Sólveig Pétursdóttir flytur kveðjuræðu á Alþingi

Sólveig PétursdóttirSólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, er nú að flytja síðustu þingræðu sína og kveðjuorð fyrir hönd þingsins, en þinglok verða eftir nokkrar mínútur. Sólveig á að baki nokkuð merkan feril í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur vissulega verið umdeildur stjórnmálamaður en verið kjarnakona í stjórnmálum. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1986-1990 og formaður í borgarnefndum það kjörtímabil.

Sólveig tók sæti á Alþingi í ársbyrjun 1991 þegar að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrum borgarstjóri og menntamálaráðherra, varð seðlabankastjóri við fráfall Geirs Hallgrímssonar. Sólveig var formaður allsherjarnefndar árin 1991-1999 og varð dómsmálaráðherra í maílok 1999 í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Sólveig varð með því önnur konan á stóli dómsmálaráðherra.

Ráðherratíð hennar varð stormasöm og nægir að nefna málefni Falun Gong sem eitt hið erfiðasta á hennar ferli í dómsmálaráðuneytinu. Sólveig missti ráðherrastól sinn í kjölfar kosninganna 2003 og varð 3. varaforseti Alþingis. Hún var kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals þann 1. október 2005.

Ég vil þakka Sólveigu kærlega fyrir góða forystu innan flokksins og sérstaklega góð samskipti við mig persónulega þegar að ég bað hana að rita gestapistil á vef SUS haustið 2005, skömmu eftir að hún var þingforseti. Sá pistill hét; Þankar um starfshætti Alþingis

Takk fyrir allt, Sólveig!


Margrét Frímannsdóttir kveður

Margrét FrímannsdóttirÉg var að horfa á kveðjuræðu Margrétar Frímannsdóttur á Alþingi, en hún situr nú sinn síðasta þingfund. Búist er við þinglokum innan klukkustundar. Þetta var greinilega tilfinninganæm stund fyrir hana og hún flutti stutta en heilsteypta ræðu. Ég viðurkenni það fúslega að mér hefur alltaf fundist Margrét vera einn frambærilegasti forystumaður Samfylkingarinnar og ég held að þeim muni mjög um hana, enda einn sterkasti leiðtogi flokksins í kvennaarminum.

Það er einmitt hálft ár í dag frá því að Margrét tilkynnti pólitísk endalok sín á kjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Margrét Frímannsdóttir hefur setið á þingi frá árinu 1987. Hún hefur verið einn helsti leiðtogi vinstrimanna hérlendis í tæpa tvo áratugi og verið öflug í sinni stjórnmálabaráttu. Hún var þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992, formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000, varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003 og þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006. Hún leiddi framboðslista í öllum kosningum frá árinu 1987 á Suðurlandi, fyrir Alþýðubandalag og Samfylkinguna.

Margrét Frímannsdóttir var fyrsta konan sem leiddi einn af gömlu fjórflokkunum og sigur hennar yfir Steingrími J. Sigfússyni í hörðu formannskjöri í Alþýðubandalaginu er Ólafur Ragnar Grímsson lét af formennsku árið 1995 var nokkuð sögulegur. Án hennar hefði Alþýðubandalagið aldrei farið í sameiningarviðræður við kratana og Kvennalistakonur. Hún stýrði málinu og var óneitanlega ljósmóðir Samfylkingarinnar. Það mæddi oft gríðarlega á henni undir lokin í Alþýðubandalaginu er Steingrímur J. og hans fylgismenn klufu sig frá og stofnuðu eigin flokk. Ennfremur var hún talsmaður Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum 1999, en það voru fyrstu kosningar flokksins. Sennilega voru alþingiskosningarnar 1999 þær kosningar sem mest reyndu á hana, en hún leiddi Samfylkinguna fyrstu skrefin.

Ég held að það sé ekki ofmælt að brotthvarf Margrétar Frímannsdóttur veiki Samfylkinguna. Hún var sannkölluð ljósmóðir flokksins og tryggði að flokkurinn komst í raun á koppinn. Það hefur öllum verið ljóst að Margrét Frímannsdóttir hefur verið gríðarlega öflugur leiðtogi á Suðurlandi og átti sér persónufylgi langt út fyrir flokkinn. Hún kom enda úr grasrótinni og hefur verið í pólitík síðan að hún var ung. Sennilega má segja að hún hafi byrjað í pólitík í hreppspólitíkinni, enda var hún lengi oddviti í heimabæ sínum, Stokkseyri, og varð svo þingmaður 33 ára og var alla tíð í forystusveitinni á vinstrivængnum. Það vekur verulega athygli að Margrét ákveði að hætta. Hún er jafngömul Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Báðar eru þær fæddar árið 1954.

Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Margréti á hennar stjórnmálaferli sé ég eftir henni úr stjórnmálum. Þetta var allavega mjög öflug kveðjuræða hjá henni áðan. Þar missir Samfylkingin forystukonu sína á landsbyggðinni og ekki fá þeir neina í staðinn.


Líður að starfslokum Alþingis á kjörtímabilinu

Alþingi Það stefnir í þinglok á næstu klukkutímum. Með því verða um leið starfslok hjá löggjafarþinginu á kjörtímabilinu. Mér telst til að allt að 20 núverandi alþingismenn séu að sitja nú síðustu klukkustundir sínar á þingi fari kosningar í takt við nýjustu kannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun og verður áhugavert að sjá hvernig að nýtt þing verður skipað eftir þingkosningarnar eftir 55 daga.

Ef marka má kannanir þessa dagana eru VG og Sjálfstæðisflokkur að mælast í uppsveiflu meðan hinum flokkunum er spáð mismiklu fylgisfalli. Það virðist sérstaklega stefna í erfiðar kosningar fyrir Framsóknarflokk og Samfylkinguna, og hlýtur að fara að styttast í að staðan þar jaðri við örvæntingu, ef það er þá ekki orðið þannig nú þegar. Athygli vekur líka að sjá hversu mjög frjálslyndir minnka könnun eftir könnun.

Það er alltaf kostulegt að fylgjast með þinghaldinu undir lokin ár hvert. Það myndast ævinlega gríðarleg stífla þar síðustu fimm til tíu dagana og verður eiginlega varla viðráðanleg. Svo er keyrt á með næturfundum á næturfund ofan og unnið þar til að menn eru annaðhvort orðnir ein taugahrúga og baugóttir undir augum og falla saman í samkomulag sem felur í sér að nokkrum málum er slátrað eða saltað niður í trog til næsta vetrar og stabbi keyrður í gegn. Þetta er held ég sérstaklega íslenskt verklag. Finnst það afleitt í sjálfu sér, enda tel ég að þingið megi alla jafnan vinna lengur en þetta.

Gestur Einar Jónasson spurði mig í viðtalinu á Rás 2 á miðvikudagsmorguninn einmitt að því hvort að mér þætti að lengja ætti þinghaldið. Sagði ég mína skoðun afgerandi á því að það ætti að gera. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að þinghaldið eigi að byrja í septemberbyrjun og standa fram í maílok hið minnsta. Það væri viðunandi verklag. Það að byrja ekki í september er löngu úrelt verklag að mínu mati og þessir næturfundir og stíflukeyrsla er að mínu mati þinginu til skammar og hef alltaf verið á þeirri skoðun. Lengja þetta takk!

Það eru misjafnlega ólík frumvörp sem renna í gegn á færibandi eins og járndósir í niðursuðuverksmiðju. Gleðst mjög með að samkomulag er loks um að samþykkja að afnema fyrningarfrest á kynferðisbrotum gegn börnum. Löngu kominn tími til að það færi í gegn og fleiri mál ágæt eru að verða að lögum. Sum sitja eftir og daga uppi. Ætli að vínfrumvarpið sem rætt var um í gær verði eitt af þeim? Vona ekki. Verður fróðlegt að sjá hvernig verklaginu lýkur þarna í kvöld.

mbl.is Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mona Sahlin leiðir sænska krata í stað Persson

Mona Sahlin Mona Sahlin var í dag kjörin leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins í stað Göran Persson sem hefur leitt hann í ellefu ár og var forsætisráðherra Svíþjóðar í áratug, 1996-2006. Sahlin er fyrsta konan sem leiðir sænska krata og sem leiðtogi annarrar lykilblokkar sænskra stjórnmála. Sænskir kratar misstu völdin í október í fyrsta skipti í tólf ár, og eru nú að upplifa heim stjórnarandstöðunnar og eru greinilega að ganga í gegnum allsherjar uppstokkun. Það er ljóst að það verður verkefni Sahlin að endurreisa flokkinn til vegs og virðingar.

Mikil andstaða var lengi vel við að Sahlin yrði flokksleiðtogi og öflugur armur innan flokksins mátti ekki til þess hugsa að hún leiddi flokkinn eftir allt sem á undan var gengið. Hún var þó tilnefnd af valnefnd í ársbyrjun, sem vann að undirbúningi kjörsins, og enginn annar lýsti yfir áhuga sínum og samstaða myndaðist um hana eftir langar vangaveltur. Hennar bíður athyglisvert hlutskipti í forystunni. Mona var lengi vel talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons í baráttu við Persson fyrir áratug, en hann var eftirmaður Olof Palme sem leiðtogi kratanna, 1986-1996, og var forsætisráðherra tvisvar; 1986-1991 og 1994-1996.

Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur lengi verið umdeild innan flokks og utan og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það verður nú hlutskipti hennar að reyna að endurreisa ímynd sína sem stjórnmálamanns og vinna flokki sínum fylgi og sigurmöguleika í kosningum eftir rúm þrjú ár. Það er mikið verkefni sem við henni blasir, enda ljóst að hneykslismál hennar eru ekki gleymd.

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir Jafnaðamannaflokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 blasti enda enginn afgerandi eftirmaður Perssons við. Anna Lindh var krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons er hún dó. Skarð hennar er enn mjög áberandi meðal sænskra krata. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel að Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, væri vænlegust í verkefnið en hún lýsti því yfir nær um leið og Persson dró sig til baka eftir tap í þingkosningum að hún hefði engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.

Það mun mikið reyna á Sahlin nú sem leiðtoga sænsku stjórnarandstöðunnar. Maður hefði haldið að hún væri orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. En hún fær greinilega annan séns og krýningu innan flokksins til verka, þrátt fyrir margar afsagnir og vandræðaleg pólitísk mistök. Reyndar má segja að það að Sahlin verði flokksleiðtogi sé til marks um hversu mjög yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir hann nú þegar að hann hrökklast sjálfur frá völdum.

Þrjár konur leiða nú norræna jafnaðarmannaflokka í fyrsta skipti í sögu þeirra; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Helle Thorning-Schmidt og Mona Sahlin. Það var til marks um þetta kvennamóment að allar ávörpuðu þær flokksþing sænskra krata í dag og var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sérstakur heiðursgestur flokksþingsins.

Nú þegar að rúmir 50 dagar eru til þingkosninga hér á Íslandi blasir frjálst fylgisfall við Samfylkingunni og erfið pólitísk staða við leiðtoga flokksins sem virðist vera að missa einmitt kvennafylgið mjög hratt. Það stefnir í kuldaleg pólitísk örlög fyrir íslenska heiðursgestinn á sænska krataflokksþinginu að óbreyttu.

mbl.is Mona Sahlin kjörin leiðtogi sænskra sósíaldemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggvefurinn horfni og umdeildu ummælin

Ég fékk þónokkur viðbrögð við skrifum mínum hér um bloggummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins og það sem ég sagði um vefinn hennar eftir að hún lokaði honum í kjölfar umdeildra ummæla um auglýsingablað Smáralindar. Enn bar þó á þeim misskilningi að ég væri að tala gegn því að hún hefði skoðanafrelsi. Gagnrýnin snerist fyrst og fremst að orðavalinu. Það hvernig hún orðaði hlutina var langstærsti þáttur þess hversu gagnrýnin á hana varð rosalega mikil og afgerandi. Varð ég enn og aftur að taka þetta fram, mér til nokkurrar furðu, enda taldi ég mig hafa sagt þetta nógu oft og skýrt auðvitað.

Það að kona í hennar stöðu lét slíkt orðbragð frá sér fara var stór þáttur gagnrýninnar líka að mínu mati. Margir hafa verið á sama máli í þessu og ég, en sumir héldu umræðunni áfram frá sama grunni, eftir fyrri skrif mín. Það var frekar undarlegt. En það er bara eins og það er. Það að Guðbjörg Hildur hafi tekið vefinn niður var viðurkenning þess að hún gat ekki feisað vettvanginn lengur eftir þessa gagnrýni. Það má vel vera að það sé erfitt að biðjast afsökunar á vondu orðbragði, en ég er þess fullviss að margir hefðu metið þá afsökunarbeiðni mikils eins og komið var málum.

En það var ekki á dagskrá greinilega. Í dag voru ýmsar sögusagnir um að Guðbjörg væri hætt í Háskólanum og horfði til annarra verkefna. Þekki það ekki og skipti mér ekki af því. Mér fannst þessi ummæli lágkúruleg og fannst rétt að tjá þá afstöðu. Afsökunarbeiðni fannst mér eðlilegt ferli. Hún tók út umdeildu skrifin en baðst aldrei afsökunar á þeim. Með því að taka skrifin út og síðar loka vefsetrinu var tekið að mínu mati undir harða gagnrýni og hún hopaði án þess að taka aftur ummælin. Málinu lauk því snaggaralegum hætti.

Ég stend hiklaust við þá skoðun mína sem ég hef birt hér um þessi ummæli. Fannst rétt að benda á þau. Fannst þó heiðarlegt að tala rólega um málið í viðtalinu á Rás 2 nýlega, þó ég hafi vissulega svona sagt mitt um það. Viðbrögðin við þessu sýndu mjög vel hversu sterkt netið er. Auglýsingaherferðin sem sýnd var nýlega í sjónvarpi um ómálefnaleg netskrif kom ljóslifandi fram í þessu tilfelli. Það er ekki sama hvernig að þú talar og skrifar á netinu. Það er opinn vettvangur. Farirðu yfir strikið færðu að kenna á því. Einfalt mál!

Þetta mál sýnir okkur vel siðferðismæla netsins og að það er fylgst vel með því sem þar gerist. Hvassyrt orðalag getur enda vakið mikla bylgju andúðar og kallað á sterk viðbrögð. Þetta mál hefur sýnt okkur það mjög vel, enda eitt hið umdeildasta í netheimum í seinni tíð. En þar var talað gegn orðalagi, en ekki skoðunum. Það er allavega mitt mat.


Sjálfstæðisflokkurinn í sókn - aðrir flokkar síga

Könnun (mars 2007) Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst umtalsvert á milli vikna í könnunum Gallups. Í nýrri könnun sem kynnt var fyrir stundu missa allir aðrir flokkar fylgi. VG er enn næststærst, með 25,7%, og mælist með fimm prósentustigum meira fylgi en Samfylkingin. Framsóknarflokkurinn mælist aðeins með 6,9% fylgi og hefur aldrei í sögu kannana Gallups mælst lægri. Frjálslyndir missa flugið og mælast með innan við 5% fylgi, fá því ekki jöfnunarmenn.

Þessi könnun er nokkuð merkileg. Uppsveifla Sjálfstæðisflokksins er vissulega mikið gleðiefni, en hann mælist nú sjö prósentustigum yfir kjörfylginu árið 2003. VG er byrjað að síga eftir langa uppsveiflutíð, en er enn fimmtán prósentustigum yfir kjörfylginu 2003. Samfylkingin heldur sífellt áfram að minnka og er nú komin niður í 20,6%, sem þýðir yfir 10% fylgistap frá síðustu kosningum. Söguleg lægð Framsóknarflokksins eru mjög stór tíðindi, hann mælist 12 prósentustigum undir kjörfylginu 2003 og aðeins með fimm þingsæti. Frjálslyndir hafa misst þrjú prósentustig frá kosningunum 2003.

Ríkisstjórnin mælist fallin þrátt fyrir mikla uppsveiflu Sjálfstæðisflokksins. Þar er um að kenna kreppu Framsóknarflokksins. Það er hætt við að örvæntingin þar í þessari gríðarlegu krísu verði brátt æ meira áberandi. Sama má segja um Samfylkinguna, sem er í frjálsu falli eins og Framsóknarflokkurinn. Það dettur engum lifandi manni í hug að segja að Samfylkingunni hafi tekist að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í þessari mælingu og pólitísk staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur sjaldan eða aldrei verið veikari, eins og sást reyndar vel af öryggisleysi hennar í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í vikunni.

Þingstörfum mun væntanlega ljúka á morgun. Þá fer kosningabaráttan væntanlega á annað stig og verður æ meira áberandi. Þessi mæling innan við 60 dögum fyrir kosningar er vissulega mjög athyglisverð og miklar pælingar framundan við að greina hana. Fari staðan á einhvern viðlíka veg hlýtur að teljast eðlilegt að VG og Sjálfstæðisflokkurinn, flokkar í mikilli uppsveiflu, myndi nýja ríkisstjórn. Sitjandi stjórn er allavega heldur betur feig fari Eyjólfur ekki að hressast í Framsókn.

mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjórar olíufélaganna þriggja lausir allra mála

Olíufélög Hæstiréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. febrúar sl. um að vísa máli ákæruvaldsins gegn forstjórum olíufélaganna á tímum olíusamráðsins frá. Þetta er mjög athyglisverður dómur og hlýtur að skekja samfélagið, enda hefur olíusamráðið verið mjög umdeilt og skapað óvinsældir fyrir bæði olíufélögin og þessa menn á forstjórastóli í samfélaginu.

Fram kemur í dómsorði að fyrirkomulag samkeppnislaga hafi ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum. Telur Hæstiréttur ekki nægjanlega fram komið, að í lögreglurannsókninni, sem fór fram í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, hefðu þeir, eins og þeirri rannsókn var hagað, fengið notið þeirra réttinda sakborninga.

Því telur Hæstiréttur að ákæra yrði ekki reist á þeirri lögreglurannsókn og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Var að lesa dóminn, þetta er mikil bomba en um leið áfall fyrir ákæruvaldið sem hefur runnið á rassinn með þetta mál gegn samráðsforstjórum olíufélaganna og Baugsmálið er orðið mikið fíaskó að mínu mati; stendur ekki steinn yfir steini. Ég sem neytandi í þessu landi lýsi yfir hneykslun minni og undrun á þessum dómi sem er með hreinum ólíkindum.

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.

Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. En nú er þetta mál úr sögunni sýnist manni og fróðlegt að sjá hvort, og þá hvað, taki nú við í því.

mbl.is Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðbjörg Hildur lokar bloggsíðu sinni

Ég tók eftir því í kvöld, eftir góða ábendingu, að Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur lokað vef sínum hér á Moggablogginu. Deilt hefur verið á netinu síðustu dagana um harkaleg ummæli hennar um forsíðu auglýsingablaðs Smáralindar og margir beðið eftir afsökunarbeiðni frá henni á því orðavali sem þótti fara heldur betur yfir mörkin. Það virðist ekki vera á dagskrá hennar að senda frá sér afsökunarbeiðni eða reyna að klára þetta mál með siðlegum hætti. Það er með ólíkindum að hún skyldi pakka saman eftir þessa umræðu, taka út umdeildu færsluna og taka svo vefinn niður bara eins og tjaldið eftir útileguna og keyra á brott. Frekar kostulegt.

Einn sem skrifaði komment á vefinn minn í dag var að tala um að ég væri að vega að skoðunum hennar. Það er ekki rétt, ég var að skrifa gegn þessu orðavali. Eitt er að telja auglýsingabæklinginn vondan og stellingu fyrirsætunnar slappa en annað að koma með svo sterk orð, hakka í sig unga fyrirsætu og þetta blað með ómálefnalegum hætti. Ég er ekki einn um það að telja þessi skrif fyrir neðan allar hellur.

Það sem meira er að ég tel að hún hafi sýnt það opinberlega að henni varð á með því að taka skrifin niður og endalok bloggvefsins segir meira en mörg orð um það að hún sér eftir þessu en finnur það greinilega ekki hjá sér að skrifa sig frá því, þó ekki væri nema með nokkrum línum. En það er bara eins og það er.

Það sem maður skrifar á bloggvefinn er orðið opinbert. Þess vegna hugsar maður sig örlítið um hverja færslu og segir hlutina pent og með það fyrir augum að jafnvel geta þúsundir séð það á örskotsstundu. Vísa til orðavals míns í viðtalinu á Rás 2 um þetta. Það sem fer eitt sinn á netið gleymist kannski ekki glatt.

Það sýndi sig vel í þessu máli að netið er lifandi og fólk getur ekki sagt hvað sem er um hvern sem er. Einfalt mál í sjálfu sér!


Af hverju biðst Guðbjörg Hildur ekki afsökunar?

Það hefur vakið mikla athygli að Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur ekki enn beðist afsökunar á umdeildum ummælum sínum fyrir viku um forsíðu auglýsingablaðs Smáralindar. Þetta mál skók bloggheimana fyrir viku með athyglisverðum hætti og svo fór að Guðbjörg Hildur tók út skrifin. Margir spyrja sig enn hvar afsökunarbeiðnin sé, enda held ég að flestir í bloggheimum hafi mislíkað þessi skrif, enda voru þau svo harkaleg og langt yfir öll mörk.

Gestur Einar Jónasson og Hrafnhildur Halldórsdóttir spurðu mig sérstaklega út í þetta mál í viðtalinu sem ég fór í til þeirra á Rás 2. Þetta er eitt umdeildasta mál bloggheimanna ansi lengi og því svosem varla skrýtið að þau hafi talað um það í þessu spjalli um bloggheima. Sagði mína skoðun, fór þó mjög varlega í það. Vil haldast á heiðarlegum nótum í þessu, hef þó sagt meira um það hér en ég gerði í þessu morgunspjalli okkar í gær.

En Guðbjörg Hildur myndi virka mun sterkari ef hún bæðist afsökunar og ég skil ekki að hún hafi ekki enn gert það. Frekar sorglegt bara.


Útlit fyrir spennandi álverskosningu í Firðinum

Alcan Það stefnir í spennandi kosningu um stækkun Alcan í Straumsvík í kosningu bæjarbúa í Hafnarfirði eftir rúman hálfan mánuð, þann 31. mars nk. Þetta er kosning sem fylgst er með um allt land, enda gæti hún niðurstaðan orðið örlagarík fyrir kosningabaráttuna til Alþingis. Einn þingmaður Samfylkingarinnar sagði reyndar í mín eyru að þetta væri mikilvæg kosning fyrir flokkinn sem slíkan, niðurstaðan skipti máli um t.d. Fagra Ísland, umhverfisstefna sem gladdi mjög andstæðinga Samfó.

Falli tillagan verði talað um að Samfylkingin hafi stýrt málinu rétta leið í kosningaferli og verið ábyrg og flott - verði hún samþykkt muni VG segja að Samfylkingin hafi leitt málið til sigurs fyrir Alcan í Hafnarfirði eflaust. Við megum ekki gleyma því að Ögmundur Jónasson er kominn í framboð á kragasvæðinu eftir tólf ára þingsetu fyrir Reykjavík. Sú tilfærsla var mjög til marks um að keyra ætti t.d. á þessu máli og andstöðu VG við það, enda hefur VG tekið mjög afgerandi afstöðu gegn stækkun.

Er á hólminn kemur er kosið um framtíðina þarna. Vill fólk stærri stóriðjukost í nágrenni bæjarins og eða jafnvel eiga á hættu að missa álverið. Síðarnefnda planið er greinilega aðaltaktík þeirra hjá Alcan og stuðningsmanna álversins; að það muni fara verði það ekki stækkað. Einnig verður höfðað til þess hversu stór þáttur Alcan sé á svæðinu í atvinnumálum og þessháttar og hversu miklar tekjur komi frá þeim til bæjarins. Mér finnst umræðan hafa snúist talsvert á nokkrum vikum. Fyrir jólin hefði ég spáð því að tillagan myndi kolfalla með einhverjum mun.

Er ekki eins viss í dag og spái því að þetta geti farið á hvorn veg sem er, jafnvel að tillagan verði samþykkt. Skv. Gallup-könnun í ársbyrjun var 51% þátttakenda andvíg stækkun en 39% voru henni fylgjandi. Nýlega voru fylkingarnar jafnar að mig minnir í Fréttablaðskönnun. Ég tel að það verði mikil spenna vegna þessarar kosningar og greinilegt að útlit er fyrir minni mun en áður var talið, altént ef marka má þessar kannanir. Mikla athygli mína vakti reyndar að ekki skyldi kosið um stækkunina samhliða alþingiskosningum þann 12. maí, en þess í stað kosið viku fyrir páskahátíðina.

Það er greinilega mat meirihluta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að þetta mál þurfi að klárast fyrir lokasprett kosningabaráttunnar til Alþingis, sem hefst strax eftir páskana. Það hefur blasað við að þetta hafi verið meginumræðuefnið í kjördæminu síðustu vikur og flestir bíða spenntir eftir úrslitunum. Það fróðlegt að sjá á hvorn veginn þetta fer er á hólminn kemur.

Vandræðaleg stjórnarskrárbreyting

Alþingi Enn er algjör óvissa um hvort breytingar á stjórnarskrá verði afgreiddar fyrir þinglok. Ég hef ekki farið leynt með það að ég er andvígur þessum stjórnarskrárbreytingum og tel þetta vera vandræðalegan gjörning, unninn í tímahraki undir hótunum um stjórnarslit og krísu kortéri fyrir kosningar. Mér finnst það eiginlega ólíðandi að menn nái ekki samstöðu um slík mál á þeim tímapunkti að svo stutt er til kosninga.

Menn spyrja eflaust hvað hefði getað gerst annað. Það er spurning sem erfitt er að svara. Framsóknarflokkurinn þurfti að sýna kraft og keyra á málið til að sýna sérstöðu. Þeir gátu ekki bakkað. Það að ætla að treysta á stjórnarandstöðuna var mikill klaufaskapur hjá ríkisstjórninni, enda engu að treysta þaðan. Hvernig datt þeim Geir og Jóni í hug að stjórnarandstaðan myndi leggja þeim lið? Alveg kostulegt í sannleika sagt. En nú verður fróðlegt að sjá hver lendingin verði.

Ég hef verið mjög ánægður með hvernig að við í SUS og þau hjá Heimdalli hafa ályktað um málið. Sterkar og góðar ályktanir, sem ég styð heilshugar.

mbl.is Óvissa um þinglok á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ég að fara í framboð fyrir Íslandsflokkinn?

Ég sá að bloggvinkona mín, Guðrún María Óskarsdóttir, spyr í bloggkommenti á vefnum hjá mér hvort að ég sé að fara í framboð fyrir Íslandsflokkinn, nýjan flokk Margrétar Sverrisdóttur, Ómars Ragnarssonar og ýmissa annarra aðila. Fannst þetta athyglisvert komment mjög, svo ég segi það bara hreint út alveg. Hef vanist ýmsu öðru um dagana en að ég sé orðaður við framboð fyrir aðra flokka.

Það er mjög einfalt svar til við spurningunni. Ég er ekki að fara í framboð fyrir Íslandsflokkinn, eða hvaða nafni þessi flokkur mun annars nefnast. Mér líður vel þar sem ég á heima pólitískt og það eru engar breytingar framundan þar. Þannig að það er einfalt mál.

Ég ætla að vona að Sjálfstæðisflokkurinn nái fjórum mönnum hér í Norðaustri í vor. Við erum með frambærilegan mann í fjórða sætinu, Þorvald Ingvarsson, lækningaforstjóra á FSA og formann Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Vonandi náum við að tryggja tvo Akureyringa á þing í vor.

Að því mun ég allavega berjast eftir því sem mér framast er unnt. Ég hef engan áhuga á framboði við þessar þingkosningar og hef komið því á framfæri fyrir löngu.

Kosningablær á eldhúsdagskvöldi á Alþingi

Geir H. Haarde Það líður að lokum kjörtímabilsins og aðeins 58 dagar eru til þingkosninga. Þess sáust merki á Alþingi í kvöld, en þar var áberandi kosningablær á eldhúsdegi. Allir ræðumenn komu inn á kosningarnar og biðluðu greinilega til landsmanna. Vel sást í umræðunum að engin samstaða er um breytingar á stjórnarskránni og vandséð hvernig sætta megi deilur um málin fyrir helgina, fyrir áætluð þinglok á kjörtímabilinu. Mun væntanlega ráðast á morgun hvernig málinu ljúki en lítill er sáttatónninn.

Mér fannst besti ræðumaður kvöldsins vera Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. Hún flutti öfluga og sköruglega ræðu. Þar var byggt á staðreyndum um það hvernig stjórnarandstaðan sat hjá í öllum lykilframfaramálum undanfarinna ára. Þar var mjög vel talið upp. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom vel inn á það í ræðu sinni að efnahagur landsins stæði mjög vel um þessar mundir. Sagði hann ekki sjálfgefið að lífskjör landsmanna héldu áfram að batna og varaði við hugmyndum VG og Samfylkingarinnar um frestun og eða stöðvun framkvæmda.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hét á stjórnarandstöðuna um samstarf í auðlindamálinu og sagði erindi Framsóknarflokksins aldrei hafa verið meira en nú. Greinilega verið að reyna að snúa vondri stöðu Framsóknar við. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sakaði stjórnarflokkanna um að hafa stjórnarskrána að leiksoppi og að svara réttlætiskröfu almennings um sameign auðlinda með sjónhverfingu í nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gerði mikið úr stöðu VG gegn stóriðju og að þeir stefnufastur flokkur. Þannig að allir reyndu að tala vel fyrir sínu ágæti og tala til kjósenda.

Það var hiti í umræðunum, sem skiljanlegt er með þingkosningar innan tveggja mánaða. Alltaf áhugavert að fylgjast með þessu fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn. Nú verður fróðlegast hvenær þingstörfum ljúki og hvort stjórnarskrárbreytingin nær fram að ganga. Það eru ýmis spurningamerki á þessu kvöldi og óljóst hvenær þinginu verður slitið, síðasta þingi fjölda þingmanna. Það er mikill fjöldi þingmanna sem er ekki í endurkjöri og mátti sjá þau andlit í salnum greinilega utanveltu yfir kosningaræðunum, enda er þetta fólk sem tekur ekki fullan þátt í baráttunni, t.d. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sem brátt lætur af þingmennsku.

Þetta verða líflegir 60 dagar fram til kosninga. Það verður mesta fjörið í slagnum eftir páskana eflaust en tónninn var sleginn í kvöld um það hvernig baráttan verði háð. Nú eru greinilega Samfylking og Framsóknarflokkur með vonda stöðu í öllum könnunum á meðan að VG flýgur með himinskautum og Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir kjörfylginu eftir sextán ára stjórnarsetu. Það mátti enda sjá hvaða stjórnmálaleiðtogar eru að mælast vel og hverjir eiga undir högg að sækja. Gott dæmi um þetta var formaður Samfylkingarinnar, sem virðist pólitískt eiga mjög erfitt þessar vikur í aðdraganda kosninganna.

En nú er stóra spurningamerkið hvenær þingi lýkur og með hvaða hætti, t.d. hvort enn verði augljós átök um stjórnarskrárbreytingar eins og fram kom í kvöld. Við fáum væntanlega betri heildaryfirsýn yfir það með morgni.

mbl.is Geir: Hægt að framlengja framfaraskeiðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtalspælingar - hugleiðingar um bloggheima

Hef fengið góð viðbrögð við viðtalinu á Rás 2 í morgun. Hefði aldrei órað fyrir því þegar að ég byrjaði að blogga í september 2002 að ég ætti eftir að enda í viðtali sem einhvers konar hugsuður og sérfræðingur í bloggmálum! En svona er þetta bara, lífið er ein stór gáta sem við leysum dag frá degi áfram þar til að við spinnumst einhverja leið sem ræðst stig af stigi. Ég fer ekkert leynt með það að ég er mjög ástfanginn af blogginu og því sem gerist þar. Hreifst af þessum vettvangi allt frá fyrsta degi og hef verið háður honum síðan.

Ég hef mikinn áhuga á að skrifa og segja mínar skoðanir, eins og þeir vita sem hafa fylgt mér frá fyrsta degi og gegnum árin fimm. Enda var spjallið í morgun mjög lifandi og hresst. Ég sagði mínar skoðanir á þessu. Margir, meðal annars Gestur Einar og Hrafnhildur, hafa alltaf spurt mig að því hvort að þetta sé ekki byrði í gegnum daginn, hvernig maður eiginlega nennir þessu. Svarið er alltaf það sama; þetta er ástríða í lífinu. Þetta er hlutur sem ég met mikils, þetta er lífsfylling fyrir mig. Þetta er mitt golf, segi ég oft glaður með minn hlut!

Bloggið er ferskt og nýtt. Ég blæs á allar úrtöluraddir andstæðinga bloggsins um að það sé loftbóla sem springi fyrr en síðar. Þetta er ferskur, opinn og lifandi vettvangur sem er kominn til að vera. Þetta gefur mér mikið og meðan að svo er læt ég móðann mása í gegnum dagsins önn. Þetta er mikilvægur hluti og þess vegna er ég svo stoltur af honum, er ekki feiminn við að tala fyrir honum. Ég tel að bloggið muni aðeins halda áfram að vaxa. Veit ekki hvort einhver hápunktur verði, en ég tel að þetta sé fastur punktur í lífsfléttu okkar bloggara.

Gott allavega að einhver hafði gaman af þessum pælingum í morgun. Vona bara að þeir sem eru í vafa um að blogga hafi sannfærst um að þetta sé rétt. Vona að vinur minn, Gestur Einar, og hún Hrafnhildur fari bara að blogga og einhverjir aðrir. Þetta er yndisleg iðja. :)


Sorglegt sjóslys

Það var mjög sorglegt að heyra í bítið í morgun fréttirnar af sjóslysinu fyrir vestan. Það er alltaf dapurlegt að heyra fréttir af svona slysum. Það nístir í bein fyrir okkur öll, enda er samfélagið fyrir vestan svo lítið og í raun samfélagið okkar allt. Öll munum við eftir samhug þjóðarinnar fyrir áratug er snjóflóðin féllu fyrir vestan. Þeim tíma gleymi ég allavega aldrei. Það voru svartir dagar fyrir okkur öll en sýndu vel hversu mjög við stöndum saman á raunastundu.

Ég votta Vestfirðingum öllum og sérstaklega fjölskyldum hinna látnu samúð mína.
 
mbl.is Sjóslys í Ísafjarðardjúpi: Flak trillunnar dregið að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....að vakna eftir áralangan dásvefn

Reversal of Fortune Það er mjög sjaldgæft að heyra af því að fólk vakni úr dái eftir fjöldamörg ár. Það er t.d. stórfrétt að kona vakni eftir sex ára svefn, en hún féll svo aftur í dá eftir nokkra daga. Fannst merkilegt að sjá fréttina um þetta, enda sá ég í gærkvöldi kvikmyndina Reversal of Fortune. Það er rosalega sterk og öflug mynd. Hún fjallar um eftirmála þess er greifynjan Sunny Von Bulow féll í dá árið 1980. Hún liggur enn í dái á sjúkrahúsi í New York, hefur sofið í tæpa þrjá áratugi, tja svefninum langa skulum við segja bara.

Enn er því haldið fram að eiginmaður hennar, Claus, hafi reynt að drepa Sunny en hann vann fræg réttarhöld, þar sem reynt var að negla hann. Deilt var um hvort að Sunny hefði reynt sjálfsvíg eða verið reynt að drepa hana. Hún var sprautuð með of stórum skammti af insúlini, en hún var sykursjúk. Enn er stóru spurningunni ósvarað hvers eðlis þetta allt var. Myndin varð mjög rómuð, sérstaklega fyrir flashback-atriðin þar sem sett eru bæði tilfellin á svið, hvort um morðtilraun eða sjálfsvígstilraun var að ræða. Virkilega vandað allt og myndin býður lesandanum fjölbreytt sjónarhorn á málið.

Það sem er einna merkilegast við myndina er hiklaust að Sunny, í gríðarlega góðri túlkun Glenn Close er sjálf sett sem sögumaður við upphaf og endi myndarinnar. Þar eru engir dómar felldir yfir því hvort sé rétt heldur málið allt sýnt og áhorfandinn dæmir sjálfur. Ég man þegar að ég sá myndina fyrst í bíó fyrir sextan árum, mikil upplifun. Keypti mér hana svo fyrir nokkrum árum og upplifði hana aftur. Sterk mynd í frásögn og túlkun aðalleikaranna. Jeremy Irons átti stórleik ferilsins í hlutverki hefðarmannsins Claus sem bæði er sýndur sem snobbaður aðalsmaður og kuldalegur eiginmaður, en það er vægt til orða tekið að sambúð þeirra var við frostmark þegar að Sunny féll í dáið. Irons hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Claus á sínum tíma, sem var mjög verðskuldað.

Ég gerði mér ferð áðan á Wikipedia til að sjá hver örlög Sunny hefðu orðið. Hún var í dái er myndin var gerð, áratug eftir að hún fannst meðvitundarlaus. Skv. alfræðivefnum yndislega er allt nákvæmlega óbreytt. Henni er enn haldið lifandi af börnum sínum, sem vilja ekki að Claus erfi hana, enda eru þau auðvitað enn gift, eins merkilegt og það hljómar eftir 27 ára dásvefn og það að hjónaband þeirra var komið rækilega á endastöð. Það var gaman að sjá myndina aftur. Leikurinn er hreinasta afbragð og myndin eldist vel. Þetta er merkilegt mál allavega.

En hvernig tilfinning ætli það sé að vakna jafnvel úr dái eftir áralangan dásvefn? Það hlýtur að vera athyglisvert, sérstaklega ef heimsmyndin manns er gjörbreytt. Mikil upplifun, en þetta er vissulega sjaldgæft. En í sjálfu sér athyglisvert að heyra af svona.

mbl.is Kona vaknar upp úr dái eftir sex ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notalegt morgunspjall hjá Gesti og Hrafnhildi

Það var mjög notalegt að fara til Gests Einars og Hrafnhildar í morgun á Rás 2 og rabba þar við þau um bloggheimana. Gaman að fá sér kaffi þar og fara í rólegheitunum yfir þessi mál með þeim. Þetta var gaman, enda fórum við yfir svo breitt svið, allt mögulegt og það var hlegið dátt og talað um allar áttir bloggheimanna; það sem er að gerast í umræðunni, pólitíkina og margt fleira. Þátturinn þeirra Gests Einars og Hrafnhildar er léttur og hress - það er því ekki hægt annað en njóta þess að mæta til þeirra og tala á mannlegu nótunum.

Það er vonandi að einhverjir hafi haft gaman af þessu. Naut þessa allavega mjög. Við Gestur Einar ræddum vel fyrir og eftir viðtalið og það var ánægjulegt að fá sér kaffibolla og tala vítt og breitt um þetta. Var einmitt að átta mig á því í miðju spjalli að ég á hálfs árs bloggafmæli hér í vikunni og það eru fimm ár á þessu ári frá því að ég byrjaði á þessu brasi. Fljótur að líða tíminn. Fannst mest gaman einmitt að tala við þau um léttu málin. Þau vildu mjög vita hvað ég skrifaði um þegar að ekkert er í fréttunum. Mikið hlegið þegar að ég sagði; veðrið á Akureyri. :)

Eftir viðtalið spilaði Gestur Einar lag með Óskari Péturssyni með texta eftir Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra. Gestur Einar veit vel að Davíð er og verður alla tíð uppáhaldsstjórnmálamaðurinn minn. Sennilega ekki verið nein tilviljun. Þetta er fallegt lag og Óskar gerir því frábær skil. Vona að Davíð muni eiga góða daga við að yrkja og skrifa bækur, helst ævisöguna, eftir bankastjóraferilinn.


Bloggspjallið við mig á Rás 2 - 14. mars 2007

Sverrir farinn - hvaða braut feta frjálslyndir í RVK?

Jón Magnússon og Magnús Þór Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem stofnaði Frjálslynda flokkinn fyrir áratug, mun nú hafa sagt sig úr honum, ef marka má fréttir. Það eru mikil tíðindi vissulega, en æ minni í ljósi þess að Margrét, dóttir hans, og stuðningsmenn hennar hafa sagt skilið við hann ennfremur. Klofningur frjálslyndra hefur verið mikið í fréttum undanfarnar vikur, en nú stefnir í hægri grænt framboð m.a. þeirra sem hafa farið frá frjálslyndum.

Jæja, nú hafa frjálslyndir svo kynnt lista sína í höfuðborginni. Þar eru þeir félagar Magnús Þór og Jón Magnússon í fararbroddi. Það hefur blasað við síðan í haust að Jóni væri ætlaður þar leiðtogasess og undarlegar hafa þær verið tilraunir forystumanna flokksins við að neita því að þar ætti að byggja undir Jón og vonir hans um að komast á þing. Það er greinilegt að þar átti alla tíð að láta hann leiða lista. Flestir vita væntanlega hvaða braut á að feta í þeirri pólitík, eða er það ekki annars? Tel svo vera, það hefur blasað við lengi hvert eigi þar að stefna.

Magnús Þór er kominn í framboð í Reykjavík. Það verður fróðlegt hvernig baráttan verði með hann þar. Þessir tveir menn hafa verið þekktir fyrir það undanfarnar vikur að tala óvenju hvasst í innflytjendamálum. Það verður fróðlegt að sjá hvaða dóm kjósendur í Reykjavík fella yfir þeim og þeirra stefnu. Skv. síðustu könnun Gallups eru þessir menn báðir inni, en sem jöfnunarmenn báðir. Þeir eru því ekki eins öruggir nú og var t.d. fyrir nokkrum vikum. Það er vonandi að hvorugur þeirra komist inn á þing, segi ég bara.

mbl.is Magnús Þór og Jón Magnússon í fyrstu sætunum í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunspjall með Gesti Einari og Hrafnhildi

Ég mun fá mér morgunkaffi með Gesti Einari og Hrafnhildi í fyrramálið á Rás 2 laust eftir hálfníu. Við ætlum að ræða í bítið um bloggmenninguna og ýmislegt skemmtilegt tengt blogginu. Verður eflaust mjög skemmtilegt spjall og áhugavert. Virkilega gott að fá boð um að spjalla í svona góðum þætti, en ég hlusta alltaf á þáttinn þeirra og finnst hann bestur af þeim sem eru snemma á morgnana.

Eiríkur verður rauðhærður í Helsinki í maí

Eiríkur Hauksson Flestum landsmönnum brá eilítið í brún við að sjá Eirík Hauksson dökkhærðan í tónlistarmyndbandinu við Valentine Lost, framlag Íslands í Eurovision, í gærkvöldi, enda er rauða hárið talið vörumerki hans. Eiríkur mun þó ætla sér að vera rauðhærður er hann stígur á svið í Helsinki í maí þegar að hann flytur lagið í keppninni.

Í viðtali hjá Gesti Einari og Hrafnhildi á Rás 2 í morgun sagði Eiríkur að mistök hefðu orðið við litun hársins við undirbúning upptöku myndbandsins og þetta væru því hrein mistök sem átt hefðu sér stað. Hann myndi því ekki verða dökkhærður í aðalkeppninni.

Sitt sýnist hverjum um lagið. Mörgum finnst það betra á íslensku en sumum enn betra á ensku. Persónulega líst mér vel á lagið og vona að þetta gangi vel úti. Eins og ég sagði hér í gær er markmiðið fyrst og fremst að komast úr forkeppninni. Allt annað er stór plús. Er ekki í vafa um að Eiríkur rauði verður okkur til sóma í Helsinki.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband