15.2.2007 | 18:26
Nafnlausum athugasemdum eytt
15.2.2007 | 16:43
Sigurjón leiðir frjálslynda í Norðausturkjördæmi

Sigurjón verður væntanlega eini leiðtogi framboðslista hér í kjördæminu sem býr ekki í kjördæminu, en hann býr að mig minnir á Sauðárkróki. Norðausturkjördæmi og bæði Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi hefur verið hálfgert vandræðakjördæmi fyrir frjálslynda en flokkurinn hefur aldrei hlotið þingsæti á þessu svæði. Í síðustu kosningum mistókst Brynjari Sigurðssyni frá Siglufirði að komast hér á þing, en ekki hefur mikið heyrst af honum í pólitík hér síðan.
Tilfærsla Sigurjóns hingað hefur eiginlega blasað við, enda hefur hann ritað greinar reglulega á akureyri.net og verið sýnilegur hér um slóðir svo að þetta er eitthvað sem búist var við. Með þessu losnar annað sætið á lista flokksins í Norðvestri. Væntanlega er verið að rýma þar til fyrir Kristni H. Gunnarssyni, nýjasta flokksmanninum. Hvort Guðjón Arnar fari fram í Reykjavík er mikið í umræðunni nú, en væntanlega munu listar þessa flokks liggja allsstaðar brátt fyrir.
15.2.2007 | 15:45
Heimdallur 80 ára

Afmæli félagsins verður fagnað í Valhöll nú síðdegis, kl. 17:00. Ég kemst því miður ekki að afmælinu. Þar á að heiðra tvo fyrrum Heimdellinga með gullmerki félagsins, skv. hefð á stórafmælum, og opna nýja heimasíðu félagsins á slóðinni frelsi.is.
Ég vil senda Heimdalli, félagsmönnum þess og formanni félagsins, Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, sem er önnur konan á formannsstóli í sögu félagsins, innilegar hamingjuóskir með þetta merka afmæli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2007 | 14:50
Kvennafans í borgarmálum Samfylkingarinnar

Steinunn Valdís fær því aftur, þó tímabundið sé, aftur leiðtogahlutverk í borgarmálunum. Hún var í því erfiða hlutskipti fyrir ári að vera borgarstjóri alla kosningabaráttuna vitandi að hún yrði ekki á þeim stóli áfram. Hafði aðeins Egill Skúli Ingibergsson, embættismaður á borgarstjórastóli í vinstristjórninni 1978-1982, lent í því hlutskipti, en hann var auðvitað aldrei stjórnmálamaður og því fékk embættið á sig talsvert annan blæ þegar að Davíð Oddsson tók við af honum.
Það hlýtur að hafa verið sárt fyrir Steinunni Valdísi að hafa ekki fengið tækifæri til að leiða flokkinn í fyrra og hafa tapað leiðtogaslagnum fyrir Degi þó sennilega hafi áfall Stefáns Jóns orðið meira, en hann er nú staddur í Namibíu í þróunarverkefni til tveggja ára. Það vakti athygli mína þegar að Steinunn Valdís var sýnd í Kastljósviðtali í júní í fyrra á síðustu dögum sínum á borgarstjórastóli að pakka niður á borgarstjóraskrifstofunni að hún sagðist aðspurð án þess að blikna hefði náð betri úrslitum í kosningunum en Dagur.
Nú fær hún kastljós fjölmiðlanna á sig aftur sem leiðtogi Samfylkingarinnar tímabundið í borgarstjórn. Hún er reyndar í þingframboði og skipar fjórða sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. Ef marka má nýjustu kannanir Gallups kemst hún ekki á þing og er fjarri því, enda mældist Samfylkingin aðeins með fjögur þingsæti í báðum borgarkjördæmunum síðast, tvö í hvoru. Það yrði varla metið sem góður árangur.
![]() |
Fjórar konur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2007 | 11:59
Frjálslyndir verða sér að athlægi á Alþingi

Ég lít svo á að Frjálslyndi flokkurinn sé holdsveikur í komandi alþingiskosningum. Hann er óstarfhæfur með öllu og sýnt mikið ábyrgðarleysi á pólitískum vettvangi. Ég fagna því mjög að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi tekið af skarið um að Sjálfstæðisflokkurinn muni að óbreyttu ekki vinna með þessum flokki. Ég gæti ekki verið áfram í Sjálfstæðisflokknum yrði önnur afstaða tekin. Ég á ekki lengur pólitíska samleið með forystu Sjálfstæðisflokksins lyfti hún þessum holdsveika flokki til stjórnarsetu og eða pólitískra áhrifa. Því fagna ég svo innilega afstöðu Geirs í þessu.
Valdimar Leó Friðriksson talaði með frekar lágkúrulegum hætti til Sæunnar Stefánsdóttur í umræðum um daginn. Það er með ólíkindum að hann hafi ekki beðið hana afsökunar á ummælum sínum. Það er honum til mikillar minnkunar og þessi flokkur heldur aðeins áfram að sökkva lengra niður til botns í þessari innflytjendaumræðu. Þessi skilgreining á hryðjuverkamönnum er allavega eitthvað sem fráleitt telst.
Það verður fróðlegt að sjá Kristinn H. Gunnarsson tala fyrir þessum áherslum í vor. Hann virðist vera nýjasta málpípa þessa hlægilega flokks. Hann er nú farinn að mæra Guðjón Arnar og Magnús Þór sem mest hann má í Moggagreinum og viðtölum. Kostuleg teljast nú örlög Sleggjunnar.
![]() |
Tekist á um hryðjuverkamenn á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2007 | 10:24
Nauðaómerkilegar spjallsíður nafnleysis
Ég hef áður vikið að þeirri umræðu sem þar var í gangi. Þar vildi ég fá fram afsökunarbeiðni frá vefstjóranum fyrir að breiða út kjaftasögu sem átti við engin rök að styðjast. Seint og um síðir bað vefstjórinn, Ásthildur Cesil, mig afsökunar og það virði ég við hana. Hinsvegar stendur eftir hversu ómerkilegt var af henni að hefja þessa umræðu. Hún varð sem olía á eld gegn mér þarna. Nafnlaust lágmenningarlið hversdagsins kom þar fram og leyfði sér svo til að segja hvað sem er ógeðfellt um mig og vega að mér og minni persónu. Það var vægast sagt lítilfjörlegt.
Ég hef skoðað þennan vef frá fyrsta degi og stundum komið með innlegg þar inn. Þeir dagar eru að baki. Ég tók þá ákvörðun um leið og vefstjórinn kom með þessar ósönnu kjaftasögur og braut eigin málverjaboðorð að þar vildi ég ekki skrifa lengur. Oft hef ég tekið mér pásur og ákveðið að horfa á úr fjarlægð en oft komið þar aftur með komment. Ég ber ekki traust til þessa spjallvefs og þeirra sem stjórna honum og tel því ekki viðeigandi að ég noti hann sjálfur. Hinsvegar vildi ég svara fyrir mig í því ógeði sem beint var að mér. Annað var ekki hægt.
Þetta er stjórnlaus spjallvettvangur fjölda nafnleysingja sem fá útrás út úr því að tala illa um náungann og vega að öðru fólki. Því miður er það svo að þeir eru mest áberandi sem svo láta. Inn á milli er sómakært fólk sem kemur þar aðeins til að tjá skoðanir sínar og er mjög málefnalegt, þrátt fyrir nafnleynd. Það fólk sekkur í ósómanum sem þar svífur oft yfir. Það er mjög leitt. En því verður varla breytt. Lágkúra sumra hefur því miður stimplað þennan vef sem nauðaómerkilegan í huga mér. Við það situr.
15.2.2007 | 09:25
Glæsilegt hjá Háskólanum í Reykjavík

Þetta er hvetjandi og gott fyrirkomulag - hvetur nemendur til dáða og markar innri samkeppni um að gera betur en næsti maður. Þetta byggir upp liðsanda og kraft, tryggir líf í stofnunina. Þetta gerir það líka óhjákvæmilega að verkum að orðspor skólans sé gott og þangað fari fólk til að efla sig og skólann sem farsæla menntastofnun.
Guðfinna S. Bjarnadóttir lét nýlega af embætti rektors Háskólans í Reykjavík, en hún mun taka sæti á Alþingi eftir tæpa 90 daga sem alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Guðfinna byggði þennan skóla upp með glæsilegri forystu, sýndi kraft og kjark og á stóran þátt í velgengninni. Hún var farsæl og öflug leiðtogaímynd og byggði upp skólann sem það sem hann telst í dag.
Það er enda öllum ljóst að Háskólinn í Reykjavík hefur á sér góða ímynd og öflugt orðspor. Þetta verklag að heiðra þá sem standa sig vel er sérstaklega vel heppnað og er vegsauki fyrir farsælan skóla. HR hefur verið í fararbroddi þeirra skóla sem komu til sögunnar eftir að farsæl háskólalög í menntamálaráðherratíð Björns Bjarnasonar tóku gildi fyrir áratug.
Það er gleðiefni að sjá kraftinn í skólanum - sem brátt verður 10 ára gamall.
![]() |
HR heiðrar bestu nemendur sína og fellir niður skólagjöld þeirra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2007 | 00:38
Munu vinstri grænir halda uppsveiflunni til vors?

Það er enginn vafi á því í mínum huga að nái VG 13 þingsætum eða meiru er ríkisstjórnin sem nú situr við völd örugglega fallin. Mjög einfalt mál. Þá eru afgerandi líkur á að VG sé komið í oddastöðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hann gæti þá tekið sér þá stöðu á pólitíska litrófinu sem Framsóknarflokkurinn hefur haft í áratugi; að velja á milli samstarfsflokka og gera kröfur. Síðast gat Halldór Ásgrímsson gert kröfur um forsæti í ríkisstjórn Íslands út á tólf manna þingflokk. Hann og Framsókn voru í oddastöðu og réðu för enda þoldu Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki hvort annað.
VG er nú að mælast með svo til jafna stöðu til vinstri og Samfylkingin og birst hafa jafnvel kannanir sem sýna VG hafa forystu á vinstrivængnum. Það eru stórtíðindi. Samfylkingin gnæfði yfir VG í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum og hlaut mun stærri þingflokk þá; hlaut fimmtán þingsætum fleiri en VG. Allt frá stofnun hefur Samfylkingin litið á sig sem leiðandi flokk til vinstri. Það hlýtur að vera þeim áhyggjuefni að sjá vinstri græna sífellt naga á hæla sína. Þetta er merkileg staða. Þetta er altént ekki draumastaða þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til formennsku í Samfylkingunni gegn svila sínum með þeim orðum að hún væri leiðtogi sem gæti gert Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.
Í þingkosningunum 2003 hlaut VG tvo þingmenn á höfuðborgarsvæðinu; Ögmund Jónasson og Kolbrúnu Halldórsdóttur, eða einn í hvoru borgarkjördæmanna en mistókst naumlega að ná inn þingmanni í Suðvesturkjördæmi. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist VG með átta þingmenn í þessum þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins; sex í Reykjavík og tvo í Kraganum. Var VG stærri en Samfylkingin þar í báðum kjördæmum höfuðborgarinnar. Voru meira að segja Paul Nikolov og Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður UVG, inni á þingi í þeirri könnun. Það yrðu stórpólitísk tíðindi, ein þau stærstu í vor, fengi VG stuðning af þessu tagi. Toppi VG Samfylkinguna í Reykjavík, þó ekki væri nema annað kjördæmið, yrði það metið sem stórtíðindi.
Nú liggja listar VG í þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins fyrir. Það virðist vera öflugir listar og greinilegt að VG mun bæta mjög við sig á þessu. Athygli vekur að fólk eins og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Einar Laxness, sagnfræðingur, Kristín Halldórsdóttir, fyrrum þingmaður, Benedikt Davíðsson, fyrrum forseti ASÍ, og Hjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra, eru í heiðurssætum. Ég hélt t.d. að Benedikt og Einar Már fylgdu Samfylkingunni að málum, alltaf sér maður eitthvað nýtt. Spurningin er hversu mikið VG bætir við sig þarna. Það mun hafa stór áhrif á stöðu vinstri grænna að vori.
Það er svo sannarlega útlit fyrir spennandi alþingiskosningar. Ein stærsta spurning kosningabaráttunnar verður hvort að VG muni halda uppsveiflunni til vors. Þeir eru að keyra mun sterkari til þessara kosninga en þeirra fyrir fjórum árum. Hvort þeim tekst að haldast á þessu fylgi er svo annað stöðumat sem fróðlegt verður að fá úr skorið er líður nær vorinu. Það verður athyglisvert að sjá næstu kannanir, t.d. næsta þjóðarpúls Gallups eftir hálfan mánuð.
![]() |
Framboðslistar VG á höfuðborgarsvæðinu samþykktir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.2.2007 | 23:03
Valfrelsi í skólamálum - skólar kynna ágæti sitt

Í kvöld kl. 20:00 var haldinn kynningarfundur um val á grunnskóla í Brekkuskóla. Það er ánægjulegt að sjá hvernig að valfrelsi er með því afgerandi kynnt og með þessu verður ferskleiki og öflug samkeppni milli skólanna staðfest með áberandi hætti. Í upphafi fundar flutti Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, ræðu og í kjölfarið fylgdu skólastjórar allra grunnskóla sveitarfélagsins þar sem þeir kynntu sinn skóla og hvað hann hefði fram að færa.
Það er gott að þessi stefna sé uppi að á valdegi af þessu tagi séu skólarnir að kynna sig og sinn bakgrunn. Ég hef alltaf verið mikill talsmaður frelsisins. Það er mikilvægt að tryggja fólki frelsi til að velja. Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur valfrelsi á skólastiginu. Að mínu skiptir gríðarlega miklu máli að fólk eigi val val er án nokkurs vafa framtíðin í skólamálum í pólitík samtímans. Það er mjög mikilvægt að tryggja að fersk hugmyndafræði og tillögur séu ávallt til vinnslu og við sjálfstæðismenn verðum að tryggja að við séum rödd þess ferskleika - sækjum ávallt fram af krafti.
Ég hef viljað að við hér fetum í sömu átt og þeir í Garðabæ hafa t.d. gert. Ég hef viljað feta í sömu átt ég vil sjá Akureyri sem öflugan valkost í skólamálum hvað snertir rekstrarform leik- og grunnskóla þar sem mismunandi hugmyndafræði er til staðar og val foreldra og nemenda þess því meira. Ég vil sjá aukna samkeppni um þá þjónustu sem er verið að bjóða á leik- og grunnskólastigi með mismunandi rekstrarformum og valfrelsi. Íbúar hér á Akureyri eiga í framtíðinni að geta valið að mínu mati um þjónustu hjá mismunandi aðilum. Það veitir nauðsynlegt aðhald og samkeppnin tryggir svo ennfremur aukin gæði.
Valfrelsi í skólamálum er enda framtíðin! Því fagna ég þessu sem meirihlutinn hér er að gera, þetta er vísir að góðu upphafi á lengri vegferð til framþróunar í skólamálum á 21. öld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2007 | 18:10
4 milljónir pizzukassa falla til árlega á Íslandi
Það var mjög fróðlegt að heyra umfjöllun um pizzakassa í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar kom fram að fjórar milljónir pizzukassa falla til árlega hérlendis og væri þeim öllum staflað hlið við hlið í röð myndi röð pizzukassanna ná í rúmlega 250 kílómetra, eða langleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur í beinni línu. Þetta er svakalegur fjöldi vægast sagt.
Í ofanálag nemur ársneysla Íslendinga því að allir Íslendingar borði fjórtán heilar pizzur á ári. Gyða Björnsdóttir, fræðslufulltrúi Sorpu, var í viðtali í morgun hjá Hrafnhildi og Gesti Einari og var að fara yfir þessi mál. Þetta eru engar smátölur, mjög fróðlegt að heyra af þessu allavega. Vissi að þetta væri slatti en þessar tölur komu mér eiginlega að óvörum vægast sagt. Ætli Íslendingar eigi ekki heimsmet í pizzuáti miðað við höfðatölu? Það kæmi mér allavega ekki á óvart.
Það er því mikið af pizzukössum sem falla til í sorpi á ári hverju. Kom fram í viðtalinu að Sorpa sé að fara í átak við að fólk hendi kössunum með öðrum hætti en bara í standard heimilissorpið. Það má allavega hugsa málin vel. Það er allavega ljóst að þetta er mál sem vert er að hugsa um. Ég er eins og flestir og pantað ágætan slatta af pizzum á ári hverju. Ég ríf alltaf pizzukassann niður í smotterí og hendi þessu svo bara í heimilissorpið. En eflaust mætti hugsa sér betri aðferðir - þessar tölur og umræðan vekur mann allavega til umhugsunar.
En þau eru að standa sig vel með morgunútvarpið þau Gestur Einar og Hrafnhildur. Hlusta alltaf á þáttinn þeirra á morgnana. Það er mjög notalegt og gott að vakna með þessum þætti sem er ljúfur og notalegur í morgunsárið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.2.2007 | 15:43
Saga af verulega langdreginni kvikmynd

Þetta er myndin þar sem Burton og Taylor kynntust.... og urðu ekki síður ástfangin upp fyrir haus en Kleópatra og Markús Antoníus urðu forðum daga. Ástarsamband þeirra við gerð myndarinnar var mjög í kastljósi fjölmiðla og þótti hneykslanlegt þar sem bæði voru gift. Varð ekki síðra drama en í tilfelli Brad Pitt og Angelinu Jolie áratugum síðar er þau féllu hvort fyrir öðru við tökur á hasarbombunni Mr. and Mrs. Smith. Líf Burton og Taylor var stormasamt... þau voru bæði mikið skapfólk og tóku ófáar snerrurnar. Þau giftust tvisvar hvorki meira né minna... en voru vinir allt til æviloka Burtons árið 1984.
Richard Burton og Elizabeth Taylor léku ekki aðeins saman í Kleópötru. Besta kvikmynd þeirra beggja var hin dramatíska og upptendraða Who´s afraid of Virginia Woolf? Klassi í sinni allra bestu mynd. Sá myndina um daginn eftir alltof langt hlé og rifjaði upp hversu mikil þruma mér fannst hún fyrst er ég sá fyrir um 15 árum. Eldtungur ganga á milli hjónanna sem þau leika og myndin fer upp og niður allan tilfinningaskalann. Þetta er besta kvikmynd leikferils Taylors, þó margar séu þær góðar, og þetta er ein besta stund Burtons á leikferli hans. Elizabeth Taylor fékk sinn seinni óskar fyrir hana, en Burton vann mörgum að óvörum ekki. Bandaríska kvikmyndaakademían heiðraði Burton aldrei fyrir leik þrátt fyrir margar stórmyndir á ferlinum.
Sá síðast Kleópötru fyrir einum þrem árum, lá þá heima í veikindakasti og ákvað að lina þjáningarnar með verkjalyfi á borð við myndina. Sofnaði yfir henni í leðurstólnum í stofunni heima sem var notalegt. Margir kaflar myndarinnar eru flottir en heildarmyndin er skelfileg. Burton og Taylor voru bæði myndarleg. Í myndinni voru þau túlkuð sem glæsilegt fólk, enda hefði myndin sjálfsagt orðið enn meira sögulegt flopp en það á endanum varð hefðu tveir minnimáttaleikarar með stuttan leikferil túlkað þau.
Ef marka má myntina sem sagt er frá í fréttinni að neðan voru Kleópatra og Markús Antoníus ekkert myndarfólk, allavega fjarri því að þau séu lík þeim sem léku þau aldaröðum síðar í dýrustu....en floppaðasta stórvirki kvikmyndasögunnar. Get ekki sagt að ég sé hissa, í sannleika sagt.
![]() |
Myntin sýnir ljótan sannleika um Kleópötru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2007 | 14:21
Kostnaður við áramótaskaupið ekki gefinn upp

Áramótaskaupið var mjög veglegt síðast, með þeim veglegri frá upphafi. Sumum líkaði húmorinn - öðrum ekki. Það er bara eins og gengur og gerist, er svosem eðlilegt. Það er aldrei hægt að búa til neitt sjónvarpsefni sem fellur í geð hjá öllum landsmönnum. En það er stórundarlegt að kostnaður við þetta efni sé trúnaðarmál. Ríkisútvarpið er eign allra landsmanna og þar eiga engin leyndarmál að vera, allavega ekki í þessum geira að mínu mati. Ég verð því að taka undir það sem kemur frá stjórnarandstöðunni og um leið undrast af hverju þögn er um kostnaðinn.
Á hátíðarstundum er sagt að Ríkisútvarpið sé sameign allra landsmanna. Það á þá að eiga við um að öll svona mál séu á borðinu og eðlilegum spurningum sé svarað á þjóðþinginu. Mér finnst þetta í hæsta máta óeðlilegt að þagnarhjúpur sé sleginn yfir framkvæmdastjórn Sjónvarpsins og stór verkefni þeirra á dagskrárdeildinni. Allt þetta hlýtur að vekja fleiri spurningar en svara átti í dag. Er kostnaðurinn svo mikill að ekki megi gefa þetta upp? Því miður verður varla hjá öðru komist en fara á sveif með þeirri skoðun.
Þetta er allavega undarlegt og spurningar vakna. Er ekki fyrir löngu annars kominn tími til að selja sjónvarpshlutann og Rás 2 og hlúa að Rás 1 frekar. Erum við landsmenn annars að borga afnotagjöldin okkar í Desperate Housewifes, Ugly Betty og Lost? Hvar er innlenda dagskrárgerðin? Vil helst skilja fréttir og Kastljós undan enda lít ég á það sem grunnþjónustu ríkisrekins sjónvarps. Mér finnst Sjónvarpið hafa brugðist menningarskyldu sinni, fer ekki leynt með það. Fyrst og fremst undrast ég þetta pukur yfir dagskrárliðum. Þetta er óeðlilegt, einfalt mál.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2007 | 12:01
Hatrömm barátta um ríkidæmið

Andlát Önnu Nicole Smith er reyndar enn sveipað dulúð - ekki hefur enn tekist að finna formlega dánarorsök hennar og spurningar hrannast upp um lokapunkta ævi hennar og dauðsfallið sem er aðalumfjöllunarefnið vestan hafs þessa dagana og er meira að segja að því er virðist meira í fréttum en hverjir muni gefa kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna. Það er ekkert meira rætt í pressunni og mjög fátt sem bendir til þess að það róist yfir málinu fljótlega.
Nú mun mesti fókus alls þessa máls falla á það hver hafi verið faðir hinnar fimm mánuðu dóttur Önnu Nicole Smith. Sá sem er faðir hennar mun nefnilega eins og fyrr segir fá mikil áhrif og í raun full yfirráð yfir erfðamálinu. Þar sem stelpan er aðeins fimm mánaða verður hún undir yfirráðum föðurins í yfir sautján ár. Um mikla peninga er að ræða og varla við öðru að búast en að faðerninu fylgi mikil völd í öllum málarekstrinum, sem hefur þegar tekið tæp tólf ár og náði Anna Nicole aldrei fullnaðarsigri í málinu, sem er þegar orðið eitt hið mest áberandi síðustu áratugina.
Fjórir til fimm menn segjast vera faðir stelpunnar og ljóst að brátt fæst úr þessu skorið með læknisfræðilegri tækni. Ekki er hægt að segja annað en að málið líkist nokkuð dauða Christinu Onassis, einkadóttur skipakóngsins Aristotle Onassis, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1988, aðeins 38 ára gömul. Christina lét aðeins eftir sig eina dóttur, Athinu. Hún erfði allt eftir móður sína og meginhluta þess sem eftir stóð af Onassis-ættarveldinu, sem afi hennar lét eftir sig er hann lést árið 1975.
Vandinn var hinsvegar sá að Athina var aðeins þriggja ára gömul. Faðir hennar, Thierry Roussel, sem hafði skilið við Christinu fyrr sama árið og hún dó, hafði því full yfirráð yfir málefnum erfðaríkis Christinu og málefnum dóttur þeirra. Það stóð í rúm fjórtán ár. Enn í dag hefur Athina, sem vill lítið vita af föður sínum í dag ekki fengið öll yfirráð yfir Onassis-arfleifðinni og standa meira að segja málaferli um að hún fái full yfirráð þó að hún hafi skv. erfðaskrá átt að erfa móður sína að öllu leyti og endanlega er hún varð 21 árs á síðasta ári.
Nei, það er ekki tekið út með sældinni að vera frægur...... er það ekki lexían af þessu öllu? Held það....
![]() |
Lífvörðurinn kann að vera barnsfaðir Önnu Nicole |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2007 | 09:47
Ásthildur Cesil biðst afsökunar á skrifum sínum
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður spjallvefsins málefnin.com, hefur beðið mig opinberlega afsökunar á því að hafa komið á spjallvefinn með kjaftasögu þess efnis að ég hefði átt að hafa gengið í Frjálslynda flokkinn til að styðja Margréti Sverrisdóttur í nýlegu varaformannskjöri flokksins. Það var með ólíkindum að Ásthildur Cesil skyldi birta þessi lágkúrulegu skrif. Þau gengisfelldu mjög þennan spjallvef, sem frekar lágreistur var orðinn fyrir. Nafnleysingjar segja eflaust eitt og annað en manneskja í þessari stöðu lækkar risið á vefnum með svona tiktúruskrifum.
Ásthildur Cesil segist í kommenti á málefnavefnum hafa talað sérstaklega við Magnús Reyni Guðmundsson, bæjarfulltrúa á Ísafirði og framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, í gær og kannað hvort að ég hefði nokkurntíma verið þar skráður innanborðs, fyrir landsþing og á meðan á því stóð. Svo var auðvitað ekki. Er mjög merkilegt að manneskja sem er komin til vits og ára og hlýtur að teljast vel sigld í lífinu hafi ekki fyrr kannað þetta mál, hafi hún talið þörf á því, áður en kjaftasagan var birt opinberlega með þessum hætti. Þetta verklag vekur vissulega fleiri nokkra athygli.
Ég gagnrýndi Ásthildi Cesil harkalega í skrifum hér og á sjálfum spjallvefnum í gær. Það var mjög eðlilegt. Mér finnst það ekki beint geðslegt að vera allt að því borinn þeim sökum að hafa gengið í stjórnmálaflokk til þess eins að upphefja einhverja manneskju, sem ég þekki ekki neitt, í leðjuslag. Svona orðrómur finnst mér ekki geðslegur og ég gat ekki annað en svarað fyrir mig og sýnt í leiðinni mitt skap. Ég er kominn af miklu skapfólki sem hefur sterka réttlætiskennd og bregst harkalega við sé að því vegið.
En þetta er svona bara, ég hef sagt það sem ég hef að segja og komið mínu vel til skila. Eftir stendur að þetta var sorglegt mál sem hefur því miður gengisfellt þennan vef stórlega. Auðvitað átti vefstjórinn fyrst að kanna sitt mál áður en þessi kjaftasaga var birt á opnum spjallvef. Þetta er ótrúleg framkoma af vefstjóra spjallvefs að vera. Ég fer ekki ofan af því og stend við gagnrýni mína. Hinsvegar fagna ég því að vefstjórinn hafi séð að sér og tel hana manneskju að meiri með þessu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2007 | 08:29
Breytingar á RÚV - útvarpsráð heyrir sögunni til

Seinustu tvo áratugi, eða frá setningu útvarpslaga 1985 sem breyttu landslagi ljósvakamiðla, hefur útvarpsráð haft það hlutverk að fara yfir umsóknir í stöður hjá fyrirtækinu og hefur yfir dagskrármálum að segja. Sú skipan mála mun nú loks heyra sögunni til. Eins og öllum varð ljóst í deilunum um ráðningu fréttastjóra Ríkisútvarpsins fyrir tæpum tveim árum var útvarpsráð orðið barn síns tíma. Sú skipan mála sem það var byggt á og eðli þess við að fara yfir umsóknir og meta þær var fyrir margt löngu gengin sér til húðar. Það gat ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk væri þar til og færi yfir starfsumsóknir þar og meti þær beint.
Þetta vald fer nú með breytingum samhliða lögunum beint í hendur útvarpsstjórans, sem losnar við hið umdeilda millihlutverk hins fornfálega útvarpsráðs. Jafnframt mun útvarpsstjóri framvegis verða skipaður af stjórn Ríkisútvarpsins en ekki menntamálaráðherra. Það er því ljóst að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er síðasti menntamálaráðherrann sem skipar útvarpsstjóra, en hún skipaði Pál Magnússon í stöðuna síðsumars 2005, þegar að Markús Örn Antonsson hætti störfum. Það er auðvitað gleðiefni að útvarpsstjóri sé ráðinn af stjórn hlutafélagsins en það sé ekki verkefni ráðherrans. Svo er gott að útvarpsstjóri skipar undirmenn sína sjálfur.
Mikla athygli mína vekur að Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, verður ekki í stjórn Ríkisútvarpsins. Auk hans sitja í síðasta útvarpsráðinu: Anna K. Jónsdóttir, Andri Óttarsson (Sjálfstæðisflokki), Páll Magnússon (Framsóknarflokki), Svanfríður Jónasdóttir, Lára Stefánsdóttir (Samfylkingu) og Kjartan Eggertsson (Frjálslynda flokknum). Í nýrri stjórn verða Ómar Benediktsson, Kristín Edwald, Páll Magnússon, Jón Ásgeir Sigurðsson og Svanhildur Kaaber. Það er því greinilegt að Ómar á að verða formaður stjórnar RÚV. Ég veit ekki betur en að þetta sé Ómar sá sem var hjá Íslandsflugi. Þrír fyrstnefndu eru greinilega fulltrúar stjórnarflokkanna.
Finnst merkilegt að Jón Ásgeir Sigurðsson, sem var fréttamaður Ríkisútvarpsins um árabil og hefur séð að undanförnu um Heimspressuna á Morgunvakt Rásar 1, þar sem hann hefur farið yfir leiðara erlendra stórblaða, sé í stjórn RÚV. Virðist hann vera fulltrúi Samfylkingarinnar þarna inni. Það er allavega ljóst að flokkarnir skipa þarna fulltrúa þarna inn. Það er vissulega ekki undarlegt að á meðan að ríkið hefur puttana í þessum rekstri að það hafi flokkstengda fulltrúa í stjórn. Það er þó mest um vert að pólitísk skipuð stjórn hefur ekki lengur puttana í starfsmannaráðningum (utan ráðningar á útvarpsstjóra), enda löngu úrelt.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að RÚV verður eftir þessar breytingar. Útvarpsstjóri verður mun valdameiri eftir þessar breytingar og þarf ekki lengur að láta pólitískt skipað ráð flokksfulltrúa fara yfir umsóknir um störf þarna. Er með ólíkindum að það hafi ekki verið afnumin fyrr. Svo er líka gleðiefni að stjórnin skipi yfirmann hlutafélagsins en ekki ráðherra beint. Þetta eru ánægjulegustu breytingarnar á þessu að mínu mati. Hvernig hitt gengur verður fróðlegt með að fylgjast.
![]() |
Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. kjörin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.2.2007 | 00:13
Stjarna er fædd - yndisleg kvikmynd

Fyrir þrem árum varð Jennifer Hudson fyrst fræg; þá sem þátttakandi í American Idol. Hún var eftirlæti dómaranna og þótti mjög sigurstrangleg. Flest stefndi í að hún kæmist mjög langt og einn dómaranna, Simon Cowell, átti varla nógu sterk lýsingarorð til að lýsa hæfileikum hennar og vandaðri sviðsframkomu. Mörgum að óvörum féll Hudson úr keppni um mitt keppnistímabilið, þegar að fimm til sex voru enn aðrir eftir í keppninni. Dómararnir hörmuðu brotthvarf hennar úr þáttunum. Svo fór síðar að Fantasia Barrino vann keppnina. Jennifer Hudson er nú orðin margfalt meiri stjarna en Fantasia og vann meira að segja samkeppni við hana um hlutverkið í myndinni.
Það má fullyrða að Jennifer Hudson verði ein helsta stjarna Óskarsverðlaunanna nú að þessu sinni. Flestir virðast gera ráð fyrir sigri hennar í aukaleikkvennaflokknum en það yrði mjög sögulegt fengi leikkona án nokkurs leikferils í raun sjálfan óskarinn, leikkona sem í raun er söngkona. Þetta er því svo sannarlega "breakthrough"-móment fyrir Hudson. Hvernig sem fer hefur hún allavega stimplað sig rækilega inn í kvikmynda- og tónlistarheiminn og kvikmyndagagnrýnendur tala um einhverja eftirminnilegustu innkomu nýstirnis í bransann í áratugi. Hún er talin stærsti plús glæsilegrar myndar.
Hvernig sem fer mun Hudson syngja lag úr myndinni við óskarsverðlaunaafhendinguna; hún mun víst syngja lagið Love You I Do. Það eru heil þrjú lög af þeim fimm tilnefndu að þessu sinni sem koma úr Dreamgirls. Segir allt um gæði tónlistarinnar. Það vakti athygli að meira að segja Bretar verðlaunuðu Hudson fyrir leikinn í Dreamgirls á Bafta-kvikmyndahátíðinni um helgina. Það eru merk tíðindi að Bretar verðlauni konu sem aldrei hefur fyrr leikið burðarhlutverk í kvikmynd. Mjög sterk frammistaða.
Það er því varla furða að Jennifer Hudson prýði forsíðu Vogue, fyrst þeldökkra söngkvenna. Þetta er umfram allt til marks um stöðu hennar í dag. Hún er ein heitasta nýstjarna tónlistar og kvikmynda þessar vikurnar. Hvet annars alla til að sjá Dreamgirls - algjör eðalmynd. Með algjörum ólíkindum er þó að myndin hafi fengið flestar Óskarstilnefningar en ekki fyrir bestu mynd ársins, get ekki annað sagt.
![]() |
Jennifer Hudson brýtur blað í sögu Vogue |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2007 | 17:50
Anna Nicole og fjölmiðlakapphlaupið

Fréttir ganga nú um hvað hefur orðið stjörnunni að bana, ef ekki ofnotkun lyfja, og kjaftasögurnar grassera og fyllt er hiklaust í þær lausu eyður sem við blasa. Málið blæs jafnhratt út eins og 17. júní -helíumblaðra.... sem kannski flýgur út í buskann álíka hratt. Hver veit. Þetta er allt einn lærdómur um það hversu frægðin er grimmur kaleikur að öllu leyti. Það verður allavega seint sagt að frægðin hafi verið hamingjusöm í ævi þessarar ógæfusömu stjörnu.
Fréttin um að hún hefði átt í ástarsambandi við innflytjendamálaráðherrann á Bahama-eyjum og myndir af þeim dekka stórblöðin vestanhafs á þessum degi. Mikil frétt það og boðar varla gott fyrir pólitískan feril þess ráðherra og ráðandi öfl á eyjunum. Svo er barist um húsið hennar Önnu Nicole.... faðerni barnsins hennar var í vafa og allavega þrír menn, hvur veit nema þeir verði fleiri sem vilji bita af vænni köku, sem vilja kannast við barnið.
Þvílíkt mál.... hljómar alveg eins og ein af þessum dramatísku Hollywood-myndum sem sjá má í bíóhúsunum. En þetta er víst algjör alvara... með þeim allra svæsnustu líka.
![]() |
Anna Nicole í faðmlögum við ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2007 | 17:00
Tónlistarspilari á blogginu
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2007 | 16:40
Dramatík í réttarsal

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.
Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir brugðu á leik í gær og mættu til dómshúss með Bónus- og Hagkaups-innkaupapoka upp á arminn - vissulega nokkuð snjallt PR. Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Héraðsdómi og síðar fyrir Hæstarétti enda fer málið væntanlega þangað er á hólminn kemur.... og hvernig sem fer.
![]() |
Jóni Gerald vísað úr réttarsal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2007 | 15:51
Menningarhúsið á Akureyri mun fá heitið Hof
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að Menningarhúsið við Strandgötu hér á Akureyri, sem nú rís, muni hljóta heitið Hof. Það voru Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Heimir Kristinsson sem skiluðu inn tillögu að nafninu og hafa hlotið verðlaun í tilefni þess. Þetta er virkilega fallegt og viðeigandi heiti og mjög notalegt að loks sé komið nafn við nýju menningarmiðstöðina okkar hér - sem loksins rís og löngu var orðið tímabært að kæmi til sögunnar.
Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira.
Gunnur Ringsted, eiginkona Heimis Kristinssonar, annars þeirra sem áttu tillögu að nafninu Hof orti í tilefni nafngiftarinnar fallegt ljóð sem vert er að benda á hér;
Hof
Að heiman ég horfi
á húsið rísa.
Eigum þar auðgun
andans vísa,
ólgar þar eldhugans
öflug bylgja.
Hof skal það heita,
heill því fylgja.
![]() |
Menningarhús á Akureyri mun heita Hof |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)