18.1.2007 | 16:03
Mona Sahlin nýr krataleiðtogi í Svíþjóð

Mikil andstaða var lengi vel við að Sahlin yrði flokksleiðtogi og öflugur armur innan flokksins mátti ekki til þess hugsa að hún leiddi flokkinn eftir allt sem á undan var gengið. Hún var þó tilnefnd af valnefnd, sem vann að undirbúningi kjörsins, og enginn annar hefur lýst yfir áhuga sínum og nú ljóst að hún hreppir hnossið. Hennar bíður athyglisvert hlutskipti í forystunni. Mona var lengi vel talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons, en hann var eftirmaður Olof Palme sem leiðtogi kratanna, 1986-1996, og forsætisráðherra, 1986-1991 og 1994-1996.
Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur lengi verið umdeild innan flokks og utan og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það verður nú hlutskipti hennar að reyna að endurreisa ímynd sína sem stjórnmálamanns og vinna flokki sínum fylgi og sigurmöguleika í kosningum eftir rúm þrjú ár. Það er mikið verkefni sem við henni blasir, enda ljóst að hneykslismál hennar eru ekki gleymd.
Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir Jafnaðamannaflokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 hefur enginn afgerandi eftirmaður Perssons blasað við. Anna Lindh var krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons er hún dó. Skarð hennar er enn til staðar innan flokksins. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, vænlegasta en hún lýsti því nær um leið og Persson dró sig til baka eftir tap í þingkosningum að hún hefði engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.
Það mun mikið reyna á Sahlin nú sem leiðtoga sænsku stjórnarandstöðunnar. Maður hefði haldið að hún væri orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. En hún fær greinilega annan séns og krýningu innan flokksins til verka, þrátt fyrir margar afsagnir og vandræðaleg pólitísk mistök. Reyndar má segja að það að Sahlin verði flokksleiðtogi sé til marks um hversu mjög yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir hann nú þegar að hann hrökklast sjálfur frá völdum.
![]() |
Mona Sahlin væntanlegur leiðtogi sænskra jafnaðarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2007 | 14:52
Stjórnsýsla ríkisins í algjörum molum

Í ráðuneytinu undir verkstjórn Árna var sofið svefninum langa, eigum við ekki að kalla það bara Þyrnirósarsvefn? Það finnst mér. Nei, við skulum ekkert fegra hlutina - þetta er algjörlega ómöguleg stjórnsýsla, það er bara ekki flóknara en það. Þetta hefur allt einkennst af eintómu klúðri. Mistök á mistök ofan. Mistökin tilheyra félagsmálaráðuneytinu. Það er ekki hægt að draga fjöður yfir það. Mjög vandræðalegt er það af aðilum að henda boltanum yfir á hvorn annan. Það er enginn vafi hvar mistökin liggja. Því fyrr sem allir viðurkenna það, því betra fyrir alla í þessu máli. Ég held að það sjái allir hvernig þetta er.
En hvernig á að laga þetta? Það þarf að stokka algjörlega upp öll vinnubrögð. Komið hefur í ljós afgerandi brotalöm á framkvæmd og eftirliti fjárlaga. Þetta er gjörsamlega ólíðandi úr þessu. Mér finnst tal stjórnmálamanna sýna í þessu máli að sumum þeirra er ekki treystandi og var ekki áður fyrr. Það er ljóst að félagsmálaráðherrar síðustu ára hafa brugðist. Það er mjög einfalt mál. Það verður að viðurkenna það. Það er ekki góður ráðherra sem getur ekki haldið betur á málum en raun ber vitni. Það eru stóralvarleg pólitísk mistök að greiða eftir samningi sem aldrei hefur verið undirritaður.
Það verður að draga einhvern til ábyrgðar í þessu máli. Einfalt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 12:59
Valdaátök frjálslyndra - Margrét í formannsslag?

Það er alveg rétt sem Margrét segir á vef sínum að sitjandi forystumenn hafa myndað kosningabandalag gegn henni. Framboð hennar til forystu er nú hvort eð er orðið gegn sitjandi formanni með ákvörðun hans um að styðja Magnús. Hún hefur engu að tapa lengur. Það er búið að taka framkvæmdastjórnina af henni, reka hana sem slíka innan þingflokksins og í raun segja henni að störf hennar séu ekki metin á flokksvísu af þingflokknum. Í ofanálag hefur formaðurinn lýst frati á hana með skýrri stuðningsyfirlýsingu á Magnús Þór.
Næst er væntanlega að koma í veg fyrir að hún leiði framboðslista í kosningunum í vor. Guðjón Arnar getur ekki lýst yfir stuðningi við hana í þingframboð, sbr. viðtal Bjargar Evu Erlendsdóttur við hann í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær, en endurtók þar afgerandi stuðning sinn við MÞH. Þetta er orðið allt eða ekkert staða fyrir Margréti og Sverrisarminn í FF. Klassísk átök um völd og áhrif - allt eða ekkert eins og þær gerast mest áberandi. Harkan hefur stigmagnast síðasta sólarhringinn vissulega og greinilegt að ákvörðun Guðjóns um stuðning við varaformanninn í kosningaslag við dóttur stofnanda flokksins hefur verið sem olía á eldinn sem enn magnast.
Það virðist svo komið að Guðjón Arnar virðist gjörsamlega vera útbrunninn - orðinn þreyttur formaður sem er flokki sínum hvorki leiðtogi né sannur hugmyndafræðingur. Merkileg staða uppi þarna. Það var allavega ekki sæll formaður flokks sem er að eflast sem birtist fólki í Kastljósi í gærkvöld. Þar birtist þreyttur og argur maður sem virðist algjörlega uppþornaður leiðtogi. Hann virkaði fullur kulda og kergju. Merkileg ásýnd fyrir stjórnmálaáhugamenn. Og enn var hann tuggandi sömu lufsuna um að Margrét hefði ekki verið rekin sem framkvæmdastjóri, heldur verið sagt að fara með uppsagnarfresti. Þetta er orðhengilsháttur af klassísku sort. Kostulegt afspil á að horfa í sannleika sagt.
Margrét getur varla annað hugsað þessa stundina en að nú sé tækifæri til að stíma fram og sækjast eftir fullum völdum - leiða flokkinn og fá umboð til þess. Hún hefur engu að tapa í hreinskilni sagt lengur. Þetta er það sem blasir við öllum nú, reyndar strax og formaðurinn gekk í gildruna eins og svöng mús í kytru. Merkilegt á að horfa. Kannski var gildran egnd þannig upp til að reyna á hvað Guðjón Arnar myndi gera. Það var staðfest fljótt að kosningabandalag er til staðar. Formannsframboð eða útganga úr flokknum eru valkostir Margrétar nú. Ekki flókið séð frá sjónarhóli stjórnmálaáhugamannsins.
Spurningin nú virðist vera mun frekar um það hver af fylgismönnum Margrétar muni skora Magnús Þór Hafsteinsson á hólm í varaformannskjöri, en hann var kostulegur á að horfa á Stöð 2 í gærkvöld þar sem hann kvartaði yfir hversu langan tíma tók fyrir Margréti að ákveða framboð. Ég veit ekki betur en framboðsfrestur sé fram að landsþinginu sjálfu. Annars vissu allir að Margrét færi í framboð, spurningin var um hvort embættið hún vildi sækjast eftir en ekki hvort hún færi fram.
Það er enginn vafi að það verður bæði formanns- og varaformannsslagur í þessum flokki. Hafi verið vafi á stöðu Margrétar er það ekki nú. Hún mun reyna að taka flokkinn yfir eða yfirgefa hann ella. Þetta eru alveg einfaldar línur orðnar og framkoma formannsins hefur skerpt átökin og aukið þær. Kaldhæðnislegt, en satt.
![]() |
Margrét: Hlýt að íhuga að bjóða mig fram í formannsembættið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2007 | 02:53
Sýnt á sér magann í þráðbeinni

Það hlýtur þó að hafa verið stuðandi móment fyrir fréttaþulinn að átta sig á því að hún sýndi mallann á sér í beinni. Þar fór sennilega trúverðugleiki stöðvarinnar í niðurfallið. Bretar eru svo skemmtilega íhaldssamir. Það hlýtur einhverjum þó að hafa fundist þetta skemmtilegt. Vonandi verður Emma Baker ekki rekin þó hún hafi afhjúpað sig að hluta í beinni.
Katie Couric er eins og fyrr segir fagmannleg dama á CBS, hún tók við af Dan Rather þegar að hann fór með skottið á milli lappanna eftir frægt klúður sitt í frétt um Bush forseta skömmu fyrir forsetakosningarnar 2004. Henni varð þó einu sinni á að geifla varirnar og tala í bræðiskasti við tæknimann án þess að átta sig á að hún væri í beinni. Geðstirðargeiflan varð að colgate-tannkremsbrosi með det samme.
Oft fyndin þessi showbiz tilvera í beinni, ekki satt?
![]() |
Bresk fréttakona berar sig í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2007 | 20:15
Kristinn H. segir skilið við Framsókn

Úrslit prófkjörs framsóknarmanna í Norðvestri í nóvember var pólitískt áfall fyrir Sleggjuna og hann er nú tekinn að leita sér að nýju pólitísku fleti fyrir sig að starfa á. Innan við áratug eftir að hann leitaði á náðir Framsóknarflokksins í andaslitrum Alþýðubandalagsins sáluga er hann heimilislaus þingmaður á leit að nýjum samastað. Merkileg flétta það. Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar.
Það hefur verið mikið rætt um hvað taki við hjá Sleggjunni, annaðhvort að hann fari til liðs við VG eða Frjálslynda. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí í þeim flokkum og ástatt er fyrir honum núna. Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það gerðist í prófkjörinu í nóvember.
Það hefur verið virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir bæði þetta prófkjör og þessa ákvörðun Kristins H. Hann var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlaut að gleðjast með úrslit prófkjörsins og væntanlega líka Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins þó á sumum öðrum stöðum sé eftirsjá.
Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að þetta sé örlagastund fyrir hann. Hann er að halda til liðs við þriðja aflið í þingframboði á einum og hálfum áratug. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.
![]() |
Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2007 | 15:44
Maðurinn sem vildi "sprengja mig til helvítis"
Um þessar mundir eru þrjú ár liðin síðan að Magnús Þór Hafsteinsson skrifaði fræga færslu á spjallvefinn Málefnin um að hann vildi "sprengja mig til helvítis" með Birni Bjarnasyni og Halldóri Blöndal, hvorki meira né minna. Eftir því sem kjaftasögurnar segja var Magnús Þór fullur þegar að hann skrifaði þessi orð. Það gat varla annað verið. Hvaða heilvita maður sem gegnir varaformennsku í stjórnmálaflokki gat skrifað svona dæmalaust ómerkilega allsgáður? Þegar að stórt verður spurt verður verulega fátt um svörin. Hef enn ekki kært mig um að fá svör við því hversvegna manninum var svo illa við mig.
Hef þó lengi talið ástæðu þess liggja í að við skrifuðum báðir í denn á málefnum.com og mun lengur reyndar á innherjaspjallvef visir.is, ég undir nafninu stebbifr en hann nafnlaus undir vissu nafni. Síðar hef ég gert mér grein fyrir mér hvaða notandanafn það var, en vil ekki skrifa um það á þessum vettvangi. Ég get sagt það hreint út að ég hef aldrei borið nokkra einustu virðingu fyrir Magnúsi Þór Hafsteinssyni, né borið mikla virðingu fyrir flokknum sem hefur sýnt honum þá óverðskulduðu virðingu að hafa hann í fylkingarbrjósti sínu. Það er kannski of mikið sagt að mér sé illa við Frjálslynda flokkinn, eins og hann leggur sig og þá sem þar starfa þrátt fyrir það þó.
Þó að ég sé um margt ósammála Margréti Sverrisdóttur í stjórnmálum hef ég alltaf borið virðingu fyrir henni, mesta virðingu gagnvart nokkrum fulltrúa Frjálslynda flokksins. Finnst hún hafa gætt flokkinn mannlegu yfirbragði gagnvart fulltrúum þingflokksins sem er að mestu leyti frekar slappur finnst mér. Spurt er: finnst mér Margrét verðskulda varaformennsku flokksins? Svar: Já, mér finnst það. Það væri mjög gott ef að hún felldi Magnús Þór og sýndi flokknum úr hverju hún er gerð og hversu mikilvæg hún er þeim. Okkur andstæðingum flokksins er tel ég best að hafa reyndar Magnús Þór þarna, enda á hann sína sögu sem allir þekkja í pólitík. Það verður reyndar erfitt fyrir formanninn að lifa pólitískt tapi hans valkostur, sem Magnús Þór er augljóslega.
Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég um skoðanir Magnúsar Þórs í innflytjendamálum. Ég man að Jón Valur Jensson spurði mig og þessi frægu ummæli Magnúsar Þórs bárust í tal. Ég man að ég svaraði með þeim hætti að mér væri ekki sérlega vel við þennan stjórnmálamann, enda hefði ég ekki upplifað neina afsökunarbeiðni á þessum ógeðslegu ummælum. Ég var alinn upp í þeirri kristni að það bæri að fyrirgefa iðrandi syndurum. Sama kristni sagði ekkert um að fyrirgefa þeim sem iðruðust ekki neins. Eina sem Magnús sagði um málið á sínum tíma var að hann sagðist tilbúinn til að biðjast afsökunar aðspurður af fjölmiðlum eftir að skrifin urðu opinber fjölmiðlamatur. Klassískur aumingjaskapur.
Það hefur því ekkert breyst eftir þrjú ár. Satt best að segja vona ég innst inni að Margrét hafi þennan slag. Ég get betur unað mig við hana. Hér eru annars ummælin frægu og tengill á frétt mbl.is þau fyrir þrem árum:
"Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldaðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum."
Frétt um ummæli MÞH á mbl.is í janúar 2004
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.1.2007 | 13:38
Guðjón Arnar styður Magnús Þór

Það kom mér svolítið að óvörum að Guðjón Arnar skyldi gefa út svo afgerandi stuðningsyfirlýsingu við Magnús Þór. Þeir hafa unnið mun skemur saman í flokknum en hann og Margrét Sverrisdóttir. Margrét og hann hafa verið saman í flokknum síðan fyrir þingkosningarnar 1999 í gegnum súrt og sætt, en Magnús Þór hefur aðeins unnið fyrir flokkinn frá árslokum 2002 að mig minnir. En afgerandi skilaboð vissulega til Margrétar er þetta. Það sýnir bara að hún þarf að berjast gegn báðum forystumönnunum, en ekki bara varaformanninum eingöngu. Erfið barátta það.
Það er öllum ljóst að Sverrisarmurinn fær þungan og harðan skell tapi Margrét varaformannskjörinu. Gerist það munu vindar snúast með þeim hætti að flokkurinn haldi frá arfleifð Sverris Hermannssonar innan flokksins sem hann sjálfur stofnaði fyrir áratug. Tapi dóttir stofnandans þessum fyrsta alvöru slag sínum mun það veikja stöðu hennar umtalsvert og vandséð hvernig að hún gæti verið áfram framkvæmdastjóri flokksins hafandi tapað varaformannsslag. Það er því fyrirséð að hún berst fyrir öllu eða engu í æðstu forystu nú.
Kannski er það svo að Guðjón Arnar meti Margréti skeinuhættari sér innbyrðis en Magnús Þór. Vel má vera. Öllum má þó ljóst vera að flokkurinn er skaðlega settur af innbyrðis væringum og harður slagur verður yfirskrift þessa varaformannsslags. Allt tal um að þetta sé kosning milli valkosta er út í Hróa hött, eins og sagt var í mínu ungdæmi, og öllum ljóst að barist er um allt eða ekkert í veigamiklum forystuembættum. Með þessari yfirlýsingu sendir formaðurinn forvera sínum fingurinn með áberandi hætti svo sannarlega.
Þetta er flokkur sem er illa þjáður af innbyrðis ólgu sýnist manni. Fróðlegt að sjá á hvorn veginn það færi. Það verður auðmýkjandi fyrir formanninn tapi varaformaðurinn og Margrét fær upphækkun í forystunni eftir allt sem á undan er gengið og Sverrisarmurinn mun verða snupraður tapi dóttir höfðingjans sjálfs slagnum. Fróðlegt verður þetta vissulega. Klassísk átök um völd og áhrif.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 13:06
Árni Johnsen inni á lista kjörnefndar í Suðrinu
Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, er annar á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi skv. lokatillögu kjörnefndar flokksins í kjördæminu, sem nú hefur lokið störfum. Kjördæmisþing mun á sunnudag taka endanlega ákvörðun um framboðslistann. Flestir sjálfstæðismenn bíða spenntir eftir endanlegri ákvörðun um framboðslistann, en pólitísk endurkoma Árna hefur verið mjög umdeild, sérstaklega eftir að Árni lét þau ummæli falla að afbrot hans árið 2001 hefðu verið tæknileg mistök.
Andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins gekk svo langt að Samband ungra sjálfstæðismanna og Landssamband sjálfstæðiskvenna ályktaði gegn Árna með áberandi hætti fyrir jólin. Síðan hefur lítið borið á Árna, utan þess að hann skrifaði grein í Morgunblaðið í nóvemberlok sem merkja mátti sem afsökunarbeiðni á ummælunum umdeildu. Mörgum fannst þó sú grein koma of seint og afsökunarbeiðnin eilítið hol. Enn eru skiptar skoðanir á því hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að hafa Árna sem frambjóðanda í sínu nafni í vor.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu máli um helgina. Á sunnudag ráðast örlög í þessu máli. Kjördæmisráð mun taka endanlega ákvörðun um listann og ráða því hvernig flokkurinn á svæðinu ber fram listann. Það verður athyglisvert að fylgjast með því hvort að tillaga muni verða á fundinum um að breyta röð listans og stokka hann upp að einhverju leyti. Ljóst er að ekki eru allir sáttir við veru Árna á listanum, en fróðlegt hvort tillaga um veru hans komi fram. Sögum um það ber ekki saman og því bíða flestir fundarins eftir endanlegum lista sem flokksmenn á svæðinu staðfesta.
17.1.2007 | 00:55
Stockholm syndrome

Margar spurningar hafa vaknað um málið vegna framkomu Shawns. Svo virðist sem mannræninginn hafi kynnt strákinn sem son sinn og hafi verið skráður sem slíkur sem íbúi í leiguíbúð hans undir nafninu Shawn Devlin. Naprasta staðreyndin er þó sú að einhver undir nafninu Shawn Devlin hafi heimsótt vefsíðu Akers-hjónanna (móður og stjúpföður Shawn) um hvarf stráksins og skrifað innlegg með spurningu um af hverju foreldrarnir ætli eiginlega að leita að honum. Síðar skrifaði hann aftur og baðst afsökunar á fyrri skrifum og birti ljóð með.
Nágrannar Devlins í fjölbýlishúsinu í Kirkwood í Missouri hafa ennfremur komið með fjöldann allan af sögum um strákinn og það sem gerðist þar. Ef marka má þær sögur var frjálsræði hans þó nokkuð mikið og greinilegt að hann hefur verið algjörlega undir ægivaldi mannsins og heilaþveginn af honum. Sumar sögurnar eru fróðlegri en aðrar. Þeim er gerð ítarleg grein á fréttavef CNN. Í einu orði sagt kemur aðeins eitt upp í hugann þegar að lýsingarnar eru lesnar og litið yfir þær sögur sem að ganga. Það er Stockholm syndrome. Þau einkenni bera öll merki þess sem virðist vera tilfellið í þessu máli.
Fyrir þá sem ekki vita á nafngiftin fyrirmynd sína í bankaráninu í Kreditbanken í Stokkhólmi í ágúst 1973. Þar héldu bankaræningjar fjölda fólks sem gíslum sínum í fimm daga. Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi. Það má svo sannarlega fullyrða að fyrst að hægt sé að heilaþvo fólk í gíslingu eftir fimm daga yfirráð sé staðan enn verri þegar að fimm ár eru liðin. Það er alveg greinilegt að Michael Devlin hélt unglingnum rígföstum í greipum sínum.
Í fyrra slapp unglingsstelpan Natascha Kampusch úr haldi manns sem hafði haft hana sem gísl sinn í heil átta ár. Hún var svo þungt haldin af Stokkhólms heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og Shawn Hornbeck í langan tíma. Hún var undir stjórn viðkomandi og heilaþvegin af drottnun hans. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar. Drottnun af þessu tagi er skelfileg og umhugsunarverð að öllu leyti.
Eitt frægasta fórnarlamb Stokkhólms heilkennisins er auðjöfraerfinginn Patty Hearst. Henni var rænt og haldið sem gísl í þónokkurn tíma. Hún varð svo heilaþvegin að hún gekk til liðs við þá sem rændu henni og var þátttakandi í ráni með þeim. Sorgleg örlög. Eftir því sem púslin koma betur heim og saman í tilfelli unglingsins Shawn Hornbeck kemur sífellt betur í ljós einkenni Stokkhólms heilkennisins sorglega. Vond örlög það. Eflaust eiga fleiri sögur og atburðir enn eftir að fylla upp í þá mynd.
![]() |
Týndur piltur setti hugsanlega inn skilaboð á heimasíðu foreldra sinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 22:51
Margrét Sverris hjólar í Magnús Þór

Margrét heldur því í samskonar átök og Gunnar Örn Örlygsson lagði í fyrir tveim árum. Þá gaf hann kost á sér gegn Magnúsi Þór. Hann tapaði og fór yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Það var heljarmikið uppgjör. Nú hjólar Margrét í Magnús Þór. Mikil tíðindi þetta, enda hefur Magnús Þór verið varaformaður og þingflokksformaður líka í vel á fjórða ár. Þetta verður visst uppgjör milli afla innan flokksins og mun móta flokkinn í aðdraganda þessara kosninga.
Þetta verður væntanlega harður slagur og mikil átök, enda til mikils að vinna fyrir þann er sigrar og mikið fall fyrir þann sem tapar. Magnús Þór tapar sess sínum sem maður númer tvö tapi hann þessum slag en Sverrisarmurinn fær þungan skell og vont áfall tapi Margrét. Það verður fróðlegt að sjá hvort þeirra muni vinna þennan slag á landsfundi um aðra helgi.
![]() |
Margrét Sverrisdóttir sækist eftir sæti varaformanns Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2007 | 19:47
Konungleg stemmning á Golden Globe
Það var konungleg stemmning í Los Angeles í gærkvöldi þegar að Golden-Globe voru afhent í 64. skiptið. Stjarna kvöldsins var breska leikkonan Dame Helen Mirren sem hlaut tvö leikverðlaun fyrir túlkun sína á tveim kjarnakonum í sögu breska konungsveldisins; Elizabeth I, í samnefndri sjónvarpsmynd sem fjallar um efri ár drottningarinnar sem ríkti árin 1558-1603, og Elizabeth II, þar sem hún túlkar drottninguna sem ríkt hefur frá árinu 1952 í kvikmyndinni The Queen, sem lýsir eftirmála dauða Díönu, prinsessu af Wales, í Frakklandi í september 1997.
Mörgum að óvörum hlaut kvikmyndin Babel verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins. Hún var tilnefnd til sjö verðlauna, en hlaut aðeins þessi einu, sem eru þýðingarmikil enda marka hana sem sterkt óskarsverðlaunaefni. Söngvamyndin Dreamgirls hlaut verðlaunin sem besta gaman/söngvamynd ársins og ennfremur fyrir leikara í aukahlutverkum; Eddie Murphy og Jennifer Hudson. Murphy, sem þótti hafa dalað sem leikari að undanförnu, á þar öfluga endurkomu og er orðaður við óskarinn og hin lítt þekkta Idol-stjarna (vann ekki árið 2004) Hudson slær í gegn sem eitt mesta nýstirni undanfarinna ára.
Leikarinn Forest Whitaker hlaut verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í dramatískri kvikmynd fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í Úganda. Er Whitaker orðaður við óskarinn, enda þykir hann eiga stjörnuleik í myndinni. Eins og fyrr segir vann Helen Mirren verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í dramatískri mynd. Leikkonan Meryl Streep vann verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki kvenna í gaman/söngvamynd í myndinni The Devil Wears Prada þar sem hún fer á hlutverkum í hlutverki kuldalega tískuritstjórans Miröndu Priestley. Sacha Baron Cohen hlaut verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í gaman/söngvamynd fyrir sprenghlægilega túlkun sína á hinum kostulega Borat.
Mörgum að óvörum tókst kvikmyndinni The Departed ekki að hljóta verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins, né tókst leikurunum Leonardo DiCaprio, Mark Wahlberg og Jack Nicholson að vinna verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Hinsvegar tókst leikstjóranum Martin Scorsese að hljóta gullhnöttinn fyrir leikstjórn sína. Scorsese hefur oft verið tilnefndur en aðeins einu sinni unnið; fyrir fjórum árum, árið 2003, fyrir kvikmyndina Gangs of New York. Scorsese er nú orðaður við leikstjóraóskarinn og DGA-leikstjóraverðlaunin sem afhent eru skömmu fyrir afhendingu óskarsverðlaunanna. Scorsese hefur aldrei hlotið óskarinn á löngum leikstjóraferli og þykir mörgum vera kominn tími.
Kvikmynd Clint Eastwood, Letters from Iwo Jima, hlaut verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins. Eastwood var tilnefndur fyrir leikstjórn sína í henni og Flags of Our Fathers (sem var að stórum hluta tekin hérlendis). Kvikmyndin The Queen var verðlaunuð fyrir besta kvikmyndahandrit ársins. Í myndinni er lýst eftirmála dauða Díönu prinsessu, fyrir tæpum áratug, er hún var syrgð um allan heim. Krafa fólksins var að drottningin sýndi henni virðingu og þrýstingurinn neyddi hana til þess. Atburðunum er lýst með lágstemmdum og hlutlausum hætti með gríðarlega góðum hætti og handritið er einn megingrunnur myndarinnar, utan leiksins. Lag Prince í kvikmyndinni Happy Feet var valið kvikmyndalag ársins.
Elizabeth I var valin besta sjónvarpsmynd ársins og aðalleikkona myndarinnar Dame Helen Mirren valin besta leikkonan í sjónvarpsmynd. Bill Nighy var valinn besti leikarinn í sjónvarpsmynd fyrir leik sinn í Gideon´s Daughter. Ugly Betty var valin besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi og aðalleikkona þáttanna, America Ferrera, var valin besta leikkonan í gamanþætti. Alec Baldwin var valinn besti leikarinn í gamanþætti fyrir 30 Rock. Grey´s Anatomy var valinn besti dramatíski þátturinn í sjónvarpi. Hugh Laurie var valinn besti leikarinn í dramaþætti fyrir leik sinn í House og Kyra Sedgwick besta leikkonan fyrir Closer. Aukaleikarar í sjónvarpi voru valdir Jeremy Irons fyrir Elizabeth I og Emily Blunt fyrir Gideon´s Daughter.
Leikarinn og leikstjórinn Warren Beatty hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda sem litríkur leikari og stórtækur leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann flutti gríðarlega góða þakkarræðu er hann tók við verðlaununum. Beatty alltaf góður. Sem minnir mig á að ég verð að fara að rifja upp kynnin af mynd hans, Bonnie and Clyde, frá árinu 1967, þar sem hann lék á móti Faye Dunaway, og bestu kvikmyndinni sem hann gerði sjálfur, Reds, árið 1981. Umdeild en ógleymanleg kvikmynd um ævi John Reed, sem hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir árið 1982.
Kvikmyndahluti Golden Globe gefur oft vísbendingar um Óskarsverðlaunin sem afhent eru í febrúarlok, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar í næstu viku. Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Babel og Dreamgirls, svo fátt eitt sé nefnt.
Allar upplýsingar um Golden Globe 2007
![]() |
Babel og Dreamgirls valdar bestu myndirnar á Golden Globe hátíðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2007 | 16:56
Svarfdælski forsetinn

Bók Gylfa um Kristján er gríðarlega vönduð í alla staði, eins og Gylfa er von og vísa. Hann var einn besti ævisagnaritari í sögu íslenskra bókmennta og afkastamikill á því sviði. Ævisaga Kristjáns var með hans betri verkum, en hann skrifaði ennfremur ævisögur forvera hans á forsetastóli; Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna.
Það má með sanni segja að Kristján hafi verið ólíkur því sem við kynntumst síðar í þessu táknræna þjóðhöfðingjaembætti. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.
Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Hann var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Á ég ræðusafn hans í bókaformi. Tvær ræður hans, við embættistökuna 1968 og nýársávarp 1976, á ég í hljóðformi og þátt um ævi hans sem Gylfi Gröndal gerði árið 1996 á ég líka. Þeir þættir voru gerðir í aðdraganda forsetakjörs það ár er Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti.
Bók Gylfa um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð frekar illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að væntanlega Gunnari Thoroddsen frátöldum.
Hvet ég alla til að lesa þessa góðu bók og reyndar aðrar ævisögur Gylfa um forsetana, fróðleg umfjöllun um ævi og forsetatíð forsetanna þriggja - sérstaklega mæli ég þó með bókinni um Kristján, sveitastrákinn að norðan sem varð forseti Íslands og öflugur þjóðhöfðingi landsins.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2007 | 16:23
Barack Obama í forsetaframboð?

Segja má að Barack Obama hafi í ferð sinni til New Hampshire fengið mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hafi fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir um hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkenndi könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlaut að einkenna hugsanir Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmanns og fyrrum forsetafrúar, og stuðningsmanna hennar.
Nú er Obama kominn af stað með könnunarnefnd forsetaframboðs, sem er afgerandi vísbending um framboð. Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni á næsta ári, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og horft er sífellt meir í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.
Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.
Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa út formlega tilkynningu fyrr en síðar, en fréttir af vinnu bakvið tjöldin við að kanna grundvöll framboðs gefa skýrar vísbendingar. Búast má við að bæði Hillary og Obama taki af skarið innan mánaðar.
Það yrðu stórtíðindi færi Barack Obama fram og Hillary Rodham Clinton færi í slaginn ennfremur og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2007 | 01:26
Skandall á skandal ofan í Byrginu

Þessi skýrsla var miklu dekkri og drungalegri en mér hefði eiginlega órað fyrir. Það er svo margt gruggugt þarna að mann setur hljóðan hvernig þetta gat viðgengist öll þessi ár. Það er sérstaklega dapurlegt að ríkisfé hafi streymt þarna inn og ekkert verið fylgst með því hvernig því var varið. Þessi Byrgis-skandall hlýtur að kalla á uppstokkun allra vinnubragða við ríkisstyrkveitingar af þessu tagi og nánari eftirgrennslan þess hvernig fénu sé varið og í hvaða verkefni það í raun fari. Þessi skýrsla er áfellisdómur yfir vinnuferlum félagsmálaráðuneytisins.
Þessi mál eru á könnu félagsmálaráðuneytisins, enginn vafi á því. Það er algjörlega ótækt annað en leitað verði viðbragða þeirra félagsmálaráðherra sem sátu á þeim tíma sem um er að ræða; eftir skýrsluna 2001 sem var vond fyrir Byrgið, en er eins og englablíða miðað við það svartnætti og þá bókhaldsóreiðu sem við blasir. Páll Pétursson og Árni Magnússon voru félagsmálaráðherrar meginþorra þess tíma sem um ræðir. Páll var á þeim stóli í tvö ár eftir að fyrri skýrsla kom út og Árni í þrjú ár. Það er ekki hægt annað en leita viðbragða þeirra á þessum skandal.
Heilt yfir skiptir máli að vel verði haldið á málefnum þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þó að Byrgið hafi fengið þetta náðarhögg og þeir sem stjórnað hafa því má ekki gleyma að veita þarf fólki í neyð vegna fíknar sinnar og óreglu hjálparhönd. Það er gott að félagsmálaráðuneytið hafi leitað til Samhjálpar og þar verði unnið vel á öðrum grunni. Hvað Byrgið varðar er til skammar hversu lengi því tókst að vinna með þeim hætti sem það gerði í fjárhagslegu tilliti.
![]() |
Innlegg úr söfnun fóru jafnóðum inn á persónulegan bankareikning forstöðumanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2007 | 21:44
Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt

Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvaða myndir fái Gullhnöttinn. Kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, eða sjö, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood er með tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.
Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. sem besta myndin í flokki gamanmynda og söngleikja, fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine er svo með fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.
Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu síðar í þessum mánuði, en óskarsverðlaunatilnefningar verða kynntar eftir rúma viku, þann 23. janúar nk. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe í nótt, fyrir sinn langa leikara- og leikstjóraferil.
Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna og hvet sem flesta til að fylgjast með þessu. Alltaf gaman af kvikmyndaverðlaununum. Svo má heldur ekki gleyma að sjónvarpið er verðlaunað líka og margt athyglisvert í þeim flokkum, þó ég fari ekki yfir það hér. Væri gott að heyra í lesendum með það hvernig þeir telja að verðlaunin fari hafi þeir á því skoðun hér. Ég tel að Dreamgirls og The Departed fái myndaverðlaunin og Scorsese leikstjóraverðlaunin. Ég vona að þetta verði loksins árið hans Scorsese.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2007 | 18:12
Kristján Þór ætlar að fljúga á milli AK og RVK

Þetta eru nokkuð athyglisverð ummæli. Lengi hefur verið talað um búsetumál alþingismanna, auðvitað fyrst og fremst landsbyggðarþingmanna, eftir að þeir taka sæti á Alþingi. Það er nýr vinkill hér að þingmenn séu staðsettir í sínum heimabæ og hyggist jafnvel ferðast á milli daglega. Þetta er því athyglisvert sjónarhorn sem kemur með ummælum Kristjáns Þórs. Með þessu hyggst Kristján Þór væntanlega tryggja að hann verði fulltrúi landsbyggðar og sýnilegur fulltrúi hennar, ef marka má ummæli hans í viðtalinu.
Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta verður ef Kristján Þór Júlíusson verður ráðherra í næstu ríkisstjórn. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hann að fara á milli daglega ef svo býr við og hafa engan fastan samastað í höfuðborginni. Í viðtalinu segist Kristján Þór vilja reyna á hvort að það þurfi að búa á höfuðborgarsvæðinu, hann vilji ekki flytjast búferlum suður eða dveljast þar langdvölum enda sé heimili hans á Akureyri. Þetta er nýr vinkill og athyglisverður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Kristjáni Þór gangi sem þingmanni að halda fastri búsetu hér fyrir norðan.
15.1.2007 | 15:38
Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um Byrgið

Er það skýrt mat Ríkisendurskoðunar í skýrslunni að ekki sjáist nein merki þess að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í þágu Byrgisins. Í henni liggur fyrir að fjármunir sem runnið hafa til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins eru langt umfram það sem fram kemur í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Launagreiðslur eru ekki færðar rétt í bókhaldið og ekki taldar fram til skatts. Auk þessa lítur út fyrir að stjórnendur og starfsmenn Byrgisins hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem félaginu eru óviðkomandi.
Í skýrslunni er talið að slík útgjöld megi fullyrða að nemi að minnsta kosti tæpum þrettán milljónum á árinu 2005 og rúmlega 3 milljónir á fyrstu 10 mánuðum ársins 2006, en gætu verið hærri. Ergó: kolbikasvört skýrsla. Það er ekki furða að allt fjárstreymi til Byrgisins hafi verið stöðvað og ekki annað hægt að ímynda sér en að síðustu ríkispeningarnir að óbreyttu hafi farið þar inn í sjóði. Þessi skýrsla er mikill áfellisdómur yfir Byrginu og öllum hliðum reksturs þess.
![]() |
Ríkisendurskoðun vill lögreglurannsókn á rekstri Byrgisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2007 | 13:03
Frú Dorrit á forsetavakt segir sína sögu

Mikla athygli mína í viðtalinu vakti að þar var frekar athyglisverð kynning á álverinu í Straumsvík, sem er eins og flestir vita ekki svo fjarri Bessastöðum. Talaði Dorrit fallega um fyrirtækið og forstjórann Rannveigu Rist. Var þar meira að segja viðtal við Rannveigu og sýndar myndir frá heimsókn forsetafrúarinnar í álverið. Þetta var fróðlegt innlegg í þáttinn, en nú er ekki langt þar til að greiða á atkvæði um hvort stækka eigi álverið. Þetta er því merkileg tímasetning þessa innleggs í viðtal við forsetafrúna að mínu mati. Þetta var mjög áberandi allavega.
Dorrit Moussaieff hefur í tæpan áratug verið áberandi fulltrúi íslenska forsetaembættisins. Hún kom þar til sögunnar eftir andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést úr hvítblæði í október 1998. Hún var stór hluti forsetaembættisins er hún féll frá, enda ekki verið minna áberandi í forsetakosningunum 1996 en Ólafur Ragnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Dorrit að koma þar til sögunnar, svo skömmu eftir lát Guðrúnar Katrínar og raun bar vitni, en henni hefur tekist að verða fulltrúi á vegum forsetaembættisins með sínum hætti og hefur ekki reynt að fara í fótspor ástsællar forsetafrúar, sem Guðrún Katrín var.
Mér fannst að heyra á þessu viðtali að Dorrit telji Ólaf Ragnar Grímsson eigi margt eftir í embætti forseta Íslands, þó hann hafi setið á Bessastöðum í tæp ellefu ár. Það má kannski marka af þessum orðum að Ólafur Ragnar stefni á fjórða kjörtímabilið, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir en láti ekki tólf ár duga eins og dr. Kristján Eldjárn. Mér fannst ummæli hennar um framtíðina athyglisverð. Þau mátti merkja á báða vegu en mér fannst þau þó skýrari merki í þá átt að hún telji Ólaf Ragnar eiga enn nokkuð eftir á forsetastóli.
Dorrit hefur verið í kastljósi fjölmiðla allt frá sögufrægum útreiðartúr þar sem forsetinn axlarbrotnaði og hún birtist við hlið hans í samlitum fötum við útgang Landsspítalans. Þar var hún hin framandi kona sem fáir þekktu en allir vissu að hafði fangað hug og hjarta þjóðhöfðingja sem var að jafna sig eftir erfiðan ástvinamissi. Áratug síðar er hún enn framandi og segir enn sögu sem við þekkjum ekki. En eitt er víst; ævi Dorritar á forsetavakt er athyglisverð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2007 | 18:14
Er Herbalife hættulegt?

Frænka mín ein hefur sérhæft sig í að selja Herbalife og hefur eflaust haft eitthvað út úr því, þó ég hafi ekki og vilji ekki kynna mér það. Í þessu hefur verið einhver svakalegur bissness eflaust. Þetta er eitthvað sem er allt með ólíkindum, enda eru ótrúlega margir sem taka þetta sem eitthvað fullkomið töfradæmi að lausn á sínum málum. Finnst það vera fjarri lagi. Fyrir nokkru tók ég mitt líf í gegn; minnkaði að borða sykur og fór að hugsa um hvað ég borðaði, og ég fór einfaldlega að hreyfa mig. Mér finnst það grunnatriði að labba helst tíu kílómetra á viku.
Leið vel með það og taldi það töfralausn. Þetta Herbalife er eitthvað jukk sem enginn veit hvað samanstendur af í raun og hvað felst í því að hrúga því í sig. Þessar fréttir fá vonandi einhverja til að hugsa sitt ráð um þetta.
![]() |
Sex lifrarbólgutilfelli eftir neyslu á Herbalife |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.1.2007 | 17:07
Áfall fyrir Sarkozy - hvað mun Chirac gera?

Það að Sarkozy hafi ekki hlotið meira afgerandi umboð sýnir vel hversu klofinn hægriarmurinn er í afstöðunni til hans. Þetta er eiginlega mjög alvarlegt mál, enda gæti klofin afstaða til kjörsins komið þjóðernisöfgamanninum Jean-Marie Le Pen mjög til góða og gert að verkum að hann gæti jafnvel komist í aðra umferðina gegn Royal, en flestum er eflaust enn í fersku minni að Le Pen tókst að komast í seinni umferðina gegn Jacques Chirac í forsetakosningunum árið 2002 og felldi sósíalíska forsætisráðherrann Lionel Jospin úr kjörinu og batt enda á stjórnmálaferil hans.
Klofningur hægriblokkarinnar er öllum ljós nú. Hvorki Jacques Chirac, forseti, né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy og enn er öllum hulið hvort Chirac forseti muni fara fram, en hann hefur setið við völd í Elysée-höll á forsetastóli allt frá vorinu 1995 og var endurkjörinn í forsetakosningunum 2002 í fyrrnefndum sögulegum slag við Le Pen og hlaut þá stuðning sósíalista til að koma í veg fyrir sigur þjóðernisöfgamannsins. Það þótti kaldhæðnislegt og markaði í raun sætasta pólitíska sigur hins umdeilda Chirac. Flestir spyrja sig um fyrirætlanir Chiracs. Hann hefur ekki enn útilokað forsetaframboð, þó 75 ára gamall verði á árinu.
UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti. Það bauð sig enginn fram gegn honum innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Þar þarf þó kosning að fara fram. Sarkozy varð felmtri sleginn á svip, ef marka má franska vefmiðla, er úrslitin voru lesin upp. Hann hlaut aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningu. Það er mikið áfall, enda segir það með afgerandi hætti að hann er ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar. Royal tókst t.d. að ná yfir 60% í baráttu við tvo þekkta baráttuhunda innan flokksins; Fabius og Strauss-Kahn.
Fjarvera Jacques Chirac, forseta Frakklands, á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í dag, þar sem úrslit kosningarinnar voru tilkynnt, var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Hann ætlar sér greinilega ekki að leggja Sarkozy lið. Hann hefur ekki útilokað að fara fram í vor, þó óháður frambjóðandi yrði í slíkri stöðu. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og segist bíða ákvörðunar forsetans. Villepin mætti á fund UMP í dag en kaus ekki. Afgerandi skilaboð það. Það vakti reyndar gríðarlega athygli að Sarkozy gaf kost á sér án þess að fyrirætlanir forsetans væru ljósar.
Það er greinilega kalt stríð þarna milli aðila og fer sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Jean-Pierre Raffarin og skyldi velja Villepin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Menn bíða enn einu sinni eftir Chirac, sem er og hefur alla tíð verið pólitískt ólíkindatól. Tekur hann slaginn?
![]() |
Sarkozy formlega útnefndur forsetaframbjóðandi hægrimanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)