endalokanna.

Viðurkenning Jóhannesar á endalokunum er táknrænn lokapunktur á þann harmleik sem staðið hefur síðustu vikurnar, þar sem Baugur missti endanlega tiltrú þjóðarinnar eftir að hafa keypt hann með pr-ráðgjöf og snilldaruppsetningu á nýjum veruleika.

Endalok viðskiptaveldisins markar þáttaskil í þjóðlífinu. Á síðustu árum hafa fylkingar verið með þeim sem fylgja viðskiptajöfri og hata hann. Þetta heyrir nú sögunni til. Vonandi fáum við heiðarlegra og mannúðlegra samfélag við fall þessara blokka.

mbl.is Landsbankinn gengur að veðum Baugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að losna við Elínu - efinn um Ásmund

Ég fagna því að dagar Elínar Sigfúsdóttur á bankastjórastóli Landsbankans eru að líða undir lok. Mikilvægt er að til forystu í bönkunum öllum verði valdir aðilar sem eru alls ótengdir fortíðinni þar, fyrir bankahrunið og hafi trúverðugleika í verkum. Mörg verk í Landsbankanum á síðustu mánuðum eru umdeild og eðlilegt að stokka upp. Ekki mun skapast friður um ríkisbankana fyrr en þeir sem tilheyrðu fyrri eigendum og unnu þar í umboði þeirra hafa vikið og óháðir aðilar hafa tekið við forystunni.

Ásmundur Stefánsson er þó fjarri því óumdeildur því miður, en vonandi getur skapast sátt í samfélaginu um verk hans þar. Eftir að Ásmundur hætti sem forseti ASÍ árið 1992 varð hann millistjórnandi í Íslandsbanka, forvera Glitnis, þar til hann varð ríkissáttasemjari. Þó Ásmundur sé að mörgu leyti vandaður og traustur maður er hann hluti af umdeildum verkum þar á síðustu vikum sem mikið hafa verið um rætt og var þar á vaktinni meðan Tryggvi Jónsson sinnti sínum störfum, of lengi.

En vonandi verður hægt að byggja trúverðugleika hinna föllnu upp á ný - enginn vafi má vera þar um. Landsmenn allir verða að trúa því að þar sé unnið af ábyrgð.


mbl.is Ásmundur bankastjóri um tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - formannskapall

Greinilegt er að fylgi Sjálfstæðisflokksins er að aukast nú eftir að hinu ógæfulega og ómögulega stjórnarsamstarfi, sem var dauðvona nær alla tíð, með Samfylkingunni lauk. Í öllum könnunum að undanförnu mælist fylgi flokksins á uppleið eftir að stjórnin féll, þetta sést vel í lokaviku janúarkönnunar Capacent Gallup, könnun fyrir Stöð 2 og nú hjá Frjálsri verslun. Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins eru sannarlega til staðar í væntanlegri kosningabaráttu, sé haldið rétt á uppstokkun í forystusveit og þingflokknum, sem er nauðsynleg eftir það sem á undan er gengið.

Þeir sem töldu Sjálfstæðisflokkinn hafa misst öll spil af hendi og eiga erfiða tíma framundan geta litið á kannanirnar og dregið sínar ályktanir af því. Vinstriflokkarnir virðast báðir vera að msisa flugið og Framsókn er á uppleið í öllum könnunum. Kannski fer það svo að Framsókn rís upp úr vinstriflokkunum þegar þeir taka á sig óvinsælu og erfiðu verkin í vinstristjórninni sem er eins og allar slíkar án leiðarvísis og í leit að sjálfri sér og eigin stefnu sem taka skal eitthvað mark á.

Miðað við þessa könnun er freistandi að líta svo á að Framsókn muni stórgræða á því útspili sínu að setja vinstriflokkana saman til verka en sitja á hliðarlínunni þó þeir verði að súpa aðeins af ógeðsdrykknum við að staðfesta vinstrimenn í alla nefndarformannsstóla þingsins og því að setja mann með tveggja ára þingreynslu í forsetastól þingsins. Þeir munu kannski svífa upp yfir vinstrið með þessu verklagi. Skondið ef svo fer, ekki satt?

Hvað varðar formannskapal Sjálfstæðisflokksins kemur ekki að óvörum að Bjarni Benediktsson njóti mests fylgis. Þar á eftir er auðvitað Þorgerður Katrín, en eðlilega er velt fyrir sér hvaða afstöðu hún muni taka til formannsmála. Aðrir valkostir eru langt að baki þeim og mælast varla í þessari könnun. Þetta er merkileg skipting og gefur til kynna að staða Þorgerðar sé vænlegri en margir töldu.

Sjálfur hef ég sagt opinberlega að ég muni styðja Bjarna Benediktsson sem næsta formann flokksins, en ég vonast eftir líflegri og góðri baráttu um formannsstólinn. Mikilvægt er að kosið verði á milli góðra frambjóðenda í forystusætin og stokkað hressilega upp. Tækifæri flokksins eru til staðar með góðri uppstokkun og því að hleypa nýrri kynslóð í forystusætin.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. bugtar sig og beygir fyrir IMF

Mér fannst ansi skemmtilegt að sjá Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og eitt sinn einn helsta andstæðing Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, bugta sig og beygja fyrir valdi sjóðsins á Alþingi í gærkvöldi. Ekki var annað hægt en hlæja þegar Steingrímur sagði flóttalegur á svip að það væri nú bara hægt að tala við þessa menn eftir allt saman, þessa vondu menn sem hann vildi ekkert með hafa fyrir aðeins örfáum vikum og vildi segja hreinlega stríð á hendur og slíta öllu samstarfi við þá á þessum örlagatímum þjóðarinnar.

Ja sei sei, ekki var vindhaninn lengi að snúast marga hringi í kringum sjálfan sig og skipta um áttir á einni nóttu, svo geyst að hann vissi ekki lengur hvað sneri í vinstri og hvað í hægri. Ekki þurfti annað en hjónasængina hjá Samfylkingunni til að hann myndi skipta um skoðun á einni nóttu og fara að lofsyngja IMF og gleyma hinum margtuggða boðskap um ægivald hins illa sem vinstri grænir nefndu IMF og hlutverk þess við breyttar aðstæður þjóðarinnar.

Nei nú skal spila með og gleyma öllu því sem eitt sinn var sagt. Mikið er nú alltaf gaman að sjá vindhanana snúast marga hringi í logninu.

mbl.is Steingrímur ræddi við IMF í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innihaldsleysi Jóhönnu falið með frasablaðri

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, faldi innihaldsleysi ríkisstjórnar sinnar með orðagjálfri og frasablaðri í stefnuræðu sinni í kvöld. Lítið virðist vera um marktækar lausnir á vanda þjóðarinnar á miklum örlagatímum en það hinsvegar poppað upp með einhverjum draumórum um breytingar sem henta betur hjá ríkisstjórn með fullt og óskorað umboð að loknum næstu alþingiskosningum. Eins og áður hafði komið vel fram í innihaldslausu Kastljósviðtali þar sem allt átti að skoða og kanna eftir að forysta Samfylkingarinnar hefur haft öll tækifæri til að láta til sín taka. Vegferðin virðist óttalega tilviljanakennd og marklaus - minnir helst á óvissuferð út í bláinn.

Með fullri virðingu fyrir alþýðukempunni Jóhönnu, sem vann stærstu sigra sína og átti mestu ósigrana og kollsteypurnar í rimmum við samherja sína, er hún eins og leikstjóri í leikriti sem enn er verið að skrifa og æfður einn kafli í einu, án þess að nokkur viti hvaða persónur eigi að vera í aðalhlutverki eða aukahlutverki. Hún virðist fela þá óvissu með tali um einhver hliðaráhrif leikritsins, t.d. hvernig sviðið eigi að vera og hvaða litir eiga að vera í bakgrunni. Fókusinn er ekki á miðju sviðsins þar sem allt á að gera.

Auk þess er handritshöfundurinn ekki traustari en svo að alls óvíst er að hann skrifi leikritið til enda og það endi jafnvel fyrir hlé. Þetta er í besta falli skondið en hinsvegar sorglegt, því spilað er með örlög heillar þjóðar og afleitt að samheldnin í verkunum sé ekki meiri og sundrungin vofir yfir leikritinu og alls óvíst að áhorfendurnir tóri fram í hlé við að horfa. Alls óvíst er hvernig leikrit þetta sé, þó flest bendi til að þetta endi í kuldalegum farsa eða tragikómedíu.

mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferski ráðherrann í 125 ára stjórninni

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, er eini pólitíski ráðherrann í nýju vinstristjórninni sem mér líst virkilega vel á, enda eina ferska andlitið í 125 ára stjórninni svokölluðu, sú eina sem hefur eitthvað nýtt fram að færa og er ekki hokin og þreytt við stjórnarskiptin. Fjarri því er að ég sé sammála Katrínu um alla hluti en mér finnst stíll yfir henni og eitthvað nýtt. Hún er af sömu kynslóð og ég - vissulega er ánægjulegt að einhver á þessum aldri verði ráðherra og yngt upp í pólitíkinni. Full þörf er á því einmitt núna.

En í staðinn velja vinstrimenn í nær alla stóla forystumenn sem eru fulltrúar gamla tímans, hafa annað hvort verið í ríkisstjórn eða setið mjög lengi í stjórnarandstöðu og eru þreytulegir, hreint út sagt. Einmitt á þessum tímum þurfum við að fá ferskt fólk til forystu og stokka upp í pólitíkinni. Fyrir því hef ég allavega talað að undanförnu með því að við þurfum nýja kynslóð til forystu, nýtt fólk til leiks og við fáum alvöru breytingar.

Þetta eru tímar breytinganna og allir flokkar eiga að svara því kalli.

mbl.is Vék stjórn LÍN frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur reynir að bjarga sér frá hruninu mikla

Ansi fyndið er að sjá hundakúnstir Baugsmanna við að bjarga fyrirtækinu þegar öll sund eru orðin lokuð fyrir vinnubrögðin á þeim bænum. Enn einu sinni á að reyna að kenna Davíð Oddssyni um hversu illa komið er fyrir viðskiptaveldinu og gengið sé eftir því að þeir standi við skuldbindingar og orð sín. Einu sinni gátu Baugsmenn leikið þennan leik með því að bendla nafn Davíðs við allt sem aflaga fór hjá þeim og óhæfuverkin þeirra. En þessi leikur hefur gengið of lengi og fáir sem trúa orðið nokkru einasta orði sem frá þessum mönnum kemur.

Eru þeir örugglega enn með einhverja skynsama pr-ráðgjafa hjá sér þeir Baugsmenn þegar þeir reyna að fiffa sig út úr þessu svona ómerkilega?


mbl.is Baugur í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturlu bolað burt - lyddurnar í Framsókn

Jæja, þá hefur Sturlu Böðvarssyni verið bolað af forsetastóli Alþingis með vantrausti á störf hans. Mér finnst það frekar ömurlegt að horfa upp á hversu ódýr Framsóknarflokkurinn er með því að standa að því að fella Sturlu. Framsókn sýnir lydduskap sitt með því að standa að þessu verki án þess að hafa tekið að sér setu í ríkisstjórn og vilji ekki bera ábyrgð á stjórn landsins á nokkurn hátt. Allt þetta gerir Framsókn án þess að fá taka á sig ábyrgð. Þeir ætla bara að njóta góðs af óhæfuverkum vinstristjórnarinnar. Þeir taka þau þó verk öll á sig og verða minntir á afstöðu sína.

Í stað Sturlu er settur lítt reyndur þingmaður, með innan við tveggja ára þingreynslu. Ekki hefur verið hefð fyrir því að í þingforsetastólnum sé maður eða kona með svo litla þingreynslu. Þó Guðbjartur Hannesson sé hinn mætasti maður og ég óski honum góðs í störfum sínum vorkenni ég honum að taka við þessu embætti við þessar aðstæður og þegar slík lágkúra vofir yfir öllum verkum þingsins í skjóli lydduskapar Framsóknar, sem fellir Sturlu af stóli en vill ekki taka neina ábyrgð á verkunum á sig, ætlar bara að reyna að fleyta sér áfram á því.

Með verkum dagsins hefur Framsókn fest sig í sessi sem hækja vinstriflokkanna og er ekki í öfundsverðri stöðu að fella reyndan og traustan mann úr forsetastóli, þegar mjög stutt er til alþingiskosninga. Ekki er hægt annað en hafa skömm á þessum vinnubrögðum Framsóknar.


mbl.is Guðbjartur kjörinn þingforseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel orðað hjá Geir

Ég er algjörlega sammála Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að væntanlegt forsetakjör í þinginu, þegar örfáar vikur eru til alþingiskosninga, er stórundarlegt og í raun ekkert nema valdagræðgi. Held að fullt traust ætti að geta verið milli flokkanna um vinnuna í þinginu næstu vikurnar, enda mikilvægt að ná samstöðu um flest mál.

Sturla Böðvarsson er vissulega flokksbundinn fulltrúi á Alþingi, en hann hlaut traust kjör til verka og hefur sitt umboð frá flokkunum á þingi. Því tel ég undarlegt að hann skuli ekki fá að leiða starfið áfram. Þetta lítur út eins og valdagræðgi af verstu sort.

mbl.is Takmarkalaus valdagræðgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risaklúður hjá Obama - vandræðaleg byrjun

Barack Obama
Enginn vafi leikur á því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur orðið fyrir þungu pólitísku áfalli vegna vandræðalegs brotthvarfs Tom Daschle úr staðfestingarferlinu í þinginu. Reyndar hefur flest gengið á afturfótunum hjá þeim sem áttu að kanna fortíð þeirra sem voru tilnefndir og greinilega verið haldið mjög illa á málum. Þrír hafa orðið að draga sig til baka vegna þess að þeir höfðu eitthvað óhreint í pokahorninu, þar af viðskiptaráðherraefnið, og sá fjórði, fjármálaráðherrann sjálfur, rétt slapp fyrir horn en naumlega þó.

Tom Dashcle átti að vera einn af lykilmönnum fyrstu hundrað daga valdaferils Obama forseta og leiða heilbrigðismálin, sem áttu að vera eitt aðalmálið, af festu og ábyrgð. Hann hafði leitt demókrata í öldungadeildinni mjög lengi og verið í fulltrúadeildinni ennfremur. Hann þótti hafa traustan prófíl og geta tekið verkefnið að sér. Í upphafi staðfestingarferlisins var farið um hann silkihönskum og talað um hann af virðingu af kollegum úr deildinni. En kusk fannst á hvítflibba hans og honum var gert ókleift að taka við embætti.

Obama er auðvitað skaddaður á eftir og hefur sjálfur viðurkennt hið augljósa, að hann klúðraði þessu og þeir sem hann treysti fyrir að leiða valferlið stóðu sig ekki í stykkinu. Eftir stendur hann með flækjufótinn. Barack Obama átti draumabyrjun fyrstu dagana eftir valdaskiptin í Hvíta húsinu en hefur síðan flækst í leiðindamál og misst greinilega draumasambandið við fjölmiðla sem hann hafði í forkosningabaráttunni. Fjölmiðlar voru skotnir í Obama og fóru um hann silkihönskum og fóru ekki leynt með það.

Greinilegt er að Obama missti traust þeirra þegar hann sór aftur embættiseiðinn í Hvíta húsinu með Roberts forseta hæstaréttar án þess að láta fjölmiðla vita og fór á fyrsta degi á svig við eigin reglur um opin samskipti í Hvíta húsinu og enga feluleiki framhjá landsmönnum og pressunni. Blaðafulltrúinn hans fékk þriðju gráðu yfirheyrslu á næsta blaðamannafundi og blaðamenn allt að því tóku Obama í gíslingu með spurningaflóði þegar hann heimsótti þá í blaðamannaherbergið síðar til að kaupa frið.

Obama forseti hefur líka misst metfylgið sem hann hafði í könnunum snemma janúarmánaðar og eftir að hann tók við forsetaembættinu. Enn hefur hann þó mælingu yfir 60% en það fer ört minnkandi. Ástarsamband fjölmiðla og Obama er lokið með dramatískum hætti og þeir hafa gengið mjög nærri honum vegna klúðursins með Daschle og aðra valkosti hans í þingferlinu. Í viðtali á CNN í kvöld tók Anderson Cooper Obama algjörlega fyrir og talaði hann í kaf, svo Obama viðurkenndi klúðrið.

Ég veit ekki hvernig Obama muni ganga á næstunni en byrjunin er eitt klúður fyrir hann. Ekki dugar lengur að hafa froðukennda frasa sem leiðarstef heldur alvöru forystu. Obama hefur að mörgu leyti þegar fallið á fyrsta prófinu og hlýtur að passa sig eigi hann ekki að verða flokkaður sem misheppnaður demókrataforseti ala Jimmy Carter eins og margir vilja gera og benda réttilega á að gæti hæglega gerst haldi hann áfram á sömu braut.


mbl.is Obama: Ég klúðraði þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkur valkostur fyrir Framsókn

Eygló Harðardóttir hefur á nokkrum vikum komið sterk til leiks á Alþingi og í forystusveit Framsóknarflokksins á landsvísu - stimplað sig inn sem traust foringjaefni. Ég tel að það yrði sterkur leikur hjá framsóknarmönnum í Suðrinu að velja hana sem eftirmann Guðna Ágústssonar, ekki aðeins í þingsætið hans heldur í leiðtogastólinn í kjördæminu. Mér finnst reyndar blasa við að nýjir tímar verða hjá Framsókn í þessum kosningum. Mikið af nýjum nöfnum eru í umræðunni og sum komin þegar í pottinn.

Þegar liggur fyrir að allir forystumenn Halldórstímans í Framsóknarflokknum eru farin af sviðinu eða ætla að hætta nema Siv Friðleifsdóttir og mögulega Valgerður Sverrisdóttir. Miklar kjaftasögur eru þó um að hún muni draga sig í hlé og hleypa ungu mönnunum að, annað hvort Birkir Jón eða Höskuldur muni leiða listann í norðrinu og væntanlega kosið á milli þeirra enda hljóta þeir báðir að hafa metnað í leiðtogastólinn ef ég þekki þá báða rétt.

Framsókn mun undir forystu nýs formanns koma fram með nýja ásýnd í nær öllum kjördæmum, gott ef ekki öllum. Hann hefur náð flugi í könnunum en væntanlega mun tilhögun leiðtogasætanna og skipan listanna ráða miklu um hversu miklu flugi þessi gamli flokkur nær upp úr rústunum.

mbl.is Eygló býður sig fram í fyrsta sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög vænleg staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Mér finnst það mjög góð tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á þessum tímapunkti, þegar hann fer í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti eftir átján ára stjórnarsetu. Slíkt er styrkleikamerki fyrir flokkinn og gefur til kynna að hann eigi mörg tækifæri í kosningabaráttunni og geti komið sem sigurvegari út úr henni, ef honum ber gæfa til að stokka upp forystusveit sína og þingflokkinn á næstu vikum í prófkjöri og landsfundi í kjölfarið.

Stóru tíðindi könnunarinnar eru þó að fylgið er á fleygiferð og margir taka ekki afstöðu. Mikið verk er framundan fyrir stjórnmálaflokkana að höfða til kjósenda og ljóst að sjaldan ef aldrei hefur lausafylgið verið meira. Því er spennandi kosningabarátta framundan og augljóst að margt á eftir að gerast á næstu 80 dögum.

Veganesti ríkisstjórnarinnar er ekki beysið á fyrstu dögunum. Aðeins helmingur landsmanna styður hana þegar í upphafi áður en reynir á hana og gefur það til kynna að stjórnarskiptin séu landsmönnum ekki mjög að skapi og hún eigi eftir að ganga í gegnum mikinn öldusjó, því varla mun fylgið aukast.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil mildi að vel fór við Tjörnina

Óhætt er að segja að mikil mildi hafi verið að ekki hafi verr farið þegar hestarnir fóru niður um ísinn á Tjörninni. Þarna skiptir öllu máli hin réttu viðbrögð og taka á því af ábyrgð og úthugsað. Fjölnir virðist hafa bjargað því sem bjargað varð og staðið sig frábærlega. Hann hlýtur að fá hrós dagsins fyrir sín viðbrögð.

mbl.is „Einn í einu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heift og hefnigirni - engin sameining SÍ og FME?

Uppstokkunin í Seðlabankanum ber öll merki heiftar og hefnigirni í garð eins manns, þetta er pólitísk hreinsun af hálfu minnihlutastjórnar með undarlegt og óskýrt pólitískt umboð. Aðferðin er ekki boðleg og virðist vera presenteruð sem hrein hefnd, engar áminningar eru lagðar fram og farið fram með óboðlegum hætti. Hvað varð um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem fyrri ríkisstjórn hafði rætt um og lagt drög að? Er hún nú úr sögunni því Samfylkingin getur farið sínu fram í pólitískri heift gegn einum manni?

Hvað mun þessi heift og hefnigirni eins flokks í samstarfi við einn og blóðheitu daðri við annan kosta þjóðina? Starfslokasamningarnir verða dýrkeyptir fyrir okkur öll á þessum forsendum eins og Jón Magnússon bendir réttilega á. Valin er dýrasta og ógeðfelldasta aðferðin til uppstokkunar. Allt talið um sameiningu SÍ og FME virðist fyrir borð borin og ekki koma lengur til greina. Þetta er undarlegt veganesti og ekki mjög geðslegt.


mbl.is Pólitískar hreinsanir og heift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir Davíð - hatrömm átök um Seðlabanka

Augljóst er að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ætlar ekki að fara úr Seðlabankanum í flýti og hugleiðir vel næstu skref í þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin þar sem minnihlutastjórnin hefur það eina skýra markmið að breyta yfirstjórn Seðlabankans án faglegra aðgerða, t.d. áminninga. Ég tel þessi starfslok eins og þau hafa verið undirbúin varla teljast fagleg, án þess að áminningar eða ábendingar um mistök í starfi hafi beinlínis verið lögð fram. Slíkt væri eðlilegt upphaf á því ferli sem komið er af stað.

Þetta er pólitísk ákvörðun og flokkast ekki undir neitt annað en pólitískar hreinsanir. Alla tíð hefur verið talað nær einvörðungu um að hreinsa út vegna eins manns, varla hefur verið minnst á þá tvo seðlabankastjóra sem sitja ennfremur og hafa unnið í Seðlabankanum í áratugi og eru hagfræðingar. Merkilegt er líka að eina skýra stefnumið ríkisstjórnarinnar snýst um þá uppstokkun.

Allt annað er í móðu blaðurs og orðagjálfurs og á að skoða og kanna, eins og sjá mátti af forsætisráðherranum sem hafði enga skýra stefnu fram að færa og ætlaði allt að skoða og kanna, þó hún hefði verið í ríkisstjórn í tæp tvö ár og hefði stýrt einum mikilvægasta pakkanum í kerfinu.

mbl.is Jóhanna og Davíð ræddu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breskar aðvaranir og sjálfskaparvítið mikla

Mér finnst það mjög merkileg staðreynd að breska fjármálaeftirlitið hafi verið varað um yfirtöku Kaupþings á Singer & Friedlander. Bretar hljóta að geta sjálfum sér um kennt hvernig komið var fyrir stofnunum þar og alvarleg staða íslensku bankanna þar úti ætti varla að hafa verið stórtíðindi fyrir þeim. Leitin að blórabögglum virðist enda í eftirlitsstofnunum þeirra, enda hafa þær verið steinsofandi hafi þær sniðgengið slík skilaboð í heil þrjú ár.

Reyndar held ég að Bretar hafi skotið sig illa í fótinn með aðförinni að Íslendingum í haust. Get ekki séð að Bretar séu í góðri stöðu núna og séu í raun hægt og sígandi á sömu ógæfuleið og við fórum. Varla að maður nenni að vorkenna þeim, sjálfskaparvítið er slíkt.

mbl.is Var aðvarað vegna Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband