Mun Jón Sigurðsson ná árangri með Framsókn?

Jón SigurðssonHálft ár er í dag liðið frá því að Jón Sigurðsson var kjörinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli Framsóknarflokksins. Þá var staða flokksins vond og hún er litlu skárri nú. Þegar að 80 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ósýnilegur í mælingum á stjórnmálamönnum og mælist ekki inni í Reykjavík norður.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hvorki sé Jón vinsæll í hugum landsmanna né óvinsæll. Með öðrum orðum; hann mælist ekki og er ekki eftirminnilegur í hugum kjósenda. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings landsmanna eða trausts. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn verulega langt í land.

Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 80 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður. Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn.

Jón og SivÞað má spyrja sig að því hvort það hafi verið röng ákvörðun fyrir Framsóknarflokkinn að kjósa ekki Siv Friðleifsdóttur til formennsku fyrir hálfu ári. Ímynd flokksins hefði verið allt önnur með konu á fimmtugsaldri á formannsstóli og í ofanálag konu með langan pólitískan feril að baki. Hún hafði verið þingmaður í rúman áratug og ráðherra í fjölda ára. Hún hafði bakgrunn stjórnmálamannsins.

Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí. Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan.

Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með. Það er enda ólíklegt að hann treysti sér til að halda í eyðimerkurgönguna sem leiðtogi flokks í algjörri uppstokkun. Enda mun algjör innri uppstokkun blasa við flokknum fari kosningarnar illa.

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006


Eiríkur áfram með í Eurovision-spjallþættinum

Eiríkur Hauksson Eiríkur Hauksson vann glæsilegan sigur í Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina, afgerandi sigur í atkvæðum talið ef marka má fréttir RÚV. Nú fáum við þau gleðitíðindi að Eiríkur muni áfram verða fulltrúi Íslands í samnorræna þættinum þar sem spekingar fara yfir öll lögin, fella sinn dóm og eiga létt og notalegt spjall. Þetta eru ómissandi þættir í undirbúningi keppninnar hér á Norðurlöndum ár hvert.

Margir óttuðust að sigur Eiríks Haukssonar í keppninni myndi þýða að hann yrði ekki með í þættinum þetta árið. Það þarf semsagt ekki að hafa áhyggjur af því. Það er nú bara undir Eiríki sjálfum komið hvort hann vilji taka þátt. Það er mikið gleðiefni og gott að þurfa ekki að ræða það frekar og velta fyrir sér öðrum nöfnum í þáttinn, enda er Eiríkur þar á heimavelli og okkar besti kandidat í þáttinn.

mbl.is Svíar vilja fá Eirík áfram í vinsæla sjónvarpsþætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlistarspilari

Hef skipt um umgang í tónlistarspilaranum og þar er komið alveg nýtt safn laga, utan tveggja frá upphafi sem standa eftir. Hef fengið góð viðbrögð á þennan fítus, enda er fínt að hafa notalega tónlist með hérna á þessum vef rétt eins og fleirum. Vona að lesendur hafi gaman af lögunum sem eru þar, en þau eru mjög ólík svo vægt sé til orða tekið. En þetta eru allt góð lög.

Sköllótt og tattúveruð Britney slær í gegn

Sköllótt Britney Það er vægt til orða tekið að fræg ímynd glamúrgellunnar Britney Spears sem saklausrar blondínu sé endanlega komin í súginn og fátt þar eftir sem minnir á forna frægð. Nú er stjarnan greinilega endanlega búin að flippa yfir um, eða það er ekki fjarstæðukennt að hugleiða þann möguleika örskotstund allavega. Hún hefur nú rakað af sér allt hárið og í ofanálag búin að tattúvera sig.

Það er svona frekar ólíklegt að stílistinn hennar hafi ráðlagt henni þessa villtu karakterbreytingu. Í kvöld sá ég kostulegt myndskeið af Britney á Sky þar sem hún kemur til tattústofunnar í San Fernando-dalnum og sýnir beran skallann. Kostulegar myndir sem dókúmentar hratt fall stjörnu. Hún er orðin jafnberskjölduð á hausnum og Egill Ólafsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ómar Ragnarsson. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg.

Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun. Hún virðist vera að taka sess Önnu Nicole Smith sem gleðidívu sem fer sínar leiðir og hikar ekki við að hneyksla. Ekki langt síðan að hún var mynduð nærbuxnalaus og nú lítur hún út eins og Ripley í Alien 3. Hrá týpa.

Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi. Hún er greinilega orðin eitthvað gúgu og gaga, sem varla kemur á óvart. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Vona að henni verði allavega forðað frá sömu örlögum og stjörnunnar Önnu Nicole sem nú liggur smurð í kæliklefa í líkhúsi í Flórída - bíður nú þess að dómari ákveði hvort hún verði grafin í Texas eða á Bahama-eyjum.

Skelfileg örlög það - og nöpur.... fyrir hvaða konu sem er; fræga eða óþekkta. Í rauninni er þetta kennslubókardæmi um hvernig frægðin getur leikið fólk. Hún getur verið dauðadómur í sjálfu sér sé hún ekki höndluð.

mbl.is Britney snoðklippt á húðflúrsstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðalda í London - Blair vill herða byssulögin

Tony BlairÞað hefur verið sorglegt síðustu dagana að heyra fréttir af morðöldunni í London. Fjórir hafa fallið í skotárásum í borginni, þar af þrír unglingar. Í vikunni sá ég ítarlega umfjöllun um þetta mál á Sky, umfjöllun sem fjallaði með vönduðum hætti um stöðu mála, en það hefur sett þungan svartan blæ yfir allt mannlíf í borginni. Virðist fátt vera til ráða, blasir við að um uppsafnaðan vanda í samfélaginu sé að ræða.

Í morgun horfði ég á viðtal við Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, á BBC þar sem hann svaraði fyrir stöðu mála, sem hlýtur að teljast enn eitt erfiða málið fyrir stjórn hans. Sagðist hann vilja að aldur þeirra sem hægt sé að dæma til harðra refsinga fyrir byssueign verði lækkaður úr 21 ári í 17. Er með ólíkindum að Verkmannaflokkurinn hafi ekki fyrr lagt áherslu á það að breyta lögum í þá átt, en í maí hefur flokkurinn verið við völd í áratug.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur bent á að þessir atburðir endurspegli alvarlega bresti í bresku samfélagi. Telur hann hættulega framkomu, einmanaleika og þunglyndi ungmenna m.a. stafa af ábyrgðarleysi fullorðinna og mjög skorti á ást og umhyggju í samfélaginu. Vísa forystumenn Íhaldsflokksins óspart á það að upplausn í fjölskyldum og agaleysi sé alvarlegt vandamál og hafa vísað á nýja skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar eru bresk börn á botninum hvað snertir hamingju og ánægju í lífinu.

Þetta mál virðist erfitt fyrir Verkamannaflokkinn og forsætisráðherrann sem skiljanlega vilja ekki staðfesta að alvarlegir brestir séu í bresku samfélagi. Eftir áratug við völd er varla við því að búast að bresk stjórnvöld taki undir það mat að breskt samfélag sé á botninum hvað þetta varðar. Það er ljóst að þarna er fyrst og fremst um að ræða samfélagsbresti. Er ekki hægt annað en taka t.d. undir ummæli Sir Menzies Campbell, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, um að hvetja verði til virðingar fyrir náunganum og reyna að halda mannleg gildi í heiðri.

En vonandi fer þessari öldu morða og sorgar að linna í London. Þetta er að minna óþyrmilega á morðárásirnar í Washington í september 2002, með öðrum formerkjum, en samt skuggalega líkt. Þetta eru allavega jafnsvartir dagar sem íbúar í London upplifa nú og þeir á Washington-svæðinu fyrir tæpum fimm árum.

Vinkona mín, Ólöf Nordal, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, fjallar um þetta mál í góðri bloggfærslu í dag. Bendi lesendum á að lesa skrif Ólafar.


mbl.is Blair vill herða viðurlög við byssueign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konudagur

Ég vil óska öllum konum landsins innilega til hamingju með daginn.

Móðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, er þekktur hagyrðingur og hann orti eitt sinn ljóðið Kvennaminni, sem er fallegt mjög, það eru 20 erindi - óður til kvenna. Birti hér nokkur erindi.


Konur okkur gleði gefa,
geta náð að hugga og sefa.
Dásamlegar utan efa
við að knúsa og kela,
kossum mætti stela.

Kostum ykkar karlar lýsa,
kannski á suma galla vísa,
fegurð ykkar frómir prísa,
færa lof í kvæði,
njóta ykkar í næði.

Ekki má ég einni gleyma,
yndi mínu og gleði heima.
Í hjarta mér sem gull vil geyma,
gjöfin lífsins besta.
Konan kostamesta.

Ykkur konum yl ég sendi,
á ástarþokkann glaður bendi.
Mínu kvæði í kross bendi,
kyssi ykkur í anda
enn til beggja handa.

Glæsilegur sigur Eiríks - frábær kvöldstund

Eiríkur Hauksson Ég var staddur í alveg mögnuðu Eurovision-partýi hjá vinafólki mínu í gærkvöldi. Vorum þar nokkur sem höfum alltaf verið miklir áhugamenn um Eurovision, fylgst með keppninni í áranna rás og metum tónlist mikils að sjálfsögu. Það var mikið spáð í spilin og allir auðvitað með sín uppáhaldslög. Þessi keppni sameinar allar kynslóðir við sjónvarpstækið og allir hafa skoðanir á henni, þó sumir vilji ekki kannast við það.

Um eitt voru þó allir sammála í gærkvöldi. Eiríkur Hauksson var langflottastur, með besta lagið og stóð öðrum fremri. Enda vann hann. Glæsilegur sigur það og mjög verðskuldaður. Eiríkur einfaldlega kann sitt fag. Hann hefur mikla sögu í keppninni, hefur verið þar sem keppandi tvisvar og fulltrúi Íslands í hinum frábæra spekingaþætti í aðdraganda keppninnar síðustu árin, og var sá keppenda sem var langöruggastur á sviðinu í gær, hann einfaldlega stóð fremri öðrum. Það skiptir máli að mínu mati. Þetta er bakgrunnur sem einn og sér fleytir langt.

Það voru held ég flestallir glaðir með úrslitin. Eiki er einfaldlega söngvari af þeim skala að við erum stolt af honum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hefði þess vegna viljað að fimm lög myndu vinna; auk Eika voru Jónsi, Frikki, Heiða og Andri öll í toppformi. Öll þessi níu lög voru ágæt hver á sinn máta, þó ég verði að viðurkenna það að mér fannst kántrýskotna lagið Áfram þeirra síst, en það er kannski bara vegna þess að ég er mjög lítið fyrir kántrýtónlist, allavega mjög í hófi vægast sagt. Lögin sem voru í gær fara allavega sterk til leiks í Eurovision-keppnissöguna sem er alltaf að verða blómlegri.

Það var svona nett nostalgía sem fór um mann við að rifja upp lögin hans Björgvins Halldórssonar í keppninni. Það er enn skandall að sum þeirra, t.d. Sóley, fóru ekki út í keppnina á sínum tíma. Björgvin fór svo seint og um síðir í keppnina, með gott lag en einum of seint samt. Það hefði verið gaman að sjá hann taka eitthvað gamalt Júrólag þarna í gærkvöldi. Hefði ekki verið eðall að fá hann með Ernu Gunnarsdóttur, gamla enskukennaranum mínum í VMA í denn, til að rifja upp eðalsveiflulagið Lífsdansinn, eftir Geirmund Valtýsson? Hví ekki, lagið er jú tvítugt á árinu.

En mesti skandallinn fannst mér að sjá þennan rúmenska úr keppninni í fyrra "mæma" lagið Tornero. Þetta er flott lag og góður söngvari.... en að mæma er fyrir neðan allar hellur. Ræður hann ekki lengur við lagið? Mikil vonbrigði að sjá þetta. Svo var Regína Ósk alveg yndisleg í Júrólaga-upprifjuninni. Það er einn mesti skandall íslenskrar Eurovision-sögu að hún skyldi ekki vinna í fyrra með lagið hans Trausta Bjarnasonar, Þér við hlið. Einstakt lag... mjög vandað, lag á öllum skalanum. Það átti að fara til Aþenu. Regína Ósk var alveg frábær í gærkvöldi.

Silvía Nótt var aldrei þessu vant hógvær og stillt og átti stutta innkomu með nýjasta lagið sitt, nýjan smell sem hún söng mjög vel. Hún stóð sig vel. Var þó að vona að hún myndi syngja sigurlagið sitt frá því í fyrra... en kannski vill hún horfa í aðrar áttir. Það er skiljanlegt vissulega. En í heildina; þetta var magnað kvöld. Virkilega gaman og við skemmtum okkur vel yfir pizzu, nammi, góðum veigum og líflegu spjalli. Eðalgott - svona eins og það á að vera.

Þetta er enda skemmtilegasta sjónvarpskvöld ársins, tja nema kannski þegar að aðalkeppnin er ytra. Ætla svo sannarlega að vona að Eiki Hauks skili okkur glæsilegum árangri í vor. Efast ekki um að við verðum allavega mjög stolt af honum. Og svo er kominn enskur texti á lagið. Getur ekki verið betra! Og svo gerum við öll sem eitt þá lykilkröfu nú að kappinn verði í leðri, sömu múnderingu í gær. Svona á hann að vera.... þetta er málið!

Ólafur Ragnar í Silfri Egils í dag

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður í Silfri Egils hjá Agli Helgasyni nú eftir hádegið. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi Íslands venur komur sínar í dægurmálaspjallþætti. Það þótti sögulegt þegar að Ólafur Ragnar fór í Kastljós í aðdraganda forsetakosninganna 2004, en það var í fyrsta skipti í sex áratuga sögu forsetaembættisins sem forsetinn sat fyrir gagnrýnum svörum fjölmiðlamanna. Þá var Ólafur Ragnar í raun að svara fyrir sig í Heimastjórnarmálum.

Það er kannski ekki sögulegt að Ólafur Ragnar Grímsson birtist í hversdagslegum rifrildisþáttum við fjölmiðlamenn í ljósi þess að hann var leiðtogi stjórnmálaflokks í átta ár og fjármálaráðherra í hringiðu umdeildra ákvarðana í þrjú ár. Þegar litið er á það að sami maður er forseti Íslands fær það þó á sig sögulegan blæ. Annars er óvarlegt að líta á forsetann Ólaf Ragnar sem einstakt fyrirbæri ef marka má yfirlýsingar forsetaembættisins um að sá maður sem er í Þróunarráði Indlands sé ekki sami maður og er forseti Íslands. Spaugstofan gerði gott grín að þessum orðhengilshætti á Sóleyjargötunni í fyndinni kómík nýlega.

Eins og fyrr segir er Ólafur Ragnar gamall pólitískur bardagamaður og er vanur að lifa opinberu lífi - hann hefur verið í kastljósi fjölmiðla í fjóra áratugi. Hann hefur notað fjölmiðla óspart í gegnum tíðina. Flestir muna eftir frægri framboðskynningu hans til embættis forseta Íslands í mars 1996 í stofunni heima á Seltjarnarnesi þar sem hann stóð við hlið Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur í vandaðri fjölmiðlauppsetningu og ennfremur því er hann beitti 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins í beinni útsendingu fjölmiðla í júní 2004.

Það verður svo sannarlega athyglisvert að sjá um hvað Ólafur Ragnar og Egill Helgason ræða á eftir í Silfrinu.

Valgerður Sverrisdóttir lengst kvenna í ríkisstjórn

Valgerður Sverrisdóttir Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur nú setið lengst allra kvenna hérlendis í ríkisstjórn. Skv. mælingum í Morgunblaðinu í dag hefur Valgerður nú verið 2.607 daga í ríkisstjórn, í dag, eða í 7 ár, einn mánuð og 19 daga. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra árin 1987-1994, átti fyrra metið. Valgerður var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006 en hefur verið utanríkisráðherra síðan 15. júní 2006. Hún var fyrsta konan á báðum ráðherrastólum.

Valgerður hefur setið á Alþingi frá kosningunum 1987 og hefur verið áhrifakona innan Framsóknarflokksins nær allan þann tíma. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er sú kona sem þriðja er í ráðherrasetu. Hún hefur verið ráðherra í rúm sex ár, eða 1999-2004 og aftur frá 2006 eða ívið lengur og Ingibjörg Pálmadóttir, sem var heilbrigðisráðherra í tæp sex ár, 1995-2001. Það styttist því óðum í að Siv komist á svipaðar slóðir og Jóhanna Sigurðardóttir í ráðherrasetu.

Aðeins ellefu konur hafa tekið sæti í ríkisstjórn Íslands. Fimm þessara kvenna eru sjálfstæðiskonur. Fjórar koma úr Framsóknarflokknum og tvær eru úr Alþýðuflokknum, sem var einn forvera Samfylkingarinnar. Fyrsta konan á ráðherrastóli var Auður Auðuns, sem ennfremur varð fyrsta konan á borgarstjórastóli og forseti borgarstjórnar. Auður varð dómsmálaráðherra árið 1970, eftir andlát dr. Bjarna Benediktssonar í uppstokkun ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins.

Kvenráðherrar í sögu Stjórnarráðs Íslands
Auður Auðuns (1970-1971)
Ragnhildur Helgadóttir (1983-1987)
Jóhanna Sigurðardóttir (1987-1994)
Rannveig Guðmundsdóttir (1994-1995)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004; frá 2006)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)

mbl.is Lengst kvenna í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur sigrar í Eurovision - íslenskt rokk til Helsinki

Eiríkur Hauksson Rokkarinn Eiríkur Hauksson sigraði í kvöld í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hann verður fulltrúi Íslands í Eurovision í forkeppninni sem haldin verður í Helsinki í Finnlandi 10. maí nk. Þetta verður í þriðja skiptið sem Eiríkur tekur þátt í aðalkeppni Eurovision, en Sigríður Beinteinsdóttir keppti ennfremur þrisvar í Eurovision á nokkurra ára tímabili.

Eiríkur söng Gleðibankann í Bergen í Noregi árið 1986 ásamt Helgu Möller og Pálma Gunnarssyni, undir merkjum Icy-tríósins, sem var fyrsta framlag Íslendinga til keppninnar. Síðan söng hann lagið Mrs. Thompson með hljómsveitinni Just 4 Fun sem var framlag Noregs árið 1991. Það lag hafnaði í 17. sæti en Gleðibankinn lenti í því 16. eins og frægt er orðið og var það hlutskipti okkar í keppninni fyrstu þrjú árin. Aðeins fjórum sinnum hefur Ísland náð að komast á topp tíu í keppninni. Frammistaða Selmu Björnsdóttur í Jerúsalem fyrir átta árum, annað sætið, er okkar besta.

Lagið Ég les í lófa þínum, eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, verður tuttugasta framlag Íslands í Eurovision. Sigur Eiríks nú er svo sannarlega verðskuldaður. Hann hefur ekki tekið þátt í undankeppninni hérna heima í tvo áratugi, en hann ásamt söngflokknum Módel lenti í öðru sæti í keppninni árið 1987 með lagið Lífið er lag. Eiríkur var einfaldlega langsterkasti flytjandinn og lagið hið besta. Ekta rokksveifla. Þetta er mjög góð niðurstaða og vonandi mun Eiríki ganga vel eftir þrjá mánuði.

En hver á nú að vera fulltrúi Íslands í norræna spekingahópnum sem fer yfir lögin nú þegar að Eiríkur er orðinn flytjandi sjálfur í keppninni? Þar verður eftirsjá af okkar manni. Við eigum að senda Selmu Björns til leiks í það dæmi núna að mínu mati.

mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða lag mun sigra í Eurovision?

Söngvakeppnin 2007Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Helsinki í Finnlandi þann 10. maí nk. verður valið í símakosningu í kvöld. Sigurlagið í ár er tuttugasta lagið sem Ísland sendir til leiks í Eurovision, en Ísland tók þar þátt í fyrsta skipti með Gleðibankanum árið 1986. Níu lög keppa til úrslita að þessu sinni og er keppnin mjög jöfn og erfitt að spá um sigurvegara.

Á morgun er ár liðið frá stórsigri Silvíu Nætur (a.k.a. Ágústu Evu Erlendsdóttur) í síðustu undankeppni Eurovision hér heima. Hún hlaut um 70.000 atkvæði í keppninni þá með lagið Til hamingju Ísland, eftir Þorvald Bjarna, rúmum 30.000 atkvæðum fleiri en Regína Ósk Óskarsdóttir hlaut fyrir lagið Þér við hlið. Silvía Nótt keppti svo í keppninni í Aþenu í Grikklandi í maí 2006 og lenti í þrettánda sæti í forkeppninni og komst því ekki áfram, en tíu efstu lögin fengu farmiða á sjálft úrslitakvöldið. Frægt varð að Silvía Nótt var púuð niður fyrir og eftir flutning lagsins, sem var sögulegt.

Árið hennar Silvíu Nætur hefur svo sannarlega verið skrautlegt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lag og flytjandi feta í fótspor hennar. Búast má við að ögn rólegra verði yfir þeim sem fer núna, enda öll atriðin nokkuð rólegri miðað orkubombuna og skvettuna sem send var út í fyrra. Í huga mér er þetta mjög jafnt. Enginn flytjenda er með afgerandi forskot og því spennandi kvöld framundan. Í kvöld á ég bæði ættingja og vini sem flytja lag. Ætla að vona að þau sem berjist um þetta séu Jónsi, Andri, Friðrik Ómar, Eiki Hauks, og Heiða. Lögin þeirra eru öll góð að mínu mati.

Hvaða lag haldið þið að muni vinna?


Sigurlín Margrét tekur sæti á Alþingi

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir Sigurlín Margrét Sigurðardóttir mun á mánudag taka sæti á Alþingi í fæðingarorlofi Gunnars Örlygssonar. Mun hún sitja á þingi til loka starfstímans á kjörtímabilinu í næsta mánuði og tekur því Gunnar þar ekki oftar sæti, í bili a.m.k. Þetta er í fyrsta skipti sem að Sigurlín Margrét fer á þing frá því að Gunnar sagði sig úr Frjálslynda flokknum í maí 2005. Gunnar hefur frá þeim tíma verið þingmaður í nafni Sjálfstæðisflokksins en Sigurlín Margrét verður á þingi utan flokka, enda hefur hún sjálf ennfremur sagt skilið við Frjálslynda flokkinn.

Í ljósi þess að þetta þingsæti tilheyrir ekki Sjálfstæðisflokknum sem slíkt, enda er þetta þingsæti í nafni F-listans í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003, er ekki undrunarefni að varaþingmaður Gunnars sé óháð í þingstörfum, enda er Sigurlín Margrét sjálf ekki flokksbundin og mun ekki verða hluti að stjórnarmeirihlutanum við þessar aðstæður sem óháð. Það er því ljóst að stjórnarmeirihlutinn minnkar enn um eitt sæti, en stutt er síðan að Kristinn H. Gunnarsson sagði skilið við Framsóknarflokkinn. 33 alþingismenn styðja ríkisstjórnina við þessar aðstæður en 30 stjórnarandstöðuna Meirihluti ríkisstjórnarinnar er því orðinn tæpari en nokkru sinni í tólf ára sögu hennar.

Sú merka staða er reyndar komin upp að þrír efstu frambjóðendur á lista Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 hafa allir yfirgefið flokkinn á kjörtímabilinu. Sigurlín Margrét gagnrýndi Gunnar harkalega er hann skipti um flokk fyrir tæpum tveim árum. Mér finnst það ekki réttmæt gagnrýni á Sigurlínu Margréti að hún sé að ganga á bak orða sinna með því að taka sjálf sæti á þingi nú verandi sjálf farin úr Frjálslynda flokknum. Hún tekur sæti á Alþingi sem óháð og skipar sér ekki sem fulltrúi flokks. Hún er þar á eigin vegum. Hefði hún verið komin í annan flokk sem fyrir er á þingi eftir úrsögn sína frá frjálslyndum hefði sama gagnrýni gilt um hana, en ekki ella.

Gunnar skipar nú tíunda sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokkins í Suðurkjördæmi, en hann hlaut sætið í prófkjöri í nóvember. Það er því öllum ljóst að þingmannsferli hans er lokið. Gunnar hefur verið áberandi í stjórnmálum á kjörtímabilinu. Deilur voru meðal frjálslyndra vegna stöðu hans í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum en hann var þá með dóm á bakinu og afplánaði refsingu strax eftir þær kosningar - hann hóf þingmannsferil sinn verandi í fangelsi. Engin lognmolla hefur verið í kringum hann hvort sem hann hefur skipað raðir frjálslyndra eða sjálfstæðismanna. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann fari aftur á þing, með umboði sjálfstæðismanna, síðar.

Sigurlín Margrét er eini þingmaðurinn í tæplega 1100 ára sögu Alþingis Íslendinga sem er heyrnarlaus og tjáir sig því með táknmáli. Það er því ekki undrunarefni að barátta hennar fyrir þann hóp skipar stærstan sess í pólitík hennar - það er eðlilegt. Það er enda gleðiefni að sá hópur eigi fulltrúa á þingi. Í ljósi þess og að ég veit að Sigurlín Margrét sé heilsteypt kjarnakona sem hefur aldrei látið fötlun sína hefta sig óska ég henni góðs í þingstörfum næstu vikurnar, til loka starfstíma Alþingis á kjörtímabilinu.

mbl.is Óháður inn fyrir sjálfstæðismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofsaakstur í íbúðahverfi

Ofsaakstur Það er frekar ömurlegt að heyra fréttir af ofsaakstri í umferðinni. Í gærkvöldi keyrði ökumaður í annarlegu ástandi á miklum hraða í gegnum íbúðarhverfi. Það er því miður ekkert einsdæmi, en allavega tvö, gott ef ekki þrjú tilvik, hafa gerst svoleiðis undanfarið ár, svo ég muni eftir í umræðunni allavega. 

Þetta er auðvitað frekar sorglegt enda getur ökumaðurinn, sem missir dómgreind og viðbragðssnerpu, orðið bæði sjálfum sér og saklausum vegfarendum að bana. Sýnt var í Kastljósi í vikunni hversu mjög drykkja á örfáum áfengum drykkjum hefur áhrif á ökumanninn. Allir sem sáu áhrif áfengis á Freysa, Andra Frey Viðarsson, sáu að þetta er dauðans alvara.

Hver vill mæta svona bíl á ofsaakstri í myrkri, annaðhvort sem ökumaður annars bíls eða sem gangandi vegfarandi? Stórt er spurt. Þetta er dauðans alvara!

mbl.is Ökumaður í annarlegu ástandi skapaði stórhættu á götum Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er klámþingið umdeilda ólöglegt?

Klámþing Væntanlegt klámþing í Reykjavík er hitamál nú í samfélaginu - sitt sýnist hverjum um það. Femínistar hafa tjáð andstöðu sína af miklum krafti og skorað á ríkisstjórn, þingmenn, borgarstjórn, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og ríkislögreglustjóra að koma í veg fyrir þinghaldið. Vísa femínistar til þess að landsmenn hafi ekki viljað fulltrúa skipulagðra samtaka lögbrjóta hingað og er koma Vítisengla hingað fyrir nokkrum árum til landsins nefnd í því samhengi.

Femínistar fullyrða að þinghaldið brjóti í bága við 210. grein hegningarlaga. Þar segir: "Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum ...1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt."

Ef marka má þetta er þetta fundahald varla löglegt. Mikilvægt er að lögregluyfirvöld taki af skarið í þessum efnum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur nú tekið undir kröfur femínista um að fundurinn sé ekki áhugaverður og telur það í mikilli óþökk borgaryfirvalda að í Reykjavík verði haldið klámþing. Segir hann að það sé yfirlýst stefna borgarinnar að vinna gegn klámvæðingu og vændi.

Hefur borgarstjórinn hvatt lögregluembættið til þess að rannsaka hvort ráðstefnugestir kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú en væntanlega minnka líkur á þessu þinghaldi og ef marka má hegningarlög er það ekki löglegt. Taka verður þá á því með þeim eina hætti sem fær er.


mbl.is Ung vinstri-græn harma að íslensk fyrirtæki taki á móti klámframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skandall í X-Factor í kvöld - Siggi sendur heim

Siggi Er eiginlega enn orðlaus eftir að Akureyringurinn Siggi, Sigurður Ingimarsson, var sendur heim í X-Factor á Stöð 2 fyrir stundu. Það er með hreinum ólíkindum að þátttöku hans í þættinum sé lokið. Hvorki var hann lakasti keppandinn í kvöld eða með verstu söngframmistöðuna. Þvert á móti tel ég og hef þótt það alla keppnina að Siggi stæði einna fremst keppenda og ætti góða möguleika á sigri. Það er mjög athyglisvert að sjá hvernig að þjóðin dæmir söngframmistöður þarna. Það voru allavega tveir ef ekki þrír sem frekar verðskulduðu botninn þarna. Það gerðu hvorki sönghópurinn Gís né Siggi.

Elínborg Halldórsdóttir, betur þekkt sem Ellý í Q4U, sendi Sigga heim í kvöld. Hún hafði oddaatkvæðið að þessu sinni, enda stóðu Einar Bárðarson og Páll Óskar með sínu fólki, sem skiljanlegt er. Ég hef aldrei skilið af hverju þessi kona var valin þarna til dómarastarfa. Það er hreinn og klár skandall svo sannarlega. Það hefur sannað sig að hún hefur engan þann bakgrunn til að meta söng og virðist koma með hverja steypuna á fætur annarri í umsögnum og vera mjög mislagðar hendur.

Það er ekki hægt annað en tjá afgerandi þá skoðun að Ellý eigi ekki erindi í þessum þætti og ég tek undir skoðanir Einars Bárðarsonar að það sé þessari konu til skammar að senda einn allra frambærilegasta söngvara keppninnar heim á þessari stundu. Það er ekki ofsögum sagt að valið á Ellý sem dómara hafi sannað sig sem algjört flopp, fyrir Stöð 2 og þá sem standa að keppninni.

Litli maðurinn leggur olíufélögin í Héraðsdómi

OlíufélöginÞað eru svo sannarlega merkileg tíðindi að olíufélagið Ker hafi verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða Sigurði Hreinssyni, á Húsavík, 15.000 krónur í skaðabætur fyrir tjón sem hann varð fyrir vegna samráðs olíufélaganna á árunum 1993-2001. Upphæðin er ekki há en tíðindin eru merkileg. Í ofanálag var Ker dæmt til að greiða Sigurði 500.000 krónur í málskostnað.

Verði þessi dómur staðfestur af Hæstarétti má eiga væntanlega von á því að hann verði fordæmisgefandi og í kjölfarið komi fjöldi einstaklinga sem vilji sækja sér rétt sinn með sama hætti og trésmiðurinn frá Húsavík. Segja má að með þessum dómi leggi litli maðurinn olíufélögin með mjög athyglisverðum hætti.

Nú verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Hæstarétti í þessum efnum. Ennfremur fer brátt fyrir Hæstarétt áfrýjun saksóknara á frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á persónulegu máli á hendur olíuforstjórunum þremur á tímum olíusamráðsins. Þar voru þeir dregnir til ábyrgðar en ekki olíufélögin.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist fyrir Hæstarétti í báðum þessum málum, en niðurstaðan þar mun skipta sköpum um framhald olíumálsins alls.


mbl.is Ker dæmt til að greiða 15 þúsund krónur í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðjón Arnar í NV - fer Kristinn H. fram í RVK?

Guðjón Arnar Kristjánsson Það er nú ljóst að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, mun leiða lista flokksins áfram í Norðvesturkjördæmi. Orðrómur hafði verið um hvort að hann færði sig til framboðs í höfuðborginni en skv. fréttum hefur formaðurinn nú slegið á þær pælingar og ætlar að halda fast við framboð á sömu slóðum áfram. Guðjón Arnar hefur verið þingmaður á Norðvestursvæðinu frá árinu 1999; 1999-2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 2003 fyrir hið nýja Norðvesturkjördæmi.

Guðjón Arnar var akkeri Frjálslynda flokksins inn á þing í kosningunum 1999 en kjördæmakjör hans á Vestfjörðum tryggði kjör Sverris Hermannssonar, þáv. formanns Frjálslynda flokksins, sem jöfnunarþingmanns í Reykjavík. Frjálslyndir höfðu aldrei mælst inni alla þá kosningabaráttu og kom örugg kosning Guðjóns Arnars mörgum að óvörum á kosninganótt. Allt frá þeim degi hefur staða Guðjóns Arnars verið sterk innan flokksins og hann varð eftirmaður Sverris á formannsstóli árið 2003 er hann hætti endanlega þátttöku í pólitík. Nú nýlega hefur flokkurinn þó klofnað með úrsögn Margrétar, dóttur Sverris, og stuðningsmanna hennar.

Kristinn H. Gunnarsson Mikið er spáð í hvar Kristinn H. Gunnarsson, nýjasti flokksmaður Frjálslynda flokksins, fari fram nú þegar að hann hefur sagt skilið við Framsóknarflokkinn. Er ljóst að annaðhvort leiðir hann annan lista flokksins í Reykjavík eða fer fram í öðru sætinu í Norðvesturkjördæminu, sætinu sem Sigurjón Þórðarson, nýr leiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, skipaði í kosningunum 2003. Er ekki ósennilegt að Kristinn H. horfi til þess að fara í borgarframboð í nyrðri Reykjavíkurkjördæminu.

Myndi hann á þeim slóðum mæta Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Það yrði vægast sagt athyglisverð rimma sem gæti orðið ein hvassari í kosningabaráttunni þetta vorið. Myndu án efa margir tala um hreint einvígi Kristins og eftirmanns hans á formannsstóli Byggðastofnunar sem er líka síðasti flokksformaður Kristins H. Í nýjustu könnunum Gallups eru Frjálslyndir að mælast þar með þingsæti en ekki Framsóknarflokkurinn. Það yrði ein af stærstu tíðindum kosninganna færi Kristinn H. inn þar en Jón Sigurðsson sæti eftir með sárt ennið.

Margir hafa líkt Kristni H. við Hannibal Valdimarsson, föður Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var þingmaður og forseti ASÍ um árabil og ennfremur um skeið ráðherra. Báðir teljast þeir bragðarefir í langri og sögulegri stjórnmálasögu Vestfjarða. Hannibal og Kristinn H. hafa báðir verið þingmenn þriggja stjórnmálaflokka á stormasömum stjórnmálaferli. Hannibal var formaður þriggja flokka; sem er einsdæmi á Norðurlöndum og víðar væntanlega, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna.

Hannibal stofnaði síðastnefnda flokkinn eftir að öll sund lokuðust fyrir hann innan Alþýðubandalagsins. Þá ætlaði hann að leiða framboð nýja flokksins í höfuðborginni. Frægt varð að fylgismenn hans í höfuðborginni vildu ekki að hann leiddi listann. Úr varð að hann fór fram fyrir vestan og þar lék hann síðustu snilldarslagi sinna stjórnmálaklækju og braut upp kratafylgið með sögulegum hætti þar svo að aldrei rættist úr fyrir þeim aftur.

Ólíkt Hannibal forðum daga má fullyrða að Kristni yrði ekki hafnað af frjálslyndum í höfuðborginni. Þar gæti orðið líflegasti bardagi baráttunnar þegar að hinn forni bardagamaður Framsóknarflokksins mætir formanni flokksins sem hann yfirgaf í líflegri baráttu. Hún yrði hvöss.... það má fullyrða með algjörri vissu.

Femínistar landsins skjálfa vegna klámþings

X-RATED Um fátt er nú meira rætt en klámþing sem halda á hérlendis eftir nokkrar vikur. Femínistar landsins skjálfa vegna þessara tíðinda og láta í sér heyra á fullum krafti, hneykslaðar á því að slíkt gerist hér. Það er nú víst einu sinni svo að við lifum ekki í vernduðu umhverfi. Það þarf varla að taka það fram að klám er orðið lítið feimnismál - nægir þar að líta á netið og fleiri þætti samfélagsins.

Ég get ekki séð hvað er að því að þetta þing fari fram hér. Tek ég eiginlega undir orð Hrannar Greipsdóttur, hótelstjóra á Hótel Sögu í fréttum í gær er hún var spurð út í þetta. Þar munu þinggestir víst gista. Það er svosem varla við því að búast að allir verði hoppandi sælir með þetta þinghald og fagni því. Ég er þannig gerður að ég skipti mér ekki af fundahaldi annars fólks svo framarlega að þar fari allt vel fram, engin læti og vesen.

Búast má við ef marka má viðbrögð femínista að þau mótmæli með einhverjum hætti þinghaldinu. Femínistar gera að sjálfsögðu það sem þeir vilja og eru auðvitað í fullum rétti að hafa á þessu skoðanir. Ég verð þó að taka af skarið í hina áttina, enda get ég ekki séð að þetta þinghald sé rangt.

mbl.is Klámþing verður haldið hér á landi í næsta mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslutaka stöðvuð - hvað er að gerast?

Sigurður Tómas Ég verð að viðurkenna að ég varð orðlaus og hváði við þegar að góðvinur minn sagði mér þá frétt síðdegis á kaffihúsi að dómari hefði í Héraðsdómi Reykjavíkur hefði stöðvað saksóknara í miðri skýrslutöku. Ætlaði varla að trúa þessu og ég er enn hugsi yfir þessu öllu. Mér telst til að þetta sé nær einsdæmi í íslenskri réttarsögu. Þetta er með öllu óskiljanlegt. Þetta mál er komið út í einhverja vitleysu og dómarinn í þessu máli virðist vera í tómu tjóni.

Maður á varla nokkuð orð til um þetta. Getur verið að dómarinn sé ekki hlutlaus í þessu máli? Allt sem gerst hefur síðustu dagana fær mann hreinlega til að halda að svo sé. Þetta er sorglega ömurlegt hvernig dómarinn kemur allavega fram og þetta nýjasta athæfi hans er með ólíkindum. Það að stöðva saksóknara í miðri setningu er fyrir neðan allt að mínu mati. Hví sýnir hann saksóknara slíka vanvirðu, allt að því fyrirlitningu og dónaskap? Því mátti ekki klára spurningarnar? Lá eitthvað á?

Ég sagði um daginn að þetta Baugsmál væri með ólíkindum orðið þegar að Jóni Gerald var vísað á dyr. Þetta kórónar það gjörsamlega. Það hljóta æði margir að vera hugsi yfir málinu. Ég get allavega varla orða bundist. Það er greinilega ekki allt enn búið í þessu máli. Þetta er allavega dagur stórra tíðinda, svo mikið er víst.

mbl.is Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfum fram á veginn í málefnum Akureyrarvallar

AkureyrarvöllurEitt af hitamálunum hér á Akureyri undanfarin ár er framtíð Akureyrarvallar. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þó sú skoðun orðið æ meira ofan á að hans saga sé öll og horft skuli í aðrar áttir með nýtingu vallarsvæðisins sem er áberandi í miðbæjarmynd Akureyrar. Við öllum blasir að völlurinn er úreltur orðinn og vafamál verið hvort byggja eigi þar upp. Það hefur lengi verið mín skoðun að rétt sé að binda enda á núverandi nýtingu þessa svæðis í hjarta bæjarins og stokka það algjörlega upp.

Fyrir tæpu ári tók þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af skarið með framtíð vallarins. Þá var ákveðið að taka svæðið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð. Með þessu náðist það fram að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum, kennt við Glerártorg. Þá stóð Framsóknarflokkur að fullu samkomulagi í þessum efnum, enda kynntu bæði Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson þessar tillögur. Síðan þá hefur Framsókn tekið u-beygju, reyndar í minnihluta.

Málefni vallarins voru rædd í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári. Þar var augljóst að vilji meirihluta bæjarbúa er að horfa í aðrar áttir með svæðið og leggja völlinn af. Þar var engin bylgja í þá átt að horfa til þess að endurbyggja völlinn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur tekið á málinu með afgerandi hætti og öllum ljóst að vilji hans er að nýta svæðið með svipuðum hætti og tillögur fyrri bæjarstjórnarmeirihluta fólu í sér. Allar lykilákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum.

Það kemur því frekar spánskt fyrir sjónir að nú þegar að allar meginákvarðanir málsins hafa verið teknar og rétt er að grípa til framkvæmda við að endurhanna svæðið og þoka málum áfram dúkki einhver hópur fólks undir heitinu Vinir Akureyrarvallar. Virðist vera vilji þeirra og baráttuþema að byggja völlinn upp og halda honum óbreyttum í raun. Það er furðulegt að þessi hópur hafi ekki orðið áberandi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra þegar í raun átti að fara fram þessi umræða um þetta.

Fyrir hópnum fer m.a. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri og þekktur frambjóðandi í forvali framsóknarmanna hér í kjördæminu fyrir nokkrum vikum. Hann tjáði þá skoðun í viðtali við N4 í vikunni að það sé einhver fjöldastuðningur, sífellt stækkandi að hans sögn, í þessu máli við það að hætt verði við fyrri ákvarðanir og horft til þess að byggja völlinn upp. Ég leyfi mér að efast stórlega um að svo sé. Á víst að fara fram borgarafundur í Sjallanum í kvöld undir verkstjórn þessa hóps. Verður fróðlegt að sjá hversu margir mæti þar til leiks.

Ég tel þetta mál komið á það stig að ekki verði horft í baksýnisspegilinn. Það hefur verið tekin þessi ákvörðun að mínu mati og það hefur verið áberandi vilji bæjarbúa að þessi verði raunin. Enda er ekkert eftir nema að hefja framkvæmdir við uppstokkun mála. Það á að mínu mati að byggja upp aðstöðu hjá félagssvæðum KA og Þórs og horfa í þá átt að þar verði aðalleikvellir og aðstaða sem máli skiptir. Það gengur ekki að mínu mati að þessi stóri blettur í miðju bæjarins verði festur undir þennan völl og rétt að stokka upp.

Stefnt er að því að frjálsíþróttaaðstaða verði nú byggð upp á íþróttasvæði Þórs við Hamar í tengslum við Bogann og muni verða tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009. Þannig á það að vera og menn eiga að drífa það af að ganga frá öllum lausum endum þess. Í þessu máli skal horft fram á veg en ekki aftur. Einfalt mál það!


Grein áður birt á bæjarmálavefritinu
Pollinum, 15. febrúar 2007.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband