Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Össur í vondum málum

Össur Skarphéðinsson

Það vekur athygli að á sama tíma og Össur Skarphéðinsson ver ráðningu orkumálastjóra með þeim rökum að viðkomandi hafi af öllum umsækjendum haft mesta menntun, reynslu og sérþekkingu á sínu sviði að hann velji líffræðing án sérþekkingar í ferðamálum í embætti ferðamálastjóra. Val ráðherrans er hreint klúður og greinilegt að það er ólga víða vegna þess. Fæ ekki betur séð en að kenning mín frá því um daginn sé rétt, þ.e.a.s. að Össur hafi valið ferðamálastjóra til að vega upp á móti hinni ráðningunni.

Ef marka má stöðuna nú mun Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, aðstoðarorkumálastjóri, sem hafði reynslu af embætti orkumálastjóra, fara til umboðsmanns Alþingis eða höfða jafnréttismál. Varla verður það til góðs fyrir jafnréttisásýnd Samfylkingarinnar. Það hlýtur að teljast eðlilegt að hún leiti lengra miðað við rökstuðninginn, en athygli vekur orðalag ráðherrans um að hann hafi valið nýjan orkumálastjóra til að hleypa nýju blóði í stofnunina. Margir tala um þetta sem vinavæðingu, en ekki er langt síðan að Andrés Magnússon ritaði grein á vef sinn og fór yfir pólitísk tengsl ráðherrans og nýs orkumálastjóra.

Hvernig mun ráðherrann verja skipan ferðamálastjóra? Það væri gaman að vita. Mér finnst sú skipan hálfu verri en orkumálastjórans, þó afleit sé. Ætlar hann kannski að svara eins um að hann hafi valið líffræðing sem ferðamálastjóra vegna fagþekkingar hennar? Held að hann muni eiga erfitt að verja það með rökstuðningi. Ef hann ætlar að verja skipan ferðamálastjórans með jafnréttisrökum er hann kominn í öngstræti, eftir að hafa hafnað aðstoðarorkumálastjóra með starfsreynslu af embættinu og sem var mjög hæfur umsækjandi. Össur fellur hratt í áliti þessa dagana, hann fer allavega ekki vel af stað.

------

Leit yfir rökstuðning Árna M. Mathiesen vegna skipunar Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara. Hann er vægast sagt mjög rýr í roðinu. Er það virkilega svo að ráðherrann hafi ekki haft önnur viðmið við skipan í embættið? Var að vona að það hefðu verið aðrar faglegar ástæður haldbærar, en svo virðist ekki vera. Það er full ástæða til að gagnrýna rökstuðning beggja ráðherranna í dag með sama hætti.


mbl.is Ósátt við rökstuðning ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary fellir tár í New Hampshire

Hillary Rodham Clinton Það var svolítið sérstakt móment að sjá fréttina um kosningafund Hillary Rodham Clinton með óákveðnum kvenkyns kjósendum í Portsmouth í New Hampshire. Þar bognaði Hillary loksins í þunga þeirra átaka sem blasa við henni á lokastundunni fyrir kosninguna í fylkinu á morgun. Það er orðið æ augljósara að sú kosning verður henni örlagarík, sama á hvorn veginn sem fer.

Kannanir benda nær allar til þess að hún tapi og róðurinn þyngist enn, eins og ég vék að fyrr í dag. Það að Hillary bogni í þessum þunga þarf ekki að koma að óvörum, þetta er hörð barátta og eitthvað verður að láta undan í þeim hasar. Hillary hefur haft á sér ásýnd kjarnakonunnar sem lætur nákvæmlega ekkert á sig fá og hefur kraft í alla hluti. Það má vera að þetta sé sú hlið á Hillary sem fólk hafi alla tíð beðið eftir að sjá. Hún verði kannski að sýna tilfinningar til að fólk fái samúð með henni.

Hillary hefur oft verið eins og maskína án tilfinninga, eins og ljón, kraftmikil og einbeitt, algjörlega tilfinningalaus í og með líka. Þetta eru því nokkur tíðindi. Hún veit sem er að framundan er örlagadagur. Þetta er make-or-break staða. Ekkert flókið við það. Það er ekki undarlegt að tilfinningar eigi þar samleið með keppnishörkunni.

mbl.is Clinton beygði af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary berst af krafti fyrir pólitísku lífi sínu

Hillary Rodham ClintonHillary Rodham Clinton berst nú fyrir pólitísku lífi sínu í kappi við tímann í forkosningabaráttunni í New Hampshire. Fari svo að hún tapi stórt þar á morgun, eins og sumar kannanir benda til, verður það mesta áfall stjórnmálaferils hennar og mun veikja hana það mjög að líkur minnki á því að hún verði forsetaefni demókrata. Það eru stórtíðindi miðað við það bakland sem hún fór af stað með í baráttuna; digra sjóði og góða bakhjarla. Tap hennar í þessum slag myndi líka breyta miklu innan flokksins.

Það hefur eiginlega verið óraunverulegt að fylgjast með fréttunum frá New Hampshire. Það finna allir vinda breytinganna blása - þetta eru örlagaríkir dagar. Það er eitthvað stórt um að vera, hið stærsta mjög lengi. Barack Obama er að breyta pólitísku landslagi innan Demókrataflokksins með dramatískum hætti. Það fer ekki á milli mála að stórstjarna er komin til sögunnar; sama hvort hann vinnur eða tapar úr þessu er hann orðinn einn öflugasti stjórnmálamaður nútímans, pólitískur predikari sem talar af innlifun. Hann hrífur fólk með sér, dregur fjöldann að sér, fyrst og fremst er hann að sópa að sér ungu fólki sem sér í honum vonarneista til uppstokkunar eftir tvo áratugi Bush og Clinton í Hvíta húsinu.

Það má reyndar velta því fyrir sér hvort að Hillary sé að græða á því að hafa Bill Clinton með sér á kosningaferðalaginu. Hann er voldugur pólitíker, en er líka táknmynd liðins tíma í bandarískum stjórnmálum. Sá myndir á laugardag frá kosningafundi þar sem greinilegt var að eldmóðinn vantaði algjörlega. Það er eiginlega varla hægt að trúa því að þetta séu sömu Clinton-hjónin sem stálu sviðsljósinu fyrir sextán árum og gerðu flokkinn að sínum með líflegri kosningabaráttu, fullri af eldmóð og baráttuanda. Við sem upplifðum forsetakosningarnar 1992 munum eftir þeim anda. Það er eftirminnilegt að rifja þá baráttu upp, best er henni lýst í The War Room, frábærri heimildarmynd.

Það er alveg gríðarlegt máttleysi yfir Hillary núna. Það vantar neistann, það vantar drifkraftinn á bakvið það sem hún er að gera. Það er eins og nútíminn hafi farið framhjá henni. Hún heldur langar ræður án innlifunar á kosningafundum, talar mikið um reynsluna og fortíðina en gleymir alveg að tala til framtíðarinnar, unga fólksins sem vill styðja hana. Enda sést á könnunum að þetta fólk er að flýja hana, það sér bjartari neista í Obama. Hann er vonarneisti. Ungt fólk studdi Clinton-hjónin í forsetakosningunum 1992 og 1996 vegna þess að þau boðuðu eitthvað nýtt. Nú eru þau táknmyndir fortíðarinnar. Þetta er kaldhæðnislegt.

Fyrir nokkrum mánuðum taldi ég að Hillary myndi ryðja allri samkeppni um útnefninguna úr vegi sínum í upphafi. Fór oft yfir það hér, benti þó líka á að færi hún að hökta og tapa í upphafi yrði róðurinn þungur. Hún virkaði ósigrandi og varð að halda þeirri ímynd. Hún var særð eftir Iowa og það er einhvernveginn eins og neistinn hafi slokknað á leiðinni frá kappræðunum í Philadelphia fyrir nokkrum vikum. Hillary skynjar að þetta er orðin örlagarík barátta, strax í upphafi. Sá strax í gær að hún var búin að breyta um áherslur og farin að fókusera á meiri neista í málflutningi og tala til unga fólksins. Kannski er það orðið of seint.

Verð að viðurkenna að ég þurfti eiginlega að tvítékka fréttirnar af nýjustu könnunum í New Hampshire þar sem Obama var með forskot upp á tveggja stafa tölu. Það eru stórtíðindi af þeirri stærðargráðu að það sé verið að endurskrifa söguna í New Hampshire. Það eru vindar breytinganna sem blása þar. Það verða örlagarík stórtíðindi tapi Hillary stórt og það gæti orðið tap sem markar endalokin fyrir þessa öflugu kjarnakonu sem hefur verið svo dómínerandi á alþjóðavettvangi árum saman. Og hver hefði trúað því fyrir aðeins nokkrum vikum.

Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Hillary hef ég dáðst að neistanum hennar og eldmóði. Þegar að hún kom hingað til Íslands fyrir um áratug á kvennaráðstefnuna fangaði hún athyglina og allt snerist um hana. Man eftir löngu ræðunni hennar sem hún flutti blaðlaust í Borgarleikhúsinu. Hún einhvernveginn þurfti ekkert fyrir því að hafa, neistaði af krafti. Það var eiginlega ógleymanleg ræða. Hreifst af henni þá, þó ekki væri ég sammála hverju orði. Það hvernig hún talaði og hversu mikill kraftur var í henni situr eftir innst í huganum. Þetta var mikið móment.

Í gær sá ég sömu konu flytja ræðu í Nashua. Það hefur margt breyst. Hún er enn öflug en vindarnir blása í aðrar áttir. Þetta átti að vera árið hennar, árið þegar að fyrsta konan yrði kjörin valdamesti maður heims; stóru þáttaskilin sem markaði upphaf seinni bindis sögunnar um Clinton-veldið. Í staðinn hnígur sólin til viðar. Kvöldrökkrið blasir við hjónunum öflugu frá vonarbænum í Arkansas. Hún er í baráttu lífsins, kannski þeirri sem bindur enda á allt saman. Hann virkar þreyttur og fjarlægur. Það er eins og lánið hafi yfirgefið þau.

Eru þetta virkilega sömu hjónin og voru táknmyndir breytinga á sínum tíma? Það eru sögulegir dagar í New Hampshire. Er gullaldartími Clinton-hjónanna virkilega liðinn? Stór spurning. Fari allt á versta veg á morgun, eins og dökkustu kannanir gefa til kynna, mun allt breytast. Þá færist stjörnuljóminn annað og þeim hefur verið hafnað. Hver hefði trúað þessu fyrir aðeins nokkrum vikum?


Einvígið mikla í New Hampshire

Hillary Rodham Clinton og Barack ObamaForkosningar demókrata í New Hampshire á þriðjudag eru einvígi á milli Barack Obama og Hillary Rodham Clinton. Spennan magnast - staðan tvísýn og ekki hægt að fullyrða afgerandi um úrslit, eins og var fyrir nokkrum vikum. Þar er mikið í húfi. Hillary er særð eftir forkosningar í Iowa og þarf á öllu sínu að halda til að ná sigri og því forskoti sem hún var talin svo örugg um nær allt síðasta ár. Fyrir nokkrum mánuðum hafði hún afgerandi forskot í fylkinu og virtist ekki þurfa að taka alvöru baráttu. Það hefur nú allt breyst. Hún þarf að sigra til að snúa stöðunni við.

Staðan í New Hampshire er um margt make-or-break fyrir Hillary. Tap mun þyngja róðurinn umtalsvert en sigur snúa við því tafli að hún sé að berjast við ósigrandi sjarmatröll nýrra tíma. Eftir sigursælan stjórnmálaferil er eiginlega hálf óraunverulegt að sjá hnignun Hillary sem stjórnmálamanns síðan í kappræðunum í Philadelphiu. Hún er allt í einu mjög brothætt og hún má ekki lengur við miklu hnjaski án þess að ára hennar sem sigursæls stjórnmálamanns líði endanlega undir lok. Það er eiginlega ótrúlegt að staða hennar sé í vafa í New Hampshire, fylkinu sem færði Bill Clinton endurkomuna í forsetaslaginn 1992 og verið eitt helsta vígi Clinton-hjónanna á litríkum ferli.

Obama er vonarneisti í myrkrinu. Þar liggur farsæld hans síðustu mánuði. Hann er eins og segull, dregur fólk að sér og virðist vera ferskt andlit í fjöldanum. Fari svo að Obama vinni í New Hampshire og nái útnefningunni verður það stóra ástæða þess að Hillary sigldi í strand og Obama varð forystuefni demókrata í þessum kosningum. Eftir átta ára forsetaferil George W. Bush er leitað eftir breytingu í báðum flokkum og virðist það enn betur sjást meðal demókrata sem hafa verið nær alveg valdalausir meginhluta valdaferils Bush, aðeins er ár síðan að flokkurinn náði þinginu aftur, en annars verið í algjöru valdatómi.

Þegar að Obama fór að kanna fyrst framboð sitt fyrir rúmu ári var ekki laust við að það mætti finna strauma ferskleikans. Honum hefur verið líkt við John F. Kennedy og dr. Martin Luther King. Að mínu mati er Obama blanda þeirra beggja, allt að því ósigrandi blanda þeirra. Hann virkar mjög sannur og traustur. Það er svona varla að hægt sé að trúa að hann sé sannur í gegn, en það er erfitt að finna bresti í honum. Enda hafa fregnir um fjölmenna kosningafundi með honum sýnt og sannað að hann er vonarneisti sem getur markað nýja tíma, rétt eins og t.d. Bill Clinton áður, sem var forseti út á þá ímynd sína að vera ferskur.

Stærstu vandræði Hillary á þessum vetrardögum í New Hampshire felast einkum í því að fólk finnur ekki tenginguna við hana. Það veit ekki hvaða kraftur er á bakvið framboð hennar, á meðan að fólk finnur hann hjá Obama. Þetta skilar sér. Tapi Hillary í New Hampshire verður það metið ástæðan. Hillary er særð eftir tapið í Iowa, það sjá allir. Hún hefur haft áru hinnar sigursælu og er ekki vön að lúta í gras. Það hefur skyndilega breyst. Brestir hennar eru of augljósir til að þeim verði neitað. Sigur á þriðjudag getur þó verið plástur á sárið, en tap yrði fleinn á versta stað fyrir hana. Hún má varla við frekari vandræðum.

Það var áhugavert að sjá kappræður demókrata í New Hampshire í gærkvöldi. Þar sameinuðust Obama og John Edwards gegn Hillary, sem varðist af krafti, eins og hennar er bæði von og vísa. Hún er hörkutól og má eiga það að hún hefur náð lengra en mörgum konum hefur í sjálfu sér dreymt. Það hlýtur þó að teljast mikið áfall fyrir konur fari svo að Hillary verði ekki forsetaefni demókrata, engin kona hefur náð lengra í baráttu um forsetaembættið og margar konur voru að vonast til að kona myndi verða í baráttu um Hvíta húsið til enda. Það er allt í óvissu nú og eflaust margar konur hugsi.

Forkosningaslagur demókrata er einvígi Hillary og Obama. Edwards á ekki séns, en berst enn og vonar reyndar greinilega að Hillary bakki út og hann verði mótvægi við Obama. Það er borin von. Ef Obama leggur Hillary verður hann frambjóðandinn, það er ekki flóknara. Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju Mexíkó, sáttasemjari og fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Clintons forseta, á ekki von lengur en helst í slagnum til forkosninga í Nevada. Hann átti þó orð gærkvöldsins í kappræðunum er hann sagðist hafa upplifað mildara andrúmsloft í gíslatöku en það sem væri í baráttunni í New Hampshire. Frábært komment.

Það er erfitt að spá um hvað gerist í New Hampshire eftir tvo sólarhringa. Það er þó freistandi að spá því að Obama taki fylkið. Gerist það er pólitísk stórstjarna fædd - stjarna sem gæti bundið enda á stjörnutilveru Clinton-hjónanna í Demókrataflokknum og einu sterkasta fylki stjórnmálaferils þeirra og mannsins sem gerði flokkinn að sínum þar fyrir einum og hálfum áratug og varð í kjölfarið forseti tvö kjörtímabil. Varð sá sigursæli með pólitískasta maka bandarískrar stjórnmálasögu við hlið sér. Og það yrðu stórtíðindi.

mbl.is Obama vinnur á Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göng um Vaðlaheiði sett framar Sundabraut

Kristján L. Möller Það eru ánægjuleg tíðindi að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, ætli að setja göng um Vaðlaheiði í forgang í samgönguverkefnum, jafnvel framar Sundabraut, mikilvægri samgönguframkvæmd fyrir sunnan. Ekki kvörtum við hér fyrir norðan altént við þessi tíðindi og fögnum að ráðherrann ætli sér að standa við digurbarkaleg kosningaloforð Samfylkingarinnar í þingkosningunum fyrir tæpu ári. Verður reyndar áhugaverðast að sjá hvort að göngin fara í það verkferli sem Samfylkingin lofaði þá; að þau verði ríkisverkefni að öllu leyti.

Það hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir Reykvíkinga að Sundabraut sé sett aftar Vaðlaheiðargöngum á dagskrá samgönguframkvæmda. Eftir allt talið um mikilvægi Sundabrautar og stór orð borgarfulltrúa Samfylkingarinnar um framkvæmdina vekur það athygli að samgönguráðherra í nafni Samfylkingarinnar taki þá ákvörðun. Væri reyndar áhugavert að heyra viðbrögð Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík, og ennfremur Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrum borgarstjóra, sem nú er einn nánasti samstarfsmaður ráðherrans, sem formaður samgöngunefndar Alþingis. Ætla fjölmiðlar ekki að tala við Steinunni?

Annars koma þessar áherslur ekki að óvörum. Kristján Möller talaði mjög ákveðið til kjósenda fyrir alþingiskosningar um mikilvægi Vaðlaheiðarganga og lofaði að koma þeim í framkvæmd fljótlega á kjörtímabilinu hefði hann eitthvað um málið að segja. Hann er í óskastöðu sinni fyrir kosningar, situr nú á stóli samgönguráðherra og verður að standa við stóru orðin enda færi hann illa hér í næstu alþingiskosningum ella. Þetta blasir við öllum sem fylgjast með stjórnmálum hér, sennilega helst þeim samfylkingarmönnum sem hafa sig í frammi hér á Eyjafjarðarsvæðinu, en kallað hefur verið eftir því af fólki hér að ráðherrann myndi taka af skarið.

Það er vissulega vont ef Sundabraut tefst mikið meira en orðið er. Sennilega þurfa samfylkingarmenn í Reykjavík eitthvað að gera sig gildandi í augum samgönguráðherrans þeirra.

Auðmjúk afsökunarbeiðni til eigendanna

Jón Ásgeir Það er ekki ósennilegt að auðmjúkasta afsökunarbeiðni hjá Baugsmiðli fyrr og síðar hafi birst í gær, er forsvarsmenn vísir.is voru allt á því á hnjánum að biðjast miskunnar hjá eiganda sínum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eftir að hafa fjallað um heimshornaferðalag hans og ýmsar hliðar þess. Hef aldrei séð svona auðmjúkt orðalag og allt að því mátti finna sorrífílinginn streyma úr hverri línu. Svona opinberar afsökunarbeiðnir birtast ekki á hverjum degi á þessum miðli, svo mikið er víst.

Flestir spurðu sig að því eftir hina auðmjúku afsökunarbeiðni hvað hefði eiginlega verið rétt og rangt í upphaflegum skrifum vísis um eiganda sinn. Það var spurningin sem flestir vildu fá svarað. Nú hefur vísir.is brugðist vel við þeirri spurningu og svarað henni í ítarlegri umfjöllun sem er ekki síður áhugaverð en hin auðmjúka afsökunarbeiðni. Það verður ekki minna talað um snekkjuna og þotuna og allt sem því fylgir eftir þessar útskýringar, enda við því að búast að fleiri spurningar vaki í kjölfarið.

Spurningar vakna eðlilega í kjölfar þessara samskipta eigendanna og starfsmanna hans, hin opinberu skoðanaskipti um hvað megi segja um eigandann. Flestir eru eðlilega hugsi eftir þessa auðmjúku afsökunarbeiðni.

 


Var ráðning orkumálastjóra vinargreiði ráðherra?

Össur Skarphéðinsson Ég sé að Orðið á götunni hefur tekið undir skrif mín í gær um ráðningu orkumálastjóra. Það stefnir flest í að þetta verði umdeild skipan og úr því verði jafnréttismál, þar sem Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, aðstoðarorkumálastjóri og staðgengill orkumálastjóra að undanförnu, muni fara með málið lengra og sérstaklega verði höfðað til þess að hún hafi ekki aðeins verið hæfasti umsækjandinn heldur auk þess verið kona sem gengið var framhjá.

Össur finnur greinilega fyrir því að þetta verður þungur róður og var í viðtali hjá fréttastofu Sjónvarpsins í kvöld að reyna að verja skipan Guðna Jóhannessonar í stöðuna. Það gekk svona frekar vandræðalega. Nú hafa konur í verkfræðingastétt talað gegn skipan Guðna og allar líkur á því að umræðan verði hörð þar sem aðalbitbeinið verði að iðnaðarráðherrann hafi brotið gegn jafnréttislögum. Eðlilegt er að benda á að sama dag og ráðherrann valdi Guðna skipaði hann konu sem ferðamálastjóra og vék þar sérstaklega að jafnréttishlið þess í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Er ekki óeðlilegt að líta svo á að hún hafi verið skipuð til að reyna að vega á móti skipan Guðna í embætti orkumálastjóra. Staða ráðherrans væri enn verri eflaust ef hann hefði skipað karlmann sem ferðamálastjóra og fengið það ofan á sig samhliða skipan í embætti orkumálastjóra. Þá væri eflaust hitinn enn meiri. En það er mikil umræða um þessa ákvörðun ráðherrans og bíða flestir spenntir eftir rökstuðningi hans, ekki síður en þeim sem Árni M. Mathiesen verður að skila inn í máli Þorsteins Davíðssonar. Er með ólíkindum að sá rökstuðningur sé ekki enn kominn.

Þetta hlýtur að teljast vandræðalegt mál fyrir Samfylkinguna, sem svo mjög hefur farið fram með jafnréttisáherslur í farteskinu og skreytt sig með þeim, verði ráðherrann dæmdur fyrir brot á jafnréttislögum t.d.

Forsetaframboð Ástþórs er nauðgun á lýðræðinu

Ástþór Magnússon Að mínu mati er yfirvofandi forsetaframboð Ástþórs Magnússonar nauðgun á lýðræðinu. Mér hreinlega býður við því að hann ætli sér enn eina ferðina að setja mark sitt á kosningar til embættis þjóðhöfðingja íslenska lýðveldisins og finnst það eiginlega skelfileg tilhugsun fari svo að við eyðum peningum skattborgara í kosningar þar sem aðeins nöfn Ástþórs og Ólafs Ragnars Grímssonar verða á kjörseðlinum. Það eru tilgangslausar kosningar að öllu leyti, sérstaklega ef litið er yfir fyrri átök þeirra í forsetakosningunum 1996 og 2004.

Ég fagna því að Þórunn Guðmundsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík suður í forsetakosningunum 2004, tjái sig um þessi mál og fari t.d. opinberlega yfir umdeild vinnubrögð Ástþórs í þeim kosningum. Það er ekki óeðlilegt að tala hreint út um þau vinnubrögð, en það er að mínu mati stóralvarlegt mál þegar að safnað er meðmælendum undir yfirskini þess að fólk sé að skrifa undir einhvern friðarboðskap en hafi ekki hugmynd um að hann sé með undirskrift sinni að stuðla að forsetaframboði, enda það komi ekki fram beint.

Það er löngu kominn tími til að mínu mati að stokka upp mál hvað varðar forsetakosningar á Íslandi. Að mínu mati er kominn tími til að setja kjörtímabilsmörk á sitjandi forseta Íslands, sem er eini embættismaður landsins sem kjörinn er beinni kosningu, og auk þess að fjölga meðmælendafjölda sem forsetaframbjóðandi verður að hafa til að geta talist kjörgengur. Talan hefur verið í 1500 áratugum saman og er löngu orðin úrelt að mínu mati.

Bæjarstjóraferli Svanfríðar á Dalvík að ljúka

Svanfríður JónasdóttirBæjarstjóraferli Svanfríðar Ingu Jónasdóttur, fyrrum alþingismanns, á Dalvík lýkur eftir nokkra mánuði, en hún hefur verið bæjarstjóri þar síðan í júní 2006, að loknum kosningum. Samkvæmt meirihlutasamningi Framsóknarflokks og J-lista óháðra mun Svanfríður aðeins gegna embættinu í tvö ár og Framsóknarflokkur fær embættið seinni hluta kjörtímabilsins. Mun vera ætlunin að auglýsa eftir bæjarstjóra í stað Svanfríðar. Miðað við góðan sigur Svanfríðar og hennar fólks vakti athygli að þau gerðu ekki að kröfu að hún fengi allt tímabilið.

Að mörgu leyti finnst mér Svanfríður hafa staðið sig vel sem bæjarstjóri, eiginlega betur en ég átti von á. Staða bæjarins virðist vera góð og haldið vel á málum. Það eru auðvitað blikur á lofti í atvinnumálum á Dalvík, en það er víðar um land vegna kvótaniðurskurðar. Heilt yfir verða eftirmæli Svanfríðar við lok bæjarstjóraferilsins mjög góð myndi ég ætla. Svanfríður hafði oft viljað verða bæjarstjóri og tókst það eftir þessar kosningar, en J-listinn var ekki fjarri hreinum meirihluta undir hennar forystu. Eflaust er þar um að kenna vonbrigðum með fyrri meirihluta, sem fékk mikinn skell í kosningunum 2006.

Var eðlilegt að mínu mati að Svanfríður yrði bæjarstjóri að loknum kosningunum 2006. Framboðslistinn sem hún leiddi hlaut afgerandi flest atkvæði og gott umboð. Það hefði eiginlega verið að fara gegn úrslitum kosninganna hefði hún ekki fengið tækifæri til að gegna embættinu. Það var þó greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð, sem hafnaði henni sem bæjarstjóraefni við slit eldri meirihlutans árið 2004 og leiddi til þess að hann var endurreistur skömmu síðar, treysti henni ekki meira en svo að hún varð aðeins bæjarstjóri hluta kjörtímabilsins, þó algjörlega ný væri í embættinu.

Ég þekki Svanfríði Jónasdóttur mjög vel. Hún var til fjölda ára kennari minn, bæði fyrir og eftir að hún var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu. Ég veit sem er að hún er vinnusöm og metnaðarfull um þau verkefni sem hún vinnur að. Hún var afbragðskennari og ég tel að hennar besta hilla í lífinu hafi verið kennslan enda naut hún sín vel í þeim geira, áður en hún tók sæti á Alþingi. Sem bæjarstjóri hefur hún sýnt vel kosti sína sem persónu.

Framsóknarflokkurinn fær nú bæjarstjórastólinn á Dalvík aftur. Síðast valdi flokkurinn þáverandi leiðtoga sinn, Valdimar Bragason, sem bæjarstjóra, en hann hafði verið bæjarstjóri fyrstur allra á Dalvík 1974-1982. Það verður seint sagt að það hafi verið frægðarferill, enda var tíð fyrri meirihluta mikil vonbrigði fyrir mjög marga sem studdu þá flokka. Það verður áhugavert að sjá hvern framsóknarmenn velja úr hópi umsækjenda.

Það er erfitt um að segja hvort að Svanfríður verði aftur bæjarstjóri á Dalvík. En við þessar aðstæður hlýtur að verða erfitt að verða óbreyttur bæjarfulltrúi aftur og þurfa að æfa nýjan bæjarstjóra til verka aðeins í tvö ár, væntanlega einstakling sem hefur ekki umboð úr kosningum.


Obama og Huckabee sigra - áfall fyrir Hillary

Hillary Rodham Clinton og Barack ObamaSigur Barack Obama og Mike Huckabee í forkosningunum í Iowa markar þá sem forystuefni í baráttunni um forsetaembættið og tryggir stöðu þeirra. Úrslitin eru mikið áfall fyrir Mitt Romney og Hillary Rodham Clinton, sem börðust af krafti um sigur í fylkinu og þurftu á honum að halda til að tryggja stöðu sína. Fyrir nokkrum vikum töldu allir Hillary ósigrandi í baráttunni um útnefningu demókrata. Það hefur breyst og hún þarf nú á öllu sínu að halda til að snúa aftur í forystusess einvígisins meðal demókrata.

Afgerandi sigur Huckabee í Iowa er mikið högg fyrir Romney, sem hefur lagt mikla peninga í baráttu sína og fókuseraði sérstaklega á fyrstu fylkin; Iowa og New Hampshire, til að fá byr í seglin. Fyrir mánuði varð alvöru barátta í Iowa er Huckabee tók að bæta við sig og sigur hans nú er högg fyrir Romney, sem gæti orðið til að ganga frá baráttu hans. Örlög hans ráðast fyrst og fremst í New Hampshire en tap þar fyrir John McCain myndi verða örlagaríkt og gæti orðið örlagaríkur skellur fyrir hann. Mitt Romney hefur með miklum peningum byggt maskínu sem þótti líkleg til að taka fyrstu fylkin og marka góða stöðu - hann getur ekki lengur talist öruggur með neitt.

Fyrir nokkrum mánuðum töldu flestir John McCain búinn að vera. Hann átti í miklum erfiðleikum með framboð sitt í fyrrasumar og fram á haustið. Margir afskrifuðu McCain á þeim tímapunkti og töldu hann bæði of gamlan fyrir forsetaframboð og ekki með þann kraft sem þyrfti í forystusess baráttunnar um Hvíta húsið. Hann hefur snúið aftur af krafti og er kominn í alvöru baráttu um útnefningu flokksins. McCain náði eftirminnilegum sigri á George W. Bush í forkosningabaráttunni í New Hampshire fyrir átta árum. Nú stefnir í að hann sé að ná sömu stöðu þar aftur. Sá sigur myndi marka hann sem alvöru forsetaefni, sem á alvöru möguleika á Hvíta húsinu.

Hillary Rodham Clinton er særð eftir útkomuna í Iowa. En hún er sannarlega ekki búin að vera. Hún þarf þó að eiga öfluga endurkomu fljótt til að geta verið sú sterka, eins og hún var talin nærri allt síðasta ár í baráttunni um Hvíta húsið. Að mörgu leyti ræðst staða hennar mjög í New Hampshire, en með sigri þar gleymist Iowa fljótt. Hillary hlaut fleiri landsþingsfulltrúa en Edwards í Iowa og á auðvitað enn talsverða von á útnefningunni. Það er erfitt að afskrifa hana þó hún tapi í Iowa. En Hillary hefur hökt sýnilega síðan í kappræðunum í Philadelphiu. Það var örlagamóment. Það hefur sést vel og hún hefur verið viðkvæm og þessi ósigur er mikið áfall fyrir hana á viðkvæmum tímapunkti.

Ósigur Clinton-hjónanna í Iowa er þeirra fyrsti í mjög mörg ár. Þau eru ekki vön því að tapa. Hillary hefur aldrei tapað kosningum, ef ég man rétt. Arfleifð þeirra í stjórnmálum á alþjóðavettvangi er að mörgu leyti í húfi nú. Tapi hún þessum slag tapa þau hjónin ennfremur lykilstöðu sinni innan flokksins, sem þau hafa haft í einn og hálfan áratug. Það er bara ekki flóknara. Hún virðist hafa slegið ranga tóna í baráttu sinni að undanförnu og það er nú verkefni hennar að bæta úr því. Sláandi hljóta að teljast niðurstöðurnar um að yngri konur hafi frekar kosið Obama. Það staðfestir að innkoma Opruh á viðkvæmum tímapunkti skilaði sér fyrir hann. Það var örlagamóment í Iowa.

Hillary þarf nú að reyna að ná þessum hóp aftur. Þar liggur lykilbarátta hennar nú. Það er mjög líklegt að þessi hópur ráði úrslitum er yfir lýkur, altént fyrir Hillary. Vandi hennar er líka sá að hún er lykilfulltrúi fyrri tíma í bandarískum stjórnmálum, verið á sviðinu lengi. Obama hefur aðeins verið í öldungadeildinni í tvö ár og sigur hans í Iowa sýnir umfram allt fólk vill breytingar. Það eru stóru tíðindin. Það er ástæða þess að forskot Hillary hefur gufað upp. Obama virkar á marga sem framtíðin en Hillary sé fortíðin uppmáluð. Barack Obama talaði eins og alvöru forsetaefni í gærkvöldi. Hann er ferskt andlit - það er hans helsti styrkleiki í baráttunni.

En þetta er bara rétt að byrja. Baráttan um útnefningu repúblikana er sú tvísýnasta í yfir hálfa öld - enginn búinn að vera enn. Thompson og McCain geta ágætlega við unað eftir Iowa, fengu báðir ágætis kosningu miðað við að hafa ekki fókuserað á það. Giuliani fékk aðeins fjögur prósent, en hann horfði aldrei þangað og er ekki mikið að spá í New Hampshire heldur. Það mun ekki reyna að ráði á hann fyrr en kosið verður í Flórída síðla mánaðar. Hann stendur og fellur með góðri útkomu þar. En stóru tíðindin eftir Iowa eru bara tvenn; Huckabee markaði sig sem alvöru frambjóðanda og Romney varð fyrir höggi.

Hjá demókrötum eru Joe Biden og Chris Dodd búnir að blása af framboð sín eftir vonda útkomu í Iowa. Það áttu allir von á því. Stutt er í að Bill Richardson fari sömu leið. Dennis Kucinich á engan séns, er álíka sterkur kandidat og Ástþór Magnússon, en hann lafir í þessu eitthvað lengur. Hjá demókrötum snýst þetta bara um tríóið; Obama, Clinton og Edwards. Hefur verið þannig mánuðum saman og verður þannig. Edwards hefði þurft sigur í Iowa til að virkilega marka stöðu sína sem sigurstranglega. Hann átti von á og þurfti líka betri útkomu en þessa. Eftir stendur að þetta er slagur Obama og Clinton.

Það eru ellefu mánuðir þar til að 44. forseti Bandaríkjanna verður kjörinn. Það er ómögulegt að spá með vissu um það nú hver verði eftirmaður George W. Bush í Hvíta húsinu. Þetta eru tvísýnustu forsetakosningar í Bandaríkjunum í átta áratugi hið minnsta, myndi ég segja. Huckabee og Obama eru þó sigurvegarar fyrstu umferðarinnar í baráttunni og hafa fengið byr í seglin, eftir að hafa verið taldir vonlitlir um útnefningu flokka sinna, eru stjörnur þeirra í Iowa hið minnsta. En enn er mikið eftir og spennandi barátta er framundan.


mbl.is Huckabee og Obama sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband