Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

IMF stjórnar Seðlabankanum algjörlega

Yfirlýsing fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á Íslandi í morgun gerir í raun út af við hugleiðingar um frekari stýrivaxtalækkun í júní. Orð pólska IMF-landsstjórans staðfestir þó aðeins það sem allir hafa vitað mánuðum saman. Sjóðurinn ræður algjörlega för hér og stjórnar Seðlabankanum með góðu eða illu. Við höfum í raun enga stjórn á þeim málum sem mestu skipta.

Valdið hefur einfaldlega verið fært annað. Þeir spekingar sem töluðu fyrir því að IMF væri eina lausnin á okkar vandamálum hafa sig ekki eins mikið í frammi nú og þeir gerðu fyrir nokkrum mánuðum. Ætli sumir sjái eftir ráðleggingunum? Aðfarir IMF eru samt mjög fyrirsjáanlegar. Þetta er það sem varað var við. 

Stóra spurningin nú er hvort IMF hafi ekki verið að makka með Bretunum, eftir allt saman.

mbl.is Seðlabankinn í klemmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni fer í dýralækningar

Ég held að Árni M. Mathiesen hafi komið mörgum á óvart með því að ráða sig til starfa sem dýralækni. Sumir sögðu það í gríni að kannski færi Árni aftur í þann bransa. Miðað við viðbrögðin er greinilegt að sumir eru undrandi á þessu.

Mér hefur alltaf fundist ómerkilega vegið að Árna hvað varðar menntun hans sem dýralæknis á meðan hann var fjármálaráðherra. Ekki hefur verið neitt fundið að því að eftirmaður hans sé jarðfræðingur.

mbl.is Árni aftur í dýralækningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju má þjóðin ekki sjá ESB-tillöguna?

Mér finnst það algjörlega ólíðandi að þjóðin skuli ekki fá að heyra drög að þingsályktunartillögu um aðild að Evrópusambandinu. Hvers vegna þessi leynd? Hvað er verið að fela og hver er tilgangurinn? Þessi vinstristjórn situr á öllum upplýsingum og vill ekki miðla þeim til landsmanna. Þetta sama lið talaði fyrir nokkrum mánuðum um aukið gegnsæi og heiðarleika en situr nú á öllum gögnum - vill ekki segja þjóðinni heiðarlega frá og ganga hreint til verks.

Er það kannski tilfellið að það megi ekki kynna tillöguna því hún sé svo rýr í roðinu og snautleg? Vinstri grænir lofuðu í kosningabaráttunni að ekki yrði sótt um ESB-aðild í sumar en sviku það fyrir stólana. Og nú fær þjóðin ekki að heyra hverskonar tillögu vinstri grænir seldu hugsjónir sínar fyrir. Merkilegt lið. Væri gáfulegt fyrir það að fara að sýna gegnsæi í verki í stað þess að tala bara um það.

Svona áður en Jóhanna verður eins og konan í þáttunum Allo, Allo sem sagði alltaf: Ég segi þetta bara einu sinni....

mbl.is Ekki hvíli leynd yfir samkomulagi stjórnarflokka um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur styrkir stöðu sína - nýliðar í forystu

Forysta Framsóknarflokksins kemur nokkuð á óvart með því að velja þrjá kjördæmaleiðtoga sem allir eru nýkjörnir á Alþingi til að stýra þingflokki sínum. Flokksformaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er greinilega að styrkja tök sín á flokknum með því að velja Gunnar Braga Sveinsson sem þingflokksformann fram yfir Siv Friðleifsdóttur, fráfarandi formann þingflokksins, eða keppinaut sinn um formennskuna, Höskuld Þórhallsson. Átti fyrirfram von á því að annað þeirra hlyti hnossið. Valið hlýtur að benda til þess að Sigmundur sé að sýna að hann ráði för. 

Auk Gunnars Braga velur flokksforystan Sigurð Inga Jóhannesson, sem leiðir flokkinn í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðna Ágústssonar, og mágkonu Guðna, Vigdísi Hauksdóttur til verka. Reyndar verður ekki annað sagt en ásýnd Framsóknarflokksins sé mjög fersk þegar þing kemur saman eftir þessar alþingiskosningar. Aðeins Siv Friðleifsdóttir hefur setið á þingi lengur en sex ár; auk þess hafa aðeins Birkir Jón og Höskuldur hafa setið lengur en nýliðarnir sex í þingflokknum.

Sigmundur Davíð kom nýr inn í forystu íslenskra stjórnmála í ársbyrjun. Hann kom inn í rótgróinn þingflokk þar sem hann réð greinilega ekki alltaf för, eins og sást t.d. í stjórnarmynduninni og í eftirleiknum þegar hann átti erfitt með að sækja sér áhrif, enda utan þings. Staða hans hefur breyst mjög og nú er nýtt fólk sett yfir þingflokkinn.

Skilaboðin hljóta að teljast skýr. Nýr formaður velur nýtt fólk til verka, sitt fólk. Með því hlýtur staða hans að styrkjast innan flokksins.


mbl.is Gunnar Bragi þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfríður valin þingflokksformaður fram yfir Atla

Ég efast ekki um að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er vel að því komin að verða þingflokksformaður vinstri grænna. Taldi samt að Atli Gíslason yrði fyrir valinu. Hann hefur meiri þingreynslu en Guðfríður Lilja, stýrt þingnefnd og leitt framboðslista lengur en hún. Valið ber merki þess að Atli hafi fallið í ónáð flokksforystunnar vegna ummæla eftir kosningarnar um myndun þjóðstjórnar.

Auk þess að Guðfríður Lilja hafi verið valin til að friða óánægjuraddirnar í VG sem vildu fleiri kvenráðherra, sem náði hámarki með harðorðri ályktun ungra vinstri grænna. Eflaust er það sambland af þessu báðu.

Niðurlæging Atla er samt algjör. Hann fékk ekki ráðuneyti og fær svo í kjölfarið ekki þingflokksformennsku þrátt fyrir að hafa verið lengur á þingi. Nýliði í þingflokknum er valin til að stýra honum.

mbl.is Guðfríður Lilja þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju fær flokkur utan þings að senda póst?

Mér finnst það ekki viðeigandi að stjórnmálaflokkur sem hefur fallið af Alþingi og misst umboð kjósenda fái í kjölfarið, eftir kosningar, að senda póst á vegum þingsins, á kostnað landsmanna. Hljómar ekki vel og er að mínu mati óeðlilegt fordæmi sem þarna er veitt. Vilji Frjálslyndi flokkurinn hvetja stuðningsmenn sína eftir fallið af þingi hlýtur hann að gera það á eigin kostnað. Mér finnst það alveg lágmark.

Fall frjálslyndra af þingi hefur verið fyrirsjáanlegt um nokkuð skeið. Hann náði aldrei vopnum sínum eftir að Margrét Sverrisdóttir var hrakin úr flokknum með lágkúrulegum vinnubrögðum og át sig upp innan frá í hjaðningavígum.

Mér finnst leitt að sjá hvernig fór fyrir Guðjóni Arnari, hann átti betra skilið. Hann treysti hinsvegar meira á pólitísk sníkjudýr og flóttamenn en trausta bakhjarla flokksins. Svo fór sem fór.

mbl.is Frjálslyndi sendi póst á kostnað Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ung vinstri græn húðskamma Steingrím J.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáist að ungum vinstri grænum að skamma Steingrím J. Sigfússon með svo áberandi hætti sem ályktunin um kynjakvótann óneitanlega er. Formaðurinn fær það alveg óþvegið þar - skilaboðin mjög skýr. Reyndar hef ég aldrei skilið þessa kynjakvóta hjá vinstri grænum. Þeir hafa alltaf virkað bara í aðra áttina, gegn karlmönnum en ekki komið niður á konum.

Þetta sást best þegar konurnar héldu allar sætum sínum í efstu sætum eftir forvalið í Reykjavík og Kolbrún Halldórsdóttir var ekki færð niður fyrir Ara Matthíasson á meðan Hlynur Hallsson varð að sætta sig við að fara niður um sæti fyrir Dýrleifu Skjóldal. Þá breyttust þessir kynjakvótar í konukvótar eiginlega.

Vinstri grænir hafa alltaf verið mjög foringjahollir. Mikla athygli vakti þegar ungir vinstri grænir bjuggu til boli með Steingrími J. utan á, í líki Che Guevara, í kosningabaráttunni 2003. Veit ekki alveg hvað hefði verið sagt ef SUS hefði búið til boli með mynd af Davíð Oddssyni.

En hvað með það. Þetta eru sterk skilaboð. Man ekki eftir að flokksstofnun í VG hafi áður skammað Steingrím J. svo opinberlega. Eru þetta ekki líka kaldar kveðjur til Jóns Bjarnasonar, karlsins sem fór í ráðherrastól? Hvernig átti að skipta fimm stólum jafnt á milli kynja? Með konukvóta?

mbl.is Ósátt við kynjaskiptingu í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er skjaldborgin um heimilin í landinu?

Vinnubrögðin í uppboðsmeðferðinni hjá Sýslumanninum í Reykjavík gefa til kynna að grunnt sé á skjaldborginni um heimilin hjá fjármálaráðuneytinu. Æ betur sést að þessi skjaldborgarhugmynd stjórnarflokkanna var bara frasi. Önnur hendin framkvæmir eitthvað annað en hin gerir. Ég tel að margir hafi virkilega trúað því að skjaldborgin væri alvöru en ekki bara kjaftablaður. Þetta er samt hinn napri sannleikur.

Hvernig væri að ríkisstjórnin færi að gera eitthvað, helst gera það sem þau meina og segja það sem þau meina í stað þess að reyna að hafa alla góða með frasablaðri.

mbl.is Sex eignir á framhaldsuppboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur dómsmálaráðherra

Ég er mjög ánægður með hvernig Ragna Árnadóttir hefur staðið sig sem dómsmálaráðherra. Hún talar hreint út um mikilvæg mál og er ekki með neina hentistefnu. Hikar ekki og er afdráttarlaus þegar á því þarf að halda og vel inni í regluverkinu og lagalegri umgjörð. Hún vann lengi við hlið Björns Bjarnasonar, sem ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri, og þess sést glögglega merki.

Mér fannst vinstriflokkarnir gera vel með því að náinn samstarfsmann Björns Bjarnasonar til verka í ráðuneytið og hún hefur haldið mjög vel á málum. Er ánægður með að henni hafi verið falið að halda þar áfram.


mbl.is Látum ekki undan þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju talar Jóhanna ekki mannamál?

Loðin og furðuleg eru svörin hjá Jóhönnu Sigurðardóttur um skattahækkanir og næstu skref. Fólk er engu nær. Ætli Dagur B. Eggertsson hafi tekið hana í frasaþjálfun? Af hverju talar hún ekki mannamál til þjóðarinnar - segir hreint út hvað eigi að gera í stað þess að fresta því æ ofan í æ. Gegnsæi hvað? Hvar læra forystumenn Samfylkingarinnar þetta frasablaður og þessa fjarlægu tjáningu?

En annars; er ekki augljóst hvað eigi að gerast? Boðaðar eru gríðarlegar skattahækkanir. Talað er um að stjórnin muni ekki auka tekjur ríkissjóðs í gegnum skatta meira en var á árunum 2005 til 2007. Þá ríkti mesta góðæri Íslandssögunnar og mikið peningamagn í umferð. Neyslan var í botni. Samdrátturinn nú er gríðarlegur. Hvernig á að fara að því að halda þessu eins núna.

Auðvitað með því að skattpína þjóðina í botn. En af hverju má ekki segja þetta á mannamáli?

mbl.is Kynna skattahækkun eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband