25.1.2007 | 15:51
Spenna yfir handboltanum - hvernig fer leikurinn?

Spennan hefur verið gríðarleg á öllum leikjunum - eins og við á. Góður árangur endurspegla mjög vel gríðarlegan áhuga allra landsmanna. Öll viljum við styðja við bakið á okkar mönnum. Spái að sjálfsögðu sigri okkar manna, en þetta verði jafn og öflugur leikur - jafnvel enn jafnari en leikurinn við Túnis.
Væri gaman að heyra í ykkur og fá spá um hvernig að þetta fari, svona til gamans, áður en leikurinn hefst, hafi lesendur skoðun á því. Efast reyndar ekki að allir landsmenn, eða langflestir allavega, hafi skoðun á handboltanum.
![]() |
Alfreð: Pólverjar gætu brotnað saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2007 | 13:59
Viðtal og mætur bloggvinur
En að öðru; alltaf fjölgar í góðum hópi bloggvina. Nú er vinkona mín, Ólöf Nordal, verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, farin að blogga hér í vefsamfélaginu okkar og er auðvitað í hópi bloggvina, meira að segja í eðaldeildinni þar. Hvet alla til að líta í heimsókn á vefinn hennar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2007 | 12:04
Magni heldur á vit bandarískra tónlistarævintýra

Það að fá atvinnuleyfi í USA er stórmál, sérstaklega eftir 9/11, þó að alltaf hafi þeir hlutir verið flóknir. En þetta gekk allt að lokum og ferðin er hafin. Þetta er víst mikið prógramm. Það hlýtur að vera mjög strangt prógramm að vera á svona tónleikatúr satt best að segja. Ekki gert fyrir alla og sérstaklega ekki fjölskyldufólk. Hlýtur samt að vera alveg einstakt tækifæri fyrir þá sem virkilega unna tónlist og vilja tækifæri til að stimpla sig inn í harðkjarnabransann úti.
Það er reyndar helsta spurningin núna hvort að Magni fær það gott tækifæri út að hann vilji helga sig algjörlega svona hörðum bransa. Það er enda óravegur á milli þessa bransa og þess sem gerist og gengur á gamaldags sveitaballamarkaðnum hér heima á Íslandi. Vona annars að Magna gangi vel úti. Þetta er harður bransi sem hann heldur í, en hann er eflaust með þau sterku bein sem þarf í hann.
![]() |
Magni farinn til Bandaríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2007 | 08:50
Átökin innan Frjálslynda flokksins magnast

Það greinilega féll varaformanninum illa og hann talaði um að forystan í Reykjavík hefði klúðrað því að komast í meirihluta. Nú hefur Ólafur F. Magnússon svarað því í harðorðri yfirlýsingu þar sem að segir orðrétt: "Það er afleitt að vegið sé að flokkssystkinum með slíkum hætti og lítið gert úr störfum þess fólks sem af alúð hefur haldið á lofti málstað Frjálslyndra í borginni með miklum árangri á undanförnum árum."
Það stefnir í líflega helgi hjá frjálslyndum. Margir spyrja sig að því hvort að gróið geti um heilt milli aðila. Það er vandséð, enda hafa átökin verið mjög djúpstæð og harðvítug. Formaður flokksins er í harðri kosningabaráttu fyrir Magnús Þór og merkilegt að sjá hvernig hvernig hann geti verið sterkur formaður með varaformann sér við hlið sem hann hafi unnið gegn með áberandi hætti vinni Margrét. Ofan á allt annað blasir við að Sverrir Hermannsson eigi nafn flokksins og geti því jafnvel farið með það með sér ef flokkurinn klofnar tapi Margrét.
Framkvæmd landsþings frjálslyndra er merkileg vissulega. Ekki þarf kjörbréf til að sitja fundinn og því greinilega nóg að vera flokksbundinn til að mæta þar og kjósa. Þetta stendur því allt og fellur með smölun. Greinilegt er að grimmt verði smalað og erfitt að spá á hvorn veg þetta muni fara. Allavega verður fróðlegt að sjá á hvorn veg fer - umfram allt hvað gerist eftir kosninguna.
![]() |
Ósannindum um borgarstjórnarflokk Frjálslyndra mótmælt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2007 | 20:58
Frábær sigur íslenska liðsins á Túnis

Fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að þetta lið virki á mig ferskt og gott. Vonbrigðin eftir tap í leiknum við Úkraínumenn eru fjarri þessa stundina og sigurandinn eftir að við burstuðum Frakkana er enn ofarlega í huga. Held að þessi gleðiandi fylgi okkur langt fram í skammdegið sem er þessar vikurnar, en er hægt og rólega að gefa eftir.
Einn sem ég ræddi við sagði að Alli væri í stuði og þetta væri svona gleðiandi stemmningar líkt og var allsráðandi árin hans með KA-liðið þar sem gleði og kraftur voru algjört aðalsmerki. Er ekki fjarri því að svo sé. Alli er allavega að gera góða hluti og liðið er að fá á sig blæ sigursveitar. Öll gleðjumst við yfir því. Nú er það bara næsti leikur - næstu verkefnin.
Sigurvíman mun vonandi sveima áfram yfir liðinu og berast hingað heim í janúarstemmninguna. Ekki veitir af. :)
![]() |
Alfreð: Gríðarlega mikilvægur sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 20:31
Sigurjóni Ben hafnað á kjördæmisþingi

Sigurjón fjallar um þessa höfnun á kjördæmisþinginu í bloggfærslu á heimasíðu sinni og segir þar orðrétt: "Sjálfstæðisfélag Húsavíkur og nágrennis hafði samþykkt einróma að styðja mig til þess sætis svo ég taldi skyldu mína að láta á það reyna. Ekki veit ég hvaða horn Akureyringar hafa í síðu minni en ekki finn ég mikið fyir því í daglegu amstri en þeir eru afskapleg illa hyrndir og erfitt að átta sig á hvert hornin stefna. Friðrik Sigurðsson bóksali á Húasvík verður fulltrúi svæðisins (17% landsins) í 8. sæti og mega Þingeyingar muna sinn fífil fegurri á lista flokksins í kjördæminu. En svona er það bara. Ég óska listanum góðs gengis í kosningunum." Þetta eru vissulega nokkuð athyglisverð skrif og kennir hann greinilega liðsmönnum Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrum bæjarstjóra, um að hafa hafnað sér.
Ég hef starfað talsvert lengi í flokknum hér á svæðinu. Ég kannast við hvorugt þeirra; Ingibjörgu Ösp og Friðrik, en þau eru væntanlega nýliðar í flokknum. Mikla athygli vekur að enginn þeirra þriggja sem urðu neðar en í sjötta sæti í prófkjörinu er á framboðslistanum. Ég hef reyndar heyrt raddir um það eftir þingið að Björn Jónasson frá Siglufirði hafi íhugað að bjóða sig fram á listann á þinginu en hætt við það eftir að hann las í stöðuna. Sigurjón tjáir sig með þeim hætti að óánægja sé meðal Þingeyinga. Eflaust eru ekki allir sáttir. Halldór Blöndal var löngum fulltrúi Þingeyinganna, þeir litu á hann sem sinn kandidat, enda ræktaði hann baklandið þar vel. Skil vel að Þingeyingar séu ósáttir við sinn hlut, en svona er víst staða mála.
Það hefði verið fróðlegt að heyra orðaskipti á kjördæmisþinginu en mér skilst að nokkuð hvasst hafi verið þar á milli Sigurjóns og annarra sem tóku til máls. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvað Kristinn Pétursson gerir. Ef marka má kjaftasögurnar horfir hann til framboðs með Frjálslyndum. Veit ekki hvort svo verður er á hólminn kemur. En það hefur greinilega verið líf og fjör í Mývatnssveit á þessu kjördæmisþingi ef marka má þá sem ég hef heyrt í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2007 | 17:10
Útlit fyrir spennandi álverskosningu í Firðinum

Þetta er allavega minni munur en ég átti von á, en það hefur verið beðið eftir þessari könnun í nokkurn tíma. Ég tel að það verði mikil spenna vegna þessarar kosningar og greinilegt að útlit er fyrir minni mun en áður var talið, altént ef marka má þessa könnun. Mikla athygli mína vekur reyndar að kosið verði ekki um stækkunina samhliða alþingiskosningunum þann 12. maí, en þess í stað kosið rétt rúmum mánuði áður, viku fyrir páskahátíðina.
Það er greinilega mat meirihluta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að þetta mál þurfi að klárast fyrir lokasprett kosningabaráttunnar til Alþingis, sem hefst strax eftir páskana. VG í Kraganum ætlar greinilega að setja þetta mál vel á dagskrá og er komin með Ögmund Jónasson, þingmann Reykvíkinga í tólf ár, sem leiðtoga sinn og málsvara í kosningabaráttunni. Það blasir við að þetta verður meginumræðuefnið í kjördæminu næstu vikurnar - mikil spenna vofir yfir málinu.
Ef marka má þessa könnun verður þetta lífleg barátta og munurinn milli fylkinga minni, altént en ég átti von á. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þetta fer er á hólminn kemur.
![]() |
51% andvíg stækkun álvers samkvæmt könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 16:37
...að vera næstum því étinn af hákarli

Hvíthákarlinn varð sennilega frægastur í víðfrægri kvikmynd meistara Stevens Spielbergs fyrir rúmum þrem áratugum, Jaws. Þar sjáum við hvernig ógnin af hvíthákarli vofir yfir íbúum strandbæjar sem stendur og fellur með ferðamannaparadis við sjóinn. Ógnin af hákarlinum eykst stig af stigi alla myndina.
Það er sennilega rétt að horfa á Jaws í kvöld.... og rifja upp stemmninguna. Held að það muni líða á löngu þar til að ástralski kafarinn setur Jaws í DVD-spilarann sinn.
![]() |
Telja að hákarlinum hafi þótt kafarinn vondur á bragðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 16:23
Höllu sem formann KSÍ

Það þarf að hugsa nýja tíma í boltanum og mér finnst Halla sá boðberi nýrra tíma sem ég vil allavega sjá. Mikilvægt að fá formannsefni úr nýrri átt og hefja nýja sókn fyrir boltann.
Valið er því einfalt - Áfram Halla!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 14:32
Óvinsæll forseti á pólitískum hættuslóðum

Daginn áður en ræðan var flutt birtist skoðanakönnun sem sýndi að forsetinn er einn sá óvinsælasti í sögu landsins. 2/3 hlutar landsmanna hafa misst traust og trú á forystu hans og telja honum hafa orðið á. Það er greinilegt að lokasprettur forsetaferilsins verður honum erfiður og viðbúið að brátt syrti í álinn milli demókrata og repúblikana. Aðeins einu sinni hefur Bush beitt neitunarvaldi gegn lögum frá þinginu á forsetaferlinum - viðbúið er að brátt verði sá réttur meira notaður og baráttan milli þings og forseta beitt.
Greinilegt er að forsetinn leggur sérstaka áherslu á að þingið gefi hinni nýju hernaðaráætlun sinni og Bob Gates, varnarmálaráðherra, færi á að sanna sig og verða sett í framkvæmd af krafti. Viðbúið er að demókratar sætti sig ekki við fjölgun hermanna í Írak og auka stríðsreksturinn þar eins og staðan er orðin. Greinilegt var að forsetinn talaði einmitt sérstaklega til demókrata í ræðunni - einkum er vikið var að Írak, en ekki síður í innanríkismálum. Kaflinn um utanríkismálin var þó meira áberandi og greinilegt að forsetinn hvikar hvergi frá stefnu sinni. Hann leggur þó áherslu á gott samstarf milli aðila.
Hætt er við að valdasambúðin verði erfið, tekist verði á um öll meginmál stefnuáætlunar forsetans, enda er engin heil brú þar milli demókrata og repúblikana. Greinilegt var að Bush talaði vel til Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, sem varð fyrst kvenna forseti fyrir tuttugu dögum, þann 4. janúar sl, og reynir að lægja öldur. Það sást enda vel að þónokkuð var klappað fyrir forsetanum meðan að hann hélt sig við innanríkismálin og Pelosi (sem sat ásamt Cheney varaforseta aftan við forsetann) þótti vera glaðleg og hress að sjá fyrri hluta ræðunnar en þegar að leið á þyngdist brúnin á Pelosi talsvert og klappið minnkaði umtalsvert í salnum.
Ég horfði á ræðuna í heild sinni á Sky. Fannst hún athyglisverð. Bush stóð sig ágætlega við að flytja hana. Stóri vandi hans nú er tvíþættur; hann hefur misst tiltrú landsmanna og hann hefur ekki þingið á bakvið sig lengur. Hann er því mun einangraðri sem forseti en margir forvera sinna. Sumir forsetar hafa getað sætt sig við að hafa þingið ekki með sér en eiga mun erfiðar með að segja sína skoðun vitandi að þjóðin fylgir honum ekki eftir. Það er þung byrði að bera - þá byrði ber Bush nú, jafnvel allt til loka forsetaferilsins, hver veit? Allavega hefur mjög þyngst yfir honum sem forseta, það hefur mjög margt breyst.
Bush forseti veit vel að pólitísk arfleifð hans ræðst mikið af því hvernig fer á næstu 23 mánuðum, það sem eftir lifir valdaferilsins. Hann veit að demókratar ráða þinginu og virðast hafa almenningsálitið með sér. Merki þess að hann hefur veikst verulega sést í því hversu snemma kosningabaráttan um val á eftirmanni forsetans hefst. Það er jafnan sterkt merki þess hvort forseti sé sterkur eða veikur. Öll vitum við hvað er að gerast núna. Baráttan um Hvíta húsið er þegar hafin með afgerandi hætti.
Nú veltur allt á hvernig að Bush gengur að vinna með demókrötum. Hann vann með þingi undir yfirráðum demókrata í Texas meðan að hann var ríkisstjóri þar. En nú er þolraunin erfiðari - jafnframt um meira að tefla. Hann mun eiga erfitt í þessari stöðu. Það að vera stríðsforseti í vonlausu stríði er ekki fallið til vinsælda. Öll munum við eftir Lyndon B. Johnson, ekki satt?
![]() |
Bush kallar eftir samstöðu varðandi hernaðarátökin í Írak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 12:17
Kosið um umdeilda álversstækkun í mars
Það er nú ljóst að kosið verður um stækkun álversins í Straumsvík þann 31. mars, rétt fyrir páskana og rúmum mánuði fyrir alþingiskosningar. Þetta er merkileg tímasetning og greinilega valin til að þetta mál verði ekki grunnmál stjórnmálanna á svæðinu á lokaspretti kosningabaráttunnar. Það má búast við áherslumun og átökum um stækkunina. Hún er nú þegar orðin umdeild í huga fólks á svæðinu og sitt sýnist hverjum.
Það er öllum ljóst að stækkunin og kosningin verða einn af meginpunktum kosningabaráttunnar í vor í Suðvesturkjördæmi. Þess má sjá greinilega stað með vali vinstri grænna á Ögmundi Jónassyni sem leiðtoga sínum í kjördæminu, en lista Samfylkingarinnar leiðir hinsvegar Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og einn af arkitektum veldis Samfylkingarinnar í bænum. Það má því búast við einhverjum núningi um þetta mál.
Tímasetning kosningarinnar gerir það að verkum að meginþungi umræðunnar verði búinn fyrr en ella. Sitt sýnist hverjum. Þarna virðast áherslur ekki fara eftir flokkslínum. Fannst mjög athyglisvert að sjá Vilborgu Gunnarsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, skrifa greinar og tjá sig um mál álversins á svæðinu nýlega eftir fræga gjöf á disk Bo Hall til bæjarbúa í Hafnarfirði. Þar tjáði hún með beittum hætti skeptíska sýn á stækkunina.
En þetta verður áhugaverð kosning - vissulega merkilegt að bæjarbúar fái að ráða því sjálfir hvað gerist með deiliskipulagstillöguna. Heldur verður að teljast að vindar blási gegn henni og að óbreyttu spái ég þeirri niðurstöðu þann 31. mars.
![]() |
Íbúakosning í Hafnarfirði 31. mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2007 | 00:29
Margrét Sverris heldur sínu striki

Meginátök í flokknum eru orðin mjög djúpstæð - það blasir við öllum. Fylkingarnar eru afgerandi til staðar. Þetta er vissulega mjög athyglisverð rimma sem blasir við. Þetta er fylkingabarátta um áhrifasess, mjög mikilvægan, innan flokksins. Það sem tapar verður verulega snuprað, hitt styrkist auðvitað. Formaðurinn mun auðvitað verða mjög vandræðalegur tapi frambjóðandi hans svo að þetta er undarleg staða. Falli varaformaðurinn situr formaðurinn enda uppi með næstráðanda í flokknum sem hann kærir sig ekkert um. Átökin verða sífellt greinilegri.
Í kvöld mættust Margrét og Magnús Þór í Kastljósinu. Merkileg rimma. Var óvenju settleg vissulega en undir niðri kraumaði ólga. Það er merkilegt hvernig að Magnús Þór er að vega að Margréti með ómaklegum hætti, dragandi upp stöðu mála í borginni eftir kosningarnar síðasta vor og lætur að því liggja að Margrét hafi svona fengið að vera með og fengið áhrif vegna þess að hún hafi verið þeim góð, svona að þeir hafi hugsað til hennar. Þetta er merkilegt attitude í manni sem greinilega er ekki of viss um sitt gengi. Reyndar er það fyrir löngu alþekkt vörumerki Magnúsar Þórs að níða sem mest skóinn af andstæðingum sínum með því að tala illa um það og vega að því með ýmsum hætti.
Það er greinilegt að Margrét ætlar að reyna að haldast á siðlegu plani, en hefur fengið nóg. Skil það vel. Datt inn á Útvarp Sögu um daginn og þvílíkur orðaflaumur sem þar gengur um Margréti og föður hennar. Blöskraði þetta alveg. Er þetta orðið að Útvarpi Nýtt afl? Merkilegt vissulega. Fannst mjög athyglisvert að hlusta á þessa stuttu stund. Hafði reyndar lítinn áhuga á þættinum sem ég datt inn í og ekki get ég sagt að boðskapurinn hafi heillað mig. Mér finnst Margrét hafa unnið þessum flokk gagn og verið öflug í hans garð og lagt sig alla fram. Metnaður hennar er mjög skiljanlegur eftir allt sem hún hefur lagt fram. Það kemur engum að óvörum að hún vilji nú sækja fram til forystu.
Það er athyglisvert að lesa skrif Sigurlínar Margrétar varaþingmanns. Það er greinilegt að hún spáir á vef sínum í innkomu fyrrum óháða þingmannsins sem áður kom inn á þing sem annar varamaður Guðmundar Árna Stefánssonar er hann varð sendiherra í Svíaríki. Eins og ég sagði í nóvember fór hann til frjálslyndra. Hann vill leiðtogastól. Skil vel pælingar Sigurlínar Margrétar ef að hún sér á eftir leiðtogastól að henni sárni fari hann til þessa manns sem greinilega er kominn inn til frjálslyndra á einhverjum díl um leiðtogastól. Það blasir við öllum sem fylgjast með pólitík. Sigurlín Margrét er heiðarleg og öflug er hún skrifar um þetta mál.
En spennandi rimma framundan fyrir Frjálslynda. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að rimman um varaformennskuna fer og hvort þeirra standi eftir sem sigurvegari og hvort muni tapa kosningunni. Það mun verða erfitt fyrir þann sem tapar og viðbúið að sviptingar verði þarna innbyrðis sama hvernig fer er á hólminn kemur.
![]() |
Margrét Sverrisdóttir býður sig ekki fram til formanns Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 19:25
Alli Gísla og landsliðið að gera góða hluti
Leikur gegn Túnis á morgun - mikið stuð framundan. Leitt að geta ekki farið til Þýskalands - freistandi var það svo sannarlega. Alli Gísla er að gera góða hluti með liðið. Leikgleðin og krafturinn einkenndi allt fas liðsins í gær - þetta er lið sem getur farið langt. Fróðlegt væri að sjá þetta fræga myndband sem allir tala um. Merkilegar sögur af því vægast sagt.
Alfreð mun vonandi gera liðið að sannri sigursveit á HM í Þýskalandi. Hann er vissulega einn öflugasti handknattleiksmaður Íslands á 20. öld og varð íþróttamaður ársins 1989, á hátindi atvinnumannaferils síns. Alli Gísla hóf feril sinn hér heima á Akureyri með KA og spilaði þar til að hann hélt út.
Hann kom aftur heim er atvinnumannaferlinum erlendis lauk árið 1992 og varð þjálfari KA í handbolta og leiddi liðið til bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitils áður en hann hélt til Þýskalands í þjálfun. Hann veit hvað þarf til að sigla rétta leið og þekkir sigurtilfinningu sem leikmaður og þjálfari. Hann mun vonandi gera liðið að ógleymanlegri sigursveit nú og leiða liðið í átta liða úrslitin.
![]() |
HM: Myndbandi Alfreðs og Ólafi hrósað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 18:08
Sögulegar vendingar hjá Óskarsverðlaununum

Meryl Streep er tilnefnd í fjórtánda skiptið fyrir kvikmyndaleik, fyrir The Devil Wears Prada - enginn leikari í sögu verðlaunanna hefur hlotið fleiri. Hún sló met Katharine Hepburn, sem hlaut tólf, er hún var tilnefnd fyrir Adaptation árið 2003. Verulega athygli mína vekur að Jack Nicholson var ekki tilnefndur fyrir The Departed, en tilnefning hans hefði jafnað frægt fyrrnefnt met Kate Hepburn, en Nicholson hefur hlotið óskarinn þrisvar (oftast karlleikara) og verið tilnefndur ellefu sinnum, sem er það mesta í tilfelli karlleikara í 80 ára sögu akademíunnar.
Ýmislegt annað vekur mikla athygli. Merkilegt er að þrír blökkuleikarar; Forest Whitaker, Jennifer Hudson og Eddie Murphy, eigi raunhæfa möguleika á leikverðlaunum, en öll eru þau nú talin sigurstranglegust í sínum flokkum. Það yrði vissulega magnþrungið ef Eddie Murphy fengi uppreisn æru sem leikari eftir floppkenndan feril síðustu ára og fengi Óskarinn. Flestir þekkja hann fyrir smelli á borð við Beverly Hills Cop, Trading Places og 48 Hours. Sigur fyrir dramaframmistöðu hans sem soul-söngvarans í Dreamgirls myndi blása lífi í feril hans. Sigur Hudson yrði líka merkilegur í ljósi þess að henni mistókst að sigra Idolið árið 2004. Öllum er ljóst að hún er nú orðin víðþekkt stjarna.
Auk þessa eru þrjár breskar leikkonur tilnefndar í flokki aðalleikkvenna; Dame Judi Dench, Dame Helen Mirren og Kate Winslet. Flestir hafa talið Mirren nær örugga með sigur í The Queen, fyrir túlkun sína á Elísabet II Englandsdrottningu. Fjöldi leikkvenna frá Bretlandi gæti styrkt stöðu Meryl Streep og Penelope Cruz, sem fær tilnefningu fyrir Volver. Það er svo sannarlega sjaldgæft að leikkona í mynd án ensks tals fái tilnefningu. Margir hafa reyndar lengi beðið eftir að Cruz fái þennan heiður - eflaust mikil gleði á Spáni með það að Cruz sé tilnefnd fyrir túlkun sína í þessari mynd meistara Almodovars. Það yrði merkilegt ef Streep myndi vinna. Það yrði í þriðja skiptið; hefur unnið fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. En flestir veðja á Mirren.
Peter O´Toole fær nú sína áttundu aðalleikaratilnefningu; að þessu sinni fyrir að leika gamla vitringinn í Venus. Yndislegt kombakk segja gagnrýnendur. O´Toole hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, fágaður og flottur breskur leikari með mikla nærveru. Hann hefur aldrei unnið; fékk ekki verðlaunin fyrir óglemanlegar leikframmistöður í Lawrence of Arabia, The Ruling Class, The Lion in Winter og Becket. Hann fékk fyrir fjórum árum heiðursverðlaun þegar að flestir töldu fullreynt með að hann ynni þau á annan hátt. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú. Hann hlýtur að teljast sigurstranglegur, en sennilega er Forest Whitaker nær sigri fyrir glæsilega túlkun á Idi Amin, einræðisherranum frá Úganda í The Last King of Scotland. Þetta verður á milli þeirra.
Það stefnir í spennandi verðlaunaafhendingu. Vona umfram allt að Martin Scorsese fái núna loks leikstjóraóskarinn. Fyrst að Bill Condon er ekki tilnefndur fyrir Dreamgirls, eins ótrúlegt og það hljómar, hlýtur Scorsese að vinna. Alejandro González Iñárritu er vissulega líklegur til að geta átt séns á þessu fyrir Babel en fái meistarinn frá New York ekki óskar núna er æði líklegt að hann vinni aldrei. Hann hefur aldrei unnið; verið tilnefndur fyrir Raging Bull, Goodfellas og Aviator svo fátt eitt sé nefnt. Skandall ef hann fær ekki styttuna núna. Enn og aftur er Eastwood tilnefndur, en hann hefur unnið tvisvar svo að ekki fær hann verðlaunin fyrir Letters from Iwo Jima.
Bendi annars á tilnefningarnar svo að lesendur geti kynnt sér þær betur. Á eftir að pæla enn meira í þessu síðar. Fróðlegt hvernig fer og ég á eftir að rita meira um þetta. Er reyndar enn að meðtaka það að Dreamgirls fái þennan mikla heiður frá akademíunni og sé svo samhliða þeim heiðri snubbuð um bæði kvikmynda- og leikstjóratilnefningu. Sögulegt er það - sannkallaður súrsætur heiður. En meira um þetta síðar. :)
![]() |
Dreamgirls fær flestar Óskarstilnefningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 13:25
...til háborinnar skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Þó að trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins hafi slegið skjaldborg utan um Árna og stöðu hans í stjórnmálum get ég ekki tekið undir þá ákvörðun. Ég er mjög ósáttur með það hvernig að þetta mál þróast og tel alveg óviðunandi að maður með fortíð Árna, sem greinilega sér ekki eftir einu né neinu fari aftur á þing. Ég er fjarri því ánægður með pólitíska endurkomu Árna. Hafi hún verið óviðeigandi eftir að hann fékk uppreist æru með athyglisverðum hætti varð hún að mínu mati enn meira óásættanleg þegar að hann nefndi lögbrot sín fyrir sex árum því afar óviðeigandi heiti; tæknileg mistök.
Ég hef unnið í Sjálfstæðisflokknum í mjög langan tíma, lagt mikið af mörkum í innra starfinu þar og lagt mig fram um að tala máli flokksins. Ég er að upplifa svolítið hik í garð flokksins vegna þessa máls, ég get ekki neitað því. Mín skrif hafa verið nokkuð afgerandi í þessu máli. Það varð að vera. Ég tók þá afstöðu að ég gæti ekki horft þegjandi á stöðu málsins eins og hún hefur verið. Það varð að tala án hiks og láta vaða í þá átt að segja að þetta væri óviðunandi. Ég sé ekki eftir því. Mér finnst þetta mál allt til háborinnar skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur ekkert batnað yfir því. Mér finnst þetta óásættanlegt og get ekki þagað yfir því. Það er mjög einfalt mál.
Ég hafði lengi þá von í brjósti að forysta Sjálfstæðisflokksins myndi reyna að afstýra því að svona færi. Það gerðist ekkert í því. Hendur forystunnar eru vissulega mjög bundnar væntanlega, en það breytir samt ekkert því að þetta mál hefur skaðað flokkinn. Það hefur skaðað kjarna þeirra sem heiðarlegast hafa unnið fyrir flokkinn og lagt kraft í þau verkefni. Ég er einn þeirra sem er mjög hugsi yfir þessu. Ég á ekki mjög auðvelt með að skrifa undir þá samþykkt að Árni fari aftur á þing og sé frambjóðandi í nafni flokksins. Þetta er eitthvað sem ég get ekki skrifað undir og við það situr. Það er afgerandi ákvörðun mín.
Menn verða að íhuga næstu skref mjög vel. Ég fer ekki dult með þá skoðun að þessi pólitíska endurkoma Árna sitji mjög í huga fólks um allt land. Það er því mjög líklegt að endurkoma hans muni verða áberandi í umræðu um allt land. Ég veit mjög vel að svo er. Það er enginn vafi á því. Ég efast stórlega um að ég sé einn um þessa skoðun. Þetta er skoðun margra. Ég hef tekið þá afstöðu að ég ætla ekki að skipta um skoðun í þessu máli.
Það að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi hafi markerað þessa niðurstöðu mun ekki breyta því að ég tjái andstöðu mína við framboð viðkomandi manns af fullum krafti áfram.
23.1.2007 | 12:36
James Bond loksins leyfður í Kína

Segir þetta meira en mörg orð um forræðishyggju stjórnvalda í Peking. Fyrir nokkrum mánuðum bönnuðu stjórnvöld þar sýningu á mynd meistara Martin Scorsese, The Departed, þar. Allar myndir eru síaðar fyrir almenning. Myndir sem þykja boða óæskileg áhrif eru bannaðar og fá ekki dreifingu af neinu tagi í landinu. Ekki er óalgengt að jafnvel þekktar myndir, t.d. með óskarsverðlaunastimpli eða aðrar víðfrægar myndir, sé haldið frá kínverskum almenningi.
Það fylgir sögunni að forsvarsmenn Sony Pictures í Kína séu alsælir að þurfa ekki að klippa myndina til að hún fáist sýnd. Þvílíkur molbúaháttur hjá kínverskum stjórnvöldum, nú sem fyrr.
![]() |
Casino Royale fyrsta Bond-myndin sem sýnd verður í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 11:49
Verður Helen Mirren drottning Óskarsins?

Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París. Þeir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Mér fannst kvikmyndin Queen vera alveg gríðarlega góð. Áhrifarík og sterk mynd, gríðarlega vel leikin fyrst og fremst. Hún væri ekkert án leikframmistöðu Helen Mirren sem er þungamiðja myndarinnar. Reyndar var ég um daginn að kaupa mér myndina en hún er nú komin út á DVD.
Það er svo sannarlega kominn tími til að Helen Mirren fái óskarinn. Hún er ein besta leikkona Breta og hefur verið það til fjölda ára. Frammistaða hennar í hlutverki Jane Tennison í sjónvarpsmyndunum Prime Suspect voru sennilega það fyrsta sem ég sá með henni. Þeir þættir voru hreinræktuð snilld og ég horfi á þá reglulega, með því allra besta úr bresku sjónvarpi (ef Morse og Taggart (McManus) er meðtalið). Nýlega var síðasti hlutinn um Tennison sýndur á Stöð 2 og missti ég ekki af honum. Sennilega sá besti í röðinni í háa herrans tíð.
Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í hlutverki Charlotte drottningar árið 1994 í hinni stórfenglegu The Madness of King George. Ég horfði einmitt nýlega aftur á þessa eðalmynd. Sir Nigel Hawthorne (sem sló í gegn sem ráðuneytisstjórinn útsjónarsami í Yes Minister og Yes Prime Minister) átti þar leik ferilsins sem hinn örlítið klikkaði kóngur. Samleikur þeirra var hreinasta unun og þessi mynd hefur fyrir löngu öðlast góðan sess í kvikmyndahillunni minni.
Ekki var Mirren síðri í Gosford Park, Robert Altmans, árið 2001. Þá átti hún auðvitað að fá óskarinn fyrir hina eftirminnilegu túlkun á ráðskonunni "fullkomnu" Frú Wilson. Þessar myndir klikka aldrei. En nú er væntanlega komið að sigurstund Helen Mirren í Los Angeles. Það hefur unnið gegn henni hingað til að vera bresk og með aðrar rætur í Hollywood en bandarískar leikkonur sem þar hafa hirt verðlaunin í bæði skiptin sem hún var tilnefnd áður.
Það má mikið vera að ef Helen Mirren fer ekki létt með að fá óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu, sem allir kvikmyndagagnrýndur hafa lofsungið síðustu mánuðina. Þar var ekki feilnóta slegin á neinu stigi. Verður allavega fróðlegt að sjá tilnefningarnar í dag.
23.1.2007 | 00:55
Nú er sko rosalega freistandi að fara til Þýskalands!

Það var allavega stuð í kvöld þar sem ég var og maður var að upplifa gömlu dagana sem voru t.d. á B-mótinu 1989 og HM 1997. Það var svo sannarlega himinn og haf milli þess sem gerðist í leiknum í kvöld og á móti Úkraínumönnum sólarhring áður. Vonleysi var meðal landsmanna eftir leikinn og margir voru það svartsýnir að telja allt búið.
En þvílíkt stuð - liðið kom aftur af fítonskrafti og keyrði sig í magnaðan sigur. Aldrei vafi á hvoru megin sigurinn myndi falla. Leikgleðin og krafturinn skein í gegnum íslenska liðið, dagsskipunin þar hjá Alla Gísla var sigur og ekkert annað en það. Strákunum tókst að landa honum. Staða okkar breyttist í einu vetfangi. Nú eigum við og getum farið mun lengra. Sigur gegn Frökkum opnar margar dyr og nú er að nýta tækifærin. Það er allt hægt með þessa leikgleði í farteskinu og strákarnir sýndu þjóðinni í kvöld að þeir hafa allan kraft til að ná langt nú.
En ferð til Þýskalands nú er svo sannarlega freistandi, get ekki sagt annað sko.
![]() |
Alfreð: Við höfðum engu að tapa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2007 | 20:52
Glæsilegur íslenskur sigur í Magdeburg!

Ég var vonsvikinn með liðið og stöðuna eftir leikinn í gær - vonaði það besta og óttaðist það versta. En sigur er staðreynd. Það sjá allir sem horfðu á leikinn í kvöld að við getum komist langt og við setjum, nú sem ávallt fyrr, markið mjög hátt. Allavega er ljóst að Alli Gísla og liðið geta farið mjög langt á þeim glæsibrag sem við sáum í kvöld.
Markið er sett á átta liða úrslit, einfalt mál! Verður gaman að fylgjast með milliriðlinum. Það var bömmer í gær en gleði í kvöld.
![]() |
Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.1.2007 | 16:52
Er Ingibjörg Sólrún runnin út á pólitískum líftíma?

Það er greinilega mikil skelfing hlaupin á flokksmenn yfir stöðunni, það vekur mikla athygli að þegar eru farnar að heyrast raddir um það innan úr Samfylkingunni að Ingibjörg Sólrún geti ekki komið sem sigurvegari með flokkinn út úr þessum kosningum. Það myndi þurfa hvorki meira né minna en ótrúlegasta pólitíska kombakk síðan að Halldóri Ásgrímssyni tókst að komast inn á þing í sínum síðustu alþingiskosningum sem frambjóðandi við annan mann í Reykjavík norður. Það virðist vera sem að Ingibjörg Sólrún sé komin í sína erfiðustu pólitísku baráttu - kannski þá síðustu, hver veit?
Orðrómur þeirra sem hvað mest hafa stutt Össur er klárlega með þeim hætti núna að fullreynt sé með Ingibjörgu Sólrúnu nái flokkurinn ekki góðri kosningu í þingkosningunum eftir fjóra mánuði. Kannanir nú sýna vondu stöðu víða og hvergi mælist Samfylkingin með yfir 30% í kjördæmunum. Ingibjörg Sólrún varð formaður fyrir tæpum tveim árum undir merkjum þess að flokkurinn væri ekki búinn að ná hæstu hæðum - hún væri sú hin eina rétta til að snúa við stöðu mála. Eftir að Össuri var hnikað til fyrir svilkonu sína hefur hinsvegar saga flokksins orðið hrakfallabálkasaga hin mesta og ekkert gengið upp.
Ingibjörg Sólrún hefur fengið á sig táknmynd hins sigraða, þvert á það sem var á níu ára borgarstjóraferli hennar í Reykjavík. Hún virðist ekki fúnkera vel við þær aðstæður með blæ lúsersins á brá. Það er merkilegt að sjá suma holla krata innan Samfylkingarinnar vera að tala í fullri alvöru um það nú hver eigi að vera næsti formaður flokksins og það fjórum mánuðum fyrir alþingiskosningar - jafnvel að skipta fyrir kosningarnar sjálfar! Það er greinilegt að margir eru búnir að gefa upp vonina með formanninn, það er kannski varla undur með flokkinn að mælast í rétt rúmum 20% og með 14 þingsæti, sex færri en í kosningunum 2003.
Það virðist að duga eða drepast fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Hún er ekki öfundsverð af sinni stöðu eins og nú er komið málum. Flokkurinn í frjálsu falli og hún sem átti að gera Samfylkinguna að leiðandi afli í takt við norræna jafnaðarmannaflokka. Það stefnir í eitthvað allt annað heldur betur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)