22.2.2007 | 19:05
Klámþingsfulltrúum úthýst úr Bændahöllinni
Mikið líf hefur verið í bloggheimum og samfélaginu öllu eftir að forysta Bændasamtakanna ákvað að meina hópi fólks í klámbransanum um gistingu á Hótel Sögu eftir hálfan mánuð, dagana 7.-11. mars. Hiti hafði verið í samfélaginu að undanförnu vegna málsins og hótelið bognaði með athyglisverðum hætti eftir að borgarstjórn samþykkti þverpólitíska ályktun gegn klámráðstefnunni undir verkstjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra.
Aðstandendur ráðstefnunnar bregðast harkalega við á vef sínum og tala þar um að hræsni sé hjá Íslendingum að leyfa hvalveiðar en leyfa ekki aðstandendum ráðstefnunnar að koma til landsins með eðlilegum hætti. Skotin ganga þar heldur betur og yfirlýsing ráðstefnuhaldaranna er ansi beitt orðuð. Greinilegt er að Hótel Saga vísar sérstaklega í ákvörðun sinni til þess sem borgaryfirvöld hafa sent frá sér um málið. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur tók á málinu í upphafi með afgerandi ummælum borgarstjóra sem gerðist öflugur andstæðingur ráðstefnunnar við hlið femínista strax í upphafi.
Ég tjáði þá afstöðu í upphafi málsins að ég vildi ekki banna komu þessa fólks til landsins. Hinsvegar hefur staðan orðið þannig að hótelið hefur bognað og vísar til þess að borgaryfirvöld vilji ekki þessa gesti hingað. Þetta er fordæmalaus ákvörðun, man ekki eftir öðru eins, semsagt að gestum á hóteli hafi verið vísað á dyr og þeim hafnað sem viðskiptavinum. Þetta er því mjög athyglisverð ákvörðun. Ýmist er fólk ánægt eða ósátt við ákvörðunina. Það hefur valdið hvössum skoðanaskiptum á netinu.
Athyglisvert hefur verið að margir þeirra sem mest börðust fyrir komu Falun Gong-liða hér til lands á þeim forsendum að þau hefðu rétt til að koma hingað hafa stutt það að þessu fólki sé meinaður aðgangur. Ég vildi ekki meina því að koma og hef ekki stutt neitt í þá átt, enda tel ég að fólk megi koma hingað nema að það hafi beinlínis illt í huga fyrirfram. Mér finnst þetta ekki gott mál, enda vil ég að fólk hafi frelsi til að koma hingað og upplifa landið á sinn hátt.
En það er spurning hvernig að fólk metur frelsi til að koma hingað og í rauninni þetta hótel, ef út í það er farið, eftir þessa atburði. Það vakna margar spurningar við þessi sögulok að mínu mati.
![]() |
Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
22.2.2007 | 17:30
Fær Martin Scorsese óskarinn um helgina?

Nú hefur hann fengið sjöttu tilnefninguna fyrir The Departed, sem er án nokkurs vafa ein besta kvikmynd ársins 2006. Algjört meistaraverk svo vægt sé til orða tekið. Mér finnst það fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig þeir hafa sniðgengið Scorsese og kvikmyndir hans. Ég hélt að hann myndi fá verðlaunin fyrir tveim árum, fyrir The Aviator, en þá fóru verðlaunin til Clint Eastwood. Taldi ég að hann fengi verðlaunin bæði fyrir myndina, svo og glæsilegt framlag til sögu kvikmyndanna. Svo fór ekki.
Martin Scorsese hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það mun verða kvikmyndabransanum til vansa fái hann ekki Óskarinn að þessu sinni og það hlýtur að verða að nú sé komið að því. Það er því ekki undarlegt að vinir hans og velunnarar hafi unnið vel að sigri hans nú. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um leikstjóraferil og ævi Scorsese og ég bendi á hann hér með.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2007 | 16:56
Sýnum metnað í því að klára hringveginn

Halldór hefur alla tíð verið baráttumaður fyrir landsbyggðina og því kemur afstaða hans ekki að óvörum. Hans pólitík hefur alla tíð verið í þá átt að samgöngumál landsbyggðarinnar séu til sóma og staðið sé vörð um hinar dreifðu byggðir. Í samgönguráðherratíð Halldórs var mótuð stefna um að malbika hringinn fyrst fyrir árið 2000 en síðan hefur því endalaust verið frestað. Það er mjög dapurlegt náist það ekki í gegn innan næstu ellefu ára.
Mér finnst þetta nokkuð metnaðarleysi og finnst þetta mjög dapurlegt. Það á að vera grunnmál okkar allra að bundið slitlag sé um hringveg landsins. Það er mál sem verður að tryggja að nái í gegn á tíma næstu samgönguáætlunar. Það er mjög einfalt mál að mínu mati.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 14:46
Hætt við klámráðstefnu á Íslandi

Best birtist þverpólitísk andstaða við ráðstefnuna í borgarstjórn, en þar samþykkt ályktun þess efnis að ráðstefnan væri í óþökk borgaryfirvalda. Var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, forystumaður gegn ráðstefnunni í raun innan borgarkerfisins og var eindreginn talsmaður gegn því að svona væri liðið innan borgarinnar. Voru ummæli hans afgerandi og tók Vilhjálmur Þ. undir skoðanir femínista og ákall þeirra um aðgerðir sem sendar voru út til forystumanna borgar og ríkis og lögregluyfirvalda. Það er ljóst að þessi mótmæli femínista hafi leitt til þess að andstaða við ráðstefnuna jókst og hótelrekstraraðilar gátu ekki hýst hópinn.
Þessu máli er semsagt lokið - vafalaust eru flestir ánægðir að ekkert verði af ráðstefnunni.
![]() |
Hætt við klámráðstefnu hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2007 | 13:28
Bloggvinir
Eitt af því skemmtilegasta við þetta vefumsjónarkerfi er bloggvinasystemið. Það er hægt að eignast góða bloggvini í gegnum skrifin, bæði þá sem vilja tengjast manni og maður sjálfur óskar eftir að hafa tengingu við. Þetta er gott að því leyti að koma á bloggböndum, þetta eru vefir sem fá tengil á síðu bloggvinarins og öfugt, tengsl myndast og hver og einn eignast leskjarna. Þetta auðveldar að sjá þegar að uppfærslur eru og líta á það sem er nýjast hverju sinni. Líkar mjög vel við þetta.
Ég hef eignast marga bloggvini hér - bæði þá sem ég hef kynnst í gegnum lífið og eins fólk sem ég hef aldrei hitt. Með þessu myndast góð bönd. Það er hið besta mál. Ég raða ekki bloggvinum upp eftir eigin mati. Þeir birtast hér í þeirri röð sem mbl gefur upp. Ég hef þar engu breytt - finnst það heldur ekki rétt að gera upp á milli þeirra sem ég vil hafa sem bloggvin og eins þeirra sem hafa óskað eftir tengingu við mig.
Sé farið að raða upp að þá koma upp hugleiðingar af hverju þessi eða hinn sé ofar í huga þess sem á vefinn. Ég tek ekki þátt í því og raða bloggvinum upp eftir því sem stafrófsröð eða röð bloggkerfisins er, enda er stundum svo að sá sem skrifar er birtur eftir nafni sínu í stafrófsröð en ekki bloggheitinu. En ég semsagt birti listann hér óbreyttan. Þannig á það líka að vera. Ég met alla bloggvini mína enda jafnt.
En þetta er góður fítus og myndar skemmtileg tengsl.... sem gaman er af á netinu. Þetta er enda mjög skemmtileg vefumsjónarkerfi, enda fer það alltaf stækkandi.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 12:31
Klofningur hjá öldruðum og öryrkjum

Nú hafa öryrkjar slitið viðræðum við Baldur Ágústsson, sem var forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum 2004 og hlaut þar um 10% atkvæða. Ekki virðist ganga vel fyrir þessa hópa að vinna með Baldri og greinilegt að það hafa verið stálin stinn þegar að kom að samstarfi hjá honum og Arnþóri Helgasyni. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Munu aldraðir og öryrkjar fara fram í fjölda framboða eða hætta við allt saman? Flestum má þó ljóst vera að mjög vandræðalegt verður fyrir þessa hópa verði framboðin í frumeindum og ekki ljóst hvaða árangur verði af því.
Þessi farsi um framboð aldraðra og öryrkja er alveg kostulegur og með ólíkindum að sjá hversu illa þeim gengur að vinna saman sem ætla sér saman í framboð. Er þetta trúverðugt? Verður þetta kannski allt andvana fætt. Þetta lítur allavega varla heilsteypt út. Fyrst að þessir hópar ná ekki saman um framboðið eitt og sér er vandséð hvernig að framboð í nafni þeirra geti náð um stefnu og áherslur í kosningum.
![]() |
Viðræðum um framboð aldraðra og öryrkja slitið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2007 | 10:34
Börn tónskálds berjast fyrir heiðri hans
Það leikur enginn vafi á því að Friðrik Jónsson hafi verið eitt virtasta tónskáld Þingeyinga. Hann samdi nokkur ódauðleg lög sem mikið eru spiluð enn í dag - lög sem lifað hafa með þjóðinni. Nú eru deilur uppi um hvort hann hafi samið frægasta lag sitt, Við gengum tvö. Börn Friðriks hafa nú svarað umfjöllun Morgunblaðsins í gær með yfirlýsingu sem birt er í blaðinu í dag. Þetta er athyglisvert mál og virðist þar börn tónskáldsins fyrst og fremst koma til varnar heiðri hans sem tónskálds. Er greinilegt að þau taka umfjöllun mbl illa.
Friðrik er án vafa þekktastur fyrir að hafa samið þetta lag og auk þess hið ódauðlega lag Rósin, sem er orðið eitt helsta jarðarfararlag landsins og virt í tónlistarheimum í flutningi bæði Álftagerðisbræðra og ýmissa söngvara. Lagið Við gengum tvö varð frægt í flutningi Ingibjargar Smith á miðjum sjötta áratugnum og hefur í danslagaþáttum alla tíð síðan og er eitt laganna sem lifað hafa með þjóðinni og öðlast sess í óskalagaþætti t.d. Gerðar B. Bjarklind sem stendur vörð um gömul lög gullaldartímabils íslenskrar tónlistar.
Friðrik, sem lést árið 1997, var organisti í nokkrum kirkjum í Suður-Þingeyjarsýslu sem lærði undirstöðuatriðin hjá föður sínum, en hann var organisti og söngstjóri. Friðrik fór suður til Reykjavíkur á unglingsárum og hlaut frekari tilsögn í orgelleik í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hann fékkst síðan við söngkennslu og margvísleg tónlistarstörf eftir það og varð fljótlega vinsæll og eftirsóttur harmonikuleikari. Hann fór víða um héraðið og lék fyrir dansi og gladdi sveitungana síma með tónflutningi og lagasmíðum.
Lagið Við gengum tvö varð til um 1940 en textann orti hagyrðingurinn Valdimar Hólm Hallstað sem var afkastamikið söngtextaskáld, en orðrómur hefur alla tíð verið um að hann hafi samið textann við hið þekkta lag, Í fjarlægð, en í flestum söngbókum er textinn merktur nafnlausum manni, Cæsari, að nafni.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari "baráttu" um heiður Friðriks Jónssonar sem tónskálds. Það er allavega greinilegt að börn hans standa vörð um heiður hans í tónlistargeiranum. Það sést vel af þessari yfirlýsingu.
![]() |
Samdi Við gengum tvö skömmu fyrir 1940 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007 | 00:12
Flestir búnir að gleyma Silvíu Nótt

Um allt land fóru krakkar í búðir og fyrirtæki... voru að syngja fyrir nammi. Gamall og góður siður. Krakkarnir fóru sem fyrr í ýmis gervi. Allir skemmtu sér vonandi vel. Þegar að ég var krakki fannst mér þetta yndislegur dagur og ég tók þátt í slatta ára. Þegar að ég var tólf ára hafði ég misst áhugann og ég tók þá ekki þátt. Fannst þetta ekki minn stíll lengur. Það er eins og það er. En í minningunni sem krakki var þetta yndislegur dagur, mjög svo.
Nú er Silvía Nótt engin fyrirmynd krakkanna á öskudeginum eins og í fyrra. Er það gott eða slæmt? Ég hallast að hinu síðarnefnda og er eflaust ekki einn um þá skoðun.
![]() |
Silvía Nótt hvergi sjáanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2007 | 19:59
Romano Prodi segir af sér
Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í kvöld fyrir hönd stjórnar sinnar eftir að hafa tapað mikilvægri atkvæðagreiðslu um stefnumótun í utanríkismálum í efri deild ítalska þingsins. Prodi hefur verið forsætisráðherra í tæpt ár, frá 17. maí 2006, en Ólífubandalagið vann nauman sigur í þingkosningum á Ítalíu í apríl 2006. Hefur bandalagið aðeins haft eins sætis meirihluta í efri deildinni.
Vinstrimenn sögðu eftir kosningarnar að þeir gætu verið í sterkri stjórn allt kjörtímabilið þrátt fyrir þessa stöðu en Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, og samherjar hans sögðu stjórnina varla geta setið í meira en ár. Það hefur nú sannast með þessari þingkosningu. Ólífubandalagið er bandalag alls níu vinstriflokka með mjög ólíka eigin stefnu og það hafa flestir séð allan þennan tíma að það yrði erfitt ef ekki ómögulegt að halda völdum og ná samkomulagi í öllum málum við svona aðstæður.
Það er enda svo að Romano Prodi er ekki leiðtogi neins flokksins heldur bara forsætisráðherra í nafni flokkanna níu og andlit þeirra. Prodi var forsætisráðherra í nafni samskonar bandalags á árunum 1996-1998 en gafst þá upp og aðrir tóku við. Nú er meirihlutinn mun brothættari en þá og greinilegt að það gengur illa að halda honum saman.
Nú er vinstristjórnin búin að segja af sér. Vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano er forseti Ítalíu. Það verður hans að meta nú stöðuna, ræða við leiðtoga flokkanna og kanna hvað sé rétt að gera. Það er enn ekki ár liðið frá þingkosningum og fróðlegt að sjá hvort Napolitano felur þjóðinni að leysa úr erfiðri pólitískri stöðu með því að óska eftir áliti landsmanna.
Þetta er mjög erfið staða og vandséð hvernig að hún verður leyst öðruvísi með sómasamlegum hætti.
![]() |
Forseti Ítalíu hefur tekið við afsagnarbeiðni Prodis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 17:54
Magnús Þór í Reykjavík - minni hasar í Suðri

Tilfærsla Magnúsar Þórs þýðir um leið að hann mun ekki mæta Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í Suðurkjördæmi, en Árni er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Rimma Magnúsar Þórs og Árna í hinu fræga brottkastsmáli fyrir nokkrum árum þótti eftirminnileg, en harðar árásir gengu þeirra á milli og málið fór fyrir dóm og lauk að lokum með sigri fjármálaráðherrans skömmu fyrir þingkosningarnar 2003. Nú mun það væntanlega verða Grétars Mars Jónssonar, skipstjóra og fyrrum forseta FFSI, að leiða lista frjálslyndra á þeim slóðum, en hann er nú varaþingmaður Magnúsar Þórs.
Ekki er hægt að segja að ákvörðun Magnúsar Þórs um framboð í Reykjavík komi að óvörum. Þó höfðu einhverjir átt von á að hann færi fram í Kraganum, en það er nú greinilega ætlað Valdimari Leó Friðrikssyni, sem var þingmaður Samfylkingarinnar eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar þar til að sá fyrrnefndi var óháður í nóvember, að leiða listann þar. Hann fetar þar í fótspor Gunnars Örlygssonar, sem náði kjöri sem frjálslyndur í kjördæminu en gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í maí 2005. Eitthvað hefur minna farið fyrir andstöðu frjálslyndra við að Valdimar Leó skipti um þingflokka á kjörtímabilinu en þegar að Gunnar Örlygsson gerði slíkt hið sama.
Það verður fróðlegt að sjá kosningabaráttu Magnúsar Þórs í Reykjavík. Þar heldur hann í höfuðvígi Margrétar Sverrisdóttur, en meginþorri þeirra sem studdu F-listann í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra og skipa forystusveit lista frjálslyndra og óháða hafa nú yfirgefið Frjálslynda flokkinn og gerst óháðir og skipa framvarðarsveit nýs framboðs, eða flokks, Margrétar. Þar þarf Magnús Þór því að byggja sér nýtt bakland. Hann er þó kominn nær heimaslóðum sínum, en hann býr á Akranesi.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Magnúsi Þór gengur að byggja sér pólitískt bakland í höfuðborginni. Þeir verða sennilega ágætir saman hann og Jón Magnússon þarna. Mun hann kannski leiða hinn listann?
![]() |
Magnús Þór væntanlega í framboð í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 16:19
Meiriháttar klúður á Moggablogginu
Hef verið lítið við tölvu í dag og því lítið getað skrifað og kynnt mér málið. En ég las þessa frétt og blogg nokkurra annarra hér sem skrifa og eru auðvitað ekki sáttir. Það er ég líka. Finnst þetta mjög slæmt mál og skil ekki í þessu sleifarlagi satt best að segja. Það þýðir ekki að segja bara að svona komi ekki fyrir aftur. Þetta er mjög alvarlegt mál svo vægt sé að orði komist. Það að einhver sem lesi hér geti séð lykilorðið og breytt stillingum er alvarlegt mál.
Þetta er ekki til vegsauka fyrir Moggabloggið og á svona vandræðalegu klúðri þarf að taka!
![]() |
Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.2.2007 | 13:40
Samband tveggja skaphunda í uppnámi

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.
Nú virðist þetta allt vera að stranda á því hvort þau muni ganga í hjónaband. Jolie vill það ekki en Pitt krefst þess. Deilupunkturinn liggur þar á hvort þeirra hafi betur og virðist það vera að sliga þetta fræga samband. Hvorugt þeirra vill gefa eftir. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, en það má fullyrða að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) árið 1996 og skildi við hann árið 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.
Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.
Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Nú virðist vera að steyta allverulega á skeri hjá þeim. Það yrðu fáir hissa myndi þessu ástríðufulla og sviptingasama sambandi ljúka einmitt vegna þess að gætu ekki komið sér saman um að heita hvoru öðru ævilanga trú og ástúð.
![]() |
Samband Jolie og Pitt sagt í vanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 12:02
Hreinn Loftsson skrifar færslu um mútumálið

Lítið hefur verið rætt um þetta mál síðustu árin, nær ekkert eftir að Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum. Þetta var eitt mestu hitamála í aðdraganda alþingiskosninganna 2003, síðustu kosningabaráttu Davíðs á þriggja áratuga stjórnmálaferli, enda auðvitað athyglisvert þegar að forsætisráðherra heillar þjóðar fullyrðir að bornar hafi verið á hann mútur eða tilraun til þess gerð. Þetta endaði sem hitamál tengt kosningunum og barátta Davíðs og Ingibjargar Sólrúnar varð gríðarlega hörð. Málið er eitt hið torskildasta í stjórnmálasögu seinni ára.
Hreinn Loftsson skrifaði athugasemd við grein Ragnars Sverrissonar, kaupmanns, á bæjarmálavefritinu Pollinum. Grein Ragnars hét Smjörklípudagurinn mikli og fjallar því um þetta mál. Það er svo sannarlega athyglisverð athugasemd. Birti ég hana orðrétt hér á eftir og lesendur geta dæmt hana sjálfir, en athyglisverð er hún:
"Eitt skulum við hafa alveg á hreinu. Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútur. Öðru nær. Aðspurður í MBL og KASTLJÓSI sagði hann að hann ætlaði mér ekki slíkt. Sagan ("smjörklípan") var einmitt svo slóttug vegna þess að hann sagði að ég hefði trúað sér fyrir því að Jón Ásgeir hefði á einhverjum tímapunkti áður nefnt þetta við mig en ég drepið hugmyndina vegna þess að Davíð Oddsson væri ekki slíkur maður (og ég tek fram að hann er ekki slíkur maður).
Jón Ásgeir hefði á hinn bóginn látið sér til hugar koma að Davíð Oddsson væri slíkur maður og að ég hafi sagt honum þetta, trúað honum fyrir þessu. Hann gat þess ekki í viðtalinu við RUV undir hvaða kringumstæðum þetta var sagt eða í hvaða samhengi, þ.e.a.s. að ég hefði sagt sér þessa sögu sem svar við söguburði hans um feðgana í Bónus. Menn skyldu ekki trúa öllu sem sagt væri um nafntogaða menn.
Um hann (Davíð Oddsson) væru sagðar sögur sem ég legði ekki trúnað á, t.d. hefði Jón Ásgeir sagt mér sögu sem gengi manna á meðal um meinta greiðslu að fjárhæð 300 m. kr. og slegið fram í framhaldinu hvort þetta væri kannski aðferðin! (Á ensku kallast þetta "sarcasm", "bitter irony" eða kaldhæðni á íslensku). Davíð greip þetta á lofti - áróðursmaðurinn sem hann er og sneri þessu strax upp í andhverfu sína - en ég sagði honum um leið að þetta hefði verið sagt í hálfkæringi af Jóni Ásgeiri. Engin alvarleg meining hefði legið þar að baki.
Þetta hefði verið nefnt í dæmaskyni um hve varlegt væri að leggja trúnað á söguburð. Hér var aðalatriðið auðvitað slúðrið en ekki kaldhæðni Jóns Ásgeirs. Ég minnti hann einmitt á að morgni "bolludagsins" - þegar hann hringdi í mig áður en hann fór í viðtalið á RUV - að ég hefði notað orðið "hálfkæringur" strax þarna um kvöldið. Þetta var ekki sagt sem fyndni af minni hálfu heldur til að vara Davíð Oddsson við að trúa kjaftasögum. Þetta er því ekta "smjörklípa" hjá honum. Hlutir teknir úr samhengi til að draga athyglina frá óþægilegri umræðu um önnur mál.
Í þessu tilviki - í framhaldi af lýsingu Fréttablaðsins frá því á laugardeginum fyrir "bolludaginn" - hvað vissi Davíð Oddsson um aðdraganda Baugsmálsins? Vissi hann eitthvað? Hitt er síðan annað mál að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum og annars staðar fóru að spinna, t.d. með því að spyrja: "já, en er það ekki einmitt svona sem menn ámálga slíka hluti" o.s.frv. Þá vil ég einnig mótmæla því að þetta hafi verið eitthvað fyllerí þarna úti í London eins og stundum er haldið fram manna á meðal og í fjölmiðlum.
Á hinum eiginlega fundi okkar tveggja í Lundúnum 26. janúar 2002 drakk annar kaffi en hinn te. Eftir heimkomuna og fram í febrúar 2002 áttum við Davíð Oddsson nokkur samskipti þegar ég gekk frá störfum mínum fyrir hann sem forsætisráðherra og ég varð þess ekki var þá að hann teldi að alvarlegir hlutir hefðu gerst í samskiptum okkar. Öðru nær. Hann þakkaði mér með hlýjum orðum fyrir náið og gott samstarf og góðan árangur við framkvæmd einkavæðingar á árunum 1992-2002."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 00:07
Leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar
Um fátt hefur meira verið rætt í dag en rúllandi kartöflur í Bónus, í bakgrunni Sölva Tryggvasonar, fréttamanns, í Íslandi í dag í umfjöllun um verð í lágvöruverslunum hér heima og í Danmörku. Ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir þessu er ég sá umfjöllunina fyrst en leit á þetta síðdegis þegar að ég heyrði umræðuna um þetta. Ég var svo upptekinn að spá í verðlagi milli þess sem gerist hér og í Danmörku að þetta fór framhjá mér.
Það hefði verið skelfilegt fyrir Bónus hefði verið músagangur þar. Hefði verið vont fyrir orðsporið og það. Þeir geta þó andað léttar enda er ljóst að þetta voru kartöflur en ekki kartöflumús þó. Hún fæst bara í duftpakkaformi þarna semsagt. Lifandi mýs eru því ekki til staðar. Í Íslandi í dag í kvöld var sýnt vel í nærmynd hvers eðlis málið er. Það þarf ekki að efast um eftir þær myndir hvernig allt er í pottinn búið semsagt.
Ég dáist að þeim sem sáu þetta í gærkvöldi meðan að háalvarleg verðmæling fór fram. Þetta fór allavega framhjá mér. Pælingarnar um þetta mál allt í dag hafa verið spekingslegar og lifandi. Skiptar skoðanir voru; sumir töldu þetta mýs og aðrir kartöflur. Það þarf semsagt ekki að rífast um þetta lengur. Kartöflur voru það, mjög vænar meira að segja; kartöflur sem myndu sóma sér sem bakaðar með grillsteikinni.
En já, leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar hefur verið sviptur hjúp óvissunnar og hægt að spá því í einhverju öðru. Við getum því öll sem eitt andað léttar.... með Baugi.
![]() |
Kartöflumús í Bónus? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 19:28
Harðvítugar deilur um hinsta hvílustað Önnu Nicole

Ekkert samkomulag er um nein atriði málsins og því verður það dómarans að taka ákvörðun um hvar Anna Nicole Smith verði í raun jarðsett og hvernig gengið verði frá málum dóttur hennar. Móðir Önnu Nicole, Vergie Arthur, og sambýlismaður og meintur barnsfaðir Önnu Nicole, Howard Stern, takast á í fyrrnefnda málinu en það verður væntanlega til lykta leitt á næstu dögum enda getur varla annað en talist mikilvægt að það verði ljóst fljótlega hvar stjarnan verði jarðsett. Móðirin vill jarðsetningu í Texas, en Stern vill að hún hvíli við hlið sonar síns á Bahama-eyjum.
Það er afskaplega ömurlegt að fylgjast með þessu máli. Það er eiginlega svo sorglegt að skynja það að þessi kona hefur verið umkringd fólki sem vilja aðeins hagnast á frægð hennar og ríkidæmi. Það er enda deilt um öll atriði. Það að takast þurfi á fyrir dómi um jarðsetningu er væntanlega hið sorglegasta. Það verður eins og fyrr segir dómara í ósköp venjulegum dómstól í Flórída, Larry Seidlin, að ákveða greftrunarstað - það verður því ósköp venjulegur embættismaður sem tekur þá ákvörðun vegna þess að samstaða er ekki til staðar. Málsaðilar talast ekki við nema í gegnum lögmenn og átökin hörð. Enda sást það vel á myndunum áðan.
Bein útsending er víst í bandarísku sjónvarpi frá þessum undarlegu réttarhöldum. Það er undarlegt að það sé talið áhugavert sjónvarpsefni að fylgjast með þessu. Kannski segir það talsvert um fréttamat og hversu mjög í kastljósinu þetta mál allt er. Þetta er allt mjög óraunverulegt. Í reyndina snýst þetta mál allt um peninga og hagsmuni tengda þeim. Það blasir við. Það er kuldalegt vissulega. Þetta gæti sennilega varla gerst nema í Bandaríkjunum. En það var sagt fyrir nokkrum áratugum að peningar og hagsmunaátök um þá gæti gert heilsteyptasta fólk að hreinræktuðum skrímslum.
Fjölmiðlar spila svo meginhlutverk í þessum darraðardans öllum. Það kemur svosem ekki neinum á óvart. Hrægammahugsun fjölmiðlanna er hinsvegar alltaf jafnnöturleg að sjá svona í nærmynd. Þetta mál er ekker einsdæmi en það virkar það sennilega vegna þess hversu opinbert það er. Það verður enda seint sagt að þetta mál sé heilsteypt. Það að þessari konu sé ekki leyft að hvíla í friði og ekki sé hægt að jarða hana án átaka segir allt sem segja þarf um þá sem næst henni stóðu.
Þetta væri sennilega ekki í fréttum ef þetta væri ekki fræg kona og ekki í Bandaríkjunum. Þeir vestanhafs eru snillingar að hype-a upp fréttir af stjörnum og þetta mál er risavaxið vegna þess að sú sem það snýst um er fræg. En það er sorglegt engu að síður.
![]() |
Harðar deilur um hvílustað Önnu Nicole Smith |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 15:44
Mun Gordon Brown taka við sökkvandi skipi?

Gordon Brown hefur verið erfðaprins valdanna innan Verkamannaflokksins alla leiðtogatíð Tony Blair, allt frá árinu 1994. Hann hefur lengst allra verið fjármálaráðherra Bretlands og þótt intellectual-týpa í breskum stjórnmálum, mun meiri maður pólitísks innihalds og hugsjóna en Tony Blair. Hann hefur verið farsæll forystumaður og haft mikið persónufylgi, langt út fyrir flokk sinn. Þó Brown hafi verið umdeildur hefur hann notið trausts. Hann ákvað að sækjast ekki eftir leiðtogastöðu flokksins þegar að John Smith dó fyrir þrettán árum. Blair og Brown sömdu um að Blair fengi leiðtogastólinn, gegn því að hann myndi rýma til innan viss tíma.
Bið Browns eftir forsætisráðherrastólnum er orðin löng. Blair sveik loforðið fræga sem gert var vorið 1994, um að Blair færi frá á miðju öðru kjörtímabilinu. Þess í stað sóttist hann eftir að leiða flokkinn þriðju kosningarnar í röð. Með því komst Blair í sögubækur sem sigursælasti og þaulsetnasti leiðtogi kratanna í yfir 100 ára flokkssögu. Blair hefur fjarað hægt og rólega út síðan, hann varð gríðarlega óvinsæll í kjölfar Íraksstríðsins og hefur aldrei endurheimt fyrri vinsældir eftir það. Það er enda fátt nú sem minnir á geislandi leiðtogann sem leiddi Verkamannaflokkinn til sigurs í maí 1997 og leiddi baráttu fólksins fyrir því að konungsfjölskyldan sýndi Díönu prinsessu hina hinstu opinberu virðingu haustið 1997.
Nú stefnir loksins í að Gordon Brown verði loksins við völd í Downingstræti 10 innan nokkurra mánaða. Að því hefur Brown stefnt leynt og ljóst í tæpa tvo áratugi. Hann var reyndar orðinn svo illur við tilhugsunina um að Blair ætlaði sér að sitja lengur en rétt framyfir tíu ára valdaafmælið í maí að hann varð að minna Blair á að honum væri heillavænlegast að fara meðan að stætt væri. Brown leiddi flauelsbyltingu gegn Blair í september - þá skalf allt og nötraði innan flokksins. Blair var gert ljóst að fastsetja tímasetningu brottfarar ella yrði honum steypt af stóli með þeirri hörku sem slíku hefði fylgt. Blair tók skilaboðunum beiskur á brá og gaf upp tímaplan.
Þessi skoðanakönnun hlýtur að vera reiðarslag fyrir leiðtoga sem hefur beðið í áraraðir eftir tækifæri síns stjórnmálaferils - tækifærinu til að leiða. Hann horfir fram á að Blair hefur skilið eftir sig svo sviðna pólitíska jörð eftir tíu ára valdaferil að varla stendur steinn yfir steini. Hann tekur í arf óvinsælar ákvarðanir, vonsvikna þjóð með langan valdaferil krata sem lofuðu öllu fögru en stóðu ekki undir því, skaðleg hneykslismál og klofinn flokk sem horfir í fylkingamyndum til framtíðar. Enn eru þeir til sem telja að Brown geti ekki unnið kosningar - hann sé ekki sterkur leiðtogi. Þetta er vond staða fyrir mann sem hefur lengi beðið eftir að fá tækifæri.
Gordon Brown verður vandi á höndum þegar að hann flytur í Downingstræti 10. Þessi könnun skannar þann vanda. Þessi könnun og aðrar vondar framtíðarmælingar, ef þær þá koma fram, gæti líka komið af stað leiðtogabaráttu um það hver taki við af Blair. Það yrðu nöpur örlög fengi kannski Brown ekki tækifærið. En hver er sterkari en hann? Þeir eru vandfundnir. Þrátt fyrir allt er líklegast að Skotinn Brown taki við, þó hann sé tveim árum eldri en Blair. En það eru erfið verkefni framundan og erfiðar ákvarðanir sem bíða nýs leiðtoga Verkamannaflokksins.
Bresk þjóð virðist búin að fá sig fullsadda af áratug Verkamannaflokksins og horfir í aðrar áttir og til ferskrar framtíðar sem David Cameron og Íhaldsflokkurinn stendur fyrir. Það stefnir í straumhvörf í breskum stjórnmálum og svo gæti farið að hinn lífsreyndi skoski stjórnmálamaður muni fjúka sömu leið og Blair innan tíðar. Það yrðu grimm pólitísk örlög fyrir mann sem beið of lengi, ekki satt?
![]() |
Fylgi breska Verkamannaflokksins minnkar enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2007 | 13:53
Kristinn H. í annað sætið hjá frjálslyndum í NV

Ég verð að viðurkenna að ég taldi að tilfærsla Kristins H. til frjálslyndra hefði falið í sér allavega leiðtogastól í öðru Reykjavíkurkjördæmanna eða Norðvestri - hann færi ekki yfir fyrir minna en leiðtogastól. Það er ekki undarleg ályktun, enda lét hann steyta á skeri hjá Framsókn vegna leiðtogastóls í Norðvestri sem hann tapaði í prófkjöri með þeim hætti sem hann vildi að færi fram. En hann var vissulega í vonlausu sæti sem hið þriðja var augljóslega. Auk þess hafði hann brennt flestar ef ekki allar brýr að baki sér innan flokksins. En það verður ekki hjá því komist að telja að Sleggjan hafi verið ódýr fyrir frjálslynda.
En það er greinilegt að þeir frjálslyndir ætla sér að fara í strandhögg um kjördæmið með lista þar sem þeir Guðjón Arnar og Kristinn H. eru efstir. Þeir eru vestfirskir harðjaxlar, sem hafa verið lengi í pólitík og ætla að reyna að fiska saman eitthvað. Fróðlegt verður að sjá hverjum er ætlað þriðja sætið á listanum, væntanlega er það kona sem verður í því sæti. Það hlýtur að vera einhver með tengingar á Vesturlandið, enda er blær Vestfjarða á lista frjálslyndra orðinn ansi mikill með Ísfirðing og Bolvíking í efstu tveim sætunum.
Það verður fróðlegt að sjá hverjum séu ætlaðir leiðtogastólar í borginni. Ætli það séu kannski þeir Magnús Þór og Jón Magnússon, andlegur faðir hans í innflytjendamálum. Tja, það skyldi þó ekki verða. Verður svo ekki Grétar Mar settur í Suðrið og Valdimar Leó í Kragann? Það verður sennilega nokkuð hrútabragð af listum þessa flokks, enda er Sigurjón Þórðarson valinn til leiðtogastarfa hér í Norðausturkjördæmi. Hann færði sig nefnilega fyrir Sleggjuna sjálfa.
Er kannski sleggjan klaufhamar? Það er oft erfitt að fá svar þegar að stórt er spurt....
![]() |
Kristinn í 2. sæti hjá Frjálslyndum í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2007 | 11:19
Er Halla Vilhjálms nýja konan í lífi Jude Law?

Einkalíf hans hefur verið stormasamt síðustu árin. Hann giftist leikkonunni Sadie Frost árið 1997. Þau eignuðust saman þrjú börn en fyrir átti Sadie einn son sem Jude gekk í föðurstað. Þau slitu samvistum fyrir fjórum árum eftir tíu ár saman. Síðan hefur Jude verið einn eftirsóttasti piparsveinn kvikmyndaheimsins. Sadie og Jude börðust um forræði barnanna í rúm tvö ár. Á þeim tíma hóf Jude ástarsamband við leikkonuna Siennu Miller, sem er eitt hið stormasamasta í stjörnuheimum síðustu árin. Þau hættu þrisvar saman og tóku hvort annað í sátt meira að segja eftir að Jude hélt framhjá henni með barnfóstrunni sinni.
Undir lok síðasta árs slitu Sienna Miller og Jude Law endanlega samvistum. Það var í bresku pressunni túlkað sem hart lokauppgjör milli þeirra eftir beisk sambandsslit. Það væri freistandi að vita hvar Halla Vilhjálmsdóttir, söngkona, kom til sögunnar hjá Jude Law. Ef marka má fréttir á hún nú hug og hjarta leikarans. Hann kom til Íslands í síðustu viku og virðist hafa bæði borðað með henni og skoðað næturlífið í fylgd hennar. The Sun hefur nú birt fréttir þess efnis að Halla og Jude hafi verið í símasambandi eftir að hann kom heim til Bretlands og greinilegt að sambandið er eitthvað meira en bara vinahjal.
Það var reyndar sagt í fréttum í gær að þetta hafi verið þriðja Íslandsför leikarans. Var liggur við talað um það sem hneyksli, enda hefði þá pressan misst af honum. Ég held að það sé gleðitíðindi að þekktir menn á borð við Jude Law geti komist óséðir til Íslands og sloppið við pressuna. Við eigum líka að gefa þekktu fólki af þessu tagi tækifæri til að lifa sama frjálsa lífinu og við viljum sjálf. Stærsti kosturinn er að hér getur fólk verið í friði og lifað frjálst sínu lífi. Það er stór kostur.
Það er skiljanlegt að The Sun velti þó fyrir sér þessum böndum milli Jude og Höllu Vilhjálms. Er hún nýja konan í lífi hans? Það er óhætt að segja að kynnishlutverkið í X-Factor verði ekki tækifæri ársins fyrir hana ef þær sögusagnir eru réttar. Íslendingar virðast fylgjast með þessu með sama hætti og þegar að Fjölnir Þorgeirsson nældi sér tímabundið í Mel B. Meira að segja er strax farið að tala um Jude Law sem tengdason Íslands rétt eins og Mel B. var kölluð tengdadóttir landsins.
Klisja.... eða hvað?
![]() |
The Sun fjallar um Jude og Höllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 00:39
Dramatík hjá litríkri fjölskyldu
Ein kostulegasta sjónvarpsfjölskylda sögunnar er Osbourne-fjölskyldan. Meira að segja hin skrautlega Addams-fjölskylda, sem gerð var ódauðleg í sjónvarpsþáttum á sjöunda áratugnum og tveim kvikmyndum, bliknar í samanburðinum. Eitthvað undarlegasta fjölskyldulíf einnar fjölskyldu var afhjúpað með öllu sem því fylgdi í raunveruleikaþáttum um Osbourne-fjölskylduna. Það var ekki síðra drama en í helstu hasarþáttum.
Það er oft sagt að stjörnurnar verði veruleikafirrtar með frægðinni. Það verður reyndar seint sagt að Ozzy Osbourne sé normal karakter, hann hefur alltaf virkað sem utanveltu og ekki alveg í sambandi og hefur ekki batnað með árunum. Það merkilegasta við þættina um þau var einmitt hversu villt allt var. Þar gerðu allir hlutina eins og þeir vildu og þetta heimili var jafnhlýlegt og strætóstoppistöð. Þar var líka mikið drama. Þessir þættir gleymast allavega ekki þeim sem sáu. Það var viss lærdómur að sjá inn í kviku þessarar fjölskyldu.
Nú er sagt í fjölmiðlum vestanhafs að einn í fjölskyldunni sé HIV-smitaður. Það fylgir ekki sögunni hver það sé. Ef ég þekki bandaríska fjölmiðla rétt verður ekki hætt að segja frá því fyrr en það hefur verið upplýst. Bandarískir fjölmiðlar eru betri en nokkrir aðrir við að hype-a upp fréttir um stjörnur og halda þeim eins og lengi og hentar til að selja blöð eða auka áhorf. Gott dæmi um það er dramað um ævi og örlög ljóskunnar Önnu Nicole Smith. Hún virðist enn dýrmætari pressunni dauð en lifandi, eins fyndið og það hljómar.
Þetta er kostuleg veröld sem við lifum í - veröld sem stendur og fellur með bandarísku fréttamati þeirra sem þurfa að selja blöð og auka áhorf stöðvanna sinna. Og eftir þessu er dansað víðar.... merkilegt nokk.
![]() |
Einhver úr Osbourne-fjölskyldunni HIV-smitaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2007 | 21:11
Vindar breytinga blása um bresk stjórnmál

Þetta er mjög merkileg niðurstaða og sýnir vel þann vanda sem nú blasir við Verkamannaflokknum eftir áratug við völd undir forystu Tony Blair, forsætisráðherra, sem þegar hefur tilkynnt að hann láti af embætti fyrir sumarlok. Í maí hefur Verkamannaflokkurinn leitt ríkisstjórn samfellt í nákvæmlega tíu ár og má búast við þáttaskilum fyrir flokkinn að því loknu þegar að formleg leiðtogaskipti verða. Hinir gullnu sæludagar valdatíðar Tony Blair og Verkamannaflokksins eru löngu liðnir - það hefur syrt allverulega í álinn. Staða mála er mjög augljós þessa dagana. Það stefnir í þáttaskil í breskum stjórnmálum.
Þessi könnun er enn meira afdráttarlaus en margar aðrar því sérstaklega var spurt um flokkana í næstu kosningum og gefið sér við þær aðstæður að Gordon Brown væri í þeim kosningum orðinn forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins. Þessi könnun hlýtur að vera mikið áfall fyrir kratana og ráðandi stjórnvöld. Kannski eru óvinsældir Blairs nú, sem hann mun skilja við er valdaferlinum lýkur, nú að færast í arf til Brown. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir flokksmenn Verkamannaflokksins að sjá þessa mælingu þegar að spurt er greinilega um stöðuna sem verður við þær aðstæður að Tony Blair hefur yfirgefið Downingstræti 10 og Brown yrði tekinn við.
Kjósendur vilja augljóslega uppstokkun - nýja sýn og breytta tíma við stjórn landsins. Það sér fulltrúa þessara nýju tíma í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Cameron hefur eflt flokkinn gríðarlega á því rúma ári sem hann hefur leitt íhaldsmenn. Meginstefnubreytingar hafa orðið, skipt var um merki flokksins og ásýnd. Nýir tímar eru komnir þar. Horft er fram á veginn. Cameron hefur sterka stöðu í sínum flokki er afgerandi forystuefni til framtíðar. Margir í Blair-arminum hafa ekki haft trú á að Brown geti unnið þingkosningar. Svo virðist vera að landsmenn telji það líka. Cameron er enda vinsælli nú en bæði Blair og Brown.
Það hefðu eitt sinn þótt tíðindi að leiðtogi Íhaldsflokksins toppaði Blair og Brown, en ekki lengur að mörgu leyti. Brown er í huga margra maður sömu tíma og kynslóðar og Tony Blair. Það verður því fróðlegt að sjá hvað framtíð næstu mánaða ber í skauti sér, þegar að formlega líður að lokum langs valdaferils Tony Blair. Þá fyrst verður vissara hvernig vindar blása í þingkosningunum árið 2009. Nú þegar má altént finna vinda breytinga blása um bresk stjórnmál.
Þessi könnun og margar hinar fyrri staðfesta það mjög vel að vindar breytinga blása um bresk stjórnmál - það er sannarlega gleðiefni!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)