15.5.2007 | 01:41
Geir H. Haarde heilsaði ekki Árna Johnsen
Í kvöldfréttum voru sýndar myndir frá fyrsta fundi nýs þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar var mjög áberandi að sjá að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gekk framhjá Árna Johnsen, nýjum alþingismanni, og heilsaði honum ekki en gekk til næstu manna við hann og heilsaði þeim.
Þetta var mjög áberandi!
14.5.2007 | 21:04
Viðræður halda áfram - VG móðgar Framsókn
Það er ljóst eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í kvöld að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur fullt umboð þingflokksins til að ræða um myndun ríkisstjórnar eins og hann telur best henta. Viðræður halda áfram milli stjórnarflokkanna. Eins og fyrr segir í kvöld eru kjaftasögur um að Framsóknarflokknum hafi verið boðnir fjórir ráðherrastólar í endurmyndaðri ríkisstjórn.
Það má búast við að formenn stjórnarflokkanna haldi áfram viðræðum á morgun og fari yfir stöðuna. Ríkisstjórnin situr áfram, enda hélt hún velli og því ekki beinlínis nein hraðferð á stöðunni. Í kvöld sá ég viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í sjónvarpi. Þar tók hann auðvitað undir allt sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur sagt í þessum efnum. Stjórnin hélt velli og hún hefur fulla stjórn á atburðarás svo framarlega að vilji sé um að ræða um áframhaldandi samstarf.
Það var fróðlegt að sjá hæðnislega móðgun VG í garð Framsóknarflokksins í dag. Þar var Framsókn boðið upp á þann kostulega díl að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG vantrausti og vera þögull hornkarl til hliðar. Þetta eru flokkarnir sem æ ofan í æ hafa móðgað Framsóknarflokkinn og dengt yfir þá ósómanum. Síðast í kvöld sá ég grein eftir Össur Skarphéðinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, þar sem hann skrifar hæðnislega um Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformann Framsóknarflokksins. Það virðist ekki vera neitt nema skens á bakvið þetta blaður vinstriflokkanna.
Ég er reyndar enn að hugsa um hvort að VG hafi verið alvara með þessu boði. Þetta hlýtur að hafa verið grín. Þetta hlýtur að vera tilboð sem varla þarf að svara. Annars sýnist mér að Björn Ingi Hrafnsson hafi afgreitt þetta svokallaða tilboð pent og glæsilega á vef sínum. Þetta er auðvitað ekkert nema móðgun við Framsóknarflokkinn. Orð Höskuldar Þórhallssonar, alþingismanns, síðdegis um að hann vilji samstarf verður túlkað sem vilji hans og Valgerðar Sverrisdóttur um áframhaldandi samstarf. Ekki er ég hissa hafandi fengið svona skelfilegt tilboð um ekki neitt upp í hendurnar.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum. Meirihluti á Alþingi er í höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þjóðin kaus ekki ríkisstjórnina frá völdum. Það er mjög einfalt mál. Stjórnarflokkarnir eiga að taka sér góðan tíma til að velta fyrir sér næstu skrefum. Persónulega tel ég að það eigi að láta reyna á þetta samstarf, enda sé ekki farartálma framundan í þeim efnum. Það liggur ekkert á, einfalt mál það!
![]() |
Geir: Sérstök ákvörðun ef stjórnarsamstarfið heldur ekki áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2007 | 18:31
Þingflokkur fundar - Framsókn boðnir fjórir stólar?
Nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr nú á sínum fyrsta fundi í Alþingishúsinu. Á meðan ganga kjaftasögur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú þegar boðið Framsóknarflokknum fjóra ráðherrastóla í endurmyndaðri ríkisstjórn flokkanna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bar á móti þeim sögum í fréttaviðtali rétt í þessu. Engan veginn er ljóst enn hver staða viðræðnanna er en að mínu mati þarf að ræða vel stöðu mála í þessum valkosti áður en aðrir fara upp á borðið í ljósi þess að stjórnin hélt velli.
Það er eflaust merkileg stund í Alþingishúsinu núna á fyrsta þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar. Tíu nýjir alþingismenn eru að sitja þingflokksfund í fyrsta skipti. Það hefur orðið mikil uppstokkun og eðlilegt að Geir vilji fara yfir stöðu mála með þingmönnum flokksins. Þetta er fyrsti þingflokksfundurinn í þrjá áratugi þar sem að Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseti, situr ekki en hann var kjörinn þingmaður frá 1979 en lét af þingmennsku eins og flestir vita á laugardag.
Það verður fróðlegt að sjá hvort einhver niðurstaða komi af fundinum, þó eflaust sé þetta mun frekar formlegur fundur þar sem menn hittast, ræða stöðuna og bera saman bækur sínar. Eflaust sækist Geir þar eftir einhverju umboði til viðræðna. Staðan virðist mjög opin. Það er ljóst að þessi kjaftasaga um tilboð Sjálfstæðisflokks til Framsóknarflokks um fjóra stóla er ansi hávær og fróðlegt að vita hvort hún sé sönn. Beðið er eftir því hvað komi út úr viðræðum af þessu tagi en það er án vafa mikilvægt að kanna þennan valkost fyrstan allra, enda kaus þjóðin ekki stjórnina frá völdum.
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður, sagði í svæðisfréttum RÚVAK fyrir stundu þá skoðun sína að Framsóknarflokkurinn ætti að sækjast eftir setu í ríkisstjórn. Það virtist gilda hvort sem er til hægri eða vinstri. Skiptar skoðanir virðast vera innan Framsóknarflokksins með það hvað gera skuli. Eflaust eru háværari kröfur á landsbyggðinni um að flokkurinn fari í stjórn. Þar varð enda Framsóknarflokkurinn fyrir mun minna afhroði en á höfuðborgarsvæðinu, enda þurrkaðist Framsókn út í höfuðborginni.
Hér í Norðausturkjördæmi hlaut Framsóknarflokkurinn þrjá þingmenn kjörna af sjö á landsvísu. Í raun og veru er forysta flokksins hér orðinn valdamesti hluti þingflokksins og skoðun forystunnar hér skiptir máli í þessu efni. Skoðun Höskuldar ómar eflaust skoðun Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra og leiðtoga flokksins í kjördæminu.
Valgerður þarf að segja sitt mat þykir mér. Valgerður er að mínu mati enda orðin sá forystumaður Framsóknarflokksins sem mest mark er tekið á í ljósi ráðandi leiðtogastöðu innan þingflokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2007 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2007 | 15:33
Jón Sigurðsson og Ómar Ragnarsson syngja um 2012

Þetta hófst með því að Jón talaði um að Ómar hefði sagt hvernig textinn varð til. Allt í einu byrjuðu þeir að syngja lagið saman. Fannst þetta mjög skondið augnablik en þarna braust eiginlega út létti karakterinn í Jóni, sem því miður hefur lítið sem ekkert sést af síðustu mánuði. Kannski var það stóri feill Framsóknar að hafa ekki sýnt léttari hliðar á Jóni í þessari kosningabaráttu.
Það er víst óhætt að segja að Ómar Ragnarsson hafi lífgað upp á þessar leiðtogaumræður í gegnum kosningabaráttuna og það hvernig honum tókst að fá Jón Sigurðsson til að syngja með sér um árið 2012 var ansi magnað móment. Reyndar hefur mér alltaf fundist þetta gott lag.
Texti Ómars við lagið er auðvitað hrein snilld. Sumt í framtíðarsýn Ómars til ársins 2012 séð frá 1969 hefur ræst, sumt er auðvitað fjarri lagi. En lagið lifir góðu lífi.
14.5.2007 | 14:56
Ragnheiður hættir sem bæjarstjóri í Mosó

Eins og kom fram hér á vef mínum í gærkvöldi tel ég Ragnheiði mjög góða viðbót við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Það er mjög mikið gleðiefni að sjá glæsilegan kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þar bætir Sjálfstæðisflokkurinn við því þingsæti sem bættist við í kjördæminu. Í stað fjögurra kjördæmasæta í kosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm og náði jöfnunarsætinu auk þess. Það er reyndar skondið að Ragnheiður Ríkharðsdóttir er eini jöfnunarþingmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum.
Ég fer ekki leynt með það að innkoma Ragnheiðar sé gleðileg fyrir flokkinn. Hún markar sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og það að átta konur sitja á þingi í nafni Sjálfstæðisflokksins. Enginn flokkur hefur fleiri konur á þingi eftir þessar þingkosningar. Reyndar er það þó áfall að konum fækkar milli kosninga, rétt eins og gerðist reyndar vorið 2003.
14.5.2007 | 13:09
Mun stjórnarsamstarfið sitja áfram við völd?
Mér finnst líkur hafa aukist ansi mikið á því að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði haldið áfram. Það er alveg hægt að halda áfram ef viljinn er fyrir hendi. Þingmannatala stjórnarinnar er tala á blaði, lág tala miðað við aðstæður þó. Það sem skiptir mestu máli er vilji og áhugi til verkanna, samstillt átak um að gera vel. Sé það fyrir hendi er allt hægt í raun og veru.
Það er skiljanlegt að framsóknarmenn séu hugsi eftir svo vonda stöðu. Þetta er þeim mikið pólitískt áfall, sem þeir verða að vinna úr. Hinsvegar er greinilegt að Framsóknarflokkurinn var að bæta við sig síðustu dagana og kannski hefðu þeir getað snúið stöðunni betur við hefðu þeir haft lengri tíma. Erfitt um að segja. Því fæst ekki svarað. Ég tel að Jóni Sigurðssyni hafi tekist að efla flokkinn umfram allt inn á við en mistekist það frekar út á við. Minnir hann mig svolítið á Michael Howard, fyrrum leiðtoga breska Íhaldsflokksins, í þeim efnum.
Ég er þó sammála Guðna Ágústssyni um að kjósendur hafi ekki verið að senda Framsókn reisupassann. Þeir voru hinsvegar að senda þeim skilaboð um að taka til í sínum ranni, vinna betur saman og gera upp fortíðina. Þetta var innanflokksuppgjör sem fékk þennan vonda dóm. Umfram allt tel ég þetta hafa verið uppgjör við Halldórsarminn sem fékk mikinn skell í ljósi sérstaklega úrslitanna í Reykjavík. Framsóknarmenn verða að gera upp þau úrslit og það finnst mér kristallast mjög vel í tali Guðna Ágústssonar sem greinir að mínu mati innstu rót þess helsta vanda sem Framsókn átti við að stríða í þessum kosningum.
Það er alveg ljóst að eigi ríkisstjórnin að geta haldið áfram verða hlutföll að breytast innan hennar. Helmingaskipti eru ekki viðeigandi haldi hún áfram. Kosningarnar fóru með þeim hætti að uppstokkun verður að eiga sér stað á mannaskipan eigi að réttlæta tilvist hennar áfram. Eitt af því sem hefur heyrst er spurning um það hvernig að Framsóknarflokkurinn ætli að manna pósta sína með aðeins sjö þingsæti, verandi með sex ráðherrastóla. Það má ekki gleyma því að tveir ráðherrar urðu utan garðs í kosningunum, reyndar annar þeirra sem aldrei hefur verið kjörinn á Alþingi í sjálfu sér, sjálfur formaður Framsóknarflokksins.
Það hefur jafnvel verið talað um að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem verði ráðherrar víki af þingi og hleypi varamönnum að. Það myndi rýmkast verulega til í þeirri stöðu. En samt sem áður er lýðræðisleg krafa eigi að halda þessu samstarfi áfram að ráðherrastólum Sjálfstæðisflokksins fjölgi um einn til tvo hið minnsta. Það er mjög einfalt mál. Framsóknarflokkurinn þarf að meta sína stöðu. Það er skiljanlegt sé hann bensínlaus í stöðunni eða skorti vilja né kraft til að halda áfram í lykilráðuneytum og vilji frekar staldra við, kasta mæðinni og fara í að safna kjarki og krafti til að halda aftur upp í gönguferðir um óvissusvæði.
Staða mála er óviss. Nú sem fyrr er Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með tromp sín vel á hendi og staða hans er gríðarlega góð í ljósi þessa. Stjórnin hélt velli. Það er heiðarlegt og sjálfsagt eftir langt samstarf að flokkarnir staldri við og íhugi næstu skref og hvort grunnur sé enn til staðar. Bjarni Harðarson, alþingismaður, sagði reyndar í gær ýmsa hluti sem fengu mig til að hugsa um hvort að hann yrði jafnvel nýr Kristinn H. Gunnarsson innan sinna raða. Veit ekki hvort svo verður.
Það er alveg ljóst að eigi að halda þessu ferðalagi áfram þurfa allir um borð í bílnum að halda glaðir til verksins, annað er ávísun á vont ferðalag að mínu mati. En staðan ræðst von bráðar.
![]() |
Líklegast að stjórnin sitji áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2007 | 00:12
Er stjórnmálaferli Jónínu Bjartmarz lokið?

Jónína tók sæti á Alþingi 1. janúar 2000 þegar að Finnur Ingólfsson sagði af sér þingmennsku og ráðherraembætti, en Valgerður Sverrisdóttir tók við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu af Finni á sömu tímamótum. Jónína var lengi áberandi í nefndastarfi þingsins, lengst af sem varaformaður allsherjarnefndar og formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis. Jónína hlaut ekki ráðherrastól, mörgum að óvörum, í ráðherrauppstokkun vorið 2003 er Páll Pétursson hvarf úr félagsmálaráðuneytinu en þess í stað varð Árni Magnússon ráðherra, sem nýkjörinn þingmaður. Jónína varð loks ráðherra fyrir tæpu ári.
Það eru mikil tíðindi að Framsóknarflokkurinn hafi þurrkast út af þingi í Reykjavík. Ég man ekki hvað er langt síðan að Framsókn var þingmannslaus í Reykjavík síðast. Ef einhver veit það endilega komið með það, einhverra hluta vegna er ég ekki viss um það þó að allskonar tölur og pólitískar stúdíur séu í hausnum á mér oft á tíðum. Held að hann hafi verið þó með þingmann þar allavega samfellt síðan á sjöunda áratugnum. Man það þó ekki. Það er auðvitað rosalegt áfall fyrir flokkinn þar að ná ekki formanni Framsóknarflokksins inn sem öruggum þingmanni og fall Jónínu Bjartmarz er auðvitað táknrænt eftir allan ölduganginn á henni vegna sérstaklega þessa umdeilda máls.
Ég skrifaði hér fyrir nokkrum vikum er málið var sem mest í umræðu að kjósendur í Reykjavík suður myndu að lokum fella dóm yfir Jónínu og það yrði fróðlegt að sjá hver útkoma hennar yrði er hún færi fyrir kjósendur. Dómurinn varð giska skýr, þetta er þungur áfellisdómur yfir Jónínu og Framsóknarflokknum í Reykjavík yfir höfuð auðvitað. Þar tekur uppbyggingarstarf við. Þrír þingmenn féllu fyrir borð hjá flokknum. Þetta er auðvitað skelfileg staða fyrir flokk sem hefur vanist völdum og áhrifum nær samfellt í yfir þrjá áratugi og haft völd til að stjórna lykilmálum. Þetta er líka mikið áfall fyrir Björn Inga Hrafnsson, leiðtoga flokksins í borgarstjórn.
Framsóknarflokkurinn gengur í gegnum dimma dali þessa dagana. Skoðanakannanir voru dökkar og raunveruleikinn varð kuldalega líkur könnunum. Þetta eru þung örlög fyrir Framsóknarflokkinn. Í Reykjavík tekur uppbygging við. Stjórnmálaferli Jónínu Bjartmarz virðist lokið eftir sjö ára þingsetu og árs ráðherraferil. Hún hefur enga stöðu lengur í raun innan flokksins og er á útleið úr hringiðu stjórnmálanna.
Ráðherraferli Jónínu Bjartmarz lýkur með kuldalegum hætti og öllum ljóst að ekkert annað tekur við fyrir hana en að pakka niður á skrifstofunni í Skuggasundi og hugleiða næstu skref í öðrum veruleika en þeim pólitíska. Það verður fróðlegt að sjá hver næstu skref Jónínu Bjartmarz verða nú við þessi kuldalegu kaflaskil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2007 | 23:16
Varnarsigur Valgerðar í Norðausturkjördæmi

Það er mikill varnarsigur fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi að hafa náð að tryggja kjör Höskuldar Þórhallssonar á Alþingi. Höskuldur var að flestra mati við ársbyrjun í vonlausu sæti en ég man að ég skrifaði á þennan vef í janúar orðrétt: "Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti."
Það er öllum ljóst að það er glæsilegt fyrir Valgerði eftir allt sem á hefur gengið að hafa tekist að tryggja Höskuld inn á þing sem þriðja mann og tekist þrátt fyrir allt að verða annar þingmaður Norðausturkjördæmis og trompa bæði Kristján Möller og Steingrím J. Sigfússon. Valgerður er mikil seiglukona, dugleg og beitt. Þessi sigur er mjög persónulegt afrek fyrir hana að mínu mati við mjög erfiðar aðstæður. Hún virðist enn og aftur leiða flokkinn á vondum tímum og það er reyndar að mínu mati með hreinum ólíkindum að henni skyldi ekki frekar verða falið að leiða Framsóknarflokkinn í gegnum þessar kosningar en Jóni Sigurðssyni. Ég held að Framsókn hefði farnast betur með hana við stjórnvöl.
Fyrir nokkrum vikum eða jafnvel dögum hefði ég talið Samfylkinguna örugga um að verða næststærst í kjördæminu. Það að Framsókn hafi hlotið sess sem afl númer tvö með svo áberandi öruggum hætti og staða Valgerðar tryggð svo afgerandi eru stórtíðindi. Framsókn vann baráttuna hér með miklum krafti. Eva Ásrún, frænka mín, er auðvitað rosalega dugleg og ég held að það hafi verið rosalega vel valið hjá Valgerði og hennar fólki að velja hana til forystu. Svo bjuggu þau vel að góðri reynslu Höskuldar sem kosningastjóra í sigrinum mikla vorið 2003.
Mitt í sögulegum óförum Framsóknarflokksins er eina ljósið þeirra að hafa tekist að tryggja kjör Höskuldar hér og Valgerður hlýtur mikinn varnarsigur í kosningum sem flestir töldu að yrðu hennar verstu og myndu enda sem niðurlæging hennar. Það að þrír af sjö þingmönnum Framsóknar komi héðan eru stórtíðindi og sýna betur en margt annað hversu mikið akkeri kjördæmið er fyrir flokkinn og umfram allt hve staða Valgerðar Sverrisdóttur er sterk hér.
Margir töldu að fjarvera hennar sem utanríkisráðherra myndi koma niður á henni. Það varð ekki. Mér fannst reyndar með ólíkindum hversu öflug Valgerður var þrátt fyrir utanríkisráðherrastólinn og mikil ferðalög. Fannst hún alltaf vera hér og sama hvaða mannfögnuður eða atburður að alltaf var Valgerður þar viðstödd. Ótrúlega dugleg og öflug, enda uppsker hún eftir því. Hún er eini leiðtogi Framsóknar sem getur brosað í þessu sögulega afhroði sem flokkurinn varð fyrir í kosningunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.5.2007 | 21:02
Kjarnakonan í Mosó kemst á þing

Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega reyndar að halda meirihlutanum í kosningunum fyrir ári, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Þau skipti verða væntanlega fyrr en ella.
Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu. Það er glæsilegt að sjá góðan sigur Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í þessum kosningum. Þar náðust sex þingmenn inn.
Þetta er auðvitað frábær árangur sem ég óska góðum félögum í Kraganum innilega til hamingju með! En fyrst og fremst gleðst ég með það að Ragga Ríkharðs hafi náð inn og tel hana glæsilegan nýjan þingmann okkar. Fannst alla tíð sérlega mikilvægt að hún nái kjöri og fagna því að það tókst að tryggja kjör hennar.
![]() |
Ragnheiður: Spennandi kjörtímabil framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.5.2007 | 18:44
Tveir fyrrum formenn SUS kjörnir á Alþingi
Það eru tveir áratugir síðan að Ellert B. Schram átti sæti á Alþingi og þá fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ellert var fyrst kjörinn á þing í alþingiskosningunum 1971, eða fyrir 36 árum, og þá var hann fulltrúi ungliða innan Sjálfstæðisflokksins á framboðslista. Hann sat með hléum allt til ársins 1987. Ellert gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir kosningarnar 2003 og verið varaþingmaður í Reykjavík norður á síðasta kjörtímabili. Kaldhæðnislegt er að nú fer Ellert aftur á þing, orðinn 68 ára gamall, og klárlega fulltrúi eldri borgara.
Jón Magnússon hefur verið mjög umdeildur í stjórnmálum og vakið athygli á þessum vettvangi í áraraðir. Eins og flestir vita væntanlega er Jón Magnússon forveri Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á formannsstóli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þeir félagar þekkjast því vel þegar að þeir mætast á þingi eftir kosningar. Jón var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1983-1991. Eins og flestir vita var Jón um nokkuð skeið tengdasonur Jónasar Rafnar, fyrrum alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, og því svili Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins og fyrrum forsætisráðherra. Jón var á ferli sínum forðum daga bæði formaður Heimdallar (1975-1977) og SUS (1977-1981).
Jón hefur talsvert umdeildur verið í seinni tíð og flestir telja innkomu hans og félaganna úr Nýju afli, sem gárungarnir hafa nefnt Hvítt afl, hafa orðið upphaf klofnings Frjálslynda flokksins. Sverrisarmurinn sem leiddur er af Margréti Sverrisdóttur yfirgaf flokkinn með hvössum hætti. Það var athyglisvert að sjá Jón Magnússon, alþingismann, og Margréti Sverrisdóttur, borgarfulltrúa, takast á um málin í Silfri Egils í dag. Margréti mistókst aðrar kosningarnar í röð að ná kjöri á þing og Íslandshreyfingin náði engu flugi eins og skoðanakannanir hafa sýnt æ ofan í æ. Úrslitin hljóta að vera Margréti áfall.
Jón Magnússon og Ellert B. Schram eiga merka sögu að baki innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa fyrir margt löngu horft til annarra átta á vegferð sinni. Það er mjög athyglisvert að sjá þá báða hljóta kjör á þing í þessum sömu kosningum. Kaldhæðnislegt svo sannarlega. Og það verður fróðlegt að sjá til verka þeirra á þingi á næstu fjórum árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2007 | 16:44
Timburmenn Samfylkingarinnar

Það vakti athygli að Samfylkingin náði ekki inn Róbert Marshall, Láru Stefánsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni. Flokkurinn missir Mörð Árnason og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur af þingi. Hann græðir hinsvegar t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Ellert B. Schram, Árna Pál Árnason og Karl V. Matthíasson. Hér í Norðausturkjördæmi tapar Samfylkingin þrem prósentustigum. Lára var mun fjarri þingsæti nú en vorið 2003, þó að hún hafi auðvitað verið rosalega nærri því.
Framan af blasti við að Samfylkingin myndi gjalda mikið afhroð. Kannanir höfðu gefið flokknum aftur vonir og framan af nóttinni var bros á Samfylkingarmönnum. Þeir töldu góða tíð framundan. Sveiflan minnkaði eftir því sem meira var talið upp úr kössunum og það hljóta að vera vissir timburmenn yfir Samfylkingarfólki á þessum sunnudegi eftir kjördag.
Staða Samfylkingarinnar við stjórnarmyndun er óljós. Það væri ekki ósennilegt að hann liti nú til þess að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist með Samfylkinguna, hvort hann verði áfram í stjórnarandstöðu eða komist í stjórnarsamstarf.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Ríkisstjórnin of veik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 14:54
Kjósendur í Suðurkjördæmi strika út Árna Johnsen

Um leið er það skýr eftirmáli þeirrar umræðu sem varð í vetur vegna stöðu Árna Johnsen innan Sjálfstæðisflokksins eftir mjög vonda og óheppilega atburðarás þar sem hann sýndi enga iðrun á frægum afbrotum sínum. Það var verulega sorglegt allt saman, eflaust má kalla það mannlegan harmleik en það var fyrst og fremst skelfilegt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni. Það er mjög einfalt mál.
Sjálfur hafði ég mjög afgerandi skoðanir á því máli. Þær tjáði ég með afgerandi hætti bæði hér á þessum bloggvef og eins í viðtali við Stöð 2. Það var nauðsynlegt skref, enda gat ég ekki setið hjá þegjandi vegna þess máls. Þar kom ég fram sem sjálfstæðismaður með skoðanir, skoðanir sem urðu að verða opinberar. Ég sé ekki eftir neinu í því samhengi og það var ekkert hik eða hangs yfir mínu tali hvað þetta varðar.
Svona margar útstrikanir segja hug kjósenda Sjálfstæðisflokksins á þessu svæði til Árna og þessa umdeildu mála í fortíð hans og ekki síður orðum hans eftir prófkjörssigurinn í fyrra. Það var allt mjög óheppilegt. En það er auðvitað lýðræðislegur réttur kjósenda framboðslista að breyta honum telji þeir það mikilvægt. Stundum hefur það ekki verið áberandi sveifla en það sem virðist hafa gerst í Suðurkjördæmi er mjög afgerandi sveifla í þessa átt og það er mjög hávær skoðun sem birtist þar.
Það er mikilvægt að það kom fram með þessum hætti og persónulega tel ég þessar yfirstrikanir staðfesta endanlega hversu mjög umdeild pólitísk endurkoma Árna er og það að flokksmenn í kjördæminu hafi viljað tjá sig með afgerandi hætti. Þessi tíðindi eru allavega mjög athyglisverð og þau benda okkur á stöðu sem flestir höfðu reyndar séð áður en er nauðsynlegt að komi fram með svo skýrum hætti.
![]() |
30% kjósenda Sjálfstæðisflokks strikuðu Árna Johnsen út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2007 | 13:38
Geir H. Haarde með öll tromp á hendi sér
Það blasir við að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur öll tromp á hendi sér við stjórnarmyndun að loknum þingkosningunum í gær. Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsilegan sigur í kosningunum. Hann hlaut næststærsta þingflokkinn í sögu sinni og vann mjög sögulega sigra í öllum kjördæmum. Það hefur aldrei gerst fyrr að Sjálfstæðisflokkurinn sé með fyrsta þingmann allra kjördæma á sinni hendi.
Eftir sextán ára samfellda stjórnarsetu, lengst af forsæti í ríkisstjórn, er þetta óvenju glæsilegur sigur líka. Það er svo spurt hvað taki við. Það er Geir sem hefur úrslitavaldið núna. Stóru tíðindin eru þau að Geir þarf ekki að segja af sér. Ríkisstjórnin hélt þingmeirihluta sínum. Umboð til stjórnarmyndunar fór ekki úr höndum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og stjórnin situr enn meðan að stjórnarflokkarnir ræða sín á milli um framhaldið. Það er líka mjög athyglisvert að umboðið er ekki á Bessastöðum, það er í höndum Geirs sem hefur fjölda kosta í hendi sér.
Mér finnst rétt að það verði velt vel fyrir sér næstu kostum. Það er ekki rétt að ana að neinu í þessari stöðu. Geir á að hugleiða næstu kosti mjög vel í því ljósi að ríkisstjórnin hélt þingmeirihluta sínum. Það verður að hugleiða hvort þessi ríkisstjórn sé starfhæf eftir nýjustu tíðindi. Formaður Framsóknarflokksins lamaðist mjög pólitískt með því að ná ekki kjöri á Alþingi, verandi að óska eftir umboði þar til setu. Staða Framsóknarflokksins er mjög vond. Það blasir við öllum að það er ekki hægt að útiloka þó samstarf þessara flokka.
Það verður að sjá til hvað sé rétt og hvað sé rangt í stöðunni. Kostirnir eru upp á það að halda þessu samstarfi áfram eða leita eftir viðræðum við Samfylkinguna og Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það er fjarstæða að útiloka nokkurn kost og greinilegt að Geir ætlar að hugleiða stöðuna vel. Spilin eru á höndum Geirs H. Haarde eftir glæsilegan sigur Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur mörg tromp á hendi.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að forsætisráðherrann vinnur með þau ótvíræðu og sterku tromp sem hann hefur á hendi sér eftir þessar alþingiskosningar.
![]() |
Geir: Úrslitin kalla ekki á snöggar breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 11:20
Glæsilegur kosningasigur Sjálfstæðisflokksins
Það eru margir nýjir og glæsilegir þingmenn að koma inn í nafni Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór Júlíusson og Ólöf Nordal eru nýjir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, en hér vann flokkurinn glæsilegan kosningasigur. Þetta er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður ríkjum á Austfjarðasvæðinu, en Halldór Blöndal var fyrsti þingmaður gamla Norðurlandskjördæmis eystra 1999-2003.
Heilt yfir eru úrslitin góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann má vel við una og hlýtur að teljast með mjög vænlega stöðu við stjórnarmyndun. Einu vonbrigði okkar voru vissulega að Sigríður Ásthildur Andersen náði ekki kjöri í Reykjavík norður, en það er eins og það er. Annarsstaðar náðum við okkar lykilmarkmiðum og höldum með sterkan þingflokk til verkanna á komandi fjórum árum. Það hefur orðið mikil endurnýjun og svo sannarlega spennandi tímar framundan.
....og ekki má gleyma að þetta er í fyrsta skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn á fyrsta þingmann allra kjördæmanna í stjórnmálasögu landsins. Yndislegt alveg!
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins
Geir H. Haarde - Reykjavík suður
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
![]() |
24 nýir þingmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2007 | 10:23
Mun Jón Sigurðsson segja af sér formennsku?

Að flestra mati var stærsta spurningin fyrir Framsóknarflokkinn í vor sú hvort að Jón Sigurðsson yrði sterkur leiðtogi að kosningum loknum. Hann fór fram sem einhver sáttaframbjóðandi úr Halldórsarminum til formennsku og þótti fyrirfram séð blasa við að þessar kosningar gætu orðið honum erfiðar. Þetta sögulega áfall flokksins er mjög áberandi og hrunið í Reykjavík er auðvitað æpandi áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Tveir ráðherrar eru fyrir borð og það er auðvitað mjög áberandi staða sem varla verður sniðgengin.
Það hlýtur að vera svo að Framsóknarflokkurinn horfi inn á við eftir þessar kosningar og íhugi vel stöðu sína. Þessar kosningar voru skellur fyrir Framsóknarflokkinn sem hefur verið flokkur valda og áhrifa um áratugaskeið. Það að formaðurinn sé pólitískt landlaus með þessum hætti er Framsóknarflokknum áfall og umboð hans sem formanns hefur laskast gríðarlega með þessu fylgishruni í Reykjavík sem blasir við.
Staða Jóns Sigurðssonar er varla viðunandi. Framsóknarflokkurinn og stuðningsmenn hans vakna til nýrrar tilveru í dag. Kannski má líta víða á stöðu flokksins sem varnarsigur. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, vann mikinn varnarsigur í Norðausturkjördæmi með því að ná inn þriðja manni og verða 2. þingmaður Norðausturkjördæmis og staða flokksins í Norðvesturkjördæmi hlýtur að teljast ótrúlega góð miðað við allt svosem.
Á höfuðborgarsvæðinu er hrunið algjört og þar er flokkurinn algjörlega lamaður. Í Reykjavík er þessi forni flokkur valdanna gufaður upp af þingi. Vond staða að vakna við fyrir formann flokks í ríkisstjórn. Jón er ekki á þingi. Staða hans hlýtur að teljast pólitík skelfing og spurningar um framtíð hans eru óhjákvæmilegar eftir svona mikla martröð. Það er ekki undrunarefni að spurt sé hvort honum sé sætt eftir þetta afhroð.
![]() |
Björn Ingi Hrafnsson: Yngri kynslóðin mun fylkja sér bak við Jón Sigurðsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 09:36
Ríkisstjórnin heldur velli - sviptingar í kosningum

Framsókn missti þrjá þingmenn í Reykjavík og fékk engan þar kjörinn í fyrsta skipti í áratugi; missti Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra af þingi og Jón Sigurðsson, formaður flokksins, náði ekki kjöri. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, var eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en lengst af nætur var hún þó fallin af þingi. Þingmenn Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þórhallsson (sem komst inn eftir hörkuspennandi átök við Láru Stefánsdóttur), eru einu þingmenn flokksins undir fertugu.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 36,6% atkvæða, sem er 2,9 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Þetta fylgi tryggði flokknum þremur fleiri þingmenn en í kosningunum 2003. Samfylkingin hlaut 26,8% fylgi sem er 4,2 prósentum minna en í síðustu kosningum. Fékk flokkurinn þar af leiðandi tveimur mönnum færra en árið 2003. Vinstri grænir fengu 14,3% fylgi og níu þingmenn. Síðast fékk flokkurinn 8,8% og fimm þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk 11,7% atkvæða, sem er tap upp á sex prósent. Flokkurinn missir fimm menn. Frjálslyndir fengu fjóra menn eins og síðast og 7,2%, nær það sama og síðast. Íslandshreyfingin fékk aðeins 3,3%.
Miklar sviptingar voru í gegnum talninguna. Lokatölur komu fyrst á níunda tímanum og í Norðvesturkjördæmi, en vegna ýmissa vandræða tókst ekki að ljúka talningunni fyrr. Fyrstu tölur bentu til þess að stjórnarnandstaðan myndi ná þriggja þingmanna meirihluta en það forskot minnkaði niður í einn þingmann þegar líða tók á kvöldið og staðan varð gríðarlega tæp og þrisvar í gegnum nóttina snerist staðan stjórn eða stjórnarandstöðu í vil. En það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn bætti fylgi sitt mjög og telst sigurvegari kosninganna með VG. Framsókn er sá sem tapaði kosningunum klárlega.
En nú er spennunni lokið og ljóst hverjir ná inn. Reyndir stjórnmálamenn eins og Jón Magnússon og Ellert B. Schram, fyrrum formenn SUS, komust inn á þing fyrir nýja flokka sína. Sleggjunni að vestan, Kristni H. Gunnarssyni, tókst að ná endurkjöri þvert á allar skoðanakannanir, en hann kom hinsvegar inn á kostnað frjálslyndra í Kraganum og Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, féll í Reykjavík norður. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, náði á þing ásamt t.d. Ólöfu Nordal og Björk Guðjónsdóttur. Ég birti fulla nafnalista þingmanna hér á eftir.
Árni Johnsen hlaut mikið af útstrikunum í Suðurkjördæmi. Það var yfir fjórðungur atkvæðaseðla Sjálfstæðisflokksins í Suðrinu þar sem strikað hafði verið yfir nafn hans. Nær öruggt má telja að útstrikanir hafi verið svo margar að áhrif hafi á röðun framboðslistans, en það ræðst þó innan skamms. Jóhannes Jónsson í Bónus skoraði í auglýsingu á föstudag á kjósendur í Reykjavík suður að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Það blasir við að fimmtungur kjósenda flokksins þar hafi strikað yfir nafn Björns, en það hefur ekki áhrif á röðun listans þar þó.
Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn. Heldur ólíklegt verður að teljast að sama stjórn sitji áfram, eftir tólf ára sögufræga setu í áralengd. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þarf ekki að segja af sér eins og lengi stefndi í, en boltinn um hvað gerist hlýtur að vera hjá stjórnarflokkunum. Eflaust mun staðan ráðast fyrr en síðar með í hvað stefni, en óvissan er nokkur um framhaldið.
Kosninganóttin 2007 mun klárlega fara í sögubækur sem ein mest spennandi kosninganótt sögunnar. Mikil spenna og sviptingar gegnum nóttina og engin ládeyða í raun. Nú tekur við að tryggja landinu ríkisstjórn og hætt við að sviptingar verði ennfremur í stjórnarmyndun þar sem blasir við að ný ríkisstjórn muni koma til sögunnar eftir langt stöðugleikatímabil.
![]() |
Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 05:45
Ríkisstjórnin heldur velli - spennan minnkar

Þetta hefur verið alveg rosalega spennandi nótt. Ég hef upplifað kosninganótt frá 1987, að vaka til morguns yfir óljósri stöðu. Þetta minnir mig á þá kosninganótt með að ekkert er víst. Þá féll stjórn en svo virðist vera að stjórnin hafi haldið í gegnum nóttina eftir að hafa fallið nokkrum sinnum og ekki verið hugað líf. Staða Framsóknarflokksins hefur vakið mesta athygli en sögulegt afhroð flokksins er orðin staðreynd. Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra, tókst þó að ná kjöri á síðustu metrum en Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz virðast ekki munu ná kjöri á þing.
Samfylkingin hélt velli í kosningunum og það er greinilegt að þar er fjöldi nýrra þingmanna á leið inn. Láru Stefánsdóttur mistökst greinilega að ná kjöri í Norðaustrinu en Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri, virðist á leið á þing. Hjá Sjálfstæðisflokknum virðist Sigga Andersen vera komin á þing og sama gildir um Ragnheiði Elínu. Finnst það vond ef Ragga Ríkharðs nær ekki inn. Hjá frjálslyndum virðist Magnús Þór vera fallinn og það er mér persónulega mikið gleðiefni. Sigurjón Þórðarson er líka algjörlega búinn að vera og Sleggjan mikla fauk upp fyrir í Norðvestri. Jón Magnússon og Grétar Mar virðast vera á leið á þing. Hjá VG er t.d. Guðfríður Lilja ekki á leið á þing en hinsvegar Atli Gíslason, sem var lengi ljóst að yrði.
Það er ekki enn búið að telja og ekki fyrr en öll kjördæmi eru búin er hægt að lýsa því yfir formlega hverjir verði þingmenn árin 2007-2011. Það stefnir þó í breytingar. Stjórnin virðist halda. Það er þó hinsvegar afgerandi skoðun mín að þetta samstarf sé í raun úr sögunni og réttast væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að líta til samstarfs með Samfylkingunni. Það virðist vera val kjósenda ef marka má tölurnar. En enn er spurt að leikslokum með heildarstöðuna.
![]() |
Fréttaskýring: Bjargar Íslandshreyfingin stjórnarmeirihlutanum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 03:17
Stjórnin heldur aftur velli - gríðarlegar sviptingar
Það er mjög gleðilegt að sjá að hér í Norðaustri er þetta barátta um að ná Akureyringi á þing. Mjög spennandi. Ég held að Höski muni ná þessu sæti. Þetta er greinilega barátta hér og óvissa yfir. Samfylkingin er greinilega að tapa fylgi í Norðausturkjördæmi frá kosningunum 2003. Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið Norðaustrið. Punktur með það. Það er svo innilega glæsilegt að Stjáni verði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Hér á Hótel KEA hefur verið mikil gleði.
Staðan er þó enn óviss og óljóst hvernig fer. Þetta verður spenna út í gegn.
![]() |
Fréttaskýring: Samfylking kemur á óvart Framsókn í sögulegu lágmarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 02:11
Stjórnin aftur fallin - mikil óvissa yfir stöðunni
13.5.2007 | 01:17
Er Sjálfstæðisflokkurinn að bjarga stjórninni?
Hér á Hótel KEA er gríðarleg stemmning. Við gleðjumst öll sem eitt með góðan sigur í kjördæminu og fögnum þeirri stöðu sem sést. Hér var langt lófaklapp er Ragga Ríkharðs datt inn og stjórnin hélt. En það er auðvitað spurt að leikslokum.