Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vinstri grænir vilja ekki fara í gömlu Moggahöllina

Mér finnst það merkilegast af öllu í athyglisverðri grein Einars Skúlasonar, skrifstofustjóra þingflokks Framsóknarflokksins, um herbergjamálið í þinginu, að vinstri grænir hafa afþakkað skrifstofuaðstöðu í gömlu Moggahöllinni við Aðalstræti. Hversvegna vilja þeir ekki fara þangað?

Á maður virkilega að trúa því að kommarnir hafi enn fordóma í garð húss sem eitt sinn voru höfuðstöðvar Morgunblaðsins, í þá tíð þegar Matthías og Styrmir voru á sínu gullaldarskeiði?

Aumt er það þykir mér. Eru þetta kannski einu hugsjónirnar sem eftir eru hjá vinstri grænum eftir að þeir seldu ESB-afstöðuna fyrir völdin?

mbl.is 14 sitja fundi þingflokks framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk herbergjaást Framsóknar

Svolítið dramatískt er að fylgjast með sögunni af Framsóknarflokknum og þingflokksherbergi þeirra. Skil vel rök þeirra fyrir sögulegu hlutverki herbergisins fyrir flokkinn, en hinsvegar er erfitt að skilja hvernig einn flokkur geti hreinlega átt eitthvað herbergi sama hvað gerist, hvort flokkur bæti við sig fylgi eða tapi því. Mér finnst það undarlegt að flokkur með færri en tíu þingsæti geti allavega haldið svo stóru herbergi á tilfinningalegum rökum einum saman.

Vonandi tekst þó að leysa þetta mál. Hinsvegar er augljóst að herbergið verður varla tekið af þeim úr þessu og gegn þeirra vilja. Ætli niðurstaðan verði ekki sú að ríkisstjórnarherbergið svokallaða í þinghúsinu verði gert að þingflokksherbergi VG og ríkisstjórnarfundir (það sjaldan að þeir séu á Alþingi) verði hér eftir í þinghúsinu í gamla þingflokksherbergi Alþýðuflokksins, sem framsóknarmenn vildu ekki vera í.

mbl.is Þeir sitja sem fastast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu "hugsjónamennirnir" í VG ekki taka afstöðu?

Lítið virðist fara fyrir hugsjónum í VG ef þingmenn flokksins ætla ekki að taka afstöðu til Evrópusambandsins og sitja hjá í kosningunni. Erfitt er reyndar að lesa í afstöðu vinstri grænna. Þeir seldu hugsjónir sínar fyrir ráðherrastóla og völd - eru að reyna að telja öðrum trú um að þeir hafi enn einhverja stefnu og skoðanir. Slíkt blaður fellur um sjálft sig ef þingmenn VG, hugsjónamennirnir miklu að eigin sögn, ætla bara að sitja hjá og taka ekki afstöðu.

Frá stofnun VG hafa forystumennirnir hreykt sér af því að vera með hugsjón í öllum málum og tjá sannfæringu sína. Væntanlega reynir þessi kosning á, einkum þegar flokksformaðurinn hefur gefið í skyn að hjáseta í svo mikilvægu máli sé eðlileg, hvort sem er út frá hugsjónum eða flokksstefnunni sem virðist kristalskýr. Samviska flokksins birtist reyndar í tali nýrra þingmanna, Guðfríðar Lilju og Ásmundar Einars, sem létu Jóhönnu Sigurðardóttur heyra það eftir ESB-skotna stefnuræðu.

Skiljanlegt er að óbreyttir flokksmenn vinstri grænna hafi áhyggjur af því að völdin hafi verið dýru verði keypt. Einhverjir muni láta hugsjónirnar gossa í þinglegri meðferð ESB-tillögunnar og ætli sér að verða skoðana- og hugsjónalausir vindhanar með því annað hvort að svíkja eigin sannfæringu eða sitja hjá eins og lyddur.

mbl.is Óttast klofning í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður byltingarástand á Íslandi í sumar?

Ég er ekki undrandi á því að fólk sé að fá nóg af aðgerðar- og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar. Vel gert hjá Hagsmunasamtökum heimilanna að boða til fundahalda og vekja athygli á því að vinstristjórnin er með risastórt gap í ríkisfjármálum í stefnuskrá sinni - ætlar ekkert að gera fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið enn sem komið er. Skjaldborg virðist fyrst og fremst hafa verið slegin um fjármagnseigendur og tengda aðila.

Ekki er ósennilegt að byltingarástand verði hér á Íslandi í sumar. Að óbreyttu má búast við að fólk fái endanlega nóg og fari í sama gírinn og síðasta vetur. Því ekki? Staðan er mun verri nú en hún var t.d. í janúar. Allt stefnir á verri veg. Ekki verður betur séð en hjólin séu einfaldlega að stöðvast í samfélaginu.

Þetta gæti orðið hitasumar í tvennum skilningi; bæði veðursfarslega og í þjóðmálum. Ekki er óeðlilegt að þeir sem hafa beðið eftir aðgerðum hafi fengið nóg. Þeir sem veðjuðu á vinstriflokkana til að taka á málum hafa örugglega orðið fyrir miklum vonbrigðum.

mbl.is Samstöðufundur á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeypt áhætta Bretanna

Æ betur kemur í ljós að bresk sveitarfélög og aðilar sem fóru illa á viðskiptum við íslensku bankana tóku áhættuna þrátt fyrir ráðleggingar um annað verklag og aðvaranir. Áhættan varð þeim dýrkeypt. Ótrúlegt er að sveitarfélög, stofnanir og hagsmunasamtök af ýmsu tagi hafi tekið slaginn og sett peningana við þær aðstæður sem voru uppi. Skellurinn er líka mikill, ótrúlegustu aðilar sem lögðu mikið af fjármunum þar undir.

Bretarnir hafa ráðist að íslensku þjóðinni með mjög ómaklegum hætti, einkum forsætisráðherrann óvinsæli sem er rúinn trausti. Nær væri fyrir þessa aðila að líta í eigin barm.

mbl.is Sniðgengu ráðgjöf um Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gáfulegt að klára tónlistarhúsið í kreppunni?

Ég er ekki hissa á því þó tónlistarhúsið hiksti í þingmönnum Samfylkingarinnar (sem rifust opinberlega um það í þinginu í dag), enda einum of stór biti til að renna í gegn í einu vetfangi. Mikilvægt er að stjórnvöld forgangsraði á þessum erfiðu tímum og hugleiði hvort rétt sé að binda sig þessu verkefni nú. Bygging hússins gat ekki stöðvast á verri tímapunkti en þessum, enda er það eins og svöðusár í miðborg Reykjavíkur.

Að óbreyttu er það reyndar minnisvarði um græðgina og sukkið sem varð íslensku samfélagi svo dýrkeypt, hinu liðnu tíma þegar útrásarvíkingarnir þóttu hálfgerðir guðir hér á Íslandi. Kannski er best að það verði einmitt þannig á næstu árum, minnisvarði um siðleysið á öllum sviðum?

Eðlilegt er að stjórnvöld hugleiði hvað sé mikilvægt og hvað ekki.

mbl.is Deilt um tónlistarhús á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarleg rannsókn eða ímyndarherferð?

Mér finnst ákvörðun Glitnis um að fela ráðgjafafyrirtæki að aðstoða við rannsókn á óeðlilegum millifærslum nokkuð athyglisverð. Er þetta heiðarleg rannsókn eða einfaldlega aum og veruleikafirrt ímyndaherferð sem snýst um aukaatriði en ekki aðalatriðin sem mestu skipta? Fróðlegt verður að sjá hvort það er.

Óttast að þetta sé hið síðarnefnda að fenginni reynslu okkar allra af verklaginu í bönkunum. Þeir eru ekki hátt skrifaðir eftir atburði síðustu mánaða.

mbl.is Rannsaka óeðlilegar millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

One big happy family?

happyfamily
Þessi skopmynd um íslensku stjórnmálafjölskylduna er ansi skondin. Gárungarnir tala þó um að vísitölufjölskyldan séu foreldrar, tvo börn og tilsjónarmaður. Sú sé framtíðarsýnin í villta vinstrinu. Má vera. Hann vantar á þessa mynd. Ætli það sé landsstjóri IMF hérlendis?

Er svigrúm fyrir einhverjar launahækkanir?

Ég get ekki séð að það sé eitthvað svigrúm fyrir launahækkanir eins og staðan er. Atvinnulífið er að sligast vegna stöðunnar í efnahagsmálum og varla geta fyrirtækin staðið undir sér í þessu árferði. Kjaftasagan segir að stjórnarflokkunum hafi nýlega verið tilkynnt að innan tveggja mánaða muni stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins fara í þrot að óbreyttu. Ekki er ástæða til að draga það í efa. Æ fleiri fyrirtæki eru að enda í höndum ríkisins. Lítið er um úrræði. Hjólin eru einfaldlega að stöðvast.

Dreg ekki í efa að verkalýðsleiðtoginn sem gekk út í dag argur og sár yfir tillögum Samtaka atvinnulífsins sé óánægður með tilboðið sem honum var rétt. En er eitthvað svigrúm fyrir launahækkanir. Er ekki betra að reyna að tryggja að atvinnulífið sé virkt. Hver er framtíðarsýnin? Er eitthvað framundan nema að hjólin stöðvist nema reynt verði að stjórna þessu landi. Hver er við stýrið í þessu landi? Hvað er framundan í þessari stöðu nema lífróður?

mbl.is Þiggja ekki 7 þúsund sí-svona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsmál í nýju ljósi

Varla teljast það stórtíðindi að Héraðsdómur hafi synjað frávísunarkröfu í Baugsmálinu. Mestu tíðindin eru þó væntanlega þau að margir sjá Baugsmálið í nýju ljósi, sérstaklega eftir atburðarás síðustu mánaða. Lengi vel tókst með pr-framsetningu að snúa málinu á haus og láta það snúast um aukaatriði í stað aðalatriða.

Vonandi er þeim auma blekkingaleik nú lokið.

mbl.is Baugsmálinu ekki vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband