Andlát sveipað dulúð - baráttan um ríkidæmið

Anna Nicole Smith Andlát Önnu Nicole Smith er enn sveipað dulúð - ekki hefur enn tekist að finna formlega dánarorsök hennar og spurningar hrannast upp um lokapunkta ævi hennar og dauðsfallið sem er aðalumfjöllunarefnið vestan hafs þessa dagana og er meira að segja að því er virðist meira í fréttum en yfirvofandi framboðstilkynning Barack Obama til embættis forseta Bandaríkjanna í dag.

Það tók nokkrar vikur að fá skorið úr dánarorsök Daniel Smith, sonar Önnu Nicole, þegar að hann lést fyrir fimm mánuðum og sama dulúðin er í kringum lát hennar sjálfrar. Með réttarkrufningu í Flórída í gær tókst þó að loka á þann möguleika að dánarorsök sem flestir bjuggust við merkilegt nokk; ofnotkun ólöglegra lyfja og það voru engar töflur í maga stjörnunnar. Það verður því að leita í aðrar áttir en þá sem talin var líklegust til að loka á dulúð þessa máls...... og það tekur eflaust einhverjar vikur.

Nú mun mikill fókus alls þessa máls falla á það hver hafi verið faðir hinnar fimm mánuðu dóttur Önnu Nicole Smith. Sá sem er faðir hennar mun nefnilega fá mikil áhrif og í raun full yfirráð yfir frægu erfðamáli Önnu Nicole gegn börnum olíuauðjöfurins J. Howard Marshall. Þar sem stelpan er aðeins fimm mánaða verður hún undir yfirráðum föðurins í yfir heil sautján ár. Um mikla peninga er að telja og varla við öðru að búast en að faðerninu fylgi mikil völd í öllum málarekstrinum, sem hefur þegar tekið tæp tólf ár og náði Anna Nicole aldrei fullnaðarsigri í málinu, sem er þegar orðið eitt hið mest áberandi síðustu áratugina.

Þrír menn segjast vera faðir stelpunnar og ljóst að brátt fæst úr þessu skorið með læknisfræðilegri tækni. Ekki er hægt að segja annað en að málið líkist nokkuð dauða Christinu Onassis, einkadóttur skipakóngsins Aristotle Onassis, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1988, aðeins 38 ára gömul. Christina lét aðeins eftir sig eina dóttur, Athinu. Hún erfði allt eftir móður sína og meginhluta þess sem eftir stóð af Onassis-ættarveldinu, sem afi hennar lét eftir sig er hann lést árið 1975.

Vandinn var hinsvegar sá að Athina var aðeins þriggja ára gömul. Faðir hennar, Thierry Roussel, sem hafði skilið við Christinu fyrr sama árið og hún dó, hafði því full yfirráð yfir málefnum erfðaríkis Christinu og málefnum dóttur þeirra. Það stóð í rúm fjórtán ár. Enn í dag hefur Athina, sem vill lítið vita af föður sínum í dag ekki fengið öll yfirráð yfir Onassis-arfleifðinni og standa meira að segja málaferli um að hún fái full yfirráð þó að hún hafi skv. erfðaskrá átt að erfa móður sína að öllu leyti og endanlega er hún varð 21 árs á síðasta ári.

Nei, það er ekki tekið út með sældinni að vera frægur...... er það ekki lexían af þessu öllu? Held það....

mbl.is Önnu Nicole ekki allstaðar hlýlega minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiksnillingur kveður

Ian Richardson Breski leikarinn Ian Richardson varð bráðkvaddur í morgun, 72 ára að aldri. Richardson var stórkostlegur leikari, mjög öflugur dramatískur leikari með víða og næma túlkun. Hann er og verður eflaust þekktastur fyrir túlkun sína í breskum eðalstykkjum í sjónvarpi, sérstaklega fyrir leik í Shakespeare-verkum, en hann var skemmtilega alvarlegur og allt að því nöturlega kaldhæðinn í túlkun sinni og gat túlkað breitt svið karaktera með flókinn bakgrunn.

Eftirminnilegasta hlutverk hans er án nokkurs vafa karakter hins slóttuga og vægðarlausa Francis Urquhart sem fetaði pólitískan valdastiga í breskum stjórnmálum með köldum huga ljónsins og varð forsætisráðherra Bretlands með klækjabrögðum og vílaði ekki fyrir sér að drepa jafnvel þá sem mest stóðu í vegi framavona hans. Í þessu hlutverki naut sín allra best allir styrkleikar Richardsons sem leikara og hlutverkið er eitt hið eftirminnilegasta í breskri sjónvarpssögu.

Urquhart í túlkun Richardsons gleymist engum sem sáu allar þrjár sjónvarpsþáttaraðirnar um hann; House of Cards, To Play a King og The Final Cut, sem gerðar voru á níunda og tíunda áratugnum. Endalok persónunnar voru kaldhæðnust af öllu sem gerðist og víst er að þeir sem muna svip klækjarefsins á lokastund síðustu þáttaraðarinnar muna vel að eflaust hafi hann þá hugsað hver hafi er á hólminn kom verið snjallari. Á ég allar þessar sjónvarpsmyndir og hef notið þeirra mjög í áranna rás. Fyrst tók ég þær upp á spólum en keypti þær í gegnum amazon.com fyrir nokkrum árum. Skyldueign fyrir alla sanna stjórnmálaáhugamenn.

Eftirminnilegasta kvikmyndahlutverk Ian Richardson er án nokkurs vafa hlutverk Hr. Warrenn í Brazil, hinni stórfenglegu kvikmynd Terry Gilliam, sem gerð var árið 1985. Mynd sem ég mæli hiklaust með við alla sanna kvikmyndaunnendur. Richardson var alveg yndislega svipmikill í þeirri mynd. Einnig mætti nefna Cry Freedom, Mistral´s Daughter, Much Ado About Nothing, A Midsummer Night's Dream og The Hound of the Baskervilles svo að mjög fátt sé nefnt. Þeir sem vilja þó sjá snilli hans í hnotskurn ráðlegg ég öllum að sjá myndirnar um Francis Urquhart, en sjálfur sagði hann að karakterinn hefði hann mótað með Ríkharð III í huga. Þeir eiga svo sannarlega margt sameiginlegt.

En blessuð sé minning meistara Richardson. Nú er svo sannarlega komið gott tilefni til að rifja upp House of Cards, To Play a King og The Final Cut á næstu dögum.

mbl.is Ian Richardson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarsaga konu sem lifði og dó í kastljósi fjölmiðla

Anna Nicole Smith Það fór aldrei á milli mála að bandaríska leikkonan og fyrirsætan Anna Nicole Smith líkti sem mest hún gat eftir gyðjunni Marilyn Monroe. Hún stældi framkomu hennar, röddina og útlit hennar eftir fremsta megni. Nú bendir flest til þess að hún hafi líka dáið eins og Marilyn Monroe, fyrir 45 árum, ekki aðeins langt fyrir aldur fram heldur ennfremur í viðjum ofneyslu lyfja af ýmsu tagi.

Það er allavega öllum ljóst að dauðsfall hennar verður jafn umkringt sorglegum spurningum og vofveiflegheitum og var í tilfelli Marilyn. Krufning á líki stjörnunnar fór fram í dag í Flórída. Sérfræðingar vestan hafs gáfu sér þá niðurstöðu nær algjörlega fyrirfram að hún hefði dáið úr ofneyslu lyfja. Skv. niðurstöðu krufningarinnar er óljóst hver dánarorsökin er og tekur lengri tíma að fá úr því skorið. Ekki aðeins verður þetta mál um dauða hennar heldur er yfirvofandi faðernismál til að fá úr því skorið hver hafi verið faðir fimm mánaða dóttur Smith.

Ekki var það rétt hjá mér sem ég sagði í gærkvöldi að frægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, sé lokið með dauða hennar. Það mál erfist nú til dóttur Önnu Nicole, hinnar fimm mánaða gömlu Dannie Lynn Hope. Það má því búast við að það hver sé faðir hennar muni ráða miklu um framtíð þessa máls og hver fái yfirráð yfir erfðamálinu fræga.

Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að dauði hennar bindi enda á umfjöllunina. Sorgarsaga hennar mun enn um sinn verða umfjöllunarefni fjölmiðla. Fjölmiðlar geta enda fylgt fólki út yfir gröf og dauða.

mbl.is Talið hugsanlegt að dauði Anne Nicole Smith tengist lyfjaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máli gegn olíuforstjórunum þremur vísað frá

Olíufélögin Máli ákæruvaldsins gegn forstjórum olíufélaganna á tímum olíusamráðsins var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákæruvaldið hyggst áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ein helsta forsenda dómsins er að ekk sé hægt að sækja einstaklinga til saka fyrir þau brot, sem ákært var fyrir. Þetta er athyglisverður dómur og verður fróðlegt að sjá hvað gerist fyrir Hæstarétti.

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.

Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu málið taki nú.

mbl.is Máli gegn olíuforstjórum vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin bregst við í Breiðavíkurmálinu

BreiðavíkÞað er mikilvægt að ríkisstjórnin taki við sér með þessum hætti í þessu skelfilega Breiðavíkurmáli, án hiks og tafs. Það þarf ekki að fara fram einhver rannsókn þegar að allir vita niðurstöður þess. Það vita allir hvað gerðist þarna - staða mála liggur nokkuð ljós fyrir.

Þetta er allt mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Nú þarf ríkið að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda. Stjórnvöld verða að afgreiða þetta mál, með opinberri afsökunarbeiðni og þeirri aðstoð, faglegri sem peningalegri ef á þarf að halda.

Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því og það er gott að forsætisráðherra hefur sagt það með afgerandi hætti.


mbl.is Geir H. Haarde: ríkisstjórn mun bregðast við í málefnum Breiðavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röskva sigrar Vöku með 20 atkvæða mun

Háskóli Íslands Röskva sigraði Vöku með 20 atkvæða mun í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og hlaut hreinan meirihluta í ráðinu. Röskva hlaut 1635 atkvæði og fimm sæti en Vaka hlaut 1615 atkvæði og fjögur sæti. Röskva og Vaka hlutu bæði fjóra menn í kosningunum fyrir ári en Háskólalistinn hlaut einn mann. Var samstarf milli Röskvu og Vöku þetta ár. H-listinn missir nú sinn mann til Röskvu.

Þetta eru nokkuð athyglisverð úrslit. Röskva hafði hreinan meirihluta í Stúdentaráði samfleytt í 12 ár, 1990-2002, en Vaka hafði hreinan meirihluta árin 2002-2005. Hreinn meirihluti Vöku féll í kosningunum í febrúar 2005 en Vaka hefur verið í samstarfi um meirihluta eða forystu í ráðinu síðustu tvö árin. Það er því vinstrisigur í Háskólanum að þessu sinni, í fyrsta skipti í fimm ár.

Úrslitin sýna vel að tvær jafnstórar fylkingar eru í háskólapólitíkinni og munar aðeins sjónarmun á hvor sigrar. Það vekur athygli hversu dræma kosningu H-listinn fær nú. En já, það verður fróðlegt að sjá til verka Röskvu í forystu háskólastjórnmálanna næsta árið.

mbl.is Röskva hlaut flest atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna Nicole Smith látin - litríkri ævi lýkur

Anna Nicole SmithLitríkri ævi bandarísku leikkonunnar og fyrirsætunnar Önnu Nicole Smith lauk mjög snögglega í hótelherbergi í Flórída síðdegis í dag. Reynt var árangurslaust að blása lífi í hana en án árangurs. Hún var formlega úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Hollywood í Flórída. Hún var aðeins 39 ára gömul.

Anna Nicole Smith hefur verið áberandi á blöðum slúðurtímarita og í sjónvarpi með einum eða öðrum hætti í einn og hálfan áratug. Anna, sem var skírð Vicki Lynn Hogan, varð fyrst fræg sem fyrirsæta í Playboy og nektardansmær. Frægar nektarmyndir af henni í Playboy mörkuðu frægð hennar og það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi rólegheit og lognmolla einkennt líf hennar.

Hún komst endanlega í frægðarbækurnar og varð heimsfræg er hún giftist olíuauðjöfrinum, J. Howard Marshall, fyrir þrettán árum, árið 1994. Hjónabandið varð fjölmiðlamatur um allan heim, enda var Marshall þá orðin 89 ára en Smith var aðeins 26 ára gömul. Hjónabandið varð skammlíft, enda lést Marshall árið 1995. Allt frá dauða hans til snögglegs dauða Önnu Nicole sjálfrar, nú tólf árum síðar, voru erfðamálin óleyst og hörð átök á milli ekkjunnar og barna olíuauðjöfursins.

Málarekstur milli barna J. Howard Marshall og Önnu Nicole Smith telst hiklaust eitt mest áberandi mála í bandarísku slúðurumræðu fræga fólksins. Anna Nicole gaf ekki eftir og flest stefndi í að hún hefði fullnaðarsigur. Sonur Marshalls lést nýlega og hún vann þýðingarmikinn sigur í hæstarétti Bandaríkjanna fyrir tæpu ári. Dauði Önnu Nicole Smith markar án nokkurs vafa enda þessa litríka máls sem hefur verið fréttamatur vestan hafs í þessi tólf ár á milli dauða Marshalls og Önnu Nicole.

Anna Nicole Smith varð fyrir þungu persónulegu áfalli undir lok síðasta árs er elsta barn hennar, Daniel, lést á Bahamaeyjum, þar sem hann var kominn til að hitta móður sína, en hún eignaðist stúlku þar. Margar litríkar sögur hafa borist síðustu vikur um faðerni stelpunnar og var fyrirsjáanleg deila um það hver ætti stelpuna. Ofan á dauða sonarins hefur því ekki verið nein sæla yfir Önnu Nicole.

Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag markar nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Það er greinilegt á bandarískum slúðurvefsíðum og fréttavefum að dauði hennar kemur mjög að óvörum. Þetta er táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.

Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla.


mbl.is Anna Nicole Smith látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur Thor eignast ættaróðalið

Fríkirkjuvegur 11Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður, hefur nú keypt ættaróðal fjölskyldu sinnar, Thors-ættarinnar, hið veglega og glæsilega hús að Fríkirkjuvegi 11, sem er eitt af svipmestu húsunum í höfuðborginni. Langafi Björgólfs Thors, hinn landsþekkti athafnamaður, Thor Jensen, reisti húsið og var það glæsilegur vitnisburður um veldi Thors og ríkidæmi hans.

Það er að mínu mati gleðiefni að Björgólfur Thor kaupi húsið. Hann á tengingar til uppruna hússins og kemur engum að óvörum að hann vilji eignast það. Kaupverðið mun vera 600 milljónir króna, en það gæti hækkað um 200 milljónir króna, vegna óska kaupandans er lúta að framkvæmdum á lóð. Skv. ummælum Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, var tilboð Björgólfs Thors það langbesta í húsið og því auðvitað hið eina rétta að taka því.

Fyrir stundu horfði ég á Ísland í dag þar sem Inga Lind Karlsdóttir ræddi við Guðmund Magnússon, sagnfræðing, þar sem þau löbbuðu um þetta merka hús og fóru yfir sögu þess í stuttu en góðu spjalli. Guðmundur þekkir betur en flestir sögu Thorsaranna en hann skrifaði eftirminnilega og mjög vandaða bók um sögu Thors-ættarinnar sem var áberandi í íslensku mannlífi í marga áratugi og er enn mjög áberandi auðvitað.

Eftir því sem fram hefur komið í dag mun Fríkirkjuvegi 11 verða breytt í safn til minningar um athafnamanninn Thor Jensen. Það er svo sannarlega viðeigandi hlutskipti fyrir húsið og rétt að fagna því sérstaklega að merku framlagi Thors í íslensku samfélagi verði minnst með þeim hætti. Það verður gaman að fara í Thors-safnið þegar að því kemur að það opni.


mbl.is Borgarráð samþykkti að taka tilboði Novators í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. gengur í Frjálslynda flokkinn

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur nú formlega sagt sig úr Framsóknarflokknum og er orðinn þingmaður Frjálslynda flokksins. Eftir níu stormasöm ár í Framsóknarflokknum er vist Kristins H. þar lokið og hann haldinn til verka fyrir þriðja stjórnmálaaflið á sextán ára þingmannsferli sínum. Eins og ég sagði frá hér í gær var þessi ákvörðun yfirvofandi og hún kemur engum að óvörum. Öllum varð ljóst eftir úrslit prófkjörs Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í nóvember að Kristinn H. yfirgæfi Framsóknarflokkinn.

Eftir fjögurra ára óopinbera stjórnarandstöðu og andstöðu við forystu Framsóknarflokksins hefur Kristinn H. formlega gerst alþingismaður í nafni stjórnarandstöðunnar. Með þessari tilfærslu minnkar enda þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar. Frá og með deginum í dag styðja 34 alþingismenn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sami fjöldi og var á bakvið stjórnina frá alþingiskosningunum 2003 til inngöngu Gunnars Örlygssonar í þingflokk Sjálfstæðisflokksins í maí 2005. Nú sitja ellefu þingmenn í þingflokki Framsóknarflokksins, sem hefur sjaldan verið minni.

Þegar að Gunnar Örn Örlygsson gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi forysta Frjálslynda flokksins hann harkalega fyrir að færa þingsæti frá flokknum sem hann var kjörinn fyrir til annars flokks. Það væri siðleysi. Frjálslyndir spöruðu ekki stóru orðin. Nú á örfáum vikum hefur Frjálslyndi flokkurinn hinsvegar sjálfur tekið við tveim alþingismönnum með umboð úr öðrum flokkum. Gunnar Örn og Kristinn H. eiga það sameiginlegt að hafa hlotið kjör í nafni flokks í alþingiskosningum. Valdimar Leó Friðriksson var varavaraþingmaður eftir kosningarnar 2003 en tók þar sæti eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar.

Kristinn H. hefur að mínu mati verið stjórnarandstöðuþingmaður í nærri fjögur ár. Þessi tilfærsla markar lok leiðindaástands fyrir Framsóknarflokkinn en ekki upphaf enda hefur lengi verið ljóst að leiðir þessara afla náðu ekki saman. Það hefur verið ljóst síðan að meirihluti þingflokksins svipti Kristinn embætti þingflokksformanns Framsóknarflokksins vorið 2003 og formennsku í Byggðastofnun fyrir fimm árum. En þetta eru vissulega tímamót. Það staðfestist hérmeð að Frjálslyndir meintu ekkert með gagnrýni sinni á tilfærslu Gunnars árið 2005.

Það verður fróðlegt að sjá hversu vel Kristinn H. rekst í Frjálslynda flokknum, en menn minnast þess enn hversu mjög Valgerður Sverrisdóttir og Halldór Ásgrímsson brostu fallega yfir tilfærslu Kristins H. í Framsóknarflokkinn árið 1998. Þar voru bros og gleðisvipir allsráðandi á öllum myndum. Undir lokin var þó lítið orðið um gleði og bros á fólki þar innanborðs - kergja og óeining urðu merkingartáknmyndir lokastunda Kristins H. í Framsóknarflokknum.

Spenna verður yfir því hvort að Kristinn H. muni sem nýr kjördæmaleiðtogi Frjálslynda flokksins mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins (sem varð eftirmaður Kristins H. sem formaður stjórnar Byggðastofnunar) eða Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra, í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði. Það verður nóg um hasar og spennu í þeim átökum.


mbl.is Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta Lúðvíks fyrir sönnun á faðerni Hermanns

Hermann Jónasson Lúðvík Gizurarson, lögmaður, hefur barist af krafti fyrir því seinustu árin að fá DNA-sýni úr Steingrími Hermannssyni, fyrrum forsætisráðherra, til staðfestingar þeim sögusögnum að hann hafi verið launsonur Hermanns Jónassonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem lést árið 1976. Hefur það verið hörð og erfið barátta.

Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Lúðvík Gizurarson Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú úrskurðað í þriðja skipti að fara skuli fram mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum til að ganga úr skugga um faðerni Lúðvíks. Hæstiréttur hefur tvisvar hafnað því að erfðafræðilegar rannsóknir verði látnar skera úr um faðerni Lúðvíks. Það stefnir því í að aftur fari málið fyrir Hæstarétt, enda gefa börn Hermanns ekki eftir. Óneitanlega er sterkur svipur með þeim og sú saga lengi verið lífseig að Hermann hafi verið faðir Lúðvíks.

Það vakti athygli í sumar þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.

En þetta er vissulega fróðlegt mál og athyglisvert að sjá hvernig því muni ljúka, en nú fer það aftur fyrir Hæstarétt væntanlega.

Framtíðarlandið fer ekki í þingframboð

Frá fundi FramtíðarlandsinsLjóst er að Framtíðarlandið mun ekki bjóða fram undir sínu nafni í alþingiskosningum eftir þrjá mánuði í kjölfar félagsfundar í gærkvöldi þar sem framboðstillaga var felld með 96 atkvæðum gegn 92. Einfaldur meirihluti dugði ekki til að samþykkja framboð og því ljóst af stemmningu fundarins strax í upphafi að tillagan yrði ekki samþykkt.

Þetta eru nokkuð merkileg tíðindi vissulega. Talað hefur verið um þingframboð Framtíðarlandsins síðustu mánuði. Nú þegar að það er úr sögunni mun eflaust magnast upp hvort framboð komi fram meðal hægri grænna sérstaklega, en orðrómur hefur verið uppi um að Ómar Ragnarsson og fleiri einstaklingar hyggi á slíkt framboð. Ómar talaði gegn Framtíðarlandsframboði á fundinum og hefur ítrekað þá skoðun vel á bloggvef sínum.

Það vekur mikla athygli mína að aðeins 189 manns hafi greitt atkvæði á þessum átakafundi, enda eru skv. félagaskrá 2708 í Framtíðarlandinu. Dræm þátttaka á fundinum í kosningu um framboðstillögu gefur ekki beinlínis til kynna að þar fari mikil fjöldafylking. En nú er þetta ljóst og hreinar línur komnar frá Framtíðarlandinu. Það mun hafa vakið mesta athygli að stjórnmálamenn fornir og nýjir úr öðrum stjórnmálaflokkum sem þó prýða hóp Framtíðarlandsins hafi farið í pontu til að leggjast gegn framboði eindregið. Virðast þetta fyrst og fremst vera fulltrúar úr Samfylkingunni og VG; hræddir um að framboð hefði dregið spón úr aski vinstriaflanna.

Það verður fróðlegt hvaða farveg Framtíðarlandsfólk í framboðshugleiðingum mun velja sér nú þegar að hugmyndir um sérstakt framboð í nafni félagsskaparins eru feigar orðnar. Væntanlega mun þetta fólk sem hyggur á framboð horfa til þess með einum eða öðrum hætti í nafni einhvers félagsskapar, enda eru listar hinna rótgrónu stjórnmálaflokka meira og minna tilbúnir, ef undan er skilinn Frjálslyndi flokkurinn sem safnar að sér þessa dagana þingmönnum með brostnar framboðsvæntingar úr öðrum flokkum.

Það eru rúmir 90 dagar til kosninga og greinilega mikil gerjun í stjórnmálunum. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða framboð koma önnur til sögunnar en þeirra fimm flokka sem hafa nú þegar fulltrúa á Alþingi Íslendinga.


mbl.is Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandall á skandal ofan í Byrginu

Byrgið Það hrannast sífellt upp beinagrindurnar í skápum Byrgisins. Þvílíkur skandall sem þar hefur viðgengist ár eftir ár. Það er nær ófyrirgefanlegt hverslags klúður þar hefur verið æ ofan í æ. Það hefði átt að vera búið að grípa í taumana fyrir einhverjum árum. Því verður vart neitað að um alvarlegt hneykslismál hefur verið að ræða.

Ekki aðeins er um að ræða fjárhagslegt hneykslismál heldur hefur þarna þrifist í skjóli ríkisstyrkja skelfilegt kynlífshneyksli. Bæði er mjög alvarlegt mál. Á því verður tekið væntanlega með þeim hætti sem fær er. Það verður fróðlegt að sjá kemur út úr málinu hjá ríkissaksóknara. Heldur verður að teljast líklegt að ákærur verði gefnar út og málið fái á sig þann blæ. Deilt er um hver beri hina pólitísku ábyrgð á klúðrinu þar. Öllum er ljóst að ábyrgðin er félagsmálaráðherra á árunum 2001-2006. Einfalt mál.

Vonandi læra menn eitthvað á þessum skandal. Það verður að taka á öllu verklagi hjá ríkinu, enda er þetta mál allt áfellisdómur þess. Vonandi munu þeir sem héldu á málefnum Byrgisins og þeir sem dældu þar peningum í afvötnunarstöð skandalanna fá að gjalda þess. Á þessu verður að taka með þeim eina hætti sem fær er.

Vonandi fær þetta allt þann endi að það verði lexía fyrir þá sem nærri hafa þessu stórfellda fjármála- og kynlífshneyksli komið með einum eða öðrum hætti.

mbl.is Segir barnsfæðingar af völdum kynferðismisnotkunar í Byrginu orðnar tíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn H. tilkynnir um vistaskipti á morgun

Kristinn H. Gunnarsson Eins og ég sagði frá í morgun hefur Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn og ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag stóð til að tilkynna þessa ákvörðun sem legið hefur fyrir í nokkra daga í dag en svo varð þó ekki. Formleg yfirlýsing frá Kristni H. um pólitísku vistaskiptin mun liggja fyrir með morgni. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um þetta. Það sjá allir með pólitískt nef að ekki er gefin út yfirlýsing nema að svona ákvörðun liggi fyrir.

Með því að Kristinn H. verði þingmaður í nafni Frjálslynda flokksins verður hann þingmaður þriðja flokksins á sextán ára þingmannsferli sínum. Það eru vissulega mjög merk tíðindi. Athyglisverðar umræður fylgdu í kjölfar skrifa minna í morgun. Þar var spurt hvort þetta væri einsdæmi að einn maður sé þingmaður fyrir þrjá stjórnmálaflokka. Það er það ekki. Hannibal Valdimarsson, fyrrum ráðherra, var formaður þriggja stjórnmálaflokka; Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna, og var þingmaður fyrir öll þrjú öflin auðvitað. Þeir Hannibal og Kristinn H. teljast hiklaust báðir þekktir bragðarefir í vestfirskri stjórnmálasögu.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að Kristinn H. leiði lista Frjálslynda flokksins í höfuðborginni eða í Norðvesturkjördæmi. Það ganga sögur um að Guðjón Arnar og Kristinn H. fari í framboð í Reykjavík. Mörgum þætti eflaust eðlilegra að hann leiddi listann í Norðvesturkjördæmi, en það er þó flestum ljóst að vart verði þeir saman á lista. Fari formaðurinn suður í framboð fari Kristinn H. fram fyrir vestan og fer fyrir flokknum þar. Svo verður fróðlegt að sjá hver muni leiða Frjálslynda í Reykjavík suður, kjördæminu sem Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, leiddi í alþingiskosningunum 2003. Þar er laust pláss sem fylgst verður með hver fyllir upp í.

Það yrði fróðlegt ef að Kristinn H. og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, myndu takast á í Reykjavík norður. Ekki yrði það líflaus kosningabarátta. Það er greinilegt að Kristinn H. mun hvernig sem fer takast á við annaðhvort Jón eða Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra. Það verður eflaust ansi öflug barátta og hann telur sig greinilega eiga harma að hefna gegn forystu flokksins sem hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir í níu ár.

Kristinn H. Gunnarsson hefur að margra mati verið stjórnarandstæðingur í fjögur ár. Um það má eflaust deila. Um það verður þó ekki deilt að á morgun verður hann stjórnarandstæðingur í orðsins fyllstu merkingu.

Hvers vegna vildi Samfylkingin ekki auglýsa?

Meirihluti bæjarstjórnar AkureyrarEins og kom fram hér í gær voru átök milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar um það hvort auglýsa ætti starf framkvæmdastjóra Akureyrarstofu. Lagðist bæjarfulltrúi Samfylkingar, sem situr í stjórn Akureyrarstofu, gegn því mati formannsins í nefndinni að auglýsa stöðuna. Voru átök uppi milli fulltrúa flokkanna þar til þeir náðu loks samkomulagi eftir sérstakan sáttafund leiðtoga meirihlutaflokkanna með nefndarmönnunum.

Það er gleðiefni að staðan verði auglýst. Það er hið eina rétta í stöðunni að gera það. Það er enginn vafi á því í huga minum. Í raun má segja að það sé alveg stórundarlegt að takast þurfi á um það hvort auglýsa eigi þessa stöðu. Það á að vera algjört grunnmál að svona stöður séu auglýstar lausar til umsóknar, sérstaklega við þessar aðstæður, enda er með því landslagið skannað og athugað hverjir hafi áhuga á stöðunni, sem er ný, enda ætti verkefnið bæði að teljast spennandi og heillandi fyrir þá sem hafa metnað fyrir sveitarfélaginu og tækifærunum í stöðunni.

Það á alls ekki að vera sjálfgefið að þeir sem fyrir eru í verkefnum í bæjarkerfinu eigi að fá stöðu af þessu tagi án auglýsingar. Nú séu þeir hæfustu umsækjendurnir hljóta þeir að komast sterkast til greina. Ég get því ekki betur séð en að nauðsynlegt og eðlilegt sé að verklagið sé með þessum hætti. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stöður af þessu tagi við svona aðstæður eigi að auglýsa. Það er því ekki annað hægt en að undrast upphaflega afstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar. Af hverju mátti ekki auglýsa? Var búið að eyrnamerkja kannski einhverjum stöðunni fyrirfram?

Þetta mál sýnir kannski að meirihlutinn sé brothættur. Það verður bara að ráðast. Það er gott að farsæl niðurstaða fékkst í málið. Það er fyrir öllu að svona verði gert, enda er ekkert annað viðeigandi við þessar aðstæður. Það hefði verið hneisa fyrir þessa flokka og bæjarfulltrúa þeirra hefði annað verklag orðið ofan á.


Notalegt ferðalag á framandi slóðir

Ómar Ragnarsson Í gærkvöldi átti ég góða stund við sjónvarpið. Ég horfði þá á tvo gamla og góða Stikluþætti Ómars Ragnarssonar, en ég hef nýlega eignast allt safn þeirra merku þátta þar sem farið er um fjöll og firnindi landsins okkar. Í þessum þáttum var farið í Fjörður og Flateyjardal. Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef á hvorugan staðinn farið, þó mjög nálægir séu mér hér á Akureyri.

Mér fannst notalegt að fara í þetta skemmtilega ferðalag og fara um slóðir með þessum hætti. Ég man ekki til þess að hafa séð akkúrat þessa þætti fyrr. Ég hef þó einsett mér að ég ætla mér að fara á báða staðina í sumar. Þeir eru mjög fjarlægir þó nálægir séu. Það þarf mjög góðan fjallabíl til að halda á þessar slóðir en þar ríkir mikil náttúrufegurð, kyrrð og notalegheit. Þetta er ferðalag sem ég hef lengi viljað halda í og nú verður það gert í sumar.

Ég hef reyndar komið í sjálfa Flatey á Skjálfanda. Það var í skemmtilegri ferð okkar sjálfstæðismanna í júlí 2004 með Geir og Ingu Jónu sem heiðursgesti. Það var yndisleg bátsferð sem við áttum á leið út í eyju og mikil skemmtun í eyjunni. Þar á Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, sumarbústað með fjölskyldu sinni, sem bjó í eyjunni fyrir nokkrum áratugum. Þar var slegið upp góðri grillveislu og eyjan skartaði sínu fegursta. Það sem mér kom mest á óvart við Flatey var hversu mörg hús eru þar, en hún fór í eyði sem heilsársbyggð á sjöunda áratugnum en margir sumarbústaðir eru þar. Flatey er paradís í huga ferðamannsins.

Ég hef lengi metið mikils þessa ferðaþætti Ómars, einkum Stiklur. Það er engu líkt að halda í stutt og gott ferðalag með þessum hætti. Þar er miðlað mikilli þekkingu á staðarháttum og náttúrunni. Um daginn sá ég einmitt Stikluþátt Ómars þar sem Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, er heimsóttur í Mjóafjörð og hann kynnir áhorfandanum sögu Mjóafjarðar og farið er í Dalatanga. Það er virkilega fínn þáttur og svo gleymist ekki þátturinn þar sem farið er um byggðir Vestfjarða og Gísli á Uppsölum heimsóttur - það var eftirminnilegasta viðtal íslenskrar sjónvarpssögu.

Það er oft sagt að mesta fegurðin sé í sem mestri nálægð við hversdagstilveru manns. Það er svo sannarlega ekki erfitt að samþykkja þá afstöðu þegar litið er á fegurð í Fjörðum og Flateyjardal.... staði sem eru svo fjarri en þó svo nærri manni.

Þingmaðurinn sem Samfylkingin hafnaði

Guðrún Ögmundsdóttir Ég horfði á hádegisviðtalið á Stöð 2 fyrir stundu. Þar var rætt við Guðrúnu Ögmundsdóttur, alþingismann, um hið skelfilega Breiðavíkurmál. Hún talaði með skeleggum hætti um þau mál og stóð sig vel, ég var sammála henni í þeim efnum og eflaust er okkur landsmönnum öllum hrollur í huga þegar að hugsað er til þessa ömurlega máls, sem því miður hefur of lengi legið í þagnarhjúpi. Það er almenn reiði í samfélaginu vegna málsins - stjórnvöld verða að mínu mati að biðja þá sem urðu fyrir þessari grimmd opinberlega afsökunar.

Það haustar nú að hinsvegar á stjórnmálaferli Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þessi kjarnakona í Samfylkingunni mun láta af þingmennsku eftir þrjá mánuði og halda til annarra verka. Stjórnmálaferli Guðrúnar lauk með falli hennar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík í nóvember; hún fékk vondan skell, féll niður í ellefta sætið, og ákvað í kjölfar þess dóms að taka ekki sæti á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum. Guðrún hefur verið nokkuð lengi í stjórnmálum; hún hefur setið á Alþingi frá árinu 1999 en var áður borgarfulltrúi árin 1992-1998; fyrir Kvennalistann 1992-1994 og síðar fulltrúi Kvennalistans innan R-listans eitt kjörtímabil 1994-1998.

Guðrún hefur á Alþingi verið talsmaður margra málaflokka og vakið athygli á sér fyrir að þora að fara gegn straumnum í fjölda málaflokka. Það var að mínu mati nokkuð óverðskuldað hvaða útreið hún fékk meðal eigin flokksmanna og hafi ekki fengið brautargengi þar áfram. Hafði mig vissulega lengi grunað fyrir prófkjörið að hún gæti orðið sá þingmaður flokksins sem færi verst úr prófkjörinu, en taldi þó að hún hlyti að sleppa frá falli, enda verið lengi með sterkan stuðningsmannahóp, hóp ólíks fólks. Frægt varð þegar að allt var reynt til að koma henni af þingi til að losa um þingsæti fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, þegar að hún stóð eftir án hlutverks í stjórnmálum.

Mér fannst áhugavert að heyra hádegisviðtalið við hana á Stöð 2 í dag. Hún talaði þar fumlaust og af ábyrgð og tilfinningu um þetta umdeilda mál, sem hiklaust er mál málanna þessa dagana. Var mjög sammála því sem hún sagði þar. Þó að ég hafi stundum verið ósammála Guðrúnu í stjórnmálum verð ég að viðurkenna að mér finnst Samfylkingin verða litlausari á þingi þegar að Guðrún Ögmundsdóttir stígur af hinu pólitíska sviði eftir að flokksmenn ákváðu að skipta henni út úr þingflokknum með þessum hætti í kosningu um hverjir skipi forystusveit Samfylkingarinnar að vori.

Kristinn H. gengur til liðs við frjálslynda

Kristinn H. Gunnarsson Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, mun í dag formlega tilkynna að hann gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn og segi þar með skilið við Framsóknarflokkinn. Blasir við að samhliða tilfærslunni muni Kristinn leiða lista flokksins í öðru borgarkjördæmanna eða í Norðvesturkjördæmi, færi Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sem verið hefur á þingi fyrir flokkinn vestra frá upphafi, sig í framboð í Reykjavík. Með þessu minnkar meirihluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi, sem hefur á eftir 34 þingsæti, sami fjöldi og studdi stjórnina fyrir inngöngu Gunnars Örlygssonar í Sjálfstæðisflokkinn.

Með úrsögn Kristins H. Gunnarssonar úr Framsóknarflokknum minnkar þingflokkur þeirra eins og gefur að skilja. Eftir þessar breytingar sitja 11 framsóknarmenn á þingi og eru fimm af þessum ellefu ráðherrar (Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er vissulega ekki alþingismaður en hann situr sem ráðherra alla þingfundi). Frá og með þessu sitja fimm þingmenn, fleiri en nokkru sinni áður, í nafni Frjálslynda flokksins á Alþingi. Kristinn H. Gunnarsson hefur setið á Alþingi frá þingkosningunum 1991. Fyrstu sjö árin sat hann á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Hann gekk til liðs við Framsóknarflokkinn árið 1998 og hefur því gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og verið áberandi í starfi hans í níu ár, nú þegar að hann heldur til starfa fyrir Frjálslynda flokkinn.

Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999 en varð í öðru sæti í prófkjöri flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 og skipaði það sæti á lista flokksins. Hann tapaði slag um leiðtogasætið á lista flokksins í nóvember og varð þriðji. Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu.

Á fundi þingflokksins þann 28. september 2004 var ákveðið að Kristinn myndi ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins. Hafði mikill ágreiningur verið milli Kristins og forystu flokksins og trúnaðarbrestur orðinn innan hópsins í garð Kristins. Áður en þingflokkurinn tók þessa ákvörðun hafði hann setið í fjórum nefndum fyrir flokkinn. Hann var tekinn aftur í sátt í febrúar 2005 og hann tók sæti þá í tveim nefndum, en öllum varð ljóst að þær sættir voru aðeins til málamynda í aðdraganda flokksþings framsóknarmanna í sama mánuði. Það hefur lengi verið ljóst að leiðir Kristins H. og Framsóknarflokksins hafa skilið og þessi lokapunktur nú engin stórtíðindi í raun.

Kristinn H. hefur þó jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson , sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987. Því fannst alltaf sem að Ólafur Ragnar væri boðflenna í Alþýðubandalaginu. Hann væri ekki sannur kommi.

Það hefur verið ljóst um nokkurra vikna skeið að Kristinn H. horfði nú til Frjálslynda flokksins í von um áframhaldandi þingmennsku, nú þegar að útséð var orðið um meiri frama innan Framsóknarflokksins. Það verður fróðlegt að fylgjast með honum tala fyrir innflytjendastefnu flokks og formanns í vor, það er ekki hægt að segja annað.

mbl.is Kristinn til frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking í vanda - ISG skerpir stóriðjulínur

ISG við álversskiltið í ReyðarfirðiÞað verður seint sagt að bjart sé yfir Samfylkingunni og formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þessa dagana. Frjálst fylgisfall birtist flokknum í hverri skoðanakönnuninni á eftir annarri. Nú hefur það gerst að könnun hefur birst sem sýnir flokkinn í nýrri stöðu - hann hefur þar misst ráðandi stöðu sína á vinstrivængnum og orðinn minni en VG. Þetta eru stórtíðindi sé pólitísk saga til vinstri skoðuð síðasta áratuginn.

Þegar að VG var stofnaður sem stjórnmálaflokkur árið 1999 töldu margir það óráð hjá Steingrími J. Sigfússyni og það væri algjört hálmstrá manns sem hafði tapað formannsslag í Alþýðubandalaginu árið 1995 og yfirgefið flokkinn þrem árum síðar. Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar.

Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru þrír mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu. Ef könnun Gallups í síðustu viku yrði að veruleika myndi enda VG bæta við sig átta þingsætum og standa á pari við Samfylkinguna. Á sama tímapunkti fyrir kosningarnar 2003 mældist himinn og haf milli VG og Samfylkingarinnar í fylgi og þá var Samfylkingin með tæp 40% í könnun Gallups. Það er því ekki hægt að jafna þetta saman.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum, sótt til verka í Reykjavíkurborg til verka fyrir flokkinn. Hún sagði skilið við embætti borgarstjóra í Reykjavík fyrir þingframboðið. Flokkurinn vann fylgi frá fyrri kosningum og hlaut átta þingmenn í Reykjavík. Þrátt fyrir hækkandi fylgi tókst flokknum ekki að ná henni sjálfri á þing. Hún stóð utanveltu í stjórnmálum í nærri tvö ár, eða þar til hún tók loks sæti á þingi við afsögn Bryndísar Hlöðversdóttur í ágúst 2005. Hún varð formaður fyrr sama ár. Síðan hefur flokkurinn aðeins minnkað og pólitísk forysta ISG fengið á sig annan blæ í landsmálum en var í borgarmálum áður.

Ingibjörgu Sólrúnu er mikill vandi á höndum. Það eru tæpir 100 dagar til kosninga og ekkert gengur. Staða hennar hefur veikst mjög og hún er að vakna upp í sorglegri atburðarás, þeirri sorglegustu sem nokkur stjórnmálamaður getur vaknað upp í. Það er aldrei kjörstaða neins sem vinnur í stjórnmálum að vakna í nær tapaðri stöðu, þar sem aðeins pólitískt kraftaverk getur bjargað flokki og formanni. Ingibjörg Sólrún er komin í þennan krappa dans og reynir nú allt, bæði til að koma sér i fréttir og viðtöl - reyna að finna aftur sama gamla taktinn. Eftir standa aðeins sár vonbrigði og vonir um betri tíð með blóm í haga. En það er oft erfitt að snúa sökkvandi skipi við frá skerinu.

Í ljósi alls þess sem blasir við Samfylkingunni og formanni hennar kemur engum að óvörum að Ingibjörg Sólrún grípi eitt hálmstráið enn; nú stóriðjumálin. Það hefur verið rætt lengi um stóriðjumál. Nú fyrst liggur fyrir mat formanns og flokks um að fresta skuli stóriðjuframkvæmdum í Straumsvík og Helguvík - væntanlega halda fast við stóriðju við Húsavík. Eftir fræga kynningu stefnunnar "Fagra Ísland" var komið með svipaðan takt. En þingmenn og sveitarstjórnarmenn flokksins sem sáu tækifæri í stóriðju vakna í heimabyggð hrukku í baklás og sögðu allir sem einn að þar yrði auðvitað engu frestað - allt væri komið vel á dagskrá og ekki aftur snúið.

Þetta er vissulega athyglisverð yfirlýsing konunnar sem studdi Kárahnjúkavirkjun í borgarstjórn fyrir fjórum árum og var mynduð skælbrosandi við Alcoa-skiltið veglega í Reyðarfirði. Það er yfir fáum afrekum að brosa þessa dagana. VG að taka sér stöðu sem ráðandi afl til vinstri og Samfylkingin fellur í fylgi með hverri könnuninni. Fylkingin í frjálsu falli sér að hún þarf að skerpa línur og með því verða Samfylkingarmenn fyrir norðan gladdir en aðrir hryggðir, enda vitum við öll að engin almenn sátt er innan Samfylkingarinnar í stóriðjumálum allsstaðar.

Gallup sagði okkur um daginn að þessi stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar mældist með 14 þingsæti, sex færri en í kosningunum 2003. Ég lét hérmeð flakka með nafnalista þeirra (samantekt um hverjir ná inn ef kosið yrði nú er að finna undir tenglinum neðst) sem myndu ná kjöri á þing fyrir flokkinn í þeirri stöðu sem þá var uppi - í stórri og öflugri könnun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer í vor, en ekki blæs byrlega í áttina til Ingibjargar Sólrúnar og hjarðarinnar sem hún leiðir nú um stundir.

Samfylkingin (14)

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Reykjavík suður)
Jóhanna Sigurðardóttir

Össur Skarphéðinsson (Reykjavík norður)
Ágúst Ólafur Ágústsson

Gunnar Svavarsson (Suðvesturkjördæmi)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason

Guðbjartur Hannesson (Norðvesturkjördæmi)

Kristján L. Möller (Norðausturkjördæmi)
Einar Már Sigurðarson

Björgvin G. Sigurðsson (Suðurkjördæmi)
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall

Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003. Einn þingmaður flokksins gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2007. Mörður Árnason, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir myndu skv. þessu öll falla af Alþingi. 5 þingmenn Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér til þingmennsku nú.

Hverjir kæmust á þing nú? - samantekt SFS (3. feb. 2007)


mbl.is Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár

Elísabet II EnglandsdrottningÍ dag eru 55 ár liðin frá því að Georg VI Englandskonungur lést og dóttir hans, hin 25 ára gamla, Elísabet, varð drottning Englands. Elísabet II hefur verið áberandi persóna í sögu bresku konungsfjölskyldunnar og sett mikið mark á samfélag þjóðar sinnar og leitt konungsveldið á umbreytingatímum í sögu þess. Það segir sig sjálft að þjóðhöfðingi sem hefur setið vel á sjötta áratug hefur haft áhrif, mótað þjóðina og sögu hennar.

Elísabet II hefur í ljósi margs verið eftirminnilegur þjóðhöfðingi og niðjar hennar hafa ekki verið síður áberandi. Þegar að hún fæddis í desember 1926 hefði fáum órað fyrir að hún yrði æðsti valdhafi bresku krúnunnar. Hún fæddist enda ekki sem erfðaprinsessa. Örlög Elísabetar mótuðust í desember 1936 þegar að föðurbróðir hennar, Edward VIII, sagði af sér konungdómi til að giftast unnustu sinni, hinni tvífráskildu og bandarísku, Wallis Warfield Simpson. Með því dæmdi hann sig í ævilanga útlegð frá fjölskyldu sinni.

Með afsögn Edward VIII var Elísabet orðin erfðaprinsessa krúnunnar. Föður hennar var alla tíð illa við þau örlög að taka við þjóðhöfðingjahlutverkinu. Elísabet, eiginkona hans, leit alltaf á konungdóm hans sem bölvun yfir honum og fjölskyldunni. Hann var stamandi og órólegur og leit á verkefnið sem tröllvaxið sem það varð. Leiðarljós hans í gegnum verkefnin voru eiginkonan og dæturnar, Elísabet og Margrét. Staða krúnunnar þótti veik eftir skammarlega afsögn bróður konungsins, sem var konungur í ellefu mánuði, og þeir voru ólíkir sem dagur og nótt. Georg og Elísabet drottning, móðir Elísabetar II, unnu hug og hjörtu Breta í seinni heimsstyrjöldinni með vaskri framgöngu sinni.

Georg VI greindist með krabbamein síðla árs 1951 og heilsu hans fór ört hrakandi í raun síðustu árin vegna ýmissa kvilla. Veikindum hans var haldið leyndum fyrir þegnum landsins. Dauði hans kom þó óvænt. Hann lést einsamall í herbergi sínu í Sandringham House í Norfolk að morgni 6. febrúar 1952. Hann er eini handhafi bresku krúnunnar sem dó einn og án þess að nokkur væri dánarbeðið. Elísabet var stödd ásamt Filippusi, hertoga af Edinborg, í opinberri heimsókn í Kenýa er faðir hennar lést. Hún var stödd á afskekktu gistiheimili í sveitahéruðum Kenýa er henni voru færðar fregnirnar um dauða föður síns, fregnir sem mótuðu líf hennar fyrr en hún hafði átt von á.

Hún hélt til Englands þegar í stað og sneri aftur sem drottning heimsveldis, stórs heimsveldis. Hún var kona sinnar kynslóðar, mótuð af stríðsátökunum sem mörkuðu valdaferil föður hennar. Hún einsetti sér frá fyrsta degi að gera eins og foreldrar hennar, sem höfðu endurreist veg og virðingu krúnunnar eftir skammarlega brottför Edward VIII. Verkefnið hlýtur að hafa verið tröllvaxið 25 ára gamalli konu. En hún tók við og gerði krúnuna að sinni og tók upp sína siði og sitt verklag með áberandi hætti. Sér við hlið hafði hún ráðgjafann sem hún ráðfærði sig mest við; móður sína sem 52 ára gömul stóð eftir án hlutverks. Elísabet bjó móður sinni opinberan titil drottningamóður.

Elísabet II er sennilega áhrifamesta kona í sögu 20. aldarinnar, sú mest myndaðasta og mest áberandi. Hún hefur verið andlit heimsveldis, vissulega hnignandi heimsveldis, en þó enn áberandi og áhrifamikils heimsveldis, í yfir hálfa öld. Hún eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum, Filippusi; Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Öll hafa þau sett ekki síðra mark á breskt samfélag. Það þótti skandall fyrir ættina þegar að Margrét, systir drottningar, skildi við Snowdon lávarð, mann sinn, á áttunda áratugnum og hún átti í opinberum ástarsamböndum í kastljósi fjölmiðla sem systur hennar og móður mislíkuðu mjög. Það varð þó ekki toppur skilnaðanna í ættinni.

Meiri athygli vakti einkalíf barna drottningar. Er árið 1992 rann í aldanna skaut höfðu þrjú hin elstu öll skilið. Mesta athygli vakti án vafa skilnaður Karls, prins af Wales, og eiginkonu hans, Díönu, prinsessu af Wales. Díana og Karl deildu er á hólminn kom hart á hvort annað. Lögskilnaður þeirra í desember 1992 markaði ekki endalok þess. Bæði veittu fræg sjónvarpsviðtöl þar sem þau sögðu sína hlið skilnaðarins og ellefu ára hjónabands þeirra. Elísabet drottning fékk nóg af stöðunni og skipaði þeim að ganga frá skilnaði. Það tók fjögur að landa skilnaði. Í ágúst 1996 tók hann formlega gildi. Elísabet og Filippus töldu sig þar með hafa heyrt hið síðasta frá Díönu. Svo fór þó ekki.

Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997. Snögglegur dauði hennar varð sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Þegar að komið var með kistu hennar til London síðla daginn sem hún dó varð öllum ljós að stórviðburður væri framundan. Hún dó í kastljósi fjölmiðla og var kvödd með sama hætti. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og um raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Tony Blair, forsætisráðherra, sem tekið hafði við völdum nokkrum vikum áður á bylgju velvildar og mestu vinsælda í breskri stjórnmálasögu, til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Áratug eftir lát Díönu situr drottningin á friðarstóli, mælist vinsælust allra í fjölskyldunni. Margir hafa sagt að móðir hennar hafi verið sú sem að lokum ráðlagði drottningunni að fara til London og mæta fjöldanum - lækna sárin og laga stöðuna. Drottningamóðirin dó árið 2002, en hún var táknmynd fjölskyldunnar í átta áratugi og virtust þeirra allra. Hún varð 101 árs. Það virðist sem að drottningin hafi erft langlífi hennar og góða heilsu. Ef drottningin ríkir enn eftir níu ár slær hún frægt met Viktoríu, ömmu sinnar, er ríkti í 64 ár.

Hver veit nema það gerist.


Veikindi Björns

Björn BjarnasonÞað hefur varla farið framhjá neinum að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var fluttur á sjúkrahús í gær í kjölfar þess að hægra lunga hans féll saman. Björn hefur nú sjálfur skrifað um þessa lífsreynslu á vef sínum og hvernig gærdagurinn var hjá honum.

Það er alltaf svo þegar að stjórnmálamenn veikjast að það vekur athygli, hvort sem þar er lítilsháttar eða af meira taginu. Það er fyrir löngu orðið svo að Björn á sér tryggan stað í huga netnotenda og því er mikilvægt við svona aðstæður að hann skrifi um málið og fari yfir hvernig það horfi við sér.

Þegar að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, lenti í alvarlegu umferðarslysi á síðasta ári eyddi hann orðrómi um veikindi sín og stöðu þeirra með blaðamannafundi af sjúkrabeði. Það fannst mér vel til fundið, enda var engin umræða eftir það um hvernig hann væri á sig kominn af meiðslum sínum.

Björn hefur notað netið í tólf ár með áberandi og traustum hætti og skrifað um pólitísk verk sín og það sem gerst hefur hjá honum sem persónu á þessum tíma. Vefur hans er ómetanlegt safn skrifa og hugleiðinga. Það getur enginn íslenskur stjórnmálamaður státað af betra verki á veraldarvefnum en hann.

Það sem ég hef enda alltaf metið mest við Björn er hversu auðvelt er að fylgjast með störfum hans, hann þorir að hafa skoðanir og er áberandi málsvari sinna skoðana, sama hvað á gengur í blíðu sem stríðu. Þessi eiginleiki hefur gert það að verkum að ég met Björn mjög mikils sem stjórnmálamann og persónu.

Ég sendi honum mínar bestu kveðjur og óskir um góðan bata.


mbl.is Hægra lunga Björns Bjarnasonar féll saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband