24.9.2006 | 12:25
Samfylkingin blandar geði við almenning
Þeir sem fóru í verslunarmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu í gær voru minntir vel á það að alþingiskosningar eru í nánd þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar blönduðu geði við almenning og kynntu þeim stefnu sína til lækkunar matarverðs. Það var svolítið merkilegt að sjá þingmenn þarna á stangli við að kynna sig og reyna að dreifa fjölblöðungum til fólksins. Það er svolítið merkilegt að sjá tillögur Samfylkingarinnar í þessum efnum og ánægjulegt að flokksforystan sé tilbúin til að lifa svo hættulega eftir hina algjörlega misheppnuðu umhverfisstefnu flokksins sem minnti á vandræðagang flokksins umfram allt annað.
Mesta athygli mína vakti að sjá drottningarfrétt Sjónvarpsins um þessi efni. Þar fór Ingibjörg Sólrún að versla í Hagkaup í Smáralind með Helga H. Jónssyni, eiginmanni bæjarstjórans í Fjarðabyggð og fyrrum fréttastjóra Sjónvarps með meiru. Er ekki Helga bæjarstjóri í Fjarðabyggð annars ein besta vinkona Ingibjargar Sólrúnar? Það væri kannski ágætt að rifja það upp hvernig að framsóknarkonan Helga og eiginkona "fréttamannsins" gekk inn og út úr Samfylkingunni til að kjósa ISG til formennsku í fyrra. Það hafa ekki allir stjórnmálaleiðtogar fengið svona mjúkt og innilegt viðtal lengi eins og þarna sást í Ríkissjónvarpinu út að versla. Kannski teljast þetta vart tíðindi þegar að Helgi H. er annars vegar.
Það var talsverður skaði að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum fjármálaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, skyldi ekki vera þarna staddur með þingmönnum Samfylkingarinnar að kynna þessa stefnu. Það var Jón Baldvin sem kom matarskattinum umfram allt á í ríkisstjórn, hinni sögufrægu þriggja flokka stjórn sem sprakk haustið 1988. Það er alltaf kostulegt að lesa skrif Össurar kratahöfðingja Skarphéðinssonar um þessi mál því að hann reynir alltaf fimlega að verjast þeirri staðreynd að það var einkum Jón Baldvin Hannibalsson sem kom matarskattinum á og barðist fyrir honum.
Eflaust eru það óþægilegar staðreyndir fyrir vinstrimenn. Jón Baldvin hefði fallið vel í kramið með þingmönnunum og hefði getað frætt fólk um það af hverju skatturinn var lagður á. Jón Baldvin var óvinsælasti stjórnmálamaður landsins meðan að atið um matarskattinn stóð sem hæst. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk svo vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fella niður skattinn og vildi Jón Baldvin það skiljanlega ekki eftir að hafa vaðið eld og brennistein fyrir því að koma honum á. En já þetta er sagan, sem reyndar er oft svo gott að rifja upp.
En það er svosem gott að Samfylkingin hefur einhverja stefnu í þessu máli. Vonandi verður hún eitthvað staðfastari en umhverfisstefnan sem virkar frekar tómleg með fulltrúa Samfylkingarinnar um allt land vælandi yfir því að fá álver í sínar byggðir - allir vilja þar auðvitað undanskilja sig stefnunni því að þar sé að koma álver sem hafi verið marglofað. Þvílík vandræði og pína í einum flokki, hlýtur hver og einn að segja við að horfa á svona ráðleysi.
![]() |
Samfylkingin kynnir tillögur sínar um aðgerðir til að lækka matarverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2006 | 22:27
Stefnir í hörð átök milli Magnúsar og Kristins H.
Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns, um leiðtogastól Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í póstkosningu meðal allra flokksmanna í kjördæminu. Í dag var felld tillaga stjórnar kjördæmisráðs flokksins í kjördæminu um að velja frambjóðendur í efstu sæti listans að vori með tvöföldu kjördæmisþingi í nóvember. Hörð átök urðu á fundinum milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sex atkvæða sigri andstæðinganna. Ofan á varð tillaga um póstkosninguna, sem augljóslega var úr herbúðum Kristins, en hún var borin upp af þingfulltrúum frá Dalasýslu og Bolungarvík, heimabæ hans.
Það er því ljóst að ekki verður valið á listann með sama hætti og á kjördæmisþinginu sögulega á Laugum í Sælingsdal um miðjan nóvember 2002. Á því kjördæmisþingi var útsláttarleiðtogakosning milli Páls Péturssonar, þáv. félagsmálaráðherra, Magnúsar og Kristins. Á þinginu lauk í reynd rúmlega þriggja áratuga stjórnmálaferli Páls er hann féll í leiðtogakjörinu og dró hann sig til baka í kjölfarið. Magnús sigraði Kristin H. í tveggja manna slag um leiðtogastöðuna og Kristinn H. varð í öðru sætinu. Herdís Sæmundardóttir á Sauðárkróki, var kjörin í þriðja sætið. Úrslitin voru mikið áfall fyrir Kristinn H. sem var þingflokksformaður Framsóknar fram yfir þingkosningarnar 2003.
Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á þessu kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.
Framundan er hörð barátta. Fyrir kjördæmisþingið hafði Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 2. sæti, greinilega gagngert gegn Kristni H. og talað var um bandalag hennar og Magnúsar. Nú hefur hinsvegar Herdís ákveðið að gefa kost á sér í 1. - 2. sæti í kosningu. Stefnt er að því að kosningu verði lokið fyrir lok októbermánaðar og verður framboðsfrestur ákveðinn fljótlega og talið verði í byrjun nóvembermánaðar. Það stefnir því í hörð átök um forystuna í Norðvesturkjördæmi hjá Framsóknarflokknum, enn harðskeyttari og óvægnari átök milli félagsmálaráðherrans Magnúsar og þingmannsins baldna Kristins H. sem löngum hefur verið ráðandi öflum í flokknum óþægur ljár í þúfu.
Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á þessari tilhögun mála er Kristinn H. Gunnarsson. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.
Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs verður algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.
![]() |
Listi Framsóknarflokksins valinn með póstkosningu í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2006 | 14:32
Slökknar á lífi fréttastöðvarinnar NFS

Sem 110% fréttafíkill verð ég að viðurkenna það fúslega að ég sé verulega eftir NFS, fréttastöð 365-miðla. Fjölmiðlalitrófið missir vissan glampa núna þegar að slökknar yfir tilveru hennar. Það var vissulega nokkuð merkilegt að sjá það þegar að Sigmundur Ernir Rúnarsson og Edda Andrésdóttir kvöddu í gærkvöldi NFS. Það var greinilega erfið stund fyrir þau, sérstaklega auðvitað Sigmund Erni sem fréttastjórnanda stöðvarinnar alla þá tíu mánuði sem hún var í loftinu. Það var þungt yfir fréttaþulunum og það sást vel á bakgrunninum þar sem ljósin á fréttastofunni í Skaftahlíðinni höfðu verið dempuð. Andrúmsloftið var lævi þrungið og engin gleði á andlitum fréttaþulanna.
Á skjánum hjá mér er svart þar sem áður var NFS. Lífið hefur slökknað þar yfir í orðsins fyllstu merkingu. Það verður að segjast alveg eins og er að skaði er af missi þessarar stöðvar. En þetta er tilraun sem var reynd og hún mistókst í þessari mynd. Það er hin kalda niðurstaða. Við sem erum fréttafíklar og njótum ítarlegra fréttaskýringa og diskúteringa um stjórnmál, þjóðmál í öllum myndum, söknum þessa góða kosts í fréttaumfjöllun. Það er bara þannig. En kannski var það alla tíð óhófleg bjartsýni að halda það að fréttastöð geti lifað á Íslandi í baráttu við allt hitt afþreyingarefnið, snöggsoðnu tónlistarmyndböndin og annað af þeim kalíber.
Ég vorkenni öllum þeim fjölda eðalfólks sem fengu uppsagnarbréf í gær og misstu starf sitt. Ég vil þó segja við þetta fólk að ég var einn þeirra sem hafði gaman af NFS og ég mun sakna stöðvarinnar. Ég mun sakna þess sem þau gerðu á NFS. Við sem dýrkum fréttir og kjarnann í fréttaumfjöllun söknum þess að geta ekki stillt á hana til að sjá eitthvað merkilegt gerast í beinni. Það verður reyndar merkilegt að sjá hvað tekur við. Greinilegt er að fréttir verða bara sagðar á Stöð 2 hér eftir inni í Íslandi í bítið, á hádegi og svo á slaginu 18:30 í slottinu þar sem kvöldfréttatími NFS var áður þar sem fréttapakki dagsins var áður zoom-eraður saman.
Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáðist að Lóu Aldísardóttur og félögum hennar sem stóðu vaktina síðustu klukkutíma NFS. Þau stóðu sig ótrúlega vel miðað við aðstæður. Það hefði verið hreinlegast að loka stöðinni strax kl. 17:00. Sérstaklega fannst mér átakanlegast að sjá fimmfréttatímann. Þar var alvaran yfir öllu og í bakgrunninum voru fréttamennirnir og tilvera þeirra á þessum svarta föstudegi þeirra. Allt var þetta í beinni - þetta var frétt dagsins og hún gerðist á fréttastofunni. Svona getur oft tilveran verið hörð og það er svosem engin ný frétt að fjölmiðlaheimurinn er ekki tryggasta atvinnugrein sögunnar.
En já þessi tilraun mistókst. Verður hún reynd aftur? Tæplega, og þó, maður skyldi svosem aldrei segja aldrei. Reyndar verður fróðlegt að fylgjast nú með því sem við tekur. En já, ég mun sakna NFS. Ég væri varla heiðarlegur við sjálfan mig og fréttanefinu mínu ef ég segði þetta ekki. Þeim sem voru á NFS óska ég góðs og vona að þau eflist við þennan mikla mótvind. En já það er svo sannarlega svart á NFS núna. Over and out!
![]() |
Tuttugu sagt upp hjá NFS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2006 | 12:51
Sögupistill - formannskjörið 1991
Í ítarlegum sögupistli á vef SUS í dag fjalla ég um formannskjörið örlagaríka á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1991 og aðdraganda þess. Davíð Oddsson, þáv. borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður flokksins, gaf þá kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni og fyrrum forsætisráðherra. Óhætt er að segja að útkoma formannskjörsins hafi orðið söguleg fyrir flokkinn.
Það er hinsvegar hiklaust þannig að það er eitt mesta lán Sjálfstæðisflokksins að þar hafa verið sterkir forystumenn. Jafnan hafa flokksmenn getað treyst því að forystumenn flokksins séu stjórnmálamenn sem þjóðin treysti til forystu. Aðeins hafa átta menn gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur verið í forystusveit ríkisstjórnar á Íslandi nú nær samfellt frá árinu 1991.
Það urðu táknræn þáttaskil innan Sjálfstæðisflokksins á þessum landsfundi í marsmánuði 1991 í aðdraganda þingkosninga það ár þegar að Davíð var kjörinn formaður og Þorsteini Pálssyni var hafnað sem formanni flokksins. Reyndar er það nú svo að þó að Þorsteinn hafi verið formaður í tæp átta ár leiddi hann flokkinn aðeins í einum kosningum, árið 1987, en þá var flokkurinn klofinn í fylkingar eftir að Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn.
Eftir viku mun ég fjalla um atburðarásina sem leiddi til stjórnarmyndunar dr. Gunnars Thoroddsens, þáv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins, árið 1980. Aðdragandinn fólst í stjórnleysi eftir myndun vinstristjórnar árið 1978 og merkilegri atburðarás í tengslum við það. Merkileg saga sem ég skrifa um eftir viku á vef SUS.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2006 | 09:11
Unnur Brá sækist eftir fimmta sætinu

Það er ánægjulegt að vakna nú í morgunsárið og sjá þá tilkynningu að góðvinkona mín úr ungliðastarfinu í SUS, Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, hafi ákveðið að gefa kost á sér í fimmta sætið í væntanlegu prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Unnur Brá hefur alla tíð verið góður félagi, traust og öflug, og það er því mikið gleðiefni að hún sýni áhuga á þingframboði og taki stefnuna á sæti sem ætti í raun og sann að vera sannkallað baráttusæti okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, enda fara sjálfstæðismenn með nær öll völd á sveitarstjórnarstiginu í kjördæminu. Með hana í fimmta sætinu bjóðum við sterka og öfluga konu í baráttusæti í Suðrinu að vori. Það er engin spurning.
![]() |
Unnur Brá Konráðsdóttir sækist eftir 5. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 21:58
Valgerður á atkvæðaveiðum í New York

Það er alveg óhætt að fullyrða að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sé orðin alvön atkvæðaveiðum á löngum stjórnmálaferli. Þær hefur hún helst stundað hér norðan heiða og fyrir síðustu alþingiskosningar ennfremur austur á fjörðum. Nú ber svo við að húsfreyjan og framsóknarvalkyrjan á Lómatjörn er komin alla leið vestur um haf til heimsborgarinnar New York. Þar er hún á atkvæðaveiðum og labbar þar um salarkynni og reynir í leiðinni að sannfæra erlenda embættismenn og sendifulltrúa um að muna eftir Íslandi þegar kemur að því að velja fulltrúa til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðar meir.
Þetta er svolítið kostulegt að fylgjast með, ég verð fúslega að viðurkenna það. Fyrir okkur sem höfum alla tíð verið andsnúin umsókn Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er þetta kómískt og allt að því ansi kaldhæðnislegt í raun og sann. Valla hefur löngum getað verið ansi sannfærandi og kannski tekst henni að krúnka út einhver atkvæði með framkomu sinni og höfðingsskap við að sannfæra fólk um eigið ágæti. Ég er eiginlega handviss um að henni tekst betur upp í því en pólitískum læriföður sínum, Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, sem átti frumkvæðið að þessu brölti meðan að hann var utanríkisráðherra.
Í vikunni fór ég aftur yfir skoðanir mínar á þessu máli og minnti á það sem ég hef áður skrifað um málið. Það er víst orðið of seint að bakka frá þessum verknaði með raunhæfum hætti og eflaust verðum við að horfa á málið allt til enda, þar til að við verðum undir í baráttunni. Ég er eiginlega handviss um að við fáum ekki sætið - það er altént við nokkuð ramman reip að draga í þessu kapphlaupi. En ég er enn stórundrandi á því að þetta hafi ekki verið stöðvað meðan að Davíð var utanríkisráðherra. Þá hefðum við getað pakkað saman með heiðarlegum hætti og sagt sem væri að þetta mál væri allt þess eðlis að við vildum forgangsraða með öðrum hætti.
En svo fór sem fór - ekkert við því að gera. Nú verðum við að horfa á Valgerði reyna að bjóða erlendu spekingunum þennan kost og allt að því grátbiðja fundargesti í NY um að gefa okkur séns. Þetta er kómískt að nær öllu leyti. Eftir helgina mun Valla ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Það verður merkilegt að heyra boðskap hennar þar, sem í raun verður framboðsræða fyrir þetta merkilega framboð. Það verður eflaust sami grátkórinn og Halldór Ásgrímsson flutti fulltrúum heimsins í New York í síðustu ræðu sinni sem stjórnmálamanns í þessari sömu heimsborg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 18:11
Harður leiðtogaslagur Kristjáns og Benedikts

Það stefnir í mjög harðan leiðtogaslag hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi milli Benedikts Sigurðarsonar, aðjúnkts við Háskólann á Akureyri, og Kristjáns L. Möllers, alþingismanns. Ákveðið hefur verið að flokksbundnir Samfylkingarmenn hafi kjörrétt og mun verða um póstkosningu að ræða sem lýkur í októberlok. Framboðsfrestur rennur þó ekki út fyrr en miðvikudaginn 27. september nk. Talið verður í prófkjörinu hér á Akureyri laugardaginn 4. nóvember nk. En leiðtogaslagurinn er hafinn af krafti. Greinilegt er að Benedikt Sigurðarson sækir að Kristjáni af miklum krafti og ætlar sér stóra hluti í þessu prófkjöri.
Mikla athygli hefur vakið að Bensi hefur þegar hafið mikla auglýsingaherferð með flenniauglýsingum í dagskrármiðlunum hér á Akureyri, t.d. birtist opnuauglýsing í miðopnu stóru dagskrárinnar sem dreift var í öll hús hér á Akureyri og nærsveitir á miðvikudag. Hann hefur í hyggju að opna heimasíðu og mun greinilega leggja allt undir í þennan leiðtogaslag. Bensi hefur löngum verið nokkuð umdeildur og vakið athygli. Hann var til fjölda ára skólastjóri Brekkuskóla en hefur síðustu árin unnið sem aðjúnkt við HA. Bensi var stjórnarformaður Kaupfélags Eyfirðinga um skeið, t.d. komst hann í fjölmiðla vegna frægra starfsloka Andra Teitssonar sem kaupfélagsstjóra.
Kristján L. Möller hlýtur að þurfa að gefa verulega í á næstunni og mun hafa það í hyggju. Kristján hefur farið í gegnum tvö prófkjör og ætti að geta startað sömu maskínu aftur. Altént þarf hann þess til að halda velli í baráttu við herferð Benedikts, sem mun njóta ráðgjafar reyndra fjölmiðla- og auglýsingamanna í framsetningu sinni. Kristján vann Önnu Kristínu Gunnarsdóttur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi vestra árið 1999 og varð leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi með afgerandi hætti í prófkjöri í nóvember 2002, þar sem hann sigraði Einar Már Sigurðarson, alþingismann frá Neskaupstað.

Kristján hefur löngum haft sterka stöðu hér á þessu svæði, en nú gæti það stefnt í aðra átt. Við blasir enda að Akureyringar vilji meiri áhrif við forystu flokksins í kjördæminu. Hér á Akureyri er Samfylkingin í meirihlutasamstarfi og á þrjá bæjarfulltrúa. Það er því eðlilegt að flokksmenn þar vilji verulega uppstokkun, verandi langöflugasti flokkskjarni Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi og með mestu völdin á sveitarstjórnarstiginu. Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður, sækist eftir öðru sætinu í slag við Einar Má og ber öllum saman um að Lára hafi gríðarlega sterka stöðu. Lára missti af þingsæti á síðustu sprettum talningar vorið 2003.
Það stefnir því í spennu og fjör í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Það blasir við að mesti hasarinn við val á framboðslista í Norðausturkjördæmi verði hjá okkur sjálfstæðismönnum og ennfremur Samfylkingarmönnum. Þetta verða áhugaverð prófkjör og þar gætu orðið stór pólitísk tíðindi og mikið og spennandi uppgjör.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 15:37
NFS heyrir sögunni til

NFS heyrir sögunni til og mun hætta útsendingum kl. 20:00 í kvöld. Stefnt er að uppsögnum 20-30 starfsmanna. Fréttir verða áfram sagðar í sjónvarpi að morgni, í hádegi, síðdegis og að kvöldi á Stöð 2 undir merkjum fréttastofu NFS, þó samnefnd stöð hafi verið lögð niður. Þetta eru stór tíðindi og boðar endalok fréttastöðvarinnar sem hefur sent út frá 18. nóvember 2005. Sá orðrómur hefur verið afgerandi á netinu og í spjalli milli manna síðustu dagana að þetta yrði raunin og svo hefur nú farið. Hinsvegar mun vefhluti 365-miðla, visir.is, verða efldur til mikilla muna.
Allt frá fyrsta degi hefur verið áhugaverð dagskrárgerð á NFS og í raun ekkert til sparað, mikið verið af beinum útsendingum og tekið á öllum helstu álitaefnum þjóðmálaumræðunnar í umfjöllun. Vandi stöðvarinnar var þó allt frá upphafi einn - og hann nokkuð stór, að flestra mati. Áhorf og auglýsingatekjur brugðust, það sem átti að vera eldsneyti stöðvarinnar inn í framtíðina gaf sig fljótt og hefur skuldahali stöðvarinnar því sífellt aukist eftir því sem liðið hefur á þetta fyrsta útsendingarár NFS.
Mörgum þótti hugmyndin djörf er hún var kynnt fyrst sumarið 2005 og ekki voru allir á eitt sáttir. Einn þeirra sem ekki var sáttur við hugmyndina var Páll Magnússon, þáv. fréttastjóri Stöðvar 2. Hann tók ákvörðun um að yfirgefa frekar skútu 365 en halda í verkefnið og munu átök hafa orðið á æðstu stöðum þegar að Páll sagði við yfirmenn 365 að þessi hugmynd myndi aldrei ganga og yrði myllusteinn um háls fyrirtækisins. Við svo búið sagði Páll upp og sótti um lausa útvarpsstjórastöðu hjá Ríkisútvarpinu í kjölfarið.
Í viðtali í sumar við tímaritið Mannlíf sagði Páll að þessi hugmynd um NFS hefði verið glapræði og ástæða þess að hann ákvað að vera ekki áfram hjá 365. Það er greinilegt að varnaðarorð Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, sumarið 2005 vegna stofnunar fréttastöðvar 365 í sjónvarpi hafa að öllu leyti gengið eftir. Það hlýtur að hlakka í keppinautum NFS þegar að við blasir að stöðin hafi runnið sitt skeið og hverfi úr fjölmiðlalitrófinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2006 | 13:17
Bretar vilja losna við vinstristjórnina

Skv. nýrri könnun Guardian telja 2/3 breskra kjósenda að Verkamannaflokkurinn eigi ekki skilið að sigra í þingkosningunum 2009 í Bretlandi. Þetta eru stórtíðindi og sýnir vel hversu Bretar eru búnir að fá leið á stjórn kratanna og eilífu valdatafli innan raða þeirra. Þessi tíðindi komu nú nokkrum dögum áður en að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, flytur sitt síðasta ávarp sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins á flokksþingi hans. Fyrr í þessum mánuði neyddist Blair til að tilkynna að þetta yrði hans síðasta flokksþing sem leiðtogi og hann léti því af embætti innan árs, til að slökkva ófriðarbálið í flokknum.
Það eru önnur góð tíðindi í þessari könnun að fleiri Bretar vilja sjá David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, við völd í Downingstræti 10 að loknum næstu þingkosningum heldur en Gordon Brown, fjármálaráðherra, sem verið hefur krónprins valda innan Verkamannaflokksins í áraraðir. Gæfan virðist eitthvað vera að renna úr greipum Browns, en hann hefur lengi verið talinn öruggur bæði um að vinna leiðtogastólinn þegar að Blair fer og að geta átt góða sigurmöguleika árið 2009. Eitthvað eru því vindar að snúast í breskum stjórnmálum sem betur fer. Það er altént orðið ljóst að Íhaldsflokkurinn eflist sífellt þessar vikurnar.
Ég tel einsýnt að vindar hafi snúist gegn Verkamannaflokknum eftir átökin sem þar urðu í mánuðinum vegna talsins um hvenær að Blair léti af völdum. Það er eitt hinna góðu dæma um það þegar að innanflokkskrísa tekur yfir stjórn landsins. Um tíma var ekkert rætt innan ríkisstjórnar Bretlands, stjórnarflokksins við völd, nema það hver réði atburðarásinni innan flokksins og framvindu mála. Greinilegt er að andstæðingar Browns innan Verkamannaflokksins eru að plotta sig saman gegn honum, enda gengi hans á fallanda fæti. Það stefnir því allt í harðan leiðtogaslag þegar að Blair hættir sem forsætisráðherra.
Þetta verður spennandi vetur í breskum stjórnmálum ef fram heldur sem horfir og Íhaldsmenn halda áfram að styrkja sig með svo marktækum og góðum hætti og gerst hefur bara núna í september. En stóra spurningin er óneitanlega: nær Blair að sitja við völd fram að tíu ára valdaafmælinu í maí 2007? Það er alveg ljóst að forysta hans er orðin gríðarlegt veikleikamerki fyrir flokk hans eftir langan valdaferil og það sem meira er að Gordon Brown veikist með honum.
Það verður fróðlegt að sjá hver nær yfirhöndinni innan Verkamannaflokksins í þessari stöðu sem nú er þar uppi, meðan að öll tákn þess að allt sé á hverfanda hveli blasir við.
![]() |
Bretar vilja breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2006 | 12:08
"Kæri Jón" segir upp Róberti
![]() |
Róberti Marshall sagt upp hjá NFS; segist sáttur við sína framgöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2006 | 23:57
Ætlar Ómar Ragnarsson í framboð?
Ómar Ragnarsson, fréttamaður, hélt blaðamannafund í dag á Grand Hótel þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi hér eftir taka afdráttarlausa afstöðu í umhverfismálum. Mun hann nú hafa í hyggju að tala opinskár um þann málaflokk en verið hefur og fór á blaðamannafundinum yfir afstöðu sinna til t.d. væntanlegrar stóriðju og virkjunar á Austurlandi og hugmyndum um fleiri stóriðjukosti. Mér finnst þetta að vissu leyti engin frétt, enda hefur afstaða Ómars að mínu mati ómast mjög vel í fréttamennsku hans, sem hefur verið svolítið einhliða oft á tíðum. Honum þykir vænt um landið og það er hans afstaða og honum er frjálst að tjá sínar skoðanir ef hann vill.
Mér finnst mistök hans liggja í því að hafa ekki hafið sína afgerandi baráttu þá bara fyrr og hætta með því að öllu leyti fréttamennsku um málaflokkinn. Það hefði verið hið eina rétta af hans hálfu, enda tel ég að við öll höfum vitað hina sönnu afstöðu hans. Ómar er landsmönnum öllum vel þekktur, hann hefur verið til fjölda ára ötull í fjölmiðlum, mikill flugmaður og náttúruunnandi en þekktastur þó væntanlega sem sjónvarpsmaður. Enginn vafi leikur á því að náttúra landsins er honum mikils virði. Í gegnum verk hans hefur komið fram hversu mjög hann ann íslenskri náttúru og sögu hennar. Dettur mér ekki í hug að gera lítið úr því verki, enda er ævistarf hans glæsilegt.
Það nægir að líta á Stikluþætti hans sem löngu eru orðnir klassískir og hafa öðlast mikinn sess í sjónvarpssögu landsins og aðra þætti hans á seinustu árum, Fólk og firnindi. Hefur Ómar seinustu árin sinnt mjög því áhugamáli sínu að fá fram umræðu um virkjunina og álverið fyrir austan. Kynnti hann þessi mál í mynd sinni: Á meðan land byggist, sem var gerð fyrir fjórum árum - árið 2002, og hélt því áfram í bók sinni, Kárahnjúkavirkjun - með og á móti, sem kom út fyrir tveim árum, þar sem hann fór yfir kosti og galla Kárahnjúkavirkjunar. Var bókin sett þannig upp að mál eru greind í opnur og á annarri blaðsíðunni er farið yfir jákvæða punkta málsins en á hinni þá neikvæðu.
Að mörgu leyti dáist ég af sannfæringarkrafti Ómars og því að hann tjái það sem hann telur réttast. En ég tel að hann hefði átt að gera það með heilum hug fyrir margt löngu. Það var mikill kraftur í Ómari á þessum blaðamannafundi og að mörgu leyti áhugavert að heyra hans skoðanir. Til dæmis fannst mér fyrrnefnd bók mjög fróðleg lesning og ætti að vera áhugaverð öllum þeim sem hafa kynnt sér málið, þekkja til náttúru landsins og Austfjarða. Lengi hefur mér verið annt um Austurland, enda á ættir mínar að rekja þangað að hluta og tel nauðsynlegt að standa vörð um mannlíf þar.
Ég er hinsvegar ósammála Ómari að mörgu leyti. Það er allt í lagi með það, enda allt í lagi að vera ósammála um meginatriði stjórnmála. Þó að ég virði Ómar er alveg ljóst að við erum ósammála um meginatriði. Við erum ekki sammála um það að virkjun við Kárahnjúka og álver við Reyðarfjörð séu mikilvægur áfangi fyrir þjóðina. Það er enginn vafi á því að þessar framkvæmdir hafa eflt Austfirði og stöðu mála þar að öllu leyti. Það skiptir meginmáli að mínu mati.
Eftir stendur svo spurning dagsins: er Ómar Ragnarsson, fréttamaður, á leiðinni í framboð? Hann hljómaði eins og sanntrúaður stjórnmálamaður áherslna og skoðana á blaðamannafundinum í dag. Það hljóta margir að velta því fyrir sér hvort þessi 66 ára gamli fréttamaður ætli að gefa kost á sér í næstu þingkosningum eftir þennan blaðamannafund, sem auðvitað var sendur út í beinni útsendingu á NFS (er hún annars ekki ennþá til, "Kæri Jón"?).
![]() |
Ómar Ragnarsson kallar eftir þjóðarsátt um Kárahnjúkavirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.9.2006 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2006 | 21:57
Erla Ósk kjörin formaður Heimdallar

Erla Ósk Ásgeirsdóttir var kjörin formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, starfsárið 2006-2007, í dag. Mér skilst að aðalfundur Heimdallar í dag hafi verið sá fjölmennasti í sögu félagsins. Erla Ósk hlaut 772 atkvæði en Heiðrún Lind Marteinsdóttir hlaut 692 atkvæði.
Erla Ósk verður því önnur konan í sögu Heimdallar á formannsstóli félagsins. Ég vil óska Erlu Ósk og þeim sem með henni hlutu kjör til stjórnar til hamingju með kjörið. Í boði voru tvær mjög fjölhæfar og góðar konur og erfitt val fyrir marga að þessu sinni. En niðurstaðan liggur fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2006 | 18:28
Stefnir í leiðtogaslag Kristjáns Þórs og Arnbjargar

Það stefnir allt í leiðtogaslag milli Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra hér á Akureyri, og Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns, í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Ekki er útilokað að fleiri gefi kost á sér til forystu í kjölfar þeirrar ákvörðunar Halldórs Blöndals að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Arnbjörg Sveinsdóttir tilkynnti þegar í kjölfar ræðu Halldórs, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína um að hætta, á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar að hún myndi gefa kost á sér. Nær öruggt má telja að Kristján Þór muni tilkynna leiðtogaframboð sitt á næstu dögum.
Lengi hefur verið hávær orðrómur um framboð Kristjáns Þór. Hann hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá árinu 1998 og verið í forystu sveitarfélaga nær samfleytt í tvo áratugi. Hann gaf kost á sér til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi fyrir tæpu ári. Öllum varð ljóst að loknum bæjarstjórnarkosningunum að Kristján Þór yrði ekki bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins, enda var samið um að Samfylkingin hefði stól bæjarstjóra síðasta ár kjörtímabilsins. Það er því ljóst að hann fer ekki fram oftar í bæjarstjórnarkosningum hér né muni verða bæjarstjóri lengi úr þessu. Það er því nær öruggt að hann taki slaginn og gefi kost á sér.
Ekki er óeðlilegt að Arnbjörg sýni áhuga á leiðtogaframboði, en hún er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu auk Halldórs. Arnbjörg hefur verið lengi í stjórnmálum og því er rökrétt og eðlilegt að hún telji rétt að láta reyna á leiðtogaframboð. Hún féll í kosningunum 2003 í Norðausturkjördæmi en tók sæti við lok ársins á þingi þegar að Tómas Ingi Olrich lét af ráðherraembætti og hætti þingmennsku eftir 12 ára þingsetu og varð sendiherra í Frakklandi. Arnbjörg hefur verið dugleg sem fulltrúi kjördæmisins og því eðlilegt að hún hafi metnað og áhuga til forystustarfa og láta reyna á gengi sitt í kosningu.
Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur þegar samþykkt tillögu til að leggja fyrir kjördæmisþing í október um að fram fari prófkjör. Það má því fullvíst telja að það verði prófkjör og fullyrða má að það verði gríðarlega spennandi. Sterkur orðrómur er um að Sigríður Ingvarsdóttir, sem var alþingismaður árin 2001-2003 fyrir Norðurlandskjördæmi vestra og skipaði fjórða sæti framboðslista flokksins hér í Norðaustri í kosningunum 2003, muni gefa kost á sér ofarlega í væntanlegu prófkjöri, en hún hefur verið fyrsti varamaður flokksins frá brotthvarfi Tómasar Inga.
Telja má öruggt að fjöldi flokksmanna sem ekki var á framboðslistanum árið 2003 og hafi áhuga á stjórnmálum vilji gefa kost á sér að auki. Það má því búast við spennandi kosningu í prófkjöri og því að væntanlegir frambjóðendur fari nú að gefa upp hvort þeir stefni í framboð eður ei þegar að ljóst er að fram fer prófkjör. Það eru áhugaverðir tímar framundan hér í kjördæminu, einkum hér hjá Sjálfstæðisflokknum í ljósi allnokkrar uppstokkunar.
21.9.2006 | 16:29
Magnþrungin kveðjuræða Halldórs
Það var mjög magnþrungin stund hérna hjá okkur í Kaupangi í gærkvöldi þegar að Halldór Blöndal tilkynnti um að hann væri að hætta í stjórnmálum. Flest okkar hér á Akureyri höfðum búist við yfirlýsingu frá Halldóri um næsta kjörtímabil á kjördæmisþingi flokksins sem haldið verður að Skjólbrekku í Mývatnssveit um miðjan októbermánuð. Sögusagnir höfðu vissulega gengið lengi um að hann ætlaði að hætta, en allir töldu hinsvegar að þetta yrði ekki vettvangur formlegrar tilkynningar. En Halldór kom okkur öllum á óvart og tilkynnti þetta á heimavelli á Akureyri, þar sem hann hóf stjórnmálaþátttöku á skólaárunum í MA.
Ég verð að viðurkenna að ég fór að hugsa mig verulega um þegar að ég sá að Halldór var mættur með skrifaða ræðu, enda hefur hann oftast nær talað blaðlaust og frá hjartanu. Þessi ræða var eitt uppgjör, það var farið yfir allt. Öll baráttumálin á pólitískum ferli voru reifuð og farið yfir átakamál stjórnmála þegar að Halldór byrjaði og það sem við blasti núna. Hann talaði af krafti um gamla og góða félagið sitt, málfundafélagið Sleipni, en það var hans vettvangur til fjölda ára. Þegar að líða tók á ræðuna gerði ég mér grein fyrir því að þetta væri stundin stóra og svo varð.
Það er eiginlega erfitt að segja eitthvað á þessari stundu. Halldór hefur verið í forystusveit flokksins hér allan þann tíma sem ég hef starfað fyrir flokkinn og talsvert mun lengur en það. Hann hefur verið gríðarlega stór hluti í pólitískri tilveru okkar allra hér í kjördæminu. Mér fannst það reyndar merkileg tilviljun að ég skyldi verða kjörinn í stjórn málfundafélagsins Sleipnis á þessum merkilega degi á stjórnmálaferli Halldórs. Halldór Blöndal á að baki langan og merkan stjórnmálaferil og við öll hér erum honum þakklát fyrir gott verk. Ræðan var viðeigandi endalok á þessum merka ferli.
Ég fer yfir feril Halldórs og skoðanir mínar á honum í pistli mínum sem birtist á Íslendingi, vef Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri í dag. Eins og ég sagði í gærkvöldi eru þetta þáttaskil. Við metum mikils ósérhlífni Halldórs og umhyggju fyrir velferð okkar í kjördæminu og okkur verður lengi í minnum haft mannkosti hans og drenglyndi. En nú verða spennandi tímar í flokksstarfinu og framundan er prófkjör hjá flokknum þar sem enn ein þáttaskilin verða og ný forysta flokksins verður kjörin.
![]() |
Halldór Blöndal sækist ekki eftir endurkjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.9.2006 | 15:53
Uppstokkun á Alþingi Íslendinga

Í ítarlegum pistli mínum á vef SUS í dag fer ég yfir þá uppstokkun sem við blasir á Alþingi Íslendinga í væntanlegum alþingiskosningum. Á síðustu dögum hafa tveir af reyndustu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þau Halldór Blöndal og Sólveig Pétursdóttir, sem bæði hafa gegnt ráðherraembætti og forsetaembætti Alþingis Íslendinga, tilkynnt að þau muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Það sést vel á allri pólitískri umræðu að það styttist í kosningar, enda hafa þau og fleiri þingmenn tilkynnt að þau ætli að hætta. Framundan eru nú svo kjördæmisþingin, þar sem ákveðið verður hvernig valið verði á framboðslistana, og við taka annaðhvort prófkjör eða uppstillingar.
Meginlínur í framboðsmálum þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru að verða nokkuð skýrar og jafnframt virðast línur með val á frambjóðendum flokksins vera að skýrast. Það stefnir í prófkjör í fimm kjördæmum. Mér telst til að 14 alþingismenn kjörnir árið 2003 séu ekki lengur á þingi, hafi þegar ákveðið að hætta í stjórnmálum á kjörtímabilinu eða tilkynnt það þessa síðustu daga að þeir ætli ekki aftur í framboð að vori og hætti því þingstörfum. Það er svo ekki útilokað að fleiri þingmenn muni tilkynna að þeir ætli að hætta á næstu dögum eða vikum, en enn hafa nokkrir alþingismenn ekki tekið ákvörðun um hvort þeir fari fram nú eður ei.
Altént er ljóst að framundan eru mjög spennandi og áhugaverðar kosningar fyrir okkur stjórnmálaáhugamennina. Það eru mörg þingsætin sem eru að losna og væntanlega verður tekist á um þau af hörku í spennandi prófkjörum víða um land á næstu vikum.
21.9.2006 | 00:18
Halldór hættir í stjórnmálum - ræða á Akureyri

Eins og fram kom hér á vef mínum fyrr í kvöld hefur Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ákveðið að hætta í stjórnmálum og gefur ekki kost á sér í komandi kosningum. Hann flutti ítarlega og góða ræðu í Kaupangi í kvöld þar sem þessi ákvörðun var kynnt. Ég birti hér með niðurlag ræðunnar:
"Kæru vinir og samherjar
Mér finnst fara vel á því, að ég lýsi því hér yfir í mínu gamla félagi, Sjálfstæðisfélagi Akureyrar, að ég muni ekki gefa kost á mér til endurkjörs í alþingiskosningunum í vor.
Hér á Akureyri hóf ég mín stjórnmálaafskipti og hef tekið þátt í kosningabaráttunni í öllum alþingiskosningum síðan 1963, fyrst sem pólitískur blaðamaður og erindreki, en síðan 1971 sem frambjóðandi og síðar alþingismaður.
Ég tók fyrst sæti á Alþingi sem varamaður 2. desember 1971 og hef setið á öllum reglulegum þingum síðan, fyrst varamaður en var síðan kjörinn þingmaður 2. desember 1979.
Svo að þetta er orðinn langur tími og margs að minnast, margra góðra vina, baráttufélaga og stuðningsmanna, sem ég minnist með hlýhug og þakklæti.
Starf stjórnmálamannsins er fjölbreytilegt og krefjandi, oftast skemmtilegt en getur orðið lýjandi þegar á móti blæs og maður kemst lítið áleiðis með þau mál sem maður er að berjast fyrir.
Þegar ég lít til baka standa auðvitað nokkur mál uppúr, sem miklu skiptu fyrir einstök byggðarlög eða kjördæmið í heild. Ég nefni göngin til Ólafsfjarðar, sem tókst að ná fram á síðustu dögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, þó að ráðherrar Alþýðuflokksins væru að malda í móinn í ríkisstjórninni.
Ég nefni göngin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar, sem eru líftaug þessara byggðarlaga. Það mál hefði aldrei náðst fram án fulltingis Davíðs Oddssonar.
Síðast en ekki síst nefni ég Háskólann á Akureyri. Sverrir Hermannsson var búinn með fjárlagskvótann, sem menntamálaráðuneytið hafði, en Háskólinn stóð útaf. Þá króaði ég Þorstein Pálsson af út í horni í efri deild fyrir 3. umræðu fjárlaga og sagði að Háskólinn yrði að fá fjárveitingu og það varð.
Kæru vinir
Þessi ákvörðun að hætta stjórnmálaafskiptum nú er ekki skyndiákvörðun. Við Kristrún kona mín tókum hana fyrir síðustu alþingiskosningar fyrir fjórum árum. Við erum enn í fullu fjöri og langar að eiga góð ár saman að loknum erilsömum starfsdegi.
Hún hefur staðið á bak við mig í mínu stjórnmálastarfi. Sá árangur sem ég hef náð er því að þakka að ég hef átt góða konu."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 22:24
Halldór Blöndal gefur ekki kost á sér

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, lýsti því yfir á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Akureyrar í Kaupangi á Akureyri í kvöld að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningunum að vori. Þetta er stór ákvörðun, enda á Halldór að baki langan og glæsilegan stjórnmálaferil. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins 1971-1979 og alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra 1979-2003 og Norðausturkjördæmis frá 2003. Halldór var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1995-1999. Hann var forseti Alþingis 1999-2005.
Það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri mikill heiður að Halldór skuli hafa ákveðið að tilkynna þessa stóru ákvörðun sína á aðalfundum sjálfstæðisfélagsins okkar. Hér á Akureyri hóf Halldór þátttöku í stjórnmálum og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér í Eyjafirði og í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað fyrir öll þessi ár. Ég hef þekkt Halldór lengi og alla tíð metið hann mikils. Hann hefur alla tíð verið okkur gríðarlega mikilvægur í öllu stjórnmálastarfi okkar. Það hefur verið okkur öllum styrkur að geta leitað til hans.
Persónulega vil ég færa Halldóri og eiginkonu hans, Kristrúnu Eymundsdóttur, mínar bestu kveðjur við þessi þáttaskil og þakka þeim báðum gríðarlega góð störf í okkar þágu. Kristrún hefur alla tíð verið sem klettur á bakvið Halldór og stjórnmálasaga Halldórs Blöndals verður aldrei rituð nema að nafn þessarar miklu kjarnakonu verði þar áberandi. Kærar þakkir fyrir allt Dóri og Rúna!
Þetta eru mikil þáttaskil sem hér verða nú við þessa ákvörðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 17:12
Erfiður vetur fyrir Framsókn framundan

Nú hefur Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setið á formannsstóli í Framsóknarflokknum í heilan mánuð. Það er framundan erfiður vetur fyrir Framsóknarflokkinn. Það má fullyrða að stór hluti þess hvernig ganga muni ráðist senn á kjördæmisþingum flokksins vítt um land þar sem að valið verður á framboðslista. Mér sýnist að Framsóknarflokkurinn ætli allsstaðar að nota sömu aðferðina við val frambjóðenda sinna, það er að hafa tvöfalt þing með kosningu um sæti. Þá er kosið um hvert sæti fyrir sig í raun. Þetta er vissulega nokkuð sniðug lausn og tryggir með því að öll svæði kjördæmisins, t.d. hinna víðfeðmu landsbyggðarkjördæma, fái sinn fulltrúa og þar verði fulltrúar beggja kynja.
Mér finnst lítið hafa borið á Jóni sem formanni Framsóknarflokksins. Það er kannski eðlilegt að vissu leyti. Mér sýnist hann aðallega vera að undirbúa sig fyrir kosningaveturinn og þau verkefni sem verða innan flokkskjarnans í vetur. Enn er þeirri spurningu ósvarað hvar formaður Framsóknarflokksins ætlar fram. Hann sagði aðspurður af Helga Seljan, frænda mínum, í viðtali á NFS í kjölfar formannskjörsins að hann ætlaði sér ekki í slag við neinn um forystusess eða reyna að forðast það allavega. Þá eru fáir staðir eftir svo vægt sé til orða tekið. Væntanlega er þar fyrst og fremst horft á leiðtogastól Halldórs Ásgrímssonar í Reykjavík norður. Þar er eini lausi leiðtogastóllinn fyrir þessar kosningar.
Jón hefur verið áhrifamaður í flokkskjarnanum lengi en nær alla tíð til baka í honum. Hann þekkir innviði flokksins giska vel. Það er öllum ljóst að hann mun reyna að stilla saman strengi í flokknum og tryggja að hann komi standandi og vígfimur til kosninganna að vori. Þar er svo sannarlega mikil vinna framundan. Framsóknarflokkurinn beið afhroð í fjölda sveitarfélaga í vor, gott dæmi er hér á Akureyri svo og Kópavogur. Með þessa staði svona vængbrotna í starfinu á flokkurinn vart von á góðu. Ég hef lengi verið að vasast í stjórnmálum hér og þekki ágætlega til en ég man aldrei t.d. eftir Framsóknarflokknum eins illa á sig kominn hér og nú. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið skipbrot Framsóknar verður t.d. hér hjá utanríkisráðherranum í Norðausturkjördæmi.
Ég fjallaði nokkuð ítarlega um flokksstarf Jóns hjá Framsókn og bakgrunn hans þar í ítarlegri bloggfærslu skömmu eftir formannskjör hans. Ég bendi á þau skrif. En spurningar stjórnmálaáhugamanna hljóta nú enn að snúast um það hver Jón Sigurðsson sé í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst verulega lítið hafa enn reynt á þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins sem kom eiginlega bakdyramegin inn í forystusveit íslenskra stjórnmála í sumar. Hann kom þar óvænt inn til forystu. Það verður gaman að kynna sér pólitík hans og forystu í þessari kosningabaráttu sem senn hefst. Það verður eldskírn hans sem stjórnmálamanns.
Eins og staðan er núna getur Framsóknarflokkurinn vart vænst fleiri en 9 þingsæta að vori. Jón fer fram væntanlega í leiðtogasæti Halldórs Ásgrímssonar við kosningarnar 2003 þar sem fyrir eru ungstirni flokksins, Guðjón Ólafur og Sæunn. Hér í Norðaustri stefnir að óbreyttu í afhroð þar sem eru Dagný og Birkir Jón. Falla þau? Það verður fróðlegt að sjá hvort að allir ungliðarnir sem eru í þingflokknum missi sæti sín á einu bretti eða hvort þau standa af sér væntanlegt fylgistap flokksins að vori. Ef ég væri framsóknarmaður væri ég allavega hræddur um stöðuna. Það eru því varla nein undur að framsóknarmenn ætli sér að reyna að velja lista með þeim aðferðum sem nefndar eru.
Ég held að þetta séu örlagaríkustu kosningar Framsóknar í áratugi. Grunntilvera flokksins og staða þeirra næstu árin mun þar ráðast að mörgu leyti. Þetta er 90 ára flokkur með langa og litríka sögu. Það mun verða mjög örlagaríkt fyrir flokkinn ef ungliðarnir hrynja af þingi (t.d. vegna væntanlegrar innkomu Jóns í borginni) og eftir stendur gamall þingflokkur liðinna tíma úr formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Nú reynir væntanlega á það hvernig að nýr formaður stýrir sínu liði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 15:27
Slagur hjá Samfylkingunni í Norðvestri
Það stefnir heldur betur í hasar og fjör hjá Samfylkingarmönnum í Norðvestri. Þar verður prófkjör síðustu helgina í október. Jóhann Ársælsson, alþingismaður 1991-1995 og frá 1999, hefur tilkynnt rétt eins og þær Margrét Frímannsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir að hann ætli ekki fram að vori. Leiðtogastóllinn er því laus og það stefnir í að fjölmennt verði í slagnum um forystusessinn. Þetta er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns. Flokkurinn varð fyrir verulegu áfalli í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 og hlaut aðeins tvo þingmenn, en hafði í skoðanakönnunum verið spáð lengi vel 3-4 þingsætum.
Jóhann og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru kjörin á þing en Gísli S. Einarsson, sem verið hafði þingmaður Alþýðuflokksins fyrst í stað og síðar Samfylkingarinnar, féll í kosningunum sitjandi í þriðja sætinu. Gísli skipti svo um fylkingar á kjörtímabilinu, varð bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í kosningunum í vor og varð bæjarstjóri á Skaganum, sínum gamalgróna heimabæ, í júní í samstarfi Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra. Samhliða þessu sagði hann sig úr flokknum og baðst lausnar sem varaþingmaður með formlegum hætti. Það leikur enginn vafi á því að þessi atburðarás var skaðleg fyrir Samfylkinguna í Norðvestri.
Nú liggur fyrir að sex vilja leiða framboðslistann í kjördæminu. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þau Sigurður Pétursson, Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Bryndís Friðgeirsdóttir og Karl V. Matthíasson (sem lýsti yfir framboði í dag). Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.
Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogasessinn, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru sex í leiðtogakjöri hið minnsta og því ljóst að verði beittur slagur um forystusess þarna. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar.
![]() |
Karl V. Matthíasson gefur kost á sér í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 14:37
Shinzo Abe tekur við völdum í Japan
Nú hefur Shinzo Abe verið kjörinn nýr leiðtogi frjálslynda demókrataflokksins í Japan og mun taka væntanlega í kjölfarið við embætti forsætisráðherra landsins af Junichiro Koizumi. Þingið þarf að staðfesta það val. Alla tíð hafði verið ljóst að Abe hefði sterkan stuðning innan flokksins og varð sigur hans afgerandi og traustur. Hann hafði yfir 460 atkvæði af rétt rúmlega 700. Næstur varð utanríkisráðherrann Taro Aso. Koizumi hefur verið sterkur og traustur forystumaður í japönskum stjórnmálum nú í rúm fimm ár og leitt stjórn landsins, að mig minnir, lengst allra eftir seinna stríð. Það hefur verið nokkuð stöðugleikatímabil við stjórn landsins undir pólitískri forystu hans.
Frjálslyndi demókrataflokkurinn hefur farið með völdin í Japan nær samfleytt alla tíð eftir seinna stríð og verið öflugur forystuflokkur í stjórnmálum Japans. Koizumi hættir á toppnum. Hann ákvað að hætta eftir glæsilegan kosningasigur í fyrra og fer hnarreistur frá völdum. Abe verður yngsti forsætisráðherrann í sögu Japans, sá eini sem er fæddur eftir seinna stríð. Það verða því viss tímamót hvað það varðar. Það skiptir máli fyrir japönsk stjórnmál að nýr leiðtogi frjálslyndra sé kjörinn með svo gott umboð innan sinna raða og því allar líkur á því að Abe verði sterkur leiðtogi á kalíber Koizumi.
![]() |
Shinzo Abe næsti forsætisráðherra Japans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)