Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.1.2008 | 00:15
Umdeildar embættisveitingar Össurar

Guðni Jóhannesson sem hlaut embættið hefur verið þekktur fyrir að vera gamall vinstrimaður og hafa sögusagnir heyrst um vinskap milli hans og Össurar. Eins og flestum er kunnugt er Guðni tengdasonur Sverris Hermannssonar, fyrrum ráðherra og bankastjóra, og því mágur Margrétar Sverrisdóttur, fyrrum forseta borgarstjórnar. Guðni sat í nefndum fyrir alþýðuflokksmanninn Jón Sigurðsson á ráðherraferli hans á níunda og tíunda áratugnum, svo fátt eitt sé nefnt. Nú ætlar Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir að óska eftir rökstuðningi ráðherrans og verður áhugavert að sjá hann og hvort að málið fari til umboðsmanns eða jafnvel lengra. Það blasir eiginlega við.
Það vakti mikla athygli mína að skipan Ólafar Ýrr Atladóttur í stöðu ferðamálastjóra var réttlætt t.d. með jafnréttissjónarmiðum á sama degi og Össur gekk framhjá kvenkyns aðstoðarorkumálastjóra í starf sem hún hefur gegnt áður. Ólöf er reyndar komin af sjálfstæðisættum eins og flestir vita, en faðir hennar er bróðir Björns Dagbjartssonar frá Álftagerði í Mývatnssveit, fyrrum alþingismanns Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Það er greinilegt á fólki sem ég þekki úr ferðaþjónustugeiranum að það er undrandi yfir valinu á Ólöfu Ýrr, enda hafa mjög margir umtalsvert meiri reynslu úr ferðaþjónustugeiranum en hún.
Það er ekki nema von að sú spurning vakni hvort að Ólöf Ýrr hafi verið valin af jafnréttissjónarmiðum sérstaklega til að fegra valkost Össurar Skarphéðinssonar í stöðu orkumálastjóra. Þar valdi hann karlmann umfram hæfa konu, sem flestir töldu að fengi starfið. Össur getur t.d. varið ráðningu Guðna með því að hann hafi nú valið konu sem ferðamálastjóra. Þetta hlýtur að teljast líkleg kenning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2008 kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.1.2008 | 19:28
Bakkað með glataða yfirhylmingu stjórnvalda
Það var kominn tími til að pakistönsk stjórnvöld bökkuðu með þá arfavitlausu kenningu að Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, hefði látið lífið vegna þess að höfuð hennar hefði skollið í þaklúguna á bílnum en ekki verið skotin til bana. Fjöldamargar svipmyndir frá síðustu augnablikunum fyrir morðið hafa staðfest svo ekki verður um villst að Benazir féll við í kjölfar skotárásarinnar en ekki við sprengjuárásina eins og stjórnvöld héldu fram í upphafi. Þessi útgáfa þeirra hélt einfaldlega ekki vatni lengur og ótrúlegt hvað þeir héldu lengi fast við þetta rugl sitt.
Það sem er þó allra verst í þessari útgáfu er að stjórnvöld reyndu með hótunum að fá lækna á sjúkrahúsinu í Rawalpindi, þar sem Benazir Bhutto var úrskurðuð látin, til að taka undir skýringar þeirra á atburðarásinni. Lýsingar læknisins sem rýfur þögnina er frekar skuggaleg. Auk þess komu þeir í veg fyrir að hún væri krufin. Það er eiginlega varla hægt að líta svo á að pakistönsk stjórnvöld séu hæf til að halda utan um rannsóknina á morðinu á Bhutto eftir þetta. Það er eðlilegt að alþjóðlegir aðilar taki það að sér að fara yfir málið.
Það má vel vera að pakistönsk stjórnvöld hafi viljað rusla málinu til og ljúka því sem fyrst, bæði til að bægja umræðunni frá því hversu illa var hugsað um öryggi Benazir Bhutto og ennfremur til að reyna að lægja öldur og ljúka málinu. Þessi hringekja hefur þó gert málið allt enn verra og greinilegt að reiðin er síst minni meðal fólks nú en var fyrst eftir morðið. Það er eðlilegt að ólga sé yfir því að svo glötuð útgáfa atburðarásar er sett fram í alvöru af stjórnvöldum. Útgáfa stjórnvalda var heimskuleg og bar öll merki yfirhylmingar. Eðlilega hafa vaknað grunsemdir um hvort stjórnvöld hafi staðið að baki morðinu í kjölfar þessa.
Það hlýtur að teljast stóralvarlegt mál að stjórnvöld ætli sér að snúa augljósum staðreyndum við í pólitísku morðmáli af þessu tagi og reyna að búa til ósanna útgáfu atburðarásar og láta svo á eftir eins og það skipti ekki máli. Það er varla hægt að treysta opinberum frásögnum sömu aðila á því máli framar og eðlilegt að alþjóðlegir aðilar fari yfir málið í stað þess að ætla að sópa því undir teppið til þess eins að bjarga pólitískum heiðri annarra.
![]() |
Útskýringar á dauða Bhutto dregnar til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2008 | 14:19
Ólafur Ragnar gefur kost á sér til endurkjörs
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í nýársávarpi sínu nú laust eftir hádegið um að hann ætlaði að gefa kost á sér til endurkjörs og vilji sitja fjórða kjörtímabilið. Þessi ákvörðun þarf ekki að koma að óvörum. Það hefur eiginlega blasað við frá því að hann ákvað að nota ekki þingsetningu sem vettvang ákvörðunar um framhaldið að hann ætlaði sér að sitja eitt tímabil enn.
Með þessu fetar Ólafur Ragnar Grímsson í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur sem bæði sátu á forsetastóli á Bessastöðum í sextán ár, en Kristján Eldjárn sat í tólf ár og Sveinn Björnsson var forseti Íslands í átta ár, auk þess að vera fyrsti og eini ríkisstjóri Íslands í þrjú ár áður, og lést í embætti. Ólafur Ragnar sagði í kosningabaráttunni 1996 að hann ætlaði sér, ef kjörinn væri, að sitja í embættinu tvö kjörtímabil hið mesta en hefur nú fetað í fótspor þeirra sem lengst hafa setið á Bessastöðum - metið stöðuna með öðrum hætti séð frá sjónarhóli þess sem situr á forsetastóli.
Átti mun frekar von á þessari ákvörðun en því að Ólafur Ragnar ætlaði að hætta. Hefði hann dregið sig í hlé hefði hann tilkynnt þá ákvörðun þingi og þjóð með formlegum hætti við þingsetningu í október. Enda var þá hávær umræða um hvað Ólafur Ragnar ætlaði að gera og fylgst var með hverju orði hans í ræðu í þingsal. Taldi alltaf mun líklegra að tilkynning um starfslok kæmi þar, enda var Ólafur Ragnar alþingismaður samanlagt í áratug, með hléum reyndar. Hann reyndar ennfremur einn fárra utanþingsráðherra í stjórnmálasögu landsins, enda var hann ekki alþingismaður er hann sat sem fjármálaráðherra 1988-1991 og formaður Alþýðubandalagsins fyrra kjörtímabil sitt í forystu.
Með þessari ákvörðun felst ennfremur ákvörðun Ólafs Ragnars um að gegna forsetaembætti fram að eftirlaunaaldri. Verði Ólafur Ragnar endurkjörinn eða sjálfkjörinn, sem telja má nær öruggt á hvorn veginn sem það svosem fer, verður hann orðinn 69 ára gamall er fjórða kjörtímabilinu lýkur í ágúst 2012. Hann er með þessu að fókusera sig á þau verkefni sem hann hefur sinnt í tólf ár en ætlar ekki að hugsa til verka í fjarlægri stórborg eins og mörgum fannst reyndar líklegt af framgöngu hans á erlendum vettvangi undanfarin misseri, þar sem hann hefur frekar minnt á pólitískan leiðtoga með ambisjónir en þjóðhöfðingja lítillar þjóðar.
Það má vel vera að það sé að verða að hefð að forsetar Íslands sitji fjögur kjörtímabil á Bessastöðum. Það gerist ekki oft að ég sé sammála Steingrími J. Sigfússyni en ég get tekið undir hvert orð hans með kjörtímabil forseta Íslands í Kryddsíld Stöðvar 2 í gær. Það færi vel á því að það væri ákveðið að forseti sæti í sex ár í embætti en gæti aðeins einu sinni gefið kost á sér til endurkjörs og með því tryggt að forseti sæti aðeins tvö sex ára kjörtímabil. Að mínu mati er tólf ár í senn hæfilegur og nægilegur tími til setu í forsetaembættinu.
En ég fagna því að Ólafur Ragnar hafi tekið af skarið. Það þurfti að fá skýrar línur með stöðu mála. Það er eðlilegt að sitjandi forseti tilkynni eigi síðar en í nýársávarpi á kosningaári hvort að hann ætli sér að sækjast eftir endurkjöri. Fyrir fjórum árum beið Ólafur Ragnar fram í marsmánuð með ákvörðun um þriðja kjörtímabilið. Það var of löng bið. Það er enda eðlilegt ætli forseti sér að hætta eða halda áfram að sú ákvörðun liggi fyrir vel tímanlega svo að aðrir geti íhugað sína stöðu.
![]() |
Býður sig fram til endurkjörs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2007 | 16:30
Svandís Svavarsdóttir valin maður ársins

Það var eiginlega óskiljanlegt að Svandís skildi ekki notfæra sér lykilstöðu sína í því sem tók við með falli meirihlutans með því að verða sjálf borgarstjóri í Reykjavík. Það hefði verið eðlilegast að hún hefði orðið borgarstjóri í nýjum meirihluta sem var myndaður. Í hugum flestra var enda Svandís sigurvegarinn í málinu og sópaði til. Þetta er þó tvíeggjað sverð fyrir hana, enda ákvað hún að fallast í faðma með Birni Inga Hrafnssyni sem var lykilmaður í spillingarfeni REI-málsins og fylkja liði með honum. Hafa þau verið að stíga taktfastan tangó síðan og vilja bæði stjórna dansinum.
Svandís hlýtur að teljast valdamest í nýja meirihlutanum þrátt fyrir að vera ekki borgarstjóri. Hún heldur á mikilvægustu valdataumunum og getur verið örlagakarakter nýja meirihlutans. Fyrst eftir myndun meirihlutans töldu margir Björn Inga Hrafnsson stóra sigurvegara málsins. Aftur á móti er hann lokaður inni núna með vinstriöflunum og hefur ekki í önnur skjól að venda. Falli meirihlutinn er hann dæmdur til minnihlutasetu enda mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki treysta honum framar. Þannig má segja að Ólafur F. Magnússon og Svandís Svavarsdóttir séu í oddastöðu og geti spilað meira sóló og minnt á kraft sinn.
Ég tel að næsta ár verði ekki síður örlagaríkt í borgarmálunum en það sem senn líður í aldanna skaut. Vinstrimeirihlutinn er mjög brothættur og má ekki við neinu í raun. Þar geta hin minnstu átök fellt hann. Þarna eru fjögur öfl með minnsta mögulega meirihluta, svo að tæpt telst það. REI-listinn er enginn R-listi. Það blasir við öllum. Þar var tekið saman höndum án málefnasamnings og haldið í vegferð út kjörtímabilið án veganestis í málefnaformi. Það hlýtur að teljast erfið vegferð.
Svandís er orðin lykilpersóna í íslenskum stjórnmálum. Það mun koma að því fyrr en síðar, tel ég, að hún verði leiðtogi VG á landsvísu. Eðlilega er það orðin ein stærsta spurning íslenskra stjórnmála hvenær að Steingrímur J. yfirgefi sviðið og hætti, enda fór hann illa út úr stjórnarmyndunarfléttunni í vor, og Svandís taki við forystu flokksins, enda er hún sterkasta leiðtogaefni hans, skelegg og ákveðin eins og faðir hennar, sem var einn helsti leiðtogi vinstrimanna á síðustu áratugum.
Finnst blasa við að henni sé ætlaður lykilsess í stjórnmálum. Óska Svandísi til hamingju með titilinn og vona að hún standi sig áfram í málefnum Orkuveitunnar og fari ekki að kóa með vitleysunni sem hún barðist áður gegn. Svandís hefur risið upp sem fullskapaður leiðtogi á skömmum tíma og hún gæti orðið einn sterkasti leiðtogi vinstrimanna á landsvísu fyrr en síðar ef hún stendur sig áfram í borgarmálunum.
![]() |
Svandís maður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.12.2007 | 18:16
Eldskírn Bilawal - fetað í fótspor forfeðranna

Þrem sólarhringum eftir að Benazir Bhutto féll fyrir morðingjahendi er einkasonur hennar, Bilawal, kominn í innsta hring forystusveitar pakistanskra stjórnmála og orðinn lykilþátttakandi í þeirri stjórnmálabaráttu sem einkenndi móður hans og afa áratugum saman og kostaði þau bæði lífið. Bilawal erfir sögufrægt fjölskylduveldi - þetta eru örlög sem móðir hans ætlaði honum en hann hlýtur eldskírnina við gröf hennar á viðkvæmum aldri.
Bilawal Bhutto er ekki öfundsverður af þessu hlutskipti. Hann var aðeins kornabarn er móðir hans varð forsætisráðherra árið 1988 og hefur eins og hún lifað í skugga stjórnmála alla sína ævi. Stjórnmálabaráttan í Pakistan hefur verið miðpunktur Bhutto-fjölskyldunnar áratugum saman. Sú barátta gengur í erfðir. Hann getur ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem við honum blasir er móðir hans hefur fallið í valinn. Hún hætti lífi sínu fyrir þessa baráttu. Uppgjöf var ekki valkostur í hennar huga og hann tekur nú þessa þungu byrði á sig. Það er eflaust erfiðara en orð fá lýst að taka þá byrði á viðkvæmum aldri.
Pakistanski þjóðarflokkurinn var stofnaður af Zulfika Ali Bhutto sem vopn í stjórnmálabaráttu, vopn í erfiðri baráttu. Sú barátta varð dóttur hans er hann féll í valinn og sömu örlög erfir dóttursonur hans. Þessi flokkur er undir merkjum þeirra feðgina og nafn þeirra verður flokksins svo lengi sem stjórnmálaáhugi lifir í afkomendum þeirra. Það sést á ákvörðunum dagsins. Morðið á Benazir Bhutto verður til þess að baráttan persónugerfist enn. Þessi barátta er nú merkt afkomendum hennar. Það eru vissulega örlagatíðindi og rétt eins og hjá móðurinni er uppgjöf ekki valkostur hjá hinum unga syni sem þarf að taka á sig byrðar móðurarfsins.
Benazir Bhutto tók miklar áhættur í sínu pólitíska starfi. Hún hefði getað setið fjarri átakalínum og látið öðrum eftir forystusess á umbrotatímum eftir fall föður hennar. Það var ekki valkostur hennar. Og hún markaði söguleg skref með því að verða fyrsta konan við völd í íslömsku ríki. Förin til Pakistans eftir áratug í útlegð var áhætta sem kostaði hana lífið. Það varð ljóst er reynt var að drepa hana í október að hún ætlaði ekki að láta andstæðinga sína ráða örlögum þessarar baráttu. Enda sagði hún þá að uppgjöf væri ekki valkostur. Hún yrði að mæta því sem gerðist. Og það gerði hún.
Ég tel að hugrekki hennar verði lengi í minnum haft. Hún var hörkutól sem lifði fyrir áhætturnar og féll síðar vegna þeirra. En Benazir var engin hrein mey í stjórnmálabaráttu. Hún var ekki gallalaus en hún má eiga það að hún barðist. Hún tók áhættu sem fáir hefðu lagt í. Sem kona var hún fulltrúi baráttunnar á öðrum forsendum og hún hafði ljónskraft á við marga karlmenn. Hún var enginn heigull í karlaveldinu heldur leiðtogi í samfélagi þeirra. Það verður hennar arfleifð að vera kjarnakona baráttunnar á þessum slóðum.
En nú er þessi barátta færð á þriðju kynslóðina. Á þessum örlagatímum er baráttan í senn persónuleg og pólitísk. Það veit hinn ungi sonur kjarnakonunnar sem tekur á sig byrðar sem hann verður að axla. Í þeim efnum er varla spurt um viljann einan. Dauði Benazir Bhutto breytir miklu fyrir fólkið hennar. Þau þurfa að byggja baráttu sína á öðrum forsendum og halda áfram án neistans sem einkenndi baráttu hennar.
Nú er sonurinn kominn í sviðsljósið, áður en hann hefur getað lokið námi. En örlög hans eru ljós. Móðurarfur hans er einfaldlega sá að halda áfram baráttunni. Og það er ekki öfundsverður arfur í sjálfu sér. Þetta er barátta sem er í senn persónuleg og pólitísk. Og við gröf forfeðranna dugar varla hik.
![]() |
Sonur Bhutto einungis formaður í orði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2007 | 20:10
Benazir Bhutto var skotin til bana
Það leikur varla vafi á því nú að Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, var skotin til bana. Nýjar myndir sem sýndar voru síðdegis sýna vel að skotið var að henni úr návígi. Svo virðist vera sem að stjórnvöld séu að reyna að setja á svið mikla yfirhylmingu til að breyta staðreyndum varðandi þetta pólitíska morð á einum vinsælasta stjórnmálamanni Pakistans. Eitt og sér eru það stóralvarlegar fregnir og hlýtur að vekja spurningar um hvort að stjórnvöld eða aðilar tengdir þeim beri í raun ábyrgð á morðinu.
Strax og stjórnvöld komu með sína hlið á morðinu á Bhutto í gær fannst flestum það langsótt kenning. Eftir því sem fleiri myndir sjást af þessu atviki og fleiri tala um það sem gerðist verður sífellt ljósara að Bhutto féll fyrir kúlum byssumanns. Enda var það hin opinbera skýring á dauða hennar þar til í gær, er snúið var við blaðinu. Læknar og þeir sem bjuggu um lík Bhutto áður en hún var kistulögð fullyrða allir að hún hafi hlotið skotsár á höfði. Það hafi verið banamein hennar. Miðað við myndirnar í dag má sjá að það er nokkuð augljóslega dánarorsökin.
Það er auðvitað frekar dapurlegt ef að pakistönsk stjórnvöld ætla sér að reyna að stýra eftirmála þessarar pólitísku aftöku á stjórnmálamanni sem virtist vera á leið til valda. Hvers vegna er staðreyndum snúið á hvolf í þeim efnum? Drápu menn Musharrafs eftir allt saman Benazir Bhutto? Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér. Séu þessir aðilar aðeins að reyna að lægja öldur í landinu með þessu er það dæmt til að mistakast.
![]() |
Myndir sýna að skotið var á Bhutto |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2007 | 18:01
Tvær sögur um dánarorsök Benazir Bhutto

Í öllu falli er ljóst að árásin á hana varð henni að bana, hvort sem hún varð fyrir skoti eður ei. Opinbera útgáfan verður eflaust umdeild, í ljósi fyrri fullyrðinga um dánarorsök. Myndir af atvikinu eru mjög óljósar og svara engum spurningum með afgerandi hætti. Eftir sem áður er ljóst að dauði Benazir Bhutto markar þáttaskil í Pakistan. Þar hefur allt breyst á skömmum tíma og staðan er viðkvæmari en oft áður. Baráttan fyrir lýðræði í Pakistan hefur orðið fyrir miklu áfalli og fráfall Benazir með þessum hætti eru stórtíðindi.
Það er í sjálfu sér erfitt að trúa nokkru sem kemur frá innanríkisráðuneyti Pakistans á þessum umbrotatímum. Þessar skýringar á láti hennar verða umdeildar. Það breytir ekki um það að árás var gerð á Benazir og það kostaði hana lífið. Því verður ekki breytt. Sú árás markar þau þáttaskil að stjórnarandstaða er leiðtogalaus, hefur ekki öflugan leiðtoga af því kalíberi sem einkenndi Benazir. Það er alveg ljóst að hryðjuverkaöfl hafa með þessari árás vegið að lýðræðisbaráttunni.
Dánarorsök Benazir Bhutto í slíkri hryðjuverkaárás skiptir í sjálfu sér ekki máli. Hún er látin og það verður að horfa fram á við en ekki aftur. Benazir Bhutto snýr ekki aftur. Flokkur hennar og stjórnarandstaðan þurfa nú að velja nýjan leiðtoga; sem hefur styrk og leiðsögn af því tagi sem einkenndi Benazir. Það verður erfitt en þetta er það sem blasir við að gera þurfi. Án þess mun lýðræðisbaráttan ekki ná flugi. Mikilvægast er að standa vörð um hana nú.
![]() |
Lést af völdum höfuðhöggs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2007 | 10:26
Al-Qaeda segist hafa myrt Benazir Bhutto

Pakistan hefur verið eitt helsta skjól hryðjuverkamanna á valdaferli Pervez Musharraf og flestir telja að Osama Bin Laden leynist þar. Landið er markað af hryðjuverkum og ógnum á alla bóga. Það er eðlilegt að hafa miklar áhyggjur af stöðunni á þessari stundu. Pakistan ræður yfir miklu af kjarnavopnum og það er því eðlilegt að heimsbyggðin fylgist með pólitískum hræringum á þeim slóðum og hver muni hljóta yfirráð yfir þessum vopnum. Um þau völd er tekist núna í aðdraganda kosninga.
Hryðjuverkasamtök eru mjög sterk og eðlilegt að óttast framgang þeirra með morði á stjórnmálamanni vegna skoðana sinna. Morðið á Benazir Bhutto sýnir vel að nær algjört stjórnleysi er á þessum slóðum. Baráttan við alræmd hryðjuverkaöfl hefur sjaldan verið erfiðari og sú barátta tekur á sig nýja mynd án lykilforystumanns á borð við Benazir Bhutto sem var á góðri leið með að komast aftur til valda er hryðjuverkaöflin ruddu henni úr vegi.
![]() |
Al-Qaeda sagt hafa lýst ábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2007 | 00:24
Eldfimt ástand í Pakistan - hver myrti Benazir?

Það er erfitt að slá nokkru föstu um hver stóð að þessum verknaði. Það voru mörg öfl sem höfðu horn í síðu Benazir Bhutto og vildu ekki sjá hana við völd í landinu, en mjög margt benti til þess að hún yrði sigursæl í kosningunum eftir tíu daga. Vestrænar áherslur hennar og mildari forysta hafa valdið því að margir vildu hana feiga, það mátti því allt eins eiga von á þessu morði, enda ekki langt síðan að reynt var að drepa Benazir. Hefur hún verið á kosningaferðalagi í skugga þessarar ógnar en lét hana ekki á sig fá. Segja má að Benazir hafi látið lífið í þágu baráttu sinnar fyrir betri tíð í Pakistan.
Nokkrir sem skrifað hafa um morðið á Benazir Bhutto finna að því að hún verði hafin upp til skýjanna eftir þetta kaldrifjaða morð. Rifja meira að segja upp að hún hafi verið umdeild sem forsætisráðherra. Mér finnst þessi skrif ósmekkleg. Það er að mínu mati eðlilegt að framlag Benazir Bhutto til stjórnmálabaráttu og það framlag sem hún færði og kostaði hana að lokum lífið verði virt. Heimkoma hennar var ein stór áhætta og hún tók þá áhættu vitandi um að það gæti farið á versta veg. Að mínu mati var hún pólitísk hetja sem ber að sýna virðingu. Skoðanir hennar og fortíð eru í sjálfu sér aukaatriði.
Það er alltaf stingandi þegar að stjórnmálamenn eru myrtir til þess eins að þagga niður í þeim. Það snertir mig illa og gildir þá einu hver viðkomandi stjórnmálamaður sé eða hver baráttan er. Það sjá allir að Benazir var myrt vegna þess að óttast var um að hún kæmist til valda. Með þessum verknaði eru þó ódæðismennirnir að festa minninguna um hana í sessi, gera úr henni minningarhetju um þær breytingar sem hún barðist fyrir. Það er bara þannig. Það er að mínu mati eðlilegt að minningu hennar verði sómi sýndur. Pólitískt morð af þessum kuldalega hætti verður til þess að almenningur bregst við.
Það er vissulega sorglegt að Benazir Bhutto hafi orðið að gjalda með lífi sínu fyrir lýðræðisbaráttuna sem hún leiddi í Pakistan. Það sýnir bara hversu eldfim staðan er í landinu og hversu erfið baráttan er; umfram allt við hversu erfiða andstæðinga er að eiga. Ekki bætir úr skák aðrar aðstæður, einkum þær að landið er sundurskorið af átökum og sundrungu. Tómarúmið er mikið hjá stjórnarandstöðunni í Pakistan. Þar er enginn sem kemst nærri stöðu Benazir Bhutto.
Fyrst og fremst tel ég að morðið á Benazir sé gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkin. Þeir stóluðu á valdasambúð Benazir og Musharrafs, til að lægja öldur. Það er nú úr sögunni og vargöldin ein blasir við. Það er með öllu ómögulegt að spá um hver rís upp úr þeirri vargöld sem leiðtogi, enda hefur Musharraf veikst til muna. Púðurtunnan í Pakistan hefur sjaldan verið á tæpara vaði en nú.
![]() |
Lík Bhutto flutt til Larkana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.12.2007 | 19:17
Morðið á Benazir - hvað gerist nú í Pakistan?

Með Benazir Bhutto er fallin í valinn sterkasti forystumaður andstöðunnar gegn Pervez Musharraf, sem hefur ríkt sem einræðisherra í landinu í áratug og hefur nýlega tekið sér alræðisvald með því að sparka dómurum til að geta setið áfram með dómaravaldi þeirra sem eru honum þóknanlegir og ægivaldi yfir fjölmiðlum. Það er öllum ljóst að ekkert verður úr þingkosningum í næsta mánuði. Að halda kosningar nú væri lítillækkun við þann litríka stjórnmálamann sem markaði söguleg skref og hefur nú látið lífið við að berjast fyrir lýðræði í heimalandi sínu. Óvissan ein blasir nú við. Heiðarlegast væri reyndar að Musharraf hefði vit á að segja af sér á þessum örlagadegi.
Benazir var að ég tel eina von Pakistans í þeim ólgusjó vargaldar og átaka sem staðið hefur í landinu árum saman. Hún var eini leiðtoginn sem hafði kraft og leiðsögn sem gat skipt máli til að snúa blaðinu við og horfa framhjá átökum liðinna tíma og þeim blikum sem voru á lofti. Dauði hennar er gríðarlegt áfall fyrir lýðræðisbaráttuna, umfram allt baráttunni fyrir heiðarlegum kosningum og því að tryggt yrði að hlustað yrði á rödd almennings í þessu landi, þar sem þjóðhöfðinginn hefur nú ríkt í áratug með ægivaldi hersins í bakgrunni og sem leiðarljós. Það er aðeins spurning nú um hversu mikil átök verði. Það blasir við öllum að morðið á Benazir magnar óöldina sem staðið hefur.
Það er alltaf mikið áfall þegar að stjórnmálamenn falla í valinn við það eitt að berjast fyrir hugsjónum sínum og pólitískum markmiðum; eru drepnir vegna þess að þeir eru þyrnir í augum einhverra. Ég hef fylgst með atburðarásinni á Sky í dag. Þetta er auðvitað mikill örlagadagur, þegar að svo stutt er í áramót. Pakistan er enn einu sinni á krossgötum. Vonir voru bundnar við að endurkoma Benazir fyrir rúmum tveim mánuðum yrði nýtt upphaf. Það er allt breytt nú þegar að hún liggur á líkbörunum, fallin fyrir kúlum árásarmanns. Fólkið hennar er í örvilnan, það hefur heyrst vel í dag en samtalið við samherja hennar á Sky situr mjög í mér. Þar vantar leiðtoga nú. Það sést vel.
Dauði Benazir Bhutto markar enn ein þáttaskilin í sögu Pakistans. Það er vonandi að þau þáttaskil marki ekki það að Musharraf styrkist meir en orðið er. Það verður erfitt að finna leiðtoga til að fylla í spor hinnar litríku kjarnakonu. Það fylgjast allir með því nú hvað nýárs blessuð sól boðar pakistanskri þjóð. Þar er allt breytt með þessu vígi á baráttukonunni sem markaði svo söguleg skref.
![]() |
Sharif hyggst sniðganga kosningarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |