Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mikilvægt samstarf löggæslusveitanna

Mér finnst það sniðugt hjá lögreglunni að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar í umferðareftirlit. Þetta samstarf löggæslusveitanna tveggja er að mínu mati mikilvægt, enda full þörf á að virkja öflugt umferðareftirlit og taka það traustum tökum, sérstaklega á heitum sumardögum þegar hraðinn er oft einum of mikill.

Þetta er góðs viti, enda tel ég að flestir vilji í raun hafa umferðina góða og tryggja að farið sé eftir hraðamörkum.

mbl.is Hraðamælingar úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarah Palin goes to Washington

Ákvörðun Söru Palin um að hætta sem ríkisstjóri í Alaska og sækjast ekki eftir endurkjöri ætti ekki að koma að óvörum. Hún ætlar greinilega að sækja sér stærra hlutverk innan Repúblikanaflokksins, sækja sér hlutverk í Washington... skrifa bókina umtöluðu og ferðast um lykilríkin í væntanlegum forsetakosningunum árið 2012 án þess að vera bundin í verkefnum í ríki mjög fjarri valdahringiðunni. Þessi ákvörðun er í raun ákvörðun um forsetaframboð, en svo verður að ráðast hvort hún sækist eftir sæti í öldunga- eða fulltrúadeildinni 2010 eða hugsar bara um 2012.

Ein stærsta spurningin í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2008 var hvort Sarah Palin myndi gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2012. Hún var nær algjörlega óþekkt þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt og hlaut eldskírn sína pólitískt í átökunum þá 70 daga sem hún var við hlið hans. Áður en efnahagslægðin skall á voru raunhæfar líkur á að Palin yrði varaforseti en þær vonir gufuðu upp í skugga efnahagskreppunnar þegar McCain hafði í raun tapað forsetakosningunum og náði ekki stuðningi óháðra.

En Palin fékk ókeypis auglýsingu og kynningu í þessum forsetakosningum og er orðin heimsþekkt. Ræða hennar á flokksþinginu í St. Paul stimplaði hana inn sem einn af framtíðarleiðtogum Repúblikanaflokksins hvort heldur er í starfinu á landsvísu eða sem leiðtogaefni í valdakerfinu í Washington. Hún naut þess klárlega að mörgu leyti að vera algjörlega utan við valdakerfið í Washington sem er rúið trausti en tapaði að sumu leyti líka fyrir reynsluleysi sitt í utanríkismálum. Samt hafði hún álíka litla þekkingu á því og Obama og Clinton þegar þeir fóru í forsetaframboð.

Eitt kom áþreifanlega í ljós í kosningabaráttunni. Sarah Palin sameinaði repúblikana til að vinna fyrir flokkinn, hún tryggði þátttöku þeirra sem þoldu ekki John McCain og fundu ekki farveg til þátttöku í kosningabaráttunni eftir að hann sigraði Mitt Romney. En hún varð mjög umdeild og sumir líktu henni við George W. Bush, sem var ríkisstjóri áður en hann fór í forsetaframboð. Hún færði McCain það sem honum vantaði áþreifanlega fyrir flokksþing repúblikana; fólksfjölda á framboðsfundum og áþreifanlega ánægju flokksmanna með að leggja flokknum lið á erfiðu kosningaári.

Örlög kosningaslagsins réðust meðal óháðu kjósendanna sem völdu breytingar í stað reynslunnar. Barack Obama sigraði þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi á sviðinu og með litla ferilskrá í utanríkis- og varnarmálum. Hann ávann sér styrk og stuðning innan flokksins með einlægni og baráttugleði. Kannski verður Sarah Palin framtíðarstjarna fyrir repúblikana. Það verður vissulega undir henni sjálfri komið. Hún hefur persónulega styrkleika sem geta nýst repúblikunum nú þegar John McCain er úr myndinni.

Kannski verður ræða Söru Palin í St. Paul álíka sterkt leiðarljós fyrir innsta kjarnann í Repúblikanaflokknum og ræðan hans Barack Obama var fyrir demókrata á flokksþinginu í Boston. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð repúblikana verði á þessum þáttaskilum sem hafa fylgt svíðandi tapi og miklu persónulegu áfalli fjölda forystumanna.

Sarah Palin tekur mjög djarfa ákvörðun um að hætta á þessum tímapunkti en skiljanleg sé mið tekið af því að vilja tryggja ríkisstjóraembættið hjá repúblikunum með því að Parnell taki við og svo að tryggja að hún komist nær miðpunkti stjórnmálabaráttunnar og geti farið í alvöru baráttu án þess að vera bundin öðrum verkefnum fjarri Washington.

mbl.is Palin hættir sem ríkisstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málningu slett hjá auðmönnum

Ekki fer á milli mála að útrásarvíkingarnir hafa breyst úr hálfguðum í hötuðustu menn samfélagsins á skömmum tíma. Ekki þarf að undrast reiði landsmanna. Mér finnst það samt einum of að sletta málningu á hús auðmannanna. Þeir eiga eftir að fá sína refsingu, sú hin mesta er reyndar sú að þeir eru í raun ærulausir hér heima á Íslandi. Þeir munu ekki geta látið sjá sig hér á meðan þrifin er upp óreiðan eftir þá.

Reiðin er mikil. Einhvern veginn verður hún að fá útrás. Þetta er ein leiðin, sú dapurlegasta að mínu mati. Miklu betra er að ráðast að þessum mönnum eða gagnrýna þá með skrifum og mætti málefnalegra skoðanaskipta heldur en með skemmdarverkum. Þeir hafa sjálfir unnið mikil skemmdarverk á samfélaginu og hafa misst bæði æruna og veldi sitt vegna eigin græðgi fyrst og fremst.

mbl.is Málningu skvett á hús auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarar undan hinu gamaldags vinstrapari

Könnun Gallups gefur til kynna að mjög fjari nú undan Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, vinstraparinu gamalreynda sem hefur verið á þingi í um eða yfir þrjá áratugi. Þau hafa að sjálfsögðu ekki komið með neinar breytingar í íslenskum stjórnmálum, andlit hinna gömlu og liðnu tíma, fólkið sem heldur áfram formannaveldinu í þinginu sem þau gagnrýndu áður og stýra Alþingi sem afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins.

Fjölmargir sem kusu þau hafa verið illa sviknir og eflaust ekki séð fyrir endann á fylgishruni vinstriflokkanna. Þeir eiga eftir að taka væna dýfu á næstu mánuðum þegar gríman fellur endanlega, hafi hún svosem ekki tekið næga niðursveiflu fyrir. Þetta var allt svo fyrirsjáanlegt en samt sem áður gerist þetta hrun þeirra hraðar en ég átti von á. En svona verða víst örlögin fyrir þeim.

Steingrímur J. hefur sérstaklega látið á sjá að undanförnu... er aðeins skugginn af stjórnarandstöðuleiðtoganum sem hafði uppi stór orð en stundar nú aðallega það að borða þau í öll mál. Stóra spurningin nú er hvort þau þrauki af kjörtímabilið eða hrökklist frá bráðlega. Þessi stjórn felur feigðina í sér rétt eins og hin lánlausa stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem aldrei var neitt.

Framtíðin er þeirra sem eru nýjir á sviðinu. Endurnýjun íslenskra stjórnmála er ekki lokið. Hún er aðeins rétt að byrja. Nú munum við hinsvegar fara að sjá hana gerast á vinstrivængnum þegar VG og Samfylking fara í hendur nýrra formanna.

mbl.is Fylgi stjórnarflokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harkaleg vinnubrögð hjá Evrópusambandinu

Eftir að hafa lesið um hversu harkalega Bretar og Hollendingar sóttu að Íslendingum í skjóli Evrópusambandsins og með góðvild þeirra, á ráðherrafundinum sem Árni M. Mathiesen sat, er vandséð hvað er jákvætt og gott við aðild að ESB. Ég held reyndar að Icesave-samkomulagið sé augljóst merki um að Samfylkingin hafi verið til í að semja Íslendinga í skuldafangelsi til að þjóna duttlungum Evrópuvaldsins í Brussel.

Þetta eru afarkostir og mjög umdeildur samningur á forsendum Íslendinga. Greinilega er verið að reyna að hafa alla góða og passa upp á að dyrnar til Brussel séu nú örugglega opnar. Þetta er ekta eftirgangsemi við það vald sem Samfylkingin dáir hvað mest. Þarna er verið að hugsa um hag einhverra aðra en Íslendinga fyrst og fremst.

mbl.is Árni átti í vök að verjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar völtuðu yfir Svavar og samninganefndina

Ekki þarf sérfræðing til að sjá hversu Bretar áttu auðvelt með að taka Svavar Gestsson og samninganefndina um Icesave í gegn og drottna yfir niðurstöðunni og þeim áherslum sem skrifað var upp á. Samningurinn er einhliða sigur Breta og vandséð hvaða áherslur Ísland hafi beinlínis náð í gegn. Þetta er skelfilegur samningur, sem vonandi verður tekinn upp og samið aftur um atriðin, eða honum þá hreinlega hafnað í þinginu ella. Þjóðin mun aldrei sætta sig við þessa afarkosti.

Enn betur sést hversu afleitt það var að setja afdankaðan stjórnmálamann yfir samninganefndina. Ekki verður séð hvers vegna Svavar Gestsson var settur í verkefnið nema sem verðlaun fyrir að vera pólitískur lærifaðir formanns VG og fjármálaráðherrans eða sem pólitísk dúsa.... erfitt að segja. Ekki hef ég heyrt sannfærandi vörn fyrir veru hans í þessari samninganefnd og ekki hefur vörn hans fyrir samninginn verið mjög sannfærandi.

Enn undarlegra er að pólitískur aðstoðarmaður Þuríðar Backman með aðsetur hér á Akureyri og kosningastjóri vinstri grænna fyrr og nú sé starfsmaður nefndarinnar. Eru svona pólitískar dúsuveitingar eðlilegar í samninganefnd sem skiptir miklu máli?

mbl.is Bretar sýndu hörku þar til yfir lauk í viðræðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er liðið í VG alveg orðið veruleikafirrt?

Hvernig dettur Álfheiði Ingadóttur í hug að segja að kosið hafi verið um Icesave í alþingiskosningunum í apríl? Er þetta lið algjörlega orðið veruleikafirrt bara við það að taka við völdum í landinu? Forðum daga skreyttu vinstri grænir sig með því að vilja þjóðaratkvæðagreiðslu í lykilmálum - virkja milliliðalaus samskipti við fólkið í landinu. Nú er þetta algjörlega gleymt. Hræsnin er allsráðandi í málflutningi vinstri grænna.

Steingrímur J. Sigfússon viðhafði stór orð um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna þegar Kárahnjúkavirkjun var til umræðu á Alþingi fyrir nokkrum árum. Þá vildi hann að þjóðin tæki ákvörðunina í stóru máli.

Hvað sagði Steingrímur J. sjálfur um slíkan málflutning þegar hann var í stjórnarandstöðu og deilt var um virkjunina stóru við Kárahnjúka. Rifjum upp ummæli hans þá:

"Treystum við ekki þjóðinni? Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sál, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði.

Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það."

Svo mörg voru þau orð....


mbl.is Þjóðin kaus um Icesave í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar flæktur í málefni sjeiksins

Ekki lítur það vel út fyrir forsetaembættið ef Ólafur Ragnar Grímsson er mjög tengdur sjeiknum frá Katar og málefnum hans, sérstaklega ef persónuleg tengsl eru milli forsetahjónanna við manninn. Ólafur Ragnar ætti reyndar að fara að hugsa um stöðu forsetaembættisins og hugleiða alvarlega afsögn af forsetastóli, trúverðugleika forsetaembættisins vegna.

Hann er algjörlega rúinn trausti eftir hrunið og hefur lítinn sem engan trúverðugleika lengur, sérstaklega ef hann er orðinn tengdur rannsókn sérstaks saksóknara. Vandséð er hvernig hann geti farið af valdastóli með hreinan skjöld, enda óneitanlega tengdur hruninu og eiginlega féll hann með útrásarvíkingunum sem hann flaug með á heimsenda.

mbl.is Forsetinn útilokar ekki aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar mun aldrei stöðva Icesave-dílinn

Hreinir draumórar eru að búast við því að Ólafur Ragnar Grímsson muni synja staðfestingu lagafrumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave, muni þingið samþykkja málið. Hann mun aldrei setja vinstristjórn leidda af Samfylkingunni út af sporinu með því að hafna svo mikilvægu máli, enda vita allir að þjóðin mun aldrei samþykkja þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Ólafur Ragnar er svo tryggur Samfylkingunni, eins og sást af aumri framgöngu hans við stjórnarslitin í janúar, að hann mun ekki taka þessa vinstristjórn úr öndunarvélinni. Forðum daga sagði þó þessi forseti að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar um fjölmiðlamálið. Hvað ætli hann segi til að reyna að friða þjóðina þegar hann hleypir þessum díl í gegn?

Þessi forseti er sá lélegasti í lýðveldissögunni, verður minnst fyrir dekur sitt við auðmenn og hafa verið klappstýra útrásarvíkinganna og skjalldúkka þeirra. Hann mun ekki setja þetta mál í uppnám. Örlög þessa máls munu ráðast í þinginu. Nú ræðst hvort samviska vinstri grænna er til staðar eða hvort þeir verða teknir í bóndabeygju af formannavaldinu alræmda.

mbl.is Vilja að forseti synji staðfestingu á ríkisábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. leggur allt undir fyrir Icesave

Augljóst er að Steingrímur J. Sigfússon leggur sjálfan sig pólitískt algjörlega að veði fyrir Icesave-málið og samninginn svokallaða sem í raun er eitt stórt skuldabréf. Slík er sannfæring hans og afgerandi tjáning að allt er lagt undir - maðurinn sem sagði eitt sinn að við myndum aldrei beygja okkur. Hann er reyndar orðinn eins og Ragnar Reykás blessaður, fátt eftir af þeim manni sem var í stjórnarandstöðu forðum daga. Hann er að fuðra upp heldur betur.

Tap myndi leggja hann pólitískt í rúst og grafa undan honum... í raun verða til þess að hann sé búinn að vera. Alls óljóst er að málið fari í gegnum þingið. Finnst líklegra að það verði fellt í þinginu, en það veltur á þeim stjórnmálamönnum innan VG sem vildu aldrei semja um Icesave og fara dómstólaleiðina, láta reyna á réttarstöðu Íslands.

Munu þeir beygja sannfæringu sína undir flokksaga Steingríms J? Ekki er annað að heyra á fréttum að mikið sé reynt að snúa mönnum. Sannfæring þingmanna skiptir greinilega ekki lengur svo miklu máli.

Er VG að verða eins og gamli Framsóknarflokkurinn á mettíma? Verður þetta Icesave-mál ekki Íraksmál Steingríms J? Við munum öll hvernig Írak lagði Halldór Ásgrímsson í rúst.


mbl.is Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband