28.1.2007 | 16:44
Viðtal og viðbrögð - pólitísk iðrun Árna

Ég sé ekki eftir einu né neinu - hreint út sagt. Það sem ég tjáði í þessu viðtali eru skoðanir sem birst hafa hér á þessum bloggvef mjög oft. Þær eru afgerandi í huga mér og ég mun ekki hylja þær. Ég gekk ekki í Sjálfstæðisflokkinn til að afsala mér málfrelsi mínu og ég er ekki persóna sem gleypi einhverjar standard-skoðanir sem ég get ekki varið út í frá. Ég hef fyrir löngu sagt mínar skoðanir í þessu máli. Það er alveg ljóst að ég er ekki þannig gerður að ég leyni mínum hug og þessi vefsíða er vettvangur skrifa útfrá mínum pælingum.
Ég get ekki stutt það sem mér er á móti skapi og ekki heldur varið eitthvað sem er í hjarta mér rangt. Þetta mál er eitt þeirra sem gerast innan Sjálfstæðisflokksins sem ég get með engu móti varið og ég tjáði mig og endurtók þær skoðanir. Hafi einhver talið þetta harkaleg viðbrögð finnst mér svo ekki vera. Mér fannst þetta vera frekar væg útgáfa alls sem ég hef skrifað. Heilt yfir fylgi ég hjartanu. Þó að ég hafi verið nokkurn tíma í virkum störfum innan Sjálfstæðisflokksins og lengi unnið honum gagn í innra starfinu get ég ekki skrifað upp á allt sem gerist þar innanborðs.
Heilt yfir er ég sáttur við þetta viðtal. Mér fannst reyndar áherslan um orðið athyglisvert hvað varðar uppreist æru merkilega mikið. Það orð var valið til að lýsa því að handhafarnir tóku þetta verkefni að sér. Það fannst mér óheppilegt í ljósi þess að Árni var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þetta hefði átt að vera sett í verkahring forsetans. En það er ekki stóra málið. Endurkoma Árna í þingflokkinn var ekki verk handhafanna. Það voru flokksmenn á Suðurlandi og Reykjanesi sem unnu að því. Það er ég ósáttur við.
Árni er í viðtali í Blaðinu í gær. Hann segist iðrast. Ég veit ekki orðið hvað skal segja um þetta mál. Árni átti að hugsa út í iðrun og eftirsjá afbrota sinna, sem voru stóralvarlegs eðlis, áður en hann valdi orðin tæknileg mistök til að lýsa því af hverju hann hrökklaðist af þingi fyrir sex árum. Eftir stóðu orð sem eru og verða alltaf óviðunandi. Ég hef allavega gert hreint fyrir mínum dyrum og komið vel fram skoðun minni - talað hreint út. Mér líður mun betur núna hafandi komið þvi vel á framfæri!
28.1.2007 | 15:02
Jón Baldvin segir Ingibjörgu Sólrúnu hafa mistekist

Ég man ekki eftir Jóni Baldvini svona kraftmiklum og lifandi síðan að hann var utanríkisráðherra á tímum GATT og tollapælinganna. Þegar að ég byrjaði eitthvað að spá í pólitík var Jón Baldvin utanríkisráðherra í stjórn Davíðs Oddssonar. Hann talaði þá af krafti. Ég var ekki alltaf sammála honum, en ég virti að hann hafði afgerandi skoðanir og pælingar hans voru lifandi. Það met ég í fari stjórnmálamanna, hreint út sagt. Það er þetta sem hefur vantað í fari Ingibjargar Sólrúnar og greinilegt að Jón Baldvin telur fullreynt að hún nái þeim stalli í vor. Þetta eru gríðarleg pólitísk tíðindi að mínu mati - hreint út sagt.
Það að eðalkrati og afgerandi vitringur á vinstrivængnum tali svona er mjög merkilegt - þetta eru mikil tímamót á vinstrivængnum. Þetta má túlka sem lokaviðvörun til formanns Samfylkingarinnar um að hysja upp um sig buxurnar og reyna að bjarga því sem bjarga verður. Jón Baldvin virðist ekki ánægður með stöðu Samfylkingarinnar, sem skiljanlegt er. Honum var þungt í huga yfir Samfylkingunni og virðist til í allt ef marka má þetta. Greinilegt er að hann vill þungavigtarfólk til framboðs og lýsir yfir frati á nær óbreytta framboðslista Samfylkingarinnar um allt land.
Fyrir nokkrum árum var Jón Baldvin einn öflugasti stuðningsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og baráttumaður þess að hún leiddi Samfylkinguna. Í dag gagnrýnir hann hana og lýsir Samfylkingunni sem tilraun mistaka við að stofna ráðandi flokk í pólitíska litrófinu. Merkileg tímamót eru þetta! Er annars Ingibjörg Sólrún ekki búin að vera? Það verður varla sagt annað í stöðunni eftir eldmessu Jóns á Stöð 2 eftir hádegið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.1.2007 | 13:51
Skrípaleikur Frjálslyndra

Talað er um viðveru formanns við kjörkassa, ringulreið, greiðslu á flokksgjöldum, talningu og birtingu talna. Sérkennilegast í þessu varaformannskjöri hlýtur að teljast að eftir að úrslit í varaformannskosningunni höfðu verið tilkynnt opinberlega á fundinum þá kom í ljós að ekki höfðu öll atkvæði í kosningunni verið talin. Úrslitin sem eru t.d. í bloggfærslu hér neðar á síðunni sem opinber úrslit voru það ekki, því enn átti eftir að telja atkvæði. Það eitt og sér segir mikið um framkvæmd kosningarinnar, sem hefur verið mjög bogin og vægast sagt sérkennileg að mörgu leyti.

Þetta ber allt einkenni undarlegs ástands í flokki. Reyndir fjölmiðlamenn hafa eflaust fallið í stafi við að sjá framkvæmdina. Margrét Sverrisdóttir ætlar að kæra framkvæmd kosningarinnar - hún segir liðsmenn Nýs afls hafa keypt atkvæði inn á landsþingið fyrir hundruð þúsunda króna. Margrét ætlar að hitta nánustu stuðningsmenn sína á fundi á morgun og þá mun staða hennar verða metin. Ekki virðast margir kostir fyrir hana aðrir en að yfirgefa flokkinn, sem faðir hennar stofnaði fyrir áratug.
Það er enginn vafi að Frjálslyndi flokkurinn sé klofinn, Nýtt afl, sem gárungar kalla Hvítt afl, virðast hafa tekið flokkinn yfir. Margrét hefur sagt að á nafnalistum sem stuðningsmenn Magnúsar Þórs hafi dreift áður en kjör í helstu embætti fór fram hafi helmingur nafnanna verið fólk úr Nýju afli. Sem eitt dæmi um þessi vinnubrögð hefur Margrét nefnt að kona sem verið hafi í flokknum í viku hafi verið kjörin ritari flokksins á meðan að kona sem lengi hafi starfað fyrir Frjálslynda flokkinn hafi verið hafnað í ritarakjörinu. Flokkurinn virðist margklofinn og skaddaður - vandséð hvernig geti í raun gróið um heilt.
Smalamennska, ringulreið og glundroði virðast ætla að verða eftirmæli átakaþings Frjálslynda flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Ekki virðist fagmannlega hafa verið haldið á skipulagningu. Störf þingsins minntu illilega á öngþveiti á brunaútsölu frekar en pólitískt starf. Kostulegt með að fylgjast eiginlega í sannleika sagt. En nú velta allir vöngum yfir stöðu Margrétar og framtíð hennar í stjórnmálum.
![]() |
Kolbrún Stefánsdóttir kjörin ritari Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2007 | 23:20
Góð lög áfram í Eurovision - betri pakki en síðast!

Jónsi og Friðrik Ómar eru báðir Eyfirðingar, svo að við getum bara verið nokk sátt hér fyrir norðan með að þeir hafi komist áfram. Jónsi er auðvitað héðan frá Akureyri, við erum jafnaldrar og leiðir okkar hafa legið saman. Feður okkar voru saman í sundi í denn tid og auk alls annars býr Vala, systurdóttir mín og litla fjölskyldan hennar, í kjallaranum hjá Snæbirni og Liv, foreldrum Jónsa, í Steinahlíðinni úti í þorpi. Jónsi fór út í Eurovision árið 2004 með lagið Heaven eins og flestir muna eflaust eftir.
Friðrik Ómar og ég þekkjumst frá því í denn á Dalvík. Hann hefur sífellt verið að bæta sig í tónlistinni og stendur sig vel. Fólkið útfrá og við öll hér reyndar getum verið stolt af framgöngu hans. Ekki hefði mér órað fyrir fyrst þegar að ég kynntist Frikka að hann ætti eftir að enda í Eurovision sem mögulegt efni í okkar nafni á erlendri grund en það hefur lengi verið ljóst að vegur hans væri í tónlistinni. Þar gengur honum líka vel. Flott lag með honum. Svo var auðvitað meistarinn Eiríkur Hauksson flottur í sínu lagi og enginn vafi að hann færi áfram. Hann hefur ekki tekið þátt í keppninni hér heima í tvo áratugi; söng Gleðibankann úti 1986 og vann næstum keppnina árið eftir.
Leist vel á pakkann í kvöld, mun betur en síðast. Þá var þetta frekar dauft satt best að segja. Verður fróðlegt hvaða þrjú lög bætast við að viku liðinni. Það er þó nokkuð ljóst að það verður ekki alveg eins mikið drama og glamúr yfir þessu úti nú og var fyrir ári hjá fröken Silvíu Nótt.
![]() |
Tveir Eurovisionfarar í úrslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2007 | 20:24
Mögnuð markvarsla í Halle

Virkilega góð frétt og skrif hjá Víði í Þýskalandi. Nú eru það Þjóðverjarnir. Það er ánægjulegt að geta haldið til þess vitandi að farseðillinn áfram er kominn. Það hefði verið svakaleg pressa að halda í þann leik undir og án þess að hafa tryggt bakland áfram.
Þetta verður bara gaman á morgun.
![]() |
Frábær markvarsla tryggði Íslandi sigur á Slóveníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2007 | 18:41
Ísland í átta liða úrslitin - sigur gegn Slóvenum!

Var að fylgjast með leiknum meðfram því að fylgjast með stöðu mála í Frjálslynda flokknum. Spennustund á báðum leikvöllum, með merkilega ólíkum hætti þó. En þetta er ánægjulegur sigur og við hljótum að reyna að gera okkar besta í átta liða úrslitunum.
En þetta var grunnkrafan fyrir okkur í þessari stöðu. Allt eftir þetta er og verður plús. En við eigum og getum farið lengra en í áttunda sætið, tel ég. Vonandi náum við að spila um bronsið hið minnsta. Það eru enn meira spennandi leikir framundan, svo mikið er víst. Og á morgun leikur gegn Þjóðverjum sjálfum. Mikil spenna þar.
![]() |
Ísland í 8-liða úrslit eftir sigur á Slóveníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2007 | 17:46
Magnús Þór endurkjörinn - hvað gerir Margrét?

Merkileg úrslit. Sigur ráðandi afla gegn Sverrisarminum, armi stofnanda flokksins og dóttur hans. Þetta er sögulegt uppgjör og ótrúleg endalok. Er nokkuð of mikið að fullyrða að Sverrir hafi misst authorítetið í flokknum með þessu? Varla vægt mat þetta.
Hvað gerir Margrét Sverrisdóttir nú eftir þennan ósigur? Stór spurning. Hún hlýtur að róa á önnur mið eftir þessa höfnun.
![]() |
Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2007 | 17:21
Smölunarhátíð par excellanz - rúmar reglur

Reglurnar eru reyndar svo rúmar að fyrst að kosning hófst ekki á réttum tíma er hægt að merkja við og skilja atkvæðin eftir sem verða svo tekin með er kosningin hófst. Þetta er allt mjög kostulegt séð úr fjarlægðinni héðan frá Akureyri. Ekki er þetta allavega flokkur sem ég heillast af og ekki sé ég margt þarna mjög heilsteypt. Það virðist hafa verið ekta kaos á þessu landsþingi, svipað og á fjölmennu réttarballi þar sem menn slást um sætustu stelpuna á ballinu. Kostuleg lögmál.
Ekki get ég sagt að ég heillist af stefnu frjálslyndra í innflytjendamálum sem kynnt var í gær af formanninum. Þar er gengið lengra en ég kæri mig um. Ekki geðfellt, segi ég og skrifa. Það er greinilegt að þessi flokkur verður eins og vasaútgáfa af Framfaraflokki Carls I. Hagen hinum norska. Ekki geðslegt. Lofar ekki góðu komist þessi flokkur í oddastöðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hver vill annars upphefja svona stefnu? Ekki hægt annað en að spyrja hreint út.....
![]() |
Guðjón Arnar kjörinn formaður Frjálslynda flokksins með lófataki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2007 | 16:07
Skoski harðjaxlinn riðar til falls
Fyrir nokkrum mánuðum var John Reid, innanríkisráðherra Bretlands, talinn geta orðið keppinautur Gordon Brown um völd og áhrif innan Verkamannaflokksins eftir valdadaga Tony Blair. Það telja fáir nú. Skoski harðjaxlinn riðar nú til falls vegna embættisverka sinna og stjórnsýslu, ekki ósvipað Charles Clarke í maí í fyrra. Þá lét Blair hann gossa. Nú er Reid í sömu stöðu. John Reid hefur verið einn nánasti pólitíski samherji Blairs síðustu árin - honum er vandi á höndum.
Í stuttu máli sagt er staða mála svona: breskur dómari dæmdi í vikunni sakfelldan barnaníðing til skilorðsbundinnar refsingar og lét hann lausan á þeirri forsendu að bresk fangelsi væru yfirfull. Barnaklám fannst í tölvu mannsins og hann átti fangelsisdóm yfir höfði sér en dómarinn sagði að hann yrði að taka tillit til beiðni stjórnvalda um að dæma aðeins hættulegustu glæpamennina til fangelsisvistar. John Reid og Goldsmith ríkissaksóknari sendu öllum dómurum bréf á dögunum og báðu þá að íhuga að grípa til annara refsinga en fangelsisdóma þar sem fjöldi fanga nálgist nú 80.000 og fleiri komist ekki fyrir í fangelsunum.
Reid liggur undir miklu ámæli vegna málsins. Hann hefur reynt að svara fyrir sig í fjölmiðlum en bara gert illt verra. Eftir miðnættið sá ég viðtal við hann á Sky, sem kom ekki vel út. Hann sneri út úr spurningum og virkaði önugur. BBC hefur nú grafið upp fleiri skaðleg dæmi af þessu tagi og birt í fréttum sínum. Staða Reid heldur því aðeins áfram að versna. Það er vandséð hvernig að hinn tryggi stuðningsmaður Blairs getur setið öllu lengur. Þetta mál hefur afhjúpað vanda Verkamannaflokksins. Fyrir áratug hét flokkurinn að taka á fangelsismálum. Ekki virðist það hafa orðið raunin ef marka má þetta klúður.
Í fyrra var Reid sóttur af Tony Blair í innanríkisráðuneytið til að redda málunum eftir Charles Clarke sem missti fótanna þar og hrökklaðist úr embætti. Það var ekki nýtt að Reid hafi verið sóttur til að taka við stórum verkefnum í kjölfar krísustöðu eða innri erfiðleika. Til dæmis var hann eitt sinn ráðherra málefna Skotlands og Norður-Írlands, hann varð þingleiðtogi í apríl 2003 er Robin Cook sagði af sér í skugga upphafs Íraksstríðsins með hvassri ræðu í þinginu, hann varð heilbrigðisráðherra við óvænta afsögn Alan Milburn sumarið 2003, varð varnarmálaráðherra eftir kosningarnar 2005 þegar að Geoff Hoon hafði klúðrað sínum sénsum.
Nú stendur skoski harðjaxlinn sjálfur berskjaldaður í vondri stöðu, sem sannar vanda Verkamannaflokksins og brostin fyrirheit í kosningabaráttunni 1997 þar sem að Blair og kratar komust til valda á bylgju góðvildar og ferskleika. Ferskleikinn er löngu horfinn. Eftir standa skandalar sem skaða. Ef Reid hrökklast frá vegna þessa máls veikist forsætisráðherrann sjálfur umtalsvert, enda Reid verið einn af hans nánustu pólitísku samherjum. Það eru erfiðir dagar í Downingstræti nú, húsbóndinn sem brátt fer á erfiða ákvörðun fyrir höndum.
27.1.2007 | 14:17
Skelfilegt ástand í háloftunum

Fyrir nokkrum vikum var einn vinur minn í flugi á milli Parísar og Keflavíkur. Vélin tók mikla dýfu í fluginu, alveg ógnvænlega. Hef heyrt margar lýsingar á þeirri ferð, enda hlýtur það að hafa verið ógnvænleg upplifun í þeirri stöðu. Þar köstuðust hlutir til og skelfing farþega auðvitað mikil. Það hlýtur að vera að farþegar fái kvíðakast í slíku tilfelli, en sem betur fór vel í því tilfelli.
Það er oftast nær öryggistilfinning yfir því að fljúga - stutt á milli og góður ferðamáti. En það þarf ekki mikið að fara úrskeiðis í fluginu til að versni yfir, enda má lítið þannig séð út af bera.
![]() |
Neyðarástand um borð í flugvél Icelandair |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2007 | 00:23
Mikilvægur leikur á morgun!

Leikirnir og staða þeirra taka á; bæði fyrir þjálfara og leikmenn. Það er eðlilegt, þetta er ekta spennusport. Alli Gísla var mjög ósáttur við tapið gegn Pólverjum, sem eðlilegt er. Mikil spenna og taugarnar þandar til hins allra ítrasta, eins og sést á þessari frétt. Þjóðin er öll spennt og við getum margfaldað spennu okkar MeðalJónanna í handboltapælingunum með 1000 og komist þannig nærri spennunni hjá okkar mönnum úti.
En spenna á morgun - allir horfa: mikið fjör! Vonum það besta. Sigur á morgun hlýtur að nást. Enn meira spennandi verður leikurinn gegn gestgjöfunum Þjóðverjum. Þetta verður spennuþrungin helgi á heimilum íslenskra handboltaáhugamanna, svo mikið er víst.
![]() |
HM: Alfreð ósáttur við Bogdan Wenta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2007 | 20:33
Silvía Nótt snýr aftur

Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna yfirlætis sem engin innistæða var fyrir úti, merkilegt fall í rauninni. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri sér.
Það er nær einsdæmi að púað hafi verið á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt í keppninni fyrir ári. Það er engin furða að þetta hafi farið svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu eftir allt sem gengið hafði á í Aþenu. Margir áttuðu sig reyndar ekki á því að þetta var einn stór brandari að keppninni, en hvað með það. Brandarinn varð of súrrealískur. Þessi local-brandari varð einum of allavega. Það stefnir ekki í að við fetum sömu leið í Helsinki í maí, sama hver vinnur nú.
Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru.
![]() |
Silvía Nótt með nýjan umboðsmann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.1.2007 | 18:41
Smölunarhátíð Frjálslynda flokksins hafin

Í flestum alvöru flokkum er fagmennska við framkvæmd fundarins; flokksfélög kjósa sér landsfundar- eða flokksþingsfulltrúa og allir sem sitja fundinn hafa umboð sinna félaga. Af því leiðir að þeir sem sitja fundinn þurfa að hafa komið sér í einhverskonar grunnstarf í stjórnmálum, hafa þurft að leggja eitthvað af mörkum. Af því leiðir enn frekar að virkt flokksfólk tekur ákvörðun um forystu flokksins. Það er þeirra að kjósa í embætti og taka virkan þátt í fundarstörfum með málefnastarfi eða viðlíka vinnu.
Í Frjálslynda flokknum þarf engin kjörbréf til að sitja svona æðstu samkundu. Þetta verður því eins og aðalfundur í íþróttafélagi eða annarskonar þar sem minna er um reglur. Þetta getur skapað vandamál, enda virðist Jón Jónsson geta gengið inn til fundar af götunni og hefur þar jafnt vægi við að leggja flokknum línurnar og þeir sem hafa jafnvel unnið árum saman. Merkilegt. Það eru margir greinilega að velta þessu fyrir sér í bloggheimum í dag.
Lína helgarinnar verður því; sá sem smalar sem mest og grimmast stendur brosandi eftir síðdegis á morgun. Það verður fróðlegt að sjá hvor smalar meiru og brosir sínu breiðasta eftir talningu á morgun; Margrét Sverrisdóttir eða Magnús Þór Hafsteinsson. Tveir armar að berjast - talsvert í húfi fyrir bæði öflin.
![]() |
Viljum eiga aðild að ríkisstjórn eftir kosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2007 | 15:18
Eru konurnar að flýja Samfylkinguna?

Á meðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vonarstjarna vinstrimanna sem borgarstjóri í Reykjavík er horfði til landsmálaframa var það metið henni mikilvægt að vera kona á framabraut - í kosningunum 2003 var hún með eftirminnilegum hætti kynnt sérstaklega í glæsilegri litaútgáfu skælbrosandi andspænis svarthvítum karlkyns forverum á valdastóli; allt frá Hannesi Hafstein til Davíðs Oddssonar. Umdeild auglýsing, en skýr skilaboð - mjög afgerandi. Þá var stuðningur kvenna við Samfylkinguna talsverður eins og flestir muna.
Það að konurnar horfi annað er táknrænt og athyglisvert fyrir konuna sem mesta möguleika á að leiða ríkisstjórn, þó minni möguleikar séu á því nú en var árið 2003. Þá barðist hún við Davíð Oddsson, manninn sem hún dýrkaði að þola ekki. Nú er Davíð farinn..... líka mesti vindurinn úr seglum Ingibjargar Sólrúnar. Táknrænt - en athyglisvert, ekki satt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2007 | 13:53
Katsav í vanda - Peres næsti forseti Ísraels?

Það hefur hinsvegar lengi háð Peres að honum tókst aldrei á pólitískum ferli sínum að leiða Verkamannaflokkinn til sigurs í þingkosningum. Hann hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar en alltaf tapað stólnum svo í kosningum. Hann var forsætisráðherra 1976-1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Yitzhak Rabin í nóvember 1995. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags, sem síðar rann út í sandinn. Hann nýtur virðingar um allan heim fyrir þau verk sín.
Árið 1993 kom Shimon Peres, þá utanríkisráðherra Ísraels, í opinbera heimsókn hingað. Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, núv. forseti Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núv. formaður Samfylkingarinnar, að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáv. forsætisráðherra, honum til heiðurs. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi.
Það var ógleymanlegt samkomulag, innsiglað með frægu handabandi Rabin og Arafat í Washington. Það vakti athygli fyrir nokkrum mánuðum að sami Ólafur Ragnar og vildi ekki hitta Shimon Peres árið 1993 hitti Ehud Barak, einn eftirmanna Peres sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Ísraels. Kaldhæðnislegt þótti það miðað við söguna. Það kannski færi svo yrði Shimon Peres kjörinn forseti Ísraels að hann kæmi hingað í opinbera heimsókn til mannsins sem ekki vildi sitja til borðs með honum í veislu fyrir rúmum áratug?
![]() |
Verður Simon Peres loks forseti Ísraels? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 12:34
Samfylkingin í frjálsu falli - veik staða ISG

Greinilegt er að Samfylkingin á í víðtækum vanda. Vissulega eru skoðanakannanir bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir formannsskiptin. Leiðin hefur sífellt legið niður á við á þessum tíma og virðist staðan nú sýna hversu veikur flokkurinn heldur til kosninganna. Þessi staða er pólitískt áfall fyrir flokk og formann, enda vandséð hvernig að formaðurinn geti setið áfram tapi flokkurinn svona gríðarlega stórt.
Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún mun halda á forystukeflinu hjá þessum flokki í aðdraganda kosninganna. Henni virðast vera mislagðar hendur og hún er væntanlega nú á einhverjum krísufundum við að reyna að finna taktinn sinn í þessum efnum. Klúðrið hefur falist í stefnuflakki og vandræðalegu hjali um hitamál, tel ég. Það er nefnilega oft þannig að fólk verður hlægilegt þegar að það reynir að elta allar vinsældakannanir. Þarna er væntanlega vandi Samfylkingarinnar. Nú virðist það vera svo að ISG verður að berjast upp á pólitískt líf eða dauða. Þetta er stingandi staða allavega fyrir flokk sem alla tíð hefur verið í stjórnarandstöðu.
Það er ekki furða að Steingrímur J. skrifi ekki upp á að Ingibjörg Sólrún leiði stjórnarandstöðuna og sé eitthvað forsætisráðherraefni hennar. Staða Samfylkingarinnar verður enda vængbrotin verði þetta mikla fylgistap staðreynd. Það verða stórtíðindi tapi leiðandi stjórnarandstöðuflokkur 5-8 þingsætum og getur varla flokkast undir neitt nema pólitískt afhroð fyrir flokk og formann. Það er greinilegt að kosningabaráttan gæti orðið sú síðasta fyrir konuna sem varð borgarstjóri í Reykjavík í nafni sameiginlegs fjölflokkaframboðs félagshyggjuafla og vann tvisvar endurkjör. Eftir að hún yfirgaf Ráðhúsið í Reykjavík hefur pólitískur ferill hennar orðin ein samfelld sorgarsaga.
Fari kosningar í einhverja viðlíka átt og kannanir Fréttablaðsins og Frjálsrar verslunar verður erfitt að líta á baráttukonuna Ingibjörgu Sólrúnu sem einhverja sigurstjörnu vinstrimanna, svo mikið er nú víst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 11:29
Skelfilegt ástand

Í þessu tilviki mun hafa verið vanheill maður við stýri og þetta mál virðist allt frekar dapurt. Sorglegt bara. Þessi ofsaakstur er varla einstakur, en hann fær fólk vonandi til að hugsa málið vel, sé fólk við stýri sem kann ekki að stýra bíl af þessu tagi og hefur ekki þekkingu til þess.
![]() |
Vörubíll stöðvaður eftir ofsaakstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.1.2007 | 00:31
Búið mál
Það er vandséð hvað geti tekið við. Þetta lítur út sem búið mál, það stendur ekkert eftir fyrir ákæruvaldið. Það er enginn vafi að þetta er mikið áfall fyrir ákæruvaldið, enda var mikið lagt í málið og löng vinna. Grunnur málsins í upphafi er farinn. Það er niðurstaðan.
Lítur svo sannarlega út sem búið mál. Mér finnst þessi niðurstaða svo afgerandi að vandséð er hvernig halda eigi áfram. Það er niðurstaða dagsins. Það var mikið lagt í þetta mál - niðurstaðan blasir við. Það stendur ekkert eftir. Það vekur athygli hvernig fór. Það hlýtur að vera komið mál að linni.
![]() |
Sakborningar sýknaðir í Baugsmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2007 | 21:43
Viðtal á Stöð 2 - hugleiðingar um umdeilt framboð
Mér dettur ekki annað í hug en að tala tæpitungulaust um málið. Það er heiðarlegt og gott. Hef fengið mikil viðbrögð við skrifum mínum síðustu vikurnar, langflest eru þau á þá leið að taka algjörlega undir það sem ég hef haft um þetta mál að segja. Það er hið minnsta mál að endurtaka það í viðtali af þessu tagi þegar að eftir því var leitað.
Eins og fram kemur í viðtalinu er málið nú á könnu miðstjórnar. Hún hefur lokaorðið í þessu máli. Staðfesti hún listann í Suðurkjördæmi er þessu máli lokið hvað flokkinn varðar og sú niðurstaða er endanleg. Eins og vel kemur fram í þessu viðtali hefur trúnaðarfólk í kjördæminu staðfest listann og virðast afgerandi líkur á að sú verði raunin að miðstjórn taki sömu afstöðu.
Það kemur ekkert nýtt fram í viðtalinu í raun frá því sem upphaflega var í skrifum mínum. Ég tel þetta verða umdeilt mál, það er gömul saga og þarf ekki mig til að segja það. Hvað varðar uppreist æru taldi ég athyglisvert að handhafar forsetavalds skyldu staðfesta þá afgreiðslu mála. Að öðru leyti var um að ræða afgreiðslu eftir hefðbundnum leiðum.
Það voru ekki þeir sem völdu frambjóðandann til verka heldur flokksfólk á svæðinu. Það staðfesti traust í garð frambjóðandans og við það situr. Ég hef sagt mína skoðun og komið henni á framfæri. Meira verður það ekki - það er eðlilegt að hafa skoðanir. LS og SUS sögðu sitt og ég sem almennur flokksmaður segi mitt.
Ég hef málfrelsi og tala sem maður með skoðanir innan flokksins. Þessi vefur er lifandi skoðanaveita og ég hef alltaf verið þekktur fyrir að nota hann vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2007 | 19:42
Úff..... tap fyrir Pólverjum

En þetta er hæðóttur bissness þetta sport. Það þýðir ekkert að sýta tapið en þess þá heldur að horfa bara til næsta verkefnis.
![]() |
HM: Tveggja marka tap gegn Pólverjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)