3.2.2007 | 16:41
Kemst fyrsti innflytjandinn á þing í vor?

Það yrði vissulega mjög athyglisvert og eiginlega stórtíðindi myndi Nikolov ná kjöri af hálfu VG í þessum kosningum. En á það verður að líta að þetta er aðeins ein könnun og enn 100 dagar til þingkosninga. En möguleikinn á kjöri hans virðist heldur betur vera til staðar og hann mælist altént inni nú, skv. útreikningum Gallups. Nikolov þótti ná góðum árangri í prófkjöri VG fyrir jólin og komst ofar en margir mjög virkir flokksmenn VG undanfarin ár og stimplaði sig inn á blað í starfi vinstri grænna.
Á sama tíma og VG mælist með fyrsta innflytjandann inni á þingi í sögu pólitískra mælinga, sem ég man allavega eftir, er merkilegt að VG er að hökta frá og til varðandi samstarf við Frjálslynda flokkinn. Steingrímur J. segir eitt í dag og annað á morgun um samstarf við frjálslynda. Ég hef ekki betur séð en að Frjálslyndir hafi markað sér pláss í innflytjendaumræðunni og ég veit ekki betur en að flokkurinn hafi klofnað mikið til vegna þess.
En það stefnir í spennandi kosningar. Ég hef fengið talsverð viðbrögð við nafnalistunum og gott að vita að fylgst er með því. Ég mátti til með að setja nöfn við stöðu mála nú og tek því niðurstöður Gallups sjálfs á skiptingu þingsæta og set nöfn við. Það er fjarri því svo að þetta sé reiknað af mér, enda tel ég betra að sú hlið mála tilheyri Gallup. Fjallað er um niðurstöður Gallups í þessari frétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2007 | 15:50
Úff... svakaleg vonbrigði að fá áttuna

Það er aldrei þægilegt að sitja eftir í áttunda sætinu á svona móti, en það er okkar kaleikur að þessu sinni. Einhvernveginn óttaðist ég eftir tapið fyrir Dönum að þetta færi svona en vonaði það besta. Það hefur gerst oftar en einu sinni allt þetta mót að maður hefur vonað það besta fyrir leik en óttast það allra versta. Oft tókst okkur að landa mikilvægum sigrum. Töpin eru þó nístandi vond... þau eru það og verða alltaf þannig.
Þó að allt hafi djöfullega farið á lokaspretti mótsins verðum við að bera höfuðið hátt. Strákarnir gerðu sitt besta og það skiptir máli. Þeim tókst að komast lengra á þessu móti en mörgum óraði fyrir og topp átta er ekkert skelfilegt, en hljómar þannig þegar að við vitum af því hvaða tækifæri voru í stöðunni en náðust ekki. Þetta er bara grunnur fyrir betra starf á næstu árum. Liðið sýndi karakter á þessu móti og tókst að landa mörgum flottum sigrum og gera líf okkar notalegt þessa dimmu skammdegisdaga. Það er gott.
...það gengur bara betur næst.
![]() |
Ísland í 8. sætinu eftir tap gegn Spánverjum, 40:36 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2007 | 01:26
Sviptingar á Alþingi - hverjir kæmust á þing?
100 dagar eru til alþingiskosninga - spennan vex og kosningbaráttan er að hefjast af krafti. Könnun Gallups vakti mikla athygli nú undir lok vikunnar og sýnir talsverðar sviptingar. Ég hef nú sett upp lista um það hvaða þingmenn nái kjöri gangi könnunin eftir, sem sýnir stöðu mála á þessum tímapunkti.
Á flestum stöðum eru framboðslistar til og staða mála örugg. Enn er ekki vitað hver muni leiða framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi, þó flest bendi til að það verði Jón Bjarnason. Óvissa er enn uppi um alla lista Frjálslynda flokksins og mun ég ekki nefna nein nöfn í því samhengi. Óvissa er um Kristinn H. Gunnarsson, en þar sem hann fer ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn er hann ekki í kvótaútreikningum flokksins.
Þessi listi er athyglisverður. Í þessu má sjá sviptingar. Fjórir sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar eru fallnir í þessari stöðu og fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en á það ber að minnast að þrír af þessum fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins féllu neðar en í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og einn þeirra var kjörinn af lista Frjálslynda flokksins, eins og minnst er á útskýringum fyrir hvern flokk.
Tveir ráðherrar Framsóknarflokks ná ekki kjöri á þing í stöðunni sem uppi er - hvorki meira né minna en formannsefni flokksins á síðasta flokksþingi; Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir. Jón hefur reyndar aldrei fyrr verið í framboði og því ekki setið á þingi eins og fylgir með í útskýringum. En hér er semsagt nafnalistinn.
Sjálfstæðisflokkur (24)
Geir H. Haarde (Reykjavík suður)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Guðlaugur Þór Þórðarson (Reykjavík norður)
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Suðvesturkjördæmi)
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Sturla Böðvarsson (Norðvesturkjördæmi)
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Herdís Þórðardóttir
Kristján Þór Júlíusson (Norðausturkjördæmi)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen (Suðurkjördæmi)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 22 þingsæti í kosningunum 2003. Birgir Ármannsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson (kjörinn af lista Frjálslynda flokksins 2003) falla af þingi ef þetta væri niðurstaða kosninganna. 5 þingmenn Sjálfstæðisflokksins hætta nú þingmennsku.
Samfylkingin (14)
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Reykjavík suður)
Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson (Reykjavík norður)
Ágúst Ólafur Ágústsson
Gunnar Svavarsson (Suðvesturkjördæmi)
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Árni Páll Árnason
Guðbjartur Hannesson (Norðvesturkjördæmi)
Kristján L. Möller (Norðausturkjördæmi)
Einar Már Sigurðarson
Björgvin G. Sigurðsson (Suðurkjördæmi)
Lúðvík Bergvinsson
Róbert Marshall
Samfylkingin fékk 20 þingsæti í kosningunum 2003. Einn þingmaður flokksins gekk til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2007. Mörður Árnason, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir myndu skv. þessu öll falla af Alþingi. 5 þingmenn Samfylkingarinnar gefa ekki kost á sér til þingmennsku nú.
VG (13)
Kolbrún Halldórsdóttir (Reykjavík suður)
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Katrín Jakobsdóttir (Reykjavík norður)
Árni Þór Sigurðsson
Paul Nikolov
Ögmundur Jónasson (Suðvesturkjördæmi)
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Jón Bjarnason (listi þó ekki enn til) (Norðvesturkjördæmi)
Steingrímur J. Sigfússon (Norðausturkjördæmi)
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason
Atli Gíslason (Suðurkjördæmi)
VG fékk 5 þingsæti í kosningunum 2003. Hann missir engan sitjandi þingmann og enginn þingmaður flokksins hættir.
Framsóknarflokkur (6)
Jónína Bjartmarz (Reykjavík suður)
Magnús Stefánsson (Norðvesturkjördæmi)
Valgerður Sverrisdóttir (Norðausturkjördæmi)
Birkir Jón Jónsson
Guðni Ágústsson (Suðurkjördæmi)
Bjarni Harðarson
Framsóknarflokkurinn fékk 12 þingsæti í kosningunum 2003. Siv Friðleifsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson munu falla af þingi ef þetta yrðu úrslit kosninganna. Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, næði ekki kjöri, en hann situr ekki á Alþingi nú og er utanþingsráðherra. 3 þingmenn flokksins hætta á þingi í vor.
Frjálslyndi flokkurinn (6)
1 þingsæti (Reykjavík suður)
2 þingsæti (Reykjavík norður)
1 þingsæti (Suðvesturkjördæmi)
2 þingsæti (Norðvesturkjördæmi)
Frjálslyndi flokkurinn fékk 4 þingsæti í kosningunum 2003, en einn þeirra gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 2005. Þingmaður kjörinn af lista Samfylkingarinnar gekk til liðs við flokkinn árið 2007. Þar sem framboðslistar flokksins eru enn ekki tilbúnir er óvissa uppi um hvort að allir þingmennirnir fjórir nái endurkjöri miðað við þessa könnun.
Þetta eru mjög athyglisverðir nafnalistar og öllum ljóst að gríðarleg uppstokkun verður á Alþingi í vor verði þetta niðurstaðan. Fyrir það fyrsta er ríkisstjórnin fallin í þessari könnun og ljóst að komið getur til mjög spennandi og jafnvel langvinnra stjórnarmyndunarviðræðna ef þessi verður staðan. Þó ber á það að líta að tveir flokkar hafa nú þegar útilokað stjórnarsamstarf við Frjálslynda flokkinn eins og staðan er nú.
En 100 dagar er langur tími í pólitík - það eru þrír mánuðir og tólf vikur til stefnu. Vikan getur oft verið sem eilífð í pólitík og öllum ljóst að mikil spenna verður yfir baráttunni. Svo er ekki enn útséð um að fleiri framboð komi fram. Það má því búast við leiftandi pólitískri spennu næstu mánuðina.
PS: Þegar að ég tala um fallna þingmenn miða ég við frambjóðendur í tíu efstu sætunum. Ég fékk tvo tölvupósta áðan þar sem spurt er af hverju ég nefni frambjóðendur sem náðu ekki öruggu sæti í Suðurkjördæmi en ekki Sigurrósu Þorgrímsdóttur í Suðvesturkjördæmi sem féll í prófkjöri. Ástæðan er einföld; Sigurrós er í einu af heiðurssætum lista sjálfstæðismanna í SV en þingmennirnir í Suðri sem spurt var um eru í neðri hluta topp tíu listans í kjördæminu. Þeir falla því undir skilgreininguna.
Þessi listi er settur saman eftir útreikningum Gallups á þingmönnum flokkanna og skiptingu þeirra á kjördæmin. Eina sem ég hef því gert er að setja nöfn við niðurstöðu könnunar Gallups og útreikninga, svo það sé skýrt tekið fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.2.2007 | 21:33
Þvílíkt og annað eins - er fólk fífl?

Botna hreint ekki í þessu. Þetta er óskiljanlegt rugl. Ég fékk um daginn einhvern keðjupóst sem var svo innilega falskur og fyrirsjáanlegur að ég trúi varla að nokkur falli fyrir þessu. Og þó, þessi skilaboð sem fram koma í fréttinni hér að neðan vekur vonandi einhverja til vitundar um að falla ekki í gryfjuna kolflatt og láta glepjast af innistæðulausum gylliboðum.
Munum að það er enginn svo góður við mann að bjóða manni gull og græna skóga af þessu tagi. Svikamylla er þetta oftast nær, verum á varðbergi og áframsendum svona pósta til lögreglu eða einfaldlega eyðum þeim og horfum út um gluggann og brosum framan í hversdaginn. Það er algjör óþarfi að leggjast flatur fyrir einhverjum óprúttnum aðilum erlendis.
![]() |
Töpuðu tugum milljóna til svindlara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 18:25
Fylgi Samfylkingarinnar hrynur í Reykjavík

Samfylkingin mælist nú, eins og ég spáði í gær við að sjá tölurnar, með 14 þingsæti, myndi tapa sex þingsætum frá kosningunum 2003. Virðist ekki marktækur munur milli vinstriaflanna og öllum ljóst sem sjá þessa könnun að Samfylkingin er ekki lengur það yfirgnæfandi afl til vinstri og það var t.d. eftir síðustu alþingiskosningar. Staða Samfylkingarinnar og formannsins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er því afgerandi slæm þegar að haldið er inn í síðustu 100 dagana fram til kosninga.
Stærstu tíðindi Gallup-könnunarinnar eru án nokkurs vafa gríðarlegt fylgistap Framsóknarflokks og Samfylkingar annarsvegar og hinsvegar upprisa VG, sem yrði án vafa sigurvegari alþingiskosninganna færi mál á þennan veg. Í alþingiskosningunum 2003 hlutu Framsóknarflokkur og Samfylking þingmeirihluta, 32 þingsæti, og gátu því myndað ríkisstjórn. Bauð Össur Skarphéðinsson, þáv. formaður Samfylkingarinnar, Halldóri Ásgrímssyni, þáv. formanni Framsóknarflokksins og síðar forsætisráðherra, samstarf og forsætið í stjórn flokkanna. Framsókn hafnaði boðinu.
Allt að því frjálst fylgisfall blasir við báðum þessum flokkum núna; þeir hafa aðeins 20 þingsæti samtals, eða jafnmikið og bara Samfylkingin hafði eftir kosningarnar 2003. Fari kosningar á þennan veg verða úrslitin vart túlkuð á annan veg en sem afhroð beggja flokkanna. Báðir virðast þeir nú algjörlega heillum horfnir. Framsókn mælist aðeins með einn þingmann á höfuðborgarsvæðinu, Jónínu Bjartmarz, en hvorki Siv Friðleifsdóttir eða Jón Sigurðsson, næðu á þing. Flokkurinn hefur misst umtalsvert fylgi um allt land. Staða Framsóknarflokksins hefur sjaldan verið verri en nú.
Samfylkingin hefur tvo þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna og myndu því bara ISG, Össur, Ágúst Ólafur og Jóhanna ná inn á þing þar. VG hefur þrjá þingmenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og því mun meira fylgi þar en Samfylkingin. Einnig er VG með tvo þingmenn í Kraganum.
Það er öllum ljóst að það stefnir í spennandi alþingiskosningar. Það verður um nóg að spá og spekúlera næstu 100 dagana - þetta verða lifandi dagar í pælingum hér sem og annarsstaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.2.2007 | 17:23
Groundhog Day - skemmtileg hjátrú um veðrið
2. febrúar ár hvert á sér stað merkilegur atburður í smábænum Punxsutawney í Philadelphiu í Pennsylvaníu-fylki. Þá er múrmeldýr dregið út úr holu snemma að morgni og með því er spáð fyrir um veðrið út veturinn og vorkomuna. Múrmeldýradagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í bænum í 120 ár. Að þessu sinni sá Phil ekki skugga sinn og því er spáin óvenju góð og útlit fyrir að vori mjög snemma.
Samkvæmt gamalli trú þýðir þetta að veðrið verður með besta móti næstu vikur og gott sumar gæti verið framundan. Þúsundir manna hafa lagt leið sína árlega til bæjarins til að verða vitni að þessum atburði. Mikil stemmning er jafnan og var mikið klappað og öskrað af gleði þegar að spádómurinn lá fyrir nú. Fólk lifir sig inn í þessa merkilegu seremóníu með alveg merkilegum hætti. Er þetta í 15. skiptið af 118 sem Phil sér ekki skugga sinn og því ljóst að mun oftar hefur spáð vondu veðri. Færri sögum fer af hversu oft rétt hefur verið spáð um veðrið. Þessi siður og athöfn var gerð ódauðleg í hinni frábæru kvikmynd Groundhog Day með Bill Murray árið 1993. Hef lengi fílað þessa mynd og horft á hana margoft. Hún fjallar um veðurfræðinginn Phil Connors, sem er nett orðað egóisti og algjör besservisser. Febrúardag einn þarf hann að fara í vinnuleiðangur til að fylgjast með Múrmeldýrsdeginum - hann heldur til Pennsylvaníu í fjórða skiptið... en það verður alveg ólíkt þeim fyrri.
Dagurinn er vægast sagt ekki í uppáhaldi hjá honum. Hann ætlar að drífa sig strax heim aftur seinna um daginn til að komast úr þessu skítaplássi, eins og hann telur það vera. Þegar hann er búinn að taka upp athöfnina frægu drífur hann sig með starfsliðinu en þá er orðið ófært til heimferðar. Hann verður því að snúa aftur til smábæjarins og gista þar um nóttina. Þegar hann vaknar þar næsta dag fattar hann að hann upplifir sama daginn aftur og aftur.... Er óhætt að fullyrða að hann lifi daginn oftar en góðu hófi gegni. Frábær mynd sem fellur vel allavega í minn kaldlynda húmor.
Hef alltaf haft gaman af GD. Bill Murray fer á kostum í hlutverki Phil Connors. Andie MacDowell og Chris Elliot eru einnig alveg frábær. Handritshöfundar standa sig vel og fara vel með þessa frábæru hugmynd. Harold Ramis er einn af mínum uppáhalds grínmyndaleikstjórum og leikstýrir hann hér að venju mjög vel. Groundhog Day er hugljúf, bráðskemmtileg og fyndin mynd sem hentar alltaf vel.
Ætla að horfa á hana í kvöld og hvet aðra til þess líka.
![]() |
Múrmeldýr spáir vorkomu í Pennsylvaníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 16:29
Friðrik V. í Listagilið - líf í bögglageymsluna
Þegar að maður vill vera grande á því og fara extra flott út að borða hér velur maður veitingastað Friðriks V. Klassamatur og eðalflott stemmning. Það gerist ekki betra en það.
Fagna því að Friðrik muni fá hús gömlu bögglageymslunnar fyrir staðinn sinn. Í áraraðir hefur húsið verið í niðurníðslu og verið lýti á annars flottu Listagili okkar í miðbænum.
Nú stefnir í breytingar. Það verður eðalgott að fá fyrsta flokks veitingastað í þetta gamla hús, það verði gert upp og fái þann sjarma sem það á skilið í heildarmynd Gilsins.
Verður gaman að sjá húsið lifna við... og fara þangað út að borða áður en farið í leikhús næsta vetur. Óska þeim heiðurshjónum Friðriki og Arnrúnu innilega til hamingju með þetta!
![]() |
Friðrik V. flytur í bögglageymslu KEA á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 15:36
Forseti spilar sóló - eðlileg viðbrögð Halldórs
Á pólitískum ferli sínum hefur Halldór Blöndal alltaf staðið vörð um virðingu og hlutverk Alþingis í stjórnskipan landsins. Hann stóð lengur en flestir aðrir vörð um Alþingi í átökum þings og forseta sumarið 2004 þegar að forseti Íslands gekk gegn lýðræðislega kjörnu Alþingi án þess að gera þingforseta og forsætisráðherra grein fyrir því áður en haldinn var blaðamannafundur þar sem þjóðhöfðinginn lýsti yfir frati á æðstu embættismenn landsins, ríkisstjórn landsins og þingið og án þess að svara spurningum.
Á þessum örlagaríku dögum fyrir þrem árum var Halldór Blöndal forseti Alþingis og stóð vörð um það sem hann taldi skipta mestu. Ítrekaði hann skoðanir sínar í þeim efnum í eftirminnilegri ræðu sinni er hann tók kjöri sem þingforseti í síðasta sinn, 1. október 2004. Halldór sagði þá það sem honum fannst og mislíkaði mörgum þingmönnum að kjörinn forystumaður þingsins hefði skoðanir. Var það þá og er enn með ólíkindum, enda hlaut þingforsetinn á þessum örlagatímum að hafa skoðanir á stöðu mála. Þingforseti er kjörinn þingmaður og hefur því fullt umboð til að tala um stjórnmál. Ég skrifaði á sínum tíma ítarlegan pistil um málsvörn Halldórs.Ólafur Ragnar Grímsson lítur á sig sem eyland í stjórnkerfinu. Það verður sífellt greinilegra á ákvörðunum hans. Nýlega tók hann sæti í þróunarráði Indlands án þess að ráðfæra sig hvorki við utanríkisráðherra eða utanríkismálanefnd Alþingis. Það hefði verið algjörlega lágmark að forseti hefði allavega ráðfært sig við ráðherra fyrirfram og gert honum grein fyrir þessu. Það var ekki gert.
Í yfirlýsingu forsetaembættisins kemur fram að forseti sé þjóðkjörinn og geti því allt að því gert sem honum sýnist. Ég er ekki sammála þessu og tek undir skoðanir Halldórs Blöndals, sem nú gegnir formennsku í utanríkismálanefnd, sem vill kalla fulltrúa ráðuneytis og forsetaembættisins til fundar.
Staða mála er einföld; forsetinn hefur ekkert framkvæmdavald, og það sem hann gerði, þótt það líti eflaust út fyrir að vera saklaust, á sér enga stoð á neinum stað. Þetta er einspil forseta án framkvæmdavalds. Auðvitað tekur utanríkismálanefnd upp málið, enda ber henni að fylgjast með framkvæmdavaldinu, en skv. stjórnskipan sem þetta blessaða land starfar jafnan eftir frá degi til dags starfar framkvæmdavaldið í umboði meirihluta löggjafarvaldsins.
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands fer framkvæmdavaldið með umboð valds forsetans. Staða mála er því einföld. Forseti Íslands er enginn sólóleikari þó eflaust vilji þessi forseti vera það. Það hefur tíðkast að forseti hefur samráð við utanríkisráðherra við verk á erlendum vettvangi og það hefði átt að vera með þessum hætti í þessu máli. Þannig að ég tel þetta ámælisvert og tek undir skoðanir Halldórs Blöndals í þessum efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2007 | 12:43
Kaffibandalagið deyr - VG útilokar frjálslynda

Síðustu mánuði hefur mikið verið talað um samstarf stjórnarandstöðuflokkanna fari það svo að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks falli eftir tólf ára setu. Í gær birtist skoðanakönnun sem sýndi stjórnarandstöðuflokkana með þingmeirihluta, Samfylkinguna í staðfestu frjálsu falli, Sjálfstæðisflokkinn yfir kjörfylginu 2003 og Framsóknarflokkinn með helmingi minna fylgi en í kosningunum 2003. Samkvæmt henni eru frjálslyndir búnir að missa tvö prósentustig milli mánaða. Spurt var því hvernig litið væri á frjálslynda.
Mér finnst yfirlýsing Steingríms J. mjög afgerandi og það var nauðsynlegt að fá hana fram. Að fengnum tölunum sem birtust í gær er nú ljóst að Frjálslyndi flokkurinn er ekki lengur kostur til stjórnarþátttöku. Nú hafa flokkar sem hafa 21% og 37% fylgis í könnunum útilokað samstarf við flokkinn að óbreyttri stefnu og því ljóst að þrengist mjög sífellt um Frjálslynda flokkinn. Það hefur blasað við síðustu vikur að áhersluskerpa Frjálslyndra í innflytjendamálum hefur veikt stöðu þeirra umtalsvert þó kannski hækki fylgið sem slíkt eitthvað. Þetta mál hefur nú drepið kaffibandalagið fræga sem komst á koppinn í mýflugumynd síðasta haust.
Kostirnir verða nú sífellt færri í væntanlegum stjórnarmyndunarviðræðum - línurnar skýrast með hverjum deginum. Þetta var stór og mikil yfirlýsing, afgerandi og góð. Það er fróðlegt hvað formaður Samfylkingarinnar segir um þetta og fleira..... hún er kannski enn orðlaus yfir tölunum og afhroði Samfylkingarinnar sem sífellt kemur betur fram?
![]() |
Steingrímur: Fyrirfram útilokað samstarf við flokka sem gera út á andúð í garð útlendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2007 | 20:58
Pólitískt áfall Ingibjargar Sólrúnar

Þessi skoðanakönnun kemur á viðkvæmum tímapunkti fyrir Samfylkinguna. Eins og ég benti hér á fyrir stundu var Samfylkingin með tæplega 40% fylgi í könnun Gallups á sama tímapunkti fyrir fjórum árum, í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Samfylkingin er ekki lengur afgerandi forystuflokkur til vinstri ef marka má þetta. Það er varla við því að búast að VG og Steingrímur J. Sigfússon tali fyrir því að ISG sé einhver leiðtogi stjórnarandstöðunnar í þessari stöðu og vilji byggja kosningabandalag undir hennar stjórn. Staðan virðist mjög skýr - þessi könnun staðfestir aðeins fyrri mælingar á því að Samfylkingin er í frjálsu falli fylgislega séð!
Kaffibandalagið er reyndar í huga margra steindautt. Ætla annars Samfylkingin og VG að leiða Frjálslynda flokkinn til valda og áhrifa í ríkisstjórn eins og staðan er nú? Þetta er stór spurning sem þarf að fá afgerandi svör við. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur svarað þessari spurningu með nokkuð afgerandi hætti. Það er ekki fýsilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hans mati að vinna með frjálslyndum og hann telur slíkt samstarf óraunhæft við núverandi aðstæður. Það er mikilvægt að heyra meira af afstöðu annarra leiðtoga stjórnarandstöðunnar við þessu. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta bandalag sé enn til staðar og sé valkostur eftir áhersluskerpu Frjálslyndra í innflytjendamálum.
Þessi könnun hlýtur að valda samfylkingarfólki verulegum vonbrigðum. Þrátt fyrir stjórnarandstöðu undanfarinna ára hrynur fylgið af flokknum. Það virðist ekki vera vilji þjóðarinnar að Samfylkingin fari til valda, ekki ef marka má tæplega tíu prósentustiga tap frá kosningunum 2003. Ef þetta verður niðurstaðan fær Samfylkingin væntanlega 14 þingsæti og er að tapa að minnsta kosti sex þingsætum. Flokkurinn fékk 20 þingmenn í kosningunum 2003 en hefur reyndar misst einn þeirra fyrir borð og til Frjálslynda flokksins, en Valdimar Leó Friðriksson sem tók sæti við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar hefur gengið til liðs við flokkinn og verður án vafa í framboði fyrir hann.
Fyrir Samfylkinguna er að duga eða drepast á næstunni. Formaðurinn virðist vera í sinni mestu pólitísku krísu til þessa og fátt sem minnir á sigursæla daga hennar sem borgarstjóra félagshyggjuaflanna í Reykjavík. Þetta virðist stefna í að verða pólitískur lífróður hennar. Fái Samfylkingin afhroð af þessum skala verður henni vart sætt lengur í fylkingarbrjósti þar. Hún bauð sig fram sem leiðtoga er gæti unnið stóra sigra. Ef þetta verður reyndin mun formannsferill hennar verða metin sem pólitísk sorgarsaga.
Lífróðurinn gæti orðið af slíkum skala að tryggja fyrst og fremst að þetta verði ekki síðasta kosningabarátta hennar - vonarstjörnunnar fornu sem þrisvar sigraði borgarstjórnarkosningar í stafni sameinaðs kosningabandalags en hefur aldrei fundið taktinn sem flokksleiðtogi. Hún virðist eiga erfitt verkefni framundan. Úr þessu dugar henni ekkert minna en pólitískt kraftaverk.
![]() |
Vinstri grænir mælast með 21% fylgi í nýrri Gallupkönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2007 | 19:39
Samfylkingin í frjálsu falli - VG og SF jafnstór

VG bætir einn flokka við sig fylgi milli mánaða og er eins og fyrr segir nú kominn upp að hlið Samfylkingarinnar í stærð. Það flokkast varla undir neitt annað en pólitískt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hvernig komið sé fyrir Samfylkingunni sem virðist eiga í mikilli pólitískri krísu þessar vikurnar, á þeim tíma sem kosningabaráttan er að hefjast af alvöru. Á sama tímapunkti fyrir alþingiskosningarnar 2003 mældist Samfylkingin með tæplega 40% fylgi í könnun Gallups.
Frjálslyndir minnka um tvö prósentustig milli mánaða. Framsóknarflokkurinn stendur í stað með tæp 10% og eru þessir tveir flokkar nú jafnstórir í mælingu. Sjálfstæðisflokkurinn missir örlítið fylgi en er enn mjög vel yfir kjörfylginu árið 2003. Skv. skoðanakönnuninni mælist ríkisstjórnin með 49% fylgi en flokkarnir sem mynda stjórnina mælast með 46% fylgi og ríkisstjórnin því fallin skv. því.
Þessi könnun er mjög athyglisverð - verður fróðlegt umfram allt að sjá skiptingu fylgis og þingmanna í kjördæmunum. Úrtakið er vel yfir 3000 manns svo að þetta er mjög sterk könnun og nokkuð afgerandi. Raunar eru skilaboðin í henni merkilega lík þeim tölum sem sáust hjá Heimi og Fréttablaðinu.
Það stefnir í spennandi 100 daga, fram að alþingiskosningunum þann 12. maí. Mikil gerjun virðist vera í pólitíkinni og mikil óvissa og jafnframt spenna yfir kosningabaráttunni sem senn hefst af fullum krafti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.2.2007 | 18:24
Sárt tap - leikið við Spánverja um 7. sætið

Eigum við að vera fúl með þetta? Eflaust erum við flestöll hundfúl yfir að hafa ekki náð að leggja Rússana, ekki frekar en á HM hér heima. Þá lentum við heldur betur í því heilt yfir og tapið grátlegt á heimavelli. Nú töpum við en getum samt borið höfuðið hátt. Það verður að taka þessu eins og öðrum töpum á lífsleiðinni sem hverju öðru hundsbiti.
Auðvitað hefði það verið betra að vinna leikinn og leika um fimmta sætið en eiga á hættu að fá það sjötta. Nú verður spilað um sjöunda sætið við Spánverjana, sem við vorum nærri búin að fá sem keppinauta í leiknum um undanúrslitasæti. Nú verður liðið að reyna að negla sjöuna og koma brosandi frá þessu. Vonandi lendum við ekki í því að verða áttundu úr því sem komið er.
Það er mikil pressa að halda í svona leik. Tapið fyrir Dönum á þriðjudag var svo tæpt að grátlegt mátti teljast, eins og ég hef sagt hérna. Það er oft erfitt að koma með fullan damp úr slíku. En þetta er bara svona. Vonandi náum við sjöunda sætinu og getum glaðst með eitthvað í stöðunni. Áttunda sætið er aldrei gleðiefni að vinna á svona móti vissulega.
![]() |
Íslendingar leika um 7. sætið eftir tap fyrir Rússum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 16:15
Nektin selur....

Nú erum við að sjá alþjóðakynningu á leikriti, bresku leikriti meira að segja. Þar er nekt grunnþema í kynningu. Aðalleikarinn gerði Harry Potter ljóslifandi á hvíta tjaldinu fyrir tæpum áratug. Það þarf sennilega varla að taka það fram að með kynningarmyndunum einum er tryggð metaðsókn á verkið. Það blasir við öllum, þarf ekkert að ræða það meira.
Fyrir tæpum áratug var leikritið Blue Room kynnt með nektinni. Í verkinu sem sýnt var í London var nekt grunnurinn og aðalleikkonan var Nicole Kidman, sem síðar hlaut óskarsverðlaunin fyrir The Hours og er ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar. Leikritið sem slíkt féll í skuggann. Þið megið geta þrisvar hvað stóð mest eftir sýninguna. Fyrir nokkrum árum var svo The Graduate sýnt í London líka. Vita nú allir um hvað það snýst eftir myndina guðdómlegu frá 1967 með Dustin Hoffman og Anne Bancroft. Allir vita líka hvað vakti mesta athygli í sviðsuppfærslunni.
En er þetta kannski bara tákn tímans? Það hefur sjálfsagt hver og einn sína skoðun, sína sýn á það. En þetta vekur atygli. Held að megi þó fullyrða það að Equues verði leikrit ársins og Daniel Radcliffe er að skapa sér nýja ímynd. Hann verður allavega ekki saklausi galdrastrákurinn í hugum fólks eftir þetta..... sem er kannski gott. Með nýrri ímynd koma oftast glæný tækifæri.
![]() |
Radcliffe fer úr hverri spjör í leikritinu Equus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 14:19
Jónína Ben byrjar að blogga af krafti
Það er ekki hægt að segja annað en að Jónína Benediktsdóttir byrji af krafti að blogga hér á Moggablogginu. Hún segir í bloggfærslu að tölvupóstar olíuforstjóranna hafi verið komnir inn á heimili hennar og þáverandi sambýlismanns hennar, Jóhannesar Jónssonar, löngu áður en þeir bárust Samkeppnisstofnun.
Orðrétt segir Jónína: "Hvað gerðist, ef ég nú vogaði mér að láta almenning vita, að tölvupóstar olíuforstjóranna voru komnir inn á heimili mitt og Jóhannesar í Bónus, löngu áður en þeir bárust Samkeppnisstofnun? Fæ ég þá fleiri og magnaðri árásir í Baugsmiðlunum?
Hvers vegna segir enginn: Það þarf að rannsaka upphaf olíumálsins? Hver ýtti því úr vör? Hvaða hugur bjó þar að baki? Góðmennska, hefndarhugur?".
Meira er sagt sem vert er að lesa. Þetta eru heldur betur dúndurskrif - það verður greinilega vel fylgst með bloggvef Jónínu Benediktsdóttur á næstunni.
Upphaf Baugsmálsins - skrif JBen
![]() |
Jónína Benediktsdóttir segir að tölvupóstar í olíumálinu hafi lekið út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2007 | 13:40
Tony Blair yfirheyrður öðru sinni af lögreglu
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið yfirheyrður öðru sinni af lögreglu vegna "Cash-for-honours"-skandalsins. Blair hefur réttarstöðu vitnis í málinu. Málið þykir sífellt vera að spinna upp á sig og staðan að versna fyrir forsætisráðherrann. Nokkrir dagar eru síðan að Levy lávarður, sem verið hefur einn helsti forystumaður fjármálaráðs Verkamannaflokksins, var handtekinn og ennfremur Ruth Turner, sem hefur verið yfirmaður almannatengslamála í D10.
Þetta hneykslismál, sem byggist á því að Verkamannaflokkurinn hafi þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir þingkosningarnar árið 2005 í skiptum fyrir góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif, þykir vera sérlega vont fyrir Blair og Verkamannaflokkinn í ljósi þess að Blair hafði á sér blæ heiðarleika við komu sína til valda og hann væri nýr valkostur nýrra tíma. Það yrði mjög táknrænt myndi þetta mál skaða pólitíska arfleifð hans og það myndi festast við hann með afgerandi hætti.
Sumir telja þetta vera mál af sama skala og Watergate-hneykslið sem eyðilagði bæði stjórnmálaferil og pólitíska arfleifð Richards M. Nixon. Það skal ósagt látið hvort sé. Það er þó öllum ljóst að þetta mál er hið allra versta fyrir Blair og pólitíska arfleifð hans og skaðlegt fyrir Verkamannaflokkinn. Framvinda þessa máls er að verða ótrúleg hreint út sagt og í raun má segja að pólitísk framtíð Blairs ráðist af því hvernig að þessi rannsókn muni í raun fara er á hólminn kemur.
Það þarf ekki færan stjórnmálaskýranda til að sjá að þetta mál er hið versta fyrir bresk stjórnvöld. Séu þessar ásakanir réttar munu þær enda loða alla tíð við nafn forsætisráðherrans og ekki síður flokksins sem hann stýrir. Það mun loða við þó að Blair yfirgefi Downingstræti 10. Reyndar má segja að svo gæti farið að þetta mál yrði pólitísk endalok Blairs, sem ríkt hefur í D10 í áratug í maí. Það yrðu sagnfræðilega séð merkileg endalok á ferli hans kæmi til þess.
![]() |
Blair yfirheyrður öðru sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2007 | 01:30
Hvítþvottur Frjálslynda flokksins

Það vakti verulega athygli mína í gær að formaðurinn kallaði það ekki klofning flokksins sem hann leiddi að forveri hans á formannsstóli og stofnandi flokksins hefði sagt skilið við flokkinn með öllu hans nánasta samverkafólki, þ.á.m. dóttur hans sem verið hefur framkvæmdastjóri flokksins í níu ár, að ógleymdum varaþingmanni, miðstjórnarfólki og borgarstjórnarflokknum öllum eins og hann leggur sig. Einhversstaðar hefði verið talað um klofning með minni sviptingum en þessum.
Í kvöld var fróðlegt að sjá og heyra Guðjón Arnar Kristjánsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann sagði að það hefði alltaf mátt búast við því að fólk segði sig úr flokknum í tugatali. Ég hef aldrei fyrr heyrt formann stjórnmálaflokks hérlendis segjast hafa búist við fjöldaúrsögnum og eða að eðlilegt sé að fólk streymi úr flokknum, hvað þá trúnaðarfólk og virkt fólk í innra starfi flokksins. Þá sagðist hann það eðlilegt að það verði inn- og útstreymi úr flokknum í smölun til að styðja viðkomandi. Með öðrum orðum er formaðurinn að segja að hann hafi reiknað með því að fólk kæmi bara í flokkinn í smölun og svo strax út aftur. Þetta er alveg kostulegt.
Ég sæi fyrir mér fréttaumfjöllunina ef forveri formanns eins af stærri stjórnmálaflokkunum (öðrum en Frjálslynda flokknum) og allt nánasta samstarfsfólk viðkomandi einstaklings gengi allt út. Auðvitað yrði það ekki kallað neitt annað en pjúraklofningur og það er því auðvitað ekkert annað en klofningur sem blasir við Frjálslynda flokknum. Það að neita því ber vott um mikla pólitíska afneitun. Þessi formaður verður sífellt hlægilegri með hverri stundinni sem líður og ekki bætir þessi hvítþvottur fyrir.
![]() |
Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni engum vafa undirorpin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.1.2007 | 21:20
Þvílík niðurlæging fyrir Berlusconi

Veronica fór með þetta á hærra stig heldur betur og birti opið bréf til eiginmannsins, en ekki hvar sem er, heldur hvorki meira né minna í sjálfu La Repubblica, blaði pólitískra andstæðinga Berlusconis. Hann beygði sig undir þau hörðu örlög og að maður minnist ekki á algjöra niðurlægingu og baðst opinberlega afsökunar á framkomu sinni við eiginkonuna. Mikið drama í gangi þarna heldur betur.
Hjónaband Veronicu og Silvio Berlusconi hefur alla tíð þótt sérstakt. Hún er seinni kona Berlusconis, tveim áratugum yngri en hann, á með honum þrjú börn. Hún hefur alla tíð forðast kastljós fjölmiðlanna og sárasjaldan komið fram opinberlega með forsætisráðherranum fyrrverandi á vettvangi stjórnmálanna, en hann var forsætisráðherra Ítalíu, lengst allra ítalskra stjórnmálamanna eftir seinna stríð, í heil fimm ár, á árunum 2001-2006. Hún hefur ekki viljað veita viðtöl eða verið áberandi í opinberum ferðum Berlusconis.
Þetta er kostulegt fjölmiðlastríð hjónanna, svolítið kaldhæðnislegt vissulega. En það þarf ekki að segja lengur að Veronica Berlusconi sé feimin við kastljós fjölmiðla allavega.
![]() |
Berlusconi biður konu sína auðmjúklega fyrirgefningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.1.2007 | 20:17
Brilljant hugmyndir og líflegar pælingar
Í gærkvöldi fór ég á áhugaverðan fund stjórnar Akureyrarstofu í Ketilhúsinu, þar sem kynnt var stefna og markmið hennar. Stofnun Akureyrarstofu hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði og er á lokaspretti. Fyrst og fremst verður Akureyrarstofa markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofa Akureyrarbæjar og mun aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum í nágrenninu og annars staðar.
Fundurinn hófst lóðbeint eftir leik Íslendinga og Dana og var visst spennufall í hópnum sem var samankominn, en þetta var fjölmennur og fínn fundur. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, stjórnaði fundi og stýrði umræðum um Akureyrarstofu í lok fundarins. Í upphafi flutti Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri og fyrsti formaður Akureyrarstofu og fyrrum formaður menningarmálanefndar, sem lögð var niður með stofnun Akureyrarstofu, grunnhugmyndir meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um það hvernig vinna skuli að verkefninu.
Eftir erindi Sigrúnar Bjarkar bæjarstjóra kynnti Þórgnýr Dýrfjörð Akureyrarstofu svo formlega af hálfu starfsmanna hennar. Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, grunnhugmyndir og pælingar um það sem almennt gengur alþjóðlega undir heitinu "Slow city" eða "Cittaslow" en sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að Akureyri skapi sér sérstöðu með markaðssetningu undir þeim hatti. Voru hugmyndir Hólmkels líflega fluttar og margir góðir punktar og pælingar í því. Hann allavega seldi mér hugmyndina gjörsamlega.
Ég varð skotinn í þessum pælingum alveg upp fyrir haus og vil hiklaust að bæjaryfirvöld feti þessa slóð, enda fannst mér lýsingarnar á rólegheitabænum sem Slow City segir frá passa nánast algjörlega við gömlu góðu Akureyri. Gárungarnir fóru reyndar hiklaust að kalla þetta Latabæ, eftir frægu konsepti Magnúsar Scheving, á fundinum að kalla þetta Latabæ en það mun nú ekki festast við svo glatt tel ég. Það var þó allavega mikið hlegið af þessu og léttur andi var yfir ræðu Hólmkels.
Eftir kaffihlé þar sem tími gafst til líflegs og góðs spjalls um pólitík og boltann hófust svo umræður um Akureyrarstofu og þær hugmyndir sem voru í deiglunni á fundinum. Þetta var lifandi og góður fundur. Þarna komu fram margar hugmyndir og líflegar pælingar sem safnast í sarpinn. Er ánægður allavega og tel þetta vel heppnað, þó vissar efasemdir hafi verið í huga mér um Akureyrarstofu í grunnhugmyndum. En það hefur verið skerpt á hlutverki hennar og þetta verður velheppnað.
Mér hefur alltaf þótt vænt um Akureyri og viljað veg þessa sveitarfélags sem mestan. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu. Það er allavega góð samstaða allra íbúa hér um þessar áherslur ef marka má fundinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 15:45
Stjórnarandstaðan kvartar yfir HM-ferðum ráðherra
Vart telst undarlegt að Þorgerður Katrín fari, bæði er hún gift einum af okkar eftirminnilegustu handboltagörpum og ráðherra íþróttamála. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan er ekki eins hress yfir HM-ferðum ráðherranna og þeir sjálfir. Í upphafi þingfundar í dag kvartaði Mörður Árnason yfir töfum á störfum þingsins og vék að því hvort það væri vegna fjarveru fjölda ráðherra til að fara á leiki landsliðsins í Þýskalandi.
Virtist hann sérstaklega kvarta yfir ferðum ráðherra Framsóknarflokksins sem fyrr eru nefndir, enda getur hann varla kvartað yfir að menntamálaráðherra fari út til að styrkja liðið á þessu stórmóti, veita þann stuðning sem mikilvægt er. Stjórnarandstaðan hefur verið mjög seinheppin á þessu þingmisseri. Málþófið um RÚV varð svona eins og algjör kjánaskapur sem hún guggnaði á. Það er merkilegt að gera þetta að umræðuefni.
En vissulega var hálf kómískt að sjá ráðherra Framsóknarflokksins þarna úti. Merkilegt að sjá - ekki virðist stjórnarandstöðunni vera skemmt í þingsalnum í steingráa húsinu við Austurvöll.
31.1.2007 | 14:44
Gríðarlegt spennufall eftir Danaleikinn

En nú taka næstu verkefni við. Vonandi er liðið til í þau átök. Það vill oft vera að spennufallið eftir svona leik sé lamandi og vindurinn sé í raun úr fólki. Vonandi á það ekki við um liðið. En það er auðvitað öllum ljóst að árangurinn er vel viðunandi á mótinu. Getum verið stolt.
En auðvitað hefði verið betra að fara lengra.... það er alltaf sárt að tapa með svo naumum mun, enda vorum við hársbreidd frá undanúrslitunum.
![]() |
HM: Íslenskt hugvit á bak við sigurmark Dana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)