Færsluflokkur: Tónlist

Söngstjarnan Whitney fuðrar upp

Ekki fer á milli mála að frægðarferli Whitney Houston er lokið, hún heldur ekki lagi á tónlistarför sinni, sem átti að marka mikla endurkomu einnar bestu söngkonu bandarískrar tónlistarsögu síðustu áratugi. Þetta er frekar sorglegt, enda var breiddin í rödd Whitney rómuð og hún hlaut heimsfrægð fyrir. En þegar söngkonan getur ekki skammlaust komist í gegnum auðveldustu lögin sín og náð að hækka röddina í gömlu meistaraverkunum er betra heima setið en af stað farið.

Whitney brann upp upp fyrir í baráttunni við dópdjöfulinn sjálfan. Baráttan við fíknina hefur kostað hana söngröddina og tækifærin í bransanum og hjónabandið við Bobby Brown hefur orðið henni dýrkeypt og eyðilagt ferilinn. Persónulegir erfiðleikar Whitney hafa verið alþjóðlegt fjölmiðlaefni nú árum saman og eiginlega sorglegt að sjá hvernig fór fyrir henni. Sjálf tók hún rangar ákvarðanir og hafði ekki það sem þurfti til að byggja sig upp aftur. 

Það vakti t.d. mikla athygli þegar að Whitney slaufaði sig út úr kvikmyndasöngatriði Burt Bacharach á óskarsverðlaunahátíðinni á aldamótaárinu, þar sem margar vinsælustu söngstjörnur seinni ára komu saman og tóku lagið. Whitney átti upphaflega að verða eitt af stærstu númerum atriðsins og Burt hafði valið henni nokkur lög til að syngja, þar á meðal óskarsverðlaunalagið úr A Star is Born. Hún mætti illa og stundum alls ekki á æfingar.

Burt rak hana úr atriðinu með eftirminnilegum hætti og skarð hennar var fyllt af Queen Latifah og frænku hennar, Dionne Warwick, sem kom fram eftir áralanga fjarveru og söng lagið úr Alfie. Þetta var fyrsta merkið um endalokin og síðan orðið æ fleiri. Tónleikaferðin hefur verið frekar sorglegur endapunktur og eiginlega stórundarlegt að ferðinni skyldi ekki slaufað eftir floppin í Bretlandi, þar sem augljóst var að Whitney var laglaus.

Þetta hlýtur að teljast eitt mesta stjörnuhrap bandarískrar tónlistarsögu - sjálfskaparvíti hið mesta hjá einni mestu söngstjörnu síðustu áratuga. Ekki dugar til að vera goðsögn í bransanum til að fóta sig aftur. Fallið getur orðið harkalegt.

mbl.is Whitney Houston gekk fram af Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustur sigur hjá Heru Björk í Eurovision

Sigur Heru Bjarkar í Eurovision er fjarri því óvæntur. Lagið hafði allan pakkann sem hæfir Eurovision og er standard Júrópopp... traust blanda með reyndri söngkonu sem þarf ekki mikið fyrir þessu að hafa. Söngkona sem ber lagið traust og vel, enda öryggið uppmálað og er sviðsvön.

Þetta er blanda sem gæti gengið vel. Höfundurinn hefur farið út áður og söngkonan verið í íslenska hópnum í keppninni áður, en nú sem aðalrödd, og hennar tími sem slíkur kominn og gott betur en það.

mbl.is Hera Björk fulltrúi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólatöfrar



Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið um hvítu jólin eftir Irving Berlin. Enginn syngur það eins fallega og söngvarinn Bing Crosby, sem söng það fyrst í kvikmyndinni Holiday Inn árið 1942 og síðar í samnefndri mynd árið 1954 og gerði það heimsfrægt.

Enn í dag er það vinsælasta lag sögunnar, mest selda lagið. Eina lagið sem hefur komist nærri því er Candle in the Wind - 1997-útgáfan til minningar um Díönu prinsessu.

Vel við hæfi að hlusta á Bing syngja eitt sitt frægasta og goðsagnakenndasta lag. Þetta ætti að koma öllum í jólaskapið, þetta eina og sanna.

Oasis leysist upp - frábært band



Um miðjan tíunda áratuginn var mikið rifist um hvort Oasis eða Blur væri betra band. Aldrei í vafa með að Oasis væri miklu betra, þeir voru í sérflokki þá og eru það enn nú. Frábær tónlist.

Nú er Noel farinn úr bandinu. Svosem búið að vera augljóst lengi að bræðurnir eiga ekki skap saman og geta ekki unnið saman.

En því verður ekki neitað að Oasis átti mörg yndisleg lög og enginn gleymir henni. Hún á sinn fasta sess.



mbl.is Noel hættur í Oasis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningarík söngvastund



Minningarathöfnin um Michael Jackson var tilfinningarík - ég tel að umgjörðin hafi mýkt skaddaða ímynd söngvarans og opnað nýja sýn á manneskjuna bakvið hinn umdeilda söngvara. Er ekki í vafa um að dóttir hans hafi þar haft mest áhrif á og svo flutti Brooke Shields mjög hugljúfa ræðu.

Lögin við athöfnina kölluðu fram tilfinningar ekki aðeins í salnum heldur um allan heim, enda var þar staða Jacksons í tónlistarsögu síðustu áratuga og í samtímanum, eftir hans dag, endanlega staðfest. Áhrif hans eru óumdeild.

mbl.is Kistan sló Carey út af laginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningarík kveðjustund í borg englanna



Ég var að horfa á tilfinningaríka og hugljúfa minningarathöfn um poppkónginn Michael Jackson í Staples Center í Los Angeles á CNN. Tónlistin lék þar lykilhlutverk eins og við má búast þegar að einn fremsti söngvari síðustu áratuga, sannkölluð goðsögn í tónlistarbransanum, er kvaddur hinsta sinni. Túlkun Usher á lagi sínu, Gone To Soon, var hiklaust tónlistaraugnablik minningarathafnarinnar. Yndislegt og hugljúft.



Auk þess lét kveðja Parísar, dóttur Jacksons, til föður síns engan ósnortinn. Innilegar og fallegar tilfinningar, sem snertu taug í brjósti þeirra sem horfðu á.

mbl.is Mikið um dýrðir á minningarathöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanasöngur Michael Jackson á stormasömum ferli



Svolítið súrrealískt að horfa á klippuna af æfingu Michael Jackson, svanasöng hans á stormasömum ferli, í Staples Centre, tveimur dögum áður en hann lést. Mér finnst hann nú í betra líkamlegu formi á þessari æfingu en hann hafði verið eftir dómsmálið umdeilda, en vissulega er hann samt aðeins skugginn af þeirri stórstjörnu sem gerði Thriller á níunda áratugnum, vinsælustu plötu allra tíma og sló í gegn. Krufningaskýrslur gefa til kynna að hann hefði aldrei getað klárað endurkomutúrinn, en hann hafði samt greinilega lagt allt undir til að komast aftur á sviðið í gömlu dansporin.

Ég var spurður að því eftir að ég skrifaði um Michael Jackson eftir andlát hans hvort ég hefði verið aðdáandi hans eða metið tónlist hans mikið og eða manninn á bakvið stjörnuna. Ég tel að þeir séu fáir sem ekki hafi dáðst að lögum Jacksons eða sviðsframmistöðu hans, dansinum og taktinum. Hann var einfaldlega í sérflokki og það er ekki hægt annað en virða framlag hans til tónlistarbransans. Hann var ein af helstu goðsögnum tónlistarbransans, hiklaust konungur poppsins.

Einkalíf Jacksons var hinsvegar sorgarsaga, hálfgerð tragedía þegar hann breytist í hryggðarmynd, bæði andlega sem líkamlega. Ég held að þeir séu samt fáir sem hafi ekki notið tónlistar hans með einum eða öðrum hætti, hvað svo sem brestum hans í einkalífinu viðkemur. Síðasta sviðsframmistaðan hans, undirbúningurinn fyrir lokatónleikaferðina sem aldrei var, staðfestir þó hiklaust að hann var einn mesti skemmtikraftur síðustu áratuga. Hann hafði þetta algjörlega.

Ég efast ekki um að minningin um þá stjörnu og verk hans mun lifa lengur en tragedían um manninn Michael Jackson, sem átti sér í raun aldrei líf utan sviðsglampans.

mbl.is Jackson grét við líkamsskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsögnin mikla - fórnarlamb frægðarinnar



Michael Jackson varð fórnarlamb þeirrar yfirgengilegu og sjúku frægðar sem einkenndi líf hans allt frá því hann var smákrakki. Ég sé Jacko í raun í sama glampa frægðarinnar og einkenndi stjörnuna Judy Garland, undrabarn og ein mesta stjarna sögunnar sem var misnotuð af fólki í bransanum - notuð algjörlega eins og sölu- og markaðsvörur þar til ekkert var eftir og þau voru sálarlausar verur sem fengu hvorki einkalíf né að njóta þess sem við hin köllum líf.

Judy Garland varð fangi í pillufíkn sinni og söm eru örlög Jacko. Michael Jackson, barnastjarnan mikla sem fór á toppinn og varð kóngur poppsins - einn mesti skemmtikraftur sögunnar - kvaddi heiminn sem sérvitringur og einstæðingur í raun, rétt eins og Howard Hughes. Þetta eru nöpur örlög fyrir þann mann sem lengi vel (og að mörgu leyti enn) var fyrirmynd og hin sanna stjarna tónlistarbransans. Ferill hans gufaði upp í móðu glötunar. Sorglegt.

En saga Michael Jackson er samt sem áður stórmerkileg. Hann var einstök stjarna sem fór á toppinn hæfileika sinna vegna og var þrátt fyrir allt andlit eins merkilegasta tímabils tónlistarsögunnar - elskaður og dáður, sumpart hataður og fyrirlitinn. En rétt eins og fyrrum tengdafaðirinn Presley er Jacko harmdauði. Báðir áttu í stríði við innri djöfla þegar þeir kvöddu og þeir eiga merkilega lík leiðarlok. Báðir voru hylltir í dauðanum.

En Jacko var goðsögn í lifanda lífi - ein merkilegasta stjarna sögunnar, hæfileikaríkur skemmtikraftur og við munum hann öll þannig, þrátt fyrir súrsætt einkalíf og harmleikinn mikla þegar andlitið varð fjarlægt og múmíulegt... stjarnan mikla hvarf í móðuna langt fyrir aldur fram.

Jacko var í raun alltaf lítið barn.... hann var fórnarlamb frægðarinnar, eitt sorglegasta dæmið um hvernig hægt er að éta upp sál. En svona er víst bransinn.

mbl.is Jackson æfði af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michael Jackson látinn



Michael Jackson er látinn, langt fyrir aldur fram. Þó Michael Jackson hafi verið umdeildur og skiptar skoðanir verið um einkalíf hans er ekki um það deilt við andlát hans að þar fer ein af mestu goðsögnum tónlistarbransans á síðustu áratugum. Hann var skemmtikraftur af Guðs náð, fæddist inn í hæfileikaríka fjölskyldu og kom fram opinberlega allt frá því hann var smákrakki þar til hann missti heilsuna - varð algjört skar.



Þessi öflugi tónlistarmaður varð skugginn af sjálfum sér síðustu fimmtán árin og var að lokum orðin hrein hryggðarmynd. En hann átti marga ódauðlega smelli og tryggði sér ævarandi sess með ævistarfi sínu. Lögin Billie Jean, Thriller, Bad og Ben eru þar fremst af mörgum öðrum góðum. Ben er sérstaklega gott lag. 



Svo verður að ráðast hvort lifa lengur sögusagnir um skrautlegt einkalíf hans og sorgleg endalokin þegar hann var afmyndaður af sjúkdómi og misheppnuðum lýtaaðgerðum eða verk hans í tónlistarbransanum. Tónlistarafrek hans munu eflaust lifa, enda var hann stjarna í sérflokki.

mbl.is Michael Jackson er látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskubuskuævintýri Susan Boyle



Skoska öskubuskan Susan Boyle varð heimsfræg á einni nóttu með söng sínum á I Dream a Dream úr Les Miserables í þættinum Britain's Got Talent og heillaði bæði dómarana kröfuhörðu og alla áhorfendur. Frammistaða hennar var einlæg og flott - hún túlkaði lagið heillandi og gerði það vel. Fjölmargir í salnum, auk dómaranna, höfðu áður dæmt hana af útliti sínu og fasi og voru ekki þolinmóðir í hennar garð. Hún náði athygli þeirra og allrar heimsbyggðarinnar með einlægni, fyrst og fremst. Auk þess stóð hún sig bara vel.

Ég efast satt best að segja um að Susan Boyle sé besta söngkona heims. En hún er einlæg og ákveðin í senn, ein af hvunndagshetjunum sem hefur aldrei vakið athygli og hefði aldrei fengið séns í tónlist ef ekki væri þessi áhugamannaþáttur. Paul Potts náði svipaðri frægð fyrir nokkrum árum þegar hann söng Nessun Dorma úr Turandot af mikilli innlifun. Hann hafði lúkkið kannski ekki með sér en var fantagóður söngvari og sló í gegn. Susan Boyle virðist vera nokkuð örugg um sigurinn, sé mið tekið af því hvernig hún heillar fólk.

Þetta er eins og gamla spakmælið um bókina. Dæmum aldrei bókina af kápunni áður en innihaldið er skoðað.

mbl.is Susan Boyle komin í úrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband