Finnur vill kynslóðaskipti í forystu Framsóknar

Finnur Ingólfsson Finnur Ingólfsson, fyrrum ráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, tjáir þá skoðun sína í viðtali í Viðskiptablaðinu að kynslóðaskipta sé þörf í forystu flokksins. Þessi ummæli verða vart túlkuð öðruvísi en sem skot á Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, sem tók við flokknum eftir afhroðið í kosningunum fyrir mánuði og er Jón Sigurðsson, eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli, vék af stóli eftir að hafa misst hlutverk sitt í stjórnmálum.

Það er afar fátt sem bendir til þess að kynslóðaskipti verði á forystu Framsóknarflokksins á næstunni. Formaður flokksins er þingmaður til tveggja áratuga og þrautreyndur pólitíkus á valdatíma flokksins. Auk þess bendir allt til þess að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, verði kjörin varaformaður flokksins á miðstjórnarfundi á sunnudag, en velja þarf eftirmann Guðna Ágústssonar á þeim stóli í ljósi afsagnar Jóns Sigurðssonar. Valgerður hefur setið á þingi jafnlengi og flokksformaðurinn Guðni Ágústsson. Forystan verður því skipuð fólki sömu kynslóðar og Halldór Ásgrímsson.

Það vakti reyndar mikla athygli þegar að eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli var valinn á flokksþingi í ágúst 2006 að þar hlaut kjör maður sem var eldri en Halldór sjálfur. Jón Sigurðsson er enda meira en ári eldri en Halldór. Það var frægt eftir að Halldór hrökklaðist frá í júníbyrjun 2006 að Valgerður Sverrisdóttir sagði í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 að Guðni Ágústsosn kæmi ekki til greina sem formaður því að hann væri of gamall. Samt sem áður fór það svo að Jón, sem er þrem árum eldri en Guðni varð formaður, og Guðni varð svo sjálfkrafa eftirmaður hans, enda kjörinn varaformaður á flokksþinginu fyrir tæpu ári, rétt eins og áður. Það verður því vissulega skondið ef forystan verður samanfléttuð af Guðna og Valgerði.

Finnur lét þessar skoðanir ekki í ljósi fyrir ári er Jón Sigurðsson keppti um formennskuna við Siv Friðleifsdóttur. Þær hafa varla hentað þá, en eru vissulega sett í samhengi eftir afhroðið. Það er svosem varla furða að þær komi þó fram núna. Flokkurinn er valdalaus í landsstjórninni og afhroðið fyrir mánuði var þungt og gerði út af við stjórnmálaferil eftirmanns Halldórs Ásgrímssonar. Það má reyndar ekki gleyma að Finnur var tvívegis nefndur sem krónprins Halldórs. Fyrst á árunum 1995-1999 meðan að hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og síðar í fyrrasumar við afsögn Halldórs. Í fyrra skiptið endaði Finnur í Seðlabankanum og gafst upp á stjórnmálunum en í hið seinna vildi hann ekki heyja slag um formennskuna.

Það er greinilega að hefjast enn ein atburðarásin í Framsóknarflokknum. Formaðurinn er varla nýtekinn við en farið er að grafa undan honum og reyna að spinna vettvang þess að ný þáttaskil verði. Það er þó erfitt að sjá hvernig þau geta orðið að þessu sinni. Þingflokkur Framsóknarflokksins er mjög roskinn. Aðeins tveir þingmenn flokksins eru yngri en 45 ára og þeir sem þar eru fyrir hafa flestir verið lengi í stjórnmálum. Nýliðun er lítil. Formaðurinn hefur nýtekið við og nýr varaformaður virðist ætla að vera gamalreyndur jaxl frá Halldórsarminum.

Það er öllum ljóst sem fylgjast með stjórnmálum að Framsóknarflokkurinn er mjög lemstraður. Varla mun þetta viðtal og spuni Finns efla samstöðuna innan þessa elsta stjórnmálaflokks landsins, sem gengur í gegnum dimma dali þessar björtu sumarvikur.

Stjórnarformaður Íslands?

Jón Ásgeir Jóhannesson Það er ekki ósennilegt að Jón Ásgeir Jóhannesson muni hreppa titilinn stjórnarformaður Íslands eftir daginn í dag. Hann varð í dag stjórnarformaður í FL Group og tekur við formennskunni nú ennfremur í Baugi eftir að hafa látið af forstjórastöðunni. Þessi fræga nafngift varð til þegar að Halldór H. Jónsson var stjórnarformaður Eimskips og svo margra fyrirtækja að flestir misstu tölu á því.

Síðan hafa fjöldi manna verið með titilinn. Eftir að hin gamalkunna viðskiptablokk kennd við Kolkrabbann hvarf af sjónarsviðinu í því formi sem hún var þekktust fyrir hafa aðrir fyllt í skörðin og víst er að ekki eru eignir á fleiri höndum nú en var á þeim tíma, jafnvel enn færri aðila, ef eitthvað er. Staðan á markaðnum er ansi áberandi. Krosstengsl nokkurra aðila á víðum vettvangi er allavega ekki minna áberandi nú en fyrir einum áratug eða tveim.

Þrátt fyrir að margir hafi búist við uppstokkun innan Baugs með einum hætti eða öðrum koma tíðindi dagsins samt að óvörum á nákvæmlega þessum tímapunkti. Jón Ásgeir er að færa sig til með áberandi hætti en heldur control á sínu veldi með áberandi hætti með því að verða starfandi stjórnarformaður Baugs. Tilfærslan í FL Group vekur athygli á nákvæmlega sama degi.

En eitt er víst að titillinn stjórnarformaður Íslands er enn við lýði, þó viðskiptaheimurinn hérlendis hafi tekið margar sveiflur frá því að titillinn varð fyrst til.

mbl.is Jón Ásgeir hættir sem forstjóri Baugs Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir hættur sem forstjóri Baugs

Jón Ásgeir Jón Ásgeir Jóhannesson er hættur störfum sem forstjóri Baugs. Hann tekur þess í stað við stjórnarformennsku í fyrirtækinu af Hreini Loftssyni, sem tekur við ráðgjafastörfum þar í staðinn og verður nú aðeins óbreyttur í stjórn. Honum er því hliðrað til fyrir Jón Ásgeir í skipulagsbreytingum. Gunnar Sigurðsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, verður nú forstjóri Baugs.

Það er merkilegt að fylgjast með þessari uppstokkun hjá Baugi. Hún kemur áður en frægu dómsmáli kenndu við Baug lýkur formlega og áður en úrslit mála eru því endanlega ljós. Mesti hasarinn í því máli er fjarri því búinn, eftir úrskurð Hæstaréttar fyrir nokkrum dögum þar sem hluta málsins er aftur vísað heim í hérað.

Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála hjá Baugi á næstunni. Það er merkilegt að Jón Ásgeir færi sig til og athyglisvert að sjá hann taka sæti Hreins Loftssonar sem stjórnarformanns eftir allt sem á undan er gengið.

Líður að pólitískum lokum hjá Steingrími J?

Steingrímur J. Sigfússon Það eru ekki nema von að spurningar vakni um pólitíska framtíð Steingríms J. Sigfússonar eftir hinn mikla og áberandi afleik hans að loknum þingkosningum. Gremja hans sást vel í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir rúmri viku þar sem hann veittist harkalega að Samfylkingunni. Þar talaði súr og ósáttur leiðtogi sem var ósáttur við stöðuna og greinilega gat ekki með nokkru móti horft framhjá súrsætri tilverunni sinni.

Þrátt fyrir áratugi í pólitík klúðraði hann með mjög áberandi hætti stjórnarmyndunarmöguleikum flokks síns -  hann lagði líka í rúst möguleikana á vinstristjórn, stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðismönnum til mikillar gleði. Þann kaleik ber hann einn. Honum varð svo mikið um stöðuna sem skapaðist við stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að hann fór í sauðburð norður á Gunnarsstaði, kúplaði sig út og hugsaði sitt ráð.

Það er ekki furða að staða Steingríms J. sé í umfjöllun nú. Eftir 24 ár á þingi, þar af 21 ár í stjórnarandstöðu, er ekki furða að spurningar vakni um stöðu hans og framtíðarhlutverk í stjórnmálum. Það er ekki undrunarefni að orðrómur vakni um hvort hann muni leiða flokkinn í kosningum eftir fjögur ár. Fyrir nokkrum mánuðum stefndi í pólitíska stórsigra Steingríms J. og gullna tíma. Á skammri stund hefur staða hans veikst mjög áberandi.

Í pistli mínum þann 1. júní sl. skrifaði ég orðrétt: "Mér fannst líka áhugavert að hlusta á ræður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur. Ég tel að þetta séu framtíðarkonur í forystu flokksins og muni verða áberandi í stjórnmálum á komandi árum." og ennfremur: "Sú spurning hlýtur að vakna fyrr en síðar hvenær að forystuskipti verði hjá vinstri grænum eftir afleiki Steingríms J. upp á síðkastið."

Tel ég ekki undrunarefni að þessar spurningar og hugleiðingar vakni. Fari svo að Steingrímur J. hætti á tímabilinu yrði Björn Valur Gíslason þingmaður og Þuríður Backman yrði leiðtogi flokksins hér á svæðinu. Það yrðu tíðindi svo sannarlega og eiginlega er flokkurinn svo tengdur Steingrími að erfitt er um að spá hversu vel honum gangi án hans, sérstaklega hér, þar sem hann hefur dregið vagninn allt frá upphafi.

Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi Steingrímur J. verður í pólitík og hver framtíð VG sé á komandi árum, í stjórnarandstöðu. Eftir 24 ára pólitíska þátttöku og enn ein vonbrigðin er ekki furða heldur að hugsað sé um stöðu Steingríms J. Eftir um margt góðar kosningar fyrir hann, þó mjög súrsætar, stendur hann á áberandi krossgötum.

Sir Sean snýr ekki aftur úr eftirlaunakyrrðinni

Harrison Ford og Sir Sean Connery Það eru nokkur ár liðin frá því að eilífðartöffarinn Sir Sean Connery hætti kvikmyndaleik eftir glæsilegan leikferil. Það eru mikil vonbrigði að hann ætli ekki að snúa aftur á hvíta tjaldið í fjórðu myndinni um Indiana Jones, sem nú er í vinnslu. Bundu aðdáendur myndanna miklar vonir við að hann sneri aftur til að leika föður fornleifafræðingsins Indys, nú 18 árum eftir hina stórfenglegu Indiana Jones and the Last Crusade, þar sem Connery og Harrison Ford áttu magnaðan samleik. Svo verður greinilega ekki.

Flestir kvikmyndaunnendur hafa talað vel um þriðju myndina í kvikmyndabálknum. Stærsti hluti myndarinnar og hinn dramatískasti var byggður á stirðbusalegu sambandi föður og sonar en restin var hreinn eltingarleikur með hvern æsilegan og glæsilegan hápunktinn á fætur öðrum. Þetta var mögnuð blanda og innkoma Connerys var toppur myndarinnar. Þó að Connery nálgist áttrætt og hafði haldið sjálfskipaður í eftirlaunakyrrðina voru vonir bundnar við að hann yrði allavega hluti fjórðu myndarinnar. Það verður fróðlegt að sjá handritið og uppbyggingu myndarinnar við þessa ákvörðun.

Það eru auðvitað mikil tíðindi svosem að Harrison Ford ætli sér að leika Indy aftur. Það eru eins og fyrr segir átján ár frá þriðju myndinni. Ford hefur elst nokkuð á frekar skömmum tíma, er allavega ekki lengur sá ferski og hressi maður sem hann var í myndunum þremur. Það er visst hættuspil að gera fjórðu myndina og ég vona að það áhættuspil sanni sig að vera farsælt með þetta einvalalið í frontinum. Það er þó áfall fyrir þá að Connery ákveði að sitja til hliðar og standi við þá ákvörðun að vera sestur í helgan stein. Vonandi verður myndin góð.

mbl.is Connery verður ekki með í fjórðu myndinni um Indiana Jones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paris losnar úr hinu mjúka svartholi

Paris Hilton Það er oft hlægilegt að lesa fréttirnar af fræga og ríka fólkinu, sérstaklega vestan hafs. Það hafði varla fyrr verið búið að loka dyrunum að hinu mjúka svartholi fræga fólksins á ríkra manna deild á fésið á Paris Hilton er hún var opnuð aftur. Fannst spes að heyra fréttina af þessu í dag, enda ekki nema örfáir dagar síðan að hún hóf afplánun á 45 daga varðhaldi. Í stað þessa fær hún rafmagnsband, áþekkt því sem Martha Stewart hafði á sínum tíma.

Paris Hilton er sennilega frægust af þeim uppagellum sem hafa flaskað á frægðinni og runnið til á göngunni á rauðu rósum glamúrlífsins. Það voru tíðindi þegar að hún rann til á svellinu og fékk dóminn um að afplána refsingu sína. Hún valdi á milli einhverra fangelsa, en ekki var nú fallið meira en svo að hún var höfð á sérdeild sem hæfir fólki sem hefur ekki séð það verra en að dælda örlítið bílinn sinn, eða jafnvel geta ekki keypt sér flottustu flíkina í tískubúðinni.

Það er ekkert gefið upp af hverju hún fái að fara heim og afplána restina með rafmagnsbandið á sér. Það mun þó varla líða á löngu þar til eitthvað slúðurblaðið hefur greint frá því. Það var tekið sérstaklega fram að hún gæti ekkert partýast á næstunni vegna þess að hún væri undir eftirliti. Þetta eiga greinilega eftir að verða erfiðir tímar fyrir glamúrgelluna á næstunni.

mbl.is París Hilton laus úr prísundinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegt sumarfrí á Austfjörðum

AustfirðirÞað hefur verið virkilega notalegt síðustu dagana að dvelja austur á fjörðum. Veðrið hefur verið eins best og hægt verður á kosið, fyrir utan laugardaginn reyndar. En þessir dagar voru nýttir vel og farið um öll svæði, hitt vini og kunningja og notið rólegra daga. Sérstaklega fannst mér gaman að kúpla mig algjörlega frá tölvunni, ég tók fartölvuna mína einfaldlega ekki með en leit örsjaldan á ferðinni í tölvu hjá vinum og fór aðeins í póstinn og leit örlítið hér inn á vefinn, sem fór í frí, að mestu, rétt eins og ég.

Það sem mér fannst skemmtilegast í ferðinni var hiklaust að fara á þá staði sem ekki hefur verið gefinn nógu góður tími á síðustu árum. Ég þræddi hægt og rólega firðina milli Reyðarfjarðar og Hornafjarðar. Það voru orðin þrettán ár liðin frá því að ég færi til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Djúpavogs, meira en svo að spana í gegn á hraðferð. Þannig að nú var notaður vel tíminn í að fara á öll söfnin á svæðinu og rölta aðeins um staðina smástund. Það var virkilega áhugavert að líta á safnið í Löngubúð á Djúpavogi. Þar eru vegleg söfn til minningar um Ríkharð Jónsson og Eystein Jónsson, fyrrum ráðherra og pólitískan héraðshöfðingja fyrir austan.

Á Stöðvarfirði fór ég í fyrsta skipti í yfir áratug í Steinasafn Petru Sveinsdóttur. Það er einstök upplifun, að því er segja má, að fara í það safn. Þetta safn ber vitni þeirri hugsjón Petru að varðveita steina og hlúa að þeim. Garðurinn hennar og heimilið að Fjarðarbraut á Stöðvarfirði er svo sannarlega einstakt að öllu leyti. Þar er allt fullt af steinum úr öllum áttum og safnið er minnisvarði um ævistarf Petru, sem ber vitni krafti hennar. Þar er öllu raðað upp með nostursamlegum hætti. Það eru annars fá góð orð til að lýsa safninu. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Ég hvet alla þá sem fara þarna um að líta við. Petru nýtur ekki lengur við, en dóttir hennar var á safninu er ég átti leið um og var áhugavert að ræða við hana um þetta merkilega safn, sem er hlúð vel að af börnum Petru.

Það var gaman að fara í Sjóminjasafnið á Eskifirði. Þar var Diddi frændi minn safnvörður er ég leit við og það var því um margt að tala á safninu. Það var áhugavert að labba þar um og skoða fallega safngripi og kynnast merkilegri innsýn í söguna á Eskifirði. Það er ekki svo langt síðan að ég leit í Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði, svo að ég staldraði þar ekki við, en það er ennfremur mjög gott safn, svo og öll önnur þarna. Það er mjög áhugavert að fara þar um, og gefa sér tíma til að kynna sér það sem þar er. Heilt yfir var svo litið til fjölda ættingja, þá vantar mig ekki á svæðinu. Það fór drjúgur tími í þær heimsóknir og alltaf gaman að líta við og spjalla, oftast langt fram á kvöldin.

Sérstaklega fannst mér áhugavert á ferðinni austur að fara þó í Skriðuklaustur í Fljótsdal. Það er rúmur áratugur, merkilegt nokk, síðan að ég hef farið þar inn og svo sannarlega kominn tími til að bæta úr því. Þegar að ég fór þangað á mánudag var mjög rólegt og gott andrúmsloft yfir. Fékk ég mjög góða leiðsögn um safnið af starfsmanni sem þar var. Það er góður andi í Skriðuklaustri. Sýningin þar á verkum og ævi Gunnars Gunnarssonar er mjög skemmtilega sett upp og notalegt fyrir ferðamanninn að koma þar við og fræðast um húsið og skáldið sem reisti þennan hallargarð í sveitinni sinni. Þar var líka falleg myndlistasýning á verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur.

Það hefur eflaust verið merkileg tilfinning fyrir kotbændur í dalnum þegar að Gunnar Gunnarsson kom í dalinn og reisti sér þessa höll, sinn hallargarð í fögrum dal. Enn í dag, sjö áratugum síðar, er þetta höll og fallegast húsa á svæðinu. Svo mun lengi vera. Þegar að ég kom í Skriðuklaustur angaði þar yndisleg kleinulykt, enda verið að baka í kaffistofunni í kjallaranum. Það var veglegt kaffihlaðborð þar og ómögulegt annað en láta freistast af því góðmeti sem þar var. Þar var hlaðborð á gamla móðinn, yndislegt brauð og ekta heitt súkkulaði með. Þetta var yndisleg stund og við skemmtum okkur vel þarna.

Á sjómannadag var hið fínasta veður en hin vænsta gjóla. Þar var áhugavert að fara og taka þátt í þeim hátíðarhöldum sem þar voru. Það voru veglegri hátíðarhöld þar en hér í mínum heimabæ, þar sem glansinn er farinn af þeim, sem er okkur öllum hér til skammar. Það fór svo að ég fór í tvær messur á þessum sjómannadegi í Fjarðabyggð. Fyrir hádegið var messa í Eskifjarðarkirkju. Þar messaði sr. Davíð Baldursson, prófastur. Davíð og ég erum systrasynir. Hann hefur þjónað þar frá árinu 1977. Á Norðfirði eftir hádegið fór ég í messu, enda er Ágúst Ármann, frændi minn, þar organisti. Björg Þórhallsdóttir söng þar fallega - bróðir hennar, Höskuldur þingmaður, var þar staddur líka. Guðmundur Bjarnason, fyrrum bæjarstjóri, flutti þar öflugt og gott erindi um sjávarútveginn.

Ennfremur fór ég svo auðvitað í Borgarfjörð eystri og Seyðisfjörð. Það stóð til að fara upp að Kárahnjúkum, en það varð ekki af því í þessari ferð í Fljótsdalinn, einfaldlega vegna þess að það var ekki tími þann daginn. Það verður farið þangað síðar í sumar, þegar að maður fer styttri ferð, væntanlega yfir helgi. En það er mikilvægt að fara þangað. Það var sól og blíða þessa daga, eins og best verður á kosið. Það er alltaf gaman að fara austur, þar er mikið að sjá staldri maður við og njóti kyrrðarinnar og fari yfir möguleikana þar, skoði söfnin og menningarsetrin á svæðinu. Svo er auðvitað yndislegt bara að finna kyrrðina.

Á Hornafirði er alltaf gott að vera, virkilega notalegt að líta þangað. Það var fínasta veður er ég dvaldi þar yfir nótt. Þar fékk ég mér góðan göngutúr að kvöldlagi sem var hressandi mjög. Það er magnað að fara austur þessar vikurnar og hefur verið um langt skeið auðvitað. Krafturinn í framkvæmdum í Fjarðabyggð er enn mikill og gaman að sjá álverið vera orðið að veruleika. Þar verða til mörg tækifæri fyrir þetta samfélag, það sést vel á öllu sem þar hefur gerst undanfarin tvö til þrjú ár. Það eru spennandi tímar framundan.

Það er samt alltaf best að koma heim eftir langferð. Það var afskaplega notalegt að koma aftur heim í fjörðinn fagra síðdegis. Það er alltaf gott að fara í ferðalag, en samt er alltaf best að koma heim að því loknu. En þetta var yndisleg ferð og mjög notalegir dagar sem ég átti á ferðinni.


Launahækkun Davíðs Oddssonar til skammar

Davíð Oddsson Það var svolítið súrrealískt að heyra af kostulegri launahækkun seðlabankastjóranna í útvarpsfréttum. Heyrði fyrst þessar fréttir verandi staddur með veika útvarpsrás í gangi á þjóðveginum milli Hornafjarðar og Djúpavogs. Ætlaði varla að trúa þeim tölum sem þar voru kynntar. Mér finnst þessi launahækkun alveg gjörsamlega til skammar. Það er mjög einfalt mál í sjálfu sér.

Sýnu verst er hún augljóslega í tilfelli Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Þar er hækkunin gígantísk augljóslega. Erfitt annað en taka undir það. Seðlabankastjórinn er orðinn hærri í launum skv. þessari hækkun en sjálfur forseti Íslands. Strípuð eru launin orðin 1.400.000 krónur. Ég hef litið á netið eftir að ég kom heim en sé engar sannfærandi ástæður fyrir þessari hækkun. Þær eru fáar.

Mér finnst þetta sláandi hækkun, að mjög mörgu leyti. Það blasir við að þessar launahækkanir hafi áhrif í næstu kjarasamningum og þetta mun leiða til ólgu í samfélaginu, enda eru þessar hækkanir utan allra viðmiða og algjörlega út í hött miðað við allar lykilforsendur.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að forsendur þessara mála þróast í kjölfarið. En þessi hækkun er ekki vinsæl og mun varla verða það. Enda eru forsendur engar sem hald er í fyrir henni. Það er bara þannig.

mbl.is Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helgason orðinn Moggabloggari

Silfur Egils Það hefur gengið á ýmsu síðustu dagana á milli Egils Helgasonar og 365, eftir að Egill yfirgaf fjölmiðlaveldið. Vefnum hans á vísisvefnum var lokað með dramatískum hætti. Nú er Egill kominn í besta félagsskapinn af þeim öllum á Netinu; hingað á Moggabloggið. Það er mjög gott að fá hann í hinn fjölmenna hóp sem hér skrifum.

Ég var að koma heim til Akureyrar eftir vikuferð um Austurlandið. Þar spilaði tölva litla rullu. Ég fór ekki með fartölvuna í ferðina, ákvað að hvíla hana heima og hafa þetta notalegt og rólegt. Enda er lítið frí þar sem tölvan er á eftir manni daginn út og inn. Ég las þó blöðin eftir því sem þar var við komið. Fannst áhugavert að lesa um dramatíkina á milli Egils og 365. Er að sjá meira af þessum hasar nú þegar að heim er komið og farið er yfir bloggskrif og pælingar um þennan hasar. Skil ekki beint í 365 að ætla að reyna að binda Egil með fógetavaldi á sinn kláf. Það gengur aldrei upp. Ímyndarlega er þetta mál einn dísaster fyrir veldið.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst. Um daginn þegar að ég komst í tölvu hjá Ólöfu vinkonu minni austur á Egilsstöðum á laugardagskvöldið páraði ég aðeins um vistaskipti Egils. Líst vel á þau og enn betur á að hann sé kominn hingað í bloggsamfélagið. Hann er öflug viðbót í hópinn svo sannarlega.


mbl.is Egill Helgason byrjaður að blogga á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástu Lovísu minnst

Það eru nokkrir dagar liðnir frá andláti Ástu Lovísu Vilhjálmsdóttur. Það er mjög áhugavert að líta á vef hennar og lesa allar samúðarkveðjurnar sem ritaðar hafa verið í kjölfar andlátstilkynningarinnar á vef hennar. Þar sést mjög vel sá hugur sem lesendur báru til hennar. Hún öðlaðist sess í huga og hjarta lesandanna, sem sést vel af skrifunum nú eftir lát hennar. Ég hef verið í slitróttu tölvusambandi síðustu dagana, vegna ferðalags um Austfirðina. Nú í kvöld leit ég á öll skrifin og tók mér smátíma um það.

Það er mjög áhugavert að fara yfir þá hugulsemi sem lesendur vefsins sýna fjölskyldu Ástu Lovísu á þessum erfiðu tímamótum hjá þeim. Þar sést vel hversu mjög Ásta Lovísa snart þjóðina í hetjulegri baráttu sinni við meinið erfiða, sem að lokum felldi hana að velli. Samt lít ég á hana sem sigurvegara. Marga hef ég þekkt sem hafa fallið fyrir þessu kalda og erfiða meini. Samt eru það sigurvegarar í huganum. Það er enginn vafi á því að Ásta Lovísa var mikill sigurvegari þrátt fyrir þessi sorglegu örlög sem hún hlaut.

Barátta hennar er ógleymanleg og verður lengi í minnum höfð. Það sést vel af vefskrifunum á heimasíðu Ástu Lovísu. Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál.

Valgerður minnir Kristján á kosningaloforðin

Það er töggur í Valgerði Sverrisdóttur. Það var gaman að sjá hana í fréttatíma í kvöld minna Kristján L. Möller, samgönguráðherra, á þingi á hið mikla kosningaloforð sitt í vor um að gjaldfrjálst verði í Vaðlaheiðargöngin. Eitthvað er Kristján orðinn rólegri í tali um það eftir kosningarnar og að hann tók sæti Sturlu Böðvarssonar í ríkisstjórn. Það loforð er mjög gleymt. Það er gott að á það sé minnt mjög vel. Valgerður ætlar sér greinilega að taka það hlutskipti að sér og finnst það greinilega ekki beint leiðinlegt.

Það er mikilvægt að Vaðlaheiðargöng fari á dagskrá fljótt og vel. Rétt eins og Kristján L. Möller lofaði okkur hér í kjördæminu á mjög oft og vel í vor. Það er honum ekki til sóma eigi að svíkja þau gullnu loforð strax kortéri eftir kosningar að setja göngin í ferli fljótt og vel. Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál.


Skynsamleg ákvörðun Egils um vistaskipti

Mér líst mjög vel á þá ákvörðun Egils Helgasonar að færa sig um set. Tilfærsla hans er rétt skref. Það eru mörg tækifæri fyrir Egil fólgin í vistaskiptum. Það hefur lengi verið mitt mat að Egill sé fremsti stjórnmálaskýrandi landsins og það sannaðist vel, tel ég, í kosningabaráttunni í vor. Það er mikið áfall fyrir Stöð 2 að missa hann og þar gengisfellur stjórnmálaumfjöllun stöðvarinnar verulega.

Hlakka til að sjá Silfur Egils hjá RÚV næsta vetur og ennfremur bókmenntaþáttinn sem virðist vera með í dæminu hjá Agli. Það vantar alvöru bókaumfjöllun í innlent sjónvarp og úr því þarf að bæta. Bókaumfjöllun Egils í Silfrinu hefur verið mjög fín, þó hliðararmur pólitíska spjallsins hafi verið vissulega í þættinum. En það verður vonandi spennandi sjónvarpsvetur hjá RÚV nú og fróðlegt að sjá Silfur Egils á nýjum vettvangi í vetur.


mbl.is Egill: Aðstaðan á RÚV betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða Kristjáns Þórs - áhyggjur Björns Inga

Það er ánægjulegt að sjá að Björn Ingi Hrafnsson hefur áhyggjur af pólitískri stöðu Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það er þó óþarfi tel ég. Skilaboðin til hans frá forystu flokksins eru þó með þeim hætti í ráðherra- og nefndakapal flokksins, og ennfremur til Guðfinnu S. Bjarnadóttur, að ekki verður þú ráðherra eða nefndaformaður á fyrsta tímabili.

Kristján Þór fær mörg tækifæri sem varaformaður fjárlaganefndar. Þau verður hann að nýta og marka sér ný sóknarfæri. Auðvitað eru mikil vonbrigði hann varð ekki ráðherra. En hann verður greinilega að byggja sig upp á landsmálavettvangi. Það eru skilaboðin. Kristján Þór er keppnismaður, hefur alltaf sýnt það og sannað. Hann eflist til verkanna á nýjum vettvangi.

mbl.is Illugi varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptist á skin og skúrir fyrir austan

Það er óhætt að segja að það skiptist á skin og skúrir í Austfjarðarferðinni. Í gær var yndisleg blíða á leiðinni austur og það var eiginlega Mallorca-blíða þegar að austur kom. Fór svo niður á firði í gærkvöldi og þar var þykk þoka, ekta Austfjarðaþoka. Hef ekki séð hana svæsnari í áraraðir, en hún er þó ekta austfirsk. Þegar að ég fór til Eskifjarðar í gærkvöldi var hún sérstaklega þykk. Það var merkilegt að fara aftur til baka upp á Egilsstaði í gærkvöldi í gegnum þokuna.

Í dag er ekta rigning bara upp á breskan móð. Ekkert svosem að því. Vona þó að betri verði tíðin næstu dagana. Það stefnir flest í að ég verði hér fram á föstudaginn. Stefnir flest í það. Í gærkvöldi fékk ég vinafólk í heimsókn í bústaðinn og við grilluðum góðan mat og spjölluðum vel áður en haldið var niður á firði. Í dag er fínn túr tekinn um svæðið. Stefni á að fara til Hornafjarðar á mánudaginn. Afi minn er jarðaður á Hornafirði og þangað verð ég að leggja leið mína. Margt planað og pælt allavega þessa kyrrlátu daga.

Það er alltaf gaman að fara austur... svo sannarlega.

Skelfilegt umferðarslys á Suðurlandsvegi

Það er sorglegt að heyra fréttir af líðan unga parsins og barnsins þeirra eftir hið skelfilega umferðarslys á Suðurlandsvegi í gær - mann setur alveg hljóðan. Enn eitt skelfilega bílslysið, sem vekur okkur öll vonandi til umhugsunar um stöðu mála. 55 hafa nú látið lífið í umferðinni á Suðurlandsvegi frá árinu 1972 og yfir 1200 hafa slasast þar frá árinu 1990. Öllum er ljóst að tvöfalda verður þessa miklu hraðbraut.

Það er svo sannarlega mikilvægt að bæta úr samgöngum á þessari miklu hraðbraut. Þessi slys öll segja sína sögu vel.

mbl.is Alvarlega slösuð á gjörgæsludeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar ræður hjá nýjum alþingismönnum í kvöld

Ólöf Nordal Í dag tóku 24 nýir þingmenn sæti á Alþingi, þar af hafa 17 þeirra aldrei fyrr verið þar aðalmenn. Í kvöld tóku nokkrir nýjir þingmenn til máls í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Sérstaklega hlakkaði mér til að sjá jómfrúarræðu vinkonu minnar, Ólafar Nordal, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Hún flutti flotta ræðu og var mjög glæsileg í ræðustól. Það er alveg ljóst að hún er öflugur nýr fulltrúi flokksins á þingi.

Allt frá því er Ólöf gaf kost á sér í prófkjörinu í haust var ég viss um að hún næði góðri útkomu og myndi sanna kraft sinn í baráttunni. Það fór enda svo. Ég tel að innkoma Ólafar Nordal hafi orðið okkur heilladrjúg, en hún hlaut góðan stuðning til verka og kom að mínu mati með ferskan blæ í stjórnmálin hér. Ég vænti mikils af hennar verkum á þingi næstu árin. Það var mjög gott að hún fékk það góða tækifæri hjá forystu flokksins að vera í ræðumannahóp af hans hálfu í kvöld.

Mér fannst líka áhugavert að hlusta á ræður Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Katrínar Jakobsdóttur. Ég tel að þetta séu framtíðarkonur í forystu flokksins og muni verða áberandi í stjórnmálum á komandi árum. Þær voru eins og fegursta blóm í haga á meðan að formaðurinn var eins og hann væri nýbúinn að drekka ógeðsdrykk a la Sveppi og Auddi. Hann leit mjög undarlega út í sinni gremju á meðan að konurnar í liðinu hans voru stórglæsilegar og töluðu á allt öðrum grunni og voru bjartsýnar. Sú spurning hlýtur að vakna fyrr en síðar hvenær að forystuskipti verði hjá vinstri grænum eftir afleiki Steingríms J. upp á síðkastið.

Höskuldur Þórhallsson stóð sig mjög vel í kvöld. Leist vel á ræðu hans. Tel að Höski sé framtíðarmaður innan Framsóknarflokksins. Það skipti framsóknarmönnum miklu máli að fá hann inn á þing og hann sannaði vel styrk sinn með þessari ræðu. Held að hann muni stimpla sig vel inn í þingstörfum næstu árin. Svo var áhugavert að hlusta á "nýju" frjálslyndu þingmennina. Fannst Jón frekar óstyrkur á meðan að Kristinn H. var mjög álíkur því sem hann hefur verið í gegnum árin. Líst vel á Guðbjart Samfylkingarmann, sterkur foringi þar á ferð að mínu mati.

Heilt yfir voru þetta skemmtilegar umræður í kvöld. Sérstaklega áhugavert að sjá nýju þingmennina. Leist vel á Ólöfu okkar Nordal og líst vel á byrjun þingferilsins hennar með þessari ræðu. Það er draumur fyrir nýja þingmenn að flytja fyrstu ræðuna við þingsetninguna og því hljóta nýliðarnir sem töluðu í kvöld að vera í skýjunum með sína frammistöðu, enda stóðu þau sig flestöll vel.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband