Held að það megi fullyrða með sanni að túlkun Hestons á Móse í Boðorðunum tíu, The Ten Commandments, árið 1956 hafi endanlega markað sögulegan stjörnusess hans. Þetta var síðasta myndin á litríkum leikstjórnar- og framleiðsluferli Cesil B. DeMille og hann tók nokkra áhættu, að margra mati, með því að velja Heston í hlutverk Móse. Myndin varð mjög vel heppnuð, ein af stóru myndum sjötta áratugarins. Hún er vissulega mjög löng, en það hefur aldrei truflað mig. Þetta er stór og mikil saga og eðlilega er hún í voldugum pakka. Hún hefur alltaf haft mikil áhrif á mig og er skylduáhorf fyrir alla kvikmyndaáhugamenn.
Á næstu árum voru Heston allir vegir færir og fékk sannkallaðar stjörnurullur. Hann var alveg yndislegur í kvikmyndinni The Big Country árið 1958, einni bestu vestramynd sjötta áratugarins. Svo innilega traust og vel gerð epísk sýn á vestrið mikla. Stefið í myndinni er fyrir löngu orðið goðsagnakennt og yndislega magnað og leikframmistöðurnar eru gulls ígildi. Gregory Peck var alltaf traustur leikari og glansar í þessari mynd auk hinna sykursætu Jean Simmons og Carroll Baker. Burl Ives hlaut óskarinn fyrir hina voldugu túlkun sína á harðjaxlinum Hannassey. Einstök og svo innilega heillandi sýn á vestrið sem allir verða að sjá.
Ekki var Heston síðri í hinni goðsagnakenndu stórmynd snillingsins Orsons Welles (eitt mesta séní kvikmyndasögunnar - Citizen Kane er jú ein tærasta snilld allra tíma), Touch of Evil, sama árið. Það er allt við þessa mynd algjörlega einstakt. Ein af síðustu stórmyndunum í noir-stílnum og vitnisburður um einstakt handbragð í kvikmyndagerð. Upphafsatriðið er auðvitað fyrir löngu orðið sögufrægt - handritið er svo innilega traust og kvikmyndatakan með því allra besta. Heston glansaði þar í hlutverki Vargas, sem dregst inn í atburðarásina í spilltu mexíkósku lögguumhverfi. Welles er algjörlega brilljant í hlutverki löggunnar.
Í kjölfarið fékk Heston hlutverkið sem markaði sögulega frægð hans og eftirminnilegustu stundirnar á hvíta tjaldinu. Flestir, bæði ungir sem aldnir, munu minnast hans sem Judah Ben-Hur í hinni litríku og yndislegu stórmynd par excellance, Ben-Hur, og hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir leik sinn og endanlega hinn sögulega sess. Myndin er auðvitað eftirminnileg og stórbrotin að öllu leyti - hið sögulega drama Williams Wyler hlaut ellefu óskarsverðlaun og goðumlíkan sess. Þar segir í allri þeirri dýrð sem kvikmyndaveldið í Hollywood hafði yfir að ráða á þeim tíma frá ævintýrum hins sterka og sannkristna Ben Hur.
Í miðpunktinum eru átök fornvinanna Ben Hur og Messala, eins og þeim er lýst í metsölubók Lew Wallace. Sögulegu stórmyndirnar gerast ekki betri og stærri. Hestvagnabardaginn einstaki sem stendur í rúmlega fimmtán mínútur er með eftirminnilegustu kvikmyndaatriðum allra tíma, það tók fimm mánuði að fullgera það atriði ramma fyrir ramma og er það enn þann dag í dag dýrasta einstaka atriði í kvikmyndasögunni að ég tel - aldrei toppað í mikilfengleika og tærri snilld. Heillaðist algjörlega af þessari mynd þegar að ég sá hana fyrst kornungur og sé hana reglulega, alltaf að upplifa eitthvað nýtt.
Það var aldrei í kortunum fyrir Heston að toppa hina sögulega túlkun í Ben-Hur og hann gat það ekki. En hann lék í mörgum eftirminnilegum myndum á næstu árum. Nægir þar að nefna frábæra túlkun hans á El Cid í samnefndri mynd, Michelangelo í The Agony and the Ecstasy og Gordon hershöfðingja í Khartoum. Hann náði öðrum sögulegum sess í sinni leiklist með túlkun sinni á Taylor í Apaplánetunni, Planet of the Apes, undir lok sjöunda áratugarins, og ávann sér sess hjá yngri kynslóðum. Lék svo í nokkrum framhaldsmyndum.
Biblíuleikarinn Heston náði nýjum sess í apamyndunum og gerði þær eiginlega mun stærri og eftirminnilegri en margt annað myndefni þess tíma. Finnst þær reyndar mjög misjafnar, toppar ekkert fyrstu myndina, en þær eru sannarlega snilld síns tíma og hafa staðist tímans tönn. Heston markaði sér meira að segja sess þar að auki í stórslysamyndunum, sem settu svo mikið mark á áttunda áratuginn, þar sem varla var gerð mynd án þess að allt væri í voða og allt að krassa. Var aðalsportið þá. Airport 1975 og Earthquake eru kannski ekki mestu snilldirnar hans en samt eitthvað svo flottar í hallærinu sínu.
Síðla ferilsins lék hann í fjölda mynda en toppaði aldrei fyrri afrek. Á tíunda áratugnum lék hann í nokkrum ágætismyndum og virkaði einhvern veginn á mann sem að hann væri enn í essinu sínu, hafði ekkert látið á sjá og var í toppformi. Nægir þar að nefna vestrann Tombstone, þar sem hann gerði Henry Hooker alveg yndislegan karakter. Heston glansaði við hlið tortímandans Arnolds Schwarzenegger, í True Lies, árið 1994 - pottþéttur sem Spencer. Það var gaman að sjá þessa miklu harðjaxla saman á hvíta tjaldinu. Hver dýrkar ekki þessa mynd?
Ekki má gleyma svo að auki túlkun hans á boltaspekingnum í hinni mögnuðu Any Given Sunday árið 1999 (flottur þar með Al Pacino) og hann endaði svo ferilinn sem Zaius í endurgerð Apaplánetunnar í upphafi nýrrar aldar. Það var táknrænt og flott hjá Tim Burton að fá goðsögnina Heston, sem gerði apamyndirnar að alvöru myndefni og traustri kvikmyndaupplifun, til að leika í myndinni og einhvern veginn rammaði þessi endapunktur inn allt. Heston kom síðast á óskarsverðlaunahátíð árið 2001 og þá heiðraði kynnirinn Steve Martin þennan mikla snilling sérstaklega.
Heston var eins og fyrr segir mjög umdeildur utan kvikmyndaheimsins. Hann hefur bæði verið demókrati og repúblikani, jafnan mjög pólitískur og því áberandi utan leikferilsins. Hann var ötull stuðningsmaður Johns F. Kennedys í forsetakosningunum 1960 og Bobbys, bróður hans, í kosningabaráttu sinni átta árum síðar, árið sem hann lést, en hann var sorglega nærri forsetaembættinu. Í kjölfarið gekk Heston í Repúblikanaflokkinn og studdi félaga sinn og vin í leikarastéttinni, Ronald Reagan (þeir voru báðir forsetar SAG-leikarasamtakanna) í forsetakjöri 1980 og svo síðar Bush-feðgana með ráðum og dáð.
Umdeildastur varð Charlton Heston þó hvorki fyrir að yfirgefa demókrataflokkinn né styðja Reagan og Bush-feðgana, heldur sem formaður bandarísku byssusamtakanna árin 1998-2003 og hlaut endurkjör, sem ég tel að engum hafi tekist áður. Þar kom mjög vel í ljós að Heston var hörkutól. Hann talaði fyrir mjög umdeildum málstað og náði einhvernveginn að gera það án þess að skaða sögulegan leikferil og halda goðsagnarkenndum sess sínum í Hollywood. Var einhvernveginn hafinn yfir öll átök um byssur.
Charlton Heston var þekktur fyrir gott úthald og góða heilsu langt fram eftir aldri. Hann var hreystið uppmálað á óskarsverðlaunahátíðinni 2001 þegar að Martin talaði svo fallega til hans og var hraustur að sjá. Á árinu 2002 greindist hann þó með Alzheimer-sjúkdóminn á upphafsstigi. Það tókst að halda sjúkdómnum niðri um skeið. Árið 2003 hætti hann þó sem forystumaður byssusamtakanna og dró sig algjörlega í hlé. Heilsu hans hrakaði mikið á árunum 2005 og 2006 og frá því ári var hann algjörlega rúmfastur og hvarf inn í móðu þessa skelfilega sjúkdóms.
Charlton Heston var goðsögn í lifanda lífi, stjarna á allra tíma mælikvarða. Hans verður minnst sem einnar helstu goðsagnar kvikmyndasögunnar, hörkutólsins mikla, hvort sem hugsað er til hetjusaganna miklu eða biblíumyndunum sem mörkuðu frægð hans og sögulegan stjörnusess. Hann þorði að standa og falla með pólitískum hugsjónum, var ekki allra en er virtur af öllum fyrir glæsilegan leikferil sinn og að vera einfaldlega goðumlíkur karakter.
6.4.2008 | 13:48
Charlton Heston látinn

Heston var fædd stjarna, hann átti auðvelt með að fanga augnablikið og taka túlkun sína alla leið, bæði vera hin milda týpa sem sýndi tilfinningar og eins baráttujaxlinn sem lét vaða. Hann var í senn líka þekktur fyrir sömu persónuleikasvipbrigði í einkalífinu og ávann sér virðingu fólks um allan heim með leiksigrum sínum á sjötta áratugnum. Heston var þrátt fyrir umdeildar pólitískar skoðanir líka virtur af fólki með ólíkar skoðanir og átti vini og samstarfsfélaga úr mjög ólíkum pólitískum áttum.
Heston vakti fyrst athygli í kvikmyndabransanum með túlkun sinni á Markúsi Antoníusi í Julius Caesar árið 1950, lítt eftirminnilegri mynd að mörgu leyti. En hann náði heimsfrægð í hlutverki sirkusmeistarans Brad Braden í hinni litríku stórmynd Cesil B. DeMille, The Greatest Show on Earth, árið 1952. Myndin hlaut óskarinn og er litrík úttekt á sirkuslífinu, sannkölluð skemmtun og rússibanareið og er vel á þriðja tíma að mig minnir. Þær voru varla gerðar styttri stóru myndirnar á þeim tíma og einhvernveginn er þessi mynd enn mjög risavaxin en vissulega látið eitthvað á sjá, en samt sem áður merkileg heimild um snilld hins mikla meistara Cesil DeMille.
![]() |
Charlton Heston látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 23.2.2009 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2008 | 01:17
MR sigrar Morfís - fór skólabaráttan of langt?

Það var sett á svið allt að því stríð á milli skólanna; forsetum nemendafélaganna var rænt og gert svo margt að það væri of langt mál að telja upp. Það var farið yfir þetta aðeins í innslagi í Kastljósið fyrir helgina. Það var reyndar sjúklega gaman að fylgjast með þessu en það væri gaman að vita hvort að þetta var meðvituð ákvörðun um að peppa keppnina upp og umfjöllun um hana eða bara hreinræktaður slagur milli skólanna og hið gamla góða keppnisskap. Fannst reyndar gaman af sumu en fannst þetta nánast komið út í vitleysu undir lokin.
Morfís er reyndar gömul og góð keppni og fastur liður í félagsstarfi beggja skólanna. Enda mikilvægt að eiga góð ræðulið og gera ræðumennsku að keppnisatriði, ekkert síður en gáfum og heilabrotum í spurningakeppnum. Báðum skólum tókst að peppa keppnina upp og auglýsa hana vel og innilega, með allt að því hreinræktaðri og skemmtilega uppdiktaðri baráttu þar sem skæruhernaður var yfirheitið.
Kannski er þetta heiðarlegur slagur og eðlilegur metnaður um sigur, en það er alveg ljóst að þarna eru vænlegir kandidatar í málflutningi og baráttu eins og sást í þessum slag, sem minnti mun meir á forkosningabaráttu demókrata vestan hafs en margt annað - skemmtilega yfirdrifinn. :)
![]() |
MR sigurvegari MORFÍS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2008 | 00:30
Kynferðisleg drottnun og fjölkvæni í Texas
Um fátt hefur verið rætt meira í bandarísku pressunni í dag en að 52 stúlkum, á aldrinum sex mánaða til sautján ára, hafi verið bjargað kynferðislegri drottnun og fjölkvæni hjá sértrúarsöfnuði á búgarði í Texas. Það þarf að uppræta svona ógeð og ómenningu og mikilvægt að þessum stelpum hafi verið bjargað frá þessu sértrúarliði.
Það hefur mikið verið fjallað um fjölkvæni í bókum og í leiknu efni - flestum er í fersku minni þættirnir Big Love sem sýndir hafa verið síðustu árin á Stöð 2. Þar var fjallað um mann sem átti þrjár eiginkonur og bjuggu þau öll undir sama þaki og áttu eitt heimili saman, þó vissulega hólfað af. Allur söguþráðurinn er utan um þetta fjölkvænislíferni. Það var kannski sykursæt útgáfa af fjölkvæni og kannski eitthvað Hollywood-serað frá raunveruleikanum, en virkaði samt sjúklega raunveruleg sýn á algjört ógeð.
Það sem gerist hjá þessum sértrúarsöfnuði, klofningssöfnuði frá mormónum, hefur staðið yfir áratugum saman, þykir sjálfsagt hjá þessu liði en þarf að uppræta. Misnotkun á svo ungum stelpum er stóralvarlegt mál. Þarna eru stelpur giftar ættingjum sínum, oft mun eldri mönnum, allt til að viðhalda þessu sýkta viðhorfi að ekkert sé heilagt og jafnvel megi gefa unglingsstelpur og fullorðna menn saman, fyrir einhverja trú á hinu ranga. Þetta er ógeðslegt og svo innilega rangt.
Fylgdist aðeins með umfjöllun á þessu á CNN í kvöld. Það er gott að það hafi tekist að bjarga þessum stelpum frá vondum örlögum og vonandi mun takast að uppræta þennan söfnuð og þá ómenningu sem felst í trúboði hans, sem felst í kynferðislegri drottnun og sjúklegu fjölkvæni - misnotkun á börnum.
![]() |
52 stúlkur fluttar af búgarði sértrúarsöfnuðar í Texas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 23:04
Paul Simon með tónleika á Íslandi í júlí

Verð hinsvegar að viðurkenna að ég hef alla tíð dýrkað þá tvo saman, Art Garfunkel og Paul Simon. Þegar að þeir sömdu tónlistina við hina yndislegu kvikmynd, The Graduate, árið 1967 komu með þeir eitthvað svo innilega ferskt og gott í bransann, tónlist sem hefur staðist tímans tönn. Þeir voru auðvitað frábær dúett og lögin þeirra algjör meistaraverk. Sérstaklega finnst mér The Sounds of Silence þar standa upp úr, en röddunin og takturinn í laginu er hrein snilld.
Mrs. Robinson er auðvitað tímamótasnilld sem aldrei klikkar, en mér finnst Scarborough Fair, ekki mikið síðra lag, eiginlega vinna meira á með árunum. Það er eitthvað við þetta lag sem er svo traust og magnað. Bridge Over Troubled Water er svo eitt af þessum ódauðlegu lögum sem aðeins verða betri með árunum.
Kannski maður skelli sér á tónleikana. Á í tónlistarsafninu tónleikana þeirra í Central Park, sem eru með þeim bestu fyrr og síðar. Alveg yndislegir. Þetta eru lög sem lifa og tónlistarmenn sem gerðu saman nokkur af bestu lögum allra tíma að mínu mati.
Sem minnir mig á eitt: það er orðið alltof langt síðan að ég hef séð The Graduate! Ein af þeim bestu fyrr og síðar.
![]() |
Paul Simon með tónleika á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 22:22
Aldarminning um Bette Davis

Enginn vafi leikur á því að túlkun Bette á leikkonunni Margo Channing í All About Eve er hennar besta á ferlinum. Myndin er auðvitað ein af mestu klassíkum kvikmyndasögunnar, skartar glæsilegum leikframmistöðum, skotheldri sögu og einu besta kvikmyndahandriti allra tíma. Svo innilega leiftrandi af mælsku, húmor og hnyttni - traust blanda af því allra besta frá gullaldarárum Hollywood og tekur leikhúslífið og gerir að því gys. Glamúrinn og glysinn verður þar allt öðruvísi en í öllum öðrum myndum.
Það er reyndar eiginlega eins og Bette sé að leika sjálfa sig í þessari mynd, enda að leika fertuga leikkonu sem hefur haft öll heimsins tækifæri en er allt í einu ekki lengur eins ung og geislandi og áður. Bette átti á þeim tímapunkti og hún nældi sér í hlutverk Margo orðið mjög erfitt með að fá hlutverk eftir einn glæstasta leikferil kvikmyndasögunnar. Bette hafði ung náð miklum frama og hlotið tvenn óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki á fjórða áratugnum, í Jezebel og Dangerous, og voru allir vegir færir. Þegar að kom að lokum fimmta áratugarins hafði hún einhvernveginn fest sig í að leika hina ungu leiftrandi konu krafts og orðmælgis.
Það verður reyndar seint sagt um Bette Davis að hún hafi verið allra, hún var rétt eins og margar kvenpersónurnar sem hún lék bæði sjálfstæð og mikill eldhugi sem fór eigin leiðir. Þó að hlutverk Margo Channing hafi verið hennar allra besta vann hún ekki óskarsverðlaunin fyrir rulluna. Verðlaunin fóru til Judy Holliday og náði hún að sigra báðar gullnu stjörnurnar í bransanum, Bette og gyðju þöglu myndanna, Gloriu Swanson, sem átti leiftrandi endurkomu með túlkun sinni á Normu Desmond í Sunset Boulevard.
Þegar að ég minnist Bette gnæfir túlkun hennar á Margo upp úr. Ekkert annað er eftirminnilegra, enda tel ég það eina bestu túlkun leikkonu á síðustu öld, svo innilega leiftrandi og traust tjáning. Auk þess kemur einna sterkust fram í hugann túlkun hennar á Julie í Jezebel, Mildred Rogers í Of Human Bondage, Joyce í Dangerous, Gabrielle Maple í The Petrified Forest, Judith í Dark Victory, Charlotte í The Old Maid, Leslie í The Letter, Maggie Cutler í The Man Who Came to Dinner, Charlotte Vale í Now Voyager, Söru í Watch on the Rhine, Fanny í Mr. Skeffington og Regínu í Little Foxes.
Tvær túlkanir hennar frá síðari hluta ferilsins eur þó sérstaklega eftirminnilegar. Í Whatever Happened to Baby Jane verða augun hennar sérstaklega eldfim, ógnvekjandi og svo innilega kröftug í hinni mögnuðu túlkun á Jane Hudson. Þvílík upplifun að sjá þá mynd og þær tvær stjörnur gullaldaráranna, Bette og Joan Crawford, ná nýjum hæðum. Síðasta stórrullan hennar Bette, túlkunin á Libby Strong í The Whales of August er svo innilega traust og heilsteypt og samleikur hennar með Lillian Gish, einni bestu leikkonu gullaldaráranna, var pottþéttur. Þær létust báðar skömmu síðar.
Má reyndar ekki gleyma túlkun Bette á hinni pjöttuðu og yfirdrifnu Marie í myndinni Death on the Nile, undir lok áttunda áratugarins, byggð á hinni frábæru sögu Agöthu Christie um einkaspæjarann Hercule Poirot. Þetta er besta mynd Ustinovs í hlutverki Poirot og myndin er mikið persónugallerí áhugaverðra karaktera - Bette Davis er einhvern veginn rúsínan í pylsuendanum sérstaklega í túlkun sinni.
Bette Davis var ein af hinum stóru stjörnu gullaldartímans í Hollywood. Það eru tveir áratugir frá því að hún dó en snilld hennar og leiftrandi túlkun mun aldrei gleymast. Þeim sem vilja upplifa þessa drottningu hvíta tjaldsins bendi ég sérstaklega á að horfa á All About Eve og Whatever Happened to Baby Jane. Svo sakar ekki að geta komist yfir The Whales of August, sem er hinn frábæri lokapunktur hins litríka leikferils.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 18:02
Dershowitz á Íslandi - saga af sekt eða sakleysi

Hinn frægi bandaríski lögfræðingur, Alan Dershowitz, kom til Íslands í vikunni. Dershowitz er einna þekktastur fyrir að hafa tekist að fá blökkumanninn O.J. Simpson sýknaðan fyrir morðið á fyrrum eiginkonu sinni og ástmanni hennar á miðjum tíunda áratugnum, í einu umtalaðasta sakamáli síðari tíma í Bandaríkjunum. Hann er þekktur þjóðfélagsrýnir og er einn besti málflytjandi vestan hafs, með sterk rök og einbeittur í tjáningu.
Dershowitz er ekki síður þekktur fyrir að verja greifann Claus Von Bulow í einu umdeildasta máli níunda áratugarins í Bandaríkjunum. Eiginkona hans, greifynjan Sunny Von Bulow, féll í dá árið 1980. Hún liggur enn í dái á sjúkrahúsi í New York, hefur sofið í tæpa þrjá áratugi, tja svefninum langa skulum við segja bara. Von Bulow var sakaður um að hafa reynt að drepa eiginkonuna, það hafi mistekist en hún hafi verið kálfóður á eftir. Sagan af þessu umdeilda sakamáli var rakin í hinni eftirminnilegu kvikmynd Reversal of Fortune, en Jeremy Irons hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á greifanum Claus. Það er rosalega sterk og öflug mynd, sem fer yfir málið með heilsteyptum hætti.
Fyrst og fremst fjallar myndin auðvitað um eftirmála þess að Sunny féll í dá. Enn er því haldið fram að Claus hafi reynt að drepa Sunny, en hann vann fræg réttarhöld, þar sem reynt var að negla hann, með stuðningi lagasnillingsins Dershowitz, sem leikinn er af Ron Silver í myndinni. Deilt var um hvort að Sunny hefði reynt sjálfsvíg eða verið reynt að drepa hana. Hún var sprautuð með of stórum skammti af insúlini, en hún var sykursjúk. Enn er stóru spurningunni ósvarað hvers eðlis þetta allt var.
Myndin varð mjög rómuð, sérstaklega fyrir flashback-atriðin þar sem sett eru bæði tilfellin á svið, hvort um morðtilraun eða sjálfsvígstilraun var að ræða. Virkilega vandað allt og myndin býður lesandanum fjölbreytt sjónarhorn á málið. Það sem er einna merkilegast við myndina er hiklaust að Sunny, í gríðarlega góðri túlkun Glenn Close er sjálf sett sem sögumaður við upphaf og endi myndarinnar. Þar eru engir dómar felldir yfir því hvort sé rétt heldur málið allt sýnt og áhorfandinn dæmir sjálfur.
Ég man þegar að ég sá myndina fyrst í bíó fyrir sextan árum, mikil upplifun. Keypti mér hana svo fyrir nokkrum árum og upplifði hana aftur. Sterk mynd í frásögn og túlkun aðalleikaranna. Jeremy Irons átti stórleik ferilsins í hlutverki hefðarmannsins Claus sem bæði er sýndur sem snobbaður aðalsmaður og kuldalegur eiginmaður, en það er vægt til orða tekið að sambúð þeirra var við frostmark þegar að Sunny féll í dáið.
Ég gerði mér ferð áðan á Wikipedia til að sjá hver örlög Sunny eru. Hún var í dái er myndin var gerð, áratug eftir að hún fannst meðvitundarlaus. Skv. alfræðivefnum yndislega er allt nákvæmlega óbreytt. Henni er enn haldið lifandi af börnum sínum, sem vilja ekki að Claus erfi hana, enda eru þau auðvitað enn gift, eins merkilegt og það hljómar eftir 28 ára dásvefn og það að hjónaband þeirra var komið rækilega á endastöð.
Sá myndina reyndar um páskana aftur, og mæli með henni. Það var gaman að sjá hana eftir nokkuð langan tíma. Leikurinn er hreinasta afbragð og myndin eldist vel. Þetta er merkilegt mál allavega. Þar er Dershowitz leikinn mjög vel og hann fær að njóta sín mjög vel í umfjölluninni.
Síðast sá ég reyndar Dershowitz í viðtali á CNN er hann var að verja Spitzer, fyrrum ríkisstjóra í New York, frá falli vegna vændishneykslisins. Hann var lærifaðir hans í lögfræði, og talaði máli hans með ósannfærandi rökum en mikilli fimni, sem hefur einkennt hann alla tíð.
Á morgun verður Dershowitz hjá Agli í Silfrinu. Hlakka til að sjá það viðtal. Hvet alla til að líta á Reversal of Fortune.
5.4.2008 | 14:01
Snilldin að kunna á réttu tímasetningarnar

Man t.d. vel eftir því hversu klók þau voru í Heimdalli í árdaga netsins að festa sér lénið frelsi.is. Táknrænt og gott lén fyrir fólk með pólitískar hugsjónir, enda var það mjög sterkur miðill ungliða í stjórnmálum sem berjast fyrir frelsishugsjónum. Síminn byrjaði með frelsisdæmið sitt í farsímum ekki svo löngu síðar og hefur árum saman boðið í lénið en aldrei fengið. Fleiri hafa gert það minnir mig. Heimdallur hefur haft lénið í sínum fórum og passa vel upp á það enn. Gætu samt fengið mikla peninga fyrir það vissulega.
Sama má segja um mörg lén. Þegar að netið fór af stað voru margir það gáfaðir að taka frá góð lén og þetta er aðeins einn þeirra og hann fær svo sannarlega ígildi margra flatbaka fyrir það að hafa keypt sér flatbökulénið forðum daga.
![]() |
Fékk 194 milljónir fyrir „pizza.com“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 01:47
'80s nostalgían - hallærislegt en eftirminnilegt

Það eru svo margir söngvarar frá þessum tíma sem lifa í fornri frægð, hafa gleymst með öllu og hafa hálfpartinn aldrei komist út úr þessum tíðaranda í útliti og töktum. Níundi áratugurinn er reyndar sérstaklega eftirminnilegur fyrir mína kynslóð. Það eitt að setja disk með lögum þessa tímabils í spilarann kallar fram svo margar ljúfar minningar og traustar - eiginlega afturhvarf til fortíðar í ljóma einhvers eftirminnilegs.
En vissulega er svo margt innilega púkó og lummulegt við þennan tíma. Það er alltaf, nægir þar að nefna tískuna, hárgreiðslu og tónlistarsköpun. En það sem er lummó getur orðið eftirminnilegt og það á við um þetta tímabil. Sumir beinlínis hata að hverfa aftur til baka og setja tónlist þessa tíma í spilarann, aðrir fíla nostalgíuna. Fann þetta einna best þegar að ég keypti safndisk fyrir nokkru, með sumpart lummulegum og sykursætum lögum, hallærislegum vissulega en kveikti allar heimsins minningar.
Það er alltaf svo að tónlist kallar fram minningar, fátt er betra nema þá ljósmyndir auðvitað. Það eiga allir minningar, góðar eða vondar um tónlist, kallar fram einhverjar hugsanir frá fyrri tíð. Hjá okkur sem munum níunda áratuginn á þetta mjög vel við. Hallærislegt og púkó þarf ekki að vera leiðinlegt, heldur mjög skemmtilegt. Þó að mér sé slétt sama hvað varð um Rick Astley var hann goð þeirra liðnu tíma sem margir vilja rifja upp og fíla í tætlur.
![]() |
Man einhver eftir Rick Astley? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.4.2008 | 01:19
Clinton-hjónin opinbera það allra heilagasta
Eftir margra vikna umræður um fjárhagsstöðu Clinton-hjónanna í hinni harðnandi forkosningabaráttu demókrata hefur Hillary Rodham Clinton nú svipt hulunni af persónulegustu upplýsingum þeirra frá því að þau yfirgáfu Hvíta húsið. Fáir, ef nokkrir stjórnmálamenn vestan hafs, hafa gefið jafn mikið upp um persónuleg atriði sín og um leið gert hreint fyrir sínum dyrum.
Það er fátt orðið heilagt í hinni hatrömmu baráttu Hillary og Barack Obama fyrir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember. Baráttan er fyrir löngu orðin ein sú kuldalegasta í bandarískri stjórnmálasögu, altént síðustu áratugina, þar sem öllum brögðum er beitt og hnútuköstin ganga á milli á hverjum einasta degi. Enda eru margir demókratar orðnir logandi hræddir um að flokkshag sé varpað fyrir róða hjá báðum frambjóðendum til þess eins að upphefja sjálfan sig til skýjanna. Fáir eru hlutlausir í þeim slag og flokkurinn logar stafnanna á milli.
Finnst fátt við þessar prívatupplýsingar Clinton-hjónanna koma að óvörum. Það vita það allir að Bill Clinton er einn eftirsóttasti ræðumaður Bandaríkjanna og ferðast heimshorna á milli til að flytja ræður sínar og er mikið borgað til að fá hann til að flytja boðskap sinn á alþjóðavettvangi, enda einn af litríkustu stjórnmálamönnum síðustu áratuga. Bækur hans og rit hafa selst vel og skrif hans verið í hávegum höfð. Fyrir bókaskrif og ræðumennsku hefur hann auðgast vel og það eru engin ný tíðindi fólgin í því að hann hafi það gott í þeim bransa.
Hillary Rodham Clinton hefur sjálf ritað pólitíska ævisögu sína, Living History, mjög áhugaverða og vel skrifaða bók sem var gefin út um allan heim og seldist t.d. vel hér á Íslandi. Enginn deilir um að þau eru vel stæð og þessar upplýsingar staðfesta það vissulega. Það hefur verið deilt um að þau skyldu ekki opinbera þessar upplýsingar fyrr. Nú hefur það gerst. Efast stórlega um að birting þessara gagna marki einhver vatnaskil í þessari baráttu. Hillary og Obama eru að berjast jafnri og hatrammri baráttu um hnossið mikla og virðist ekkert ráðið í þeirri baráttu í þessum mánuði.
Það hafði verið þrýst mjög á Hillary að gera þessar upplýsingar opinberar fyrir forkosningarnar í Pennsylvaníu þann 22. apríl nk. Flest bendir til að hún sigri þar og hún verður að sigra þar til að verða áfram sterkur frambjóðandi. Henni tókst með forkosningunum í Texas og Ohio að tryggja sér farseðil lengra. Ekkert bendir til að örlög ráðist í þessum harkalega forkosningaslag fyrr en eftir einhverjar vikur hið minnsta.
![]() |
Skattaupplýsingar Clinton-hjónanna gerðar opinberar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2008 | 00:27
Fjórir áratugir frá morðinu á Martin Luther King

Arfleifð þessa áhrifamikla blökkumannaleiðtoga, sem sameinaði blökkumenn í samhentan hóp í baráttunni fyrir mannréttindum og viðurkenningu á jöfnu hlutskipti í frjálsu samfélagi, er traust. Hann var málsvari allra blökkumanna, traustur málsvari sem færði hugsjónir í ógleymanlegar og heilsteyptar ræður, fullar af baráttuanda og draumsýn sem þá virtist svo sjálfsögð en samt þess eðlis að berjast varð fyrir henni. Draumurinn um jafna stöðu þeldökkra og hvíta var barátta sem verður alla tíð tengd predikaranum frá Atlanta, hinum sanna baráttumanni.
Alla tíð sem ég hef fylgst með stjórnmálum hef ég hlustað á ræðurnar hans Martins Luthers Kings. Það var harmleikur að hann skyldi ekki geta leitt sitt fólk alla leið í þá einu réttu átt sem hann vildi sjá verða að veruleika. Hann komst ekki alla leið en hann tryggði sínu fólki baráttuandann og boðskapinn til að leggja í þá vegferð. Draumurinn hans var svo innilega fallega orðaður í hinni ódauðlegu ræðu í Washington fyrir rúmum fjörutíu árum, einni eftirminnilegustu ræðu sem nokkru sinni hefur verið flutt - ræðu sem sameinar öll helstu leiðarstefin í baráttunni fyrir mannréttindum.
Ræðan sem hann flutti kvöldið áður en hann dó er líka eitt af þessum meistaraverkum ræðusnilldarinnar í pólitískri baráttu. Einlæg og sönn ræða og kaldhæðnisleg að því leyti að þar talaði blökkumannaleiðtoginn um baráttuna og gerði ekki ráð fyrir sjálfum sér í sigurstund framtíðarinnar, þar sem allir myndu verða jafnir og það skipti engu máli hvort fólk væri þeldökkt eður ei. Það hefur mikið verið rætt og ritað um dr. King síðan að hann dó, en mér finnst ræðurnar hans besti vitnisburðurinn um styrk hans og leiðsögn. Hann var eldhugi sem barðist fyrir hinu rétta.
Svo gæti farið að Barack Obama láti drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast á þessu minningarári hans, þegar að minnst er baráttunnar sem kostaði hann lífið og þeirri traustu leiðsögn sem einkenndi baráttuanda hans og styrkleika. Þetta gæti orðið sögulegt ár fyrir þeldökka. Varla hefði dr. King látið sér detta í hug þegar að hann talaði um draumsýn sína í Washington á sjöunda áratugnum að það gæti gerst í upphafi nýrrar aldar. Flestir áttu eflaust von á að sú barátta tæki lengri tíma að blökkumaður ætti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu.
Hvernig sem barátta anno 2008 um valdamesta embætti heims fer hefur draumur dr. Martins Luthers Kings í raun þegar ræst. Það er í raun þegar sannað með því að litaraft skiptir ekki lengur máli í forsetakjöri í fylkjum þar sem þeldökkir eru í minnihluta að hvítir kjósa blökkumann. Það er stóri sigurinn í baráttunni miklu sem dr. Martin Luther King lét lífið fyrir.
Allir hafa jöfn tækifæri til að láta að sér kveða og það sem meira er að með því er staðfest að blökkumaður getur orðið valdamesti maður heims. Það eitt og sér verður stærsti sigur blökkumanna frá því að King leiddi þá með táknrænni draumsýn sinni í leiftrandi ræðu.
--------
Bendi hérmeð á þessar klippur af sögulegustu ræðum dr. Kings - sú fyrri ræðan um drauminn mikla frá árinu 1963 - sú síðari er síðasta ræðan hans, hin táknrænu lokaorð hins mikla baráttumanns, kvöldið áður en hann var myrtur.
Það hefur svo margt fallegt verið ritað um baráttumanninn mikla frá Atlanta síðustu daga - frásögn blaðakonu af fundi sínum með ekkju blökkumannaleiðtogans að kvöldi dánardægurs hans er einna eftirminnilegust.
![]() |
40 ár frá morðinu á King |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2008 | 19:14
Enn mótmæla bílstjórar - ummæli ráðherrans
Þrátt fyrir það virðist vera að framundan sé önnur eins mótmælavika og þessi sem er að verða búin. Er einn þeirra sem hef velt fyrir mér hvort þessi mótmæli muni skila árangri, skil boðskap bílstjóranna og hef fulla samúð með þeim, en tel að langvinn mótmæli geti kannski skaðað málstaðinn. Tel þó að það velti allt á því hversu langvinn þau verða.
Ráðherrann var allavega maður dagsins með ummælum sínum. Eitthvað voru bílstjórar þó ósáttir bílstjórarnir með kaffifundinn hjá þessum mikla stuðningsmanni sínum þegar að rætt var um hvíldarálagið síðdegis. Kannski eru þau ummæli bara í orði en ekki í verki. Einhver hefði kallað þetta pópúlisma.
![]() |
Bílstjórar mótmæltu á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2008 | 14:31
Hver trúir á svona peningasvindl?
Varla líður sá mánuður, stundum enn skemmra jafnvel, að maður fái ekki einhvers konar svona skilaboð um peningasvindl í tölvupósti. Það hvarflar ekki að manni að taka mark á þessu rugli en vonandi eru aðrir orðnir meðvitaðir um að það er bara verið að hafa það að fífli.
Skilaboðin eru giska einföld; föllum ekki flöt fyrir peningasvindlinu.
![]() |
Ríkislögreglustjóri varar við svikapósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2008 | 10:55
Jeppamenn mótmæla gegn eldsneytisverðinu

Mér finnst skilaboðin sem atvinnubílstjórar senda með þessum mótmælum mjög sterk og afgerandi. Það er svo annað mál hvort að svo afgerandi mótmæli verði umdeild og jafnvel kalli á að málstaðurinn fái ekki samúð almennings. Það er greinilegt að margir sem eru á eftir bílstjórunum hafa ekki verið sáttir við þessi mótmæli vegna þess að það sjálft var í bið eftir að komast sinnar leiðar.
Mótmæli með einum eða öðrum hætti geta komið skilaboðum vissra hópa í samfélaginu á framfæri. Þess eru líka dæmi að mótmæli skaði málstaðinn. Þetta er mál sem flestir eru sammála um. Að undanförnu hafa bílstjórar náð miklum árangri og vakið athygli á sínum málstað - spurningin er þó hvort að síendurtekin mótmæli af þessu tagi verði til að styrkja atvinnubílstjóra og málstað þeirra.
![]() |
Jeppamenn fara hvergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2008 | 00:37
Mun álver við Bakka verða að veruleika 2015?
Ekki fer á milli mála eftir íbúafundinn á Húsavík í kvöld að afgerandi stuðningur er á svæðinu við að reisa álver við Bakka. Ánægjuleg tíðindi af fundinum, næstu skref Alcoa í stöðunni, gefur stuðningsmönnum álversins væntingar um að það verði að veruleika fyrir árið 2015.
Kannanir hafa sýnt að afgerandi stuðningur er á öllu Norðausturlandi við þetta verkefni. Allt frá því að samstaða myndaðist um að stefna að álveri fyrir austan Vaðlaheiði höfum við verið samhent í þessari baráttu. Ekki er hægt að sjá annað en að stjórnvöld séu hlynnt álveri, en fyrir nokkrum vikum sagðist t.d. Ingibjörg Sólrún jákvæð í garð þess í Mannamáli á Stöð 2.
Álver við Bakka er mjög mikilvæg framkvæmd fyrir íbúa í norðanverðum hluta þessa kjördæmis. Það skiptir máli fyrir Þingeyinga að þeir fái að nýta orku sína með þessum hætti. Ekki get ég séð betur en að samstaða þeirra sé mikil. Enda vill fólk þar ný tækifæri og mikla uppbyggingu.
Andstæðingar álversins hafa jafnan sagt pass þegar þeir tala um að eitthvað annað eigi að koma í staðinn og hafa engar lausnir. Það er alveg óþarfi að hlusta á það mikið lengur - þessi fjölmenni fundur eru skýr skilaboð um vilja almennings á svæðinu.
Fagna þessum góða fundi og niðurstöðu hans, sem er enn einn áfanginn í rétta leið fyrir Húsvíkinga.
![]() |
Undirbúningur álvers á Bakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.4.2008 | 22:03
Gott viðtal - Hannes spilar vel úr sínum spilum

Með þessu viðtali tel ég að Hannes Hólmsteinn hafi styrkt stöðu sína og talað um málið allt á nýjum forsendum. Tel að þetta sé snjall leikur í stöðunni fyrir Hannes, enda er alveg óþarfi að vera í meiri hnútuköstum vegna þessara mála í kjölfar bréfaskrifa Kristínar Ingólfsdóttur, háskólarektors, og hæstaréttardómsins fyrir nokkrum vikum. Það þarf að fá endalok á þetta mál og ummæli Hannesar eru liður í því ferli að hann fari út úr því með sóma.
Mér finnst Hannes spila þetta endatafl málsins af skynsemi og mikilli stillingu. Bætir stöðu sína mjög. Umfram allt vona ég að allir málsaðilar hafi lært á málinu - það virðist altént ljóst af ummælum Hannesar Hólmsteins og hinni sterku fjölmiðlaframmistöðu hans í Kastljósinu.
![]() |
„Ég hefði átt að vanda mig betur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.4.2008 | 19:06
Hannes Hólmsteinn ekki áminntur af rektor
Ljóst er af bréfaskrifum Kristínar Ingólfsdóttur, háskólarektors, að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni verður ekki vikið frá störfum í Háskóla Íslands eða áminntur eins og andstæðingar hans voru að vonast eftir. Bréfið er samt sem áður fullt af ábendingum sem Hannes verður að taka til sín í sínum verkum.
Mjög hefur verið rætt um um stöðu Hannesar Hólmsteins síðustu dagana. Það er greinilegt að þeir sem helst voru yfir höfuð á móti því að Hannes ritaði ævisögu Halldórs Kiljans Laxness vildu að hann yrði rekinn frá störfum í Háskólanum en varð ekki að ósk sinni í þeim efnum. Deilt hefur verið um að vinir Hannesar sýni honum stuðning, þó að líklegt væri að þeir sem mest hafa mótmælt myndu aldrei taka málstað hans eða verja.
Hannes Hólmsteinn hefur verið umdeildur í samfélaginu áratugum saman. Ekkert er nýtt við þau orðaskipti sem átt hafa sér stað í þessu máli eða öðrum hvað hann varðar. Hannesi varð á við gerð fyrsta bindis ævisögu Laxness, hefur sjálfur viðurkennt hvað fór aflaga í þeim efnum, hann mun vonandi læra af þeim mistökum fyrst og fremst.
![]() |
Átelur vinnubrögð Hannesar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.4.2008 | 14:00
Hitnar yfir samskiptum bílstjóra og lögreglu
Greinilegt er að það er tekið að hitna verulega yfir samskiptum lögreglu og atvinnubílstjóra vegna mótmælanna gegn of háu eldsneytisverði. Eftir að hafa gefið bílstjórum í nefið, svo eftir var tekið, er löggan farin að sekta bílstjóra og sendir um leið út þau skilaboð að brátt verði tekið af mun meiri hörku á þeim.
Heyri mjög að fólk veltir fyrir sér hversu langt þessi mótmæli munu eiginlega ganga áður en yfir lýkur. Farið er að beina mótmælunum af meiri þunga að þeim stofnunum stjórnvalda sem mestu skipta í þessum efnum, til að lækka álögur á eldsneytið. Ráðherrar hafa boðið í kaffi en bílstjórar vilja aðgerðir.
Man ekki eftir mótmælum af þessu tagi í mörg, þ.e.a.s. að almenningur rísi upp gegn stjórnvöldum vegna eins máls af þessu tagi þar sem kallað er eftir að ríkið lækki álögur sínar - einskonar uppreisn almennings gegn skattavaldinu. Hér á Akureyri hefur ekki verið mótmælt af meiri þunga áratugum saman, svo lengi sem ég man allavega.
Einn sem ég þekki líkti þessu reyndar við deilurnar um Laxárvirkjun á sínum tíma, þegar að þau náðu hingað eftir erjur fyrir austan Vaðlaheiði. Má vera, en það er langt um liðið frá þeim.
Greinilegt er þó að þessi mótmæli, sem hafa staðið í slétta viku, eru að verða umfangsmeiri og öflugri en áður, nú beint að stjórnvöldum af meiri þunga.
![]() |
Mikill hiti í bílstjórum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.4.2008 | 12:49
Bílstjórum meinaður aðgangur að ráðuneyti

Fannst eiginlega fyndnast í gær að sjá frægan umhverfismótmælanda tala gegn þessum mótmælum á grundvelli þess að þau væru svo asnaleg og ekki vel skipulögð. Það er ekki nema von að spurt sé hvort að mótmælin séu ekki nóg fín að hans mati eða hvort að eina ástæða þess að hann sé ekki hlynntur mótmælunum sé að hann lenti í biðröð vegna þeirra og þurfti að bíða eftir að komast heim til sín. Sennilega.
Kemur mest á óvart að mótmælendum sé bannaður aðgangur að ráðuneytinu. Skil ekki það fyrst að ráðherrann er veikur. En það skiptir litlu hvort að ráðherrann er staddur í ráðuneytinu eður ei. Þetta eru enn ein sterku skilaboðin frá bílstjórum og ljóst af mótmælum þeirra um allt land síðustu dagana að engan bilbug er að finna á þeim. Hér á Akureyri var mótmælt í gær og greinilega fleiri sem mótmæltu þá en á þriðjudag. Veit líka dæmi þess að almenningur hafi mótmælt með þeim.
![]() |
Mótmælt við fjármálaráðuneytið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.4.2008 | 02:06
Miss Gísladóttir goes to Washington

Það er ekkert nema gott um það að segja að Ingibjörg Sólrún vilji heimsækja kollega sinn í utanríkisráðuneytið í Washington. Enda þarf hún ekkert að skammast sín fyrir það. Condi er ekki aðeins valdamesta blökkukonan í bandarískri stjórnmálasögu, heldur aðeins önnur konan á stóli utanríkisráðherra í Bandaríkjunum. Hún er sérfræðingur í málefnum A-Evrópu, M-Austurlanda og Rússlands - talar rússnesku, frönsku, kínversku, spænsku og ítölsku reiprennandi. Var ráðgjafi George H. W. Bush í forsetatíð hans, 1989-1993, í málefnum Sovétríkjanna og Rússlands og var áberandi í þeim málaflokki sérstaklega við lok kalda stríðsins í upphafi tíunda áratugarins.
Samstarf hennar og forsetans hófst þó meðan hann var varaforseti 1981-1989 og Rice starfaði fyrir varnarmálaráðuneytið. Allt frá þeim tíma hefur samstarf Rice við Bush-fjölskylduna verið náið. Samvinna hennar og Bush eldri var reyndar svo náin að sá síðarnefndi kynnti Mikhail Gorbatsjov fyrir Rice á leiðtogafundi árið 1989 með orðunum: "This woman tells me everything I have to know about the Soviet Union". Hún varð aðalráðgjafi Bush yngri í utanríkismálum eftir að hann tilkynnti um forsetaframboð sitt árið 1999 og hefur frá sumrinu 1999 unnið sem lykilráðgjafi hans í málaflokknum.
Eftir að George W. Bush var kjörinn forseti í nóvember 2000 tilkynnti hann að Condi yrði þjóðaröryggisráðgjafi, fyrst kvenna. Hún hefur verið í lykilhlutverki alla tíð síðan í forsetatíð Bush og áberandi í fjölmiðlum og hefur síðustu þrjú árin verið forystumaður í utanríkismálapólitík Bandaríkjanna, topp diplómat landsins. Eins og flestir vita hefur Bush útnefnt tvo valdamestu blökkumenn í bandarískri pólitík; Powell og dr. Rice.
Það virðist á skrifum sumra um þessi tíðindi að þeir séu grautfúlir með að Ingibjörg Sólrún ráðfæri sig við bandarísk stjórnvöld um heimsmálin. Það er samt sem áður skynsamt og gott að hún fari til Bandaríkjanna og ræði við þá sem ráða för þar og svo víðar um heiminn. Því ekki?
![]() |
Ingibjörg Sólrún hittir Rice |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2008 | 01:13
Óánægja í Skaftahlíð vegna ráðningar Björns Inga?
Eðlilega er því velt fyrir sér hvers vegna Björn Ingi eigi að verða viðskiptaritstjóri hjá 365. Varla þarf annað en líta á stjórn 365 til að finna skýringuna. Eins og flestir vita er Pálmi Haraldsson þar mjög valdamikill. Einn nánasti samstarfsmaður hans er framsóknarmaðurinn Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, sem er þar varamaður í stjórn. Þessir menn vildu Steingrím Sævarr Ólafsson á sínum tíma sem fréttastjóra Stöðvar 2 og settu hann þar inn í stað Sigmundar Ernis. Nú setja þeir Björn Inga þarna inn. Þess má reyndar geta að Matthías var einn nánasti bandamaður Jakobs Hrafnssonar, bróður Björns Inga, sem formanns SUF.
Það kemur reyndar engum að óvörum að Björn Ingi leiti sér að öðru að gera eftir að stjórnmálaferlinum lauk, um stundarsakir allavega. Öllum er ljóst hvernig tenging Björns Inga er við Steingrím Sævarr Ólafsson, fréttastjóra Stöðvar 2, en báðir störfuðu þeir í forsætisráðuneytinu í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar og þarf varla að undra að hann verði settur yfir einhver mál á þeim bænum en hlutverk hans verður mun veigameira með vali hans sem viðskiptaritstjóra Fréttablaðsins og fróðlegt að vita hversu fljótt Þorsteinn Pálsson og Jón Kaldal samþykktu það.
Reynsla verður auðvitað að komast á Björn Inga í nýju hlutverki sínu, en hann hefur vissulega starfað við fjölmiðla og þá sem íþróttafréttamaður og þingfréttaritari Morgunblaðsins. Það er mjög merkilegt reyndar að svo skömmu eftir að Björn Ingi var einn valdamesti stjórnmálamaður borgarkerfisins og örlagavaldur í miklu pólitísku fjármálahneyksli eigi hann nú að fara að segja okkur óhlutdrægar fréttir væntanlega af REI og öllum hliðum mála frá Orkuveitunni og viðskiptatækifærum, t.d. í orkugeiranum.
Heyrði reyndar einn speking velta því fyrir sér í dag hvernig stæði á því að maður sem hafi numið sagnfræði við Háskóla Íslands og ekki lokið við það sé orðinn yfirmaður í viðskiptariti stærsta dagblaðs þjóðarinnar. En einhver virðist hafa trú á honum, altént er vel vitað að þetta er maður sem hefur haft mikinn áhuga á viðskiptamálum. Það verður spennandi að sjá hvernig honum gangi í nýju stjórnunarstarfi í Skaftahlíðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)