Ásthildur Cesil fjarlægir kjaftasöguþráðinn sinn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður spjallvefsins málefnin.com, hefur nú eytt kjaftasögu- og ósannindaþræði sínum þar sem hún gaf í skyn þau ósannindi að ég hefði gengið í Frjálslynda flokkinn til að vinna í haginn fyrir Margréti Sverrisdóttur. Með þessu verklagi sínu braut vefstjórinn eigin málverjaboðorð, boðorð sem virðast ekki vera fimmeyringsins virði. Það er kostulegt að fylgjast með þessu öllu saman.

Reyndar hefur viðkomandi vefstjóri ekki enn sýnt sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessu klúðri sínu - væri hún merkilegri en þessi ómynd sem hún sýndi af sér í gærkvöldi með þessu kjaftasögublaðri myndi hún gera það. En lengi má manneskjuna reyna. Þvílík ómerkilegheit og ógeð sem tíðkast á þessum guðsvolaða spjallvef.

Ómerkileg umræða vefstjórans á málefnum

Í gærkvöldi bendi athugull lesandi mér í tölvupósti á það að í gangi væri umræða á spjallvefnum málefnin.com þar sem Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður vefsins, kemur með kjaftasögu þess efnis að ég hefði átt að hafa gengið í Frjálslynda flokkinn til að styðja Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri flokksins. Þessi saga er uppspuni með rótum, enda hef ég aldrei hitt Margréti eða talað við hana. Einu kynni mín af henni fyrir utan það að heyra af henni í fjölmiðlum er að hún er bloggvinur minn hér á þessu bloggkerfi og er ekki ein um það.

Ég verð að viðurkenna að mér misbauð þessi skrif Ásthildar Cesil og svaraði þeim á vefnum. Hefði ég væntanlega ekki kært mig um það hefði einn nafnleysingjanna komið með þessa ómerkilegu kjaftasögu. Það að vefstjórinn sjálfur komi þar inn með hvaða kjaftasögur sem er olli mér vonbrigðum. Það er greinilegt að þar hefur verið farið fram með meiri kappi en nokkru sinni forsjá. Þessi vefur er reyndar fyrir löngu orðinn brandari. Nægir þar að benda á góð skrif bloggvinkonu minnar, Jónínu Benediktsdóttur, sem hefur staðið sig mjög vel í að skrifa um þennan spjallvef.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir er landsfræg stuðningskona Frjálslyndra, hefur verið varabæjarfulltrúi þeirra á Ísafirði og er skólasystir Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins og mikil vinkona hans. Það verður seint sagt að hún sé óháð og virðist stjórn hennar á þessum spjallvef sem hefur fyrir löngu farið úr öskunni í eldinn ráðast mest eftir hennar behag. Svona ósannar kjaftasögur sem breiddar eru út af vefstjóra þessa vefs eru með ólíkindum og gengisfella bæði vefinn sem slíkan og vefstjórann.

Það er ekkert leyndarmál að mér er mjög illa við Frjálslynda flokkinn og hef gagnrýnt hann í áranna rás allnokkuð. Þrjú ár eru liðin síðan að varaformaður flokksins sagðist í ölæði sínu vilja sprengja mig til helvítis í umræðu á þessum spjallvef. Það er allavega öllum ljóst sem mig þekkja að ég myndi aldrei sjálfviljugur ganga í þennan flokk. Hafi hinsvegar einhver skráð mig í flokkinn og kosið þar í sirkusnum sem var þar um daginn vildi ég gjarnan vita það.

Annars er til annar Stefán Friðrik Stefánsson á öllu landinu, maður sem ég þekki ekki en hef vitað af vegna þess að við berum sama nafn og nokkrum sinnum hef ég fengið símtöl og tölvupóst sem ekki er mér ætlaður heldur honum. Hvort hann hafi skráð sig til liðs við Frjálslynda veit ég ekki og vil ekki vita. Það sem mér finnst verra er að Ásthildur Cesil hefur ekki enn beðist afsökunar á þessum skrifum og eiginlega er ég að bíða eftir því umfram allt annað.

Mér finnst hún hafa sett mjög niður við þetta sem persóna, enda hef ég fram til þessa ekki þekkt hana af neinu vafasömu eða lágkúrulegu. En þessi umræða sannar í eitt skipti fyrir öll að þessi málefnaspjallvefur er orðinn algjör brandari og ekki er vefstjórinn að bæta fyrir virðingu vefsins með skrifum sínum, svo mikið er víst.


Slitinn brandari

Silvía Nótt Jæja, þá er víst Silvía Nótt að snúa aftur, eða allavega reyna að eiga kombakk.... og hún er farin að heimsækja bloggara. Ég botna engan veginn orðið í þessum karakter og þessu öllu. Þetta er orðin hálfgerð óraunveruleikasaga. Þessi brandari byrjaði sem öflugur, náði hámarki sínu með Eurovision-sigri Silvíu fyrir nákvæmlega ári... en eftir keppnina í Grikklandi hefur þetta verið lágstemmt frekar.

Fannst skondið að lesa sögur um heimsóknir Silvíu til bloggara.... maður veit eiginlega ekki hvað segja skal. Þetta er einum of langt gengið myndi ég segja og ég botna engan veginn í þessum vinnubrögðum. Á þetta kannski að vera listrænn gjörningur? Er nema von að spurt sé. Þetta er allavega á mjög undarlega lítinn hátt tengt tónlist allavega. Þetta meikar lítinn sens myndi maður allavega segja.

Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru... þessar nýjustu tiktúrur hennar til samskipta við bloggara landsins er svona einum of.

mbl.is Silvía Nótt herjar á bloggara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg grimmd í sinni verstu mynd

Misnotkun Það hefur því miður afhjúpast æ ofan í æ í gegnum árin að það er mikil grimmd í þessum heimi. Ofbeldi, bæði líkamlegt og sálrænt, er orðið of ráðandi þáttur samfélagsins og það er orðið svo margt ógeðslegt sem kemur upp. Gott dæmi um það hérna heima eru alvarleg mál kennd við Breiðuvík og Byrgið, sem mikið hafa verið í umræðunni. Það allra versta er þó þegar að foreldrar leggja hendur á börnin sín eða hefta frelsi þeirra.

Fannst frekar sorglegt að lesa þessa Moggafrétt. Það er skelfilegt að til séu foreldrar sem loki börnin sín af jafnvel svo árum skiptir og það á þessum tæknivæddu nútímalegu tímum sem við lifum á - þeim tímum sem við stærum okkur af að allt sé svo fullkomið; tæknin og velsældin aldrei meiri. En það er því miður svo að skemmd epli finnast alltaf í stórum körfum. Það sannast af þessari frétt og það er alltaf stingandi að sjá svona heim bakvið tjöldin; heim ofbeldis og kúgunar. Það er aldrei eðlilegt að horfa upp á slíkt.

Sálrænt ofbeldi er engu skárra en líkamlegt ofbeldi. Það vill oft leggjast þyngra á sálina. Það er vissulega hægt að bæla fólk með ýmsum hætti og slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman. En það er alltaf ömurlegt að lesa svona fréttir.... því miður er hún ekkert einsdæmi.

mbl.is Einangraði þrjár dætur sínar frá umheiminum í sjö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír mánuðir til alþingiskosninga

Alþingi Þrír mánuðir eru til alþingiskosninga. Það stefnir í mest spennandi kosningabaráttu í áraraðir - könnunum ber ekki saman og óvissa uppi um stöðu mála. Mikil gerjun virðist vera í pólitíkinni. Óvissa er uppi um hvort fleiri framboð bætist við þá fimm flokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Að mörgu leyti sýnist mér að stefni í mest spennandi þingkosningar frá árinu 1987 er mikil uppstokkun varð.

Fjöldi þingmanna situr nú sínar síðustu vikur á þingi og kveðja brátt stöðu sína í hinu virðulega þinghúsi við Austurvöll. Margir alþingismenn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum og fjöldi þingmanna munu falla í kosningunum ef marka má skoðanakannanir. Það stefnir í mikla uppstokkun. Skv. öllum skoðanakönnum nú stefnir í uppstokkun fylkinga, mismikið fylgistap Framsóknarflokkins og Samfylkingarinnar og viðbót vinstri grænna. Það er því ljóst að miklar mannabreytingar verði á Alþingi.

Kosningabaráttan virðist vera hafin á fullum krafti. Framboðslistar liggja nú flestir fyrir og meginlínur orðnar ljósar. Allir framboðslistar Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir og aðrir flokkar tilbúnir með sitt, enn er þó óvissa um framboðslista Frjálslynda flokksins um allt land og VG í Norðvesturkjördæmi hefur ekki enn gengið frá sínum málum. Formenn flokkanna eru komnir í kosningaham. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa farið í fundaferð um landið en formenn stjórnarflokkanna; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafa verið rólegi í tíðinni en þó nokkuð í fjölmiðlum. Geir var t.d. í Silfri Egils í löngu viðtali um helgina.

Það stefnir í spennandi kosningar. Ef marka má skoðanakannanir verður þetta fjörleg barátta. 90dagar virka ekki mikið á langri ævi eins manns en fyrir stjórnmálamann í hita og þunga tvísýnnar og spennandi kosningabaráttu eru 90 dagar sem heil eilífð. Harold Wilson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sagði sem frægt varð að vika væri langur tími í stjórnmálum - sem voru orð að sönnu svo sannarlega. Þetta verða líflegir þrír mánuðir, svo mikið er víst.

Vonbrigði að flugvöllur verði ekki lengdur á árinu

Akureyrarflugvöllur Það eru nokkur vonbrigði fyrir okkur hér að fyrst sé gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun vegna lengingar flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli um 460 metra til suðurs á næsta og þarnæsta ári. Helst hefði þurft að fara í verkefnið á þessu ári, enda er þetta fyrir löngu orðið þarft verkefni og hefði í raun átt að vera byrjað á því fyrr hefði til þess verið vilji og dugur í þeim sem ráða för með samgöngumálin.

Ég fer ekki leynt með það að ég hef orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með það hversu mjög Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, hefur dregið lappirnar í þessum efnum, svo mjög að okkur flokksfélögum hans hér á svæðinu er orðið nóg um. Óþarfa töf á lengingu flugvallarins hefur þegar kostað það að vetrarflugi milli Akureyrar og  Kaupmannahafnar var hætt fyrir jólin, enda stenst aðstaðan ekki orðið grunnmarkmið varðandi þjónustu að vetri.

Það er vissulega mikilvægt að það sjáist að ráðamönnum er alvara með tali sínu um lengingu vallarins. Um hana hefur verið talað árum saman, en málið varla hreyfst spönn frá túngarði. Það hefur verið talað um lengingu Akureyrarflugvallar um þónokkuð skeið, en ekkert gerst í þeim efnum og greinilegt á áætlunum að biðinni er ekki lokið þó við sjáum nú glitta í fjármagn fyrir þessu löngu þarfa verkefni. Akureyrarflugvöllur er mikilvæg samgöngumiðstöð hér og það þarf að búa henni þann sess sem mikilvægt telst.

Efndum á mjög fögrum loforðum hefur verið beðið eftir í árafjöld frá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Það verður seint sagt að við Norðlendingar séum hoppandi sælir með sniglagang verklags í samgönguráðuneytinu undanfarin ár. Það er þó gott að vita að þessi ráðherra sé þess megnugur að standa við stóru orðin og koma þessu máli úr umræðugírnum og á vegferð framkvæmda. Þó þarf enn að bíða... sem afleitt telst.

mbl.is Akureyrarflugvöllur lengdur árið 2008 og 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinsældir ISG afhjúpa veikleika Samfylkingarinnar

ISG Stærsti vandi Samfylkingarinnar virðist afhjúpast með áberandi hætti í könnun Fréttablaðsins í dag á því hvaða stjórnmálamönnum þjóðin treystir best. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er þar sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir síst - hún ber þar höfuð og herðar yfir alla aðra. Óvinsældir hennar meðal þjóðarinnar eru þar mjög áberandi. Þetta verður enn meir afgerandi þegar að litið er á það að 28% segjast styðja flokkinn en aðeins 12% segjast treysta Ingibjörgu Sólrúnu til forystu.

Ingibjörg Sólrún sagði í frægri ræðu í Keflavík að vandi flokksins væri að þjóðin treysti ekki þingflokknum þeirra. Það er greinilegt á þessum tölum og þessari stöðu að þjóðin treystir ekki Ingibjörgu Sólrúnu. Það er allavega ljóst að formaður stjórnmálaflokks sem hefur lengi verið í stjórnarandstöðu og mælist ekki í uppsveiflu milli kosninga er að mistakast ætlunarverkið og mistakast að byggja sig upp sem trúverðugt leiðtogaefni til æðstu metorða; forystu í nafni þjóðarinnar. Hún hefur ekki þann meðbyr sem vænst var eftir. Þessi könnun og aðrar slíkar að undanförnu staðfesta það vel. ISG verður því að horfa í eigin barm en ekki þingflokksins síns.

Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar á fyrirheitum um að gera betur en Össur Skarphéðinsson, maðurinn sem byggði Samfylkinguna upp sem stjórnmálaflokk fyrstu skrefin eftir erfiðar samningaviðræður til vinstri. Hún náði þeim sess fyrst og fremst á fornri frægð sem borgarstjóri í Reykjavík sem leiddi sameinað félagshyggjuframboð til valda þrjár kosningar í röð. Henni virðist ekki vera að takast að vinna sama leikinn á flokksvelli á eigin verðleikum. Hún virðist ekki vera á sömu braut og forðum var. Enda má segja það með sanni að stjórnmálaferill hennar hafi verið ein sorgarsaga eftir að hún missti borgarstjórastólinn.

Það hefur gengið brösugt fyrir hana að standa við fyrirheit sín til flokksmanna um að efla stöðu Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún virðist enda mjög umdeild innan raða flokksins. Í prófkjöri flokksins í Reykjavík í nóvember hlaut hún fyrsta sætið með 70% kosningu. Sigurinn í sætinu var afgerandi en þó nokkuð beiskur fyrir hana. Vakti þetta sérstaka athygli auðvitað vegna þess að ekkert annað framboð var í fyrsta sætið. Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta var því varla gleðiefni fyrir hana og sýndi vel stöðu mála bakvið tjöldin, enda fékk Össur fjölda atkvæða í fyrsta sætið.

Staða Ingibjargar Sólrúnar telst ekki góð fyrir stjórnmálaleiðtoga í stjórnarandstöðu - leiðtoga flokks sem aldrei hefur verið í ríkisstjórn. Þessi mæling boðar ekkert gott fyrir flokk eða formann. En þessi mæling greinir vandann sem Samfylkingin á við að etja. Það er enda erfitt að selja flokk í kosningum þegar að þjóðin treystir ekki þeim sem leiðir hann, jafnvel ekki einu sinni eigin flokksmenn.

Ríflegur samgöngupakki næsta áratuginn

Malarvegur Þá hefur hulunni verið svipt af samgönguáætlun næsta áratugar, árin 2007-2018. Þar eru mörg stór samgönguverkefni kortlögð til fulls. Mikil leynd hefur ríkt yfir áætluninni og hefur stjórnarandstaðan flutt ófáar ræðurnar þar sem spurt er út í komandi verkefnum á meðan að áætlunin var enn í vinnslu í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur og framlög til samgönguáætlunar verði 381,4 milljarðar króna á þessum ellefu árum sem áætlunin lýsir og af þeirri upphæð renni kringum 324 milljarðar króna eða 85% til vegamála. Til flugmála renna kringum 35 milljarðar og siglingamála 22 milljarðar. Vinna við áætlunina hefur staðið lengi og kominn tími til að hjúpa hulunni af henni. Samgöngumálin eru þess eðlis að allir vilja að munað sé eftir þeirra svæði og átök milli kjördæma og svæða verða óhjákvæmileg.

Í nóvember boðaði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, stórátak í vegamálum á fundi Samtaka verslunar og þjónustu. Það var vissulega ánægjulegt að heyra það. Þá boðaði hann fjögurra akreina veg hingað norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti, þangað sem beygt yrði niður að Bakkafjöru og höfn sem byggð yrði þar fyrir Vestmannaeyjaferju. Það var ánægjulegt að heyra þá að ráðherrann hefði einhvern metnað fyrir því að bæta samgöngur norður og leggja jafnvel fjögurra akreina veg hingað norður í land.

Allir sem fara leiðina Akureyri - Reykjavík sjá vel að leiðin er löngu sprungin og kominn tími til að hugsa stórt í þessum efnum. Okkur hér fyrir norðan hefur fundist leitt að ráðherrann hafi ekki hugsað nógu stórt varðandi styttingu leiðarinnar. En það er eins og það er bara. Það verður allavega fróðlegt að kynna sér samgönguáætlunina; sjá verkefni næsta áratugar og hugmyndir framtíðarinnar birtast þar.

Samgöngumál skipta alla landsmenn miklu máli og því er þessi áætlun stórt og mikilvægt plagg, ekki bara tölur á hvítum ráðuneytisblöðum.

mbl.is Rúmir 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul dagblöð öðlast nýtt líf á netinu

Sigrún Klara og Sigrún BjörkSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrituðu í morgun samstarfssamning sem felur í sér fulla stafræna endurgerð á prentuðu efni nokkurra dagblaða og færslu þess yfir á veraldarvefinn. Um er að ræða stafræna endurgerð Dags, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins og birtingu þess á Netinu. Verður verkefnið allt unnið hér nyrðra.

Nú þegar hefur verið unnið að því að setja Morgunblaðið allt á stafrænt form og hægt er að lesa það með auðveldum hætti allt aftur til stofnárs, árið 1913. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu vegna þessa verkefnis er auk Morgunblaðsins búið að mynda Lögberg-Heimskringlu svo og öll íslensk tímarit og dagblöð sem eru eldri en frá árinu 1920 - mun síðufjöldi stafrænna gagna sem er nú að fullu aðgengilegur á netinu kominn nokkuð á aðra milljón.

Það er mikilvægt að standa vörð um gömul dagblöð, tímarit og rit sem hafa verið áberandi í samfélaginu. Sum þeirra eru ekki lengur gefin út og hafa því sagt sitt síðasta. Það er mikilvægt verkefni að gera þetta aðgengilegt með auðveldum hætti og að hægt sé að kynna sér gömul blöð á netinu og lesa gamlar fréttir og gömul viðtöl. Þetta er arfur sem færa þarf framtíðarkynslóðum og það verður aðeins gert með öflugu átaki til fullrar varðveislu þeirra.

Það er sérstakt gleðiefni að standa eigi vörð um öll blöð dagblaðsins Dags, sem gefinn var út hér á Akureyri í tæp áttatíu ár. Það blað skipar stóran sess í norðlenskri sögu. Að því blaði er að mínu mati mikil eftirsjá og mér hefur fundist sess þess ekki hafa verið fyllt hér, þó vissulega komi Vikudagur út og hafi gert í tæpan áratug. Það hvernig fór fyrir Degi var leiðindasaga, ég er einn þeirra sem enn sakna þess að lesa það að morgni. Veit ég að fleiri eru sama sinnis.

Nú hefur verið hafið sérstakt átak að standa vörð um þessi gömlu blöð og færa þau landsmönnum með auðveldum hætti. Undirritun þessa samnings er því sérstakt gleðiefni. Sérstaklega hljótum við hér fyrir norðan að gleðjast yfir því að öll eintök Dags verði sett á netið og sú merka saga sem það blað skipar í huga okkar hér verði aðgengileg með einföldum tölvusmelli.

Stefnt er að því að efnið verði allt aðgengilegt í gegnum slóðina tímarit.is.


mbl.is Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Geirs - Ingibjörg Sólrún óvinsæl

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sá stjórnmálamaður sem flestir landsmenn treysta best, skv. nýrri könnun Fréttablaðsins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, er hinsvegar sá stjórnmálamaður sem þjóðin treystir síst. Næstir á eftir Geir í vinsældum komu Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún, Össur Skarphéðinsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Jón Sigurðsson.

Á eftir Ingibjörgu Sólrúnu með minnst traust koma Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Valgerður Sverrisdóttir og Guðjón Arnar Kristjánsson. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður. Þær sýna sterka stöðu forsætisráðherrans en greinilega veikari stöðu formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Það er merkilegt að sjá að sá einstaklingur sem leiðir flokk sem hefur verið lengi í stjórnarandstöðu og sækist eftir völdum sé að mælast með minnst traust landsmanna. Það getur varla verið gleðiefni fyrir Samfylkinguna.

Það sem er greinilegt í þessu er að Steingrímur J. Sigfússon er minnst umdeildur leiðtoganna til vinstri, er bæði vinsælli en Ingibjörg Sólrún og mun minna óvinsæll. Geir hefur verið ráðherra í áratug og leitt stærsta flokk landsins, stjórnarflokk í sextán ár, svo að staða hans hlýtur að teljast góð. Verulega athygli vekur að nýr formaður Framsóknarflokksins virðist ekki höfða vel til landsmanna, kannski ágæt hliðardæmi þess að Framsókn er sýnd í sama úrtaki í sögulegri fylgislægð.

Það stefnir í spennandi þingkosningar - þar mun reyna mikið á stjórnmálamennina og hversu mjög einmitt landsmenn treysta þeim. Er á hólminn kemur ráðast kosningarnar mikið á frammistöðu þeirra sem leiða flokkana, þeirra sem mest eru í sviðsljósinu.

mbl.is Flestir treysta Geir af stjórnmálaleiðtogunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn vill heilbrigðismálin til sjálfstæðismanna

Björn BjarnasonBjörn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni orðið tímabært að Sjálfstæðisflokkurinn fái heilbrigðisráðuneytið í sinn hlut og fái tækifæri til að takast á við málaflokkinn. Tveir áratugir eru liðnir frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafði síðast ráðuneytið undir sinni verkstjórn og aðeins tveir sjálfstæðismenn hafa setið á ráðherrastóli þar frá stofnun ráðuneytisins árið 1970; þau Matthías Bjarnason og Ragnhildur Helgadóttir.

Tek ég heilshugar undir þessa skoðun Björns. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið samfellt í ríkisstjórn í sextán ár, fyrstu fjögur ár þess tíma var málaflokkurinn hjá Alþýðuflokknum en í tólf ár, eða frá árinu 1995, hefur Framsóknarflokkurinn haft heilbrigðismálin. Hefði farið vel á því að við sjálfstæðismenn hefðum fengið þennan málaflokk í okkar hlut eftir alþingiskosningarnar 2003, enda verið rétt og eðlilegt þá að meiri hrókeringar hefðu orðið á ráðuneytum. Heilbrigðismálin voru sá málaflokkur sem ég hefði allavega helst viljað í hlut flokksins þá.

Það er langur tími liðinn, heilir tveir áratugir, liðnir frá því að sjálfstæðiskonan Ragnhildur Helgadóttir var heilbrigðisráðherra. Síðan hafa kratar og framsóknarmenn leitt verkin þar, eins og fyrr segir lengst af í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Verði Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn í vor finnst mér mjög mikilvægt að hann fái ráðuneytið í sinn hlut.


mbl.is Sjálfstæðismenn fái heilbrigðismálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótti um stórslys - 112 dagurinn haldinn hátíðlegur

112 dagurinnÉg hélt svei mér þá að það hefði orðið stórslys hér á Akureyri í hádeginu í dag þegar að sjúkrabílar, slökkviliðsbílar og bílar björgunarsveitanna keyrðu allar hér niður Þórunnarstrætið með sírenur gjallandi á fullu gasi. Þetta var allavega ekki sérstaklega ánægjulegt áheyrnar að heyra sírenuvælið og sjá allan þennan viðbúnað. Þetta er allavega ekki algeng sjón að sjá hér og ég hélt í svipinn að mjög alvarlegt slys hefði orðið.

Svo var þó sem betur fer ekki. Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á að 112 dagurinn var í dag og þetta hefði því verið svokölluð 112 lest sem fór niður Þórunnarstrætið, en í henni voru fyrrnefndir bílar. Það er þarft og gott verkefni að minna vel á neyðarlínuna á þessum táknræna degi sem minnir á símanúmerið, 112, og það góða starf sem unnið er þar.

Að þessu sinni var dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð, sem er mjög verðugt að minnast á degi sem þessum. En ég man allavega framvegis eftir 112 lestinni, svo að hún komi mér ekki svona að óvörum.


mbl.is 112 dagurinn helgaður störfum sjálfboðaliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Queen og Helen Mirren blómstra á Bafta

Helen Mirren í The QueenVar að enda við að horfa á afhendingu bresku Bafta-kvikmyndaverðlaunanna í London. Það kom engum að óvörum að kvikmyndin The Queen og aðalleikkonan Helen Mirren hafi verið í aðalhlutverki þar að þessu sinni. Myndin var valin sú besta þetta árið og Mirren besta leikkonan og þykir nær öruggt að hún muni hljóta óskarsverðlaunin í Los Angeles eftir hálfan mánuð. Myndin hefur hlotið mikið lof og verið í forgrunni breskra mynda síðasta árið.

Í The Queen fer Mirren algjörlega á kostum í túlkun sinni á Elísabetu II Englandsdrottningu. Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar fyrir bresku konungsfjölskylduna í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París þar til að drottningin varð að víkja af leið sinni og votta prinsessunni hinstu virðingu sína í sögulegu ávarpi til bresku þjóðarinnar frá Buckingham-höll tæpum sólarhring fyrir útför hennar. Þessir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Þessa daga stefndi konungsfjölskyldan í sögulega glötun en náði að snúa atburðarásinni við með að mæta þjóð í sorg.

Það er ljóst að myndin er mikils metin ennfremur utan Bretlands. Hún lýsir atburðum sem mörkuðu ekki aðeins breska sögu og eina eftirminnilegustu þjóðarsorg í seinni tíma sögu heldur var dauði prinsessunnar alheimsviðburður. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þarna er lýst einum sviplegasta atburði tíunda áratugarins í Bretlandi og víðsvegar í hinum vestræna heimi. Sigurganga myndarinnar segir enda sína sögu um hversu mikils hún er metin. The Queen er tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 2006 á óskarsverðlaununum og er reyndar varla talin sigurstrangleg þar, en tilnefning hennar umfram mynd á borð við t.d. Dreamgirls segir sína sögu.

Hálfur mánuður er í afhendingu Óskarsverðlaunanna eins og fyrr segir. Bafta er nú orðinn einn helsti megináfanginn í áttina að Óskarnum, sem hafa í áratugi verið fremstu kvikmyndaverðlaunin á heimsvísu. Bafta skipta meira máli eftir að þau voru færð til og umbúnaður þeirra verður sífellt meiri með hverju árinu. Þessi verðlaunaafhending í kvöld marka endanlega sigurgöngu Helen Mirren í áttina að Óskarnum. Í kvöld hlaut Forest Whitaker Bafta-verðlaunin fyrir túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland og þykir orðið nær öruggt að hann muni fá óskarinn. Sama má segja um nýstirnið Jennifer Hudson sem hlaut verðlaunin fyrir Dreamgirls.

Mikla athygli mína vakti að Paul Greengrass hlaut verðskuldað leikstjóraverðlaunin fyrir United 93, þar sem lýst er með ógleymanlegum hætti sögu flugs 93, sem var rænt á leiðinni frá New York til San Fransisco 11. september 2001 og átti að verða skotmark hryðjuverkamanna. Með miklu hugrekki og krafti tókst farþegum vélarinnar að yfirbuga flugræningjana og taka yfir vélina. Það var þó of seint en flugræningjarnir stefndu vélinni í glötun er ljóst var að flugránið var farið út um þúfur og tókst farþegunum ekki að bjarga henni. Vélin fórst kl. 10:02 er hún steyptist niður á tún í Shanksville í Pennsylvaníu, eina vélin sem ekki flaug á skotmark. Eftirminnileg mynd.

Alan Arkin hlaut verðlaunin fyrir leik í aukahlutverki fyrir Little Miss Sunshine, góð leikframmistaða og svo sannarlega tilefni til að heiðra leiksnillinginn Arkin fyrir flotta túlkun á hausti leikferils hans. Auk þess hlaut Little Miss Sunshine verðlaunin fyrir besta frumsamda handritið og The Last King of Scotland fyrir besta handritið byggt á áður útgefnu efni. Það er allavega að styttast í Óskarinn og þetta gefur einhverjar vísbendingar, þó vissulega hafi Bretarnir ekki alltaf verðlaunað í takt við Óskarinn að þá er þetta innlegg í spádómana og pælingarnar um hvað gerist í LA eftir hálfan mánuð.

Bendi annars á góða samantekt BBC um Bafta-verðlaunin 2007.


Hvítþvegið einræðislýðræði í Túrkmenistan

Túrkmenabashi Eftirmaður einræðisherrans Saparamurat Niyazov á forsetastóli í Túrkmenistan var kjörinn í dag. Úrslit liggja fyrir á miðvikudag. Niyazov sem ríkti í landinu í yfir tvo áratugi lést skömmu fyrir jól en hann neyddi þjóðina til að kalla sig Túrkmenabashi (föður allra Túrkmena) en hann var forseti til lífstíðar þar og þar hafði verið fullt einræði frá endalokum Sovétríkjanna. Í ljósi þess að þetta er einræðisríki kemur varla að óvörum að æðstaráð kommúnistaflokksins þar hafi fyrirskipað hverjir máttu gefa kost á sér í forsetakjöri í dag.

Æðstaráðið valdi formlega sex frambjóðendur, sem allir koma auðvitað úr sama flokknum og eru því fylgisveinar Túrkmenabashi um að ræða. Forsetakjör hefur ekki farið fram síðan á fyrstu valdaaárum Turkmenabashi og þá var hann einn í kjöri - flokkurinn valdi forsetaefni og þjóðin hafði ekki annað val. Athyglisvert var að formaður kjörstjórnar er áberandi fylgismaður Gurbanguly Berdymukhamedov (mjög erfitt nafn í framburði), starfandi forseta, sem er einn frambjóðenda og líklegast er að hann muni verða næsti forseti.

Athyglisvert var annars í þessum kosningum að nú var frambjóðendunum sérstaklega leyft að hitta kjósendur og kynna stefnumál sín i fjölmiðlum, en það var ekkert áður sem heimilaði í lögum landsins eðlilega kosningabaráttu með kynningu á frambjóðendum með almennum hætti og það var auðvitað ekki, enda hefur ekki farið fram forsetakjör í landinu í tæpa tvo áratugi þar sem forsetinn var sjálfskipaður einræðisherra.

Niyazov ríkti í Túrkmenistan frá árinu 1985, á meðan það tilheyrði enn gömlu Sovétríkjunum. Persónudýrkun hans í nafni kommúnismans varð svo yfirþyrmandi að hann var ekki aðeins dýrkaður sem Guð væri þar og nefndur faðir allra landsmanna heldur var landið allt veggfóðrað af myndum af honum og hann var dýrkaður sem trúarleg fígúra væri.

Segja má að persónuleg dýrkun á einum dauðlegum manni hafi sjaldan verið meiri en einmitt í Túrkmenistan valdatíðar Túrkmenabasha. Það verður fróðlegt að sjá hver tekur við völdunum í svona kúguðu einræðisríki kommúnisma við þessar aðstæður sem nú eru.

mbl.is Mikil kjörsókn í forsetakosningum í Túrkmenistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegir heimar nútímatækninnar

Jörðin Það fer ekki á milli mála að Google Earth er mikil töframaskína. Það er ævintýralegt að kynna sér heiminn með þeim hætti sem það býður upp á. Það var alveg ótrúlegt að geta með hjálp þess zoom-að inn með gríðarlega góðum fókus á næstum því hvaða stað í heiminum sem er. Forritið byggir á kortaupplýsingum, google leitarvél og gervihnattamyndum.

Með því að mæla út þann stað sem maður vill er enda farið í nýjan tækniheim. Það er varla hægt að upplifa skemmtilegri og gagnvirkari upplifun að heimsborgunum og með þessu er hægt að kynna sér staði sem manni hefur dreymt um jafnvel um árabil að upplifa en kemst á með einum tölvusmelli. Merkilegt fannst mér t.d. að skoða pýramídana í Egyptalandi og þræða jafnvel heitustu sléttur eyðimerkanna og kuldalegar slóðir norðlægra slóða. Möguleikarnir eru endalausir.

Það er allavega ekki hægt að segja annað en fyrir þá sem dreymir um fjarlægar slóðir og upplifa nýjar hliðar heimsins sé þetta ævintýralega gaman. Þetta er enda eins og að vera kominn í rándýra og flotta Hollywood-mynd satt best að segja. Bendi öllum á að lesa fréttina hér að neðan, ein skondin saga þeirra sem upplifa nýja heima.

Ég hvet alla sem vilja skoða heiminn í nýju ljósi að upplifa þetta.

mbl.is Sá brennandi bát við Ísland á mynd á Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur í sögu Framsóknarflokksins

Guðni og Valgerður Framsóknarflokkurinn mælist með lægsta fylgi sitt í sögu skoðanakannana hérlendis í dag. Þetta er hiklaust svartur dagur í sögu hans. Skv. könnun Fréttablaðsins er tilvera Framsóknarflokksins í raun komin í verulega hættu, það er ekki flóknara en það. Fylgi af þessu tagi og hrun af þessum skala yrði flokknum gríðarlegt áfall og sögulegt afhroð yrði það talið. Þetta er allavega söguleg mæling sem athyglisvert var að vakna upp við í dag.

Framsóknarflokkurinn mælist í þessari könnun með aðeins tvo þingmenn inni. Það er mjög freistandi að gefa sér það að það séu þau Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem séu að mælast inni og enn uppistandandi í þessu mikla hruni sem blasir við flokknum á þessum degi. Þetta er sláandi staða og hefði einhverntímann þótt forsíðuletursins virði með mjög dökku letri að Framsóknarflokkurinn myndi mælast með innan við 5% fylgi. Þetta er allavega nokkur frétt sé litið yfir 90 ára sögu Framsóknarflokksins, sem hefur verið flokkur valda og mikilla áhrifa í samfélaginu.

Það blasir mikið verkefni við Framsóknarflokknum næstu 90 dagana. Flokkurinn hefur mælst illa um langt skeið. Kjörtímabilið hefur nær allt verið sorgarsaga hin allra mesta fyrir flokkinn. Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum eftir frekar dramatískan og eiginlega mun frekar sorglegan forsætisráðherraferil sem markaðist af því hvernig þessi reyndi flokksleiðtogi allt að því fjaraði út eins og lokalagið á ballinu. Halldór skilaði flokknum í hendur Jóns Sigurðssonar. Jón virðist vera með tröllvaxið verkefni fyrir framan sig og flokkurinn er í frjálsu falli. Það mun reyna mjög á pólitíska forystu Jóns næstu 90 dagana og hvernig hann siglir skipi til hafnar.

Það væri verðugt verkefni fyrir gárungana að reyna að greina hvernig að þingflokki Guðna og Valgerðar sem mælist í Fréttablaðinu gengi að vinna saman. Það yrði varla þingflokkur sem myndi dansa vangadans á rauðum rósum gleðinnar. En að öllu gamni slepptu; þetta er svartur dagur fyrir Framsókn. Ótrúlegt fylgishrun og mikill lífróður sem blasir við elsta starfandi stjórnmálaflokki þjóðarinnar og leiðtoga hans sem aðeins hefur verið á pólitíska sviðinu í níu mánuði. Nú er að duga eða drepast fyrir samvinnumanninn Jón.

Þetta verða 90 ógleymanlegir dagar í sögu Framsóknarflokksins. Kosningabaráttan er að snúast upp í pólitíska lífsbaráttu. Þvílík staða - þvílík barátta sem við flokknum blasir.


Bendi annars lesendum á skrif um Framsókn eftir nýlega Gallup-könnun sem sýndi Framsókn með sex þingsæti og mikið fall en þó mjúka fylgisdýfu miðað við stöðuna nú.

Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?
pistill SFS - 4. febrúar 2007

Vinstrisveifla í skoðanakönnun - Framsókn hrynur

Forsíða FréttablaðsinsSkv. skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag fengju Samfylkingin og VG þingmeirihluta, eða 33 þingsæti, og Framsóknarflokkurinn bókstaflega hrynur og mælist aðeins með tvö þingsæti, bæði á landsbyggðinni. Framsókn mælist með lægsta fylgi sitt í sögu kannana Fréttablaðsins nú og virðist stefna í sögulegt afhroð flokksins gangi hún eftir. Þetta er minnsta fylgi sem Framsóknarflokkurinn hefur nokkru sinni hlotið í skoðanakönnun.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir kjörfylginu árið 2003 en hefur lækkað milli kannana. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi en mælist enn undir kjörfylginu í alþingiskosningunum 2003, mælist nú með 18 þingsæti í stað 20 í síðustu kosningum. VG mælist með 15 þingsæti en fékk 5 í kosningunum fyrir fjórum árum og virðist vera að stórauka því fylgi sitt. Það mælist í öllum könnunum þessar vikurnar. Þessi könnun er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að þessir tveir flokkar mælast með þingmeirihluta. Frjálslyndir dala nokkuð frá síðustu könnun blaðsins og mælast með fjóra þingmenn.

Könnunin var gerð í gær. Hækkandi fylgi Samfylkingarinnar kemur á þeim tíma þar sem fylgi flokksins hefur verið í frjálsu falli, en nýlega fékk flokkurinn vonda mælingu hjá Gallup og Blaðinu og síðasta Fréttablaðskönnun var flokknum vond. Ef marka má hinsvegar þessa könnun er vinstrisveifla í stöðunni en Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu. Stóru tíðindin er það sem mætti kalla frjálst fall Framsóknarflokksins, allnokkur tíðindi og í raun ótrúleg staða fyrir flokk sem nýlega hefur skipt um formann en vissulega verið í ríkisstjórn í tólf ár.

Aðeins eru nokkrir dagar milli kannana Fréttablaðsins og Blaðsins. Úrtakið er svipað og svarhlutfallið er í báðum þeirra lágt. Aðeins tæp 55% tóku afstöðu til spurningarinnar um flokkana og því ljóst að margir gefa sig ekki upp. En það er allnokkur munur á mælingunni svo vægt sé til orða tekið. Enn eru tvær og hálf vika í könnun frá Gallup, en þá verður fróðlegt að sjá stöðuna, bæði eftir klofning Frjálslyndra og ekki síður nýlegar tilraunir forystu Samfylkingarinnar til að vera trúverðug.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi þingkosningar - það eru 90 dagar í kjördag og fjörið er að hefjast á fullu. Erfitt er að spá um hvernig fer og hátt hlutfall óákveðinna sýnir það vel hversu mikil pólitísk gerjun er þessa dagana. Þetta verða líflegar og áhugaverðar kosningar, svo mikið er víst.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyrarbær fagnar hugmyndum um Norðurveg

Sigrún Björk Jakobsdóttir Á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar undir lok vikunnar var samþykkt bókun þar sem fagnað er hugmyndum sem kynntar voru nýlega um Norðurveg, vegaframkvæmd um Kjöl, sem myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um tæpa 50 kílómetra og á milli Akureyrar og Selfoss styttist leiðin um 141 kílómetra. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, lagði fram bókunina, sem hljóðar svo:

Bæjarráð Akureyrar fagnar hugmyndum sem kynntar voru í vikunni um Norðurveg. Framkvæmdin sem slík styttir vegalengdir milli tveggja stærstu og fjölmennustu svæða landsins frá 50-150 km. eftir því við hvaða staði er miðað. Þessi stytting á leiðinni þýðir mun minni olíueyðslu, minni mengun og þar með minna útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Þar sem að Kjalvegur er hugsaður sem verkefni í einkaframkvæmd mun það ekki hafa áhrif á röð annarra brýnna framkvæmda í samgöngumálum. Ef af verður er áríðandi að endurbygging á veginum um Kjöl verði framkvæmd með þeim hætti að raski verði haldið í algjöru lágmarki og að við hönnun vegarins verði umhverfisvernd höfð að leiðarljósi.

Það er ekki annað hægt en að fagna þessari bókun bæjarráðs. Þetta líst mér vel á.

mbl.is Bæjarráð Akureyrar fagnar hugmyndum um Norðurveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama í forsetaframboð - spenna hjá demókrötum

Barack Obama Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama leiftraði af krafti á blaðamannafundi í Springfield fyrir stundu þar sem að hann lýsti formlega yfir framboði sínu til embættis forseta Bandaríkjanna. Obama yrði fyrsti þeldökki forseti Bandaríkjanna næði hann útnefningu flokksins og kjöri í Hvíta húsið í kosningunum 4. nóvember á næsta ári. Obama flutti frábæra ræðu, sem ég horfði á með áhuga á Sky, fyrir utan ríkisþinghúsið í Illinois, þar sem Abraham Lincoln flutti leiftrandi ræður forðum. Þar talaði leiðtogi með mjög skýr markmið.

Aðalkeppinautur hans um útnefningu Demókrataflokksins verður Hillary Rodham Clinton, starfsfélagi hans í öldungadeildinni og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna. Eitt eiga þau sameiginlegt. Bæði eiga þau rætur í Illinois og koma þaðan - þar hófst pólitík þeirra. Þau eru bæði úr ríkinu sem fóstraði Abe Lincoln fyrstu skrefin í áttina að sögulegum pólitískum ferli. Ef marka má stöðuna nú er öruggt að annað þeirra nær útnefningunni. Baráttan verður hiklaust mjög hörð og lífleg átök marka baráttuna. Enn er langt í forkosningar, ellefu mánuðir, svo að búast má við að þau verði að hafa sig öll við til að halda lífi og fjöri í baráttunni.

Framboð þeirra beggja er sögulegt og það mun komast í sögubækurnar nái annað þeirra útnefningunni. Obama er fyrsti blökkumaðurinn með raunhæfa möguleika á útnefningu demókrata og Hillary fyrsta konan. Það yrði svo enn sögulegra muni annað þeirra standa á svölum þinghússins í Washington þann 20. janúar 2009 og sverja embættiseiðinn andspænis John Roberts, forseta Hæstaréttar. Enn er talað um að Al Gore gæti bæst í hópinn, þó hann hafi sjálfur neitað því og margir telji að hann ætti erfiðan slagur við þessi tvö. Það er þó óvarlegt að útiloka Gore og enn er unnið bakvið tjöldin að framboði hans. Færi hann fram yrði það stjörnum prýddur slagur, enda teljast þessi þrjú öll til stjarna innan flokksins.

Barack Obama virðist hafa allt sem þarf. Innkoma hans í þennan útnefningaslag er söguleg. Hann er án vafa fyrsti blökkumaðurinn sem á raunhæfan möguleika á að ná völdum í Bandaríkjunum. Hann er leiftrandi sameinuð útgáfa John F. Kennedy og Martin Luther King að mínu mati. Það leikur enginn vafi á að hann er skærasta stjarna blökkumanna síðan að séra King var og hét. Allt frá sviplegum dauða Kings fyrir fjórum áratugum hefur blökkumönnum í Bandaríkjunum vantað alvöru leiðtoga, sannkallað sameiningartákn. Það virðist að koma til sögunnar með þessum þingmanni frá Illinois sem hefur á örfáum árum tekist að verða pólitísk stjarna, leiftrandi leiðtogaefni og umfram allt von blökkumanna á forsetaefni.

Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Nú er stefnan sett á æðstu metorð. Fyrir jól fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram í janúar 2008, og fékk svo gríðarlega sterkar viðtökur að sagt er að farið hafi um Clinton-hjónin. Segja má að hann hafi fengið þar mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þeim tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton er honum tókst að komast í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum.

Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu. Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja.

Ákvörðun Barack Obama og leiftrandi ræða hans á nöprum vetrardegi í Springfield kveikir líf og funa í forsetaslag demókrata. Framundan er spennandi slagur milli fyrsta blökkumannsins og fyrstu konunnar sem raunhæfa möguleika hafa á að ná Hvíta húsinu. Það stefnir í söguleg átök - hvernig sem fer.

mbl.is Obama lýsir formlega yfir framboði sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir kjörinn formaður KSÍ með yfirburðum

Geir Þorsteinsson Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, var í dag kjörinn eftirmaður Eggerts Magnússonar á formannsstóli Knattspyrnusambands Íslands með yfirburðum. Hlaut Geir yfir 70% atkvæða í kosningunni þar sem hann keppti við Jafet Ólafsson og Höllu Gunnarsdóttur. Sérstaklega vekur athygli mína hversu lítinn stuðning Halla hefur meðal þingfulltrúa, en þó var vel ljóst að hún hafði mikinn stuðning úti í samfélaginu.

Geir hafði lengi unnið hjá KSÍ og hafði mikinn stuðning stórra og öflugra knattspyrnufélaga og því öllum ljóst er haldið var inn í þingið að staða hans væri sterk en þó var ég að vona að það yrði meiri spenna í þessu og allavega færi fram önnur umferð. En þetta er víst svona og fer eftir bókinni ef svo má segja. Það er greinilegt að Eggert Magnússon hefur mikil ítök þarna inni og vilji hans nær algjör lög, ef svo má að orði komast.

Eggert Magnússon lætur nú af formennsku í KSÍ, en hann hefur leitt starf þess í átján ár, eða allt frá árinu 1989, en Eggert tók þá við formennsku af Ellert B. Schram, fyrrum alþingismanni, sem tveim árum síðar varð forseti Íþróttasambands Íslands, en hann gegndi þeirri stöðu í 15 ár. Eggert var á þingi KSÍ í dag kjörinn heiðursforseti sambandsins.

mbl.is Geir Þorsteinsson kjörinn formaður KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband