Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forsetinn af baki dottinn öðru sinni

Eflaust er það nokkur kaldhæðni að forseti Íslands falli af hestbaki öðru sinni á innan við áratug... nú bar þó svo við að ekkert slúðurblað náði myndum af atvikinu. Ekki fær forsetinn heldur flugferð til Reykjavíkur eins og þá... væntanlega frekar vegna minni meiðsla en sparnaðar.

Hollráðið er eflaust annað hvort að finna sér annað sport eða fara varlega. Vonandi nær forsetinn sér vel af þessu, svo hann verði sýnilegri, en lítið hefur farið fyrir honum að undanförnu þrátt fyrir að utanlandsferðum hans hafi fækkað.

mbl.is Ólafur Ragnar slasaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðleysi á kjörtíma í sjónvarpi

Hafi Hreiðar Már Sigurðsson ætlað sér að fara í Kastljósið til að styrkja stöðu sína og þeirra sem stýrðu Kaupþingi fram að hruninu mistókst það algjörlega. Hann hefði með því að sýna iðrun, beðið þjóðina afsökunar og virkað einlægur í því getað styrkt stöðu sína. Í staðinn sáum við innsýn í siðleysi í bankakerfinu í sukkuðu andrúmslofti fyrir hrun á kjörtíma í íslensku sjónvarpi.

Hreiðar Már er eitt af andlitum þessa siðleysis, sem kom best fram í lánabók Kaupþings. Lítil stemmning er í samfélaginu fyrir hálfbökuðum afsökunarbeiðnum sem eru hvorki einlægar né traustar... heldur leikrænt flopp þeirra sem eru að reyna að kaupa sér frið í samfélagi sem er allt að því á vonarvöl eftir spilavítisleikina dýrkeyptu í bankakerfinu.

Orðaleikfimin með eignatengsl var einn af hápunktum viðtalsins. Allir sem hafa snefilsvit vita hver tengslin voru milli aðila í lánabókinni. Ekki er við því að búast að þessir menn fái frið í íslensku samfélagi ef þeir ætla að halda áfram að tala til þjóðarinnar eins og hún sé jafn vitlaus og fyrir hrun - reikni ekki saman tvo og tvo.

mbl.is Annarra að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfsfeðgar á djamminu með 50 cent

bjoggar50cent

Ég held að flestir fái klígjuna upp í háls og gott betur þegar litið er á flottræfilsmyndina af Björgólfsfeðgunum í partýinu með 50 cent.... þetta eru jú mennirnir sem bera meginábyrgð á Icesave-ruglinu sem þjóðin er að fá í hausinn og voru með banka sem þeir áttu aldrei... fengu hann á lánum í Búnaðarbanka. Lítil samúð til feðganna.

En þetta eru svo sannarlega bad gangstas... passar vel með gangsta rapparanum....

Munu Bretar og Hollendingar taka gagntilboði?

Auðvitað er það von allra að fyrirvarar við Icesave-samkomulagið, sem kollvarpa samningnum og gjörbreyta, verði til einhvers gagns. Hinsvegar má búast við að Bretar og Hollendingar líti hornauga fyrirvara við samning sem var undirritaður fyrir tveim mánuðum. Samningurinn er auðvitað pólitísk afglöp þeirra sem bera ábyrgð á honum.

Fyrirvararnir bera þess merki að samningurinn er handónýtur.... í raun er verið að leggja drög að öðrum samningi en þeim sem Svavar Gestsson skrifaði undir í pólitískri ábyrgð vinstristjórnarinnar. Af hverju var ekki samið um þessa fyrirvara í samningsdrögunum hafi þeir skipt vinstristjórnina svo miklu máli?

Stóra niðurstaðan er sú að vinstristjórnin klúðraði málinu, gat ekki gert almennilegan samning né staðið vörð um hagsmuni Íslands. Þess vegna hefur málið verið stopp vikum saman, stjórnarflokkarnir höfðu ekki meirihluta fyrir þeim samningi sem skrifað var undir.

Beðið er nú viðbragða Breta og Hollendinga. Varla þarf að búast við að þeir verði sælir með þann nýja samning sem vinstristjórnin var neydd til að skrifa upp á vegna þingvilja... þegar sá gamli var fallinn í þingferlinu.

mbl.is Viðbrögð Breta og Hollendinga rædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör í móðu - mistökin á vakt Geirs

Ég hlustaði áðan á Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á BBC World Service. Að mörgu leyti gott viðtal og ágætis umfjöllun, en enn og aftur virðist sem Geir geti ekki gert upp fortíðina hreint út og viðurkennt að margt fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins. Margir sem treystu Geir fyrir fjöreggi þjóðarinnar og halda utan um þau mál sem mestu skiptir urðu fyrir miklum vonbrigðum. Ég er einn þeirra.

Geir H. Haarde ber mikla ábyrgð á því að hafa ekki gripið í taumana. Sjálfur hefur hann vikið af sviðinu, þá ákvörðun ber að virða. Ríkisstjórn hans svaf á verðinum - ekki verður litið framhjá því að hún  brást algjörlega þegar á reyndi - var reyndar alltaf handónýt. Hún stóð sig ekki í stykkinu þrátt fyrir rúman þingmeirihluta.

Sjálfsagt er að hann viðurkenni þá ábyrgð. Hann átti að gera það fyrir löngu síðan, enda er hún svo augljós. Geir sem verkstjóri þeirrar ríkisstjórnar var þó allavega sýnilegri í þeim verkum en núverandi forsætisráðherra. Ósýnilegri forsætisráðherra höfum við ekki séð í nútíma fjölmiðlun síðustu áratuga.

Stóra vandamál Íslands síðustu árin er að okkur vantar alvöru leiðtoga - sem gætir hagsmuna Íslands og stendur sig í stykkinu, stappar stálinu í þjóðina og leiðir hana í blíðu sem stríðu. Margir treystu Geir í því hlutverki en mjög margt fór úrskeiðis. 

Greinilegt er þó að stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna voru mikil pólitísk mistök. Sú ríkisstjórn skildi eftir sig vont bú og þessir flokkar náðu ekki að vinna heilsteypt saman. Eina sem hélt samstarfinu saman voru trúnaðarbönd Geirs og Ingibjargar. Stjórnin svaf á vaktinni.

Ég er einn þeirra sem varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með pólitíska forystu Geirs. Ekki aðeins hans heldur fleiri innan flokksins sem leiddu okkur út í stjórnarsamstarf sem var andvana fætt. Þeir sem voru þá á vaktinni eiga ekki skilið annan séns.

Met mikils að menn geti beðist afsökunar. Slíkt er manndómsmerki. Margir fleiri þurfa að gera það en stjórnmálamenn. Þeir sem leiddu okkur út í þetta fen, útrásarvíkingar og bankamenn bera stóra ábyrgð sem þeir verða að taka á sig. Þeir hafa sloppið of billega frá þessu.

Ég skynja að Geir iðrast sinna mistaka. En hann greinilega túlkar stóru mistökin sín að hafa treyst á Samfylkinguna. Æ betur sést hversu mjög hann þóknaðist þessum margsundraða flokki og lagði eigin örlög í hendur aðila sem voru ekki heilsteyptir.

Sá verður stóri dómur Geirs og þeirra sem áttu að vera á vaktinni með honum en brugðust algjörlega. Ekki er boðlegt að segja þjóðinni að það hafi verið of seint að gera eitthvað. Niðurstaðan er einföld og verður ekki umflúin: þau brugðust.


mbl.is Of seint að bregðast við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Copy/paste fréttamennska íslenskra fjölmiðla

Mér finnst það merkilegt að allir fjölmiðlar birti kokkaða tilkynningu ríkisstjórnarinnar um 100 daga áætlunina sem einhvern sannleik. Þegar litið er á óháð mat er augljóst að tilkynningin er röng eða í besta falli mjög villandi... væntanlega til að róa þá sem eru hundfúlir með fyrstu íslensku vinstristjórnina... sem hefur litlu sem engu breytt í íslenskri stjórnmálasögu eða fyrir heimilin í landinu. Skjaldborgin varð jú gjaldborg... ekki satt?

Hvernig er það annars... birta fjölmiðlar alveg gagnrýnislaust allar fréttatilkynningar sem þeir fá sendar til sín? Er ekki lagst í neina vinnu á bakvið það sem til þeirra er sent... vinsað úr og reynt að kafa ofan í málin?

mbl.is 42 mál af 48 afgreidd á 100 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir algjörlega úr tengslum við þjóðina?

Sé það rétt að Landsbankinn hafi afskrifað skuldir Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns, sýnir það veruleikafirringu í bankakerfinu - hversu þeir eru úr tengslum við þjóðina. Þetta er besta leiðin til að kalla fram aðra byltingu í þessu samfélagi - hví ætti Jón og Gunna úti í bæ að sætta sig við að skuldir stóreignamanna séu felldar niður þegar þau eru bundin og kefluð í skuldafangelsi... þurfa að borga sínar skuldir hvað sem tautar og raular.  

Hvað segir vinstristjórnin um þetta verklag á þeirra vakt? Ætla þau að taka í taumana eða horfa á svona vinnubrögð í þeirra ábyrgð? Eðlilegt er að krefja þá svara sem komust til valda undir formerkjum þess að auka gegnsæi og heiðarleika í samfélaginu en hafa litlu afrekað annað en gleypa hugsjónir sínar á mettíma.

mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti að hugleiða hvort skuldir færu í innheimtu?

Sjálfsagt og eðlilegt er að Björgólfsfeðgar taki á sig skuldir sínar, eins og Jón og Gunna úti í bæ. Hví tók það einhverjar vikur að taka ákvörðun um að þeir þyrftu að borga - skuldin færi í innheimtu? Er ekki eðlilegt að þeir fái sömu meðferð og aðrir sem skulda? Var virkilega verið að íhuga tilboð þeirra um að borga helming en hitt yrði fellt niður?

Þar sem nokkrar vikur eru liðnar frá því að tilboð hinna skuldsettu feðga varð opinbert er eðlilegt að hugleiða hvort það hafi komið til greina að taka því? Allt hefði orðið vitlaust í samfélaginu hefðu þessir feðgar fengið sérmeðferð og hliðardyr út úr vanda sínum. Kaupþing þá fyrst kynnst hatri í samfélaginu, mun frekar en í lögbannsmálinu.

mbl.is Milljarðalán Björgólfsfeðga í innheimtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk endalok á hjaðningavígum smáflokks

Skondið var að fylgjast með lokahluta farsans í Borgarahreyfingunni á Alþingi í dag þegar Þráinn Bertelsson gerðist óháður þingmaður og Margrét Tryggvadóttir baðst afsökunar á Alzheimer-tölvupóstinum. Trúverðugleiki þessarar hreyfingar er fyrir löngu gufaður upp... eftir standa aðeins hjaðningavíg og illdeilur fólks sem á greinilega enga samleið lengur.

Margrét verður væntanlega brennimerkt alla tíð af þessum tölvupósti. En hverskonar stjórnmálahreyfing er það annars þar sem allir birta tölvupósta hvers annars á netinu. Traustið er ekkert milli fólks innbyrðis.. varla þarf að búast við að þjóðin treysti þessu fólki.

mbl.is Þráinn úr þingflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju íslenskt Wipeout frekar en Kompás?

Mikill skaði var þegar yfirstjórn Stöðvar 2 slátraði fréttaskýringaþættinum Kompás, enda traustur og vandaður þáttur, undir yfirskini þess að þyrfti að spara. Merkilegt er að nú sé eytt stórfé í að gera íslenska útgáfu Wipeout fyrir vetrardagskrá Stöðvar 2 í stað þess að koma með Kompás aftur á dagskrá, einkum nú þegar þörf er á alvöru fréttaskýringaþætti til að gera upp ástandið í samfélaginu... hlúa að þjóðmálaumræðu frekar en léttmeti í sjónvarpi.

Ef marka má fréttir á að fljúga með tugi Íslendinga til Argentínu til að gera íslensku útgáfuna af Wipeout... er þetta góð forgangsröðun í dagskrárgerð? Reyndar hefur fréttavinnsla á Stöð 2 sífellt verið gengisfelld að undanförnu. Ísland í dag er orðið að séð og heyrt í sjónvarpi, glimmer í stað þess að vera alvöru fréttaþáttur með gagnrýnum efnistökum og fréttirnar eru alltaf að styttast og hádegisfréttirnar voru slegnar af. Ekki var kosningavakt í vor þar.

Er það kannski svo að einfalda skýringin á slátrun Kompáss sé sú rétta? Að eigendurnir hafi ekki viljað gagnrýna fréttamennsku í kjölfar hrunsins?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband