Flott hjá Davíð - mestu afglöp Íslendinga frá 1262

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefur rétt fyrir sér í því að Icesave-samningarnir eru mestu afglöp Íslendinga frá árinu 1262. Hann gerir rétt með því að gagnrýna Geir H. Haarde, Steingrím J. Sigfússon, Ingibjörgu Sólrúnu og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir sofandagang eða bjálfalegar yfirlýsingar og skrifa undir að setja Ísland í skuldafangelsi áratugum saman - dæma okkur sem aumingja kynslóðum saman.

Skelfileg framtíðarsýn og það er að mestu að kenna vondum ákvörðunum síðustu tvö árin - afglöpum stjórnmálamanna rétt fyrir hrun. Davíð gerir rétt í því að gera upp við þá sem hafa ráðið för og ennfremur þora að gagnrýna samninginn og tala á móti honum, enda eru þau með réttu mestu afglöp sem stjórnmálamenn hér hafa gert öldum saman.

Annars er augljóst með hverjum deginum sem líður að stjórnmálamenn sem þjóðin treysti fyrir fjöreggi sínu og mikilvægustu auðlindum hefur samið allt af sér til að opna leið til Brussel.... þetta eru auvirðilegir aumingjar.

mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt samstarf löggæslusveitanna

Mér finnst það sniðugt hjá lögreglunni að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar í umferðareftirlit. Þetta samstarf löggæslusveitanna tveggja er að mínu mati mikilvægt, enda full þörf á að virkja öflugt umferðareftirlit og taka það traustum tökum, sérstaklega á heitum sumardögum þegar hraðinn er oft einum of mikill.

Þetta er góðs viti, enda tel ég að flestir vilji í raun hafa umferðina góða og tryggja að farið sé eftir hraðamörkum.

mbl.is Hraðamælingar úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarah Palin goes to Washington

Ákvörðun Söru Palin um að hætta sem ríkisstjóri í Alaska og sækjast ekki eftir endurkjöri ætti ekki að koma að óvörum. Hún ætlar greinilega að sækja sér stærra hlutverk innan Repúblikanaflokksins, sækja sér hlutverk í Washington... skrifa bókina umtöluðu og ferðast um lykilríkin í væntanlegum forsetakosningunum árið 2012 án þess að vera bundin í verkefnum í ríki mjög fjarri valdahringiðunni. Þessi ákvörðun er í raun ákvörðun um forsetaframboð, en svo verður að ráðast hvort hún sækist eftir sæti í öldunga- eða fulltrúadeildinni 2010 eða hugsar bara um 2012.

Ein stærsta spurningin í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2008 var hvort Sarah Palin myndi gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2012. Hún var nær algjörlega óþekkt þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt og hlaut eldskírn sína pólitískt í átökunum þá 70 daga sem hún var við hlið hans. Áður en efnahagslægðin skall á voru raunhæfar líkur á að Palin yrði varaforseti en þær vonir gufuðu upp í skugga efnahagskreppunnar þegar McCain hafði í raun tapað forsetakosningunum og náði ekki stuðningi óháðra.

En Palin fékk ókeypis auglýsingu og kynningu í þessum forsetakosningum og er orðin heimsþekkt. Ræða hennar á flokksþinginu í St. Paul stimplaði hana inn sem einn af framtíðarleiðtogum Repúblikanaflokksins hvort heldur er í starfinu á landsvísu eða sem leiðtogaefni í valdakerfinu í Washington. Hún naut þess klárlega að mörgu leyti að vera algjörlega utan við valdakerfið í Washington sem er rúið trausti en tapaði að sumu leyti líka fyrir reynsluleysi sitt í utanríkismálum. Samt hafði hún álíka litla þekkingu á því og Obama og Clinton þegar þeir fóru í forsetaframboð.

Eitt kom áþreifanlega í ljós í kosningabaráttunni. Sarah Palin sameinaði repúblikana til að vinna fyrir flokkinn, hún tryggði þátttöku þeirra sem þoldu ekki John McCain og fundu ekki farveg til þátttöku í kosningabaráttunni eftir að hann sigraði Mitt Romney. En hún varð mjög umdeild og sumir líktu henni við George W. Bush, sem var ríkisstjóri áður en hann fór í forsetaframboð. Hún færði McCain það sem honum vantaði áþreifanlega fyrir flokksþing repúblikana; fólksfjölda á framboðsfundum og áþreifanlega ánægju flokksmanna með að leggja flokknum lið á erfiðu kosningaári.

Örlög kosningaslagsins réðust meðal óháðu kjósendanna sem völdu breytingar í stað reynslunnar. Barack Obama sigraði þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi á sviðinu og með litla ferilskrá í utanríkis- og varnarmálum. Hann ávann sér styrk og stuðning innan flokksins með einlægni og baráttugleði. Kannski verður Sarah Palin framtíðarstjarna fyrir repúblikana. Það verður vissulega undir henni sjálfri komið. Hún hefur persónulega styrkleika sem geta nýst repúblikunum nú þegar John McCain er úr myndinni.

Kannski verður ræða Söru Palin í St. Paul álíka sterkt leiðarljós fyrir innsta kjarnann í Repúblikanaflokknum og ræðan hans Barack Obama var fyrir demókrata á flokksþinginu í Boston. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð repúblikana verði á þessum þáttaskilum sem hafa fylgt svíðandi tapi og miklu persónulegu áfalli fjölda forystumanna.

Sarah Palin tekur mjög djarfa ákvörðun um að hætta á þessum tímapunkti en skiljanleg sé mið tekið af því að vilja tryggja ríkisstjóraembættið hjá repúblikunum með því að Parnell taki við og svo að tryggja að hún komist nær miðpunkti stjórnmálabaráttunnar og geti farið í alvöru baráttu án þess að vera bundin öðrum verkefnum fjarri Washington.

mbl.is Palin hættir sem ríkisstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldur er afstætt hugtak

Mér fannst eitthvað svo innilega sætt og notalegt við fréttina um 105 ára gömlu konuna á Ísafirði sem labbar um bæinn með hjólastól til að styðjast við og setjast í hann þegar hún yrði þreytt - notaði hann svo til að bregða á leik og keyra sextugum syni sínum. Hugguleg frétt af sannri hvunndagshetju, kjarnakonu að vestan.

Auðvitað er það löngu vitað mál að aldur er afstætt hugtak... aðallega er aldur tala sem þvælist í hausnum á okkur og kannski öðrum. Við erum bæði eins ung og gömul og við viljum vera. Þetta snýst allt um hugarfarið, fyrst og fremst. 

mbl.is Með soninn í „kerru“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanasöngur Michael Jackson á stormasömum ferli



Svolítið súrrealískt að horfa á klippuna af æfingu Michael Jackson, svanasöng hans á stormasömum ferli, í Staples Centre, tveimur dögum áður en hann lést. Mér finnst hann nú í betra líkamlegu formi á þessari æfingu en hann hafði verið eftir dómsmálið umdeilda, en vissulega er hann samt aðeins skugginn af þeirri stórstjörnu sem gerði Thriller á níunda áratugnum, vinsælustu plötu allra tíma og sló í gegn. Krufningaskýrslur gefa til kynna að hann hefði aldrei getað klárað endurkomutúrinn, en hann hafði samt greinilega lagt allt undir til að komast aftur á sviðið í gömlu dansporin.

Ég var spurður að því eftir að ég skrifaði um Michael Jackson eftir andlát hans hvort ég hefði verið aðdáandi hans eða metið tónlist hans mikið og eða manninn á bakvið stjörnuna. Ég tel að þeir séu fáir sem ekki hafi dáðst að lögum Jacksons eða sviðsframmistöðu hans, dansinum og taktinum. Hann var einfaldlega í sérflokki og það er ekki hægt annað en virða framlag hans til tónlistarbransans. Hann var ein af helstu goðsögnum tónlistarbransans, hiklaust konungur poppsins.

Einkalíf Jacksons var hinsvegar sorgarsaga, hálfgerð tragedía þegar hann breytist í hryggðarmynd, bæði andlega sem líkamlega. Ég held að þeir séu samt fáir sem hafi ekki notið tónlistar hans með einum eða öðrum hætti, hvað svo sem brestum hans í einkalífinu viðkemur. Síðasta sviðsframmistaðan hans, undirbúningurinn fyrir lokatónleikaferðina sem aldrei var, staðfestir þó hiklaust að hann var einn mesti skemmtikraftur síðustu áratuga. Hann hafði þetta algjörlega.

Ég efast ekki um að minningin um þá stjörnu og verk hans mun lifa lengur en tragedían um manninn Michael Jackson, sem átti sér í raun aldrei líf utan sviðsglampans.

mbl.is Jackson grét við líkamsskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málningu slett hjá auðmönnum

Ekki fer á milli mála að útrásarvíkingarnir hafa breyst úr hálfguðum í hötuðustu menn samfélagsins á skömmum tíma. Ekki þarf að undrast reiði landsmanna. Mér finnst það samt einum of að sletta málningu á hús auðmannanna. Þeir eiga eftir að fá sína refsingu, sú hin mesta er reyndar sú að þeir eru í raun ærulausir hér heima á Íslandi. Þeir munu ekki geta látið sjá sig hér á meðan þrifin er upp óreiðan eftir þá.

Reiðin er mikil. Einhvern veginn verður hún að fá útrás. Þetta er ein leiðin, sú dapurlegasta að mínu mati. Miklu betra er að ráðast að þessum mönnum eða gagnrýna þá með skrifum og mætti málefnalegra skoðanaskipta heldur en með skemmdarverkum. Þeir hafa sjálfir unnið mikil skemmdarverk á samfélaginu og hafa misst bæði æruna og veldi sitt vegna eigin græðgi fyrst og fremst.

mbl.is Málningu skvett á hús auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarar undan hinu gamaldags vinstrapari

Könnun Gallups gefur til kynna að mjög fjari nú undan Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, vinstraparinu gamalreynda sem hefur verið á þingi í um eða yfir þrjá áratugi. Þau hafa að sjálfsögðu ekki komið með neinar breytingar í íslenskum stjórnmálum, andlit hinna gömlu og liðnu tíma, fólkið sem heldur áfram formannaveldinu í þinginu sem þau gagnrýndu áður og stýra Alþingi sem afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins.

Fjölmargir sem kusu þau hafa verið illa sviknir og eflaust ekki séð fyrir endann á fylgishruni vinstriflokkanna. Þeir eiga eftir að taka væna dýfu á næstu mánuðum þegar gríman fellur endanlega, hafi hún svosem ekki tekið næga niðursveiflu fyrir. Þetta var allt svo fyrirsjáanlegt en samt sem áður gerist þetta hrun þeirra hraðar en ég átti von á. En svona verða víst örlögin fyrir þeim.

Steingrímur J. hefur sérstaklega látið á sjá að undanförnu... er aðeins skugginn af stjórnarandstöðuleiðtoganum sem hafði uppi stór orð en stundar nú aðallega það að borða þau í öll mál. Stóra spurningin nú er hvort þau þrauki af kjörtímabilið eða hrökklist frá bráðlega. Þessi stjórn felur feigðina í sér rétt eins og hin lánlausa stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem aldrei var neitt.

Framtíðin er þeirra sem eru nýjir á sviðinu. Endurnýjun íslenskra stjórnmála er ekki lokið. Hún er aðeins rétt að byrja. Nú munum við hinsvegar fara að sjá hana gerast á vinstrivængnum þegar VG og Samfylking fara í hendur nýrra formanna.

mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Malden látinn



Karl Malden er látinn, tæplega tíræður að aldri. Malden var einn af síðustu öldnu höfðingjum gullaldartímabils kvikmyndabransans í Hollywood og verður ávallt minnst fyrir forystu sína í kvikmyndaakademíunni og trausta og mannlega túlkun í stórmyndum Elia Kazan; A Streetcar Named Desire og On the Waterfront.

Senan í Sporvagninum Girnd þar sem Vivien Leigh og Malden tala um dauða eiginmanns hennar er algjörlega ógleymanleg og ein sú besta í myndinni. Vivien Leigh átti mikinn stórleik í hlutverki Blanche, sem mér finnst miklu meira leiklistarafrek en túlkun hennar á Scarlett, þó frábær sé.

Malden á mjög lágstemmda en trausta túlkun í hlutverki Mitch, mágs Blanche. Bæði fengu óskarsverðlaunin auk Kim Hunter, en stóra stjarna myndarinnar, Marlon Brando tapaði fyrir Humphrey Bogart í Afríkudrottningunni. 



Í On the Waterfront átti Malden trausta frammistöðu í hlutverki prestsins. Þar átti Brando túlkun ferilsins í hlutverki boxarans og uppreisnarmannsins. Yndisleg og svo innilega sterk mynd. Þessi tvö atriði eru alltaf jafn traust.

mbl.is Karl Malden látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harkaleg vinnubrögð hjá Evrópusambandinu

Eftir að hafa lesið um hversu harkalega Bretar og Hollendingar sóttu að Íslendingum í skjóli Evrópusambandsins og með góðvild þeirra, á ráðherrafundinum sem Árni M. Mathiesen sat, er vandséð hvað er jákvætt og gott við aðild að ESB. Ég held reyndar að Icesave-samkomulagið sé augljóst merki um að Samfylkingin hafi verið til í að semja Íslendinga í skuldafangelsi til að þjóna duttlungum Evrópuvaldsins í Brussel.

Þetta eru afarkostir og mjög umdeildur samningur á forsendum Íslendinga. Greinilega er verið að reyna að hafa alla góða og passa upp á að dyrnar til Brussel séu nú örugglega opnar. Þetta er ekta eftirgangsemi við það vald sem Samfylkingin dáir hvað mest. Þarna er verið að hugsa um hag einhverra aðra en Íslendinga fyrst og fremst.

mbl.is Árni átti í vök að verjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar völtuðu yfir Svavar og samninganefndina

Ekki þarf sérfræðing til að sjá hversu Bretar áttu auðvelt með að taka Svavar Gestsson og samninganefndina um Icesave í gegn og drottna yfir niðurstöðunni og þeim áherslum sem skrifað var upp á. Samningurinn er einhliða sigur Breta og vandséð hvaða áherslur Ísland hafi beinlínis náð í gegn. Þetta er skelfilegur samningur, sem vonandi verður tekinn upp og samið aftur um atriðin, eða honum þá hreinlega hafnað í þinginu ella. Þjóðin mun aldrei sætta sig við þessa afarkosti.

Enn betur sést hversu afleitt það var að setja afdankaðan stjórnmálamann yfir samninganefndina. Ekki verður séð hvers vegna Svavar Gestsson var settur í verkefnið nema sem verðlaun fyrir að vera pólitískur lærifaðir formanns VG og fjármálaráðherrans eða sem pólitísk dúsa.... erfitt að segja. Ekki hef ég heyrt sannfærandi vörn fyrir veru hans í þessari samninganefnd og ekki hefur vörn hans fyrir samninginn verið mjög sannfærandi.

Enn undarlegra er að pólitískur aðstoðarmaður Þuríðar Backman með aðsetur hér á Akureyri og kosningastjóri vinstri grænna fyrr og nú sé starfsmaður nefndarinnar. Eru svona pólitískar dúsuveitingar eðlilegar í samninganefnd sem skiptir miklu máli?

mbl.is Bretar sýndu hörku þar til yfir lauk í viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er liðið í VG alveg orðið veruleikafirrt?

Hvernig dettur Álfheiði Ingadóttur í hug að segja að kosið hafi verið um Icesave í alþingiskosningunum í apríl? Er þetta lið algjörlega orðið veruleikafirrt bara við það að taka við völdum í landinu? Forðum daga skreyttu vinstri grænir sig með því að vilja þjóðaratkvæðagreiðslu í lykilmálum - virkja milliliðalaus samskipti við fólkið í landinu. Nú er þetta algjörlega gleymt. Hræsnin er allsráðandi í málflutningi vinstri grænna.

Steingrímur J. Sigfússon viðhafði stór orð um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna þegar Kárahnjúkavirkjun var til umræðu á Alþingi fyrir nokkrum árum. Þá vildi hann að þjóðin tæki ákvörðunina í stóru máli.

Hvað sagði Steingrímur J. sjálfur um slíkan málflutning þegar hann var í stjórnarandstöðu og deilt var um virkjunina stóru við Kárahnjúka. Rifjum upp ummæli hans þá:

"Treystum við ekki þjóðinni? Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sál, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði.

Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það."

Svo mörg voru þau orð....


mbl.is Þjóðin kaus um Icesave í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar flæktur í málefni sjeiksins

Ekki lítur það vel út fyrir forsetaembættið ef Ólafur Ragnar Grímsson er mjög tengdur sjeiknum frá Katar og málefnum hans, sérstaklega ef persónuleg tengsl eru milli forsetahjónanna við manninn. Ólafur Ragnar ætti reyndar að fara að hugsa um stöðu forsetaembættisins og hugleiða alvarlega afsögn af forsetastóli, trúverðugleika forsetaembættisins vegna.

Hann er algjörlega rúinn trausti eftir hrunið og hefur lítinn sem engan trúverðugleika lengur, sérstaklega ef hann er orðinn tengdur rannsókn sérstaks saksóknara. Vandséð er hvernig hann geti farið af valdastóli með hreinan skjöld, enda óneitanlega tengdur hruninu og eiginlega féll hann með útrásarvíkingunum sem hann flaug með á heimsenda.

mbl.is Forsetinn útilokar ekki aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar mun aldrei stöðva Icesave-dílinn

Hreinir draumórar eru að búast við því að Ólafur Ragnar Grímsson muni synja staðfestingu lagafrumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave, muni þingið samþykkja málið. Hann mun aldrei setja vinstristjórn leidda af Samfylkingunni út af sporinu með því að hafna svo mikilvægu máli, enda vita allir að þjóðin mun aldrei samþykkja þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Ólafur Ragnar er svo tryggur Samfylkingunni, eins og sást af aumri framgöngu hans við stjórnarslitin í janúar, að hann mun ekki taka þessa vinstristjórn úr öndunarvélinni. Forðum daga sagði þó þessi forseti að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar um fjölmiðlamálið. Hvað ætli hann segi til að reyna að friða þjóðina þegar hann hleypir þessum díl í gegn?

Þessi forseti er sá lélegasti í lýðveldissögunni, verður minnst fyrir dekur sitt við auðmenn og hafa verið klappstýra útrásarvíkinganna og skjalldúkka þeirra. Hann mun ekki setja þetta mál í uppnám. Örlög þessa máls munu ráðast í þinginu. Nú ræðst hvort samviska vinstri grænna er til staðar eða hvort þeir verða teknir í bóndabeygju af formannavaldinu alræmda.

mbl.is Vilja að forseti synji staðfestingu á ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. leggur allt undir fyrir Icesave

Augljóst er að Steingrímur J. Sigfússon leggur sjálfan sig pólitískt algjörlega að veði fyrir Icesave-málið og samninginn svokallaða sem í raun er eitt stórt skuldabréf. Slík er sannfæring hans og afgerandi tjáning að allt er lagt undir - maðurinn sem sagði eitt sinn að við myndum aldrei beygja okkur. Hann er reyndar orðinn eins og Ragnar Reykás blessaður, fátt eftir af þeim manni sem var í stjórnarandstöðu forðum daga. Hann er að fuðra upp heldur betur.

Tap myndi leggja hann pólitískt í rúst og grafa undan honum... í raun verða til þess að hann sé búinn að vera. Alls óljóst er að málið fari í gegnum þingið. Finnst líklegra að það verði fellt í þinginu, en það veltur á þeim stjórnmálamönnum innan VG sem vildu aldrei semja um Icesave og fara dómstólaleiðina, láta reyna á réttarstöðu Íslands.

Munu þeir beygja sannfæringu sína undir flokksaga Steingríms J? Ekki er annað að heyra á fréttum að mikið sé reynt að snúa mönnum. Sannfæring þingmanna skiptir greinilega ekki lengur svo miklu máli.

Er VG að verða eins og gamli Framsóknarflokkurinn á mettíma? Verður þetta Icesave-mál ekki Íraksmál Steingríms J? Við munum öll hvernig Írak lagði Halldór Ásgrímsson í rúst.


mbl.is Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg áhrif í trúarlegu ljósi

Þó ég sé ekki kaþólskur hef ég jafnan borið mikla virðingu fyrir þeirri trú. Eflaust réði miklu þar persónuleg virðing á Jóhannesi Páli II sem var lykilmaður bæði í endalokum einræðis kommúnista í austurhluta Evrópu og í trúarlegum áherslum. Hann var friðarhöfðingi sem vann málstað sínum fylgis og stuðnings með einlægni og kærleika - hafði meiri áhrif með því en þeir sem fóru fram með vopnavaldi og grimmd.

Hann fór í 104 opinberar heimsóknir, heimsótti 129 lönd, varði 822 dögum embættisferils síns, 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum og tók 482 menn í dýrlingatölu sem var meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár.

Mikið afrek, enda eru áhrif hans mikil og framlag hans engu minna virði í sögulegum endalokum austurblokkarinnar en stjórnmálamanna, meira ef eitthvað er. Hann þorði að stíga skrefið á viðkvæmum tímum, einkum fyrir Pólland þegar aðrir þorðu því ekki, en með kærleik að leiðarljósi. Ber virðingu fyrir þessu og tel hann lykilmann í stjórnmálum, einkum vegna þess að hann þorði meðan pólitíkusar sátu hjá.

Eftirmaður hans hefur verið mun umdeildari og ásýnd kaþólskrar trúar eilítið breyst. Hann mun sitja mun skemur og í raun alltaf í skugga Jóhannesar. Mér finnst það samt svolítið merkilegt að horfa á þetta skuespil um jarðneskar leifar Páls postula. Ætli þeir í Vatikaninu telji að fólk trúi þessu? Efast stórlega um það.

mbl.is Leifar Páls postula fundnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsögnin mikla - fórnarlamb frægðarinnar



Michael Jackson varð fórnarlamb þeirrar yfirgengilegu og sjúku frægðar sem einkenndi líf hans allt frá því hann var smákrakki. Ég sé Jacko í raun í sama glampa frægðarinnar og einkenndi stjörnuna Judy Garland, undrabarn og ein mesta stjarna sögunnar sem var misnotuð af fólki í bransanum - notuð algjörlega eins og sölu- og markaðsvörur þar til ekkert var eftir og þau voru sálarlausar verur sem fengu hvorki einkalíf né að njóta þess sem við hin köllum líf.

Judy Garland varð fangi í pillufíkn sinni og söm eru örlög Jacko. Michael Jackson, barnastjarnan mikla sem fór á toppinn og varð kóngur poppsins - einn mesti skemmtikraftur sögunnar - kvaddi heiminn sem sérvitringur og einstæðingur í raun, rétt eins og Howard Hughes. Þetta eru nöpur örlög fyrir þann mann sem lengi vel (og að mörgu leyti enn) var fyrirmynd og hin sanna stjarna tónlistarbransans. Ferill hans gufaði upp í móðu glötunar. Sorglegt.

En saga Michael Jackson er samt sem áður stórmerkileg. Hann var einstök stjarna sem fór á toppinn hæfileika sinna vegna og var þrátt fyrir allt andlit eins merkilegasta tímabils tónlistarsögunnar - elskaður og dáður, sumpart hataður og fyrirlitinn. En rétt eins og fyrrum tengdafaðirinn Presley er Jacko harmdauði. Báðir áttu í stríði við innri djöfla þegar þeir kvöddu og þeir eiga merkilega lík leiðarlok. Báðir voru hylltir í dauðanum.

En Jacko var goðsögn í lifanda lífi - ein merkilegasta stjarna sögunnar, hæfileikaríkur skemmtikraftur og við munum hann öll þannig, þrátt fyrir súrsætt einkalíf og harmleikinn mikla þegar andlitið varð fjarlægt og múmíulegt... stjarnan mikla hvarf í móðuna langt fyrir aldur fram.

Jacko var í raun alltaf lítið barn.... hann var fórnarlamb frægðarinnar, eitt sorglegasta dæmið um hvernig hægt er að éta upp sál. En svona er víst bransinn.

mbl.is Jackson æfði af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michael Jackson látinn



Michael Jackson er látinn, langt fyrir aldur fram. Þó Michael Jackson hafi verið umdeildur og skiptar skoðanir verið um einkalíf hans er ekki um það deilt við andlát hans að þar fer ein af mestu goðsögnum tónlistarbransans á síðustu áratugum. Hann var skemmtikraftur af Guðs náð, fæddist inn í hæfileikaríka fjölskyldu og kom fram opinberlega allt frá því hann var smákrakki þar til hann missti heilsuna - varð algjört skar.



Þessi öflugi tónlistarmaður varð skugginn af sjálfum sér síðustu fimmtán árin og var að lokum orðin hrein hryggðarmynd. En hann átti marga ódauðlega smelli og tryggði sér ævarandi sess með ævistarfi sínu. Lögin Billie Jean, Thriller, Bad og Ben eru þar fremst af mörgum öðrum góðum. Ben er sérstaklega gott lag. 



Svo verður að ráðast hvort lifa lengur sögusagnir um skrautlegt einkalíf hans og sorgleg endalokin þegar hann var afmyndaður af sjúkdómi og misheppnuðum lýtaaðgerðum eða verk hans í tónlistarbransanum. Tónlistarafrek hans munu eflaust lifa, enda var hann stjarna í sérflokki.

mbl.is Michael Jackson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnheiði Elínu Clausen hent út af facebook

Ég ætlaði varla að trúa því þegar ég heyrði að Ragnheiði Elínu Clausen, hinni indælu og notalegu sjónvarpsþulu til fjölda ára, hefði verið hent út af facebook, væntanlega vegna þess að hún hefði verið klöguð eða tekin atlaga gegn henni með einhverjum hætti. Eðlilegt er að spyrja sig hvort hver sem er geti hent öðrum einstakling út af facebook með samþykki yfirstjórnar síðunnar án þess að hafa nokkuð af sér gert.

Ragnheiður Elín hefur verið facebook vinur minn mjög lengi. Hún hefur þar tjáð sig um stöðuna í samfélaginu, verið með myndir úr sínu lífi og gert allt það sem við teljum eðlilegt að gera að öðru leyti á opnum samfélagsvef í samskiptum við vini eða kunningja. Meðferðin á henni er því frekar dapurleg og vonandi að hún fái sín persónulegu gögn til baka og auðvitað helst síðuna sína opnaða aftur.

Lokakaflinn í brotlendingu Hannesar

Svolítið sérstakt er að fylgjast með lokakaflanum í falli athafnamannsins Hannesar Smárasonar, sem eins og FL Group flaug hátt en brotlenti með sorglegum tilþrifum. Ekki fögur slóð sem þessi maður skilur eftir sig, maðurinn sem svo margir vildu líkjast á tímabili og báru virðingu fyrir. Ekki aðeins nógu mikið til að gera hann að viðskiptamanni Íslands og einhverri fyrirmynd í endalokum útrásarinnar innistæðulausu heldur til að búa til frægasta frasa í skaupi árum saman. Hversu oft var annars spurt í skaupinu 2006 af hverju væri ekki hægt að vera eins og Hannes?

Þessi svikamylla er að verða öllum endanlega opinber. Frægt var þó þegar þjóðþekktur maður nefndi FL Group sem FL Enron á sínum tíma. Myndböndin á YouTube um FL Group fyrir hrunið opnuðu endanlega hina ógeðfelldu sýn á veruleikafirringuna og sukkið sem viðgekkst á vakt þessa manns hjá fyrirtækinu. Vissulega var mjög ömurlegt að fylgjast með því hvernig farið var með FL Group í stjórnartíð Hannesar Smárasonar. Þetta er ljót og óhugguleg saga, sagan öll jafnvel enn verri.

Ég fæ ekki betur séð en það sé verðugt verkefni að fara yfir sögu þessa fyrirtækis og hvernig þar var unnið undir þeirri leiðsögn sem er að fá áfellisdóminn mikla nú. Held samt að þetta komi engum að óvörum. Undarlegast af öllu er að maðurinn standi eftir í rústunum og reyni að neita því hvernig unnið var og afneiti vinnubrögðunum. Allir aðrir vita hið sanna í málinu.

mbl.is Hannes segist ekki hafa brotið lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnsteinn bæjarstjóri - góð niðurstaða í Kópavogi

Mér finnst það traust niðurstaða fyrir Kópavogsbæ að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn haldi áfram meirihlutasamstarfi sínu, án Gunnars Birgissonar, og hafi samið um næstu skref og Gunnsteinn Sigurðsson, skólastjóri, taki við sem bæjarstjóri. Aðeins ellefu mánuðir eru til kosninga og eðlilegt að flokkarnir klári kjörtímabilið og sjái svo til að því liðnu. Eðlilegt er að flokksmenn taki af skarið með framtíð þeirra stjórnmálamanna sem deilt sé um og varðandi samstarfið á kjördegi eftir innan við ár.

Með nýjum bæjarstjóra tekst að losna við þau leiðindi sem hafa staðið. Mjög hefur verið sótt að Gunnari Birgissyni. Hvort það er óverðskuldað eður ei verður að ráðast síðar. Fara þarf fram full rannsókn á þeim atriðum sem deilt er um og taka svo ákvörðun um hvort Gunnar Birgisson eigi afturkvæmt til starfa í bæjarstjórn eða verði endurkjörinn leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Þá ákvörðun taka flokksmenn í bænum í prófkjöri vilji Gunnar endurnýjað umboð.

Meðan deilt er um þau atriði er eðlilegt að flokkarnir klári kjörtímabilið og reyni að standa sig í þeim verkum sem þeir sömdu um. Flokkarnir hafa átt farsælt samstarf í tvo áratugi og eðlilegt að það verði kjósendur sem taki ákvörðun um framtíð þess eftir kjörtímabilið.

Hitt er ljóst að meirihlutinn hefur veikst í sessi og þó það haldi gæti verið að innanmeinin séu banamein þess þó það hökti til kosninga. Nú verður að láta reyna á hvort það haldi í ellefu mánuði. Mjög stutt er í að prófkjör fari fram og kosningar verða bráðlega.

Eðlilegt er að kjósendur og almennir flokksmenn taki ákvörðun um framtíð þeirra sem deilt er um og varðandi þennan meirihluta. Eftir nítján ára starf er eðlilegt að reynt sé að klára verkið og kjósendur felli að því loknu dóm um þá flokka sem starfað hafa saman.


mbl.is Samstarfið heldur í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband