22.1.2007 | 16:00
Málþófi og gíslatöku á Alþingi lýkur

Þetta var grímulaust málþóf - mjög ömurlegt málþóf með að fylgjast fyrir sanna stjórnmálaáhugamenn. Það er ekkert að málefnalegum umræðum um grunnmál samfélagsins og heiðarleg skoðanaskipti, en það sem gerðist í þinginu síðustu dagana voru ekki málefnalegar umræður. Þegar að sami einstaklingur heldur um eða yfir fjögurra tíma ræður er eitthvað mjög alvarlegt í gangi. Hver hlustar á slíkar ræður - hver hefur yndi af slíku torfi og einhliða blaðri? Já, allavega ekki ég og þyki ég hafa gaman af stjórnmálum og fylgist oft með þingumræðum.
Þetta málþóf fannst mér skaða mjög verulega ímynd og virðingu Alþingis. Hver nennir annars að fylgjast með svona blaðri? Þingsalurinn tómur og einn maður kannski að tala klukkutímunum saman og forseti og kannski einn eða tveir, stundum enginn í sal, hlustar á. Heldur einhver að metáhorf sé meðal landsmanna í svona tilfelli? Ef svo er á bjartsýni stjórnarandstöðunnar sér engin takmörk. Mér fannst þingið setja talsvert niður við svona kjaftablaður sem engum var til sóma. Ég lít svo á að stjórnarandstaðan hafi skynjað að þetta féll ekki í góðan jarðveg og því hafi verið hætt. Það getur varla annað verið en að skynsamt PR-fólk sem ráðleggur stjórnarandstöðuflokkunum hafi annað en ráðlagt þeim heilt. Minnihluti getur jú aldrei látið eins og meirihluti.
Á föstudag sagði ég mínar skoðanir á þessu grímulausa málþófi í pistli hér á blogginu mínu. Ekki hægt annað en að tala hreint út í þessum efnum. Þessi gíslataka á lýðræðislega kjörnu Alþingi var til skammar fyrir stjórnarandstöðu sem vill láta taka sig eitthvað alvarlega. Minnihluti getur nefnilega ekki til hátíðabrigða reynt að gera sig að meirihluta. Það er ágætt að ræða málin en svona gíslataka á störfum þingsins var fyrir neðan allar hellur.
Þetta hlýtur að kalla á endurskoðun þingskapa og það að hámark sé sett á ræðutíma. Við þurfum ekkert að gera með þingmenn sem ætla sér að reyna að slá ræðumet Jóhönnu Sigurðardóttur og Hjörleifs Guttormssonar. Eða hvaða tilgangi þjóna annars sjö tíma ræður og þaðan af lengri? Nákvæmlega engum!
![]() |
Sigur Ríkisútvarpsins segir menntamálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2007 | 14:29
Eygló Harðar sendir Birna Inga tóninn

Eygló skrifar beittan pistil á vef sinn hér á Moggablogginu gegn skrifum Steingríms Sævarrs Ólafssonar og Björns Inga Hrafnssonar um úrslitin, sem hún telur að sé beint í þá átt að Reyknesingur taki þriðja sætið, sem að öllu eðlilegu ætti að vera hennar, ef miðað er við t.d. stöðuna í Norðvesturkjördæmi, þar sem t.d. ekki er Vestfirðingur meðal þriggja efstu. Umræða er nú hafin um að Grindvíkingurinn Petrína Baldursdóttir, leikskólakennari, sem sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn árin 1993-1995, eftir afsögn Karls Steinars Guðnasonar, skipi þriðja sætið í stað Hjálmars. Petrína gekk fyrir skömmu í Framsóknarflokkinn.
Eygló ætlar greinilega ekki að gefa sætið eftir án baráttu, sem skiljanlegt er. Pistill hennar ber yfirskriftina: Karlaplott og þúfupólitík. Sterk skilaboð það heldur betur. Umfram allt er skrifunum beint að Birni Inga, sem hún segir að sé að skipta sér af málum er honum komi ekki við. Endirinn er beittur og þar segir orðrétt: "Að síðustu vil ég benda einum af forystumönnum Framsóknarflokksins í Reykjavík á að það hefur ekki verið hefð í Framsóknarflokknum að menn séu að skipta sér af prófkjörum eða uppstillingum í öðrum kjördæmum. Honum færi betur að hafa meiri áhyggjur af stöðu flokksins í sínu eigin kjördæmi. Ekki veitir af." Mjög sterk skilaboð og hvöss. Þarna takast tveir bloggvinir á. Björn Ingi skrifar svo fróðlegt svar við skrifunum í kommentdálk Eyglóar.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í Suðurkjördæmi hjá framsóknarmönnum. Það virðist vera hörð og öflug barátta um þriðja sætið á framboðslistanum, sæti þingflokksformannsins Hjálmars Árnasonar - handan prófkjörs. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að sú barátta fer. Ekki virðist Eygló líkleg til að gefa eftir að fá sætið.
![]() |
Segir menn í öðrum kjördæmum ekki eiga að skipta sér af uppstillingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 00:03
Áfall fyrir landsliðið - mikil vonbrigði

En það er með handboltann eins og annað; you win some - lose others. Verðum bara að vona það besta fyrir hönd liðsins. Sigur gegn Frökkum er grunnatriði vilji liðið komast í millriðilinn. Það vonandi tekst. En miðað við sögu Frakka í handbolta er ekkert gefið í þeim efnum. Þetta verður erfitt.
Leikurinn í kvöld var eins og hann er. Vonandi mun landsliðið geta horft fram fyrir hann eins og við segjum og til verkefnisins sem máli skiptir nú. Það verður spennuþrunginn leikur á morgun og allir landsmenn munu vona það besta.
![]() |
Ólafur Stefánsson: Ég brást liðinu mínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2007 | 23:32
Reyknesingar missa enn einn þingmanninn

Eins og flestir muna gekk Reyknesingum ekkert sérstaklega vel í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í nóvember. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, féll í prófkjörinu og auk þess vakti athygli að frambjóðendum frá Reykjanesi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins gekk ekki vel, ef undan er skilin Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem virðist eiga bestan séns Reyknesinga á þingsæti nú.
Hjálmar Árnason virtist fara í leiðtogaframboð hjá Framsóknarflokknum til að reyna að bæta hlut Reyknesinga á framboðslistum. Sú var ein helsta ástæðan sem hann nefndi er hann ákvað framboð fyrir jólin gegn Guðna Ágústssyni. Kannski má telja að það hafi alltaf verið ótrúleg bjartsýni að halda að hann gæti fellt Guðna, sem er sitjandi varaformaður og sá ráðherra framsóknarmanna sem lengst hefur nú setið eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar. En hann tók áhættuna án þess að hika.
Hjálmar kvaddi stjórnmálin í kastljósi fjölmiðla í kvöld. Merkileg endalok á stjórnmálaferli hans að mínu mati. Dramatísk endalok umfram allt. Hann kvaddi með þá Guðna og Bjarna sér til beggja hliða. Svipur Guðna vakti sennilega meiri athygli en svipur Hjálmars sem var að kveðja. Táknrænn kuldi á mögnuðu fjölmiðlamómenti.
![]() |
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2007 | 19:52
Valdimar Leó kominn í Frjálslynda flokkinn
Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, sem sagði sig úr Samfylkingunni í nóvember og verið þingmaður utanflokka, hefur nú gengið til liðs við þingflokk Frjálslynda flokksins. Öllum er nú ljóst að hann verður kjördæmaleiðtogi af hálfu flokksins; væntanlega í Suðvesturkjördæmi. Valdimar Leó tók sæti á Alþingi þann 1. september 2005 við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, sendiherra, og var annar varaþingmaður Samfylkingarinnar í Kraganum eftir kosningarnar 2003. Það eru mikil tíðindi að þingsæti Guðmundar Árna sé nú komið á yfirráðasvæði Frjálslyndra.
Það eru engin tíðindi svosem í mínum augum að þetta hafi nú endanlega gerst að Valdimar Leó gangi til liðs við frjálslynda, enda skrifaði ég pistil hér að morgni 16. nóvember sl, eða áður en hann sagði sig úr Samfylkingunni og orðrómur fór af stað á fullu skriði, að hann myndi segja skilið við flokkinn innan tíðar og horfði mjög afgerandi til frjálslyndra. Hann lagði þó er á hólminn kom ekki í að ganga í Frjálslynda flokkinn samhliða úrsögn úr Samfylkingunni. Hann telur tímann vera nú væntanlega kominn, enda styttist í kosningar auðvitað.
Ég ítrekaði fyrri skrif í öðrum pistli að kvöldi 16. nóvember og gekk eiginlega lengra í fullyrðingum, eftir að Steingrímur Sævarr Ólafsson hafði staðfest þessar kjaftasögur og líka skrifað um málið. Nokkrir aðilar véfengdu þær heimildir sem ég hafði í fyrri skrifunum, sem bæði voru fengnar frá stjórnmálaáhugamönnum í kraganum og viðtali við Valdimar Leó á Útvarpi Sögu þar sem hann neitaði engu. Þær efasemdarraddir urðu rólegri í seinni skrifunum og gufuðu hægt og rólega algjörlega upp. Það vill að ég tel enginn afhjúpa sömu efasemdarraddir nú. Þeir sem vilja lesa efasemdarraddirnar geta litið á fyrri tengilinn hér og lesið. Athyglisvert að lesa kommentin nú.
Nú hefur Valdimar Leó opinberlega opinberað tilfærslu sína til frjálslyndra, svo að öll voru þessi skrif rétt af minni hálfu. Þar voru nákvæmlega engar fullyrðingar rangar eða eitt né neitt ýkt. Einfalt mál það. Væntanlega horfir Valdimar Leó til þess að reyna að fá umboð til að leiða lista frjálslyndra í kraganum, sínu gamla kjördæmi. Það er óvíst hver leiðir listann þar nú, enda engin prófkjör hjá frjálslyndum nú frekar en nokkru sinni áður. En þar eru nokkrir aðrir fyrir sem vilja leiða lista, en við öllum blasir að einhverskonar samkomulag hefur forysta Frjálslyndra gert við Valdimar Leó.
Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örn Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing í hans stað. Frá flokkaskiptunum hefur Gunnar Örn ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum í Kraganum inn í sinn stað.
En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði kjörinn alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Það yrði kostulegt eftir sem eftir gekk meðal frjálslyndra með Gunnar Örn að leiða kjörinn þingmann annars flokks í sæti á sínum vegum. Pólitíkin er vissulega mjög skrítin tík. En nú eru semsagt þingmenn Frjálslynda flokksins aftur orðnir fjórir eins og eftir kosningarnar 2003 með inngöngu Valdimars Leós, fyrrum samfylkingarmanns, í hann.
![]() |
Valdimar gengur til liðs við Frjálslynda flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2007 | 19:22
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum

Það var greinilegt að Guðni Ágústsson var mjög þungur yfir mótframboði Hjálmars og því hefur verið svarað með þeim hætti að styðja Bjarna Harðarson í annað sætið. Mér fannst nokkuð merkilegt að sjá mómentið á Hótel Selfossi áðan þar sem að Hjálmar sté út. Það er mikil spenna milli hans og Guðna og greinilegt að þar hefur kólnað yfir samskiptum. Það þurfti ekki annað en sjá svipbrigði Guðna.
Það er erfitt um að spá hvort að þetta prófkjör veikji eða styrki flokkinn á svæðinu. Það hefur hiklaust styrkt mjög varaformanninn Guðna Ágústsson sem er nú enn sterkari leiðtogi flokksins á svæðinu en hann var áður. Mjög sterk kosning og afgerandi umboð sem hann fær á meðan að stjórnmálaferli Hjálmars Árnasonar lýkur með dramatískum hætti í kastljósi fjölmiðla.
21.1.2007 | 18:45
Guðni sigrar með yfirburðum - Hjálmar fallinn

Guðni leiddi flokkinn í kjördæminu í síðustu kosningum og sóttist eftir því áfram, enda verið þingmaður í tvo áratugi, ráðherra í átta ár (lengst allra núverandi framsóknarmanna í ríkisstjórn) og varaformaður Framsóknarflokksins í sex ár. Það virðist hafa verið mjög misráðið hjá Hjálmari að sækjast eftir leiðtogasætinu og hann fær nokkuð þungan skell, enda hefur hann verið þingmaður flokksins í tólf ár og áberandi í innra starfi flokksins. Hann virðist standa í sömu sporum og Kristinn H. Gunnarsson eftir þetta prófkjör. Heldur verður það að teljast ólíklegt að hann taki þriðja sætinu og annaðhvort horfi í aðrar áttir eða hætti þátttöku í stjórnmálum.

Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Varla voru sunnlenskir bændahöfðingjar ánægðir með mótframboðið við Guðna og þeir hafa greinilega passað vel upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín. Það mátti eiga von á spennandi rimmu en munurinn virðist afgerandi og enginn vafi að umboð Guðna sé afgerand sterkt til forystu.
Eins og ég benti á hér á föstudag voru allmiklar miklar líkur á að sá sem myndi tapa slagnum gæti fallið niður í þriðja sætið, enda er greinilegt að stuðningsmenn Guðna hafa stutt Bjarna í annað sætið. Þetta eru allavega stórtíðindi. Báðum þingflokksformönnum stjórnarflokkanna hefur nú verið hafnað í leiðtogakjöri í prófkjöri. Arnbjörg Sveinsdóttir tapaði fyrir Kristjáni Þór Júlíussyni í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi eins og flestir muna. En allra augu verða nú á því hvað verður um Hjálmar í Suðrinu.
21.1.2007 | 16:41
Árni Johnsen fær annað sætið í Suðrinu

Þetta er athyglisverð niðurstaða. Ég tel að hún muni veikja Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmum tímapunkti í byrjun kosningabaráttunnar. Árni fær greinilega enn annan séns á heimaslóðum. Það má svo sannarlega deila um það hvort að hann eigi það skilið eftir allar sínar bommertur. Þetta mál á eftir að fylgja Sjálfstæðisflokknum að óbreyttu um allt land í baráttu næstu mánaða.
Ég hef persónulega verið mjög andvígur því upp á síðkastið að Árni verði á listanum og tel það skaða flokkinn gríðarlega í tvísýnum kosningum. Ég er enn sömu skoðunar og finnst þetta vera mjög vond tíðindi fyrir flokksmenn í öðrum kjördæmum sem þurfa að óbreyttu að verja endurkomu þessa manns í framboð fyrir flokkinn.
21.1.2007 | 03:24
Gjafmildi og heimsfrægur afmælisgestur
Sumir láta sér duga að fá Bó Hall eða Ragga Bjarna, en ónei hér er hringt bara í aðlaða margverðlauna og múltífrægan söngvara. Merkileg tímamót í umræðunni. Mér fannst það flott hjá Ólafi og frú að stofna þennan sjóð en tíðindin af komu Eltons voru svona súrrealísk viðbót á sama deginum. Ég er ekki einn þeirra sem hokraðist á Laugardalsvelli á tónleikunum hans Eltons fyrir nokkrum árum og voru hundóánægð með umgjörð tónleikanna. Það væri fróðlegt að vita hvað fólkið sem þar var statt hugsar nú.
Sumum dreymir eflaust alla ævi eftir því að fara á tónleika með átrúnaðargoðinu sínu. Aðrir hringja bara í umboðsmennina þeirra og panta þá í afmælið sitt. Þetta er nýr skali í þessu hérna heima. Þetta er reyndar ekki á færi allra. Heldur einhver að Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, myndi geta fengið Rolling Stones í næsta stórafmæli sitt? Veit ekki svosem, en efast allverulega um það. Efast líka allnokkuð um það að ég gæti fengið minn uppáhaldstónlistarmann til að mæta í afmælið mitt í desember. Nema maður slái sér bara lán, eða hvað?
Ólafur Samskipsmógúll er hiklaust maður dagsins. Þarf engan rökstuðning á þann pakkann.
![]() |
Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.1.2007 | 22:12
Listi sjálfstæðismanna í Norðaustri tilbúinn
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var samþykktur á fundi kjördæmisráðs í Mývatnssveit í dag. Ég var ekki viðstaddur fundinn vegna anna á öðrum vettvangi, en ég held að fundurinn hafi verið fjölmennur. Það eru fá tíðindi ný með efstu sæti listans, enda eru efstu sex sætin skipuð eftir niðurstöðum í prófkjöri flokksins hér þann 25. nóvember sl. .
Í sjöunda sæti listans er Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Kaupfélags Eyfirðinga. Hún hefur ekki verið virk í starfi flokksins hér á svæðinu og er að ég best veit algjör nýliði í okkar hópi. Það verður fróðlegt að sjá til pólitískra verka hennar hér á listanum, en hún er þekkt af verkum sínum hjá Leikfélagi Akureyrar og Kaupfélaginu en ekki beint af vettvangi stjórnmálanna.
Efstu sæti listans skipa nýr kjördæmaleiðtogi flokksins í Norðausturkjördæmi, Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, og Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Bæði eru reynd í stjórnmálum. Nú veltur mikið á samvinnu þeirra. Það síðasta sem til þeirra sást saman var er þau hnakkrifust í beinni útsendingu á Stöð 2 er prófkjörsúrslit voru ljós. Þau munu vonandi gera betur en það hér næstu mánuðina.
Halldór Blöndal, sem hættir á þingi í vor eftir langan stjórnmálaferil, skipar heiðurssæti framboðslistans nú við lok síns pólitíska ferils. Það er flokknum styrkur að hafa hann í heiðurssætinu enda hefur hann mikla reynslu að baki til eflingar fyrir listann. Fyrir okkur sem erum í grasrót flokksstarfsins hér er þetta athyglisverður listi og honum eru færðar óskir um gott gengi.
Framboðslisti í Norðausturkjördæmi
![]() |
Listi Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi samþykktur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2007 | 18:40
Elton John kominn til Íslands

Hann á eina mest seldu smáskífu sögunnar, sem var plata með laginu Candle in the Wind, er var gefin út til minningar um Díönu, prinsessu af Wales. Hann hlaut óskarsverðlaun fyrir lagið Can You Feel The Love Tonight? í kvikmyndinni Lion King árið 1995. Hann hefur gefið út fjölda laga sem hlotið hafa alheimsfrægð.
Það eru nokkuð merkileg tíðindi að tónlistarmaður á kalíber Sir Elton John komi til landsins til þess eins að syngja í afmælisveislu þekkta fólksins. Kannski erum við að upplifa nýja menningarheima, eða hvað?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.1.2007 | 17:22
Hillary í forsetaframboð - spennan vex

Í dag eru sex ár liðin síðan að eiginmaður Hillary, Bill Clinton, lét af embætti forseta Bandaríkjanna. Bush hefur verið forseti því í sex ár í dag og á nákvæmlega tvö ár eftir. Hillary var samtímis forsetafrú og þingmaður í New York í sautján daga, en hún sór embættiseið á þeim vettvangi þann 3. janúar 2001. Hún markaði sér spor í söguna sem fyrsta forsetafrúin sem stjórnmálamaður á eigin forsendum. Allt frá því að Clinton forseti lét af embætti á þessum degi fyrir sex árum hefur Hillary verið mörkuð sem framtíðarforsetaefni og tilkynningin nú kemur engum að óvörum.
Búast má við gríðarlega spennandi átökum innan Demókrataflokksins um það hver verði forsetaefni hans. Þegar hafa sterk forsetaefni eins og öldungadeildarþingmennirnir Barack Obama og Chris Dodd komið fram auk Dennis Kucinich, John Edwards (varaforsetaefni John Kerry 2004), Tom Vilsack og Joe Biden. Mikið er rætt um hvort að síðustu tvö varaforsetaefni demókrata fari fram, þeir Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, og John Kerry, öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts, fari fram, en báðir töpuðu þeir forsetakosningum fyrir George W. Bush; annar með sögulegum hætti en hinn með nokkuð afgerandi atkvæði í atkvæðum talið. Þetta verður spennandi kapphlaup.
Næstu forsetakosningar verða reyndar mjög sögulegar, hvernig sem þær munu fara, enda er ljóst nú þegar að þær verða hinar fyrstu frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti Bandaríkjanna verða í kjöri. George Walker Bush forseti, situr sitt seinna kjörtímabil og má skv. lögum ekki bjóða sig fram aftur og mun því halda heim til Texas er hann lætur af embætti þann 20. janúar 2009. Dick Cheney varaforseti, hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á forsetaframboði og ætli að sinna sínum verkefnum út kjörtímabilið og njóta að því loknu lífsins með konu sinni og fjölskyldu, fjarri Washington, eins og hann hefur orðað það sjálfur.
Hillary Rodham Clinton er að flestra mati manneskjan á bakvið sigur eiginmanns síns í forsetakjörinu 1992 - hefur aukinheldur lengi verið útsjónarsamur stjórnmálaplottari með mikla yfirsýn yfir pólitískt landslag og stöðumat hinnar réttu strategíu. Hún hefur allt frá lokum forsetatíðar eiginmannsins markað sér sinn eigin stjórnmálaferil og gert það mjög vel. Hún hefur um nokkurn tíma haft verulegan áhuga á forsetaembættinu, en veit að það gæti orðið erfitt fyrir hana að leggja í slaginn, enda í húfi bæði pólitísk arfleifð eiginmanns hennar og hennar einnig. Framboð gæti reynst rétt en einnig verið alvarleg mistök fyrir þau bæði tapi hún. Ákvörðun um að taka af skarið er því athyglisverð.
Það hlýtur að kitla hana að verða fyrsta konan á forsetastóli í Bandaríkjunum og aukinheldur fyrsta forsetafrú landsins sem hlýtur embættið. Skorað var á Hillary að gefa kost á sér þegar árið 2004. Þá fór hún ekki fram, vitandi að framboð þá hefði skaðað hana. Hún lofaði enda New York-búum að vinna fyrir þá í sex ár samfellt ef þeir treystu sér fyrir þingsæti hins vinsæla Daniel Patrick Moynihan. Hún vann með yfirburðum, hún heillaði New York-búa þrátt fyrir að hafa haft lögheimili þar aðeins í ár er hún náði kjöri. Hún fór aftur fram í fyrra og vann endurkjör án teljandi fyrirhafnar. Hún er sterk á heimavelli og hefur sterkar taugar í suðrið sem fyrrum ríkisstjórafrú Arkansas og er svo frá Illinois.
Það er alveg ljóst að ljón gætu orðið á veginum fyrir Hillary. Hún á sér andstæðinga bæði innan flokks og utan og víst er að mörgum stendur stuggur af því í flokkskjarnanum muni Clinton-hjónin aftur taka yfir flokkinn, rétt eins og í forsetatíð Bill Clinton. Fyrirfram er ljóst að Obama er hennar mesti keppinautur í baráttunni sé tekið mið af stöðunni nú. Hinsvegar á hún digrasta kosningasjóðinn, er með mikla peninga og öflugt eldsneyti til verka. Hún er án vafa forystumaðurinn í slagnum er af stað er haldið. En það hefur oft ekki dugað til enda. Allir muna eftir því hvernig að Howard Dean varð bensínlaus á viðkvæmasta hjallanum árið 2004.
En Hillary fer í slaginn vígreif og örugg. Öllum er ljóst að hún fer fram þrátt fyrir varnagla í yfirlýsingu. Enda segir hún sjálf í yfirlýsingunni: "I'm in - and I'm in to win!"
![]() |
Hillary Clinton hyggur á forsetaframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2007 | 16:31
Nei takk við kristilegu Byrgis-BDSMklámi
Ég er einn þeirra sem hef fengið sendan link á klámmyndbandið með Guðmundi í Byrginu sem virðist vera það vinsælasta á netinu þessa dagana. Thanks, but no thanks - hef ekki áhuga á að kynna mér afbrigðilegt kynlíf manns sem leikur sig einhvern vitring á kristilegu meðferðarheimili sem sukkar á ríkisfé og býður upp á stóðlíferni. Þvílíkt myndefni og þvílík umræða. Það virðist sífellt verða meira svæsið þetta mál.
Sjálfskaparvíti ByrgisGuðmundar er algjört. Hann getur þó algjörlega sjálfum sér um kennt. Það besta fyrir hann nú væri einfaldlega að fara að tala af viti og segja söguna eins og hún er frá a-ö. Það getur varla vont batnað fyrir honum. Nú ætlar Guðmundur að reyna að telja fólki trú um að honum hafi verið nauðgað af gellunni sem hann sagði fyrir nokkrum vikum að hann hefði aldrei sofið hjá. Þvílíkt og annað eins. Hann þvertók fyrir jól fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi. Dæmi hver sem vill.
Annars ætla ég ekki að dæma BDSM-hugsanir Guðmundar eða afbrigðilegt kynlíf hans þó að það sé við einstaklinga sem hann er með í meðferð. Það dæmir sig algjörlega sjálft. Það er sjúkt. Hitt sem er verra er að misfarið var með ríkisfé af honum í Byrginu í þónokkurn tíma. Það er alvarlegt mál. Það er kjarni þessa máls. Ekki það hvort að hann reið einni konu eða fleirum.
![]() |
Mun klámið ráða úrslitum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2007 | 15:18
Hver nennir eiginlega að hlusta á málþófið?

Er ekki mál að linni? Hefur ekki nóg verið sagt? Hvað á eiginlega eftir að segja? Ég hef ekki verið sammála Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, varðandi þetta frumvarp en ég tek heilshugar undir ummæli hennar um að mál sé að linni. Stjórnarandstaðan verður sér til skammar með hverri mínútunni. Um daginn talaði umboðslausi þingmaðurinn sem flúði úr Samfylkingunni í sex tíma. Hvað stóð eftir þá ræðu? Eflaust jafnmikið og allar ræður þess mikla ræðuskörungs, Jóns Bjarnasonar, á haustþinginu.
Segja má að alltaf sé gott að ræða málin. Málþóf og málefnalegar umræður eiga ekki samleið. Málþófið í þessu máli er farið yfir öll mörk. Þetta er orðið einum of - störf þessa þings minna orðið á vettvang gíslatöku. Minnihluti þingsins virðist hafa slegið eign sinni á störf þingsins og reyna þar að ráða málum. Eins og staðan er núna skilur maður ekki lengur stöðuna. Þessi gíslataka á Alþingi hefur staðið yfir einum of lengi og mál er nú komið að linni segi ég og skrifa.
Heiðarlega atkvæðagreiðslu um málið takk! - og það sem fyrst! Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að meirihluti sé meirihluti. Það er ekki lýðræði að minnihluti valti yfir meirihluta. Þetta hlýtur allt að kalla á endurskoðun þingskapa og það að hámark sé sett á ræðutíma. Við þurfum ekkert að gera með þingmenn sem ætla sér að reyna að slá ræðumet Jóhönnu Sigurðardóttur og Hjörleifs Guttormssonar.
Eða hvaða tilgangi þjóna annars sjö tíma ræður og þaðan af lengri? Nákvæmlega engum!
19.1.2007 | 14:07
Framsóknareinvígi í Suðurkjördæmi

Það verða stórpólitísk tíðindi ef Guðni fellur úr leiðtogasæti í Suðurkjördæmi og mun verða örlagaríkt fyrir Framsóknarflokkinn á kosningavetri ef varaformaður flokksins verður snupraður með slíkum hætti. Eflaust er hér um einn anga fyrri valdaátaka innan Framsóknarflokksins að ræða. Í fyrra gat Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, ekki hætt í stjórnmálum við þá tilhugsun að Brúnastaðahöfðinginn yrði eftirmaður hans á formannsstóli í flokknum. Það var þá endanlega afhjúpað að þessir samstarfsmenn að fornu og nýju innan flokksins þoldu vart hvorn annan.
Sett var upp einhver athyglisverðasta flétta seinni tíma stjórnmálasögu hér heima þar sem að maður að nafni Jón Sigurðsson var sóttur til verka. Allt fyrir flokkinn minn og skylduræknina var mottó innkomu Jóns. Merkileg atburðarás sem fram til þessa hefur verið hálfgerð hörmungarsaa enda hefur Jóni mistekist enn sem komið er að efla flokkinn. Hann er enn á nákvæmlega sömu slóðum pólitískt og þegar að Halldór gekk inn í pólitíska sólsetrið á blaðamannafundinum á Þingvöllum á öðrum degi hvítasunnu. Merkilegt. En Eyjólfur gæti vissulega ennþá komið til. Kosningar eru ekki afstaðnar enn.

Mér fannst fyndið að hlusta á Morgunvaktina í vikunni þar sem þeir voru og Hjálmar sagði að ef Guðni myndi tapa færi hann bara að sinna innra starfinu. Ekki virtist Guðni alsæll með það. Guðni hefur jú leitt framboðslista á Suðurlandi frá árinu 1995 en setið á þingi frá árinu 1987 og verið varaformaður flokksins í sex ár. Hjálmar hefur verið alþingismaður Framsóknarflokksins frá árinu 1995, 1995-2003 fyrir Reykjaneskjördæmi og síðan fyrir Suðurkjördæmi. Hann skipaði annað sætið á lista flokksins síðast.
Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Varla eru sunnlenskir bændahöfðingjar ánægðir með mótframboðið við Guðna og þeir hljóta að passa upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín. Það má eiga von á spennandi leiðtogarimmu milli þeirra Guðna og Hjálmars og áhugaverðu prófkjöri heilt yfir. Mesta athygli vekur að ekki eru mörk á því hvaðan að fólk megi vera sem kýs þar. Þannig getur Reykvíkingur gengið í flokksfélagið á Selfossi og kosið. Mjög undarlegt fyrirkomulag.
Það verður fróðlegt að sjá hvor verður höfðingi framsóknarmanna í kjördæminu eftir þetta prófkjör. Fullyrða má að sá sem tapi slagnum gæti fallið niður í þriðja sætið, enda munu stuðningsmenn hvors frambjóðandans fyrir sig merkja við annan valkost í annað sætið. En þetta ræðst allt. Það verða stórtíðindi í þessu prófkjöri hvernig sem fer. Ef varaformaður fellur af leiðtogastóli verður það þó mun stærri pólitísk frétt en fall þingflokksformanns í slíkri rimmu verður líka frétt. Þetta verður áhugavert leiðtogaeinvígi.
19.1.2007 | 11:54
Takk..... en nei takk við stjörnunum
Ég veit ekki hverjum datt þetta í hug og hver ákvað að gera þetta. En ég vil ekki sjá þetta.... og ég var að aftengja þennan fítus.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2007 | 11:05
Kaldhæðnislega rétt skilinn brandari

Frú Royal er í merkilegri stöðu. Hún er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á því að verða forseti Frakklands. Skv. skoðanakönnunum nú er erfitt um að segja hvort að hún eða innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy verði kjörinn í Elysée-höll. Það rokkast til og frá. Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, hefur enn ekki tekið formlega ákvörðun um hvort að hann gefi kost á sér til endurkjörs, en flestir telja að hann leggi ekki í að verða óháður frambjóðandi í þeirri stöðu sem uppi er nú. Kosningarnar fara fram 22. apríl og 6. maí nk. í tveim umferðum, ef þess þarf.
Segolene Royal er 53 ára og er í sambúð eins og fyrr segir með Hollande sem er leiðtogi franska Sósíalistaflokksins. Orðrómur var lengi uppi um forsetaframboð hans, en hann ákvað að styðja frekar Segolene heldur en að gera út af við möguleika hennar. Royal vann í tæpan áratug sem ráðgjafi Francois Mitterrand, forseta Frakklands, í Elysée-höll á sviði félagsmála. Árið 1988 var hún kjörin á franska þingið. Hún var til skamms tíma umhverfisráðherra Frakklands og ennfremur aðstoðarráðherra á sviði menntamála og málefna fjölskyldu og barna. Hún var kjörin forseti héraðsstjórnarinnar í Poitou-Charentes í vesturhluta Frakklands í vinstribylgjunni í apríl 2004.
Þessi brandari hefur verið aðalmál umræðunnar í Frakklandi síðustu dagana. Þetta mál er ekki gott fyrir konuna sem vill verða þekkt sem fyrsti kvenforseti Frakka í sögunni síðar meir. Það má búast við spennandi og líflegum átökum um forsetaembættið í þessum kosningum. Þessi brandari bætir ekki fyrir Segolene Royal og umræðuna um lífsförunautinn, sem er mjög umdeildur kostur með henni.
![]() |
Brandari sem klikkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 23:53
Til hamingju Baggalútur!

Finnst plöturnar þeirra virkilega góðar. Sú fyrsta: Pabbi þarf að vinna..., var með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Sérlega eru flott þar titillagið og svo auðvitað Settu brennivín í mjólkurglasið vina.... Alveg eðall. Platan þeirra í sumar: Aparnir í Eden, er ekki síðri og t.d. er lagið Allt fyrir mig með Bo Hall rosalega gott og grípandi. Textinn stuðaði suma, en hann er nettur og hress að hætti Baggalútsmanna. Svo var jólaplatan algjört yndi - fastur liður á jólum hér eftir!
Í dag fékk Baggalútur íslensku vefverðlaunin fyrir besta afþreyingarvefinn. Svo sannarlega verðskuldað. Öll höfum við þörf fyrir húmor þeirra á Baggalút og metum hann mjög mikils. Húmorinn hjá þeim passar allavega vel við núna um háveturinn. Það jafnast enda einfaldlega ekkert á við að brosa. Eitt bros getur enda dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði. :)
![]() |
Vefur Icelandair talinn sá besti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 19:35
Kona í mjúkum stól sendir karlforverum tóninn

Ummæli Valgerðar um karlforverana vöktu allnokkra athygli mína. Svolítið athyglisvert. Ég man ekki betur en að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og pólitískur samstarfsmaður Valgerðar um árabil, hafi lengst allra í stjórnmálasögu landsins setið á utanríkisráðherrastóli. Hann var húsbóndi í ráðuneytinu í nærri áratug, frá apríl 1995 til september 2004 er hann varð eftirmaður Davíðs Oddssonar á forsætisráðherrastóli. Valgerður var einn nánasti pólitíski samstarfsmaður Halldórs á hans langa stjórnmálaferli. Er hann karlremban sem hún er að tala um? Þegar að stórt er spurt.....
Valgerður er með þessu eflaust að reyna að fá á sig annan blæ - verða meira töff og áberandi í ráðuneytinu. Flestum er kunnugt að svo til um leið og hún tók við embætti utanríkisráðherra af Geir H. Haarde um miðjan júnímánuð í fyrra var verkstjórn varnarmálaviðræðnanna teknar af henni sem utanríkisráðherra og þær voru áfram á verksviði Geirs sem forsætisráðherra er Halldór Ásgrímsson hvarf inn í pólitíska sólsetrið. Stjórnarandstæðingar kölluðu Valgerði pappírsutanríkisráðherra svo eftirminnilegt er. Enn er mörgum í fersku minni einnig þegar að Valgerður fór út til New York til að ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ræða hennar á ensku var sérlega eftirminnileg, en eflaust ekki með þeim hætti sem ráðherrann hefði væntanlega viljað.
Valgerður hefur lengi verið í stjórnmálum og er eflaust nokkuð hörkutól í þeim bransa. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Valgerður er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Hún hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega hafa fleiri dagar í utanríkisráðuneytinu verið vondir. Um það má þó eflaust deila. Þessi ákvörðun markar það að Valgerður vill verða þekkt fyrir annað en pólitískir andstæðingar hennar vilja.
Framundan er erfið pólitísk barátta fyrir Valgerði. Hún verður þó ekki á erlendum vettvangi, heldur hér heima í Norðausturkjördæmi. Þar verður Valgerður mætt í pólitíska baráttu enn einu sinni á þessu vori. Enn einu sinni þarf hún að berjast. Það verður fróðlegt hvort að vegtylla hennar sem fyrstu konunnar á utanríkisráðherrastóli verður henni kostur eða pólitísk bölvun hér á pólitískum heimavelli.
Viðaukar við varnarsamninginn
![]() |
Leynd létt af leynilegum viðaukum við varnarsamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2007 | 18:49
Hver á að bera hina pólitísku ábyrgð?

Það þarf að opinbera það hver tók þá ákvörðun að greiða Byrginu ríkisfé án þess að samningur hafi verið undirritaður. Ég sé ekki fyrir mér að það sé hægt að klára þetta mál án þess að rekja vinnuferla og það sé ljóst hvaðan ákvörðunin kom. Þetta er óafsakanlegt klúður og er miðpunktur í máli sem komið er til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra. Þetta mál þarf að opna upp á gátt að mínu mati. Þessi ákvörðun var tekin og þetta stóð í tæp þrjú ár. Þetta er stóralvarlegt mál.
Það leikur þó enginn vafi á því að verkstjórn ráðuneytisins á þessum tíma var í höndum Árna Magnússonar. Hann var félagsmálaráðherra í þrjú ár. Hans ábyrgð á þessu máli blasir við öllum, enda ber ráðherra ábyrgð á ráðuneytinu. En þessu meðferðarheimili var greitt úr ríkissjóði í þrjú ár án gilds samnings og það verður að upplýsa hver heimilaði þær greiðslur.
Það er að heyra á Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor, að allt sem gerist í ráðuneytinu sé á könnu Magnúsar Stefánssonar. Það er vissulega rétt og enginn vafi leikur á því. Hann hefur þó verið mjög stutt á ráðherrastóli eins og allir vita. Þetta er flókið mál. Árni var ráðherra í þrjú ár og horfði á þessi afglöp gerast. Ekki góð arfleifð fyrir hann á ráðherrastóli.
Það má ekki láta svona klúður gerast aftur. Það verður því að taka á þessu máli af því tagi að það verði víti til varnaðar.