Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.1.2010 | 02:13
Forseti ver ákvörðun og talar við heimspressuna
Ólafur Ragnar Grímsson varðist fimlega í viðtalsþætti Jeremy Paxman, eins beittasta spyrils bresku pressunnar, í kvöld og talaði einbeitt og traust máli Íslands í heimspressunni. Eitthvað annað en forsætisráðherrann ósýnilegi hefur gert. Eina sem heimspressan hefur séð af þeirri konu frá synjun forsetans er myndin af fúlli og þreytulegri konu lesandi með gremjutón af blaði einhvern samsetning sem meikaði engan sens fyrir Íslendinga og því síður fyrir aðra.
Stjórnin beilaði á fyrstu viðbrögðum og fór í einhverja fýlu. Voru engin viðbrögð tilbúin? Töldu þau að forsetinn hugsaði bara um vinstrið? Mér finnst út í hött að farið sé að blaðra um þessa ákvörðun sem rimmu forseta við ríkisstjórn og sá sem tapi sé úr leik. Auðvitað á að vinna hlutina með hag Íslands að leiðarljósi, íslensk stjórnvöld verða að fara að gæta íslenskra hagsmuna og tala af festu og ábyrgð í stað þess að væla yfir forsetanum sem þau töldu sig eiga.
Við þurfum að tala við heimspressuna af ábyrgð og festu. Það gerði Ólafur Ragnar í kvöld á meðan vinstristjórn er í einhverju egósjokki og búa til fæting við forseta sem færir valdið í mikilvægu máli til fólksins í landinu. Þeim er ekki viðbjargandi sem halda að þetta sé egóbarátta Jóhönnu vs. Ólafs. Við þurfum að vinna okkur út úr krísu og tala við heimsbyggðina af festu. Þessi stjórn og hin fyrri hafa báðar flaskað á þessu verkefni og helst unnið hag annarra.
Það er aumt. En ég held að þessi forseti ætli að gera það og hann lét ekki kjafta sig í kútinn. Svo megum við ekki gleyma því að forsætisráðherrann gerði meiri skaða en gagn með orðavali sínu þegar hún talaði ofan í borðið með gremju og vælutón eins og sorgmædd kona í losti. Við þurfum leiðtoga til að tala þjóðina upp en ekki niður.
Ólafur í kröppum dansi á BBC | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2010 | 18:12
Vælutónn í stjórnarliðum vegna forsetans
Ég man vel hvernig sömu menn fögnuðu og tóku gleðiköst fyrir sex árum. Nú eru viðbrögðin önnur, enda erfitt fyrir sömu aðila að sætta sig við að forsetinn, sem þau töldu sig eiga algjörlega hvert bein í, vinni gegn þeim og grafi undan vinstristjórninni. Viðbrögðin eru fálmkennd og sumir farnir af límingunum. Frekar fyndið.
En þetta er stjórnarskrárbundinn réttur forsetans. Þeir sem fögnuðu að hann væri virkjaður eru ekki trúverðugir við að tala gegn honum núna. Sérstaklega er snúningur Samfylkingarinnar einkar athyglisverður og nægir að líta til Össurar sem lét stór orð falla um lýðræðisvæðingu þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum.
En þetta er veruleikinn. Stjórnin á að hætta þessu væli, búa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu, verja þennan samning ef hann er þeim svona kær. Þjóðin hefur valdið. Þeir sem væla yfir því að 26. greinin sé virkjuð og studdu sama forsetann í því verki árið 2004 eiga að standa í lappirnar og vera menn til að standa sig.
Og hætta þessu fjárans væli!
Steingrímur til Bretlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2010 | 11:37
Ólafur Ragnar synjar Icesave-lögunum
Forsetinn er kjarkaður í þessari ákvörðun sinni, en er þó umfram allt samkvæmur sjálfum sér í afstöðu sinni í fjölmiðlamálinu árið 2004. Hann synjar nú lögum frá vinstristjórn og kveður í kútinn að hann hafi aðeins verið að hygla vinum og vandamönnum fyrir sex árum. Þetta er vissulega merkileg niðurstaða og breytir stöðu hans í huga þjóðarinnar.
Svo verður að ráðast hvort forsetinn styrkir stöðu sína með þessari ákvörðun, en ég tel að svo verði. Hann hlustar á þjóðina og færir henni valdið. Þetta er beint lýðræði í sinni bestu mynd. Hann talaði margoft um þetta á nýársdag og var augljóslega full alvara með að þjóðin taki af skarið. Það er virðingarverð afstaða.
Staðfestir ekki Icesave-lög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2010 | 09:38
Karl Th. spáir því að forsetinn synji lögunum
Þetta er sumpart spuni hvað Samfylkingin muni segja og gera fari allt á versta veg fyrir þá, enda málið verið þeirra lykilatriði eftir að þeir komu ESB í gegnum þingið í sumar. Svo verður að ráðast hvort stjórnin standi af sér synjun eða hvort eitthvað pólitískt kapítal sé eftir í átök - baráttan um Icesave verður ekki auðveld fyrir veikburða ríkisstjórn.
Ætla að láta það alveg vera að spá fyrir um, þó mér finnist sennilegra að hann synji eftir þessa löngu bið. En Ólafur Ragnar er óútreiknanlegur - það vitum við öll eftir áratuga plott hans í íslenskum þjóðmálum.
Sumir tala um að hann segi kannski af sér. Finnst það hæpið að hann taki ekki afstöðu til laganna. Finnst það ekki alveg í hans takti. Hann ætlar að nota þetta til að vekja á sér athygli og reyna að snúa vörn í sókn.
Svo verður að ráðast hvort hann hugsar um þjóðina eða stjórnmálamenn. Erfitt að spá. Held að hann hugsi fyrst og fremst um sjálfan sig. Hvar hann telur sjálfan sig passa í þá valkosti skal ósagt látið.
Forseti sem stendur frammi fyrir þessu vali getur verið hetja í dag, skúrkur í kvöld og sambland af báðu þegar frá líður. Góður kostur í dag getur verið afleitur þegar á reynir.
Ekki lengur spurning um hvenær heldur hvort | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2010 | 19:01
Dramatík á Bessastöðum
Ólafur Ragnar Grímsson heldur þjóðinni í spennu og augljóst að dramatíkin verður algjör á Bessastöðum í fyrramálið sama hvað hann gerir. Karlinn kann þetta eftir margra áratuga plott og pælingar í íslenskum stjórnmálum, en biðin hefur verið ansi löng að þessu sinni og aðdragandi tilkynningar minnir um margt á biðina eftir ákvörðun hans um fjölmiðlalögin.
Forsetinn verður úthrópaður sama hvort hann staðfestir eða synjar Icesave-lögunum. Forsetaembættið verður þó umfram úthrópað fari hann gegn þjóðinni sem hefur skorað á hann að synja þessum lögum staðfestingar. Held að Ólafur Ragnar eigi erfitt með að fara gegn eigin orðum frá árinu 2004 - hann verður algjört lame duck á forsetastóli geri hann það.
Ólafur Ragnar hefur margoft sýnt að hann er um margt óútreiknanlegur. Hann hefur ekki verið í öfundsverðri stöðu að undanförnu eftir að útrásardekrið sprakk framan í hann. Nú reynir á hvort hann þorir að fara gegn valdinu sem hann talaði svo afgerandi gegn á nýársdag og bauð byrginn árið 2004.
Þetta er sumpart spurning um hvort forsetinn þorir að fara eigin leiðir, fylgja þjóðinni eða stjórnmálamönnum.
Blaðamannafundur í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2010 | 17:29
Magnað skaup - svínslega beittur húmor
Ég var mjög ánægður með áramótaskaupið að þessu sinni. Finnst þetta besta skaupið frá upphafi, einu skaupin sem komast nærri því eru þau sem Óskar Jónasson gerði 2001 og 2002. Þetta var svínslega flottur húmor, beittur og líflegur. Vinstrimenn við völd og forsetinn á Bessastöðum fengu aldeilis að finna fyrir því á vinstraárinu 2009, eins og við mátti búast, þegar fyrsta hreina vinstristjórnin komst til valda og tókst að breyta nákvæmlega engu og svíkja nær öll gefin loforð.
Forsetaembættið sem löngum var táknmynd virðugleika og sameiningartákns í hugum landsmanna fékk vænan skell, hinn mesta í lýðveldissögunni af hálfu grínista. Útrásarvitleysan og partýstand útrásarvíkinganna var staðsett á forsetasetrinu. Þar var allt í rúst og búið að smána embættið og forsetasetrið með dekri við auðmennina. Þetta var táknræn gagnrýni, en hitti vel í mark, enda vita allir að forsetaembættið hefur verið lagt í rúst á undanförnum árum.
Lokaatriði Skaupsins var mjög vel heppnað, flott endalok á beittasta skaupi seinni tíma. Það segir allt sem segja þarf. Meira af svona flottum húmor, takk fyrir!
2.1.2010 | 22:57
Ásmundur, Lilja og Ögmundur skora á forsetann
Eftir því sem Ólafur Ragnar Grímsson tekur sér lengri frest því meir minnka líkurnar á því að hann skrifi undir. Allt tal stjórnarparsins Jóhönnu og Steingríms um að forseti hafi oft áður tekið sér frest til að taka afstöðu til lagafrumvarpa sem fyrir hann hafa verið lögð er algjört rugl. Man ekki betur en það hafi aðeins gerst einu sinni í seinni tíð: þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk lög frá þinginu til að stöðva flugfreyjuverkfallið 1985. Þá beið hún dagpart og ætlaði allt að fara af límingunum.
Mér fannst Jóhanna og Steingrímur óvenju þolinmóð á gamlársdag þegar forsetinn tók ekki afstöðu til laganna á ríkisráðsfundi með alla ráðherrana í kringum sig. Það var merkileg stund og á sér engin fordæmi í tíð forsetaembættisins. Enda ætluðust ráðherrarnir til að forsetinn skrifaði strax undir. Ekki hefði verið haft fyrir þessum flýti á lagasetningunni og að prenta út öll skjöl fyrir fundinn nema til að tryggja að hann myndi skrifa undir með hraði. En það gerði hann ekki.
Ergja og óánægja vinstrimanna er að verða nokkur þrátt fyrir rólegheit stjórnarparsins á gamlársdag. Björn Valur Gíslason er sendur út af örkinni til að senda skilaboðin frá Steingrími J. og flokkselítunni í vinstri grænum á meðan stjórnmálafræðiprófessor Samfylkingarinnar segir að forsetinn verði vinalaus skrifi hann ekki undir. Pólitíska pressan er skiljanleg, enda er þessi ríkisstjórn fokin út í veður og vind skrifi Ólafur Ragnar ekki undir.
Öllu púðri og pólitísku kapítali vinstristjórnarinnar hefur verið varið í þetta eina mál og það virðist eina málið sem hennar verður minnst fyrir.
4 stjórnarþingmenn skrifuðu undir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.1.2010 | 13:39
Mun forsetinn færa þjóðinni beinna lýðræði?
Athöfn Indefence-samtakanna á Bessastöðum í morgun var mjög vel heppnuð og vel skipulögð. Þetta var virðuleg athöfn sem hæfði tilefninu, þegar forseta Íslands voru afhentar undirskriftir fjórðungs kosningabærra Íslendinga - áskorun um beint lýðræði.
Söguleg stund vissulega, enda fékk forseti helmingi fleiri undirskriftir en í fjölmiðlamálinu. Ekki þarf að efast um vilja þjóðarinnar í þessum efnum, áskorunin ber þess merki að þjóðin vill beinna lýðræði í verki, ekki bara í orði.
Ólafur Ragnar Grímsson er eflaust hugsi, enda hefur hann sjálfur sett viðmiðin sem kallað er eftir. Hann breytti forsetaembættinu með því að virkja 26. greinina árið 2004 og hefur breytt sögulegu hlutverki embættisins.
Hann hefur sjálfur gert það kleift að horft er til forsetans á Bessastöðum sem mannsins sem getur veitt þjóðinni réttinn til að kjósa um eitt stærsta mál síðustu áratuga. Vinstrimönnum svíður það greinilega mjög nú.
En þetta er stærra mál en egó nokkurra stjórnmálamanna. Þarna talar þjóðin, ekki verður með góðu hundsaður vilji fjórðungs Íslendinga á kosningaaldri. Forseti sem hlustar ekki á þjóðina er rúinn trausti hennar.
Afhenda forseta undirskriftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2010 | 09:40
Afgerandi skilaboð til forseta Íslands
Ólafur Ragnar hefur valdið í sinni hendi. Hann talaði fjálglega um beint lýðræði í gær. Sé hann sjálfum sér samkvæmur og hugsar til eigin rökstuðnings í fjölmiðlamálinu verður valið honum varla erfitt. Nú reynir á hvort forsetinn styður milliliðalaust lýðræði í verki en ekki bara í orði eða í málum sem henta vinstrimönnum. Hann hefur sjálfur sett viðmiðin.
Ég vona að stundin á Bessastöðum nú á eftir, þar sem forsetinn fær afhendar 60.000 undirskriftir, verði bæði hátíðleg og hæfi tilefninu þegar söguleg þáttaskil hafa orðið - þjóðin hefur jú talað. Hún vill fá að taka þessa ákvörðun sjálf.
Undirskriftir orðnar 60 þúsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.1.2010 | 17:14
Getur Ólafur Ragnar bjargað forsetaembættinu?
Virðing þjóðarinnar fyrir forsetaembættinu er ekki lengur til staðar og embættið er ekki lengur táknmynd sameiningartákns allra landmanna. Þátttaka Ólafs Ragnars í hinni misheppnuðu útrás hefur sérstaklega leikið embættið grátt - maðurinn á forsetavakt nýtur ekki þjóðarvirðingar.
Þetta kemur vel fram í áramótaskaupinu. Hægt og rólega hafa grínistar verið að vega meira að forsetaembættinu, sem mátti aldrei gera grín að áður. Eina dæmið um alvöru grínsneið til þess var þegar Edda Björgvins lék Vigdísi í góðu skaupi árið 1994 og fékk skammir fyrir.
Ólafur Ragnar á tvo kosti í stöðunni nú: að hugsa um þjóðina eða vinstrimenn á valdastóli. Ef hann vísar Icesave til þjóðarinnar getur hann bjargað stöðu embættisins að einhverju leyti og yrði sumpart hetja þeirra tugþúsunda sem hafa kallað eftir þjóðaratkvæði.
Erfitt er að lesa í orð hans í dag... en freistandi að líta svo á að hann hafi sent stjórnmálamönnum fyrr og nú sneið í dag, talað gegn flokksvaldi og yfirboðum. Þau orð eiga vel við í dag eftir vinnuferlið í Icesave-málinu þar sem þjóðin er klofin í fylkingar.
Sé hann sjálfum sér samkvæmur er valið einfalt. Sjálfur markaði hann spor í fjölmiðlamálinu. Nú er þjóðin að kalla eftir þjóðaratkvæði af mun meira krafti. Icesave-málið verður prófsteinn á hvort forsetinn hugsar um þjóðina eða stjórnmálamennina.
Hann mun breyta stöðu sinni og embættisins mjög með því að hugsa um þjóðina framar öllu öðru - gefa henni valdið til að taka hina stóru ákvörðun. Forsetinn hlýtur að treysta þjóðinni.
Vilji þjóðarinnar hornsteinninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |