6.2.2007 | 19:26
Lífleg viðbrögð við hugmyndum um Kjalveg
Lífleg umræða hefur verið síðustu dagana um hugmyndir Norðurvegs ehf. um að leggja nýjan veg yfir Kjöl í einkaframkvæmd. Er ég eindregið hlynntur þessum hugmyndum og fagna þeim metnaði og krafti sem félagið hefur í þessum efnum. Fór ég yfir skoðanir mínar í pistli hér á vefnum á sunnudag. Voru lífleg skoðanaskipti sem spunnust vegna skrifanna og þar komu mörg athyglisverð og góð innlegg.
Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hefur alla tíð verið mjög andvígur hálendisvegum og reynt í skrifum sínum að tala þær hugmyndir sem allra mest niður, við mjög litla gleði flestra Norðlendinga. Það eru því nákvæmlega engin tíðindi í mínum huga að heyra af andstöðu hans við þennan vegakost sem vel komu fram í leiðaraskrifum í Morgunblaðinu í gær. Hann gengur reyndar skrefið í andstöðu mun lengra en oft áður. Það virðist lítill vilji vera af hans hálfu að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, altént með þessum hætti.
Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi gerði vegakost á hálendinu að kosningamáli í alþingiskosningunum 2003. Halldór Blöndal, leiðtogi flokksins í kjördæminu og fyrrum samgönguráðherra, hefur verið ötull baráttumaður þessa kosts í áraraðir. Það var heilsteypt og kjarngott hjá honum að leggja flokknum þá línu í sinni síðustu kosningabaráttu á litríkum stjórnmálaferli að feta þessa leið. Menn eru reyndar að horfa nú á annan kost en Halldór kynnti en þeir eru samt áþekkir að því leyti að þeir liggja báðir yfir hálendið. Þetta hefur verið eitt helsta grunnmál Halldórs í stjórnmálum á síðustu árum.
Fyrir síðustu alþingiskosningar leiddum við sjálfstæðismenn í kjördæminu saman fóstbræðurna og félagana Halldór og Styrmi saman á eftirminnilegum fundi hér á Hótel KEA. Umræðuefnið voru hálendisvegir og valkostir í þeim efnum. Þetta var debatt, þeir voru þá sem nú með algjörlega ólíkar skoðanir og tókust á af krafti í mjög málefnalegum en spekingslega inspíreruðum rökræðum. Það var mjög gaman af þessum fundi og hann er mjög eftirminnilegur í minningunni. Styrmir sagði sitt og Halldór svaraði með leiftrandi rökum. Það vissu allir sem sátu fundinn að himinn og haf væri á milli þeirra - óbrúanleg gjá. Skrif Styrmis koma því vart sem leiftrandi þruma í hausinn á okkur fyrir norðan.
Margir hafa ritað margt og mikið um þessar pælingar. Ein þeirra er Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri. Hún fer yfir málið í góðum pistli á vef sínum. Tek ég þar undir hvert orð. Það eru orð sem kristalla mjög vel skoðanir flestra hér í þessum efnum. Ég fer ekki ofan af því að þessi styttingakostur sé mikilvægur og mun tala máli hans með áberandi hætti. Það hef ég áður gert í fjölda greina og ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi tali máli hans með áberandi hætti í væntanlegri kosningabaráttu.
6.2.2007 | 17:52
Átök um Akureyrarstofu hjá meirihlutanum
Átök voru innan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar um hvort auglýsa ætti eftir framkvæmdastjóra Akureyrarstofu; menningar-, markaðs- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar. Tókust Elín Margrét Hallgrímsdóttir, formaður Akureyrarstofu og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Helena Karlsdóttir, varaformaður Akureyrarstofu og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, á um hvora leiðina ætti að fara.
Gerði Elín Margrét kröfu um að staðan yrði auglýst. Um helgina var sáttafundur haldinn með bæjarfulltrúunum og leiðtogum meirihlutaflokkanna; Sigrúnu Björk Jakobsdóttur og Hermanni Jóni Tómassyni, og leitast við að leysa málið. Niðurstaða flokkanna varð sú að að Elín Margrét hafði sitt fram eftir nokkur átök milli flokkanna. Auglýst verður því eftir framkvæmdastjóra nýrrar Akureyrarstofu. Lýsi ég yfir ánægju minni með að sú varð reyndin. Það er algjörlega ólíðandi að mínu mati að ráðið sé í stöður á borð við þessa án auglýsingar.
Elín Margrét tók við formennsku í Akureyrarstofu þann 9. janúar sl. af Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra, en hún var fyrsti formaður stofunnar, sem stofnuð var eftir að menningarmálanefnd var lögð niður síðla síðasta árs. Í síðustu viku var haldinn kynningarfundur þar sem Sigrún Björk og nefndarmenn í Akureyrarstofu kynntu verkefnið og stöðu þess nú. Það var áhugaverður og gagnlegur fundur sem var fræðandi og athyglisverður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 16:27
Sorglegt mál úr fortíðinni
Ég hef sjaldan eða aldrei orðið eins orðlaus og var í gærkvöldi. Ég sat þrumu lostinn yfir Kastljósinu eins og sennilega langflestir landsmenn. Það að hlusta á lýsingar af því sem gerðist á drengjaheimilinu í Breiðavík fyrir áratugum var sláandi; það var sorglegt og nísti í hjartastað.
Það að lýsingar á kynferðisofbeldinu og líkamlegum barsmíðum sem börn þurftu að þola komist fyrst í umræðuna fyrir alvöru nú er að mínu mati stóralvarlegt mál. Hversvegna var þetta mál í þagnarhjúpi öll þessi ár? Hvar var eftirlitið á þessum tíma eiginlega og hvar voru þeir sem báru ábyrgð á málaflokknum? Það þarf að afhjúpa allt þetta mál og sýna með afgerandi hvar brotalömin var í kerfinu á þessum tíma.
Þetta er mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Það var sláandi að sjá harðfullorðna menn, meira að segja Lalla Johns sem þarna var vistaður sem barn, brotna saman við tilhugsunina eina um þennan stað, þessi örlög að vera þar neyddur til vistar, allt ofbeldið og ógeðið. Þetta var stingandi stund að sjá þessi viðtöl og skynja það sem hefur þarna gerst. Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því.
Það er ekki til of mikils mælst að stjórnvöld dagsins í dag biðji þessa menn opinberlega afsökunar á því að hafa verið neyddir til vistar á þessum vítisstað sem þetta heimili hefur verið.
![]() |
Byrjað að undirbúa úttekt á Breiðavíkurmáli í félagsmálaráðuneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2007 | 07:20
D með 45,5% fylgi - VG stærri en Samfylkingin
Miklar sviptingar eru á fylgi flokkanna í nýrri skoðanakönnun Blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 45,5% fylgi og VG er orðin stærri en Samfylkingin. Frjálslyndi flokkurinn mælist heillum horfinn miðað við síðustu kannanir og Framsóknarflokkurinn er enn að mælast með innan við 10% atkvæða. Könnunin sýnir allt annað landslag en könnun Gallups fyrir tæpri viku, en hún er hinsvegar tekin á einum degi.
Af 750 þátttakendum svöruðu 88,8%, en af þeim voru 39% óákveðin. Könnunin er gerð með sama hætti og kannanir Fréttablaðsins, aðferðin er sú sama og hún sýnir stöðuna á einum tímapunkti í stað þess að kannanir Gallups sýni stöðuna á mánaðarlöngu tímabili. Það eru mörg stór tíðindi þarna. Vitanlega stendur þar hæst mikið fylgi Sjálfstæðisflokksins og það að Samfylkingin minnki enn. VG var með sterka stöðu í könnun Gallups og var að ná sterkri stöðu á höfuðborgarsvæðinu. Fylgishækkun VG er staðfest þarna með afgerandi hætti.
Þarna toppar VG hvorki meira né minna Samfylkinguna um tæp fjögur prósentustig og mælist næststærstur flokka. Staða Samfylkingarinnar getur vart annað en talist slæm, en varla hefur birst góð könnun fyrir flokkinn svo mánuðum skiptir. Það hlýtur að fara um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og samstarfsfólk hennar og flokksfélaga hennar í Samfylkingunni við að sjá þessar tölur. Verði staða flokksins á þessu róli eftir kosningar er vandséð hvernig að hún geti leitt flokkinn áfram. Fari staðan svona eins og Gallup og Blaðið sýnir hefur enda Samfylkingin misst yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum til vinstri grænna.
Frjálslyndi flokkurinn tekur mikla dýfu og mælist aðeins með 3,1%. Þessi staða vekur mikla athygli, enda stutt síðan að flokkurinn klofnaði eftir átakaþing flokksins þegar að Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, gekk úr honum með stuðningsfólki sínu. Staða Framsóknarflokksins batnar lítið og það sama gildir um Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna að flokkarnir eru í frjálsu falli frá kosningunum 2003.
Þetta er merkileg staða og vafalaust verður mikið talað um þessa skoðanakönnun í dag og næstu daga - ekki vantar allavega tíðindin.
Tölur í könnuninni
Sjálfstæðisflokkurinn - 45,5%
VG - 22,9%
Samfylkingin - 19,1%
Framsóknarflokkurinn 9,4%
Frjálslyndi flokkurinn 3,1%
![]() |
Samfylkingin með minna fylgi en VG og ríkisstjórnin heldur velli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2007 | 01:18
Ábyrgð nafnleysingjanna
Það hafa verið lífleg viðbrögð við skrifum Jónínu Benediktsdóttur um spjallvefi á vef hennar. Hún hefur ákveðnar skoðanir á spjallvefunum og tjáir þær óhikað. Það er gleðiefni. Sjálfur hef ég notað spjallvefi aðeins, var reyndar mun virkari í þeim bransa hér í denn en lít þar regulega og set stundum smáskrif þar inn. Ég er þó einn þeirra sem skrifa þar undir nafni, fyrst undir kenninafni mínu í áraraðir, stebbifr, og síðar undir fullu nafni. Það hefur verið gaman að fylgjast með skrifunum, en skrifin þar eru eins ólík og fólkið er margt sem skrifar.
Stór hluti blómalegrar risu Netsins í hversdagssamfélaginu er fjöldi bloggsíðna. Sumir skrifa á spjallvefunum; þeir hafa orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja. Síðustu tvö til þrjú árin hafa spjallvefirnir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu.
Margir á þessum vefum skrifa undir nafnleynd og gefa ekki upp hverjir standa að baki. Það getur verið skiljanlegt ef fólk vill ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt. Oft vill þó nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem á ekki að þekkjast á opinberum vettvangi; alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika.
Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum og ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans. Hef ég fylgst með spjallvefum í sjö til átta ár; sem lesandi og notandi. Þar hef ég kynnst fólki sem bæði vill tjá sig málefnalega undir nafnleynd og þeim sem misnota hana gróflega.
Hef ég verið málefnalegur og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi að gengið sé of langt í skítkasti undir nafnleynd.
Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu.
Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.
Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2007 | 22:47
Dimmustu heimar netsamfélagsins

Það eru aðeins nokkrar vikur síðan að Stöð 2 afhjúpaði harða heima netsins og það sem getur gerst á einkamálasíðum og flétti hulunni af sjúkum sálum sem virðast þar þrífast. Kompás og umsjónarmenn þess þáttar eiga hrós skilið fyrir vandaða umfjöllun, þetta er heimur sem varð að afhjúpa og fjalla um - þessi umfjöllun var allavega mikilvæg. Það verður seint sagt að það sé ánægulegt að horfa á svona efni, en það var nauðsynlegt að afhjúpa það sem greinilega gerist á netinu.
Það má spyrja sig að því í hvaða átt heimurinn er að snúa. Kompás sýndi okkur hvernig sjúkar sálir ráðast inn í huga ómótaðra barna og enn annan daginn heyrast fréttir um að lögregla sé kvödd að heimilum fólks til að grípa inn í heimilisátök þar sem foreldrarnir reyna að hafa stjórn á netnotkun barna sinna og missa stjórn á stöðunni - lögreglan verður aðilinn sem aðeins getur lægt öldur. Það er margt mjög hart í gangi. Það eru svo sannarlega bæði ljósir og dökkir heimar til í samfélaginu.
![]() |
Tálbeita" fundin sek um að leggja á ráðin um nauðgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2007 | 20:53
Björn Bjarnason á sjúkrahúsi
Ég vil senda Birni mínar bestu kveðjur og óska honum góðs bata.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2007 | 18:37
Much ado about nothing....

Big Brother hefur gengið í einhver ár og bæði verið gerðar þáttaraðir með óþekktu fólki og þekktu. Í fyrra vakti mikla athygli að George Galloway, þingmaður Respect-sérframboðsins í Bethnal Green and Bow-hverfinu í London og fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins, var þar og þótti gera sig að hálfgerðu erkiflóni þar sem hann lék kött og var í eldrauðum djöflabúningi með hala og alles. Alveg kostulegt. Kannski er hægt að gera svona þáttaröð hér heima og klæða Steingrím J. í svona múnderingu.
En þetta viðtal á Sky áðan var alveg kostulegt. Það sem fólk lifir sig inn í svona feik-drama.... Ég segi bara eins og meistari Shakespeare; Much ado about nothing....
![]() |
Þátttakendur í Stóra bróður enn niðurbrotnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2007 | 16:38
Góð ályktun stjórnar SUS
Við í stjórn SUS sendum frá okkur eftirfarandi ályktun fyrir stundu. Hún er kjarnyrt og talar sínu máli vel sjálf tel ég.
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir furðu sinni með svokallaðan samning" milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um styrki til sauðfjárræktar. Sú forræðishyggja sem fram kemur í þessari gjörð ríkisvaldsins er með öllu óþolandi. Stórfelldar niðurgreiðslur á tiltekinni matvöru í krafti skattheimtu, framleiðsluhöft og verðstýring gengur þvert á flest þau grundvallargildi sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.
Það er mikill bjarnargreiði við íslenska sauðfjárrækt að aftengja greinina eðlilegum lögmálum frjáls markaðar. Tímabundnar stuðningsaðgerðir vegna niðurfellingar á öllum verndartollum hefði hugsanlega mátt réttlæta, en einhliða gjafagerningur af þessu tagi á kostnað skattgreiðenda er fullkomlega fráleitur.
SUS telur jafnframt mjög gagnrýnisvert að með samningi þessum er ríkisvaldið að hafa bein áhrif á framleiðslu og verðmyndun vörunnar með svokallaðri útflutningsskyldu. Með þessu er ríkið að taka eina grein framyfir aðrar í landbúnaði og viðhalda miðstýrðri verðmyndunarstefnu. Útflutningaskyldan felur í sér að framleiðendum er beinlínis skylt að flytja afurðir sínar út þegar framboð verður meira en eftirspurn á innlendum á markaði beinlínis í þeim tilgangi að halda uppi háu verði á innanlandsmarkaði. Er ljóst að þetta samræmist alls ekki grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um frjálsan markaðsbúskap.
Að mati SUS er hlálegt að halda því fram samningur þessi sé gerður með það að markmiði örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar, eins og kemur fram í fyrstu grein hans. Hljóti þessi samningur" staðfestingu Alþingis er ljóst að sauðfjárrækt á Íslandi verður áfram föst í hlekkjum hafta og miðstýringar. Íslenskir bændur eru fullkomlega færir um spreyta sig á frjálsum markaði og eiga skilið að fá tækifæri til þess."
![]() |
Ungir sjálfstæðismenn gagnrýna sauðfjársamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2007 | 13:36
Ryan O´Neal í mjög vondum málum

Margir muna eftir Ryan O´Neal úr hinni rómantísku vasaklútamynd Love Story árið 1970. Þar fór hann á kostum í hlutverki ferilsins sem Oliver Barrett, sem fellur fyrir Jennifer Cavalleri en missir hana með sorglegum hætti langt fyrir aldur fram. Það er svo sannarlega súrsæt ástarsaga. Það er ekki hægt að segja annað en að sú mynd hafi verið toppur leikferla bæði O´Neal og Ali MacGraw. Myndin varð ein sterkasta mynd ársins 1970, þó sennilega sé hún einum of væmin á að horfa nú var það mynd tilfinninga og krafts.
Persónulega fannst mér O´Neal bestur í hinni sígildu og ómótstæðilegu Paper Moon frá árinu 1973. Þar lék hann á móti dóttur sinni, Tatum. Mjög sterk mynd og leika feðginin mjög útsmogin feðgin sem leggja saman í púkkið til að hafa í sig og á; hann selur biblíur til grandalausra ekkna í sorg og hún leikur með. Fyndinn pakki. Tatum fékk óskarsverðlaunin, yngst allra leikara í sögu Óskarsverðlaunanna, fyrir túlkun sína á Addie en pabbinn varð ekki síðri. Myndin hefur frá fyrsta degi verið klassasmíð. Nefna mætti fleiri myndir með O´Neal, en í seinni tíð hefur ferill hans verið mjög lágstemmdur. Það síðasta sem ég man eftir með honum er hlutverk Jerrys Fox í Miss Match og Rodney Scavo í Desperate Housewifes.
En Ryan er heldur betur í klúðri, vægast sagt. Verður fróðlegt að sjá hvernig að þessu máli muni ljúka.
![]() |
Ryan O'Neal handtekinn eftir átök við son sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2007 | 00:27
Þvílíkur skandall

Félagi minn, Þorkell Gunnar, kom með góðar pælingar um þetta á síðunni sinni. Er meira og minna sammála því og mati hans á því hvernig lið mótsins eigi að vera skipað. Það að Gaui hafi ekki verið valinn er allavega eitthvað sem ég botna ekki í.
En svona er þetta víst. Mótið er allavega búið. Þýskir tóku þetta á heimavelli eins og ég sagði hér í kvöld og Danir fengu bronsið, fyrstu medalíu sína á HM í fjóra áratugi. Er enn alltof fúll út í Dani eftir leikinn á þriðjudag til að geta brosað yfir því í sannleika sagt. :)
Það er gott þegar að heimalið getur byggt upp stemmningu og neglt titil og kraft á heimavelli. Það tókst þeim þýsku. Okkur tókst það því miður ekki þegar að við höfðum mótið hérna heima árið 1995. Það var hreinræktuð sorgarsaga, einfalt mál.
En já, þetta mót er allavega búið. Ég er harðákveðinn á að fara á EM á næsta ári. Það er víst í Norge. Það er orðið allllltof langt síðan að ég hef farið til Noregs.....
![]() |
Guðjón Valur ekki í úrvalsliði HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 22:09
Mun Framsókn ná að rétta úr kútnum?
Það er ekki ofsögum sagt að nýjasta könnun Gallups hafi verið slæm fyrir Framsóknarflokkinn; hann mælist aðeins með sex þingsæti og hefur misst helming þingflokksins og tíu prósenta fylgi frá kosningunum 2003. Bæði Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir mælast utan þings, en eins og flestum er kunnugt tókust þau á um formennsku Framsóknarflokksins á síðasta ári þegar að Halldór Ásgrímsson hætti í stjórnmálum.
Það eru alltaf tíðindi þegar að ráðherrar og forystumenn stjórnmálaflokka mælast utan þings þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar. Sérstaklega ef um er að ræða formann flokksins ennfremur. Jón Sigurðsson virðist í sömu vandræðunum á þessum tímapunkti fyrir kosningar og Halldór Ásgrímsson fyrir kosningarnar 2003. Hann færði sig í borgina fyrir þær kosningar, sem urðu hans síðustu á stjórnmálaferlinum, eftir að hafa verið þingmaður Austfirðinga í þrjá áratugi. Honum tókst hægt og rólega að byggja upp fylgið þar og komst inn að lokum við annan mann, Árna Magnússon.
Á þessum tímapunkti blasir erfið kosningabarátta við Framsóknarflokknum á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, mælist þar inni nú. Eins og fyrr segir er Siv ekki inni í Kraganum, þrátt fyrir að hafa verið mjög áberandi. Það er freistandi að kenna lánleysi Jóns um pólitísku reynsluleysi hans og því að hafa aðeins stigið inn á hið pólitíska svið fyrir níu mánuðum er hann varð viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde, sama daginn og Halldór yfirgaf stjórnmálin. En það eitt og sér skýrir stöðuna ekki. Ef það væri skýringin á samt enn eftir að skýra út af hverju Siv er ekki að mælast inni, hún hefur enda verið þingmaður í tólf ár og ráðherra nær samfellt frá 1999.
Það blasir við að staða Framsóknarflokksins hefur versnað mjög í öllum kjördæmum landsins frá kosningunum 2003 er litið er á mælingu flokksins á landsvísu hjá Gallup. Ef könnunin yrði raunveruleiki fengi flokkurinn tvo menn í Norðaustri og Suðri og einn í Norðvestri og Reykjavík suður. Eins og fyrr segir mælist flokkurinn ekki með mann inni í Kraganum og Reykjavík norður. Það yrðu óneitanlega athyglisverð úrslit myndi Bjarni Harðarson komast í þingflokk Framsóknarflokksins frekar en þéttbýlisparið Jón og Siv. Það yrði rosalegt högg fyrir flokk og formann næði formaðurinn ekki inn.
Ég held að þetta fari eins með Jón og Björn Inga í borgarstjórnarkosningunum. Hann skreið inn svona fyrir rest. Ég sagði í prívatspjalli við góðan vin minn (ætla að voga mér að vitna í þetta tveggja manna spjall :) að Framsókn fengi átta ef kosið yrði núna; þau sex sem nefnd eru í könnuninni og auk þeirra þau Jón og Siv. Þá er enn Herdís Sæmundar utan þings af þeim sem ég veit að Framsókn leggur grunnáherslu á að ná inn. Væntanlega vilja flestir framsóknarmenn líka ná inn Sæunni Stefáns, ritara sínum, sem skipar annað sætið í R-Suðri á eftir umhverfisráðherranum. Það verður að teljast vonlítið nú. Svo má ekki gleyma skrifstofukonunni stálheppnu frá Suðurnesjum.
Framsóknarflokkurinn er níræður flokkur - gamall en þó keikur á brá. Hann stefnir væntanlega á að reyna að standa óboginn eftir þessa kosningahrinu. Flokkurinn væri dæmdur til stjórnarandstöðu fái hann skell af því kalíberi sem Gallup kynnir okkur þessa dagana. Þar er mikil varnarbarátta framundan. Stóra spurningamerkið er og verður Jón Sigurðsson, formaður flokksins. Hann hefur aldrei verið miðpunktur í kosningabaráttu áður. Val hans sem formanns var djarft að mínu mati. Annaðhvort klúðrar hann þessu eða reddar því stórt. Það verður varla mikið millibil þar.
Þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í ágúst á síðasta ári skrifaði ég grein sem hét einfaldlega; Hver er Jón Sigurðsson? Sú spurning á enn allvel við. Mér finnst ég ekki enn vita hver þessi stjórnmálamaður sé. Mér finnst hann vera eitt stórt spurningamerki í fjölda mála - hann þarf að tala með meira áberandi hætti og vera meira afgerandi í tali og töktum. Hann hefur þó skánað frá því sem fyrst var.
En já; betur má ef duga skal. Þessari spurningu hefur víða ekki enn verið svarað og þetta verður stóra spurning framsóknarmanna í kosningabaráttunni. Fáist henni ekki svarað betur gæti Framsókn staðið eftir með formannslausan þingflokk þann 13. maí. Verður Jón áfram fái hann ekki þingsæti? Hvað gerist fari svo; munu menn kannski þá horfa til Brúnastaða með pólitíska leiðsögn í gegnum eyðimörkina?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 20:28
Drög lögð að Norðurvegi - flott framtak

Norðurvegur ehf. var formlega stofnað á Akureyri í febrúar 2005. Fyrst var stefnt að því að leggja hálendisveg úr Skagafirði um Stórasand, Arnarvatnsheiði og Kaldadal sem stytt hefði leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um rúmlega 80 kílómetra og leitt til mikilla þáttaskila í samgöngumálum Norðlendinga. Sú tillaga sem stjórnmálamenn hér á svæðinu höfðu m.a. talað fyrir og var áberandi í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi við þingkosningarnar 2003 er nú ekki lengur á borðinu og þessi nýji valkostur, leiðin yfir Kjöl, kominn til sögunnar.
Hef ég lengi verið mjög hlynntur því að vegagerð af þessu tagi komi til sögunnar. Stytting á borð við þá sem um er að ræða mun skipta sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar á komandi árum og skiptir okkur hér mjög miklu máli. Er enginn vafi á að mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst.
Við hér fyrir norðan fögnum því mjög að alvöru tillögur að verklagi eru komin á borðið. Það er mjög til eflingar landsbyggðinni og okkar mikilvægustu þáttum að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum, vel enda er sýnilegt að Austfirðingar og fólk frá Norð-Austurlandi muni njóta góðs af þessum vegi, enda leiði þessi stytting til þess að norðurleiðin muni verða góður valkostur fyrir fólk sem býr á Austfjörðum.
![]() |
Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.2.2007 | 17:44
NYT fjallar um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi

Það er gott mál að erlendir fjölmiðlar sýni því áhuga að fjalla um íslenskan veruleika, þessar framkvæmdir og stöðu mála. Það er gleðiefni að svo virðist að blaðakonan, Sarah Lyall, birti í umfjöllun sinni báðar hliðar mála; enda öllum ljóst að þetta mál á sér bæði fylgismenn og andstæðinga. Þetta hefur verið hitamál og það er því algjört lágmark að báðum skoðunum sé gert hátt undir höfði. Sjálfur hef ég margoft sagt mína skoðanir á verkefninu en kvarta ekki yfir því að þeir sem hafa aðrar skoðanir fái sitt pláss með sína rödd.
Það eru vissulega skiptar skoðanir um þær framkvæmdir sem eiga sér stað á Austurlandi. Hinsvegar hefur það birst í skoðanakönnunum og í umræðu á lýðræðislega kjörnu Alþingi Íslendinga að meirihluti landsmanna styður þessar framkvæmdir og hefur lagt þeim lið. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.
Átök voru um þetta mál milli fylkinga í síðustu þingkosningum og reyndi þá á stjórnmálamennina sem leiddu málið á öllum stigum þess. Þeir höfðu sigur á meðan að andstæðingarnir fóru mjög sneyptir frá sinni baráttu. Auðvitað hefur þetta verið umdeild framkvæmd og mörgum sem hafa verið á móti henni hefur borið sú gæfa að mótmæla málefnalega, þó að þau hafi tapað baráttunni. Sumir náttúruvinir hafa mótmælt friðsamlega virkjun og álveri á Austurlandi. Þau hafa til þess sinn rétt að hafa sínar skoðanir og láta þær í ljósi. Sumir hafa þó gengið lengra.
Það verður fróðlegt hvort þetta hitamál verði rætt í aðdraganda alþingiskosninga eftir þrjá mánuði. Í raun má setja stóriðjumál í heilsteyptri mynd á borðið. Niðurstaða er enda fengin hvað varðar Kárahnjúkavirkjun og tengd verkefni. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé um kúrsinn á næstu árum. Þar eru deildar meiningar uppi og ekkert að því að hafa hreinar línur í þeim efnum.
![]() |
New York Times fjallar um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2007 | 17:13
Þjóðverjar heimsmeistarar á heimavelli

Stemmning Þjóðverja á heimavelli hefur skipt sköpum fyrir þennan árangur. Fyrir tólf árum var heimsmeistaramótið í handbolta haldið hér heima á Íslandi. Frammistaða okkar liðs þá var eitt af svörtu hliðum mótsins og stemmningin náði ekki að myndast með sama góða hættinum. Ég fór á nokkra leiki hér á Akureyri á sínum tíma, en riðlakeppnin var m.a. haldin hér. Stemmningin á mótinu varð aldrei góð og t.d. varð miðasalan langt undir öllum væntingum. Mótið varð ekki eins öflugt og eftirminnilegt allavega og að var stefnt.
En líst vel semsagt á Þjóðverjar hafi tekið þetta. Þó að við Íslendingar séum enn hundfúlir með að Danir hafi slegið okkur út í undanúrslitunum og við sitjum eftir er ekki annað hægt en að samfagna Dönum, þó seint verði sagt að ég hafi verið hryggur yfir því að þeir kæmust ekki í úrslitaleikinn.
![]() |
HM: Þjóðverjar heimsmeistarar í þriðja sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 12:31
...að vera rukkaður án þess að vilja það
Það getur varla verið þægilegt að vakna upp við það að vera rukkaður um eitthvað sem maður hefur hvorki óskað eftir að fá eða kannast ekki við að hafa pantað beint. Þetta virðist gerast í auknum mæli. Las athyglisverða umfjöllun um þessi mál í Sunnudagsmogganum sem segir sína sögu vel. Þar er rætt við Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, sem fjallar um þessi mál með fróðlegum hætti.
Ég veit af einum fjölskyldumeðlimi mínum sem vaknaði upp í þessari stöðu, en það var ekki nein rosaleg upphæð.... en þetta er nóg samt. Þetta er slæmt mál og hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Ekki vildi ég allavega fá kvittun í gegnum heimabankann fyrir eitthvað sem ég kannaðist ekki við.
Það þarf að standa betur að þessum málum. Það getur aldrei talist eðlilegt að svona geti gerst.
![]() |
Greiðsluseðlar sendir í heimabankann án þess að vara sé pöntuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2007 | 12:05
Fjarar mjög hratt undan Tony Blair
Eftir þrjá mánuði hefur Verkamannaflokkurinn verið við völd í Bretlandi í áratug. Á þessum tímamótum í breskum stjórnmálum hafa breskir kjósendur endanlega fengið nóg af Tony Blair og stjórnmálaferli hans. Tæp 60% landsmanna vilja að forsætisráðherrann hætti strax - er aðeins er litið til stuðningsmanna Verkamannaflokksins vilja aðeins 43% þeirra að hann haldi áfram. Blair tilkynnti 7. september sl. að hann myndi hætta í stjórnmálum innan árs og verði farinn frá völdum fyrir júlílok.
2. maí 2007 er dagsetning sem Blair vill ná að ríkja enn á til þess að komast í sögubækurnar. Þá er áratugur frá því að hann kom brosandi og með sögulegum hætti í Downingstræti á bylgju stórsigurs og velvildar flestra kjósenda. Hann var yngsti forsætisráðherra breskrar stjórnmálasögu og Verkamannaflokknum hafði tekist að berja Íhaldsflokkinn niður eftir átján ára stjórnarandstöðu. Blair varð tákngervingur nýrra tíma og tók við embættinu með mesta stuðning í skoðanakönnunum í sögu mælinga.
En nú er komið að nöpru endalokunum í sinni köldustu mynd. Stjórnmálaferill forsætisráðherrans er orðin sorgarsaga sem hann hefur enga stjórn á. Hann er orðinn hataður og óvinsæll meðal þegna sinna og meira að segja stór hluti flokksmanna hans hefur misst allt traust til hans. "Cash-for-honours"-skandallinn er að ganga endanlega frá pólitískum ferli forsætisráðherrans. Hann hefur enga stjórn lengur á stöðu mála. Versni staðan enn frekar verður hann að segja af sér embætti með skömm. Það vill hann forðast í lengstu lög.
Þegar að pólitískur ferill Tony Blair verður rakinn síðar meir mun Íraksmálið væntanlega verða þar ofarlega á baugi. Það er eitt stærsta mál hans ferils og grafskriftin sem því fylgir er öllum ljós sem með hafa fylgst. Oftar en þrisvar á fjórum árum Íraksstríðsins var hann nærri kominn að því að hrökklast frá embætti. Tæpast stóð hann sumarið 2003 þegar að vopnaeftirlitsmaðurinn dr. David Kelly fyrirfór sér. Hann stóð það mál af sér, með naumindum þó, og hvítþvottaskýrslan var svo augljóslega lituð og undarleg að enn er um talað. Íraksstríðið eyðilagði pólitíska arfleifð Blairs, það blasir við öllum.
Hvað er hægt að segja um Blair þegar að hann fer? Hann hafði jú vissulega níu líf kattarins og tókst svipað oft að sleppa frá afsögn og skammarlegum pólitískum endalokum. Hann reddaði sér fyrir horn síðast í september er litlu sem engu munaði að hallarbylting yrði gerð. Hann beygði sig undir óvildarmennina til að redda sér og varð að gefa upp dagsetningu til að hann næði valdaafmælinu í maí. Það var eina ambítíón Blairs þá - að geta staðið brosandi vígreifur í dyragættinni í Downingstræti, rétt eins og Thatcher árið 1989. Hann fer þó þaðan eins og Thatcher; skaddaður og rúinn í gegn.
Einu sinni fannst mér Tony Blair vera einhvers virði, ég viðurkenni það fúslega. Mér fannst John Major aldrei spes. Það að Thatcher skyldi ekki þekkja vitjunartíma sinn var mikill pólitískur harmleikur og öflugur eftirmaður kom ekki til sögunnar. Major dugaði, en ekki hótinu meira en það. Hann virkaði á mig og flesta aðra sem meinleysislegt grey sem reyndi sitt besta og tókst hið ómögulega; að vinna kosningarnar 1992. En honum var sturtað út fimm árum síðar. Þó að ég vonaði lengi að Major hefði það fannst mér ferskleiki yfir innkomu Blairs, enda var hann byrjun á einhverju nýju. Hann hlýtur að hafa valdið mestu stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.
Þeir segja spekingarnir sem ég met mest hjá Guardian að Gordon Brown sé enn nógu sterkur til að halda það lengi út að geta tekið við af honum Blair fyrir haustvindana. Það hafa orðið sættir milli hans og helstu Blair-istanna og Brown fær að öðlast lyklavöldin þegar að Blair fer loksins. Brown hefur beðið í árafjöld eftir tækifærinu. Fær hann að blómstra í embættinu? Er hann ekki orðinn einn þeirra krónprinsa sem biðu of lengi? Getur hann blómstrað í slag við David Cameron? Þetta er stóra spurning breskra stjórnmála nú.
Nú stendur nefnilega Brown blessaður og fellur með arfleifð Blairs. Hann tekur hana nefnilega í arf með öllu því vonda og beiska sem henni fylgir. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að skotinn plotteraði stendur undir þeirri arfleifð er Teflon-Tony keyrir inn í sólsetrið í eftirlaununum á besta aldri.
![]() |
Flestir Bretar vilja að Blair hætti þegar í stað skv. könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 02:10
Hvar og hver eru vandamál Sjálfstæðisflokksins?
Skoðanakönnun Gallups í vikunni sýnir Sjálfstæðisflokkinn vel yfir kjörfylgi sínu í alþingiskosningunum 2003 á meðan að Samfylkingin, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, hefur minnkað um tæp tíu prósentustig á kjörtímabilinu. Þessi staða ætti vissulega að teljast ánægjuleg eftir sextán ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur leitt stjórn samtals í 14 ár frá árinu 1991. Þó vekur staða mála meiri athygli á sumum stöðum en öðrum.
Það sem mér finnst mest áberandi þegar litið er á stöðu flokksins í kjördæmunum sex nú og borin saman t.d. skipting þingmanna við það sem gerðist í kosningunum 2003 er að Sjálfstæðisflokkurinn styrkist á landsbyggðinni en veikist á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þessa könnun er flokkurinn að bæta við sig þingmanni í öllum kjördæmum landsbyggðarinnar, þó t.d. fækki þingmönnum kjördæmaheildanna í Norðvesturkjördæmi og í Norðaustri og Suðri bætist við eitt þingsæti fyrir flokkinn þar. Sjálfstæðisflokkurinn hækkar mest í Norðausturkjördæmi, um 8 prósentustig, en hann fékk þar minnst fylgi síðast á landsvísu.
Það er athyglisvert að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að styrkjast á höfuðborgarsvæðinu. Hann mælist með 8 þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum, 4 í hvoru. Hann fékk samtals 9 í kosningunum 2003. Birgir Ármannsson myndi falla af þingi, skv. könnuninni. Flokkurinn er þó með mest fylgi í báðum kjördæmum og yrðu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, því fyrstu þingmenn kjördæmanna. Skv. þessu eru þau sem talin hafa verið af sjálfstæðismönnum frambjóðendur í baráttusætum; Sigríður Ásthildur Andersen og Birgir ekki inni.
Í Suðvesturkjördæmi eru vissulega vonbrigði að flokkurinn hafi misst fylgi milli mánaða. Lengi vel undir lok síðasta árs var flokkurinn að mælast með sex menn inni í kjördæminu. Það er ekki nú og flokkurinn mælist nú með fimm þingmenn rétt eins og í kosningunum 2003. Í þessum kosningum fær Suðvesturkjördæmi sinn tólfta þingmann, hann færist frá Norðvesturkjördæmi sem hefur níu þingsæti eftir breytinguna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, skipar baráttusætið í Kraganum og hljóta flokksmenn að leggja þar allt kapp á að Ragnheiður fari inn.
Það vakti mesta athygli mína við útreikninga þessarar könnunar að Herdís Þórðardóttir á Akranesi, fjórða á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, er inni á þingi í kjördæminu. Það gerist þó þingmönnum kjördæmisins fækki úr tíu í níu. Herdís er inni sem jöfnunarmaður en það sæti getur færst til hvert sem er, líklegast í stöðunni er að það dansi á milli NV og höfuðborgarsvæðisins. Persónulega tel ég mun líklegra að baráttan standi á milli Ragnheiðar og Sigríðar Andersen um sætið við Herdísi. Ef marka má stöðu mála er það nær örugglega svo.
Það eru því góð tíðindi og vond í könnuninni. Þau góðu að fylgið á landsbyggðinni hækkar en hin vondu að fólkið í baráttusætum á höfuðborgarsvæðinu er ekki inni. Ef ég þekki félaga mína fyrir sunnan rétt efast ég um að þeir séu sáttir við fjóra inn í báðum kjördæmum borgarinnar og fimm í Kraganum. Heilt yfir finnst mér gott auðvitað að fylgi flokksins sé yfir fylginu fyrir fjórum árum. Ég gerði mér þó vonir um meira miðað við að ný forysta er tekin við flokknum og breytingar hafa verið yfir.
Það er öllum ljóst að þetta eru neðri mörk þess sem Sjálfstæðisflokkurinn telur viðunandi þrem mánuðum fyrir alþingiskosningar, enda segin saga í kosningum að fylgið sé meira í könnunum en það sem kemur upp úr kjörkössunum. Gott dæmi er staða flokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Þar kom mun minna úr kössunum en kannanir t.d. í febrúar og mars höfðu sagt. Það verður því að vinna vel á þessu svæði til að ná betri árangri en síðast, þetta segir sagan okkur!
En heilt yfir er þessi könnun góð vísbending. Sjálfstæðismenn mega þó vel við una á meðan að Samfylkingin fær slíka dýfu að með ólíkindum er. Þar innanborðs hlýtur allt að vera logandi í vandræðakasti ef marka má landslagið nú. 100 dagar hljóma mikið, en það er áhyggjuefni fyrir andstöðuflokk að vera svo undir á þessum tímapunkti. En fyrst og fremst sýnir þessi könnun sjálfstæðismönnum að mikil vinna er framundan - á höfuðborgarsvæðinu gæti staðan verið betri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2007 | 22:47
Andri áfram í Eurovision - stuðlögin blíva nú
Var að horfa á þriðja og síðasta undanriðil forkeppni Eurovision. Ágæt lög og greinilegt að þjóðin vill fjörugri lög áfram. Er alsæll með að frænda mínum, Andra Bergmann frá Eskifirði, tókst að komast áfram með lagið Bjarta brosið, eftir Torfa Ólafsson. Fannst þetta fallegt lag og er auðvitað ánægður með að kappinn er kominn á úrslitakvöldið.
Andri er sonarsonur móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar frá Eskifirði. Það er mikil tónlistarhefð í okkar fólki og Valdi frændi lifði fyrir tónlistina, samdi mörg lög og var mjög áberandi í tónlistarlífi Austfjarða í áratugi og kom fram opinberlega við að syngja og spila nær alveg fram í andlátið. Heimili Valda, Sigurðarhúsið á Eskifirði, er eitt músíkalsta heimili sem ég hef kynnst. Þar skipti tónlistin máli. Það sést mjög vel í börnum Valda, en sennilega er Ellert Borgar, sonur hans, sem síðar varð forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, þeirra þekktast en hann söng í árafjöld með hljómsveitinni Randver.
Frænka mín, úr sömu góðu austfirsku tónlistarfjölskyldunni, söng líka í kvöld. Soffía Karlsdóttir er sonardóttir móðursystur minnar, Árnýjar Friðriksdóttur, og er systir Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur, sem söng í keppninni í fyrra lagið Andvaka. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð nokkuð hissa að lagið sem hún söng, Júnínótt, eftir Ómar Þ. Ragnarsson, sjónvarpsmann, tókst ekki að komast á úrslitakvöldið. Soffía stóð sig vel og hún má vera stolt af sínu. Það hefur hinsvegar komið vel fram í keppnunum síðustu vikur að fólk vill stuðlög eða lög með hraðari takta áfram og það kom vel fram í kvöld. En lagið hans Ómars var fyrst og fremst hugljúft og notalegt.
Varð svosem ekki hissa með að Hafsteinn Þórólfsson og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða) skyldu komast. Lagið hans Hafsteins er ekta Eurovion-stuðbombulag og fyrirfram ljóst, t.d. af viðbrögðum áhorfenda að það hefði sterkan grunn. Dr. Gunni hefur alltaf verið með öflug lög og merkilegt að sjá hann kominn í Eurovision. Fannst lagið hans og Heiðu ljúft og létt. Líst því vel á lagavalið í kvöld bara. Það er greinilegt að lög í svona stuðtakti er það sem landsmenn vilja og bera öll lögin níu sem keppa um sætið til Helsinki þess merki.
Fyrst og fremst vil ég óska Andra frænda mínum til hamingju og vona að hann standi sig súpervel eftir hálfan mánuð.
![]() |
Undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2007 | 18:50
Being a diva....
Það tekur oft á að vera söngvíva er sagt... ekki síður að vera heimsþekktur söngvari. Kröfur stjarnanna á tónleikaferðum eru oft gígantískar. Frægt var þegar að Bob Dylan kom hér á tónleika árið 1990 hvernig að hann vildi hafa morgunverðinn og alla hluti. Allar kröfur og stjörnum prýddar óskir Dylans fylltu nokkrar blaðsíður fyrir tónleikahaldarana að upplifa. Hann er ekkert einsdæmi í þessum bransa með kröfur.
Verð að viðurkenna að ég hló mjög þegar að ég las þessa frétt hér að neðan um Kiri Te Kanawa. Hún hefur verið þekkt fyrir að vera mjög kröfurík um alla þætti staðanna þar sem hún kemur fram og ná þær óskir allt frá matnum sem hún borðar til aðbúnaðar á tónleikastað til herbergis sem hún gistir í. Það er stundum gott svosem að vera kröfuríkur en það vill oft vera kostulegt að vera stjarna.
Frænka mín ein er mikil aðdáandi Kiri Te Kenawa, á margar plötur með henni og dýrkar söng þessarar dívu. Er ekki viss um að hún vilji samt hitta hana. Og þó, ég veit ekki hvort að fröken Te Kanawa myndi heilla hana sem karakter jafnmikið og lögin hennar. Held að hún vilji frekar dýrka sína söngdívu en vita hvernig karakter hún sé.
![]() |
Aflýsti vegna nærfatnaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)