25.2.2007 | 23:55
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2007
Óskarsverðlaunin verða afhent í 79. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég hef verið kvikmyndaáhugamaður allt mitt líf, dýrkað kvikmyndir sem ástríðu og lífsins áhugamál og fylgst alla tíð vel með Óskarnum.
Þetta verður vonandi spennandi og góð nótt.
Kvikmynd ársins
Babel
The Departed
Letters from Iwo Jima
Little Miss Sunshine
The Queen
Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Babel er næm og gríðarlega vönduð fléttumynd, sem fléttist með flottum hætti saman - mynd sem fangar huga áhorfandans. The Departed er stórfengleg eðalmynd frá meistara Martin Scorsese. Little Miss Sunshine er hrífandi mynd, skartar frábærum leik og næmri sýn á líf ósköp venjulegrar fjölskyldu. Letters from Iwo Jima er öflug stríðsmynd með mikla fyllingu sem fjallar um ólíkt fólk í viðjum stríðsátaka og örlög þess. The Queen er svo vönduð sýn á örlagaríka kreppu á valdaferli Elísabetar II Englandsdrottningar - lýsir vel atburðarás eftirleiks dauða Díönu, prinsessu af Wales, fyrir þjóð í sorg og drottningu á krossgötum.
Spá: Þetta er einn jafnasti kvikmyndaflokkurinn í um þrjá áratugi. Allar myndirnar eru góðar og verðskulda sigur. Það er engin ein mynd með afgerandi forskot. Þær geta allar í raun unnið, þó líklega sé The Queen í mestri fjarlægð frá því. Ég tel að slagurinn standi þó á milli Babel og The Departed. Ég tel líklegra að sú síðarnefnda fái verðlaunin. Mér finnst hún best þessara mynda og vona að hún muni heilla hjarta akademíunnar með sama hætti og var í mínu tilfelli.
Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Letters from Iwo Jima
Stephen Frears - The Queen
Paul Greengrass - United 93
Alejandro González Iñárritu - Babel
Martin Scorsese - The Departed
Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2006. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin; hefur hlotið þau tvisvar - fyrir Unforgiven árið 1992 og Million Dollar Baby árið 2004. Hann leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins - mynd sem skilur mikið eftir sig og heillar áhorfandann. Stephen Frears á skilið tilnefningu fyrir frábært verk sitt í The Queen, sem er raunsönn lýsing á örlagaríkum viðburðum í breskri sögu fyrir þjóð og drottningu. Paul Greengrass gerði United 93 stórbrotna og algjörlega ógleymanlega. Alejandro González Iñárritu færði á hvíta tjaldið litríka og fallega fléttumynd - heilsteypta og vandaða. Meistari Martin Scorsese bætti svo enn einni rósinni í sitt fallega safn með flottri mafíumynd - mynd með öllum pakkanum.
Spá: Það er enginn vafi á því í mínum huga að allir eiga þessir menn skilið að fá virðingu fyrir verk sín. Allar eru þær í hágæðaklassa. Þó stendur Martin Scorsese algjörlega upp úr fyrir sína góðu mynd í mínum huga. Hann hlýtur hér sjöttu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull, The Aviator og Goodfellas. Til skammar fyrir akademíuna. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég ætla rétt að vona að akademían noti þetta tækifæri nú og heiðri meistara Scorsese. Allt annað er hreinn skandall.
Leikari í aðalhlutverki
Leonardo DiCaprio - Blood Diamond
Ryan Gosling - Half Nelson
Peter O'Toole - Venus
Will Smith - The Pursuit of Happyness
Forest Whitaker - The Last King of Scotland
Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. Enginn þeirra hefur áður hlotið verðlaunin. Leonardo DiCaprio á eina bestu stund ferils síns í Blood Diamond. Flott mynd og glæsileg túlkun. Ryan Gosling er sagður brillera í flottu hlutverki í Half Nelson. Peter O´Toole fær nú sína áttundu aðalleikaratilnefningu; að þessu sinni fyrir að leika gamla vitringinn í Venus. Alveg yndislegt kombakk. Hann vann ekki fyrir ógleymanlegar túlkun í Lawrence of Arabia, The Ruling Class, The Lion in Winter og Becket. Hvað gerist nú? Will Smith kom mér mjög á óvart með glæsilegri túlkun sinni í hinni glæsilegu The Pursuit of Happyness, þar sem hann fer á kostum við hlið sonar síns. Forest Whitaker á leiksigur ferilsins í hlutverki Idi Amin, einræðisherrans frá Úganda.
Spá: Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Þeir eiga allir séns á að vinna að mínu mati. Ætti ég að velja myndi Peter O´Toole loksins fá verðlaunin. Hans tími er fyrir löngu kominn. Hann hefur á glæsilegum ferli lífgar svo um munar upp á kvikmyndamenninguna. Án vafa er keppnin milli hans og Whitaker sem er alveg stórfenglegur í sinni rullu - verður hinn alræmdi einræðisherra í einu vetfangi með brilljans. Tel að Whitaker hafi afgerandi forskot og að hann muni vinna. Hann hefur oft verið sniðgenginn áður og á þetta vel skilið. En það á O´Toole mun frekar eiginlega.
Leikkona í aðalhlutverki
Penélope Cruz - Volver
Judi Dench - Notes on a Scandal
Helen Mirren - The Queen
Meryl Streep - The Devil Wears Prada
Kate Winslet - Little Children
Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Judi Dench og Meryl Streep hafa hlotið verðlaunin áður. Dame Judi hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu I Englandsdrottningu í Shakespeare in Love og Meryl fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. Judi Dench er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg - geislandi leikframmistaða. Helen Mirren vinnur leiksigur ferils síns í The Queen og er hreinlega stórkostleg í erfiðri rullu; það útheimtir kraft og kjark að leggja í að leika drottninguna sína, konu sem enn er við völd. Hún gerir það með brilljans. Það geislar af Kate Winslet í hlutverki sínu í Little Children. Meryl geislar í hlutverki sínu í The Devil Wears Prada - þvílíkt skass! Penelope Cruz brillerar í Volver - leiksigur hennar á flottum ferli.
Spá: Glæsilegur hópur leikkvenna - þrjár breskar eðalkonur sem þarna eru í fremsta flokki. Kate og Judi eru brilljans í sínum myndum. Meryl er alltaf flott og Penelope var yndisleg í sinni rullu. En það stenst engin þeirra snúning við Helen Mirren. Hún er drottning þessa leikkvennaflokks þetta árið og mun vinna. Það er enginn vafi á því í mínum huga. Túlkun hennar á Elísabetu II í The Queen er svo stórfengleg að ekkert fær það toppað. Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í The Madness of King George og Gosford Park. En nú er stundin komin. Enginn vafi á því. Þetta verður kvöldið hennar Helen Mirren.
Leikari í aukahlutverki
Alan Arkin - Little Miss Sunshine
Jackie Earle Haley - Little Children
Djimon Hounsou - Blood Diamond
Eddie Murphy - Dreamgirls
Mark Wahlberg - The Departed
Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Enginn þeirra hefur unnið verðlaunin. Alan Arkin er sem ávallt fyrr listagóður og á flotta endurkomu á hvíta tjaldið í Little Miss Sunshine. Yndisleg túlkun hans á afanum er einn helsti aðall góðrar myndar. Jackie Earle Haley er yndislega góður í Little Children - þvílíkur leiksigur! Í Dreamgirls fer Eddie Murphy á kostum sem soul-söngvarinn - hans besta á gloppóttum ferli og hann skilar sínu listavel. Djimon Hounsou var glæsilegur í Blood Diamond og fær verðskulda tilnefningu. Mark Wahlberg er einn af hjartaknúsurum kvikmyndaheimsins í dag og hefur lengi brætt hjarta kvennanna. Í mafíumyndinni The Departed á hann sína bestu stund á ferlinum. Flott mynd - glæsileg túlkun.
Spá: Allir verðskulda þessir frábæru leikarar heiður fyrir sitt verk. Að mínu mati stendur þó baráttan fyrst og fremst á milli þeirra Murphy, Haley og Arkin. Satt best að segja er mér erfitt að gera upp á milli þeirra. Helst vildi ég að þeir allir fengju verðlaunin. Að mínu mati var Haley alveg rosalega flottur í Little Children og fara vel frá erfiðu og krefjandi hlutverki - hann náði allavega að heilla mig. Aftur á móti var Murphy alveg að brillera í sinni rullu í Dreamgirls. Mér hefur aldrei fundist Arkin hafa náð hærra í túlkun í kvikmynd. Afinn var algjör brilljans í hans túlkun - Arkin er alltaf flottur. Ég tel að Murphy muni vinna en myndi helst vilja að Arkin tæki þetta.
Leikkona í aukahlutverki
Adriana Barraza - Babel
Cate Blanchett - Notes on a Scandal
Abigail Breslin - Little Miss Sunshine
Jennifer Hudson - Dreamgirls
Rinko Kikuchi - Babel
Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Aðeins Cate Blanchett hefur unnið verðlaunin áður. Hún vann óskarinn fyrir túlkun sína á Katharine Hepburn í hinni litríku The Aviator fyrir tveim árum. Adriana Barraza var að mínu mati alveg glettilega góð í kvikmyndinni Babel - lagði allt sitt í hlutverkið og gott betur en það og á tilnefninguna svo sannarlega skilið. Blanchett stóð sig vel eins og ávallt í Notes on a Scandal og var yndisleg. Abigail Breslin brillerar í Little Miss Sunshine - lítil stjarna stórrar myndar. Minnir mig á flottan leiksigur Tatum í Paper Moon í denn. Jennifer Hudson vinnur sannkallaðan leiksigur í krefjandi hlutverki í Dreamgirls. Rinko Kikuchi var svo heillandi og eftirminnileg í Babel - listilega flott túlkun.
Spá: Allar eru þessar leikkonur alveg frábærar og skara satt best að segja algjörlega fram úr á sviði leiklistar í sínum myndum. Þó er enginn vafi á því í mínum huga að Jennifer Hudson ber algjörlega af. Hún allavega hitti mig í hjartastað með næmri og eftirminnilegri túlkun sinni á Effie White. Þvílíkur söngur og þvílík leikframmistaða konu sem aldrei fyrr hefur í raun leikið í stórmynd. Brilljans í sinni allra bestu mynd. Jennifer gjörsamlega brillerar með þessari túlkun sinni og hún er að mínu mati hjarta og sál þessarar stórbrotnu myndar. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga en að hún vinni þessi verðlaun. Ætla ég svo sannarlega að vona að svo fari. Hún ber af sem gull af eiri að mínu mati.
Góða skemmtun í nótt!
Kvikmyndir | Breytt 26.2.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 19:28
Einn kemur.... þá annar fer

Björk var kjörin borgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 2002 af hálfu R-listans og var þá á kvóta Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Björk var formaður félagsmálaráðs borgarinnar á því kjörtímabili og í fleiri nefndum áhrifamikil fyrir meirihlutann. Björk leiddi að því er segja má þá fylkingu innan VG sem vildi halda flokknum áfram innan R-listans og því tryggja að þetta bandalag þriggja flokka héldi í fjórðu kosningarnar. Svo fór að Björk og hennar armur í flokknum varð undir á miklum hitafundi í flokksfélagi VG í Reykjavík í ágúst 2005 og hún gaf ekki kost á sér í prófkjöri flokksins til vals á frambjóðendum á lista VG í október 2005.
Fyrir rúmu ári, eða snemma árs 2006, ákvað Björk að gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fram fór í febrúar 2006. Björk sat sem borgarfulltrúi í nafni R-listans út kjörtímabilið en yfirgaf VG við svo búið og var fullgild í borgarmálahópi Samfylkingarinnar. Hún gat sem óháð farið í prófkjör Samfylkingarinnar og náði fjórða sætinu; á eftir leiðtogaefnunum Degi, Steinunni Valdísi og Stefáni Jóni.
Björk tilkynnir um inngöngu í Samfylkinguna sömu helgi og ársfundur kvennahreyfingar Samfylkingarinnar fer fram. Þetta eru eins og fyrr segir varla stór tíðindi en endanleg staðfesting þess að Björk ætlar sér að starfa innan Samfylkingarinnar af fullum krafti.
![]() |
Björk Vilhelmsdóttir gengin í Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 16:57
VG boðar netlögreglu með kínversku yfirbragði

Ég verð að viðurkenna að ég kipptist svolítið við að heyra þessi ummæli hjá Steingrími J, þó að ég geri mér vissulega mjög grein fyrir pólitískum bakgrunni hans í gegnum tíðina. Hann hefur jú verið forystumaður og þingmaður flokka sem predika forræðishyggju og frelsishatur í yfir tvo áratugi. Þessi ummæli vekja vonandi einhverja til umhugsunar um það hvernig samfélag Steingrímur J. og sumir fylgismenn hans vilja sjá. Þar er fetað mörg skref til fortíðar og ekki hikað við það í rauninni. Þetta er nakin forræðishyggja sem við sjáum þarna.
Mér finnst þetta frekar lítt spennandi tilhugsun. Viljum við hafa ríkið, stóra bróður okkar allra, á öxlinni þegar að við förum á netið? Viljum við forræðishyggju kraumandi í samfélaginu? Varla, svona í sannleika sagt. Það hlýtur að fara um nafnleysingjana á spjallvefunum við að heyra í formanni VG. Hann vill kannski hefta frelsi þeirra í leiðinni? Ábyrg netnotkun er vissulega mikilvæg og ennfremur að tala málefnalega á netinu, en það sem formaður VG boðar fer langt yfir flest mörk. Hann færir okkur kínverska framtíðarsýn á netinu. Er það framtíðarsýn sem fólki hugnast, fólki sem notar netið í gegnum dagsins önn?
Ég efast stórlega um það að fólk vilji feta í fótspor kínverskra valdhafa og hvet því fólk til að hafna þessu stefnuhjali vinstrisinnaðasta flokksleiðtogans. Þetta er ekki framtíðarsýn sem hugnast frelsiselskandi fólki - fólki sem vill hafa yfir sjálfu sér að segja. Svona gamaldags sósíalistaþulur hafa verið faldar mjög vel í gegnum síðustu árin hjá Steingrími J. og vinstri grænum. En það geta greinilega ekki allir falið sitt innra eðli endalaust.
25.2.2007 | 16:12
Í framboð með Margréti Sverrisdóttur?
25.2.2007 | 16:07
Kolbrún leiðir lista frjálslyndra í Kraganum

Flestir höfðu talið að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, myndi leiða lista frjálslyndra í Kraganum en greinilegt er að svo mun ekki verða. Valdimar Leó tók sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna þegar að Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra haustið 2005 en sagði svo skilið við flokkinn eftir prófkjör hans í Kraganum í nóvember. Það verður fróðlegt að sjá hvar hann verður þá í framboði.
Kolbrún Stefánsdóttir er að því er ég best veit alveg nýtt nafn í stjórnmálum. Hún var kjörin ritari Frjálslynda flokksins á landsþinginu í síðasta mánuði og vann þá mjög öflugan kvennaslag um ritaraembættið og tók við af Margréti Sverrisdóttur, sem hafði verið ritari flokksins um árabil og verið forystukona innan flokksins. Það er greinilegt að Kolbrúnu er ætlað að taka við hlutverki Margrétar í kvennaarminum, en Margrét var eina konan sem leiddi lista fyrir flokkinn árið 2003.
Athyglisvert er að Sigurjón Þórðarson, alþingismaður frjálslyndra í Norðvestri og nýr leiðtogi þeirra í Norðaustri, sé að tilkynna fjölmiðlum hver leiðir listann í Kraganum, ef marka má frétt sem var hér inni á fréttavef Morgunblaðsins fyrr í dag. Hvaða tengingu hefur hann inn í kjördæmisráð flokksins í Kraganum?
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 14:46
Jakob Frímann farinn úr Samfylkingunni
Mér finnst það nokkur tíðindi að Jakob Frímann Magnússon, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hafi gengið úr flokknum. Hann tilkynnti þetta í Silfri Egils fyrir stundu og greinilegt var þar að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri, varð undrandi á ákvörðun Jakobs Frímanns og kipptist eilítið við. Jakob Frímann hefur verið varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík frá stofnun og tekið þátt í prófkjörum þar í öllum kosningum frá 1999. Hann ákvað að taka ekki sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi eftir þátttöku í prófkjöri þar í nóvember.
Skv. orðum Jakobs Frímanns í þættinum áðan er líklegt að hann verði einn af frambjóðendum nýs framboðs Margrétar Sverrisdóttur sem er í undirbúningi. Það ganga margar sögur af því framboði og hverjir gangi til liðs við það. Ef marka má þessi tíðindi er mjög líklegt að Jakob Frímann verði þar í framboði og í hópi forystumanna. Það er ljóst að nýtt framboð Margrétar og stuðningsmanna hennar verður kynnt á næstu dögum og leyndin er smám saman að hverfa af því og æ fleiri stuðningsmenn þess að koma í ljós.
Ákvörðun Jakobs Frímanns um að yfirgefa Samfylkinguna eru merk tíðindi og boða brotthvarf enn eins hægrikratans í aðrar pólitískar áttir. Þarna sést kannski einn af stóru vöndum Samfylkingarinnar; það að hægrikratarnir telji sig ekki eiga samleið með forystu flokksins. Það er allavega greinilegt á skoðanakönnunum að mikill vandi er hjá Samfylkingunni og öllum ljóst að uppstokkun tekur við þar innanborðs fái forystan skell í kosningum.
![]() |
Jakob Frímann genginn úr Samfylkingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2007 | 10:03
VG og SF hnífjöfn - Framsókn réttir úr kútnum
Fylgi Samfylkingarinnar og VG mælist nærri hnífjafnt í nýjustu könnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna. Framsóknarflokkurinn réttir úr kútnum og Frjálslyndi flokkurinn mælist minnstur. Það er athyglisvert að sjá enn eina mælinguna sem staðfestir VG í mikilli sókn og að eflast til muna. Færu kosningar á þennan veg yrði VG sigurvegari kosninganna með tíu þingmenn fleiri en nú.
Samfylkingin minnkar aftur á milli kannana. Nú er hún aðeins sjónarmun stærri en VG. Í raun eru þó flokkarnir jafnir, enda er þetta ekki marktækur munur. Það staðfestist enn eina könnunina í röð að Samfylkingin hefur ekki lengur yfirburðastöðu á vinstrivængnum. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir flokk og formann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Öllum er ljóst að staða Samfylkingarinnar er mun veikari í aðdraganda þessara kosninga en síðast. Flokkurinn hefur byrjað langt á undan öðrum auglýsingabaráttu sína og virðist ekki hagnast á henni skv. þessu mjög.
Sjálfstæðisflokkurinn er yfir kjörfylginu vorið 2003, en það munar mjög litlu þar á. Þetta er frekar lág mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þessum tímapunkti þykir mér, enda er þessi staða að sýna flokkinn í kjörfylginu 2003 eða rétt minni en það. Miðað við það að ný forysta er komin til leiks í Sjálfstæðisflokknum er þetta athyglisverð mæling. Það er alveg ljóst að nú reynir á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í kosningabaráttunni. Þetta eru fyrstu kosningarnar hans sem flokksleiðtoga og hann verður andlit flokksins í baráttunni. Það verður sennilega mikið fylgst með frammistöðu hans og fylgismælingum Sjálfstæðisflokksins fram að landsfundi í apríl.
Framsóknarflokkurinn mælist nú aftur með það fylgi sem hann hafði áður en hann tók fylgisdýfuna miklu síðast. Í síðustu könnun Fréttablaðsins mældist Framsókn aðeins með tvo þingmenn og innan við 5% fylgi. Nú er hann kominn í tæp níu prósentustig en hefur þó aðeins fimm þingsæti núna. Könnunin hlýtur að vera súrsæt fyrir Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkinn; gleði er vissulega þar yfir því að þeir stækki mjög milli kannana en þó hlýtur að vera sár tilfinning samhliða því að vera enn með helming þingflokksins úti. Það er alveg ljóst að 10% og minna verður sögulegur ósigur fyrir Framsóknarflokkinn í vor.
Frjálslyndi flokkurinn er greinilega mjög að missa fylgi. Hann mælist heillum horfinn og virðist vera að missa flugið nokkuð hratt. Merkilegt er að sjá þessa stöðu, en hún er vissulega skiljanleg í ljósi klofnings flokksins. Margrét Sverrisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, hefur boðað nýtt þingframboð og stefnir í að það verði kynnt á næstu dögum. Fróðlegt verður að sjá mannskap og kraft þess framboðs, en fyrirsjáanlegt er að tilkoma þessa sjötta afls muni róta upp stöðunni í fylgismælingu.
Næsta könnun Gallups birtist á fimmtudag. Athyglisverðast verður að sjá þar mælingu framsóknar, frjálslyndra og Samfylkingar er. Það er alveg ljóst að það mun verða þessum flokkum erfitt staðfestist þessi fylgismæling Fréttablaðsins eða sé mjög nærri henni. Auk þess verður fróðlegt að sjá stöðu VG, sem greinilega er að efla sig. Mörg spurningamerki eru í stöðunni og verður því áhugavert að sjá stöðuna sem Gallup hefur verið að mæla allan mánuðinn.
Niðurstöður könnunar Fréttablaðsins
D: 36,8% (hlyti 24 - hefur nú 23)
S: 24% (hlyti 15 - hefur nú 19)
V: 23,5% (hlyti 15 - hefur nú 5)
B: 8,8% (hlyti 5 - hefur nú 11)
F: 6,1% (hlyti 4 - hefur nú 5)
![]() |
Fylgi VG og Samfylkingar mælist álíka mikið í nýrri könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2007 | 01:33
Grænn fálki - hægri grænar áherslur

Mér finnst það ekki fjarri lagi að hægra græna hliðin á Sjálfstæðisflokknum verði meira áberandi. Mér finnst Illugi Gunnarsson, verðandi alþingismaður, hafa verið mjög áberandi í að tala fyrir þeim áherslum. Er sammála þeim. Illugi kom þeim vel á framfæri í prófkjöri flokksins í Reykjavík í október. Það er ekki og á ekki að vera feimnismál að tala um græna hlið Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt að þeir sem hafa þá hlið verði meira áberandi í þeirri umræðu.
Ég hef alltaf litið á mig sem frekar í þessa átt. Það er eðlilegt að rætt sé um umhverfismál. Ég tel persónulega að þetta verði eitt af málunum í kosningabaráttunni sem er við það að hefjast á fullu. Tel að mjúku málin verði þar í forgrunni. Það er mjög gott mál, tel ég, enda eru velferðar- og umhverfismál mikilvæg. Ég tel t.d. að umræða um umhverfismál verði mikil á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl. Þar verða áherslur í þessa átt lykilmál í málefnastarfinu.
Ég verð að vera sammála þeim áherslum að nú sé brátt nóg komið hvað varðar stóriðju. Kárahnjúkavirkjun var stórt verkefni. Menn hafa litið á Húsavík sem mikilvægt mál. Lengra en það á ekki að ganga. Það verður að setja stopp á einhverjum tímapunkti. Ég tel að við séum að upplifa hann. Það er mikilvægt að þessi mál verði rædd í kosningunum í vor. Skýrar línur eru alltaf mikilvægar - sérstaklega í þessum málaflokki.
Það er eðlilegt að flokkarnir taki skýra afstöðu til málanna og kjósendur taki svo af skarið eftir það. Það er okkar allra að ákveða kúrsinn í þessum efnum. Gleymum því ekki að landið er okkar allra... Það er því eðlilegt að þetta verði kosningamál... annað er ekki viðeigandi.
24.2.2007 | 21:03
Ólafur Ragnar og Dorrit fá ekki að gista í höllinni
Athygli hefur vakið að forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, fengu ekki að gista í konungshöllinni í Osló nú er þau eru viðstödd sjötugsafmæli Haraldar Noregskonungs. Konungborið fólk fær aðeins gistingu í höllu konungs og þjóðkjörnir leiðtogar verða að gera sér að góðu að vera á hóteli. Ólafur Ragnar og Tarja Halonen falla því undir önnur viðmið og fá ekki að gista í sama húsi og þeir konungbornu.
Málið hefur verið nokkuð í umræðu í Noregi, enda merkilegt að norrænir þjóðarleiðtogar fái ekki allir inni í höllinni. Hirðin hefur svarað með afgerandi hætti að það sé ekki það sama að vera konungborinn og vera ekki með blátt blóð í æðum. Eru því Ólafur Ragnar og Tarja flokkuð með öðrum hætti. Þau eru einu kjörnu þjóðhöfðingjarnir sem fá boðsmiða í afmælið og sitja því utangarðs í þessu afmæli þegar að kemur að gistingunni.
Þó að Ólafur Ragnar sé flokkaður skör neðar en aðrir er ekki beinlínis eins og honum og Dorrit sé vísað á lélega gistingu í borginni. Kjörnu norrænu þjóðarleiðtogarnir gista nefnilega með mökum sínum á Hotel Continental, sem er sennilega virðulegasta hótelið í borginni og með öllum þeim þægindum sem þjóðhöfðingjar, meira að segja þeir sem ekki hafa blátt blóð í æðum, geta verið stoltir af. Þau leggja því ekki kolli á auvirðilegan kodda, er ekki beinlínis í kot vísað.
Það er samt það merkilegasta við þetta afmæli að norrænir þjóðhöfðingjar sitja ekki við sama borð - þeim er raðað í þá sem hafa blátt blóð í æðum og þeirra sem koma af ósköp venjulegum ættum og hafa þurft að eyða fúlgu fjár til að ná kjöri á valdastól. Við skulum vona að Dorrit og Ólafur Ragnar séu ekki á bömmer yfir þessu, verandi á Hótel Continental. Annars tók Spaugstofan þetta vel fyrir áðan - magnaður húmor vægast sagt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 17:49
Rússneskt klapp fyrir Steingrími J. og Katrínu

Lengi vel mældist flokkurinn varla og talin mikil bjartsýni að hann næði fótfestu. Í háðstóni var talað um Steingrím og hóp hans til vinstri sem talíbana snemma í kosningabaráttunni. Er á hólminn kom fékk flokkurinn sex þingmenn í kosningunum 1999 en missti svo einn í kosningunum fjórum árum síðar. Nú virðist hann mælast í hæstu hæðum og fróðlegt verður að sjá næstu mælingar, hjá Gallup og Fréttablaðinu á næstu dögum. Síðasta könnun Gallups gaf VG 13 þingsæti. Færi svo yrði það stórsigur Steingríms J. og hann kominn jafnvel í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar, enda væri þá núverandi stjórn eflaust fallin.
Steingrímur J. hefur verið allt í öllu innan þessa flokks og byggt hann upp til allra verka. Enginn hefur komist nálægt honum innan flokksins og það myndi engum óra fyrir að fara gegn honum til formennsku. Ég hugsaði reyndar um daginn hvernig hefði farið fyrir VG hefði Steingrímur J. annaðhvort dáið eða slasast svo illa í bílslysinu í Húnavatnssýslu að hann hefði ekki getað snúið aftur á hið pólitíska svið. Þá hefði Katrín Jakobsdóttir staðið eftir sem formaður VG. Það hefði verið athyglisvert í meira lagi. Reyndar finnst mér öflugasti stjórnmálamaður VG vera Svandís Svavarsdóttir, Gestssonar. Þar fer kjarnakona sem mun eflaust halda í landsmálin í næstu þingkosningum.
Sumar kannanir hafa verið að sýna VG stærri en Samfylkinguna að undanförnu. Hverjum hefði órað fyrir er VG kom til sögunnar að hann myndi jafnvel eiga möguleika á eða takast að toppa Samfylkinguna? Þrátt fyrir að VG hafi náð vissum yfirburðum á árinu 2001 og mælst þá stærri en Samfylkingin hélst það fylgi ekki í kosningum, er á hólminn kom. Nú eru tæpir tveir mánuðir til kosninga og VG er að mælast í gríðarlegri uppsveiflu, aldrei minna en verandi á pari við Samfylkinguna. Það yrði sögulegt fengi VG uppsveiflu af því tagi sem Gallup sýndi fyrir um mánuði, sérstaklega ef hann toppar Samfylkinguna í Reykjavík.
Fannst merkilegt að heyra um leiðtogakjör VG... og þó, kannski á maður varla að vera hissa. Engin kosning fór fram um forystuna flokksmönnum var ekki veitt tækifæri á að kjósa um forystuna í leynilegri kosningu. Þetta er merkilegt af flokki sem vill á pappírnum kalla sig nútímalegan - kostulegt allt saman. Hjá okkur sjálfstæðismönnum er kosning um öll forystuembætti, jafnvel þó aðeins einn sé yfirlýst í kjöri - í raun eru allir landsfundarfulltrúar í kjöri. Landsfundarfulltrúar fá afhentan auðan kjörseðil og verða þeir að skrifa nafn á hann og skila svo í atkvæðakassa.
En hjá VG eru allir bara klappaðir upp. Er nokkuð nema furða að fólk brosi yfir þessu fyrirkomulagi? Það á aldrei að vera sjálfgefið að hljóta embætti af þessu tagi. Það virðist þó vera hjá VG. Annars hef ég marga heyrt hlæja að þessu afdankaða rússneska kosningafyrirkomulagi þeirra engin undur með það.
![]() |
Steingrímur endurkjörinn formaður og Katrín varaformaður VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2007 | 17:16
Snjókorn falla
Það var alhvít jörð hér á Akureyri þegar að ég vaknaði í morgun. Meiri snjór og meiri kuldi en á sjálfum jólunum, en það var nærri snjólaust öll jólin. Frekar napurt, miðað við að í gærkvöldi var snjólaust og gott veður. Var að koma af fundi sem var gagnlegur og góður - alltaf gaman að hitta gott fólk og ræða málin.
Þetta hefur verið snjóléttur og góður vetur hérna á Akureyri að mínu mati, það sem af er. Það kom leiðinlegur kuldakafli snemma vetrar en hefur síðan verið gott. Jólin voru yndisleg... en enginn snjór. Ég er nú þannig gerður að einu dagarnir á hverju ári þar sem nauðsynlegt er að hafa smásnjó eru sjálf jólin. Það er allt svo miklu jólalegra með smáögn af snjó.
Það var smá hríðarfjúk núna þegar að ég kom heim. Það falla snjókorn fyrir utan gluggann minn. Mörgum finnst snjókoman vera rómantísk og notaleg, ég er svo sannarlega ekki einn af þeim. Það er hinsvegar oft gaman að fara á skíði og njóta vetraríþróttaaðstöðunnar upp í fjalli. Það hef ég þó alltof lítið gert á seinustu árum. Sennilega er þessi sæla of nálægt manni til að maður meti hana eins vel og rétt sé.
Það er allavega gott að vera kominn heim og inn úr kuldanum. Það er mjög notalegt að fá sér kakóbolla og lesa fréttirnar. Svo ætla ég að fara í það að skrifa Óskarsverðlaunaspána mína. Óskarinn er á morgun - mikilvægt að skrifa niður pælingarnar sínar um það og fara yfir. Þetta er ómissandi partur á hverju ári. Ég hef alltaf verið mikill kvikmyndafíkill og hef gaman af svona pælingum.
Þannig að nú tekur það við. Er búinn að vera viss nokkuð lengi um hvernig helstu flokkarnir muni fara og skrifa betur um það á eftir hvað ég held að muni gerast. Svo er mikill rómans yfir því að horfa á verðlaunaafhendinguna sjálfa, vaka alla nóttina. Það er ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla... enginn vafi á því. Get ekki hugsað mér að missa af þessu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 13:01
Harðorð ályktun VG gegn klámráðstefnunni

Fræg hefur verið afstaða femínista innan flokksins, t.d. Kolbrúnar Halldórsdóttur, alþingismanns, gegn klámvæðingu en þarna er stigið skrefið enn lengra. Virðist VG fagna því að ferðamenn sem ekkert hafi brotið af sér sé gert erfiðar að koma til landsins og eiginlega gert það ómöulegt. Það er undarleg stefna. Virðist VG hreykja sér af þessu verklagi. Vill VG fara að sortéra ferðamenn til landsins? Það virðist vera. Ekki get ég sagt að sú stefna sé gleðiefni og undrun er yfir því í mínum huga að flokkur hérlendis tali fyrir slíku.
Er samstaða um það í samfélaginu að sortera ferðamenn til landsins? Ég tek undir ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar í gær. Þar var talað um málið með heilsteyptum og góðum hætti, mjög eðlileg sýn á ferðaþjónustuna. Það kann ekki góðri lukku að stýra að leggjast gegn komu ferðamanna því þeir geti mögulega gert eitthvað af sér. Þetta er ekki heillavænleg pólisía. Það er alveg rétt að það myndaðist þverpólitísk samstaða gegn ráðstefnunni. Í borgarstjórn leiddu sjálfstæðismenn undir forystu borgarstjóra andstöðuna af krafti - það er ég fjarri því ánægður með.
VG talar af áfergju um klámvæðingu í ályktun sinni. Það er talað þar með mjög hvössum hætti. VG málar sig merkilegum litum með þessari ályktun. Er þetta stefna fleiri flokka? Það væri fróðlegt að vita í raun. Ætli að kosningarnar, sem eru handan við hornið, muni gera það að verkum að fleiri flokkar sendi frá sér svona ályktanir? Það þarf allavega enginn að segja mér að þessi svokallaða pólitíska samstaða sé tilkomin út af öðru en því að kosningar eru að skella á.
Hvað segja annars sjálfstæðismenn í borgarstjórn? Ætla þeir að verða jafnákafir í sinni baráttu og vinstri grænir eru í dag? Það er ekki nema von að spurt sé, enda leiddu þeir andófið gegn þessari ráðstefnu á sviði borgarmálanna.
![]() |
VG fagnar samstöðu gegn klámráðstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 11:40
Prodi áfram við völd í veikburða stjórn á Ítalíu
Það kemur ekki að óvörum að vinstrimaðurinn Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, hafi beðið Romano Prodi um að vera áfram forsætisráðherra Ítalíu. Prodi þarf nú að fara fyrir þingið og óska eftir umboði í vantraustskosningu. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, sem líklega þýðir að Prodi geti setið lengur við völd, er öllum ljóst að ríkisstjórn Ólífubandalagsins er mjög veik, en hún stendur og fellur með einu atkvæði. Það breytist ekki með þessu.
Stjórnin var sett í gíslingu af tveimur öldungadeildarþingmönnum kommúnista sem vildu ekki samþykkja utanríkisstefnu hennar óbreytta. Tapið var vandræðalegt og skaðandi fyrir Prodi. Þó að Napolitano sé vinstrimaður hefði hann aldrei getað réttlætt að Prodi fengi umboð til forsætisins áfram hefði hann ekki hlotið traustsyfirlýsingu allra flokkanna níu sem mynda stjórnina í gær. Eftir standa þó vandræðin sem felldu stjórnina. Einn þingmaður getur sett allt í gíslingu og því öllum ljóst að hún verður á bláþræði eftir sem áður.
Þegar að stjórnin tók við völdum í maí 2006 sagði Romano Prodi að það yrði ekki vandamál hversu naumur meirihluti hennar væri. Það leið ekki ár þar til að Prodi varð að segja af sér embætti vegna falls hennar í þinginu. Það er öllum betur ljóst nú hversu tæpt hún í raun stendur. Því neitar enginn nú. Fall í þingkosningu um utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar er í besta falli vandræðalegt en þó umfram allt lamandi vitnisburður stjórnvalda í krísu. Enn eru fjögur ár til þingkosninga og vandséð hvernig að hún geti setið með málamiðlunum níu flokka (Prodi leiðir engan flokkanna) allan þann tíma.
Giorgio Napolitano var því vandi á höndum þar sem hann hugleiddi stöðuna í forsetahöllinni. Þó að Napolitano hafi orðið forseti Ítalíu með stuðningi Ólífubandalagsins í þinginu fyrir tæpu ári gat hann ekki réttlætt stöðuna án þess að eitthvað fylgdi umboði Prodis. Hann biður hann því að fara fyrir þingið og leita umboðs. Með þessu fylgir greinilega að hann fái ekki önnur tækifæri. Þetta virðist vera annað tækifæri til stjórnarforystu með þeirri afgerandi vísbendingu um að stjórninni sé ekki sætt komi sama krísa upp.
Skoðanakannanir sýna nú að hægriblokk Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra, stendur sterkar að vígi en Ólíubandalagið og myndi sigra í kosningum nú. Eftir átök um Íraksstríðið og fleiri umdeild mál í fyrra eftir fimm ára valdaferil Berlusconis kom á óvart að Prodi og bandalag hans skyldi vinna svo tæpt og eiga svo erfitt með að stjórna af krafti. Berlusconi féll af valdastóli með naumindum og fræg var þrjóska hans við að viðurkenna tapið sem slíkt. Staða Berlusconi virðist altént sterk nú. Það er því ekki skrýtið að hægriblokkin vilji kosningar nú.
Napolitano, sem verður 82 ára í sumar, á enn eftir sex ár á forsetastóli. Það er því ljóst að hann verður forseti að óbreyttu út kjörtímabilið. Hann mun því vaka yfir pólitískum örlögum Prodis og framtíð stjórnarinnar. Staðan virðist þó svo brothætt að ganga megi út frá því sem vísu að þingkosningar verði fyrir 2011. Á þessari stundu veðja held ég fáir í Ítalíu á að stjórnin haldi allan þann tíma.
![]() |
Forseti Ítalíu biður Prodi að halda áfram störfum sem forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2007 | 02:01
Notaleg leikhúsferð - farið að sjá Svartan kött

Leikritið fjallar um atburði sem gerast í kjölfar dauða svarta kattarins. Þrátt fyrir að verkið sé mjög skelfilegt og gengið sé nærri leikhúsgestinum er þetta gert með glæsibrag; ekki vantar drápin, byssuskotin, sundurskorna líkamsparta, blóðið og dökkan hryllinginn. Það er allavega enginn kærleikur og gleði á heimilinu sem er sjónarsvið áhorfandans frá upphafi til enda. Þar er grimmdin og mannvonskan ein ansi ráðandi.... bæði með gamansömum og nöturlegum hætti. Það er eitt það kostulegasta við verkið hvernig að húmor og ógeði er blandað saman í ramman kokteil.
Stjarna sýningarinnar er meistari Þráinn Karlsson. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hann hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa. Þráinn er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar.
Þráinn fer algjörlega á kostum í þessu leikriti. Þar leikur hann óheflaðan (svo vægt sé til orða tekið) mann, kominn af léttasta skeiði, sem annaðhvort virkar ráðalaus og utangátta eða er hreinlega í áfengismóki. Það eru fá lífsviðmið í hávegum höfð hjá honum. Þráinn er á nærklæðunum í verkinu allan tímann, er með tattú og krúnurakaður. Merkilegur karakter. Hann hefur á löngum leikferli túlkað allan skalann og sennilega er þetta óheflaðasta týpan sem Þráinn hefur túlkað á leiksviðinu í Samkomuhúsinu. Guðjón Davíð Karlsson og Ívar Örn Sverrisson eiga svo stjörnuleik þar sem túlkað er upp og niður karakterskalann.
Leikhópurinn stendur sig í heildina mjög vel - sennilega er þó svarti kötturinn eftirminnilegastur allra í sjálfu sér. Umgjörðin er öll hin besta; lýsingin er stórfín (eins og venjulega hjá LA), tæknibrellur virkilega flottar og vel gerðar og leikmyndin er mögnuð, þar er öllu vel komið fyrir og inni- og útiatriði fléttuð saman með vönduðum hætti í leikmyndinni. En þetta er semsagt sýning sem markast bæði af gleði og hryllingi - hárfín blanda. Hvet alla til að skella sér á sýninguna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 18:13
Leyndardómsfulla bréfið

Það verður fróðlegt að sjá hvort bréfið komi verjanda eða ákæruvaldinu til góða. Heilt yfir varpar það rýrð á málið allt og gerir það enn vandræðalegra. Það er fyrir löngu orðið eins og farsi frá miðri síðustu öld, eða leikrit eftir Pinter; óskiljanleg langvella.
Það væri samt fróðlegt að vita hver skrifaði bréfið. Væntanlega þagna ekki efasemdir fyrr en það er ljóst. Væntanlega mun höfundurinn ekki áfjáður um að gefa sig upp, af mjög skiljanlegum ástæðum.
![]() |
Áttu stuttan fund um nafnlaust bréf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2007 | 16:14
Sameiningartáknið sem villtist af leið
Ég verð að viðurkenna að það er orðið langt síðan að ég hætti að líta á Ólaf Ragnar Grímsson sem sameiningartákn á forsetastóli - er í rauninni einn af þeim sem ber enga virðingu í sjálfu sér fyrir þessum þjóðhöfðingja. Mér finnst embættið hafa þróast á aðrar og verri brautir á hans forsetaferli. Það kristallaðist mjög vel í viðtali Egils Helgasonar við forsetann um síðustu helgi. Ég botna engan veginn í þeim ummælum hans þar að í ljósi þess að hann sé þjóðkjörinn hafi enginn í raun yfir honum að segja.
Björg Thorarensen, lagaprófessor, hefur nú bent á það í fjölmiðlum að forsetaembættið heyri undir forsætisráðuneytið. Það er sú túlkun sem flestir hafa lagt í stöðu mála. Forsætisráðherra á að vera sá sem forsetinn ráðfærir sig við ef krísuástand ber að höndum og ef einhver mál þarfnast úrlausnar. Þarna á milli þarf að vera viðunandi samstarf að mínu mati. Á það hefur skort hin seinni ár. Forsetinn hefur mótað sér grunn manns sem þorir að vega að þingi og ríkisstjórn með áberandi hætti. Það er ekki gott verklag.
Ég veit ekki betur en að Ólafur Jóhannesson, fyrrum forsætisráðherra, hafi talað um forsetaembættið með þessum hætti sem Björg víkur að, einkum í bókum sínum um lögfræði. Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, sagði í viðtalsþætti við hana sem sýndur var í júlílok 1996, nokkrum dögum áður en hún lét af embætti, að Ólafur hefði ráðlagt henni við upphaf forsetaferilsins að ef vanda bæri að skyldi leita til forsætisráðherra, enda þyrfti þar á milli að vera góð samvinna. Það gerði enda Vigdís í krísum á hennar forsetaferli; flugfreyjuverkfallinu 1985 og EES-málinu 1993.
Ég er einn þeirra sem ber mikla virðingu fyrir forsetatíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. Það verður seint sagt að þau hafi verið hægrifólk í stjórnmálum, en þau met ég mest af forsetunum fimm. Eflaust er það einkum vegna þess að þau fetuðu millistig í embættisverkum sínum og voru sameiningartákn þjóðarinnar á örlagastundum. Einn þáttur þess að mínu mati er sú staðreynd að bæði voru ekki þátttakendur í stjórnmálum fyrir forsetaferilinn. Ég hef alltaf verið á móti því að forsetinn eigi sér þann bakgrunn.
Ég er hættur fyrir nokkru að skilja á hvaða leið Ólafur Ragnar Grímsson er í þessu embætti. Ég ber enga virðingu fyrir honum og get engan veginn skilið hvert hann er að fara í orðalagi sínu um embættið. Valdsvið forsetans er skýrt og ætti að vera það í huga flestra. Það að líta á forsetann sem kóng í ríkinu er rangtúlkun á embættinu. Þetta er valdalaust táknrænt embætti, þetta á að vera sameiningartákn á örlagastundum. Það er leitt frá því að segja að þetta er ekki lengur svo.
Ég bar mikla virðingu fyrir Vigdísi Finnbogadóttur og hugsa með hlýju til hennar og þess tíma er hún var farsæll forseti á Bessastöðum. Hún var forseti allra, óháð flokkapólitík og fylkingadráttum hversdagsstjórnmála. Þannig forseta vil ég. Í þeirri átt vil ég sjá þetta embætti og finnst afar leitt að sjá hvernig að núverandi forseti slær um sig með rangtúlkunum um stöðu embættisins og reynir æ ofan í æ að gera forsetaembættið að pólitísku bitbeini.
Forsetakosningar fara fram á næsta ári. Þá vona ég að þjóðin velji til verka á Bessastöðum fulltrúa úr ópólitískri átt, forseta sem er ekki pólitískur brennuvargur liðinna tíma. Það þarf að endurreisa veg og virðingu forsetaembættisins með því að láta stjórnmál lönd og leið.
23.2.2007 | 13:35
Nafnlaust bréf veldur ólgu í Baugsmálinu
Var að lesa áðan nafnlausa bréfið sem nú skekur Baugsmálið. Mjög athyglisverð lesning, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar er því haldið greinilega fram að dómarar í Hæstarétti Íslands hafi bæði sýknað menn og vísað frá ákæruliðum í Baugsmálinu til þess að hefna sín á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fv. forsætisráðherra, fyrir að hafa beitt sér fyrir því að þeir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hafi verið skipaðir hæstaréttardómarar.
Eins og flestir vita stóð töluverður styr um þær ákvarðanir árin 2003-2004 og eins og frægt var mælti meirihluti réttarins með hvorugu dómaraefninu á sínum tíma, en það kom í hlut dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að ákveða hverjir færu í réttinn. Eins og flestir hafa séð er þetta mál mjög flókið og ekki virðist það vera að verða eitthvað auðveldara viðfangs eða einfaldara úr fjarlægð. Það stefnir greinilega í sviptingar í dómsstigum fram á veginn, ef marka má það sem gerist núna.
Þetta bréf er mjög alvarlegs eðlis að mínu mati. Það hlýtur að teljast nokkuð alvarleg atlaga að réttarskipan hér á landi. Þetta er mjög ógeðfellt bréf og það hlýtur að fara fram athugun á því hver sé uppruni þess. Þetta er einfaldlega of alvarlegt mál til að það liggi í þagnarhjúpi.
Svona samsæriskenningar og allt að því dylgjur er vont veganesti í málið á þessu stigi - það er engin þörf á einu óskiljanlega púslinu enn í þessa torskildu heildarmynd.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2007 | 11:59
Ferðaþjónustan ósátt við flokkun ferðamanna
Samtök ferðaþjónustunnar sendi í morgun frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að aðstandendum Snow Gathering-klámþingsins, sem átti að halda hér í marsbyrjun, var vísað frá Hótel Sögu og hætt var við þinghaldið. SAF sendir Hótel Sögu þar greinilega tóninn og bendir á að ekki sé hægt að flokka ferðamenn sem koma hingað til landsins og það sé óæskilegt. Með þessu sé vont fordæmi gefið. Orðrétt segir:
"Þrátt fyrir óbeit sem fólk kann að hafa á klámiðnaði og annarri starfsemi sem fólk stundar löglega í heimalandi sínu en er bönnuð á Íslandi, er vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geti meinað því fólki að koma í skemmtiferð til Íslands. Það koma rúmlega 400 þúsund ferðamenn árlega til Íslands, þeir eru ekki yfirheyrðir um störf sín heima við enda ógerlegt. Samkvæmt dagskrá þessarar umræddu samkomu ætlaði fólkið að vera í skipulögðum skoðanaferðum allan tímann.
Ljóst er að ómögulegt er fyrir fyrirtækin að flokka gesti sína í æskilega og óæskilega gesti hafi engin lögbrot verið framin. Frávísun hópa, sem engin lög hafa brotið, er alvarlegt mál sem getur leitt til skaðabóta enda um mikil viðskipti að ræða fyrir mörg fyrirtæki hér á landi."
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli. Tekist hefur verið á um það á netinu af miklum krafti, man varla annað eins - þar sem tekist er á með og á móti. Sitt sýnist hverjum. Hef séð það vel hér á blogginu, en mörg góð komment hafa þar komið.
![]() |
Ómögulegt að flokka ferðamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2007 | 10:19
Óskiljanlega dómsmálið

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.
Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.
![]() |
Óskar eftir fundi vegna nafnlauss bréfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007 | 23:33
Anna Nicole jarðsett á Bahama-eyjum

Það var athyglisvert að sjá þegar að niðurstaðan lá fyrir. Sá þetta í beinni útsendingu á Sky. Dómarinn brotnaði saman við lestur dómsorðs og stemmningin var mjög undarleg í salnum, þar sem allir dómsaðilar komu saman. Niðurstaðan markar lok eins undarlegasta dómsmáls síðustu ára. Það að takast þurfi á hinsta legstað manneskju fyrir dómi er sorglegt og átakanlegt með að fylgjast í sannleika sagt.
Næst tekur væntanlega við að úrskurða um hver hafi verið faðir fimm mánaða gamallar dóttur Önnu Nicole Smith. Fyrst mun útför hennar fara fram væntanlega á Bahama-eyjum, líklega á allra næstu dögum. Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag hefur markað nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Þetta hefur verið táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.
Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla. Það sést vel umfram allt á þessu athyglisverða dómsmáli þar sem skorið var úr um hvor aðilinn fengi jarðneskar leifar hennar í sína vörslu. Napurt, ekki satt?
![]() |
Anna Nicole verður jarðsett á Bahamaeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)